Samráð fyrirhugað 13.04.2022—25.05.2022
Til umsagnar 13.04.2022—25.05.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 25.05.2022
Niðurstöður birtar

Spurningarlisti til hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum

Mál nr. 82/2022 Birt: 13.04.2022 Síðast uppfært: 05.05.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (13.04.2022–25.05.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Tilskipuninni er ætlað að samræma reglur um höfundarétt sem varða hinn stafræna innri markað. Ýmis ákvæði hennar gera ráð fyrir samráði við hagsmunaaðila og er spurningalistinn liður í því samráði.

Tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum (stafræna höfundaréttartilskipunin eða DSM tilskipunin) er ætlað að samræma ýmsar reglur um höfundarétt og skyld réttindi sem varða hinn stafræna innri markað og notkun verndaðra verka yfir landamæri.

Tilskipunin tekur til ýmissa mikilvægra atriða eins og undanþágu frá einkarétti höfunda til að tryggja að texta- og gagnanám geti farið fram, sérstaklega hjá rannsókna- og menningarstofnunum; undanþágu vegna notkunar menntastofnana á höfundaréttarvörðu efni við fjarkennslu á netinu; ákvæða sem eiga að tryggja varðveislu menningararfs; ákvæða sem eiga að tryggja notkun menningarstofnana á höfundaréttarvernduðum verkum í þeirra umsjá sem eru ekki lengur fáanleg á almennum markaði (e. out-of-commerce). Þá eru í tilskipuninni ákvæði um nýjan tveggja ára einkarétt útgefenda fréttaefnis vegna netnotkunar á greinum dagblaða og fréttaveitna; heimildarákvæði um rétt útgefenda til hlutdeildar í tekjum vegna notkunar verka sem nýtt eru skv. undanþágum frá höfundarétti; um skyldu stærri þjónustuveitenda efnisdeilingar á netinu (t.d. Google og Facebook) til að tryggja að samningar við rétthafa um not af verkum þeirra séu virtir og til að tryggja að rétthafar geti bannað not ákveðinna verka á þjónustusvæði þjónustuveitenda og að lokum er að finna ákvæði um sanngjarnt endurgjald til höfunda og flytjenda í samningum til hagnýtingar á verkum þeirra eða listflutningi.

Ýmis ákvæði stafrænu höfundaréttartilskipunarinnar gera ráð fyrir samráði við hagsmunaaðila. Slíkt samráð hófst með kynningu á tilskipuninni í höfundaréttarráði á fundi þess 20. janúar sl. Menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að halda samráðinu áfram með því að setja meðfylgjandi skjöl (sjá neðar) í samráðsgátt stjórnvalda og biðja hagsmunaaðila að skoða spurningarlistann og svara því sem þá varðar. Stefnt er að því að nota niðurstöður þessa samráðs við undirbúning á innleiðingarfrumvarpi fyrir tilskipunina. Öllum er frjálst að svara öllum spurningum eða einungis einstökum þeirra.

Til grundvallar þessum spurningalista er þýðing tilskipunarinnar sem þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur unnið, sjá meðfylgjandi. Ef einhverjar athugasemdir eða ábendingar eru um þá þýðingu er beðið um að þeim sé skilað samhliða viðbrögðum við spurningarlistanum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bragi Þór Jósefsson - 06.05.2022

Þessi umsögn er fyrir hönd FÍSL, Félags íslenskra samtímaljósmyndara, en undirritaður er stjórnarmaður í því félagi.

Félag íslenskra samtímaljósmyndara, FÍSL, telur að þessi tilskipun feli í sér ýmsar réttarbætur fyrir ljósmyndara og annað sjónlistafólk og viljum við hér benda á nokkur atriði sem okkur finnst skipta máli.

