Samráð fyrirhugað 12.03.2018—21.03.2018
Til umsagnar 12.03.2018—21.03.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 21.03.2018
Niðurstöður birtar 27.08.2018

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024

Mál nr. 32/2018 Birt: 12.03.2018 Síðast uppfært: 27.08.2018
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 voru kynnt í samráðsgátt um opið samráð stjórnvalda dagana 12.-21. mars 2018. Áætlunin var unnin í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 þar sem kveðið er á um að áætlunin lýsi stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Alls bárust 25 umsagnir frá einstaklingum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum haghöfum. Umsagnirnar voru gagnlegar og tekið var tillit til þeirra eins og kostur var. Þá munu þær jafnframt nýtast vel við framkvæmd og eftirfylgd byggðaáætlunar. Í nokkrum tilvikum leiddu umsagnir til að bætt var við aðgerð eða áherslu. Áberandi var hve margir sáu ástæðu til að brýna stjórnvöld til að tryggja fjármagn til þeirra aðgerða sem tilgreindar er. Þá þökkuðu margir fyrir það mikla samráð sem haft var við vinnslu áætlunarinnar. Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 var samþykkt á Alþingi 11. júní sl. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þakkar hér með öllum þeim sem skiluðu inn umsögn.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 12.03.2018–21.03.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.08.2018.

Málsefni

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í byggðamálum 2018-2024 kynnt í samráðsgátt Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 á samráðsgátt um opið samráð stjórnvalda.

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í byggðamálum 2018-2024 kynnt í samráðsgátt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 á samráðsgátt um opið samráð stjórnvalda. Frestur til að skila umsögnum til rennur út kl. 16.00 miðvikudaginn 21. mars 2018.

Áætlunin er unnin í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 þar sem kveðið er á um að áætlunin lýsi stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætluninni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða og að efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls.

Markmið byggðaáætlunar

Byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna, fjarskipta og umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti. Því er mikilvægt að samhæfa byggðasjónarmið sem mest við alla málaflokka hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum.

Byggðaáætlun setur fram eftirfarandi þrjú markmið:

A. Að jafna aðgengi að þjónustu.

B. Að jafna tækifæri til atvinnu.

C. Að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

Margvíslegar áherslur á sviði byggðamála eru tíundaðar í áætluninni sem eiga að leiða til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Alls eru 50 aðgerðir skilgreindar, sem heyra undir ábyrgðarsvið flestra ráðuneyta, auk þess sem mælikvarðar eru settir við hvert markmið. Fjárheimildir byggðaáætlunar verða nýttar til að fjármagna einstakrar aðgerðir, ýmist alfarið eða með samfjármögnun með ábyrgðaraðilum, eftir því sem fjárheimilir fjárlaga leyfa hverju sinni. Tillaga um skiptingu fjárheimilda byggðaáætlunar milli einstakra aðgerða og forgagnsröðun þeirra í því sambandi er enn í vinnslu.

Undirbúningur og samráð

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Ráðherra byggðamála fól Byggðastofnun að vinna áætlunina samkvæmt nýjum lögum með bréfi dags. 9. mars 2016. Að hálfu Byggðastofnunar var lögð áhersla á opinn mótunarferil og leitað var eftir viðhorfum til þess hvernig byggðaáætlun væri best hagað eftir nýjum lögum, sem og hvernig samspilið ætti að vera við sóknaráætlanir landshlutanna og áætlanir ráðuneyta.

Samráðsfundir hafa verið haldnir með samráðsvettvangi sjö landshluta, en hver samráðsvettvangur um sig er skipaður nokkrum tuga einstaklinga úr öllum geirum og svæðum landshlutans og móta sóknaráætlanir þeirra. Með þessum fundum hófst formlegt samráð sem síðan var ræktað á vefsíðu Byggðastofnunar þar sem gögn voru aðgengileg og allir gátu lagt fram tillögur.

Til þess að fá sýn á byggðaþróun frá utan að komandi aðila var Framtíðarsetur Íslands fengið til þess að greina sviðsmyndir fyrir búsetuþróun á landinu til ársins 2030 og voru niðurstöður kynntar á opnum fundi í Reykjavík 27. september 2016.

Drögum að byggðaáætlun var skilað til ráðherra í janúar 2017 eða um það leyti sem byggðamál voru færð í nýtt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórna. Haustið 2017 var skipaður verkefnishópur fulltrúa allra skrifstofa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fullvinna drög Byggðastofnunar. Endurbætt drög hafa síðan verið kynnt öllum ráðuneytum og eru nú sett fram í opið samráðsferli.

Frestur til umsagna

Frestur til að skila umsögnum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins rennur út kl. 16 miðvikudaginn 21. mars 2018. Nánari upplýsingar veitir Hólmfríður Sveinsdóttir í netfanginu holmfridur.sveinsdottir@srn.is. Vakin er athygli á því að umsagnir verða birtar opinberlega á vefsíðu þessari um leið og þeim hefur verið skilað.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Vilhjálmur Egilsson - 14.03.2018

Sæl.

Starfsemi háskóla á landsbyggðinni er afar mikilvæg fyrir þau samfélög sem þeir starfa í. Skólarnir veita nemendum menntun á sínum afmörkuðu starfssviðum og landsbyggðarháskólarnir hafa verið á undan í þróun fjarnáms meðal íslenskra háskóla. Þannig eru 80% allra nemenda Háskólans á Bifröst í fjarnámi. Háskólarnir á landsbyggðinni þjóna íslenskum nemendum um allt land og erlendis auk þess að mennta erlenda nemendur. Landsbyggðarháskólarnir hafa allir átt í fjárhagslegum erfiðleikum á undanförnum árum og verið í mikilli varnarbaráttu.

Í drögum að byggðaáætlun er fjallað um háskólamenntun á nokkrum stöðum. Í greinargerð er m.a. á bls. 24 rætt um áhyggjur af stöðu landsbyggðarháskólanna. En þegar litið er stefnumörkunarinnar sjálfrar t.d. á bls. 3,5 og 8 kemur ekkert fram um að efla þurfi landsbyggðarháskólana sérstaklega heldur er rætt um rannsóknsetur, aðstöðu til fjarnáms o.s.frv. Að því sem snýr að náminu má allt eins skilja að áherslan eigi að vera á að nemendur á landsbyggðinni eigi að geta sótt fjarnám til háskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Rekstur háskóla er mikilvæg atvinnugrein í landinu sem mun þurfa að vaxa á næstu áratugum. Það hlýtur að vera mikið byggðamál að þessi atvinnugrein vaxi kröftuglega á landsbyggðinni en verði ekki áfram einn af stóru togkröftunum til höfuðborgarsvæðisins. Háskólar á landsbyggðinni þurfa því að fá ótvíræðan stuðning í byggðaáætlun til að þróast, vaxa og sækja fram. Þjónustusvæði landsbyggðarháskólanna á ekki að einskorðast við landsbyggðina eða Ísland heldur þurfa þeir svigrúm til að geta farið í auknum mæli á alþjóðlegan markað og laðað til sín erlenda nemendur.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst

Afrita slóð á umsögn

#2 Gísli Halldór Halldórsson - 18.03.2018

Í tillögunni er þessi setning: "Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði við haldið."

Þetta þarf að íhuga betur í ljósi þeirrar öru þróunar sem nú er í stafrænni verslun. Beina þarf sjónum að því að öflug vörudreifing sé á hverjum stað þannig að íbúarnir geti verslað í næsta stórmarkaði eða öðrum verslunum og fengið vöruna senda eða sótt hana á ákveðinn stað í nágrenninu, á sem skemmstum tíma frá kaupum.

