Samráð fyrirhugað 12.07.2022—17.08.2022
Til umsagnar 12.07.2022—17.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 17.08.2022
Niðurstöður birtar 23.11.2022

Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu

Mál nr. 106/2022 Birt: 12.07.2022 Síðast uppfært: 23.11.2022
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
  • Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta
  • Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Málefni aldraðra
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Í kjölfar þess að áform voru birt í samráðsgátt og 11 umsagnir bárust var niðurstaðan sú að vinna drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, þess efnis að heimila ráðningu heilbrigðisstarfsmanna í störf við veitingu heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu á aldrinum 70-75 ára.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 12.07.2022–17.08.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.11.2022.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir áform um lagasetningu til breytinga á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemur fram í 2. mgr. 43. gr. að segja skuli upp ráðningarsamningi við starfsmann frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 70 ára gamall. Fyrirhugað er að gera breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, þess efnis að opna á heimild heilbrigðisstofnana ríkisins til að ráða til starfa heilbrigðisstarfsfólk á aldrinum 70 til 75 ára. Með því yrði aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna ríkisins fært til samræmis við gildandi aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

Núgildandi lög krefjast þess að vinnuveitendur starfsmanna ríkisins, sem eru m.a. opinberar heilbrigðisstofnanir, segi upp starfsfólki, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólki, þegar það verður 70 ára. Uppsagnirnar eru óháðar starfsgetu eða áhuga á að starfa áfram þrátt fyrir mikinn skort á heilbrigðisstarfsfólki, sem búast má við að muni aukast enn frekar á næstu árum miðað við óbreyttar aðstæður. Engin undanþága er í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, frá framangreindri reglu um 70 ára aldurshámark starfsmanna ríkisins.

Fyrirhugað er að setja í lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, undanþáguákvæði frá ákvæði í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæðið kveði á um að þrátt fyrir ákvæði í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 verði heimilt að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri í þjónustu ríkisins við veitingu heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstofnunum ríkisins verði þá heimilt að ráða 70 ára heilbrigðisstarfsmenn allt til 75 ára aldurs.

Markmiðið með breytingunni er að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu þar sem ljóst er að stór hluti heilbrigðisstarfsfólks mun ná 70 ára aldri á næstunni, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Í þeim stéttum er þegar er mikill skortur á fagfólki. Áfram yrði skylt að segja upp heilbrigðisstarfsmönnum ríkisins við 70 ára aldur, en heimilt yrði að ráða þá aftur með nýjum ráðningarsamningi, allt til 75 ára aldurs, en þá yrði skylt að segja þeim upp endanlega.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ljósmæðrafélag Íslands - 26.07.2022

Reykajvík 25. júlí 2022

Heilbrigðisráðuneytið

Samráðsgátt

Mál 106/2022

Efni : Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu

Heilbrigisráðuneytið hefur nú sett inn til umsagnar í samráðsgátt stjórnavalda áform um breytingu á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Ljósmæðrafélag Íslands er jákvætt fyrir fyrirhuguðum breytingum og telur þær bæta réttarstöðu þeirra ljósmæðra og annarra heilbrigðisstétta sem kjósa að starfa eftir sjötugt. Við teljum það jákvætt að heilbrigðsstarfsmenn og stofnanir hafi val um að gera ráðningasamning sín á milli, það bætir réttarstöðu starfsmanna. Áfram verði að vera mögulegt að starfa á tímavinnusamning eins og verið hefur.

Við óskum eftir því að tryggt verði að þegar gerður verður nýr ráðningasamningur við heilbrigðisstarfsmann sem hefur náð sjötugsaldri að ráðningakjör hans verði eins eða betri en þau réttindi sem hann hafði fyrir.

Eins viljum við árétta að þess verði gætt að þessar breytingar komi ekki til með að hafa neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi starfsfólks.

Til framtíðar litið verður einnig að gæta þess að breytingin hafi ekki áhrif á nýliðun stétta. Það þarf að tryggja að nýútskrifaðir heilbrigðisstarfsmenn fái stöður á heilbrigðisstofnunum og eðlileg endurnýjun eigi sér stað.

Virðingafyllst

f.h. Ljósmæðrafélags Íslands

Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 04.08.2022

Góðan daginn.

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins.

Bestu kveðjur.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 BSRB - 11.08.2022

Í viðhengi er umsögn BSRB.

Virðingarfyllst,

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Sjúkraliðafélag Íslands - 12.08.2022

Heil og sæl.

Í viðhengi er umsögn Sjúkraliðafélags Íslands.

Bestu kveðjur!

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Helga Bragadóttir - 15.08.2022

Til: Heilbrigðisráðuneytisins

Varðandi Mál nr. 106/2022, birt: 12.07.2022

Umsögn Helga Bragadóttir, prófessor, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands, formaður fagráðs hjúkrunarstjórnunar Landspítala

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir áform um lagasetningu til breytinga á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkandi hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Umsögn

Fagna ber auknum sveigjanleika í samningum við heilbrigðisstarfsfólk.