Í 14. gr. er vísað til þess að endurgerðir á verkum sem fallin eru úr vernd, hljóti ekki höfundavernd. Þess ber að geta að það verður að vera skýrt hér að um leið og listrænt framlag ljósmyndarans verður eitthvað, þá hljóti nýja verkið að sjálfsögðu vernd. FÍSL telur að hér verði mörkin að vera skýr – ef meðlimir FÍSL taka ljósmyndir af verkum sem fallin eru úr vernd, þá er ljóst að sú ljósmynd sé í öllum tilvikum eftirgerð sem sé „frumverk í þeim skilningi að það sé eigin hugverkasköpun höfundarins“

Í 15. gr. DSM tilskipunarinnar er að finna réttindi vegna útgáfu fréttaefnis og endurútgáfu þess. FÍSL fagnar þessu ákvæði, og sérstaklega þeirri skyldu að tryggja ljósmyndunum viðeigandi hlutdeild í tekjum sem verða til vegna endurnotkunar fréttaefnis, þegar fréttaefni inniheldur ljósmyndir. Það er mikilvægt að mati FÍSL að allir höfundar sitji jafnt til borðs saman (bæði þeir sem skrifa fréttina og þeir sem skapa þar sjónrænt efni). Enn fremur er mikilvægt að höfundaréttarsamtök ljósmyndara geti stigið inn í samningana við útgefendur fréttaefnis, og séð um leyfisveitinguna fyrir hönd okkar. FÍSL eru lítil samtök og hefur ekki þá burði sem þarf til að sjá um slíka samninga. Því er eðililegast að hér sé innleidd svokölluð samningskvöð, sem nái til alls sviðsins og allra þeirra höfunda sem eiga verk í fréttaefni. Margir meðlima FÍSL hafa starfað við fjölmiðla, þá undantekningalítið sem lausamenn og þar sem margir eru um kökuna er samningsstaða slíkra lausamanna veik hvað varðar réttindi um endurútgáfu verka.

17. gr. er mikilvæg fyrir meðlimi FÍSL. Eins og með 15. gr., er mjög mikilvægt að undanskilja eða gleyma ekki réttindum ljósmyndara hér. Það er urmul af ljósmyndum dreift í efnisdeiliþjónustu, td í gegnum google leitarvélina, í gegnum instagram, pinterest og facebook. Það væri lang eðlilegast og myndi tryggja jafnræði hér, að svipuð leið yrði farin hér og með 15. Gr. – að eftirláta höfundaréttarsamtökum ljósmyndara að sjá um samningagerð og tryggja að samningar séu gerðir við alla listamenn þess efnis sem er deilt á samfélagsmiðlum – ekki bara við rithöfunda, kvikmyndagerðarmenn eða tónlistarfólk. Við viljum undirstrika að allar ljósmyndir sem meðlimir FÍSL skapa eru myndlistarverk, með mikið listrænt gildi, og ætti að taka mið af því við samningagerðina og veitingu leyfa vegna 17. gr. Hér er líka mikilvægt að samningar verði á íslensku og lögsaga íslensk og jafnfram að viðurlög séu skýr.

Að öll hugtök í tilskipuninni séu vel þýdd yfir á íslensku, og innleidd, og skýringar fylgi með og tekið á óvissuþáttum.

FÍSl fagnar því sem 3. kafli felur í sér, og geta réttindi þar átt við meðlimi FÍSL og sérstaklega hvað viðkemur bókaútgáfu, útgáfu veggspjalda, póstkorta, umbúða osfrv.

Vinsamlegast

Fyrir hönd FÍSL, Félags Íslenskra Samtímaljósmyndara

Bragi Þór Jósefsson

Afrita slóð á umsögn

#2 Fjölís,hagsmunasamtök - 12.05.2022

Fjölís þakkar tækifæri til að taka þátt í samráði við innleiðingu (ESB) 2019/790.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Myndhöfundasjóður Íslands - 23.05.2022

Í meðfylgjandi skjali má finna umsögn Myndstefs - Myndhöfundasjóðs Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Félag leikmynda/búningahöfunda - 23.05.2022

Félag leikmynda- og búningahöfunda (FLB) telur mjög brýnt að 3. kafli DSM tilskipunarinnar sé innleiddur með það að leiðarljósi að veita rétthöfum öfluga vernd, enda sé það hlutverk og tilgangur hennar.

