Samráð fyrirhugað 07.06.2022—30.09.2022
Til umsagnar 07.06.2022—30.09.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 30.09.2022
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum

Mál nr. 96/2022 Birt: 07.06.2022 Síðast uppfært: 19.08.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 07.06.2022–30.09.2022. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum.

Á vegum innviðaráðuneytisins hefur farið fram endurskoðun á reglugerð nr. 592/1994 um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum. Reglur þessar byggja á Norðurlandareglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum sem gerðar voru í samvinnu á milli siglingamálayfirvalda í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð, flokkunarfélagsins DNV í Noregi og Iðntæknistofnunarinnar í Finnlandi.

Með drögum að reglugerð, sem nú er kynnt er leitast við að uppfæra, einfalda og samræma reglur sem eiga við þessi skip þannig að öll viðeigandi ákvæði séu í einni gerð. Helstu breytingar sem lagðar eru til á núgildandi reglum eru:

1. Ákvæði nokkurra reglugerða eru sameinuð í eina heildarreglugerð, sjá 8. gr. nýju reglugerðarinnar. Þannig eru ákvæði um hönnun, smíði, björgunarbúnað, fjarskiptabúnað, lyf og læknisáhöld, o.fl. á einum stað fyrir allar tegundir báta með mestu lengd allt að 15 metrum. Hugmyndin er sú að útgerðarmaður báts geti haft yfirlit yfir allar reglur varðandi hönnun, smíði og búnað síns báts á einum stað.

2. Núgildandi reglugerð um smábáta (reglugerð um um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum, nr. 592/1994) gildir niður í 6 metra lengd, mælt milli stafna. Í nýju reglugerðinni eru engin neðri mörk en miðað er við, fyrir báta sem eru styttri en 6 metrar, að reglugerðin gildir eingöngu um báta sem notaðir eru í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum.

3. Norðurlandareglunar, þ.e. sá hluti sem gildir um vinnubáta, sem eru kjarninn í núgildandi reglugerð, verða það áfram í nýju reglugerðinni og með sömu uppbyggingu. Norðurlandareglunum, sem eru í viðaukum II og III, hefur verið breytt lítillega til að einfalda regluverið og gera það skýrara og til að auka sveigjanleika.

4. Í nýju reglunum er vísað talsvert til fjölþjóðareglna og reglna viðurkenndra flokkunarfélaga en það er til einföldunar auk þess að auka sveigjanleika.

5. Ákvæði um björgunarbúnað smábáta er nú í viðauka IV í nýju reglugerðinni. Leitast hefur verið við að halda sömu uppbyggingu og í VII. kafla reglugerðar nr. 122/2004 um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd en sú uppbygging fylgir uppbyggingu Höfðaborgarsamþykktarinnar frá 2012.

6. Meðal nýmæla í nýju reglugerðinni eru viðbótarkröfur fyrir háhraðafarþegabáta (RIB-báta) og eru þær í viðauka VI. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað nokkur slys á þessum bátum og ályktað um búnað og starfsemi bátanna og er tilgangurinn með þessum viðbótarkröfum að gera tillögur til úrbóta í þessu efni.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.