Samráð fyrirhugað 21.03.2022—21.04.2022
Til umsagnar 21.03.2022—21.04.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 21.04.2022
Niðurstöður birtar 01.06.2022

Kynningartillaga að Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044

Mál nr. 64/2022 Birt: 21.03.2022 Síðast uppfært: 01.07.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Umsagnartími um tillögu að Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 var frá 21. mars til 21. apríl. Svæðisskipulagsnefnd SSA fjallaði um umsagnirnar á fundi 28. apríl. Minnisblað um umfjöllun nefndarinnar er aðgengileg á vef Austurbrúar. Tillagan var send með breytingum á Skipulagsstofnun til frekari skoðunar 24. maí og hefur stofnunin fjórar vikur til að fara yfir tillöguna. Þegar umsögn stofnunarinnar liggur fyrir og búið er að vinna úr henni verður svæðisskipulagstillagan auglýst í samræmi við 24. gr. skipulagslaga. Þá gefst sex vikna frestur til að gera athugasemdir við tillöguna.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.03.2022–21.04.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 01.06.2022.

Málsefni

Í tillögunni er skilgreind sameiginleg framtíðarsýn fyrir landshlutann. Tilgangurinn er að samstilla stefnu sveitarfélaga á Austurlandi á sviði umhverfis, efnahags, samfélags og menningar.

Kynningartillaga að Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 verður í samráðsgátt stjórnvalda frá 21. mars til 21. apríl. Kynning tillögunnar er á grundvelli 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 13. og 14. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er skilgreind sameiginleg framtíðarsýn fyrir landshlutann. Tilgangurinn er að samstilla stefnu sveitarfélaga á Austurlandi á sviði umhverfis, efnahags, samfélags og menningar og tryggja þar með sjálfbæra þróun, komandi kynslóðum í hag. Svæðisskipulagið er langtíma stefnumarkandi áætlun sem framfylgt verður með skipulagsáætlunum hvers sveitarfélags og öðrum áætlunum SSA.

Tillagan er afrakstur vinnu svæðisskipulagsnefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), sem starfar í umboði sveitarstjórna á Austurlandi. Nefndin er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi Austurlands og einum áheyrnarfulltrúa frá Ferðamálasamtökum Austurlands.

Austurbrú ses. hefur stýrt verkefninu fyrir hönd SSA en verkefnislýsing svæðisskipulagsins var kynnt árið 2018 og hefur svæðisskipulagsnefndin unnið að tillögunni með hléum síðan þá. Frá ársbyrjun 2021 naut nefndin aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins Alta.

Íbúar á Austurlandi eru hvattir til að kynna sér svæðisskipulagstillöguna og koma á framfæri athugasemdum um það sem betur mætti fara. Tillagan hefur að auki verið send á lögbundna umsagnaraðila, sveitarstjórnir og fjölmarga hagsmunaaðila.

Nánari upplýsingar um Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 má finna á vef Austurbrúar. Þar er

tillagan einnig aðgengileg og þar er að finna helstu upplýsingar um svæðisskipulagið s.s. verkefnislýsingu, starfsreglur og fundargerðir svæðisskipulagsnefndarinnar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Árni Ólason - 04.04.2022

Egilsstöðum 4. apríl 2022

Umsögn um kynningartillögu að Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044.

Fyrir hönd Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við tillöguna að Svæðisskipulagi Austurlands.

Í tillögunni kemst framtíðarsýn ME ekki til skila og henni í raun gerð afar lítil skil. Þar sem ME hefur verið stærsta menntastofnun á Austurlandi í rúma fjóra áratugi leiðir þetta af sér að í svæðisskipulaginu birtist skökk mynd af menntun á svæðinu sem ekki lýsir fjölbreyttu námsframboði og skólastarfi sem þar er og væntingar standa til að verði til framtíðar. Einnig má nefna að fjölbreytni myndefnis er ábótavant og engin mynd er úr skólastarfi ME.