Í kynningu málsins í Samráðsgátt og fylgiskjali máls ÁFORM UM LAGASETNINGU dags. 24. júní 2022, kemur fram að markmiðið með breytingunni sé að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu þar sem stór hluti heilbrigðisstarfsfólks muni ná 70 ára aldri á næstunni, þá ekki síst innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Með lagasetningunni megi stuðla að bættri mönnun og þar með auknum gæðum þjónustunnar og auknu öryggi sjúklinga. Ekki liggur fyrir hvort reynsla er af sambærilegum breytingum í öðrum löndum né vísað í forkannanir meðal faghópanna sem um ræðir og hvort yfir höfuð er vilji og geta hjá hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstéttum að seinka starfslokum sínum hjá hinu opinbera.

Undirrituð vill í þessu sambandi benda á nokkur mikilvæg atriði sem ekki koma fram í málskynningu eða fylgiskjölum.

1. Gengið er út frá því að lagabreytingin eigi við um heilbrigðistarfsmenn sem sinna kennslu og vísindum jafnt og klíník og stjórnun í heilbrigðisþjónustu, og því geti kennarar í heilbrigðisvísindum verið áfram ráðnir í akademísk störf hjá opinberu háskólunum. Ekki er eingöngu skortur á hjúkrunarfræðingum í klínískum störfum við beina aðhlynningu, heldur er ekki síður skortur á hjúkrunarkennurum. Í fylgiskjölum máls er ítrekað fjallað um mikilvægi þess að fjölga nemendum í hjúkrun og þar með fjölga nýjum hjúkrunarfræðingum, en ein aðalforsenda þess er að hafa hæfa kennara. Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands (áður Hjúkrunarfræðideild), hefur nú ítrekað undanfarin ár verið afar hátt metin á alþjóðlegum gæðamatslistum sem meta háskólanám um allan heim og verið í hópi þeirra bestu á heimsvísu (sjá Shanghai Ranking þar sem hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands er meðal 101-150 bestu í heimi https://www.shanghairanking.com/institution/university-of-iceland). Slíkur árangur næst eingöngu með góðri mönnun akademískra starfsmanna. Deildin glímir hins vegar við mannaflaskort og á næstu árum mun stór hluti fastráðinna kennara ná sjötugs aldri, og stefnir því í alvarlegri mannaflaskort á næstu árum verði ekki brugðist við með sértækum aðgerðum. Það að geta framlengt ráðningarsamningum við akademíska starfsmenn fram yfir sjötugsaldur gæti komið deildinni vel næstu árin meðan unnið er að aukinni endurnýjun kennara. Í því sambandi þarf hins vegar að tryggja að kjör og réttindi starfsmanna skerðist ekki að neinu leyti.

2. Ekki kemur fram hvort eða hvernig áhrif þessi lagasetning hefur á lífeyrisréttindi heilbrigðisstarfsfólks. Tryggja þarf að lífeyrisréttindi verði á engan hátt skert og að réttlát umbun / kjör verði tryggð, hvort sem starfsmaður kýs að vinna fram yfir sjötugt eða ekki. Skoða þarf sérstakleg hvort rjúfa þurfi ráðningarsamning við 70 ára aldur sé vilji á áframhaldandi samningi beggja aðila, og hvaða þýðingu rof á ráðningarsamningi hefur á kjör starfsmanns og réttindi og skyldur beggja aðila.

3. Bent er á mikilvægi þess að tryggja réttindi beggja aðila, þ.e. ríkisins / stofnana og starfsmanna þannig að lagabreytingin stuðli að aðlaðandi ráðningarsamningum.

4. Að lokum er bent á mikilvægi þess að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og þar með skipulag stofnana / skipurit og skipulag starfseininga (deilda), auk allrar vinnu er varðar hjúkrun og heilbrigðisþjónustu, verði með þeim hætti að hjúkrunarfræðingar séu sjálfstæðir í vinnu sinni, séu að fullu þátttakendur á öllum stigum ákvarðana og reksturs stofnana og eininga og eigi fulltrúa í stjórnum, ráðum og starfshópum þar sem fjallað er um og ákvarðanir teknar um heilbrigðisþjónustu og þar með hjúkrun. Rannsóknir sýna ítrekað að það er einn af veigamestu þáttum þess að hjúkrunarfræðingar haldist í starfi, séu reiðubúnir að axla ábyrgð á störfum sínum og hæfni þeirra nýtist til fulls. Sjá m.a. rannsóknir um Magnet sjúkrahús og skýrslur National Adademy of Medicine (áður Institue of Medicine) þar sem ítrekað er sýnt fram á mikilvægi sjálfstæðis í vinnu hjúkrunarfræðinga og stjórnun hennar. Breyting í þá veru krefst endurskoðunar á skipuritum íslenskra heilbrigðisstofnana, stjórnunarháttum og þar með menningu, og stefnubreytingar í þátttöku hjúkrunar í mikilvægum verkefnum og ákvörðunum er varða þróun og nýjungar í heilbrigðisþjónustu (sjá t.d. grein um frumkvöðlastarf í hjúkrun á Landspítala í COVID-19 heimsfaraldrinum https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1111/jan.15131).