Ef þessi þjónusta á að ná til vöruflokka s.s. lyfja, áfengis og e.t.v. fleira gæti þurft lagabreytingar til að ná þessum markmiðum um sem besta vörudreifingu.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband sveitarfél Suðurnesjum - 19.03.2018

148.löggjafarþing 2017-2018

Þingskjal X-X mál.

Umsögn: Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Alþingi ályktar, sbr. lög nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaráætlun í byggðamálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gera fjárlaga hvers árs.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fagnar því að unnið sé að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Í drögum þeim sem til umsagnar kemur fram að byggðaáætlun sé ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggð og efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins allt.

Í kaflanum „framtíðarsýn og áskoranir“ eru áskoranir taldar upp en vert er að benda á að ekki er einu orði minnst á aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við áskorunum sem blasa við svæðum sem skilgreind eru sem Vaxtarsvæði. Lagt er til að bætt sé inn í byggðaáætlun hvernig bregðast eigi við til aðstoðar þeim sveitarfélögum sem takast á við mikla fólksfjölgun.

Eftirfarandi ábendingar eiga við kafla Markmið og mælikvarðar.

Kafli A - Jafna aðgengi að þjónustu.

Þegar kemur að því að meta mælikvarða geti biðtími eftir tíma hjá lækni verið góður mælikvarði. Á Suðurnesjum er biðtími eftir bókuðum tíma á heilsugæslustöð allt að 3 vikur.

Kafli B – Jafna tækifæri til atvinnu

Fram kemur í þeim kafla að jafna eigi aðstöðu millilandaflugvalla. Gott væri að skýra það með hvaða hætti gera ætti það. Er það t.d. með fleiri aðgerðum en að vinna tillögu um verðjöfnun á eldsneyti eins og fram kemur í B-10?

Kafli C – Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.

Inn í þessa uppsetningu mætti bætta einnig góðu aðgengi á grunnheilbrigðisþjónustu.

Í kafla sem merktur er A.10 – almenningssamgöngur um land allt, kemur fram að tímabil þess verkefnis sé frá 2019-2021. Sá tími er of stuttur ef það er markmið verkefnis að ná fram fjárhagslegri hagræðingu auk betri þjónustu. Meiri líkur eru á því að hægt sé að ná betri samninga með útboði þar sem samningstíminn er allt að sjö árum. Í útboðum gera verktakar ráð fyrir afskriftum af vögnum og með tilliti til tímaramma þá eru þrjú ár of stuttur samningstími og væri til þess fallinn að tilboð í akstur væri dýrari en ella.

Kafli A.13 Nærþjónusta við innflytjendur. Þessum kafla er fagnað, sérstaklega í ljósi þess að á Suðurnesjum hefur eftirspurn eftir vinnuafli verið mætt með vinnuafli erlendis frá. Hlutfall innflytjenda á Suðurnesjum var 19,06% árið 2017 og eru Pólverjar langfjölmennasti hópurinn. Hæst er hlutfallið í Sandgerðisbæ eða 21,6% en lægst í Vogum 14,93% .

Hlutfall innflytjenda eftir sveitarfélögum 1. janúar 2017

• Reykjanesbær 19,32%

• Grindavíkurbær 17,34%

• Sandgerðisbær 21,6%

• Sveitarfélagið Garður 20,32%

• Sveitarfélagið Vogar 14,93%

Miðað við þær áætlanir sem Isavia hefur sett fram um aukningu á farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll má búast við verulegri fjölgun starfa. Ekki er hægt að mæta þeirri fjölgun með náttúrulegum hætti og búast má því við því að hlutfalli innflytjanda á Suðurnesjum muni hækka enn frekar á komandi árum.

Kafli C1 – Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Markmið þessa kafla er m.a. að bregðast við fólksfækkun sóknaráætlunarsvæðum. Það getur hins vegar verið mikil áskorun að takast á við mikla íbúafjölgun á stuttum tíma.

Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á Suðurnesjum sem skýrist að miklu leyti af verulega auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Þannig voru íbúar Suðurnesja 21.560 árið 2014 en 25.800 í lok árs 2017. Í Reykjanesbæ sem er stærsta einstaka sveitarfélagið á Suðurnesjum hefur fjölgunin orðið 14.254 árið 2014 í 17.810 í lok árs 2017. Hlutfallslega er fjölgun íbúa á landinu er langmest á Suðurnesjum.

Íbúafjöldi landsins hefur frá árinu 2000 aukist um 19% eða um 53.480 manns. Meginhluti þessarar aukningar er á höfðaborgarsvæðinu og Suðurnesjum eða 64%. Fjölgun íbúa á Suðurnesjum á þessum tíma er 24%. Ef skoðuð eru árin 2013-2017 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 21%, meðan íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 11% og íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 8%. Á síðustu 24 mánuðum hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 15%.

Nýlega hafa fulltrúar sveitarstjórna á Suðurnesjum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa þar sem fólksfjölgun á svæðinu hefur verið langt umfram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun.

Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Af þeim sökum er lagt til að m.a. verði skoðað sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins. Má t.d. geta þess að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu meðan að íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.

Kafli C.9 – Náttúruvernd og efling byggða. Inn í þennan kafla Byggðaáætlunar mætti gjarnan setja inn nokkur orð um Jarðvanga (e.Geopark) en Geopark vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu, fræða og annast landið.

Hugtakið Geopark er skilgrein af alþjóðlegum samtökum Geoparka sem nefnast Global Geoparks Network og starfa þau undir verndarvæng UNESCO. Um 100 geoparkar eru aðilar að samtökunum í dag, þ.e. svæði svæði sem innihalda merkilegar jarðminjar og koma þeim á framfæri.

Kafli C.12. – Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana. Fram kemur að Markaðsstofur landshluta eigi að vera framkvæmdaaðili þessa verkefnis, sem er afar ánægjulegt og í anda m.a. Sóknaráætlunar. Ljóst er að tryggja þarf lágmarksfjárframlög til Markaðsstofa á Íslandi eigi þau að taka þessa verkefni að sér. Eins og staðan er í dag hefur það ekki verið gert og óvíst um rekstur Markaðsstofanna. Lagt er til að þetta verkefni verði hluti af verkefnum Sóknaráætlana.

Með tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 fylgir greindargerð. Lagt er til að allar tölulegar upplýsingar sem koma fram í greinargerð séu uppfærðar og fram komi með nákvæmari hætti frá hvað tíma tölulegu gögnin eru. Mikill munu getur verið t.d. á mannfjölda tölum sem safnað er saman í upphafi árs og í lok árs. Það er mikilvægt að halda þessu til haga svo lesandi geti glöggvað sig betur á samhengi.

Tölur um hagvöxt sem fram koma í greinargerð eru einnig orðnar nokkuð gamlar en þær eru frá 2009-2015. Spá um mannfjölda þarf einnig að uppfæra en þar kemur fram að í miðspá Hagstofu Íslands að gert er ráð fyrir að íbúar á Suðurnesjum verði 27.307 árið 2024 en skv. ársfjórðungstölum Hagstofu Íslands í lok árs 2017 eru íbúar á Suðurnesjum tæplega 26 þúsund.

Að lokum er tekið undir þau orð sem koma fram í drögum að Byggðaáætlun að markmið hennar sé að landið allt sé í blómlegri byggð þar sem landsmenn hafi aðgang að grunnþjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum, óháð efnahag og búsetu. Það verður hins vegar ekki gert með því að horfa aðeins á þau svæði sem búa við fækkun íbúa heldur að tryggja öllum íbúum aðgang að fyrrnefndum gæðum. Því ber að horfa líka til þeirra sveitarfélaga á landinu sem þurfa að takast á við mikla fjölgun íbúa.