Höfundar og listflytjendur eru gjarnan í veikri samningsstöðu þegar þeir veita nytjaleyfi eða framselja réttindi sín til hagnýtingar gegn þóknun, einnig þegar þeir gera það gegnum sín eigin fyrirtæki.

Þessir einstaklingar hafa þörf fyrir þá vernd sem veitt er með þessari tilskipun svo þau geti til fulls notið góðs af þeim réttindum sem eru samræmd með lögum Sambandsins.

Ísland er lítið markaðssvæði og við eigum engin nágrannalönd sem auðvelt eða hagkvæmt er að ferðast til vegna vinnu. Hér eru fáar stofnanir og sjálfstæðir framleiðendur kvikmynda og sviðsverka sem ráða leikmynda- og búningahöfunda í vinnu. Við erum því í raun uppá náð fárra einstaklinga komin með vinnu og þar af leiðandi að sumu leiti í veikari samningsstöðu en þau starfa á stærra markaðssvæði.

Þá hefur mikil gróska átt sér stað í framleiðslu kvikmyndaðs efnis hér á landi og hafa íslenskir framleiðendur og framleiðslufyrirtæki oftast milligöngu um ráðningu fólks. Verkefnunum hefur því vissulega fjölgað til muna og hagnaður aukist, en sá hagnaður hefur því miður ekki skilað sér til leikmynda- og búningahöfunda í sama mæli og til framleiðenda.

Höfundar í kvikmynduðu efni skrifa mjög oft undir afsalssamninga sem koma í veg fyrir að þeir njóti góðs af því þegar verkefnum sem þau hafa unnið við gengur vel og skilar hagnaði.

Félag leikmynda- og búningahöfunda leggur áherslu á eftirfarandi atriði:

- Að öll hugtök í tilskipuninni séu skilmerkilega þýdd og innleidd, og skýringar fylgi með í greinargerð.

- Að óvissumál, til dæmis vegna teygjanleika hugtaka og óskýrs orðalag, verði sérstaklega tekið á í greinargerð, og muni ekki koma til með að rýra þann rétt sem 3. kaflinn veitir.

- Að ljóst sé að kaflinn gildi um allt samstarf – bæði þegar leikmynda- og búningahöfundur hlýtur eingreiðslu (full laun) fyrir verkið, en einnig þegar hann eða hún fær hlutdeild í tekjum verksins, eða annars konar hlutdeild sem einn höfundur verksins.

- Að tryggt verði að framleiðandi fullnægi skyldum sínum samkvæmt 19. gr. (um gagnsæi) til hins ítrasta gagnvart öllum höfundum kvikmyndar, og að leikmynda – og búningahöfundar verði þar ekki undanskildir. Hér vísum við í umsögn Myndstefs hvað varðar hvaða lágmarksupplýsingar mættu tryggja að framleiðandi fullnægi.

- Að leikmynda- og búningahöfundar geti setið til sama borðs og leikstjóri, handritshöfundur og tónhöfundur, og að réttindi þessara höfunda sé virt að jöfnuði

- Að söluvara (e. merch, td fígúrur, föt, veggspjöld, póstkort osfrv) sem innihalda verk leikmynda- og búningahöfundar, verði að framkvæmdinni til undanskilin í samningum, þrátt fyrir að höfundur þiggi eingreiðslu, og samið verði aftur við höfund og greiddur höfundaréttur (eða hlutdeild í söluvöru) ef framleidd er söluvara úr kvikmynd, sjónvarsþáttum eða sviðsverki.

- Að lögsaga vegna 3. kafla verði skýr, og miðað verði við Ísland

- Að viðurlög vegna 3. kafla verði skýr. Vísast í umsögn Myndstef um hugmyndir að viðurlögum.

