Samráð fyrirhugað 13.04.2022—25.05.2022
Til umsagnar 13.04.2022—25.05.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 25.05.2022
Niðurstöður birtar

Spurningarlisti til hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum

Mál nr. 82/2022 Birt: 13.04.2022 Síðast uppfært: 05.05.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 13.04.2022–25.05.2022. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Tilskipuninni er ætlað að samræma reglur um höfundarétt sem varða hinn stafræna innri markað. Ýmis ákvæði hennar gera ráð fyrir samráði við hagsmunaaðila og er spurningalistinn liður í því samráði.

Tilskipun (ESB) 2019/790 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum (stafræna höfundaréttartilskipunin eða DSM tilskipunin) er ætlað að samræma ýmsar reglur um höfundarétt og skyld réttindi sem varða hinn stafræna innri markað og notkun verndaðra verka yfir landamæri.

Tilskipunin tekur til ýmissa mikilvægra atriða eins og undanþágu frá einkarétti höfunda til að tryggja að texta- og gagnanám geti farið fram, sérstaklega hjá rannsókna- og menningarstofnunum; undanþágu vegna notkunar menntastofnana á höfundaréttarvörðu efni við fjarkennslu á netinu; ákvæða sem eiga að tryggja varðveislu menningararfs; ákvæða sem eiga að tryggja notkun menningarstofnana á höfundaréttarvernduðum verkum í þeirra umsjá sem eru ekki lengur fáanleg á almennum markaði (e. out-of-commerce). Þá eru í tilskipuninni ákvæði um nýjan tveggja ára einkarétt útgefenda fréttaefnis vegna netnotkunar á greinum dagblaða og fréttaveitna; heimildarákvæði um rétt útgefenda til hlutdeildar í tekjum vegna notkunar verka sem nýtt eru skv. undanþágum frá höfundarétti; um skyldu stærri þjónustuveitenda efnisdeilingar á netinu (t.d. Google og Facebook) til að tryggja að samningar við rétthafa um not af verkum þeirra séu virtir og til að tryggja að rétthafar geti bannað not ákveðinna verka á þjónustusvæði þjónustuveitenda og að lokum er að finna ákvæði um sanngjarnt endurgjald til höfunda og flytjenda í samningum til hagnýtingar á verkum þeirra eða listflutningi.

Ýmis ákvæði stafrænu höfundaréttartilskipunarinnar gera ráð fyrir samráði við hagsmunaaðila. Slíkt samráð hófst með kynningu á tilskipuninni í höfundaréttarráði á fundi þess 20. janúar sl. Menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að halda samráðinu áfram með því að setja meðfylgjandi skjöl (sjá neðar) í samráðsgátt stjórnvalda og biðja hagsmunaaðila að skoða spurningarlistann og svara því sem þá varðar. Stefnt er að því að nota niðurstöður þessa samráðs við undirbúning á innleiðingarfrumvarpi fyrir tilskipunina. Öllum er frjálst að svara öllum spurningum eða einungis einstökum þeirra.

Til grundvallar þessum spurningalista er þýðing tilskipunarinnar sem þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur unnið, sjá meðfylgjandi. Ef einhverjar athugasemdir eða ábendingar eru um þá þýðingu er beðið um að þeim sé skilað samhliða viðbrögðum við spurningarlistanum.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.