Virðingarfyllst,

Berglind Kristinsdóttir

Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Jón Guðmundsson - 20.03.2018

Athugasemdir við tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Almennt: Í fyrst lagi er komið árið 2018 og fjárlög ársins þegar afgreidd og áætlunin getur því í fyrsta lagi orðið virk árið 2019.

Fyrir utan það að umhverfis og auðlindamál eru aftast í upptalningunni um að hverju byggðamál snúi þá er hlutur þeirra í stefnumótuninni afskaplega rýr.

Hér á eftir verða reifuð nokkur atrið sem gætu aukið vægi umhverfis og auðlindamála í byggðaáætluninni.

Kafli: Byggðamál

Upptalning á því að hverju byggðamál snúi er í setningunni „Þau snúa að eflingu, samfélaga. ……….. , og umhverfis- og auðlindamála“. Gerð er tillaga um að í stað orðanna „umhverfis- og auðlindamála“ komi „náttúrulegs umhverfis og sjálfbærri nýtingu auðlinda“

Kafli: Framtíðarsýn og áskoranir

Tillaga að viðbót

Mikilvæg undirstaða byggða er sá náttúrlegi auður sem þær nýta. Hvort sem um er að ræða fengsæl fiskimið vel gróið og frjósamt land í góðu ástandi eða sérstakt landslag eða aðrar náttúrulegar auðlindir sem þar er að finna. Til þess að byggðir fái þrifist er því mikilvægt að huga að varðveislu þessara auðlinda og að nýting þeirra sé sjálfbær svo komandi kynslóðir byggðalagsins geti einnig byggt sína afkomu á nýtingu þeirra. Það er því miður svo að víða um land hefur þessum auðlindum hnignað vegna ofnýtingar, og annarra áfalla. Þess vegna er ein mikilvægast áskorunin sem byggðirnar standa frami fyrir sú að tryggja að þessar auðlindir verði til staðar og að arðurinn af nýtingu þeirra verði sem mest eftir í viðkomandi byggð en sé ekki sogaður þaðan burt.

Kafli: Markmið og mælikvarðar

A: Jafna aðgengi að þjónustu

Einn liður í þeim áherslum sem upp eru taldar er

• „Orkukostnaður heimila verði jafnaður og starf eflt við uppsetningu á varmadælum.“

Án þess að í nokkru sé hallað á varmadælur sem aðferði til að bæta nýtingu raforku til hús hitunnar, þá er verið að þrengja úrlausnarkosti óþarflega mikið. Víða þar sem búskapur er fyrir hendi er hægt að nýta búfjáráburð og annan lífrænan úrgang til orkuvinnslu með loftfirrtu niðurbroti og metanmyndun. Einnig getur viðarkinding úr skógrækt verið valkostur annars staðar.

B: Jafna tækifæri til atvinnu:

Uppbygging innviða fyrir vinnslu orku og næringarefna úr lífrænum úrgangi/hráefnum (búfjáráburður, lífrænn úrgangur frá heimilum og atvinnurrekstri, seyra, ræktaður lífmassi) getur líka verið liður í því að styrkja grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnutækifæri.

Einn liður sem talinn er upp undir áherslum

• „Stuðlað verði að notkun á vistvænni orku fyrir bíla“ Þetta er óþarflega þröngt og er lagt til að í stað orðanna „fyrir bíla.“ komi „í stað jarðefnaeldsneytis.“

Lagt er til að bætt veriði við einum lið í mælikvarðanna þ.e.

• Aðgengi að vistvænu eldsneyti

C: Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land

Sérstakt að nær eingöngu séu taldir hér upp félagslegu þættirnir. Venjulega er talað um þrjár megin stoðir sjálfbærrar þróunar þ.e. efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar. Það hlýtur að vera mikilvægt að horfa til þeirra allra þegar stuðla á að sjálfbærri þróun byggða. Umhverfisþátturinn fær hér sorglega lítið vægi þó verður að meta viðleitnina sem felst í því að „Stefna að í stefnumörkun landshluta sé fjallað um loftslagsbreytingar…“ á því sviði sbr. upptalningu á áherslum. Þar hefði gjarnan mátt kveða skýrar að orði og hreinlega byrja þann lið á að segja að í stað þessa upphafs kæmi „Tryggt skal að í stefnumörkun……“ Aftan við þennan lið er lagt til að komi „ bættri nýtingu á lífrænum úrgangi bæði til vinnslu orku og aukins hringstreymis næringarefna.“

Það er mjög mikilvægt að taka inn í þennan kafla um sjálfbæra þróun, að stuðla þurfi að sjálfbærri nýtingu auðlinda innan hvers byggðalags. Byggðalag sem gengur á auðlindir sínar á sér ekki langra lífdaga auðið. Því þarf að byggja inn í þennan hluta vöktun á ástandi auðlinda og hvernig nýtingu þeirra er háttað.

Einn af mælikvörðum fyrir sjálfbæra þróun þarf að vera

• Ástand og nýting auðlinda

Jafnframt þarf að huga að efnahagslegri afkomu byggðanna og íbúa þeirra.

Aðgerðaáætlun. Hér er vísað til tölusettra liða aðgerðaáætlunarinnar

A.10: Hér er lagt til að bætt verði við setningu um nýtingu vistvænna orkugjafa í almenningssamgöngum.

A. 15: Bætt verði við eftirfarandi setningu. „Möguleikar á vinnslu orku úr lífrænum hráefnum og úrgangi verði nýttir og innviðir til þeirrar nýtingar byggðir upp“

B. 3: á eftir þessum lið komi nýr liður

B. Nýr: Stuðningur við nýtingu á lífrænum úrgangi til vinnslu orku og bætts hringstreymis næringarefna.

Í lífrænum úrgangi liggur orka sem t.d. má nýta í gegnum loftfirrta gerjun, sem myndar metan. Lífrænn úrgangur frá heimilum og margvíslegri vinnslu auk búfjáráburðar hentar afar vel til vinnslu orku. Í mörgum tilfellum veldur förgun á þessum úrgangur kostnaði hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Með því að vinna þennan úrgang má nýta bæði orkuna sem í honum er og eins koma næringarefnunum úr honum inn í ræktun og spara þannig tilbúinn áburð. Orkan á formi metans getur nýst sem eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis, til rafmagnsframleiðslu, til upphitunar eða sem orkugjafi í margskonar iðnaði.

C: Dálítið vandséð hvers vegna margt af því sem er hér undir en ekki undir öðrum liðum. Hversvegna er liðurinn C. 2 t.d. ekki B-liður. Það sem hér er talið upp til að stuðla að aukinni sjálfbærni byggða er margt hvert mjög góð verkefni en lúta töluvert einhliða að hinni félagslegu stoð sjálfbærrar þróunar. Hinum stoðunum þ.e. þeim efnahagslegu og umhverfislegu er ekki gert jafn hátt undir höfði. Margt af því sem gæti verið undir efnahagslegu stoðinni er undir B- lið aðgerðaráætlunarinnar og því meðtalið. Hins vegar verður umhverfislega stoðin alveg útundan í upptalningunni. Áherslu punkturinn (undir C lið) um loftslagsbreytingar nær ekki inn í aðgerðaáætlunina og er það miður, en endurspeglar samt það misræmi sem er oft á milli góðra orða og yfirlýsinga og raunverulegra aðgerða. Hér er því lagt til að bæta við nokkrum liðum til að staga í þetta áberandi gat sem er í aðgerðaráætluninni þegar kemur að loftslagsmálunum.

C. 16 (nýr): Sveitarfélög verði styrkt til að gera heildstæða landnýtingaráætlun þar sem m.a. verði stefnt að því að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda.