- Að höfundar geti leitað til óháðs sáttaraðila ef ágreiningur kviknar milli framleiðenda og höfunda, og þurfi ekki að fara dómstólaleiðina, sem er í raun ekki raunhæfur kostur hér á landi.

- Að sama skapi þarf að finna hina gullnu meðalleið, þannig að innleiðing tryggi að gott og farsælt viðskiptasamband milli framleiðenda og höfunda í kvikmynd verði ekki stefnt í voða, eða að innleiðing skapi bransanum erfiðleika og óhagræðingu, frekar en sanngirni og gagnsæi.

NIÐURSTAÐA: að tryggja þurfi sanngirni og jafnræði milli höfunda, gagnsæi, og hagkvæmni við þá krefjandi framleiðslu sem kvikmynd er.

Að lokum óskum við eftir því að ráðuneytið veiti milligöngu milli meginhöfunda kvikmyndaverks (leikstjóra, handritshöfundar, tónhöfundar og leikmyndahöfundar) og framleiðenda, og stýri þar samtali og frekari samráði.

Afrita slóð á umsögn

#5 Vilhjálmur Þorsteinsson - 24.05.2022

Umsögn f.h. Miðeindar ehf. 591213-1480 er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Lára Herborg Ólafsdóttir - 25.05.2022

Í hjálögðu skjali má finna umsögn undirritaðrar f.h. samtaka hagsmunaaðila.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Friðbjörg Ingimarsdóttir - 25.05.2022

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skúlagötu 4

101 Reykjavík

Efni: Umsögn Hagþenkis vegna tilskipunar 2019/790 frá 17. apríl 2019 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum og um breytingu á tilskipunum 96/9/EB og 2001/29/EB

Umsögn þessi er gerð fyrir hönd Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, kt. 520485-0749, Þórunnartúni 2, 101 Reykjavík.

Um Hagþenki

Hagþenkir er fagfélag höfunda fræðirita og kennslugagna. Félagið var stofnað 1. júlí 1983 og árið 1987 hlaut það löggildingu menntamálaráðuneytisins. Markmið Hagþenkis er að gæta faglegra og fjárhagslegra, þar á meðal kjaralegra, hagsmuna félagsmanna sem og að gæta réttar þeirra í hvívetna, þ.m.t. semja fyrir þeirra hönd sem og að bæta skilyrði til samningar og útgáfu fræðirita og skylds efnis, kennslugagna, handrita að heimildamyndum og fræðilegu efni á ljósvakamiðlum.

Félagið stendur vörð um réttindi félagsmanna og annarra rétthafa fræðirita og kennslugagna og skylds efnis, sem vernduð eru af höfundarétti og annast samningagerð félagsmanna við opinbera aðila og stjórnvöld um hvers kyns höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna, fagleg sem og fjárhagsleg, þar á meðal um kjör, þóknanir og bætur, auk þess sem það fer með umsýslu réttindagreiðslna.

Umsögn

Vísað er til umsagnar Fjölís vegna sama máls, dags. 12. maí 2022, sem m.a. var útbúin fyrir hönd Hagþenkis í tengslum við þá hagsmuni, sem Fjölís gætir fyrir hönd sjö aðskildra höfundarréttar-samtaka.

Hagþenkir tekur almennt undir þau sjónarmið, sem koma fram í umsögn Fjölís.

Á þessum vettvangi sér Hagþenkir ekki ástæðu til að svara öllum þeim spurningum, sem koma fram í spurningalista ráðuneytisins til hagsmunaaðila. Hins vegar vill Hagþenkir leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:

1. 5. gr.: Notkun verka og annars efnis við stafræna kennslu og við kennslu yfir landamæri

Ákvæði þetta er að mörgu leyti óskýrt og verður það verkefni löggjafans að koma því í skýrara og skiljanlegra form í innlendri löggjöf, að því leyti sem aðstæður leyfa.

Í 4. mgr. 5. gr. segir að „aðildarríkin geta kveðið á um sanngjarnar bætur til rétthafa fyrir notkun á verkum þeirra eða öðru efni skv. 1. mgr.“.

