Átta umsagnir bárust í tengslum við samráð í Samráðsgátt. Nánar er gerð grein fyrir niðurstöðum samráðs í hjálögðu skjali.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 16.06.2022–07.07.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 10.10.2023.
Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til samráðs endurskoðun á undanþágukafla aðalnámskrár grunnskóla frá 2011.
Aðalnámskrá grunnskóla almennur hluti kom út árið 2011 og greinasvið árið 2013. Gert er ráð fyrir að aðalnámskráin sé endurskoðuð reglulega. Starfshópur með fulltrúum frá ráðuneytinu og helstu hagsmunaaðilum grunnskóla var stofnaður árið 2021 til að endurskoða undanþágukaflann, m.a. í ljósi ýmissa ábendinga sem borist höfðu ráðuneytinu. Tillögur um breytingar frá gildandi undanþágukafla taka m.a. mið af þeirri gagnrýni sem komið hafa fram um skólasókn nemenda og mikil leyfi þeirra á skólatíma. Einnig er ítarleg umfjöllun um skólaforðun sem ekki er nefnd í gildandi aðalnámskrá. Loks eru ýmis ákvæði grunnskólalaga skýrð betur og sum atriði eru einfölduð, t.d. um undanþágu frá ákveðnum námsgreinum þar sem ekki er fjallað sérstaklega um tilteknar námsgreinar en þess í stað sett almenn leiðibeinandi viðmið. Endurskoðaður kafli er byggður þannig upp að fyrst er fjallað um undanþágur frá skólaskyldu, þ.e. undanþágu frá skólasókn, skólaforðun, sjúkrakennslu, undanþágu frá skyldunámi og viðurkenningu á námi utan grunnskóla. Síðan er kafli um aðrar leiðir til að fullnægja skólaskyldu, þ.e. þróunarskólar, alþjóðaskólar, heimaskólar eða heimakennsla og fjar- og dreifnám. Við endurskoðunina hafði starfshópurinn einnig hliðsjón af nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Sæl verið.
Varðandi skyldu til grunnmenntunar, fyrir alla að kostaðarlausu. Þá þarf að taka inn í myndina að sundföt, sundgleraugu, íþróttaskór, íþróttaföt og jafnvel útigallar eru hluti af kennslunni og ætti þ.a.l. að vera foreldrum að kostnaðarlausu, þannig að öll börn njóti sömu tækifæra til náms.
Kær kveðja
Íris Anna
Góðan dag.
Umsagnir frá fræðslu- og menningarsviði Garðabæjar hafa verið settar inn í skjalið sem fylgir hér í viðhengi.
F.h. fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar,
Edda Björg Sigurðardóttir
Eiríkur Björn Björgvinsson
ViðhengiLandssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar. Þetta gildir um jafnrétti til náms ekki síður en á öðrum sviðum samfélagsins.
Landssamtökin Þroskahjálp hvetja til þess að í tengslum við endurskoðun 16. kaflans verði sérstaklega fjallað um stjörnumerkt námsmat, sem í raun felur í sér undanþágu frá skyldunámi og viðeigandi aðlögun að námi. Þegar frávik með stjörnumerktu námsmati eru ákveðin hefur það áhrif á allt nám viðkomandi nemenda til framtíðar. Í kafla 16.1.4. Undanþága frá skyldunámi er fjallað um heimildir skólastjóra til að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi ef gild rök mæla með því, t.d. vegna sérþarfa eða fötlunar. Þar segir:
Skólastjóra grunnskóla er heimilt að veita nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námgrein eða meta sem svo að nám utan grunnskóla jafngildi grunnskólanámi. Meginreglan er ávallt að börn stundi fullt nám og að undanþágur frá því verði skýrðar þröngt. Skólastjórum er veitt svigrúm til mats á því hvað teljast gildar ástæður fyrir því að veita undanþágu frá skyldunámi. Grunnskólalög gera ráð fyrir að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi svo slík undanþága fáist. Í aðalnámskrá framhaldsskóla eru ákvæði um að hafi nemandi fengið undanþágu frá skyldunámsgrein í grunnskóla gildi slík undanþága áfram í sömu námsgreinum í framhaldsskóla ef þess er óskað. Veiting undanþága frá skyldunámi er stjórnvaldsákvörðun og skal því ávallt gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við töku slíkra ákvarðana. Slíkar beiðnir skulu berast skriflega svo unnt sé að líta á erindið sem gögn til ákvarðanatöku.
