Samráð fyrirhugað 11.04.2022—25.04.2022
Til umsagnar 11.04.2022—25.04.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 25.04.2022
Niðurstöður birtar

Drög að skýrslu starfshóps um smáfarartæki

Mál nr. 81/2022 Birt: 11.04.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (11.04.2022–25.04.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Starfshópur um smáfarartæki birtir til umsagnar drög að skýrslu starfshópsins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði á dögunum starfshóp sem hefur það hlutverk að kortleggja stöðu smáfarartækja hér á landi og vinna tillögur til ráðherra að úrbótum. Skýrsludrögin sem hér eru birt til umsagnar hafa að geyma drög að sex tillögum til úrbóta er miða að því að auka öryggi notenda smáfarartækja og annarra vegfarenda auk þess að styðja við notkun fjölbreyttra umhverfisvænna fararskjóta með öruggum hætti. Í skýrsludrögunum er aðaláhersla lögð á rafhlaupahjól en það eru algengustu smáfarartækin í umferð.

Reiknað er með að starfshópurinn sem skipaður er fulltrúum innviðaráðuneytis, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar muni skila innviðaráðherra tillögum til úrbóta 1. júní 2022.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Árni Guðmundsson - 12.04.2022

Sæl, um leið og ég fagna að settar verði reglur og lög um smáfarartæki við ég benda á nauðsyn þess að reglur um þau tæki sem leyfirlegt er að nota á göngustígum verði samræmdar. Þá á ég við afl hjálparvélar, hraða, búnað ( hljóðgjafa, ljósgjafa og fl. þh ) og almennar umferðarreglur ( hægri rétt, tillitsemi og virðingu og fl. þh ).

Í drögunum kemur fram að afl hjálparvélar fari ekki yfir 1000w. Þetta ákvæði verður þá einnig að gilda um rafmagnsreiðhjól.

Hámarkshraði þessara tækja er tilgreindur 25km sem er fint, Sá hámarkshraði verður að gilda um öll hjól og tæki sem nota má á göngustígum ! Fótstigin reiðhjól einnig, en mikil brögð eru um hraðakstur reiðhjóla á göngustígum, sérlega svokallaðra racer hjóla.

Hugleiða má hvort hámarkshraði eigi að vera lægri á ákveðnum svæðum ss miðbænum , skólalóðum og öðrum fjölförnum stöðum en 25km hraði er mikill innanum fjölda fólks gangandi fólks.

Afrita slóð á umsögn

#2 Jens Kristinn Gíslason - 13.04.2022

Umsögn um drög að skýrslu verkefnishóps um smáfarartæki.

Það er frábært að settur hafi verið saman verkefnishópur með jafn göfug markmið og að "setja fram tillögur sem miða að því að búnaður, umhverfi

og notkun smáfaratækja séu örugg" og að "styðja við innleiðingu fjölbreyttra og umhverfisvænni ferðamáta".

1) Umferðaröryggi notenda smáfarartækja er best tryggt á innviðum sem hannaðir eru með viðkomandi notkun í huga, t.d. aðskildir hjólastígar. Eins er skortur á öruggum innviðum ein helsta hindrunin við að fólk breyti ferðavenjum frá einkabílum.

2) Því fleiri sem nota þessa ferðamáta því öruggari eru þeir fyrir notendur. Því er allur stuðningur og hvatning við ferðamátana til þess fallinn að auka öryggi notenda.

Þessi tvö ofantalin atriði eru grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga í allri umræðu um örflæðið, en virðast oft gleymast. Eins er mikilvægi og ávinningur þess að draga úr hlutdeild einabílsins í ferðavenjum oft vanmetið, svo virðist líka vera hér.

Það væri til bóta að bæta við skýrsluna tillögum um eflingu innviða sem henta örflæði. Verkefnishópurinn hefur t.a.m. horft til Norðurlandanna varðandi regluverk og kannski ekki úr vegi að skoða hvernig við komumst á þann stað sem þau eru á varðandi samgönguinnviði sem henta örflæði.

Með tilvísun í öryggið sem felst í fjölda notenda, mætti bæta skýrsluna með tillögum sem beinlínis hvetja til aukinnar hlutdeildar örflæðis í samgöngumenningu Íslendinga.

Óbreytt virðist skýrslan ekki ná þeim markmiðum sem sett eru fram í fyrstu málsgrein hennar, því of mikil áhersla er á takmarkanir án þess að tillögur um stuðning eða hvatningu við örflæðið fylgi.