C. 17 (nýr): Uppbygging innviða til að nýta lifrænan úrgang til orkuvinnslu og bæta hringrás næringarefna.

Skoðaðir verði möguleikar á gaslögnum og miðlægri gashreinsun, þar sem nægjanlegt magn lífræns úrgangs er til staðar.

C. 18 (nýr): Sveitarfélögin verði styrkt til að bæta skráningu og vöktun á landnýtingu með sérstakri áherslu á loftslagsaðgerðir.

C. 19 (nýr): Á svæðum þar sem landgæði hafa rýrnað eða eru rýrnandi verði gert átak í að endurheimta fyrri landgæði með virkri þátttöku sveitarfélaganna. Meðal mögulegra aðgerða má nefna bætta beitarstýringu, tímabundinn niðurskurð búfjár, beinar landgræðslu aðgerðir og endurheimt votlenda.

C. 20 (nýr): Stutt verði við fullvinnslu afurða heima í héraði.

Undanfarin ár hefur í nafni hagræðingar átt sér stað umtalsverð samþjöppun úrvinnslu afurða t.d. frá landbúnaði. Mikilvægt er að snúa þessu við og efla staðbundna úrvinnslu afurða og nýta þannig frumkvæði og þekkingu heimamanna og auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og stuðla að því að meira af arði úrvinnslunnar verði eftir í héraði og draga úr óheyrilegum flutningu landshorna á milli með tilheyrandi umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið.

Afrita slóð á umsögn

#5 Ingibjörg St Sverrisdóttir - 20.03.2018

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Athugasemdir við tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2019

Samráðsgátt - 20. mars 2018

Hvatt er til þess að innviðir sem þegar eru fyrir hendi verði nýttir og styrktir og sérstök athygli er vakin á starfsemi bókasafna s.s. almennings- og skólasafna. Mikið samstarf er milli bókasafna í landinu og starfsemi þeirra er í flestum tilfellum mjög vel skipulögð. Safnkosturinn er skráður í eitt miðlægt bókasafnskerfi, gegnir.is, sem er rekið af Landskerfi bókasafna, ásamt leitarvélinni leitir.is sem leitar í margvíslegu stafrænu efni sem söfnin eiga og kaupa. Einnig má benda á Landsaðgang að stafrænum áskriftum, hvar.is, með aðgangi að völdu fræða og vísindaefni fyrir allar tölvur með íslenskar IP tölur, en bókasöfnin taka þátt í að greiða fyrir efnið. Þróunin innan bókasafnageirans undanfarin ár hefur verið aukið samstarf á sviði upplýsingatækni til að auðvelda landsmönnum aðgang að fagur¬bókmenntum og fjölbreyttu efni á sviði fræða og vísinda. Nýjasta verkefnið er Rafbókasafnið sem flest almenningsbókasöfn á landinu taka þátt í.

Athugasemdir:

A. Jafna aðgengi að þjónustu

Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra verði hvött til að skoða möguleikana á því að styrkja rekstur bókasafna, annarra safna, setra, og sýninga með sameiningu og samrekstri.

A.3 Efling rannsókna og vísindastarfsemi

Hér er mikilvægt að tryggja gott aðgengi að öflugri bókasafnsþjónustu og aðgengi að fjölbreyttum heimildum og gagnagrunnum.

Mikilvægt er að efla grunngerð og afl þessara svæðisbundnu rannsóknakjarna og stuðla að faglegum tengslum þeirra á milli og við háskóla, bókasöfn, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar rannsóknastofnanir, bókasöfn, þekkingar – og rannsóknasetur.

A.9 Verslun í strjálbýli

Þetta er skynsamlegt og gott verkefni. Vísað er í Merkur-verkefnið í Noregi, þar sem reynt er að styrkja dreifbýlisverslanir með því að bjóða upp á aðra þjónustu og m.a. talin upp bókasöfn. Hið rétta er að í norska Merkur-verkefninu er boðið upp á bóksölu, en ekki bókasöfn. Sérstök áhersla er lögð á staðbundið efni í sumum þeim verslunum sem sem taka þátt, og þá í samstarfi við norska bóksalafélagið. Hins vegar er efling bókasafna í dreifbýli mikilvæg. Það er t.d. hægt að gera með samstarfi almennings- og skólasafna, samstarfi við aðrar tegundir safna og símenntunarmiðstöðva, að bæta við þá þjónustu sem söfnin veita s.s. fyrir börn og eldri borgara, að vera upplýsingamiðstöð og þjónusta fyrir ferðafólk, veita nýsköpunarverkefnum stuðning, auk samstarfs við ýmis sérsöfn á svæðinu.

B.8 Fjarvinnslustöðvar

Þetta er afar jákvætt verkefni. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn rak tímabundið slíka fjarvinnslustöð í Amtsbókasafninu á Akureyri með styrk frá Alþingi, m.a. vegna stafrænnar endurgerðar íslenskra dagblaða á árunum 2007-2011. Safnið er tilbúið að taka þátt í slíku verkefni og vísar í þingsályktun nr. 36/143 um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi og skýrsluna Varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2017.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

landsbókavörður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Guðmundur Lúther Hafsteinsson - 20.03.2018

Sjá umsögn Þjóðminjasafns Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra SSNV - 21.03.2018

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavík

Norðurlandi vestra 20. mars 2018.

Efni: Umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 – 2024.

Samkvæmt tillögunni eru markið og mælikvarðar að:

A. jafna aðgengi að þjónustu

B. jafna tækifæri til atvinnu

C. stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

Til að ná ofangreindum markmiðum eru lagðar til 50 skilgreindar aðgerðir. Það er mat stjórnar SSNV að flestar aðgerðanna muni legga lóð á vogarskálarnar við að halda landinu í byggð. Munu nú verða nefndar þær mikilvægustu að mati stjónar SSNV. Í markmiðum A. er fjallað um að áfram verði unnið að

A.1 Ísland ljóstengt – er mikilvægt til að jafan aðstöðu íbúa til náms, vinnu og til upplýsinga. Þess ber þó að geta að mikill verðmunur er á inntaksgjöldum eftir því hvort er um að ræða þéttbýli eða dreifbýli.

A.2 Þjónustukort – gæti verð grunnur fyrir stjórnvöld til að skilgreina hvaða þjónusta telst grunnþjónusta sem landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að.

A.8 Jöfnun flutningskostnaðar vegna verslunar – er mikilvægt til að jafna samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þarna eru skilgreiningar svæða of þröngar. Nánast allur innflutningur endursöluvara fer í gegnum höfuðborgarsvæðið og því eiga fjarlægðartakmörk og fjöldatakmörk ekki við. Nær væri að miða við fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu til verslana á lansdbyggðinni.

A.9 Verslun í strjálbýli – mikilvægt verkefni en það þarf að styðja verslun í stjrálbýli á svipaðan hátt og gert er í Merkur verkefninu í Noregi eins og nefnt er í tillögunni. Í Merkur verkefninu í Noregi felst m.a. í fjárfestingarstuðningi og stuðningi við markaðsaðgerðir. Styrkur er veittur til að setja upp og endurnýja bensíndælur. Slíkur búnaður er ofanjarðar og einfaldara og ódýrara en niðurgreftrun á tönkum og auðvelt að færa úr stað.

A.10 Almenningssamgöngur um land allt – er mikilvægt, bæði vegna samgangna milli landshluta sem og innan landshluta. Landshlutasamtök hafa um nokkurra ára skeið rekið hluta almenningssamgöngukerfisins. Kerfið er vanfjármagnað og þar af leiðandi eru farþegagjöld há. Farþegum hefur farið fækkandi. Kerfið þarf að vera samkeppnisfært við einkabílinn en það er það ekki í dag.