Framtíðarsýn Menntaskólans á Egilsstöðum er að halda áfram að veita nemendum sínum nám við hæfi sem býr þá undir líf og starf og er í anda þess sem þróun samfélagins krefst. ME býður upp á fjölbreytt nám á starfsbraut, nám til stúdentsprófs á náttúrufræðibraut, félagsgreinabraut og opinni braut auk listnámsbrautar sem nefnd er í textanum (bls. 90). Á námsbrautunum er einnig val um nokkrar línur. Þar má nefna málalínu, heilbrigðislínu, íþróttalínu og tæknilínu. Í skólanum er tæknismiðja sem mun styðja við þarfir 21. aldarinnar og gera nemendur hæfari í sköpun og hönnun. Þess er vænst að nám á línunni ýti undir nýsköpun og efli áhuga á frekara námi í listum, hönnun og tæknigreinum. ME stefnir auk þess á að efla tengsl og samstarf við atvinnulíf í landshlutanum og auka þannig við fjölbreytni námsins. Meðal annars er áætlað að setja á fót grunnnám í verklegum greinum, flugnám og nám í sjálfbærni og skógrækt. ME hefur um árabil boðið upp á fjarnám í öllum bóklegum greinum og er þar meðal fremstu framhaldsskóla landsins. Starfsfólk skólans býr yfir mikilli þekkingu og reynslu og skólinn nýtir námsvefinn Canvas sem flestir háskólar landsins nota í sinni kennslu.

Ofangreint færir rök fyrir því að ME og framtíðarsýn hans eigi skilið skýrari og veigameiri framsetningu í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044, hvort sem horft er til stefnu um nám og nýsköpun, eflingu iðngreina og skapandi greina, jafnrétti til náms, gott aðgengi að námi, fjarnám eða tengsl við atvinnulífið.

Með kveðju

Árni Ólason, skólameistari

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Minjasafn Austurlands - 19.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn um kynningartillögu að Svæðisskipulagi Austurlands 2022 - 2044 frá Minjasafni Austurlands og Tækniminjasafni Austurlands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Skaftfell,sjálfseignarstofnun - 19.04.2022

Miðstöðvarnar þrjár, Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Tónlistarmiðstöð Austurlands, vilja hér með koma með nokkrar sameiginlegar ábendingar eftir að hafa rýnt í tillögu að Svæðisskipulagi.

Í fyrsta lagi teljum við að leita hefði átt til miðstöðvanna sem umsagnaraðila. Í öðru lagi teljum við að skerpa megi á textum sem fjallar um listir og menningu sem hér segir:

2.0: Áskoranir og sýn:

Bls. 14 Ekkert minnst á menningu og listir (t.d. undir Ævintýri líkast)

4.0: Austurland svæði sóknarfæra:

Mætti bæta við: Fjölgun menningartengdra starfa; ef samfélagið á að einkennast af öflugu lista- og menningarlíf þarf fagfólk úr mismunandi menningargeirum að geta þrifist í sveitarfélaginu sem starfa við menningartengd verkefni allan ársins hring.

5.0: Austurland sterkt samfélag:

Vantar listir og menningu: grunnur að sterku samfélagi; lífsgæði

6.0: Ævintýri líkast: Ý: Stefna um menningarlíf

Ý.2. Skaftfell á Seyðisfirði: Frekar: Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi

Ý.2. Við leggjum til að skipta upp kaflanum í tvo kafla, annars vegar um menningarmiðstöðvarnar og hins vegar um söfn. Hvoru tveggja hafa ólík en skilgreind hlutverk.

Ý.2. „Sameiginleg öflun fjármagns frá ríki, sveitarfélögum …“: Þetta þarf að ræða í samtali við miðstöðvarnar sem eru allar með ólík rekstrarform og forsendur.

Ý.2. „Stuðlað verði að samvinnu milli menningarstofnana og félagasamtaka í landshlutanum“: Hér hefði einnig þurft að eiga sér stað samtal við menningarmiðstöðvarnar. Óljóst hvað átt er við.

Ý.5. „Unnið verði áfram að þróun hátíða og viðburða (bæta við: fyrir börn og fullorðna) á sviði lista og menninga“

Ý.6. Skerpa betur á faglegri stefnu í opinberum rýmum

Bls. 112: Skýringar við stefnu um menningarlíf: „ Til þess að undirstrika … “

Bæta við: Búa til menningarstefnu þar sem hana vantar.

Afrita slóð á umsögn

#4 Félag íslenskra safna/safnmanna - 20.04.2022

Hjálögð er umsögn Félags íslenskra safna og safnmanna um kynningartillögu að svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Kolbrún K Halldórsdóttir - 21.04.2022

Austurbrú – Samband sveitarfélaga á Austurlandi

Jóna Árný Þórðardóttir

svaedisskipulag@austurbru.is

Reykjavík 21. apríl 2022

Umsögn um tillögu að svæðisskipulagi Austurlands

Til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda er metnaðarfull tillaga að svæðisskipulagi Austurlands, unnin af fagmennsku og góðri yfirsýn. Sérstaklega er ánægjulegt hversu skýr og aðgengileg framsetning tillögunnar er. Þá ber að þakka góða kynningu á tillögunni og hinn rúma tíma sem gefinn er fyrir umsagnir um hana.