Mikilvægt er að heimild til ákvörðunar um stjörnumerkt námsmat sé skýr í lögum enda um talsvert inngrip í námsferil viðkomandi nemenda að ræða. Enn fremur er mikilvægt að nemendum og foreldrum/forráðamönnum sé gerð ljós grein fyrir þýðingu þess og áhrifa á nám til framtíðar. Upplýsa þarf nemendur vandlega um hvað það þýðir að fylgja stjörnumerktu námsmati, svo það komi ekki á óvart á síðari menntunarstigum að ýmsum námsleiðum er viðkomandi lokuð vegna þessa.
Virðingarfyllst,
Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnisstjóri samhæfingar náms- og atvinnutilboða.
Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna
ViðhengiHeimili og skóli – landssamtök foreldra fagna því að lagst hafi verið í vinnu á endurskoðun 16. Kafla aðalnámskráar grunnskóla sem fjallar um undanþágur frá aðalnámskrá.
Heilt yfir erum við ánægð með þær tillögur sem koma fram í drögunum en hér á eftir koma nokkrar athugasemdir sem við erum með um drögin.
Heimakennsla:
Mörg sjónarhorn eru uppi þegar kemur að reglum um heimakennslu. Nú er reglan að annað foreldri þurfi að hafa kennsluréttindi til að foreldrar fái heimild að kenna barni sínu heima. Þessi regla að nauðsynlegt sé að annað foreldri sé með kennsluréttindi ýtir undir mismunum þar sem mörg þeirra sem telja sig þurfa heimakennslu búa ekki svo vel að annað eða annað foreldri sé með kennsluréttindi eftir fimm ára háskólanám.
Við erum vissulega sammála að sú manneskja sem sér um heimakennslu barnsins þurfi að búa yfir kennsluréttindum sé það mismunun að þessi regla sé bundin við foreldri barna. Í raun ætti hver sem er að geta sinnt heimakennslunni sé manneskjan með kennsluréttindi. Aðilar eins og ömmur og afar, systkini, önnur skyldmenni eða jafnvel manneskja sem er ótengd barninu blóðböndun. Ábyrgð af menntun barnsins yrði alltaf í höndum foreldra en þau ættu að geta fengið aðra manneskju til að sinna heimakennslunni.
Foreldrum barna sem eru ekki með kennsluréttindi er í raun mismunað með þessum reglum. Ef eitthvað kemur uppá í líf barnsins sem krefst þess að það fái heimakennslu hefur kerfið sett stólinn fyrir dyrnar fyrir þau börn ef foreldrar þeirra hafa ekki kennsluréttindin. Okkur hafa borist fyrirspurnir og sögur frá foreldrum þar sem allir í málinu eru sammála að heimakennsla sé möguleg lausn í vanda barns sem hefur ekki til dæmis mætt í skóla í fjölda mánaða, jafnvel áram en ekki sé hægt að veita þessa lausn þar sem foreldri hefur ekki kennsluréttindi.
Vegna þessa og fleiri sjónarhorna leggjum við til að sérstakur starfhópur verði stofnaður til að endurskoða lög, reglugerðir og reglur sem fjalla um heimakennslu og einsetji sér að finna lausn sem er sanngjörn og mismuni ekki börnum og foreldrum þeirra. Jafnframt myndi þessi hópur búa til skýran ramma sem þyrfti að fylgja þegar kemur að umsóknum og útfærslu heimakennslu.
Hvað gerist ef foreldrar eða skólar bregðast skyldum sínum?:
Við erum hugsi eftir lestur eftirfarandi setningar sem er í kafla 16.1.1 Undanþága frá skólasókn:
“Sú skylda hvílir skilyrðislaust á foreldrum, fái þeir slíka undanþágu, að tryggja að nemandinn vinni upp í samráði við skóla það sem nemandinn kann að missa úr námi meðan undanþágan varir. Ekki er hins vegar hægt að gera kröfu til skóla að hann veiti viðbótarkennslu til að bæta nemandanum það upp.”
Hér er ábyrgðin sett algjörlega á foreldra og skólakerfið algjörlega fríað ábyrgð á nemandanum. Hvað gerist ef foreldri bregst skyldum sínum sem eru hér lagðar á þá? Mun skólakerfið ekki gera sitt til að bregðast við og tryggja að barnið fái rétt sinn til menntunar? Hér og allstaðar þarf að setja meiri áherslu að skoða þessi mál út frá réttindum barnsins
Fyrir hönd skrifstofu Heimili og skóla
Sigurður Sigurðsson
Sérfræðingur
ViðhengiGóðan dag.
