Umsagnarfrestur er liðinn (07.06.2022–30.09.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum.
Á vegum innviðaráðuneytisins hefur farið fram endurskoðun á reglugerð nr. 592/1994 um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum. Reglur þessar byggja á Norðurlandareglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum sem gerðar voru í samvinnu á milli siglingamálayfirvalda í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð, flokkunarfélagsins DNV í Noregi og Iðntæknistofnunarinnar í Finnlandi.
Með drögum að reglugerð, sem nú er kynnt er leitast við að uppfæra, einfalda og samræma reglur sem eiga við þessi skip þannig að öll viðeigandi ákvæði séu í einni gerð. Helstu breytingar sem lagðar eru til á núgildandi reglum eru:
1. Ákvæði nokkurra reglugerða eru sameinuð í eina heildarreglugerð, sjá 8. gr. nýju reglugerðarinnar. Þannig eru ákvæði um hönnun, smíði, björgunarbúnað, fjarskiptabúnað, lyf og læknisáhöld, o.fl. á einum stað fyrir allar tegundir báta með mestu lengd allt að 15 metrum. Hugmyndin er sú að útgerðarmaður báts geti haft yfirlit yfir allar reglur varðandi hönnun, smíði og búnað síns báts á einum stað.
2. Núgildandi reglugerð um smábáta (reglugerð um um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum, nr. 592/1994) gildir niður í 6 metra lengd, mælt milli stafna. Í nýju reglugerðinni eru engin neðri mörk en miðað er við, fyrir báta sem eru styttri en 6 metrar, að reglugerðin gildir eingöngu um báta sem notaðir eru í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum.
3. Norðurlandareglunar, þ.e. sá hluti sem gildir um vinnubáta, sem eru kjarninn í núgildandi reglugerð, verða það áfram í nýju reglugerðinni og með sömu uppbyggingu. Norðurlandareglunum, sem eru í viðaukum II og III, hefur verið breytt lítillega til að einfalda regluverið og gera það skýrara og til að auka sveigjanleika.
4. Í nýju reglunum er vísað talsvert til fjölþjóðareglna og reglna viðurkenndra flokkunarfélaga en það er til einföldunar auk þess að auka sveigjanleika.
5. Ákvæði um björgunarbúnað smábáta er nú í viðauka IV í nýju reglugerðinni. Leitast hefur verið við að halda sömu uppbyggingu og í VII. kafla reglugerðar nr. 122/2004 um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd en sú uppbygging fylgir uppbyggingu Höfðaborgarsamþykktarinnar frá 2012.
6. Meðal nýmæla í nýju reglugerðinni eru viðbótarkröfur fyrir háhraðafarþegabáta (RIB-báta) og eru þær í viðauka VI. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað nokkur slys á þessum bátum og ályktað um búnað og starfsemi bátanna og er tilgangurinn með þessum viðbótarkröfum að gera tillögur til úrbóta í þessu efni.
1. Hafsvæði STK kemur víða fyrir í drögunum, það á ekki við lengur þar sem STK er löngu aflagt, er hafsvæði A1.
2. 6. Regla “Skoðanir”. Gerum athugasemd við lið (1), seinni málsgrein, að stjórnvöld geti veitt annaðhvort skoðunaraðilum sem sérstaklega eru tilnefndir til þess eða stofnunum viðurkenndum af þeim umboð til að annast eftirlit og skoðanir. Þarna þarf að koma skýrt fram að eingöngu faggiltar skoðunarstofur eða flokkunarfélög megi annast eftirlit og skoðanir.
Gerum einnig athugasemd við lið (2) að stjórnvöldum sé heimilt að veita útgerðarmönnum vinnubáta, annarra en farþegabáta, eða skipstjóra í þeirra umboði, heimild til að annast skoðanir. Í okkar huga kemur ekki til greina að opna á slíkt, eingöngu faggiltar skoðunarstofur eða flokkunarfélög ættu annast skoðanir. Við erum búin að vera lengi í skoðunum og komum aftur og aftur að bátum/skipum þar sem ekki er rétt gengið frá búnaði um borð, t.d. fangalínu gúmmíbjörgunarbáta, losunarbúnaði björgunarbáta og svo framvegis sem gerir það að verkum að viðkomandi búnaður virkar ekki og ógnar öryggi sjófarenda.
