Samráð fyrirhugað 15.06.2022—16.08.2022
Til umsagnar 15.06.2022—16.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 16.08.2022
Niðurstöður birtar

Öryggisþjónusta - frumvarp um öryggisráðstafanir og öryggisvistun

Mál nr. 100/2022 Birt: 15.06.2022 Síðast uppfært: 28.06.2022
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks
  • Almanna- og réttaröryggi
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (15.06.2022–16.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Hér eru kynnt drög að frumvarpi um öryggisþjónustu við fullorðna einstaklinga með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir.

Hér á landi eru ekki til heildstæð lög um framkvæmd öryggisráðstafana. Í VII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er að finna heimild til að dæma ósakhæfa einstaklinga og þá sem ekki er talið að beri árangur að refsa vegna þess ástands sem lýst er í 15. og 16. gr. hegningarlaga til að sæta öryggisráðstöfunum. Í 62. gr. hegningarlaga, sem oftast er byggt á í framkvæmd, segir að sé maður sýknaður skv. ákvæðum 15. gr., eða niðurstaða dóms verður sú, skv. ákvæðum 16. gr., að refsing sé árangurslaus, að ákveða megi í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því, að háski verði að manninum. Ef ætla má, að vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, komi ekki að notum, má ákveða, að honum sé komið fyrir á viðeigandi hæli. Nú til dags er ekki lengur talað um „viðeigandi hæli“ heldur er í framkvæmd stuðst við hugtakið „öryggisgæsla“.

Um framkvæmd þeirra ráðstafana sem menn kunna að vera dæmdir til að sæta er ekki kveðið á um með nánari hætti í lögum en einnig hefur skort samræmi í dómsúrlausnum þar sem kveðið er á um öryggisráðstafanir. Hljóðar dómsorð stundum á þá leið að ákærði skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. hegningarlaga, stundum er kveðið á um tiltekna meðferð sem ákærði skuli sæta, og stundum segir að ákærði skuli fá þjónustu í tilteknu búsetuúrræði. Af hálfu stjórnvalda hefur því ekki alltaf verið ljóst hvernig bregðast eigi við dómsúrlausn. Til að mynda hefur ekki alltaf verið ljóst til hvaða viðeigandi staðar eða stofnunar, þar sem hinn ákærði skuli sæta öryggisgæslu, dómsorð vísar. Hefur þetta leitt til mikillar réttaróvissu fyrir þá einstaklinga sem dæmdir hafa verið til að sæta slíkum ráðstöfunum. Einnig hefur ekki alltaf verið ljóst hver beri ábyrgð á að ráðstöfunum samkvæmt dómsorði sé framfylgt eða í hvaða farveg skuli setja mál. Afleiðingarnar hafa m.a. verið þær að einstaklingar hafa „týnst í kerfinu“ og ráðstöfunum ekki verið framfylgt. Enn fremur hafa einstaklingar verið í öryggisgæslu á stað sem ekki hentar þeim og hafa þar af leiðandi ekki fengið þá þjónustu, þ.e. ráðgjöf, stuðning, þjálfun og meðferð, sem þeir þurfa á að halda. Því er ljóst að ekki hefur verið unnt að tryggja að þeir sem sæta öryggisráðstöfunum njóti þeirra mannréttinda sem þeir eiga að njóta. Að auki er framkvæmd öryggisgæslu og öryggisvistunar með ýmsu móti, yfirsýn skortir yfir þá sem sæta slíkum ráðstöfunum og endurskoðun eða mat á aðstæðum er ekki með skipulegum hætti. Þá hefur OPCAT-eftirlit sem umboðsmaður Alþingis sinnir og CPT-nefnd Evrópuráðsins bent á að bæta þurfi úr annmörkum laga hvað öryggisráðstafanir varðar.

Markmið frumvarpsins er að bæta úr fyrrgreindum annmörkum og tryggja öruggt og skilvirkt flæði í framkvæmd öryggisráðstafana á Íslandi með því að setja skýrar lagaheimildir þar sem nauðsyn ber til að grípa inn í réttindi þeirra sem sæta ráðstöfunum, skýra ábyrgð og framkvæmd til skýrleika fyrir alla sem að þessum málum koma og tryggja réttaröryggi þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Markmiðið er einnig að tryggja að fólk sem þarf á öryggisráðstöfunum að halda fái bestu þjónustu sem kostur er á, í samræmi við þarfir þeirra á hverjum tíma, að tryggja að inngrip í réttindi þeirra vari ekki lengur eða sé meira íþyngjandi en nauðsyn ber til og bæta réttarvernd þeirra, ásamt því að tryggja almannahagsmuni og öryggi annarra einstaklinga. Þá er mikilvægur þáttur í þessu verkefni að tryggja samstarf milli þeirra ráðuneyta sem fara með þessi mál og undirstofnana þeirra, svo og á milli ríkis og sveitarfélaga.

Í framhaldi af þessari vinnu er gert ráð fyrir að lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um heimild til öryggisvistunar, þ.e. tímabundinnar vistunar fyrir einstaklinga sem ekki hafa hlotið dóm skv. VII. kafla hegningarlaga en teljast hættulegir umhverfi sínu. Um er að ræða einstaklinga með langvarandi og víðtæka hegðunarröskun sem hafa ekki getað nýtt sér þau úrræði sem sveitarfélögin bjóða upp á.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Akureyrarbær - 12.08.2022

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Geðhjálp - 15.08.2022

Í meðfylgjandi viðhengi er umsögn landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Nanna Briem - 15.08.2022

Sjá umsögn Landspítala í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Reykjavíkurborg - 16.08.2022

Í meðfylgjandi viðhengi er umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 16.08.2022

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Viðhengi