Umsagnarfrestur er liðinn (27.05.2022–10.06.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Í drögum að þingsályktunartillögu um fyrstu opinberu málstefnuna um íslenskt táknmál er staða íslenska táknmálsins skýrð og er hún unnin í samræmi við drög að íslenskri málstefnu.
Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Íslenska ríkið og sveitarfélög skulu stuðla að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu táknmálsfólks.
Drög þessi voru unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra með víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Táknmálssamfélag var boðað til umræðufundar þar sem drögin voru rýnd og tekið var tillit til athugasemda er komu fram á fundinum.
Þá taka drög þessi mið af lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030 og þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.
Áherslur í málstefnum minnihlutamála geta verið ólíkar áherslum í málstefnum meirihlutamála og byggt á öðrum forsendum. Málstefnan sem hér er lögð fram tekur til fimm meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins ÍTM:
A. Jákvætt viðhorf er kjarni málstefnu ÍTM og grundvöllur jafnra tækifæra
B. ÍTM í máltöku táknmálsbarna er lykillinn að framtíðinni
C. Rannsóknir á ÍTM skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta
D. Jöfn þátttaka í íslensku þjóðlífi fæst með fjölgun umdæma ÍTM
E. Lagaumhverfi á að tryggja stöðu ÍTM
Málstefnan felur í sér áhersluþætti innan hverrar meginstoðar. Til að tryggja framkvæmd áhersluþátta og að markmið málstefnunnar náist hefur verið útbúin aðgerðaáætlun. Sú áætlun miðast eingöngu við þær aðgerðir sem koma þurfa til framkvæmda á næstu þremur árum en að þeim liðnum verður málstefnan endurskoðuð. Sú endurskoðun kallar á nýja aðgerðaáætlun. Þar sem ÍTM er mál í útrýmingarhættu er afar brýnt að ríki, sveitarfélög og almenningur allur leggist á eitt við framkvæmd og eftirfylgni þessarar málstefnu.
Íslensk málnefnd lýsir ánægju með drög að tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls. Tími er kominn til að Alþingi móti skýrari stefnu um stöðu táknmáls í samfélaginu og gott samstarf hefur verið með Íslenskri málnefnd og Málnefnd um íslenskt táknmál. Enn fremur er samhljómur með þessum drögum og drögum að íslenskri málstefnu 2021-2030.
Íslensk málnefnd
Góðan daginn
Í viðhengi er umsögn Hugvísindasviðs Háskóla Íslands um Tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls (Mál nr. 90/2022).
Kær kveðja
Ólöf Garðarsdóttir
ViðhengiÉg fagna því að aðgerðaráætlun, sem og þingsályktunartillögunni um málastefnu íslensks táknmáls sé nú senn að verða að veruleika. í viðhengi er að finna nokkur orð um aðgerðaráætlun sem mér finnst vanta og / eða megi vera skýrari.
ViðhengiÞað er ánægjulegt að sjá ný drög að tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun sem ætlað er að tryggja áframhaldandi líf málsins. Ég lýsi yfir stuðningi við fimm meginstoðir málstefnunnar. Í viðhengi er umsögn mín um málstefnuna og ítrekuð nokkur atriði sem ég vil leggja sérstaka áherslu á.
Kveðja Valgerður Stefánsdóttir
ViðhengiGóðan dag
Í viðhengi má finna umsögn frá leikskólanum Sólborg varðandi tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls.
Bestu kveðjur,
Guðný Björk Þorvaldsdóttir
ViðhengiUmsögn landssamtakanna Þroskahjálp er hér í viðhengi
ViðhengiGóðan dag, hér kemur umsögn frá Gerði og Júlíu, starfsmönnum Samskiptamiðstöðvar.
ViðhengiUmsögn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um mál nr. 90/2022: „Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls“.
Varðveisla og efling íslensks táknmáls (ÍTM) er menningarlegt þjóðþrifamál; lýtur að mikilvægum þætti íslenskrar sögu og menningar. Jafnframt er tungumálið lifandi samskiptatæki og þarf að geta gegnt því hlutverki sem best, vera nothæft á sem flestum notkunarsviðum og njóta virðingar og velþóknunar, ekki aðeins meðal táknmálsfólks heldur meðal alls almennings.
Ekki er víst að almenningur geri sér alveg ljóst hve geysilega viðkvæm staða ÍTM er í raun, þrátt fyrir lagalega viðurkenningu á Íslandi sem minnihlutamál, skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011.
Málsamfélag ÍTM er afskaplega fámennt, skiptir aðeins fáeinum hundruðum. Þá hefur sú þróun að foreldrar hafa oft kosið að láta reyna á kuðungsígræðslu, hjá börnum sem fæðast með litla eða enga heyrn, orðið til þess að börn sem ella hefðu bæst við málsamfélag ÍTM taka íslensku sem fyrsta mál í sinni máltöku en hafa e.t.v. ekki fengið að láta reyna nægilega á máltöku ÍTM.