A.11 Flug sem innanlandssamgöngur – hvatt er til þess að tekin verði upp „skoska leiðin“. Mikilvægt er að skilgreina út frá núverandi ferðavenjum fólks. Íbúar á Norðurlandi vestra ferðast mest á einkabílum eða með strætó til höfuðborgarinnar. Miða þarf við að ferðatími á bíl eða með strætó beint til höfuðborgarsvæðisins sé t.d. 3 klst. og að niðurgreiðsla innanlandsflugs taki mið af því.

A.14 Jöfnun orkukostnaðar – er mikilvægt til að jafna samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar bæði hvað varðar fólk og fyrirtæki.

A.16 Hagnýting upplýsingatækni til háskólanáms – menntunarstig er lægra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Fjarnemar eru líklegri til að búa áfram í sínu sveitarfélagi eftir nám en þeir sem fara annað til náms skv. rannsókn Háskólans á Akureyri.

Í markmiðum A.“ Jafna aðgengi að þjónustu“ er fjallað um að áfram verði unnið að þróun drefináms á framhaldskólastigi en engin aðgerð er sett fram til að ná því markmiði. Dreifnám þarf á öflugum stuðningi að halda.

B.1 Hraða þrífösun rafmagns – er mikilvæg til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja í dreifbýli annarsvegar og í þéttbýli hinsvegar.

B.2 Flutningskerfi raforku og bætt orkuöryggi - er mikilvæg til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja í dreifbýli annarsvegar og í þéttbýli hinsvegar.

B.3 Stuðningur við byggingu smávirkjana – mikilvægt vegna þess að smávirkjanir stuðla að aukinni verðmætasköpun í dreifbýli og möguleikum á annarri atvinnustarfsemi í tengslum við smávirkjanir. Ríkið þarf að móta afstöðu sína sem landeigandi á þjóðlendum til smávirkjana.

B.5 Nýsköpun í matvælaiðnaði – er mikilvæg fyrir landshlutan en hann byggir nánast öll verðmætasköpun í landshlutanum tengist matvælaframleiðslu. Mikilvægt er í því sambandi að efla nám í matvælagreinum hjá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

B.7 Störf án staðsetningar – Miklilvægt að fjölga störfum vel menntaðs fólks á landsbyggðinni og gætu störf án staðsetningar verið liður í því.

B.11 Fleiri flughlið inn í landið – mikilvægt fyrir atvinnulífið að fá fleiri flughlið inní landið, bæði vegna dreifingar ferðamanna en eins vegna flutninga til of frá landinu. Skoðað verði í því samhengi að Alexandersflugvöllur verði varavöllur fyrir Akureyrarflugvöll.

B.15 Mat á árangri af úthlutun byggðakvóta – mikilvægt að skoða byggðakvótakerfið. Stjórn SSNV leggur til að tillögum sem nefnd undir forystu Þórodds Bjarnasonar lagði fyrir ráðherra á síðasta ári verði komið í framkvæmd. Þó verður að horfa sérstaklega til viðkvæmra svæða sem ekki fá úthlutað byggðakvóta skv. þeim tillögum.

C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða – Norðurland vestra hefur lengi búið við fólksfækkun en á síðustu árum hefur þróunin snúið við. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við þá þróun. Sértæk verkefni geta stutt vel við þá þróun.

C.2 Brothætt byggðarlög – mikilvægt að verkefnunum fylgi meiri fjármunir en verið hefur og að hugmyndafræðin verði skoðuð m.t.t. hreinna dreifbýlissvæða.

C.3 Stuðningur við einstaklinga – námslán. – Mikilvægt er að horfa til möguleika fólks til náms. Í tillögum fyrrverandi menntamálaráðherra Illuga Gunnarssonar var gert ráð fyrir styrkjum til námsmanna. Útfæra þarf þær hugmyndir á þann hátt að raunverulegt jafnrétti verði til náms á Íslandi og þeir nemendur styrktir sem þurfa að flytja búferlum vegna náms. Hækkandi fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu er ógn við landsbyggðina í þessu samhengi. Námsmenn af landsbyggðinni eiga þess varla kost að fara til náms í höfuðborginni nema með miklum stuðningi foreldra. Í þessu samhengi er rétt að nefna að meðaltekjur eru lægstar á Norðurlandi vestra og möguleikar foreldra þar því minnstir til að geta aðstoðað börn sín í háskólanámi.

C.6 Húsnæðismál – Taka má upp svipað kerfi og er í Noregi en þar eru á sumum svæðum hreinar niðurgreiðslur á nýbyggingum húsnæðis. Lagt verði fram frumvarp til breytingar á lögum um almennar íbúðir sem geri ríkinu mögulegt að veita einstaklingum stofnstyrki til að byggja íbúðarhúsnæði á svæðum þar sem misgengi byggingarkostnaðar og söluverðs er mikið.

C.9 Náttúruvernd og efling byggða – mikilvæg er að náttúruvernd og efling byggða sé á forsendum heimamanna en byggist ekki á þeirri nýlenduhugsun sem komið hefur fram á síðustu árum þar sem náttúruvernd og framtíð byggða virðist eiga að ráðast af hagsmunum allra annarra en íbúa viðkomandi svæða.

C.12 Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana – verkefnið hefur fram til þessa verið vanfjármagnað. Mikilvægt að vanda til þessara áætlana og innleiðingar þeirra.

Þessu til viðbótar vill stjórn SSNV koma á framfæri að í Norsku byggðastefnunni felst m.a. að:

• á tilteknum svæðum er heimilt að endurgreiða tiltekna prósentu af stofnkostnaði nýrrar atvinnustarfsemi.

Stuðningurinn getur mestur orðið 35% af stofnkostnaði.

• almennt tryggingargjald í stærstu sveitarfélögunum t.d. Osló er 14,1% en ekkert tryggingargjald er í nyrstu

sveitarfélögunum. Tryggingargjaldið getur verið þarna á milli, allt eftir nánari reglum þar um. Talið mjög

örfandi fyrir iðnaðarstarfsemi og þjónustustarfsemi og aðra vinnuaflsfreka starfsemi.

• Tekjuskattur er mishár eftir svæðum

Um er að ræða þrjá þætti:

Sérstakur skattafsláttur sem nemur 15.000 NOK (187 þús ISK) í skattþrepi 1 og 30.000 NOK( 375 þús ISK) í

skattþrepi 2.

Tekjuskattprósentan er 3,5% lægri á aðgerðasvæðinu en annars staðar á landinu.

Hærra skattþrep er 2% lægra en annars staðar á landinu. Einstaklingur sem býr á aðgerðasvæðinu, þ.e.a.s.

Finnmörku eða einum af hinum 7 sveitarfélögunum í Norður-Troms, fær um 10% hærri nettó tekjur en sá sem

býr utan svæðis þegar allt er reiknað saman af persónubundnum ívilnunum.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bendir á að ofnagreindar aðgerðir hafa gefist vel í Noregi. Til þess að jafna samkeppnisstöðu landshlutans gagnvart höfuðborgarsvæðinu, sem nýtur þess að þar er nánast öll stjórnsýslan, langstærstu út- og innflutningsgáttir landsins telur stjórn SSNV að aðgerðir s.s. lægra tryggingargjald á tilteknum svæðum sem hafa búið við viðvarandi fólksfækkun og beinn stuðningur við að setja á stofn atvinnurekstur í landshlutanum stuðla að markmið þingsályktunartillögunar náist. Einnig telur stjórn SSNV að lægri tekjuskattur á einstaklinga og fyrirtæki á tilteknum svæðum sem búið hafa við viðvarandi fólksfækkun stuðli að bættri samkeppnisstöðu landshlutans og þar með þeim markmiðum sem sett eru fram í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun.