Mín tillaga er að hópurinn hittist aftur og reyni betur við markmiðin, að öðrum kosti verði hópurinn fenginn til að skoða notkun einkabílsins með sömu gleraugum.

Afrita slóð á umsögn

#3 Jón Birgir Valsson - 19.04.2022

Varðandi niðurstöður verkefnahópsins þá hef ég nokkrar athugasemdir við þær tillögur sem listaðar hafa verið.

Í lið 2, hvar talað er um aldurstakmark og hjálmaskyldu, tel ég það vera fagnaðarefni að 13 ára aldurstakmark sé sett á aflknúin smáfarartæki og til samræmis við lög sem tíðkast á rafhjólum. Það er hinsvegar til vansa að ekki sé sett hjálamskylda á alla ökumenn rafhlaupahjóla, því það hefur sýnt sig að hjálmar eru ekki síður þarfir fyrir einstaklinga eldri en 16 ára. Án efa hefði verið hægt að koma í veg fyrir alvarleg slys í þeim tilfellum þar sem ökumaður eldri en 16 ára bar ekki hjálm á höfði.

Liður 3 vekur mikla furðu þar sem tillag að hámarksafli smáfarartækja (rafhlaupahjóla) er ætlað að vera 1000 wött. Það þýðir að öll tvídrifnu (e.dual-drive) rafhluapahjólin verði bönnuð, þar sem minnsta tvídrifna hjólið á markaði er 2x800wött.

Þegar horft er yfir starfshópinn og þá sérfræðinga sem fengnir hafa verið til álitsgjafa, þá er það mjög ámælisvert að mínu mati að það skuli ekki vera kallaður til einn einasti söluaðili þessara rafhlaupahjóla. Söluaðilar hafa mjög víðtæka þekkingu á aflknúnum smáfarartækjum, stórra og smárra, og eru sennilega þeir aðilar sem hafa t.a.m. bestu þekkingu er snýr að drif- og stjórnbúnaði þessara tæki þar sem allmörg tækin hafa þurft á einhverjum tímapunkti að gangast undir viðhald, viðgerðir eða tjónamat hjá þjónustuverkstæðum söluaðila. Þess ber t.d. að geta að Rafhjólasetur Ellingsen hefur unnið náið með lögreglunni við tjónarannsóknir þar sem þurft hefur að ganga úr skugga um hvort rafhlaupahjól sem lent hafa í tjóni hafi gengist undir breytingar til hraðaaukningar (umfram 25 km hámarkshraða).

Í hópi sérfræðinga, sem fengnir voru til álitsgjafar, er aðili sem stýrir stærstu rafhlaupahjóla leigu landsins fengin til að gefa sitt álit sem á að sjálfsögðu rétt á sér, en út frá því vali mætti ætla að drögin séu lögð mestmegnis útfrá forsendum leigurafhlaupahjóla sem falla mjög vel að þessum breytingartillögum með þeirra hámarks 700 wöttum. Þarna vantar klárlega sérfræðing(a) til viðbótar sem eru að umgangast fleiri en eina gerð og aflstærðir af rafhlaupahjólum.

Á þeim þremur árum tæpum sem Rafhjólasetur Ellingsen hefur selt rafhlaupahjól hafa um 1000 rafhlaupahjól sem eru yfir 1000 wött verið flutt inn á vegum fyrirtækisins. All flest þeirra eru 2x1000 wött (2000wött) með drifi á báðum hjólum og henta því afar vel fyrir íslenskar aðstæður allan ársins hring. Kosturinn við þessi hjól eru fyrst og fremst tveir; það er með mjög einföldum hætti að setja nagladekk undir þau og eru þau mun öruggari og stöðugri í vetrarfærð heldur en einsdrifs rafhlaupahjólin. Hinn kosturinn hefur með þyngd ökumanns að gera, því fólk sem er 100 kg. og yfir þarf fleiri wött en 1000 til þess að komast upp sæmilega bratta brekku. ÞAð þekki ég af eigin reynslu verandi rúmlega 100 kg. Hjól sem eru undir 1000 wöttum uppfylla ekki þessi skilyrði. Ef það á að stuðla að vistvænum ferðamáta þá þarf líka að taka tillit til þeirra sem eru í þyngri kantinum. af því sögðu snúast wöttin fyrst og fremst um toggetu fremur en hraðagetu að mínu mati.