3. 17. Regla. Skoðunarskýrslur. Öll skýrslugerð er að færast í rafrænt form þannig að við getum ekki séð að skoðunarskýrslur á pappírsformi verði skildar eftir um borð heldur sér maður það fyrir sér að þær verði sendar á rafrænu formi, annað hvort með tp. eða inn á “Mínar síður” hjá Samgöngustofu þar sem útgerðarmenn hafi aðgang að þeim.
4. Þar sem farið er fram á tvær hosuklemmur á lagnir má bæta við að í stað tveggja hosuklemma má setja eina tvöfalda. Ein tvöföld hosuklemma er betri en tvær einfaldar.
5. Í V-12 – Vistarverur í lið 3.2 er ekki gott að krefjast þess að það sé hæfiulega stór heimiliskælir þar sem í mörgum minni bátum sem róa eingöngu dagróðra er ekki pláss fyrir kæliskáp og þar sem einn maður er um borð hefur hann með sér nesti fyrir daginn. Þessi liður þarf að vera valkvæður ekki krafa. Varðandi lið 4.2 Salerni þá er í núverandi reglum gerður greinamunur á farþegabátum og vinnubátum þar hljóðar liður 1.3 svona “Í bátum, lengri en 10 metrar að mestu lengd, sem ekki eru notaðir til farþegaflutninga er ekki nauðsynlegt að salerni sé í sérstöku rými með læsanlegri hurð. Heimilt er að nota ferðasalerni á þessum bátum. Þó skal þess gætt að salernið sé vel loftræst og aðskilið frá matargeymslum.]“. Við teljum að þessi liður verði að vera áfram inni á þeim forsendum að í mörgum þessara báta, sér í lagi minni báta 10-12 m, er ekki pláss fyrir salerni í sérstöku rými með handlaug og rennandi vatni. Okkar reynsla er sú að í þessum bátum er salernið bara upp á punt, er aldrei notað.
Liður 6. Ferskvatnsgeymar þurfa að okkar mati að vera valkvæðir. Það er sama og með lokað salerni og heimiliskæli, plássið er oft ansi lítið og hafa men bara með sér vatn á flöskum.
Guðgeir Svavarsson
Skipasmíðameistari
Meðf. er umsögn sem send er f.h. Gentle Giants ehf. og Ribsafari ehf.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn ÖBÍ réttindasamtaka.
ViðhengiGóðan dag,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að reglugerð um smíði, hönnun og búnað skipa með mestu lengd allt að 15 metrum.
Með góðum kveðjum
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiUmsögn Samtaka iðnaðarins (SI) og Samtaka skipaiðnaðarins (SSI) er meðfylgjandi í viðhengi.
ViðhengiUndirritaður tók þátt í samtali greinarinnar og hagsmunaaðila við ráðuneytið við undirbúning á þeirri endurskoðun sem hér er kynnt.
Það sem ég benti m.a. á í því samráði virðist ekki hafa verið talin ástæða til að taka tillit til við það sem hér er birt í samráðsgáttinni, svo ég endurtek það hér:
Verklagsreglur (umburðarbréf) Samgöngustofu þarf að setja inn í reglugerðina og sía þarf úr þeim ella fá frekari rökstuðning frá stofnuninni fyrir því að túlkanir þar séu á annan hátt en á hinum norðurlöndunum. Og ef bera á við atvikum um skort á öryggi, þarf að upplýsa um hver þau séu og hver árangurinn hefur verið. Því greinin getur ekki verið háð því sem kalla mætti duttlungar starfsmanna Samgöngustofu í túlkun á reglugerðinni.