Virðingarfyllst,

f. h. stjórnar SSNV

__________________________________________

Björn Líndal Traustason,

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#8 Gísli Gíslason - 21.03.2018

Hafnasamband Íslands fagnar því að áhersla verði lögð á auknar landtengingar skipa í tengslum við orkuskipti í samgöngum. Vakin er á því athygli að landtengingu skipa megi skipta í tvennt: Annars vegar landtengingar sem miða við millispennukerfi og hins vegar landtengingar sem krefjast háspennu. Í dag eru flestar hafnir með einhverja útfærslu millispennukerfis og selja skipum og bátum rafmagn um þau kerfi. Hins vegar er háspennuvæðing landtenginga gríðarlegt verkefni og kostnaðarsamt, sem krefst aðkomu ríkis, orkusölu fyrirtækja, flutningsaðila og fleiri ef árangur á að nást. Samhliða því þarf að ákveða á hvaða höfnum háspennukerfi eru æskileg eða nauðsynleg og skoða hvort aðflutningur á raforku sé nægjanlega tryggur.

Í tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun mætti hins vegar fara meira fyrir almennri uppbyggingu innviða á sviði hafnarmála og stefnumótunar um hvaða hlutverki einstökum höfnum verður ætlað til framtíðar. Breytingar hafa orðið á fiskiskipum með fækkun togara og uppsjávarskipa, sem hafa einnig stækkað verulega. Þá hefur staðsetning fiskvinnslufyrirtækja og mjölbræðsla breyst sem hefur haft áhrif á þarfir hafna til mannvirkja. Samhliða þessu skiptir máli að tryggt verði að í smærri höfnum verði tryggt að seljendur afla hafi aðgang að sölukerfi, en fækkun fiskmarkaða getur haft enn frekari áhrif til samþjöppunar í sjávarútvegi, sem líklegt er að hefði neikvæð áhrif, einkum á smærri hafnir.

Þá eru fyrirséðar breytingar á stærðum flutningaskipa, sem aftur mun hafa áhrif á hafnarþarfir einstakra staða, og hugsanlega fækka þeim höfnum sem unnt verður að sigla til. Þá er ljóst að samgöngur á landi þurfa að taka tillit til flutningsþarfa fyrirtækja til útflutnings og innflutnings. Þessi atriði þarf augljóslega að skoða í samhengi við áætlun um byggðamál og samgönguáætlun.

Afrita slóð á umsögn

#9 Elva Gunnlaugsdóttir - 21.03.2018

Umsögn í viðhengi frá Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Landvernd - 21.03.2018

Sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Linda Margrét Sigurðardóttir - 21.03.2018

Tillaga að Byggðaáætlun 2018 – 2024. Umsögn Eyþings.

Eyþing lýsir yfir ánægju með framkomna tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun 2018 – 2024, sem samin er í samræmi við lög nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Framsetning tillögunnar er góð með fá og skýr markmið. Áherslur eru greinargóðar og áhugaverðar. Af nógu er að taka og auðveldlega má tína til fleiri áherslur og aðgerðir en almennt er vænlegra til árangurs að forgangsraða og einbeita sér að færri og skýrari áherslum. Hér verður því aðeins vikið að örfáum atriðum.

Ein af áherslum undir A-hluta er að „Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði við haldið.“

Í þessu sambandi er ástæða til að skoða einnig með hvaða hætti netþjónusta getur nýst sem verslunarmáti.

Í B-hluta er sett fram sem áhersluatriði „Þegar stofnað er til nýrrar starfsemi á vegum ríkisins verði skoðaðir kostir þess að staðsetja hana utan höfuðborgarsvæðisins.“

Lagt er til að í stað orðsins skoðaðir verði sett inn orðið metnir, en það orð hefur mun skýrari merkingu.

Lagt er til að eftirfarandi tveimur áherslum verði bætt inn í áætlunina:

• Stutt verði við starfandi háskóla á landsbyggðinni. Benda má sérstaklega á að Háskólinn á Akureyri gegnir gríðarlega mikilvægu og leiðandi hlutverki sem landsbyggðarháskóli. Um það vitna m.a. tölur um það hve hátt hlutfall útskrifaðra nemenda hans velur sér búsetu og störf á landsbyggðinni.

• Stutt verði við fullvinnslu afurða í héraði. Með því yrði frumkvæði og þekking heimamanna nýtt til að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og auka tekjumöguleika.

Þær aðgerðir sem tilgreindar eru undir aðgerðaáætlun gefa almennt ekki tilefni til athugasemda, enda verður að ætla að í þeim felist nægur sveigjanleiki til að laga þær að aðstæðum.

Gerð er þó athugasemd við skráða framkvæmdaaðila í þeim þremur aðgerðurm sem lúta að heilbrigðisþjónustu. Í A5 (fjarheilbrigðisþjónusta) og A6 (héraðslækningar) er framkvæmdaaðili skráður Þróunarmiðstöð/Þróunarstofa heilsugæslunnar. Nauðsynlegt er að sá aðili sem annast framkvæmd þessara mikilvægu verkefna sem lúta einkum að landsbyggðinni hafi góða þekkingu og yfirsýn á þeim aðstæðum sem þar eru.

Í A7 (fæðingarþjónusta og mæðravernd) vekur miklar efasemdir að Landspítalinn sé heppilegasti framkvæmdaaðili í því að skilgreina heilbrigðisþjónustu vegna meðgöngu og fæðinga á landsbyggðinni.

Lagt er til að framkvæmdaaðili verði Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk).

Að lokum er vakin athygli á að Sóknaráætlanir landshluta gegna mjög stóru hlutverki í byggðamálum og við framkvæmd byggðaáætlunar. Mikilvægt er að áfram verði haldið við að þróa og efla sóknaráætlanir. Eðlilegt er að þessi áhersla komi skýrt fram í byggðaáætlun.

F.h. Eyþings

Pétur Þór Jónasson

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#12 Fjórðungssamband Vestfirðinga - 21.03.2018

Umsögn send f.h. stjórnar Vestfjarðastofu ses

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir - 21.03.2018

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hólmfríður Sveinsdóttir

Vegna tillögu til þingsáætlunar um stefnumótandi byggðaáætlun.

Heilbrigðisþjónusta er ein grunnstoða hvers samfélags og getur ráðið miklu um ákvörðun fólks um framtíðar búsetu. Í dreifðari byggðum og fámennum þarf að skipuleggja heilbrigðisþjónustu með öðrum hætti en í þéttbýli, eðli málsins samkvæmt.

A.5 Fjarheilbrigðisþjónusta

Miklar framfarir hafa orðið í fjarheilbrigðisþjónustu á undanförnum árum enda er hún notuð í vaxandi mæli víða um heim. Sérstaklega kemur hún að góðu gagni þar sem erfitt er að sækja heilbrigðisþjónustu með hefðbundnum hætti vegna fjarlægða.

Fjarheilbrigðisþjónusta er ákveðin aðferð við framkvæmd heilbrigðisþjónustu til að efla og bæta við þá þjónustu sem fyrir hendi er, en er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir þá þjónustu sem þegar er í boði. Hins vegar getur hagnýting fjarheilbrigðisþjónustu, ef vel tekst til, skilað betri útkomu á ýmsum þáttum í heilbrigðiskerfinu.

Meginmarkmið með fjarheilbrigðisþjónustu er að auka og tryggja aðgengi sjúklinga að sérfræðiþjónustu og annarri heilbrigðisþjónustu sem er ekki aðgengileg í heimahéraði, ásamt því að styðja við ráðgjöf og samvinnu meðal heilbrigðisstarfsfólks. Með þessum hætti er unnt að auðvelda aðgengi að hvers kyns þjónustu og ráðgjöf án tillits til búsetu, tryggja frekara mat á ástandi sjúklings sem og meðferð, fá aðstoð við sjúkdómsgreiningar og meðferð þegar þess gerist þörf og draga úr óþægindum og kostnaði vegna ferðalaga, enda oft um langan veg að fara. Þannig getur fjarheilbrigðisþjónusta nýst í ríkum mæli við veitingu heilbrigðisþjónustu í umdæmum landsins og verið viðbótar þjónustuform til að styðja enn frekar við hlutverk á landsbyggðinni.