Virðingarfyllst,

Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur, PhD, FAAN,

prófessor, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og formaður fagráðs hjúkrunarstjórnunar Landspítala.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Jón Svavarsson - 16.08.2022

Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að starfa með kraftar og geta leyfa, engu að síður á fólki að vera frjálst að taka eftirlaun þegar réttindi þeirra gefa tilefni til. Gæta þarf þess að engin sé nauðugur til að halda áfram störfum.

Það er því MIKILVÆGT að afnema allar skerðingar á aldraða og öryrkja svo eðlileg hvatning sé fyrir þá hópa að halda áfram störfum eins og kraftar og geta leyfa, annars er þetta marklaust vindhögg.

ENGINN ÆTTI AÐ LIFA VIÐ SKERÐINGAR LÍKT OG ALDRAÐIR OG ÖRYKJAR BÚA VIÐ!

Ég vil benda á að sjúkraflutningamenn/slökkviliðsmenn og lögregla taka snemma eftirlaun og gætu þessir auðveldlega margir sinnt störfum við heilbrigðisstofnanir og ég tala nú ekki um bráðaliða!!!

Kveðja Jón

Afrita slóð á umsögn

#7 Alþýðusamband Íslands - 16.08.2022

Samkvæmt 65.gr. stjórnarskrár lýðveldisins eru allir jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Undir "stöðu að öðru leyti" fellur lífaldur einstaklinga. Þetta endurspeglast síðan hvað vinnumarkað varðar í 1.gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 en þar er mismunun á grundvelli aldurs bönnuð. Samkvæmt 12.gr. sömu laga er mismunandi meðferð vegna ekki talin andstæð banninu séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Engin slík rök eiga við um heilbrigðisstarfsmenn eða starfsmenn ríkisins almennt. Um sama efni má vísa til fjölmargra alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi sem Ísland er aðili að. Það er því álit ASÍ að afnema beri ákvæði um hámarksaldur ríkisstarfsmanna hvaða starfi svo sem þeir gegna. Það álit birtist m.a. í umsögnum sambandsins um þingsályktunartillögur á Alþingi - sjá síðust umsögn: https://www.asi.is/um-asi/hlutverk-og-saga/umsagnir-um-thingmal/tillaga-til-thingsalyktunar-um-afnam-70-ara-aldurstakmorkunar-i-logum-um-rettindi-og-skyldur-starfsmanna-rikisins/

ASÍ tekur fram, að umræða um afnám ákvæða um hámraksaldur starfsmanna er aðskilin umræðu um lífeyristökualdur þeirra. Lög og reglur um lífeyristökualdur í lífeyrisjóðum landsmanna er efni sem útkljá ber í kjarasamningum og ekki ber að skilja umsögn ASÍ þ.a. sambandið sé með henni að fallast á breytingar á honum.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ.

Afrita slóð á umsögn

#8 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 17.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh)

F.h. Fíh

Edda Dröfn Daníelsdóttir sviðsstjóri fagsviðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Bandalag háskólamanna - 17.08.2022

Á meðan BHM fagnar því að hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu verði færður í takt við aldurshámark þeirra sem eru með eigin starfsstöðvar telur bandalagið einstaka þætti frumvarpsins vera vanhugsaða. Auk umhugsunarefna sem nánar eru skýrð í viðhengi þurfi sérstaklega að skoða:

a) Að seinkuð starfslok verði alltaf frjálst val starfsfólks.

b) Að samkvæmt núgildandi lögum ber atvinnurekendum aðeins skylda til að greiða í lífeyrissjóð fyrir starfsfólk til sjötugs og samkvæmt núverandi samþykktum LSR tekur sjóðurinn ekki við greiðslum frá félagsfólki eftir þann aldur. Þessi atriði þarf að skoða og ræða í þaula áður en lögin koma til framkvæmda, með þar til bærum aðilum svo sem verkalýðshreyfingunni og LSR, enda grundvallaratriði að það sé raunverulega starfsmanni til hagsbóta að vinna lengur hvað lífeyri varðar, hvaða útfærsla sem svo verður valin (aukin séreign eða áframhaldandi greiðsla í samtrygginguna o.s.frv) eða hvort útfærsla verði jafnvel val starfsmanns.

c) Viðkomandi heilbrigðisstofnanir beri ábyrgð á því að tryggja að réttindi starfsfólks sem kýs að vinna lengur en til sjötugs séu að engu skert miðað við hvernig þau voru áður, svo sem með því að setja viðauka í ráðningarsamning þar sem tiltekin eru helstu atriði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Maríanna Hugrún Helgadóttir - 17.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga, FÍN, fin@bhm.is .

Ábyrgðaraðili:Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Steinunn Þórðardóttir - 17.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Læknafélags Íslands (LÍ)

Virðingarfyllst,

Steinunn Þórðardóttir

Formaður LÍ

Viðhengi