Rafhjólasetur hefur flutt inn og selt rafhlaupahjól í tæp 3 ár - eða frá því að rafhlaupahjól byrjuðu fyrst að ryðja sér til rúms á Íslandi. Á þessum tíma hefur myndast stórt samfélag rafhlaupahjólanotenda sem margir hverjir nota tækin allan ársins hring og eru mýmörg dæmi um það að fólk hefur selt heimilisbílinn eða lagt honum, til að fara flestra sinna ferða á þennan umhverfisvæna hátt. Flest allt þetta fólk er mjög meðvitað um hagkvæmni þess að nota svona samgöngumáta og hafa á þessum tækjum miklar mætur. Þeir eigendur rafhlaupahjóla sem nota þau að staðaldri eru allflestir meðvitaðir um að tryggja öryggi sitt með því að vera með hjálma - og í sumum tilfellum jafnvel brynjur til að verja líkamann fyrir hugsanlegum byltum og skakkaföllum á rafhlaupahjólunum. Í stað þeirrar forsjárhyggju sem virðist vera stuðlað að með þessum skýrsludrögum verkefnahópsins, er miklu nær að efla kynningu og forvarnir til þeirra sem nota þessi smáfarartæki, einnig hvet ég téðan verkefnahóp til þess að draga fleiri sérfræðinga að borðinu sem sannarlega eru að umgangast þessi tæki dagsdaglega.

Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök atvinnulífsins - 22.04.2022

Góðan daginn.

Meðfylgjandi er umsögn f.h. Samtaka atvinnulífsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Atli Óskar Fjalarsson - 23.04.2022

Til þeirra er málið varðar,

Það er miður að sjá að einu sinni sem oftar hefur verið skipuð nefnd sem gjörsamlega missir marks sökum vanþekkingar á málefninu og skautar algerlega framhjá því að ráðfæra sig við sérfræðinga áður en það setur fram niðurstöður.

Úr því verður skýrsla sem er ekki bara handahófskennt bútasaumsteppi, fengið að láni frá norðurlandaþjóðunum heldur er hún nagli í kistu örflæðis á Íslandi ef fram skal ganga.

Meginmisskilningur starfshópsins liggur í muninum á leiguhjólum og hjólum í einkaeigu, sem kristallast í því að einungis var leitað til framkvæmdarstjóra Hopp við gerð skýrslunnar en ekki fagfólks í einkaeigugeiranum né áhugafólks. Að ætla að samrýma reglur fyrir ölvaða Hoppara í miðbænum og hobbýista í Heiðmörk er eins og að ætla að banna sundíþróttir því fólk á það til að fá sér einn kaldann í pottinum.

Það er vissulega áhyggjuefni að ölvað fólk jafnt sem börn slasi sig á rafhlaupahjólum. Hvorki börn né fólk í glasi eru með næga hæfni (eða jafnvægi) til að stýra þungum tækjum á öruggan hátt og því fagna ég áformum um takmarkanir á þeim vígvelli. Auðvitað á að sekta fólk sem hjólar undir áhrifum og stofnar sér og öðrum í hættu. Börn ættu svo að sjálfsögðu að vera með hjálm, ættu ekki að hafa aðgang að leiguhjólum, né vera á akbrautum. Öllu þessu er ég sammála enda eins og áður segir allt annar handleggur í þessu málefni örflæðis.

Það sem ég set mig hins vegar upp á móti er afltakmörkun einkahjóla í umferð. Að ætla að hámarka afl hjólanna við 1000w sýnir svart á hvítu vanþekkingu ykkar á tækninni og vona ég innilega að einungis vanþekking stýri þeirri niðurstöðu en ekki illvilji. Því þetta mun sannarlega hafa slæmar afleiðingar í för með sér.

Alger stöðnun sem mun eiga sér stað í örflæði á Íslandi ef þetta nær fram að ganga. Þróun tækninar síðustu ár hefur verið í veldisvexti og framleiðendur keppast við að uppfæra vörur sínar þegar kemur að gæðum, þægindum og öryggi. Langflest ný hjól í dag eru yfir 1000w og ekki er boðið upp á aflminni útgáfur af nýjustu og bestu hjólunum. Öryggisbúnaðurinn á þeim er margfalt betri en búnaður fyrri kynslóða hvort sem telja má ljósabúnað (fram, bremsu og stefnuljós) flautur, þjófavörn, jafnari inngjöf, stabílli akstur og svo mætti lengi telja. Að takmarka aflið við 1000w þýðir að þessi nýju hjól muni þurrkast út af markaðnum og aðeins elstu tækin enn leyfileg í umferð. Þetta mun fæla burt þá sem hafa tamið sér þennan umhverfisvæna ferðamáta og leggja stein í götu þeirra sem dreymir um grænni samgöngur framtíðarinnar.