Notagildi fjarheilbrigðisþjónustu stuðlar að eftirfarandi markmiðum:


" Að auka gæði og öryggi bráðaþjónustu með bættu upplýsingaflæði og aðgengi að skjótri ráðgjöf.

" Að stuðla að bættu aðgengi sjúklinga á landsbyggðinni að sérhæfðri þjónustu og miðlun upplýsinga.

" Að auka gæði og samfellu í þjónustu, bæði innan og milli umdæma sem og milli stofnana.

" Að tryggja skilvirkari og hagkvæmari nýting á þjónustu við skjólstæðinga með öryggi og fagmennsku í fyrirrúmi.

" Að auðvelda árangursmælingar í framtíðinni.

Betri nýting mannauðs.- Betra aðgengi skjólstæðinga. - Straumlínulagaðri þjónusta.

A.6 Héraðslækningar

Hér er um að ræða heilbrigðisþjónustu sem veitt er í dreifbýli. Slík þjónusta felur í sér að heilbrigðisstarfsfólk þarf að hafa bæði almenna og yfirgripsmikla þekkingu til þess að geta tekist á við fjölbreytt heilbrigðisvandamál án mikils stuðnings frá sérhæfðum einingum. Einkenni þjónustunnar er að langt er á milli sjúklings og þjónustuaðila, sérstaklega þegar um sérhæfða heilbrigðisþjónustu er að ræða.

Til að nýta fjármuni heilbrigðisþjónustunnar sem best og tryggja örugga og góða þjónustu fyrir almenning þarf að auka samstarf milli heilbrigðisstarfsfólks og stofnana, tryggja aðgang heilbrigðisstarfsfólks að menntun og þjálfun og nýta tæknina til að þjónustan sé sem aðgengilegust og hagkvæmust fyrir alla aðila. Byggja þarf upp samfelldari greiningu og meðferð í héraði með einfaldara aðgengi að sérfræðiþjónustu, auka samskipti og samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og nýta þannig auðlindir heilbrigðisþjónustunnar betur. Tryggja þarf nýtingu bestu þekkingar og gagnreyndra starfshátta með bættu aðgengi að sí- og endurmenntun heilbrigðisstarfsfólks í dreifbýli. Lykilatriði er því að efla þarf fagmenntun allra þeirra starfsmanna heilbrigðisstofannan hvort sem það eru læknar, ljósmæður eða hjúkrunarfræðingar. Notandi heilbrigðisþjónustu kemur t.d á heilsugæslu til að fá heilbrigðisþjónustu og úrlausn við sínu erindi. Það fer eftir erindi hvort að læknir eða önnur starfstétt greiðir úr vandamálinu, jafnvel þverfagleg samvinna.

Varpa því fram hvort að það sé rétt að nota orðið hérðaslækningar, það sé fornt og eigi e.t.v ekki við lengur. Í lögum um heilbrigðisþónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustunnar og um skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi.

A.7 Fæðingaþjónusta og mæðravernd

Ef áfram verður unnið að því að fækka fæðingastöðum á landsbyggðinni þarf að tryggja að verðandi foreldrar hafi aðgang að styrk vegan ferða- og gistikostnaðs, uppihalds og síðast en ekki síst vegan vinnutaps. Gera má ráð fyrir að öryggi kvenna á landsbyggðinni sé ógnað með fækkun fæðingastaða þar sem að fagmenntun er ekki lengur á staðnum og þar með glatast glatast þekking og klínísk færni úr umdæminu og getur þannig skapað óþarfa hættu og óöryggi fyrir barnshafandi fjölskyldur. Tryggja þarf að barnshafandi konur hafi aðgang að ljósmóður. Áður en fæðingastöðum úti á landi var fækkað var Ísland meðal fremstu þjóða hvað varðar útkomu á mæðra- og burðarmálsdauða.

Sjúkraflutningar

Kalla eftir efnislegri umfjöllun og framtíðarsýn á fyrirkomulagi sjúkraflutinga ekki síst í ljósi þess þeirra stöðu sem er komin upp varðandi rekstur sjúkrabíla.

Við búum í einu strjálbýlasta landi heims og erfitt getur verið að halda uppi sjúkraflutningaþjónustu í dreifðari byggðum. Aðkallandi er að endurskoða fyrirkomulag á námi sjúkraflutninga og hefur Ísland dregist aftur úr viðmiðunarlöndum. Sjúkraflutningamenn gegna mjög mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu. Til þess er ætlast að þeir séu færir um að veita góða þjónustu, oft við krefjandi aðstæður. Hér á Íslandi getur verið um langar vegalengdir að ræða í sjúkraflutningum. Í þeim tilfellum getur skipt sköpum að hafa um borð t.d í sjúkrabíl vel menntaða og hæfa einstaklinga til að meta ástand sjúklingsins og bregðast við breytingum á því. Þrátt fyrir mikla ábyrgð og kröfur á vettvangi er grunnnámið í sjúkraflutningum á Íslandi einungis nokkrar vikur

Endurskoða þarf starfshlutfall og stöðu sjúkraflutningamanna einkum í dreifðum byggðum þar sem að algengt er að sjúkraflutningamenn eru í hlutastarfi og oft á tíðum ekki möguleiki á að fá fulla stöðu þrátt fyrir fulla menntun.

Mikilvægt er að áfram verði unnið að menntunarmálum sjúkraflutningamanna og skipulagningu sjúkraflutninga í landinu

Afrita slóð á umsögn

#14 Valdimar Össurarson - 21.03.2018

Mörg góð markmið eru sett í þessari áætlun. Eitt vantar þó algerlega, og er það ekki í fyrsta skipti sem stefnumótun eru svo njörfuð í samtíma og fortíð að gleymist að horfa til þeirrar tækni sem þegar er á þröskuldinum.

Nauðsynlegt er að í byggðaþróunaráætlun, sem og annarri áætlanagerð sem nú er á döfinni s.s. orkustefnu og umhverfisstefnu, verði hafðir í huga þeir möguleikar sem nú eru að opnast til nýtingar á stærstu orkuauðlind landsins; sjávarorku. Líkum hefur verið leitt að því að virkjanleg sjávarfallaorka við strendur Íslands sé meira en tvöfalt meiri en samanlögð orka vatnsfalla og jarðhita samkvæmt rammaáætlun. Tækni er nú að verða tiltækileg til nýtingar hægra sjávarfallastrauma, og er íslenskt fyrirtæki í forystu á því sviði. Valorka ehf hefur unnið að þróun minna uppfinninga í nær 10 ár og prófað íslenska hverfla með góðum árangri. Eina einkaleyfi íslensks hverfils er í mínum höndum, og verða frekari einkaleyfaumsóknir líklega lagðar fram á þessu ári. Nú er í smíðum hverfill af nýrri gerð sem fer í sjóprófanir á komandi sumri, bregðist styrkjaumhverfið ekki eina ferðina enn. Sá hverfill er stærsti hverfill landsins; 25 metra langur, en í fullri stærð verða þessir íslensku hverflar yfir 500 metra langir og langstærstu hverflar heims.

