Samráð fyrirhugað 10.05.2022—24.05.2022
Til umsagnar 10.05.2022—24.05.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 24.05.2022
Niðurstöður birtar 19.08.2022

Drög að reglugerð um undanþágu frá banni við botnveiðum við lendingarstað fjarskiptastrengsins ÍRIS

Mál nr. 88/2022 Birt: 11.05.2022 Síðast uppfært: 19.08.2022
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Umsagnaraðilar sendu inn ábendingar um að skýra þyrfti betur þau svæði sem undanþágur gildi um. Voru því gerðar smávægilegar breytingar til að tryggja að alveg skýrt sé um hvaða svæði er að ræða, þegar kemur að undanþágum vegna tiltekinna veiðarfæra á tilteknum svæðum. Veitt er undanþága á þremur svæðum vegna línuveiða, en netaveiðar og veiðar með dragnót eru heimilaðar á tveimur svæðum, en hnit þessara svæða eru skilgreind í viðaukum með reglugerðinni.
Reglugerðin er aðgengileg á vefslóð:
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/0845-2022

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.05.2022–24.05.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.08.2022.

Málsefni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um undanþágu frá banni við botnveiðum við lendingarstað fjarskiptastrengsins ÍRIS. Umsagnarfrestur er til 20. maí 2022.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um undanþágu frá banni við botnveiðum við lendingarstað fjarskiptastrengsins ÍRIS.

Reglugerðardrögin eru til komin í tengslum við lagningu nýs sæstrengs frá Íslandi til Írlands (ÍRIS), og gerð nýrra fjarskiptalaga.

Í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga sem nú er í þinglegri meðferð á Alþingi, er að finna breytingartillögu þess efnis að heimilað verði að veita undanþágur í tilteknum tilvikum, frá banni við botnveiðum á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja í sæ. Í núgildandi fjarskiptalögum nr. 81/2003 er bann við botnveiðum á svæði sem tekur til mílufjórðungs beltis hvorum megin við fjarskiptastrengi og ekki gert ráð fyrir neinum undanþágum.

Samkvæmt breytingartillögunni er lagt til að gert verði mögulegt að veita undanþágu frá banni við botnveiðum þar sem fjarskipta-strengir liggja, í sérstökum tilvikum á afmörkuðum svæðum. Undanþága verði þó háð skilyrði um notkun veiðarfæra sem ekki eru talin líkleg til að raska áreiðanleika og öryggi viðkomandi fjarskiptastrengs, að teknu tilliti til aðstæðna. Sem dæmi má nefna að línuveiðar hafa verið taldar falla undir bann gildandi fjarskiptalaga, en slíkar veiðar þykja þó ekki í öllum tilvikum raska öryggi fjarskiptastrengja í sjó. Gert er ráð fyrir að ráðherra veiti sérstakar undanþágur, byggðar á hverju tilviki fyrir sig og að kveðið verði á um skilyrði fyrir slíkum undanþágum í reglugerð.

Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti hefur undirbúið drög að reglugerð, þar sem gert er ráð fyrir undanþágu, frá banni við botnveiðum, fyrir tilteknar tegundir veiðarfæra, byggt á lagastoð í 86. gr. nýrra fjarskiptalaga, en vonir standa til þess að ný fjarskiptalög verði samþykkt bráðlega á Alþingi, og þá vill ráðuneytið tryggja að drög að reglugerðinni séu tilbúin. Í þessum reglugerðardrögum er kveðið á um þær undanþágur sem heimilar verða yfir fjarskiptasæstrengsins ÍRIS, þar sem hann skarast við mikilvæg fiskveiðisvæði.

Ofangreindar breytingartillögur eiga rætur að rekja til þess að við undirbúning lagningar nýs sæstrengs frá Írlandi til Íslands (ÍRIS) reyndist heppilegasti lendingarstaður sæstrengsins þvera gjöful fiskimið. Var því leitað leiða til þess að draga úr líkum á að lagning fjarskiptastrengsins ÍRIS takmarki óhóflega og að óþörfu möguleika á fiskveiðum við lendingarstað strengsins. Samráð var haft við Farice og SFS um hvaða leiðir væru færar í því skyni.

Í ljósi þess að stefnt er að því að lagning sæstrengsins hefjist á komandi vikum, þykir rétt að setja drög að reglugerð í samráðsgátt sem fyrst, svo að hægt verði að samþykkja reglugerðardrögin, um leið og ný lög um fjarskipti hafa verið samþykkt, til þess að takmarka eins og kostur þann tíma sem ekki verður hægt að veiða á umræddu svæði, vegna botnveiðibanns í núgildandi fjarskiptalögum. Með því er leitast við að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum á sjávarútveg vegna lagningar hins nýja fjarskiptastrengs.

Umsagnarfrestur er til 20. maí 2022.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi - 24.05.2022

Viðhengi