Það væri ástæða til þess að gera þessari mjög svo viðkvæmu stöðu nánari skil í þingsályktun/aðgerðaáætlun. Það væri líka e.t.v. ástæða til að hnykkja á því að önnur smá málsamfélög á Íslandi, þ.e. með aðeins nokkur hundruð manns, á borð við t.d. portúgölskumælandi, eða rúmenskumælandi, eru í allt öðrum sporum þegar þess er gætt að heilu löndin/ríkin/svæðin erlendis standa á bak við þau tungumál. Þau eru því ekki í hættu þótt fáir tali þau á Íslandi. En ÍTM er hvergi notað að neinu marki nema einmitt hér á Íslandi og þess vegna þarf sérstaklega að huga að því hérlendis að það lifi og dafni – og það er okkar ábyrgð sem hér búum.
Greinilegt er að frekari aðgerða er þörf til styrktar ÍTM, í framhaldi af samþykkt laganna nr. 61/2011. Til viðbótar þeim röksemdum, sem koma fram í aðgerðaáætlun og þingsályktunartillögunni sem eru til umsagnar, má benda á athugun sem gerð var með viðtölum við fyrrverandi formenn Félags heyrnarlausra og eina fyrrverandi þingkonu úr hópi táknmálsfólks. Umræðuefnið var hvort lagasetningin hefði svarað væntingum þeirra. Niðurstaðan var sú að löggjöfin ein og sér er ekki nægileg. Vissulega hefði hún skipt miklu máli hvað varðar það að hafa fyrsta mál sitt viðurkennt lagalega sem alvöru tungumál sem beri að varðveita og efla á Íslandi, en hins vegar hefði staða tungumálsins í samfélaginu ekki náð að styrkjast sem skyldi þrátt fyrir lagasetninguna. Sagt er frá þessu í bókarkaflanum:
Valgerður Stefánsdóttir, Ari Páll Kristinsson og Júlía G. Hreinsdóttir. 2019. The Legal Recognition of Icelandic Sign Language: Meeting Deaf People’s Expectations? The Legal Recognition of Sign Languages. Advocacy and Outcomes Around the World. Maartje De Meulder, Joseph J. Murray og Rachel McKee (ritstj.). Bristol: Multilingual Matters. 238-253.
(Í bókarkaflanum er raunar líka rakin saga og undirbúningur þess að lögin voru sett árið 2011.)
Það er afskaplega góð hugmynd að gera dag íslenska táknmálsins að fánadegi, líkt og er um dag íslenskrar tungu. Það myndi minna á tilvist og gildi ÍTM í samfélaginu og m.a. þá staðreynd að ÍTM er hitt tungumálið sem hér hafa verið sett sérlög um.
Liður C í þingsályktunartillögunni ber yfirskriftina Rannsóknir á ÍTM skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta. En í raun er það svo, eins og kemur í reynd í ljós þegar textinn er lesinn, að það sem skiptir máli er fleira en rannsóknirnar, þ.e. söfnun og varðveisla gagnanna – sem rannsóknir síðan snúa að. Hér mætti velja nákvæmari yfirskrift/einkunnarorð, t.d.: Gagnasöfnun, útgáfa og rannsóknir á ÍTM skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta.
Í lið A.5 í aðgerðaáætluninni segir: „Málnefnd um íslenskt táknmál þarf að sjá til þess að fulltrúar frá nefndinni, Hlíðaskóla, Samskiptamiðstöð og Menntamálastofnun komi að vinnslu námsefnisins svo tryggja megi jákvæð viðhorf til íslensks táknmáls.“ Það er e.t.v. óraunhæft að ætla að aðkoma þessara aðila „tryggi jákvæð viðhorf“. Sennilega væri raunhæfara að tala um að tilgangurinn sé að gæta þess að í vinnslu námsefnisins verði hugað að sjónarmiðinu um mikilvægi jákvæðra viðhorfa til ÍTM.
ViðhengiFélag heyrnarlausra fagnar tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslenska táknmálsins og hvetur til að málstefnan verði í framhaldinu endurskoðuð með reglulegu millibili til uppfærslu samfara þróun tungumálsins og samfélagsins í heild. Vel gert og tímabært að móta skýra stefnu í samstarfi við íslenska málnefnd og málnefnd um íslenska táknmálið.
Félag heyrnarlausra
Málnefnd um íslenskt táknmál lýsir yfir ánægju með þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls.
MÍT hefur unnið að því að efla málumhverfi táknmálsbarna og er því málstefnan kærkominn stuðningur við þennan málstað, til að vernda íslenskt táknmál sem er í útrýmingarhættu og því er mjög brýnt að málstefnan verði samþykkt.
Mikilvægt er að málstefnan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir og að aðgerðaráætlunin verði fjármögnuð að fullu um leið og hún verður samþykkt svo hægt sé að sinna öllum þeim verkefnum sem þar fram koma.
Brýnt er að opinberir viðburðir séu á íslensku táknmáli til að stuðla að sýnileika málsins og þátttöku táknmálsfólks sbr. D 1 í aðgerðaráætlun.
Þar sem málstefnan er fyrsta sinnar tegundar hvað varðar íslenskt táknmál er nauðsynlegt að tryggja að hún verði endurskoðuð reglulega.
Málnefnd um íslenskt táknmál
Sjá meðfylgjandi umsögn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Viðhengi