Í ljósi mikillar stafrænnar notkunar á höfundarréttarvörðu efni félagsmanna Hagþenkis við kennslu (hvort sem sú kennsla á sér stað „yfir landamæri“ eða almennt við stafræna kennslu og þar sem notkun á höfundarréttarvörðu efni félagsmanna Hagþenkis er þegar mikil og fer sífellt vaxandi) og þar sem oftar en ekki skortir á að leitað sé leyfis fyrir slíkri notkun og að greitt sé fyrir hana, er mikilvægt að höfundar fái sanngjarnar bætur fyrir þá notkun.

Einnig er mikilvægt í því sambandi að það kerfi, sem notað verður til að ákvarða fjárhæð og greiðslur slíkra sanngjarnra bóta, verði eins einfalt og gagnsætt og kostur er. Í því sambandi má leita fyrirmynda á hinum Norðurlöndunum, að því gefnu að talið verði að þær fyrirmyndir eigi vel við aðstæður á Íslandi.

Í tengslum við íslenskan veruleika, má benda á könnun Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sem gerð var árið 2021. Könnunin var gerð í 30 Evrópuríkjum og benda niðurstöður hennar til þess að Íslendingar beri höfuð og herðar yfir aðra Evrópubúa þegar kemur að því að sækja sér stafrænt námsefni á netinu. Fram kemur í könnuninni að á seinustu þremur mánuðum áður en könnunin var gerð höfðu 77% svarenda á Íslandi farið á netnámskeið eða notfært sér námsefni á netinu. Mun fleiri einstaklingar á aldrinum 16-74 ára á Íslandi hafa þannig tekið þátt í netnámskeiðum eða notað námsefni sem þeir útveguðu sér á netinu, en einstaklingar í sama aldursflokki hjá öðrum þjóðum, sem tóku þátt í könnuninni.

2. 8. gr.: Notkun menningararfsstofnana á verkum og öðru efni sem er ekki lengur fáanlegt á almennum markaði

Hagþenkir tekur undir mikilvægi þess að greitt sé úr aðgengi og dreifingu á verkum, sem ekki eru lengur „fáanleg á almennum markaði“.

Í þessu sambandi er þó mikilvægt að gæta þess, rétt eins og í sambandi við 5. gr., að höfundar fái sanngjarna þóknun eða bætur fyrir slíka notkun. Oft getur verið mikið eftir af verndartímabili höfundarréttar þegar verk verða ófáanleg á almennum markaði. Slíkur ófáanleiki dregur þó ekki úr vægi höfundarréttarins sem slíks og þar með réttar höfundar á þóknun fyrir eintakagerð af verki sínu.

3. 16. gr.: Kröfur um sanngjarnar bætur

Þrátt fyrir almenna fyrirsögn, fjallar ákvæðið í raun um það að aðildarríkjum er heimilt að kveða á um að ef höfundur hefur framselt rétt eða veitt nytjaleyfi fyrir honum til útgefanda sé slíkt framsal eða nytjaleyfi fullnægjandi lagagrundvöllur fyrir rétti útgefandans til hlutdeildar í bótum vegna notkunar á verkinu, sem fer fram samkvæmt undanþágu frá eða takmörkun á réttindunum sem voru framseld eða veitt leyfi fyrir.

Hagþenkir telur að sanngirnissjónarmið hnígi í þá átt að útgefendur skuli njóta hlutdeildar í slíkum bótum þegar framsal eða nytjaleyfi á höfundarrétti frá höfundi til útgefanda hefur átt sér stað. Vafalaust þarf að eiga sér stað frekari umræða og athugun á því hvert hlutfallið skuli vera, en afstaða Hagþenkis er sú að hlutfall útgefenda skuli þó aldrei fara yfir 50%.