Þessi afltakmörkun fengin að láni frá Finnlandi gerir ekki ráð fyrir íslenskum aðstæðum, veðráttu, bröttum brekkum og miklum vegalengdum. 1000w hjól henta ágætlega fyrir meðalþungan einstakling í sól og blíðu á jafnsléttu en það er ekki raunveruleikinn sem við búum við. Ferðalög að vetri til með slíkum tækjum verða ekki möguleg lengur þar sem aflið er ekki nægilega mikið til að ferja fólk í gegnum snjó og slyddu, upp brattar brekkur í mótvindi og hvað þá ef einstaklingurinn er í stærri kantinum. Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir stærri ökumenn að hafa tvíknúinn mótor (að framan og aftan) og engin slík hjól eru í boði undir 1000w. Hér sýnir starfshópurinn enn og aftur vanþekkingu sína á þessu sviði og mér þykir sorglegt að enginn virðist hafa kynnt sér þessi tæki að neinu viti við gerð skýrslunnar.

Því bið ég ykkur um að endurskoða þessa niðurstöðu vandlega og spyrja ykkur tveggja spuringa: „Eru leiguhjól og hjól í einkaeigu sami hluturinn?“ og „viljum við bera ábyrgð á stöðnun örflæðis á Íslandi?“. Ef svarið er nei, þá þurfiði að endurskoða niðurstöðu ykkar.

Virðingarfyllst,

Atli Óskar Fjalarsson

Afrita slóð á umsögn

#6 Erlendur Smári Þorsteinsson - 24.04.2022

Meðfylgjandi í viðhengi (2022_04_21_AthUT_LHM_LettFarartaeki.pdf) er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um drög að skýrslu starfshópsins.

Almennt vilja Landssamtök hjólreiðamanna leggja mjög ríka áherslu á að aðgerðir sem starfshópurinn leggur til megi ekki verða til þess að draga úr möguleikum hjólreiða; t.d. með því að skerða réttindi þeirra sem nota reiðhjól, auka skyldur á þennan hóp, eða leggja frekari tálmanir í vegi hjólreiða.

Rauði þráðurinn í athugasemdum Landssamtaka hjólreiðamanna er sá að þær tegundir farartækja sem fjallað er um skiptast í tvo flokka

• Virk/aktív farartæki: (Hefðbundinn) reiðhjól og (pedal-assist) rafmagnsreiðhjól

• Óvirk/passív farartæki: Létt bifhjól í flokki I og rafskútur

og því telja Landssamtök hjólreiðamanna eðlilegt að nýjar reglur um rafskútur séu þær sömu og núverandi reglur um létt bifhjól í flokki I.

Með ofangreint í huga þá styðja Landssamtök hjólreiðamanna almennt tillögur starfshópsins, liði 1 til 6, þó með þeim fyrirvara að rafmagnsreiðhjól verði áfram skilgreind sem reiðhjól en ekki sem smáfarartæki.

Um umsögnina í heild sinni er vísað til viðhengis.

F.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna

Erlendur S. Þorsteinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Jón Þór Ólafsson - 25.04.2022

Hámarkshraði verði svæðisbundinn.

Til að skipuleggja umferð smáfarartækja með markmið umferðarlaga í huga væri farsælt að svæðisskipta umferðarhraða eins og gert er með bifreiðar.

Mikilvægt er að hámarkshraði taki mið af þeirri umferð sem umferðarmannvirki miðast við. 25 km/klst getur skapað hættur þar sem gangandi umferð er ríkjandi og börn að leik en of lítill hraði á götum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Hámarkshraði á bílastæðum og vistgötum er 15 km/klst þar sem gert er ráð fyrir gangandi umferð. Hið sama gæti átt við um smáfarartæki þegar þau eru í kringum gangandi umferð. Hámarkshraði á hjólastígum mætti miða við þann umferðarhraða sem þykir öruggur á reiðhjóli. Á akbrautum væri svo hægt að miða við hámarkshraða bifreiða upp að málefnalegu hámarki þar til smáfaratækið sé skráð til að vera í hraðri akandi umferð eins og létt bifhjól.

Hámarksafl smáfarartækja tryggi öryggi og jafnræði óháð samgöngumáta.