Túlkanir starfsmanna Samgöngustofu á þessum samnorrænu reglum þarf að slípa saman við túlkun á hinum Norðurlöndunum með því að hafa ítarlegri texta við sumar greinar eins og t.d. vegna túlkunar Samgöngustofu á hvaða krafa sé gerð til jafnstraums rafkerfa.
En þeir sem smíða báta á Íslandi, eru þeir einu (í heimi) sem þurfa að hafa rafkerfi hönnuð þannig í plastbátum, að rjúfa þarf báða póla til allra notenda auk þess sem öll vör þurfa að vera tveggja póla.
Þeir sem flytja inn báta hvort sem þeir séu CE merktir eða smíðaðir á hinum norðurlöndunum, þurfa að fara í kostnaðarsamar breytingar á þeim bátum vegna þessarar bagalegu túlkunar Samgöngustofu, sem á sér engin rök eða réttlætingu er varðar öryggi í plastbátum. En vegna eðlismunar álbáta og tæringarhættu, væri eðlilegt að viðhalda kröfu um tveggja póla rofa í álbátum.
Í mörg ár hefur verið unnið að því að öryggisvitund útgerðarmanna verði aukinn með betri fræðslu og að þeir fái heimild til að skoða báta sína sjálfir á tveggja ára fresti. Við þessar breytingar nú, hefði verið rétt að taka loks það skref. Sérstaklega í ljósi þess að nú hefur önnur af tveimur skoðunarstofum sem annast skoðanir á smábátum, hætt starfsemi.
Starfsmaður Samgöngustofu var búin að vinna að því í mörg ár í samstarfi við Landssamband smábátaeigenda, að tekin yrði upp sjálfsskoðun smábáta. Rétt væri að dusta rykið af þeirri vinnu sem var að mestu lokið, og bæta því við reglugerðina.
Breyta þarf kröfum um skoðanir björgunarbáta og færa þær í sama horf og er á hinum Norðurlöndunum.
Undirritaður er útgerðaraðili smábáts og viðurkenndur plastbátasmiður og hef starfað með hléum við plastbátasmíðar frá 1987.
Með góðri kveðju og vonir um jákvæðar undirtektir,
Axel Helgason
Frá Landssambandi smábátaeigenda
Samráðsgátt stjórnvalda
Innviðaráðuneytið
Umsögn Landssambands smábátaeigenda
(LS) við drög að reglugerð um smíði, hönnun
og búnað skipa með mestu lengd allt að 15
metrum
30. september 2022
LS leggur áherslu á að í væntanlegri reglugerð verði ákvæði í samræmi við reglur annarra Norðurlanda. Þar sem höfundar telja óhjákvæmilegt að vikið verði frá því er nauðsynlegt að fram fari sérstök kynning með hagsmunaaðilum. Í framhaldi verði þeim gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum að.
Í þeim drögunum er afar erfitt að átta sig á mismun reglnanna, en auðvelt væri fyrir höfunda að draga slíkt fram.
LS leggur jafnframt áherslu á að fram fari kostnaðargreining á þeim kröfum sem fyrirhugað er að gera sem nái jafnt til búnaðar, þjálfunar og eftirlits. Fram komi upphafskostnaður og árlegur kostnaður til áframhaldandi reksturs.
LS hefur um langt árabil óskað eftir að útgerðarmenn smábáta (< 30 brt. þar sem mesta lengd er styttri en 15 metrar) fái heimild til að skoða ákveðna þætti sjálfir. Útbúinn verði gátlisti yfir þá þætti sem þeim væri heimilt að skoða. Eftirlit með skoðuninni samkvæmt innsendri skýrslu væri í höndum Samgöngustofu. LS ítrekar hér með óskir um að sjálfsskoðun verði heimiluð.
LS styður efni innsendrar umsagnar frá Axeli Helgasyni.
Virðingarfyllst
Örn Pálsson
framkvæmdastjóri