Samráð fyrirhugað 10.05.2022—12.05.2022
Til umsagnar 10.05.2022—12.05.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 12.05.2022
Niðurstöður birtar 06.10.2022

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna stærri verkefna)

Mál nr. 89/2022 Birt: 10.05.2022 Síðast uppfært: 06.10.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Niðurstöður birtar

Frumvarp samþykkt sem lög nr. 76/2022 um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (hækkun hlutfalls endurgreiðslu).

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.05.2022–12.05.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.10.2022.

Málsefni

Breyting á lögum nr. 43/1999 í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála um eflingu alþjóðlega samkeppnishæfs stuðningskerfis við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram eftirfarandi áherslur varðandi breytingar á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi:

„Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“

Frumvarpið útfærir þessar áherslur með því að leggja til að verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði og teljast stærri verkefni og til lengri tíma njóti 35% hlutfalls endurgreiðslu af framleiðslukostnaði. Önnur verkefni njóta áfram 25% endurgreiðsluhlutfalls eins og verið hefur.

Til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu þurfa öll þrjú skilyrðin að vera uppfyllt.

1.Lágmarks framleiðslukostnaður.

Með frumvarpinu er lagt til að fyrsta viðmiðið verði tengt við skilgreindan framleiðslukostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með því er skilið á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna, samanber áherslur úr stjórnarsáttmála. Lagt er til að viðmiðið sé að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi sé að lágmarki 200 m.kr.

2. Verkefni til lengri tíma á Íslandi.

Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu sé gerð krafa um að framleiðsluverkefni sé til lengri tíma hér á landi þar sem tökudagar á Íslandi eru að lágmarki 30. Heimilt er að telja eftirvinnslu verkefnis á Íslandi í þeirri tölu.

3. Fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefni.

Með frumvarpinu er lagt til það þriðja viðmið, til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu, að fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu séu að lágmarki 50. Nær það jafnt til innlendra sem erlendra starfsmanna. Er með því greint á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna með hliðsjón af almennum efnahagslegum áhrifa verkefna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Lýður Árnason - 11.05.2022

Hækkandi endurgreiðsluhlutfall til kvikmyndagerðar eru fagnaðarefni.

Mæli þó með einni breytingu, sem sé þeirri að fella niður lágmarksviðmið kostnaðar. Það skapar mismunun sem kemur mest niður á innlendu kvikmyndagerðarfólki sem hefur að jafnaði minna bolmagn til fjármögnunar en útlend risafyrirtæki. Með því að fella niður þetta 200 milljóna króna lágmark sætu allir við sama borð án þess að hvatinn fyrir erlenda aðila til að koma hingað með verkefni sín yrði minni.

Kostnaðarauka við þessa breytingu tel ég lítinn eða engan þar sem hvatinn til að hækka kostnaðaráætlanir upp í lágmarksviðmiðið er augljós.

Takk fyrir mig.

Afrita slóð á umsögn

#2 Tómas Örn Tómasson - 11.05.2022

Góð tillaga sem vonandi verður að veruleika. Held reyndar að það þurfi að endurskoða lámarksfjölda tökudaga (en skv. frumvarpinu er miðað við 30 tökudaga) … Ef lagabreytingin á að ná í stóru verkefnin mætti frekar byrja á því, á meðan alvöru kvikmyndaver eru ekki til staðar í landinu, að miða við fjölda daga sem t.d. yfir 50 starfsmenn vinna í verkefninu. Undirbúningurinn er oft langur og mannfrekur þótt tökudagarnir sjálfir séu hlutfallslega fáir. Þegar reynsla er komin á viðbótar endurgreiðsluna mætti endurskoða þetta atriði og fara að miða við einhvern raunhæfan fjölda tökudaga, og er þá kannski komin einhver alvöru eftirspurn eftir kvikmyndaveri sem ræður við svona verkefni, sem þá fjölgað tökudögunum á Íslandi;)

…. bara smá hugmynd úr sal😜

Undirritaður er sagnfræðimenntaður kvikmyndatökumaður sem hefur unnið í kvikmyndagerð fá 1994.

Virðingarfyllst,

Tómas Örn Tómasson

www.tomastomasson.com

tomasorntomasson@gmail.com

Afrita slóð á umsögn

#3 Þóra Hallgrímsdóttir - 12.05.2022

Nefnd um endurgreiðslur skv. lögum nr. 43/1999 sendir inn eftirfarandi bókun úr fundargerð vegna fundar nefndarinnar í dag.

"Nýtt frumvarp til breytinga á lögum nr. 43/1999.

Á fundi nefndarinnar í dag, 12. maí 2022, var farið yfir efnisatriði frumvarps í samráðsgátt stjórnvalda um tillögur til breytinga á endurgreiðsluhlutfalli í 35% vegna verkefna sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þau þrjú skilyrði sem sett eru fram í 1. gr. frumvarpsins eru þau í fyrsta lagi að framleiðslukostnaður sem falli til við framleiðslu hér á landi nái að lágmarki 200 m.kr., í öðru lagi að tökudagar, eftir atvikum eftirvinnslutímabil, séu að lágmarki 30 dagar og í þriðja lagi að fjöldi starfsmanna sem vinni beint að verkefninu sé að lágmarki 50 talsins.