Algert bann við aflmeiri smáfarartækjum en 1.000 W er ekki nauðsynlegt til að ná markmiðum starfshópsins. Til að slíkar takmarkanir nái tilgangi sínum og rúmist innan jafnræðissjónarmiða í Umferðarlögum er mikilvægt að horfa til þess að 1.000 W markið mismunar þyngri ökumönnum og gerir smáfarartæki síður ákjósanlegan valkost fyrir þyngri ökumenn í hæðóttu umhverfi og vindasömu veðurfari. Við takmarkanir út frá afli má horfa til takmarkanna á léttum bifhjólum og skráningaskyldu þeirra til að ná markmiði um öryggi samhliða því að uppfylla markmið starfshópsins og Umferðarlaga um jafnræði óháð samgöngumáta.

Afrita slóð á umsögn

#8 Hopp ehf. - 25.04.2022

Meðfylgjandi er umsögn Hopp ehf. um drög að skýrslu starfshóps um smáfarartæki.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Daníel Þór Daníelsson - 25.04.2022

Mínir punktar snúa að mestu leyti að rafhlaupahjólunum sem eru leigð út.

Skýrslan nefnir Noreg sem land þar sem leyfilegt sé að keyra á rafhlaupahjólunum á gangstéttum. Ég leitaði eftir reglunum í Noregi og fæ ekki betur séð en staðan sé aðeins flóknari þar en skýrslan lætur í veðri vaka. Þess má einnig geta að verið er að herða á reglunum þar.

Könnun í Ósló sýndi að meirihlutinn vill þessi hjól burt af gangstéttunum. Í dag er leyfilegur hámarkshraði á gangstéttum í Noregi 6 km á klukkustund, aðeins einn má vera á hjólinu í einu og það er bannað að leggja þeim á gangstéttum eða á götum. Auk þess þá fækkaði Ósló leyfilegum heildarfjölda hjólanna, setti takmörk á fjölda hjóla per hverfi, bannaði leigu þeirra frá klukkan 23 til 5 að morgni. Einnig má aðeins sækja og skila hjólunum á ákveðnum stöðum.

https://norwaytoday.info/news/new-survey-seven-out-of-ten-people-in-oslo-want-to-ban-electric-scooters-on-sidewalks/amp/

https://www.newsinenglish.no/2021/05/18/new-scooter-rules-raise-questions/

https://www.lifeinnorway.net/oslo-electric-scooter-rental-crackdown/

Í skýrslunni stendur að trygginga sé einungis krafist fyrir létt bifhjól 2 sem eru meira en 4.000 W. Liggur ljóst fyrir hvaða rétt aðrir vegfarendur hafa ef þeir slasast alvarlega vegna notenda rafhlaupahjóla? Geta þeir hugsanlega ekki sótt bótarétt?

Það er ástæða fyrir því að fæstar borgir heimila þennan rekstur með þessu sniði. Núverandi fyrirkomulag kemur verst niður á fötluðu fólki, fólki með barnavagna, eldri borgurum o.s.frv.

Til þess að þessi ferðamáti nái fótfestu þá verður að gera kröfur til rekstraraðilanna sem síðan gera kröfur til sinna viðskiptavina þannig að tryggt sé að aðrir vegfarendur hljóti ekki óþægindi né skaða af. Þeim kröfum verða rekstraraðilarnir að framfylgja. Sveitarfélög með hjólastíga verða einnig að halda þeim hreinum og öruggum. Hjólastígarnir meðfram götunum í Reykjavík eru ekki hreinsaðir af snjó og í raun og veru er snjónum mokað á þá. Hjólastígar sem eru ófærir hvetja ekki til notkunnar á ferðamátum sem þessum.

1. Eitthvað þarf að gera við þá sem eru teknir ölvaðir en ef rekstraraðilar geta ekki ábyrgst að ölvaðir leigi ekki og noti ekki hjólin þeirra þá er eina vitið að takmarka leigutíma þeirra eins og gert er í erlendum borgum.

2. Hver framfylgir þessu hjá rekstraraðilum? Í dag er enginn þar á bæ sem sér til þess að notendur hjólanna séu eldri en 18 ára eða að fleiri einn séu á hjóli í einu eins og skilmálar og reglur þeirra krefjast.

3. Tek undir orð Atla Óskars Fjalarssonar.

4. Engin athugasemd.

5. Öllum til bóta.

6. Verður notkun á gangstéttum við þær götur þá óheimil?