Ljóst er að tilkoma þessarar tækni mun breyta gríðarlega miklu í byggðamálum landsins, auk þess að skapa grundvöll fyrir nýrri tæknigrein og verðmætasköpun. Hverflinum er einkum ætlað að vinna orku úr annesjaröstum sem víða eru við landið; þó síst í grennd við höfuðborgarsvæðið. Orkumestu rastirnar eru á svonefndum "köldum svæðum"; þar sem kyndingarkostnaður er mestur og vandkvæði mest við orkuflutning og varðandi aðra orkuöflun. Vegna sjávarfallasveiflunnar er framleiðsla sjávarfallavirkjana fyrirsjáanlega sveiflukennd, og verður því ekki notuð fyrir raftæki án sveiflujöfnunar. Hinsvegar er mjög auðvelt og ódýrt að nota sjávarfallaorku til húshitunar, þar sem hita má vatn í stórum geymum; geyma þannig orkuna yfir dauða tímann og nýta vatnið til húshitunar. Hitunarorka er jú langstærsti hlutinn af orkunotkun heimila hérlendis.

Nauðsynlegt er því að í þessari áætlun verði tekið tillit til stöðu og möguleika þessarar tækni, sem mun vafalaust koma til á þeim tíma sem áætlunin tekur til. Ég læt höfundum eftir að orða þetta inn í stefnuna, en mun að sjálfsögðu veita frekari upplýsingar eftir þörfum.

Valdimar Össurarson, frkvstj Valorku ehf

s. 862 2345

Afrita slóð á umsögn

#15 Bændasamtök Íslands - 21.03.2018

Viðhengd er umsögn Bændasamtaka Íslands um drög að byggðaáætlun.

F.h. BÍ

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Jóna Björg Hlöðversdóttir - 21.03.2018

Frá Samtökum ungra bænda

Stjórn samtaka ungra bænda lýsa ánægju með þá byggðaáætlun sem nú liggur til kynningar, þar eru mörg mál sem samtökin hafa barist fyrir í gegnum árin, svo sem lok lagningar ljósleiðara, aukinni þrífösun rafmagns og hagstæðra landbúnaðarlána.

Stjórn telur þó rétt að benda á eftirfarandi atriði:

Vegna B.4 má benda á að æskilegt væri að vextir á lánum til bænda væru lækkaðir umtalsvert, auk þess að hækka lánshlutfall til samræmis við t.d. Í búðalán. Lánshlutfall hefur ekki verið hærra en 75% á landbúnaðarlánum og hækkun þess myndi auðvelda nýliðun í landbúnaði.

Vegna liðs B.17 bendir stjórn SUB á að mikilvægt er að rödd ungra bænda heyrist þegar eigendastefna ríkisins á bújörðum er rædd. Óskar stjórnin því eftir að koma að samstarfi um mótun eigendastefnunar, til þess ekki síst að auðvelda nýliðun á bújörðum.

Afrita slóð á umsögn

#17 Landsnet hf. - 21.03.2018

Meðfylgjandi er umsögn Landsnets vegna máls nr. S-32/2018.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Skipulagsstofnun - 21.03.2018

Sendi hér í viðhengi umsögn Skipulagsstofnunar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024.

Í umsögninni er fjallað um:

Vinnusóknar- og þjónustusvæði

Höfuðborgarstefnu

Svæðisskipulag fyrir svæði sóknaráætlana

Umhverfismat

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Aldís Hafsteinsdóttir - 21.03.2018

Bæjarfulltrúar Hveragerðisbær taka undir þau metnaðarfullu markmið sem lögð eru fram í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Ekki síst á það við um stefnuna sem fram kemur í áætluninni um uppbyggingu fjarvinnslustöðva á landsbyggðinni og störf án staðsetningar.

Í því ljósi vilja bæjarfulltrúar Hveragerðisbæjar benda á að Hveragerði er tilvalinn staður til fjarvinnslu og fyrir störf án staðsetningar, rétt er að geta þess að fá störf á vegum ríkisins eru í sveitarfélaginu en nálægð Hveragerðis við stjórnsýsluna í Reykjavík gerir alla verkstjórn og utanumhald um verkefni auðveldari um leið og markmiði um dreifðari stjórnsýslu yrði náð.

Almennt má segja að verði þessi verkefni að veruleika muni það hafa mikil áhrif á byggðaþróun í landinu og lífsgæði fjölmargar sem væru þá ekki lengur bundnir af höfuðborgarsvæðinu til búsetu.

F.h. bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar

Aldís Hafsteinsdóttir

Bæjarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#20 Eiríkur G Guðmundsson - 21.03.2018

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn frá Þjóðskjalasafni Íslands.

Með bestu kveðju

Eiríkur G. Guðmundsson

þjóðskjalavörður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Njörður Sigurðsson - 21.03.2018

Í umræðu um byggðamál hafa sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins ekki verið tekin með vegna nálægðar við stærsta þéttbýliskjarna landsins. Að sama skapi hafa þessi sveitarfélög ekki verið talin með í áætlunum um höfuðborgarsvæðið. Af þessum orsökum hafa þau að mörgu leyti orðið útundan þegar kemur að stefnumótun og áætlunum ríkisvaldsins. Í byggðaáætlun er að finna nokkur verkefni sem geta stutt við byggð í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins ef ríkisvaldið ákveður að beina þeim þangað. Undirritaður vill sérstaklega benda á að huga þarf að þessum sveitarfélögum eins og öðrum landshlutum í byggðaáætlun. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að byggja upp og styðja við atvinnustarfsemi í sveitarfélögum umhverfis höfuðborgarsvæðið eins og annarsstaðar á landinu. Nú sækja margir íbúar þessara sveitarfélaga vinnu til höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi sem felur í sér umtalsverðan kostnað og tíma í ferðalög til og frá vinnu. Ef möguleiki er að fjölga störfum á vegum ríkisins í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins næst umtalsverður sparnaður auk þess sem samfélögin verða sterkari heildir og fjölskylduvænni.

Sérstaklega vill undirritaður nefna að verkefni í köflum B.7 (störf án staðsetningar), B.8 (fjarvinnslustöðvar) og B.9 (fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land) falla vel að þeim sveitarfélögum sem staðsett eru umhverfis höfuðborgarsvæðið og mikilvægt að einnig sé hugað að þeim þegar kemur að þessum verkefnum. Fyrir tiltekin störf á vegum ríkisins getur nálægðin við höfuðborgarsvæðið, þar sem miðstöð stjórnsýslunnar er, verið mikilvæg þó ekki sé þörf á að hafa störfin á höfuðborgarsvæðinu, s.s. upp á verkstjórn, skipulag verkefna og annað sem kann að vera nauðsynlegt að sækja til höfuðborgarsvæðisins.

Þá er einnig vert að huga að því að íbúar sem búa í sveitarfélögum umhverfis höfuðborgarsvæðið og sækja vinnu þangað geti nýtt sér endurgreiðslu á ferðakostnaði til og frá vinnu eins og lagt er upp með í kafla B.6. Umtalsverður kostnaður fellur til vegna ferðalaga til og frá vinnu og ef hugmyndir um veggjöld á stofnleiðirnir út frá höfuðborgarsvæðinu verða að veruleika er ekki annað en sanngjarnt að komið verði til móts við aukinn ferðakostnað á einhvern hátt.

Afrita slóð á umsögn

#22 Sigrún Blöndal - 21.03.2018

Meðfylgjandi er umsögn SSA (Sambands sveitarfélaga á Austurlandi) um þingsályktunartillögu að stefnumótandi byggðaáætlun 2018 - 2024.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Signý Ormarsdóttir - 21.03.2018

Athugasemdir við Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 -2024. frá verkefnstjóra menningar hjá Austurbrú.

sjá meðfylgjandi viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Jóna Árný Þórðardóttir - 22.03.2018

Meðfylgjandi er umsögn Austurbrúar ses um byggðaáætlun.

Viðhengi