Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 2.–16.5.2022

2

Í vinnslu

  • 17.5.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-84/2022

Birt: 2.5.2022

Fjöldi umsagna: 0

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Umhverfismál

Breytingar á steypukafla byggingarreglugerðar

Málsefni

Regluverk um steypu í byggingarreglugerð hefur verið til endurskoðunar síðastliðið ár. Innviðaráðuneytið birtir nú til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Nánari upplýsingar

Straumhvörf verða í byggingariðnaði með fyrirhuguðum breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar en með þeim er opnað fyrir grænar vistvænar lausnir og margvíslega möguleika til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Helstu breytingar í tillögunum felast í sveigjanlegri og markmiðsbundnum ákvæðum sem munu opna fyrir grænar lausnir en með óbreyttri áherslu á öryggi og gæði. Breytingarnar skapa m.a. hvata til að nota fjölbreyttari samsetningar í steypuíblöndun, nýta mismunandi blöndur fyrir ólíkar aðstæður og endurvinna steinefni. Markmiðið er að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar og tryggja endingu hennar með tilheyrandi ávinningi.

Með nýjum reglum eru auknir möguleikar fyrir framleiðendur að nota fjölbreyttari efni í steypublöndur en hingað til hefur verið heimilað. Þannig er til dæmis heimiluð notkun endurunninna steinefna. Gerð er krafa um prófunaraðferðir á steinefnum til að takmarka áhættu á alkalískemmdum í steypu en líka til að tryggja endingu hennar og að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar á líftíma mannvirkis.

Sérstakur faghópur hefur, í samstarfi við HMS og fjölda hagaðila innan byggingariðnaðarins, unnið tillögurnar að breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar.

Fyrstu tillögur voru unnar í samstarfi við sérfræðingana Eyþór Rafn Þórhallsson dósent iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, Einar Einarsson, framkvæmdastjóra gæða- og umhverfissviðs Hornsteins og Guðbjart Einarsson, sviðsstjóra bygginga hjá Ríkiseignum.

Í framhaldi af því var settur á stofn samráðshópur fagaðila um tillögurnar. Í þeim hópi áttu sæti Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök iðnaðarins, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Grænni byggð, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands og Mannvit.

Við undirbúning tillagna var litið til gildandi Evrópustaðla og framkvæmdar á norðurlöndunum. Samráðshópurinn horfði einnig til skýrslu OECD um samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar og er markmiðsnálgun beitt með setningu meginreglna og viðmiðunarreglna í stað forskriftarákvæða. Er sú aðferðarfræði talin veita hönnuðum og framleiðendum fleiri möguleika án þess að kröfum um öryggi sé fórnað.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála

irn@irn.is