Meðfylgjandi eru athugsemdir frá Fræðslu- og frístundasviði Mosfellsbæjar.
Linda Udengård
Jóhanna Magnúsdóttir
Ragnheiður Axelsdóttir
ViðhengiSjá viðhengi.
Með góðri kveðju,
Renata Emilsson Peskova
formaður Móðurmáls - samtaka um tvítyngi
fyrir hönd stjórnar
ViðhengiGóðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún
ViðhengiUmsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um endurskoðun undanþágukafla aðalnámskrár grunnskóla.
Barnaheill fagna því að réttur allra barna til skólagöngu sé áréttaður í endurskoðuðum 16. kafla Aðalnámskrár grunnskóla og að vísað sé sérstaklega til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þeim rétti til rökstuðnings.
Samtökin vilja árétta að ef sveitarfélag semur við annað sveitarfélag um að veita barni skólavist þarf að vera skýrt hver fer með ábyrgð á að barni sé veitt skólavist svo eftirfylgnin með hagsmunum barnsins sé ljós.
Í kaflanum er minnst á þátt foreldra í grunnskólagöngu barna sinna. Fram kemur að foreldrar skuli fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna sem og í skólastarfinu almennt. Barnaheill vilja vekja athygli á því að það hafa ekki allir foreldrar forsendur til að geta tekið þátt í námi barna sinna af ýmsum ástæðum, m.a. vegna mismunandi menningarbakgrunns, menntunar og fleira. Mikilvægt er að mati samtakanna að ekki sé stuðlað að mismunun á börnum út frá stöðu foreldra þeirra og vísa samtökin í 2. grein Barnasáttmálans sem kveður á um að tryggja skuli að barni sé ekki mismunað út frá stöðu eða athafna foreldra þess. Að því leyti telja Barnaheill brýnt að stuðla að því að allt nám barna að lestri undanskildum fari fram á skólatíma og ekki sé gerð sú krafa að foreldrar styðji við nám barna sinna. Þó foreldrar beri ábyrgð á að leiðbeina börnum sínum og fræða þau um réttindi sín eins og fram kemur í 5. grein Barnasáttmálans þá á það að mati samtakanna ekki við um skólastarf.
Barnaheill vilja taka fram að þegar veittar eru undanþágur frá skólasókn og þegar um heimakennslu er að ræða er mikilvægt að meta hvaða áhrif það hefur á félagsþroska viðkomandi barns. Ekki er nóg að mati samtakanna að sjá til þess að barn fái námsgögn og stundi sambærilegt nám og fram fer í skólum landsins því samvera og samskipti við jafnaldra er einnig mikilvægur hluti náms og þroska barna. Tryggja þarf að hvert barn hafi tækifæri til samvista við önnur börn. Á sama hátt er einnig mikilvægt að kanna ástæður þess í hverju máli fyrir sig að barn sé í heimakennslu.
Þá er að mati samtakanna brýnt að skoða í hverju tilfelli ef skólasókn barns er slök hvaða ástæður liggja að baki því. Barnaheill lýsa yfir ánægju með að skólaforðun sé sérstaklega ávörpuð í 16. kafla Aðalnámskrár grunnskóla. Snemmtækur stuðningur við börn er gríðarlega mikilvægur og að mati samtakanna þarf að tryggja að skýrt verklag sé í grunnskólum um hvernig sá stuðningur fer fram. Til að vera vakandi fyrir einkennum skólaforðunar eins og nefnt er í kaflanum þarf bæði skólafólk og foreldrar að hafa þekkingu á einkennunum svo hægt sé að bregðast strax við.
Sérstaklega er kveðið á um undanþágu frá skyldunámi sem skólastjóra er heimilt að veita eins og fram kemur í grunnskólalögum. Mikilvægt er að þetta svigrúm sé notað til að koma til móts við mismunandi aðstæður barna og ber því að fagna. Barnaheill vilja árétta að þörf er á að endurskoða nám, kennsluaðferðir og kennsluviðmið í heild sinni í grunnskólum í takt við breyttar áskoranir í samfélaginu með það að leiðarljósi að koma á móts við þann fjölbreytta hóp barna sem er í íslenska skólakerfinu.
Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllum sínum störfum.
Viðhengi