Virðingarfyllst,

fyrir hönd Hagþenkis

Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra

_________________________________________________________

https://ec.europa.eu/eurostat/web/products-eurostat-news/-/edn-20220124-1

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hrólfur Karl Cela - 25.05.2022

Í viðhengi má finna umsögnina

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Kristian Rieber f.h. GOOGLE - 25.05.2022

Sjá umsögn GOOGLE í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Ásgerður Júlíusdóttir - 25.05.2022

Hér meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra myndlistarmanna um fyrirhugaða innleiðingu á tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Fatahönnunarfélag Íslands - 25.05.2022

Umsögn fatahönnunarfélags Íslands vegna fyrirhugaðrar innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum (hér eftir nefnd DSM tilskipunina)

Fatahönnunarfélag Íslands telur 17. gr. tilskipunarinnar fela í sér mikilvæga réttarbót og ákveðna leiðréttingu á notkun höfundavarins efnis, sem hefur viðgengst í allt of langan tíma án nokkurrar sanngjarnar þóknunar til handa höfundum og öðrum rétthöfum. Ákvæði (17. gr.) er ætlað að einfalda leyfisveitingar á milli rétthafa höfundaréttar og veitenda efnisdeiliþjónustu (efnisveitur og samfélagsmiðlar, t.d. Youtube, Google og Facebook/Instagram, Pinterest, Tumblr ofl). Slíkar efnisveitur veita aðgang að miklu magni höfundaréttarvarins efnis sem notendur hlaða upp, og má segja að slíkar efnisveitur séu orðin ein meginvettvangur til að nálgast skapandi efni. Ákvæðið setur einfaldari og skýrari reglur um leyfisveitingar milli efnisveita og rétthafa, og að slíkir leyfissamningar séu yfirleitt til staðar og virtir, ef efnisveitan reynist ekki hafa gert viðeigandi tilraunir til að stöðva meint höfundaréttarbrot. Eins tryggir ákvæðið að rétthafar geti bannað not ákveðinna verka innan efnisveitu.

Í þessu samhengi vill félagið árétta mikilvægi þess að jafnræðis verði gætt milli ólíkra rétthafa og að sjónlistamenn og fatahönnuðir njóti einnig góðs af þessum breytingum og fái hlut í kökunni.

Dæmi um notkun sem gæti átt undir ákvæðið er t.d. þegar að föt hönnuða eru notuð í tónlistarmyndböndum, þáttagerð í sjónvarpi og kvikmyndagerð. Í þessum tilvikum telur félagið að eðlilegt sé að fatahönnuðir njóti góðs af og fái einhverskonar sambærilega þóknun og t.d. stefgjöld hjá tónlistarmönnum.

Þá telur félagið einnig að þriðji kafli tilskipunarinnar sé gríðarlega mikilvæg réttarbót fyrir fatahönnuði. Þar er að finna ákvæði um sanngjarnt, hlutfallslegt og viðeigandi endurgjald til höfunda og flytjenda í samningum til hagnýtingar á verkum þeirra eða listflutningi (t.d. vinnusamningar, uppkaupsamningar, útgáfusamningar, framleiðslusamningar og aðrir framsalssamningar), en í aðfararorðum tilskipunarinnar er viðurkennt að höfundar og listflytjendur eru oft í veikari samningsstöðu þegar þeir veita nytjaleyfi eða framselja réttindi sín og því sé mikilvægt að auka og skýra vernd rétthafa að því leyti. Kaflinn tiltekur skyldu um gagnsæi við slíka framsalssamninga og sölu og dreifingu verka sem innihalda verk höfunda, og réttur til að krefjast viðbótarendurgjalds ef nýting fer fram úr upphaflegum áformum. Þetta hefur verið kallað 3. kafli DSM tilskipunarinnar hér á landi.

Mjög mikilvægt er að skýra betur réttarsamband hönnuða sem starfa fyrir vörumerki eða aðra hönnuði og hanna ekki í eigin nafni. Hér á landi hafa hingað til ekki verið mörg fyrirtæki á markaði sem eru með fatahönnuði í vinnu en þau eru þó nokkur og má þar nefna Icewear, 66 norður, Ístex, As we grow og fleiri þar sem fatahönnuðir starfa sem launþegar og hanna undir merkjum þessara fyrirtækja.

