Samráð fyrirhugað 07.04.2022—29.04.2022
Til umsagnar 07.04.2022—29.04.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 29.04.2022
Niðurstöður birtar

Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB - Forgangsmál 2022-2023

Mál nr. 78/2022 Birt: 07.04.2022 Síðast uppfært: 05.05.2022
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (07.04.2022–29.04.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Forgangslistinn tekur til mála í lagasetningarferli hjá ESB sem metin eru sem forgangsmál út frá hagsmunum Íslands vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

Forgangslistinn er settur fram í formi yfirlits yfir mál í lagasetningarferli innan ESB sem falla undir gildissvið EES-samningsins og sem skilgreind hafa verið sem forgangsmál hvað íslenska hagsmuni varðar en listinn er nú útbúinn í fjórða sinn.

Listinn er byggður á tillögum frá ráðuneytunum, sem bera ábyrgð á að vakta sín málefnasvið, en sum mál kalla á aðkomu og samvinnu margra ráðuneyta. Tillögurnar voru settar fram á þar til gerðum eyðublöðum í EES-gagnagrunninum, þar sem finna má ítarlegri upplýsingar (sjá viðauka).

Tilgangur forgangslistans er að auka skilvirkni í þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og ákveða hvernig hagsmunagæslu af Íslands hálfu verði best háttað á tímabilinu. Listinn er í grunninn einskorðaður við mál sem eru á undirbúnings- eða forstigi hjá framkvæmdastjórn ESB eða mál sem komin eru á vinnslustig en þá hefur framkvæmdastjórnin þegar lagt fram tillögu að lagasetningu til ráðsins og Evrópuþingsins. Í einstaka tilfellum eru mál á listanum þar sem búið er að taka ákvörðun hjá ESB en huga þarf sérstaklega að upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn, t.d. með því að fara fram á aðlaganir.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Óttar Freyr Gíslason - 29.04.2022

Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um:

Forgangsmál Íslands gagnvart ESB 2022-2023, sbr. mál nr. 78/2022 í samráðsgátt stjórnvalda.

Samband íslenskra sveitarfélaga vill í upphafi árétta ánægju sína með samstarfið við stjórnarráðið um EES mál. Sambandið hefur um árabil bent á gagnsemi þess að stjórnsýslustigin vinni saman að hagsmunagæslu gagnvart ESB og þátttaka sambandsins í EES-teymi utanríkisráðuneytisins hefur reynst mjög gagnleg.

Þá er samstarf sendiráðs Íslands í Brussel og Brussel skrifstofu sambandsins mjög gott, en sambandið vill nota þetta tækifæri og árétta áhuga sambandsins á að tengjast með formlegri hætti þverfaglegri vinnu sendiráðsins í tengslum við mál sem varða Græna sáttmálann og Stafræna framtíð.

Þá vill sambandið nota þetta tækifæri og þakka Umhverfis, – orku – og loftslagsráðuneytinu fyrir samstarfið í tengslum við Græna sáttmálann og í tengslum við þátttöku Ísland í LIFE, umhverfis – og loftslagsáætlun ESB.

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar því að unninn hafi verið listi um forgangsmál Íslands gagnvart ESB fyrir árið 2022-2023. Það er mjög mikilvægt að slíkur listi sé birtur árlega.

Brussel skrifstofa sambandsins tekur árlega saman „Helstu mál á vettvangi ESB“ sem byggir á starfsáætlun framkvæmdstjórnar ESB, starfsáætlun Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR) og samráði við aðra samstarfsaðila. Þar eru tíunduð helstu ESB mál sem hafa bein áhrif á sveitarstjórnarstigið:

https://www.samband.is/verkefnin/althjodamal/brussel-skrifstofan/helstu-mal-a-vettvangi-esb-a-arinu-2022/

Flest þeirra mála sem hafa bein áhrif á sveitarstjórnarstigið er að finna á forgangslistanum en Samband íslenskra sveitarfélaga vill nota þetta tækifæri og hnykkja á nokkrum þáttum sem eru mikilvægir fyrir íslensk sveitarfélög. Þá er einnig óskað eftir því að nokkur atriði sem varða Græna sáttmálann og Stafræna framtíð verði bætt á forgangslistann:

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu

Loftslagsmál:

Losun frá starfsemi nýrra geira

Útvíkkun á ETS viðskiptakerfinu er til umræðu innan ESB þessi misserin og stefnt er að því að bæta sjóflutningum, byggingum og vegasamgöngum við kerfið. Í tengslum við útvíkkun kerfisins hefur einnig verið rætt að aðildarríki ESB setji á fót s.k. „Social climate fund“ sem er ætlað að fjármagna loftslagsaðgerðir. Þá er enn fremur lagt til að hluti þessa sjóðs verði eyrnamerktur sveitarfélögum. Sambandið hvetur stjórnarráðið til þess að fylgjast náið með þessum tillögum og óskar hér með eftir samstarfi um málið. Ljóst er að mikið að þeim loftslagsaðgerðum sem þarf að fara í á Íslandi koma til með að enda á borði sveitarfélaga. Tryggja þarf fjármögnun þessara aðgerða, hvort sem um er að ræða aðgerðir til að stemma stigu við losun eða til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga.

Stefnumótun ESB varðandi aðlögun að loftsslagsbreytingum (EU strategy on climate change adaptation).

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir því að aðlögun að loftsslagsbreytingum verði bætt við forgangslistann. Þessi mál hafa hingað til fallið í skuggann af aðgerðum sem snúa að losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hins vegar ljóst að huga þarf að þessu málum og í því tilliti má m.a. nefna hækkun sjávarstöðu og skriðuföll. Þá er einnig ljóst að stefnumótun og aðgerðir sem snúa að aðlögun að loftslagsbreytingum eru þverfagleg í eðli sínu. Þess vegna þarf að huga að aðlögun að loftslagsbreytingum þegar fjallað er um málefni á borð við hringrásarhagkerfið, frárennslismál, skipulagsmál, orkumál, samgöngumál, o.s.frv.

Orkumál:

Endurnýjanlegir orkugjafar og orkunýtni

Í forgangslistanum er að finna eftirfarandi setningu: „Ísland hefur undanþágu frá kvöðum sem er að finna í tilskipun um orkunýtni bygginga. Skoða þarf hvort viðhalda skuli þeim undanþágum“.

Samband íslenskra sveitarfélaga er sammála því að það geti verið gagnlegt að skoða hvort viðhalda eigi þessum undanþágum. Í því sambandi er hins vegar mikilvægt að nákvæm greining fari fram á því hver séu áhrif þess að falla frá þessum undanþágum. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál fyrir sveitarfélög og ljóst að kvaðir um orkunýtni og sjálfbærni bygginga getur haft í för með sér mikinn kostnað. Evrópusamtök sveitarfélaga (CEMR) sendi framkvæmdastjórn ESB umsögn um málið. Þar er bent á þessa staðreynd og lögð áhersla á að sveitarfélög séu höfð með í ráðum á öllum stigum málsins. Þá er bent á að jafnvægi þurfi að ríkja á milli loftslagsmarkmiða og félagslegra markmiða ESB og mikilvægi þess að sveitarfélögum standi til boða fjármagn úr sjóðum ESB til að fjármagna aðgerðir sem þessar. Hvað Ísland varðar þá er staðan allt önnur hér á landi þar sem t.d. bæði raforka og húshitun er loftslagsvæn. Einnig er líklegt að fjárstuðningur ESB verði í gegnum byggðasjóði ESB og standi því íslenskum aðilum ekki til boða. Því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með þessum málum og að tryggt sé að Ísland taki ekki á sig skuldbindingar sem eru ekki í samræmi við þær aðstæður sem hér ríkja.

Þá vill sambandið einnig benda á mikilvægi orkunýtingu úrgangs (Waste-to-Energy) þegar fjallað er um endurnýjanlega orku og orkunýtni í tengslum við „Fit for 55“ pakka ESB. Þó svo að markmið hringrásarhagkerfisins sé fyrst og fremst að draga úr úrgangi þá er ljóst að í millitíðinni þarf að eiga við þann úrgang sem til fellur. Evrópusamtök sveitarfélaga (CEMR) sendi framkvæmdastjórn ESB umsögn um Fit for 55“ pakka ESB og Samband íslenskra sveitarfélaga beitti sér fyrir því að eftirfarandi texti væri hluti þeirrar umsagnar:

„Energy-efficient Waste-to-Energy should be considered sustainable in the taxonomy as well as in the "Fit for 55” package and in upcoming new or revised legislative proposals.“

Hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið er stefna ESB um bætta nýtingu auðlinda og aukna verðmæta- og atvinnusköpun. Mikið af löggjöf ESB í tengslum við hringrásarhagkerfið fellur undir EES samninginn og innan þess eru málaflokkar sem snerta íslensk sveitarfélög með beinum hætti. Innleiðing hringrásarhagkerfisins mun gerbreyta meðhöndlun úrgangs á næstu árum og kalla á verulegar fjárfestingar. Því er mikilvægt að grant sé fylgst með vinnu ESB sem snýr að þessum víðtæka málaflokki.

