Samráð fyrirhugað 04.04.2022—27.04.2022
Til umsagnar 04.04.2022—27.04.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 27.04.2022
Niðurstöður birtar

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 524/2008 um afmörkun siglingaleiða, svæði sem ber að forðast og tilkynningaskyldu skipa fyrir Suðvesturland

Mál nr. 77/2022 Birt: 04.04.2022 Síðast uppfært: 13.04.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (04.04.2022–27.04.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar breytingar á reglugerð nr. 524/2008 er snúa að þeim skipum sem heimilt er að sigla fyrir Reykjanes um svonefnda innri siglingaleið.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 524/2008, með síðari breytingum, segir að einungis skuli siglt fyrir Reykjanes að og frá höfnum við Faxaflóa um tvær afmarkaðar siglingaleiðir, sem nefnast ytri og innri siglingaleið. Þessi afmörkun er gerð annars vegar til verndunar á uppeldisstöðvum nytjafiska og hins vegar til að auka öryggi í siglingum fyrir Reykjanes.

Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að öllum skipum stærri en 5.000 brúttótonn og öllum skipum, sem flytja hættuleg efni og eiturefni í búlka eða í farmtönkum, skuli siglt um ytri leið.

Í 6. gr. er tiltekin skip tilgreind sem heimilt er að sigla um innri leið:

• Skipum undir 5.000 bt er heimilt að sigla innri leið allt árið.

• Farþegaskipum, óháð stærð, er heimilt að sigla innri leið frá maí til október.

• Skipum allt að 20.000 bt er heimilt að sigla innri leið að því gefnu þau flytji ekki hættulegan farm og skipstjórnarmaður hafi sótt námskeið og hafi heimild til siglingar skv. skrá Samgöngustofu.

• Loks er heimilt að veita skipum undanþágu til siglingar á innri leið við sérstakar aðstæður lýsi skipstjóri því yfir að hætta stafi að skipi, áhöfn eða farmi.

Með reglugerð þessari verða gerðar breytingar á heimildum til siglingar á innri leið þannig að stærðarmörk á innri leið verða færð í 30.000 brúttótonn en eftirfarandi kröfur settar til að heimilt sé að sigla þessa leið:

1. Að skipstjórnarmaður hafi á undangengnum 18 mánuðum siglt sex sinnum áfalla- og athugasemdalaust til hafna við Faxaflóa, sem skipstjóri eða yfirstýrimaður og sé á skrá Samgöngustofu

2. Aukin tilkynningskylda þ.e. að tilkynning um siglingu skuli ítrekuð 30 mín fyrir komutíma á innri siglingaleið.

Þá eru lagðar til breytingar þess efnis að krafa um skipstjórnarmenn ljúki tilteknu námskeiði verði felld brott en að áfram gerð krafa um áfallalausa siglingu og að skipstjórnarmaður sé á heimildaskrá Samgöngustofu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Páll Ægir Pétursson - 13.04.2022

Félag skipstjórnarmanna fagnar reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 524/2008 um afmörkun siglingaleiða.

Umræðan um mál þetta er ekki ný af nálinni og hefur FS komið þar að um nokkurt skeið og hvatt eindregið til þess að undanþága til siglinga um innri leið fyrir Reykjanesið yrði breytt í þá veru að öll íslensk flutningaskip fái að sigla þessa leið öryggisins vegna.

Í verstu vetrarveðrum er sjólag á ytri siglingaleiðinni stórvarasamt í stífum útsynningi. Það er ekkert skjól af landinu og ölduhæð getur við slíkar aðstæður orðið á annan tug metra með tilheyrandi hættu fyrir sjómenn og skip. Ytri leiðin er ekki venjuleg úthafssigling því grynningar eru nálægt siglingaleiðinni og skipstjórar forðast slík svæði í lengstu lög. Þrátt fyrir að nýjustu flutningaskipin okkar séu stærri og borðhærri en þau gömlu, sem seld voru úr landi fyrir tveimur árum, lá eitt þeirra sem sigldi ytri leiðina á leið til Reykjavíkur undir áföllum í janúar sl. þegar suðvestlægu stormarnir gengu yfir svæðið og urðu töluverðar skemmdir á gámum. Áhöfnin gat lítið gert vegna veðurs og stórsjóa þar til viðkomandi skip var komið inn á Faxaflóann. Þegar nýjar siglingaleiðir eru valdar, skal fyrst og síðast horft til öryggis sjómanna og skipa. Einnig má benda á að sigling um ytri leiðina tekur lengri tíma með tilheyrandi útblæstri og loftmengun.

Samkv. reglugerðinni eru ákveðin skilyrði sett s.s. að skipstjórar og yfirstýrimenn hafi reynslu af siglingu á svæðinu og hafi gilt leyfi Samgöngustofu og auk þess verði fylgst grannt með skipum meðan þau eru á innri leiðinni af vaktstöð siglinga. Allt er þetta til mikilla bóta.

Afrita slóð á umsögn

#2 Umhverfisstofnun - 20.04.2022

Hjálagt er umsögn Umhverfisstofnunar

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Nesskip ehf. - 27.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn Nesskip ehf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 27.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 524/2008 um afmörkun siglingaleiða, svæði sem ber að forðast og tilkynningaskyldu skipa fyrir Suðvesturland.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Vegagerðin - 27.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn Vegagerðarinnar.

Viðhengi