Út úr tillögunni má lesa góðan vilja til að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í umgengni manns við náttúru og lífríki landshlutans, en þó sker í augu og hjarta að ekki skuli lagðar til breytingar á áformum um laxeldi í sjókvíum víða í fjörðum fjórðungsins, Í-2 bls. 60. Ef leiðsögn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er fylgt af heilindum þá væri stefnan sú að allt fiskeldi yrði flutt í lokuð kerfi kvía á landi á næstu árum, en um það er greinilega alvarlegur pólitískur ágreiningur sem er óleystur.

Tilefni þessarar umsagnar varðar listir og menningu, sem tengjast sannarlega hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og heimsmarkmiðunum, þó oft virðist litið framhjá þeim þætti í framsetningu markmiða um bætt líf mannkyns og móður jarðar.

Lykiláherslur tillögunnar í atvinnuþróun gera ráð fyrir uppbyggingu starfa í listum og skapandi greinum, sem er gott og í samræmi við stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Því væri eðlilegt að geta þess með berum orðum, t.d. með því að vísa til gildandi menningarstefnu, samþykkt á Alþingi 2013:

https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Menningarmal/menningarstefna_2013.pdf

Einnig er mikilvægt að aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum lista og menningar, Menningarsókn 2030, séu gerð skil í svæðisskipulagstillögunni og aðgerðir tillögunnar mátaðar við aðgerðirnar sem stjórnvöld hafa skilgreint:

https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/Menningars%c3%b3kn_a%c3%b0ger%c3%b0a%c3%a1%c3%a6tlun%20til%202030_vefbirting_1%20-%20Copy%20(2).pdf

Þó verður að hrósa tillöguhöfundum fyrir að vísa til „Menningarstefnu í mannvirkjagerð“, sem er mikilvæg stefna, sem því miður vill oft gleymast, en hennar er sem betur fer getið, þó innihald hennar hefði að ósekju mátt skila sér með markvissari hætti inn í meginmál tillögunnar;

https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/ritogskyrslur/menningarstefna_ny-utgafa_2014.pdf

Í samræmi við áform stjórnvalda um uppbyggingu aðstöðu til öflugrar lista- og menningarstarfsemi um land allt mætti skoða orðalag meginmarkmiðs 4; „Austurland – Ævintýri líkast“. Þar er m.a. gert ráð fyrir að á Austurlandi þrífist öflugt lista- og menningarlíf, en ekki er nægilega vel hugað að því sem gera þarf til að svo megi verða. Í þetta yfirmarkmið væri skynsamlegt að tilgreina áherslu varðandi aðstöðu til listsköpunar með sama hætti og gert er í punkti 3.3 um útivist og íþróttir. Á bls. 101 segir: „Svæði þar sem eru framúrskarandi aðstæður til að njóta margskonar útivistar og fyrirmyndaraðstaða fyrir allskonar íþróttir.“ Til samræmis er lagt til að punktur 3.2. verði umorðaður og í stað „Samfélag sem einkennist af öflugu lista- og menningarlífi“ komi „Samfélag sem býður upp á framúrskarandi aðstæður og fyrirmyndaraðstöðu til að iðka fjölbreytt lista- og menningarlíf.“ Slíkt væri í samræmi við inntakið í kafla Ý – Stefna um menningarlíf.

Um leið og ítrekaðar eru þakkir fyrir þessa efnismiklu og ítarlegu tillögu, er þess óskað að hugað verði af alvöru að aðstöðu fyrir starfandi listafólk og aðra sem starfa í atvinnugreinum menningar á Austurlandi við endanlega gerð tillögunnar. Til að bæta hugmyndum í þann sarp fylgir umsögn þessari niðurstaða starfsdags BÍL – Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var í janúar sl. þar sem rýnd var stefna stjórnvalda í málefnum lista og menningar. Í því skjali er að finna nokkrar meitlaðar tillögur varðandi aðstöðu og búnað til listiðkunar á landsbyggðinni, sem að gagni geta komið við endanlega gerð kaflans um menningarstefnu.

Virðingarfyllst,

Kolbrún Halldórsdóttir

formaður stjórnar Félags leikstjóra á Íslandi og

fv. forseti BÍL – Bandalags íslenskra listamanna, sem er einn af stofnaðilum Austurbrúar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 21.04.2022

Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Helgi Ómar Bragason - 21.04.2022

Umsögn um Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Erling Jóhannesson - 21.04.2022

Meðfylgjandi í skjali er umsögn Bandalags íslenskra listamanna

Viðhengi