Miðað við fjölda útskrifaðra fatahönnuða og þróun á norðurlöndum er rík ástæða til að ætla að sambærilegum fyrirtækjum muni bara fjölga á næstu árum þar sem greinin er í miklum vexti. Það er því afar mikilvægt að réttarstaða hönnuða í þessu sambandi verði bætt og að ábyrgð vinnuveitandans gagnvart þeim verði skýr.

Þar sem fá fyrirtæki eru starfandi á Íslenskum markaði hefur samningsstaða fatahönnuða hingað til verið mjög veik og oft er ekki einu sinni samið um hvernig fara skuli með höfundaverk hönnuða í þessu samhengi. Dæmi eru jafnvel um að vinnuveitendur setji í ráðningarsamninga ákvæði um afsal á höfundarrétti sem yrði bannað samkvæmt tilskipuninni.

Tilskipunin mun einnig bæta réttarstöðu hönnuða varðandi aðgang að upplýsingum um notkun og viðskipti með hugverk sín sem hönnuð eru í slíku ráðningarsambandi og ef til þess kemur að hönnunin slær í gegn að þá eigi höfundurinn rétt á einhverskonar hlutdeild í hagnaði eða auka þóknun.

Sem dæmi í þessu samhengi má nefna að margar af vörum 66 norður hafa verið í sölu í áratugi og virði þeirra hefur jafnt og þétt aukist. Í tilvikum sem þessum er eðlilegt að hönnuðurinn njóti á einhvern hátt ávinnings af því þrátt fyrir að um ráðningarsamband hafi verið að ræða.

Það er líka mikilvægt að tilskipunin kveður á um jafnræði milli hönnuða og að það skiptir ekki máli hvort um er að ræða nýútskrifaðan hönnuð eða þaulreyndan. Ef vara eða hönnun sem að hann hannar fyrir fyrirtæki verður vinsæl þá á hann rétt á því að vita það og njóta ávinnings af því.

Nýlega varð Geysir sem var stórt fatahönnunarfyrirtæki á markaði gjaldþrota. Þar kom skýrt fram að þeir hönnuðir sem þar höfðu starfað höfðu lítil réttindi við gjaldþrotið. Tilskipunin mun taka fyrir slíkt og skýra betur að í tilvikum sem slíkum fellur afnotaréttur hönnunar niður og að nýr aðili sem tekur yfir þrotabúið og hyggst hagnýta hönnunina áfram þarf að semja uppá nýtt við hönnuði hugverksins.

Það er því mat fatahönnunarfélagsins að tilskipunin muni skýra betur réttarumhverfi og samningsstöðu hönnuða að þessu leyti og er 3 kafli skýr og mikilvæg réttarbót í þessu samhengi.

Fyrir hönd stjórnar Fatahönnunarfélags Íslands,

Steinunn Björg Hrólfsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Laufey Ósk Magnúsdóttir - 25.05.2022

Umsögn frá Ljósmyndarafélagi Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Ragnar Bragason - 25.05.2022

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn SKL, Samtaka Kvikmyndaleikstjóra vegna fyrirhugaðrar innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum.

Virðingarfyllst, fyrir hönd SKL.

Ragnar Bragason, Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Sigurður Örn Hilmarsson - 25.05.2022

Meðfylgjandi er umsögn Rithöfundasambands Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Rósa Dögg Þorsteinsdóttir - 25.05.2022

Umsögn hér í viðhengi er gerð fyrir hönd Miðstöð hönnunar og arkitetkúrs, kt. 460208-0170, Bjargargötu 1, 101 Reykjavík.

Virðingarfyllst

F.h MHA

Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, varaformaður stjórnar miðstöðvarinnar og situr í hluthafaráði MHA.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Félag kvikmyndagerðarmanna - 30.05.2022

Hugleiðingar og svör FK við spurningalista til hagsmunaaðila vegna DSM tilskipunarinnar.

Viðhengi