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir því að eftirfarandi þremur atriðum verði bætt við forgangslistann:

Endurskoðun á tilskipun varðandi úrgang (Revision of the Waste Framework Directive).

Endurskoðun á tilskipun varðandi frárennslismál (Urban water treatment Directive).

Endurskoðun á reglugerð varðandi flutning úrgangs á milli landa (Revision of the Waste Shipment Regulation)

Starfræn framtíð Evrópu

Stafræn mál eru fyrirferðamikill málaflokkur hjá íslenskum sveitarfélögum þessi misserin. Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur um þessar mundir að miðlægu samstarfi sveitarfélaga til að auðvelda þeim að verða virkir þátttakendur í stafrænni þróun og nýta nútímatækni til að bæta þjónustu og samskipti við íbúa. Ljóst er að sú þróun sem á sér stað innan ESB varðandi stafræn mál mun hafa töluverð áhrif á þróun þessara mála hér á landi.

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir því að eftirfarandi tveimur atriðum verði bætt við forgangslistann:

Reglugerð um notkun á tækni sem byggir á gervigreind (Regulation laying down harmonised rules on artificial intelligence).

Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA hefur sent frá sér ályktun um málið og þar eru sveitarfélög hvött til þess að fylgjast grannt með þróun gervigreindar og áhersla lögð á að aðkoma sveitarfélaga verði tryggð við stefnumótun og reglusetningu stjórnvalda varðandi þessi mál. Ljóst er að í þessari tækni felast tækifæri fyrir sveitarfélög, m.a. í tengslum við bætta þjónustu við almenning. Í ályktuninni er hins vegar áréttað að huga þarf vel að mannréttindum í tengslum við notkun á gervigreind, t.d. hvað varðar heilsufarslegar upplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar.

Stafrænt evrópskt nafnskírteini.

Samstarfsáætlanir ESB

Í lokin langar Sambandi íslenskra sveitarfélaga að lýsa ánægju sinni með ákvörðun íslenskra stjórnavalda um þátttöku í LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun ESB og Digital Europe, samstarfsáætlun ESB um stafræna þróun. Báðar þessar áætlanir fela í sér tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög þar sem umhverfismál, loftslagsmál og stafræn þróun eru allt mikilvægir málaflokkar fyrir íslensk sveitarfélög.

Í tengslum við LIFE hefur nú þegar farið í gang vinna við að greina mögulega þátttöku íslenskra sveitarfélaga í LIFE verkefnaumsóknum. Auk sveitarfélaga og landshlutafélaga hafa fjölmargir aðilar komið að þessari vinnu og má þar m.a. nefna Umhverfisstofnun, Landgræðsluna, Veðurstofuna, Bændasamtökin og háskólasamfélagið. Nú þegar hefur ein umsókn varðandi orkuskipti í samgöngum orðið að veruleika, en að henni koma m.a. Eimur, Blámi, Íslensk Nýorka og Orkusetrið. Þá eru nokkrar umsóknir í þróun sem varða m.a. fráveitumál, endurheimt votlendis og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Frumkvæðið að þessu LIFE samstarfi kemur frá Umhverfis, – orku – og loftslagsráðuneytinu. Sambandið fagnar þessu frumkvæði ráðuneytisins og hvetur til sams konar samstarfs í tengslum við Digital Europe. Stafræn mál eru mál málanna hjá íslenskum sveitarfélögum þessa dagana og því kjörið tækifæri að Samband íslenskra sveitarfélaga, Fjármálaráðuneytið og viðkomandi stofnanir sameinist um Digital Europe umsóknir sem falla að því sem unnið er að á Íslandi um þessar mundir í tengslum við stafræna umbreytingu.

Með þökkum fyrir gott samstarf.

Virðingarfyllst.

Fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga,

Óttar F. Gíslason

Forstöðumaður Brussel skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga

Afrita slóð á umsögn

#2 Bændasamtök Íslands - 29.04.2022

Sjá meðfylgjandi umsögn.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 29.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB - Forgangsmál 2022-2023

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Icelandair ehf. - 29.04.2022

Viðhengd er umsögn Icelandair ehf. um ofangreint mál.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Landsvirkjun - 05.05.2022

Umsögn Landsvirkjunar um hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB - Forgangsmál 2022-2023

Viðhengi