Nefndin bendir á þessu stigi aðallega á að ákvæðið þurfi að vera skýrara hvað varðar skilyrði tvö og þrjú. Í fyrrnefndri 1. gr. frumvarpsins telur nefndin að í athugasemdum með frumvarpinu séu takmarkaðar skýringar á því hvernig eigi að reikna dagafjölda umfram sérstaka tökudaga. Heimild til að reikna endurvinnslutímabil inn í þann dagafjölda er háð túlkun og telur nefndin ákvæðið þurfa að vera skýrara hvað þetta varðar.

Einnig er bent á að ekki sé skýrt við hvað sé átt með orðinu „starfsmenn“ í frumvarpinu. Þar á nefndin við að við túlkun á þriðja skilyrði ákvæðisins um 50 starfsmenn þurfi að vera skýrara hvort sé átt jafnt við launþega og verktaka, hvort starfshlutfall skipti máli eða hvað það þýði að vinna „beint að verkefninu“.

Nefndin telur til bóta að bæði þessi skilyrði séu skýrari í lagatexta og/eða athugasemdum og þar með meira gagnsæi fyrir umsækjendur sem og fyrir nefndina sem þarf að gæta þess við afgreiðslu sína að skilyrðin séu uppfyllt.

Einnig gerir nefndin athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins varðandi gildistöku og telur þurfa að skýra frekar hvort þau verkefni sem hafa þá þegar fengið vilyrði fyrir endurgreiðslu þegar lögin taka gildi geti sótt 35% endurgreiðslu að uppfylltum skilyrðum laganna þegar til útborgunar þeirra vilyrða kemur, eða hvort það séu einungis verkefni sem fái vilyrði eftir gildistöku laganna."

F.h. nefndarinnar,

Þóra Hallgrímsdóttir, formaður.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ólafur Jóhannesson - 12.05.2022

Þetta er hvetjandi frumvarp og afar jákvætt fyrir sívaxandi starfsgrein. Ég hef starfað við kvikmyndagerð í rúmlega tuttugu ár og vinn bæði með sjálfstæðum framleiðendum, sem og ungu fólki sem er að taka sín fyrstu skref í kvikmyndagerð.

Mín ósk varðandi frumvarpið, og það sem ég hef heyrt frá kollegum mínum er að þetta verði gert með þverskurðar-sniði. Að það verði 35% endurgreiðsla á öllum verkefnum óháð upphæðarviðmiði í framleiðslukostnaði.

Grasrótin að stórum verkefnum á Íslandi, liggur hjá óháðu kvikmyndagerðarfólki og ekki síður hjá ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í starfsgreininni. Þessir aðilar eru baklandið og gríðarlega mikilvægur hlekkur í að undirbúa fólk fyrir stærri verkefni oftar en ekki í verkefnum undir nefndu viðmiði (200 millj. kr.).

Að hafa 35% endurgreiðsluhlutfall á öll kvikmynda-verkefni myndi ekki einungis gæta að jafnræði í starfsgreininni heldur einnig margfalda fjölda stærri verkefna í framtíðinni.

Afrita slóð á umsögn

#5 RVK Studios ehf. - 12.05.2022

Tökum undir alla umsögn #3 frá Þóru Hallgrímsdóttur. Til að meta breytingarnar þyrfti að skýra betur skilyrðin í greinum 2-3.

Þá viljum við einnig leggja til breytingu á 2.gr. varðandi verkefnatímann, að auk eftirvinnslu verði heimilt að telja með lágmarks dagafjölda formlegs undirbúnings (e. pre-production) enda stór og mikilvægur hluti framleiðsluferlisins unninn á þeim tíma.

Af gefnu tilefni. Við gerum athugasemd við umsögn #2 frá Tómasi Tómassyni varðandi “vöntun á alvöru kvikmyndaveri á Íslandi”. RVK Studios rekur kvikmyndaver í Gufunesi sem hefur vakið athygli víða um heim, sinnt fjölda erlendra verkefna og þykir aðstaðan með þeim betri í Evrópu.

Fh. RVK Studios

Baltasar Kormákur

Afrita slóð á umsögn

#6 Tómas Örn Tómasson - 12.05.2022

Það voru vanhugsuð skrif hjá mér að segja að ekkert alvöru kvikmyndaver væri á Íslandi, því vissulega er kvikmyndaverið í Gufunesi alvöru. Ég biðst því afsökunar þessum ummælum mínum.

Virðingarfyllst,

Tómas Örn Tómasson

Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök iðnaðarins - 12.05.2022

Meðfylgjandi er umsögn Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og Samtaka iðnaðarins (SI) um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna stærri verkefna), mál nr. 89/2022.

Viðhengi