Mál nr. S-106/2022

Birt: 12.7.2022

Fjöldi umsagna: 11

Áform um lagasetningu

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu

Niðurstöður

Í kjölfar þess að áform voru birt í samráðsgátt og 11 umsagnir bárust var niðurstaðan sú að vinna drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, þess efnis að heimila ráðningu heilbrigðisstarfsmanna í störf við veitingu heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu á aldrinum 70-75 ára.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir áform um lagasetningu til breytinga á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Nánari upplýsingar

Í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemur fram í 2. mgr. 43. gr. að segja skuli upp ráðningarsamningi við starfsmann frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 70 ára gamall. Fyrirhugað er að gera breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, þess efnis að opna á heimild heilbrigðisstofnana ríkisins til að ráða til starfa heilbrigðisstarfsfólk á aldrinum 70 til 75 ára. Með því yrði aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna ríkisins fært til samræmis við gildandi aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

Núgildandi lög krefjast þess að vinnuveitendur starfsmanna ríkisins, sem eru m.a. opinberar heilbrigðisstofnanir, segi upp starfsfólki, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólki, þegar það verður 70 ára. Uppsagnirnar eru óháðar starfsgetu eða áhuga á að starfa áfram þrátt fyrir mikinn skort á heilbrigðisstarfsfólki, sem búast má við að muni aukast enn frekar á næstu árum miðað við óbreyttar aðstæður. Engin undanþága er í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, frá framangreindri reglu um 70 ára aldurshámark starfsmanna ríkisins.

Fyrirhugað er að setja í lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, undanþáguákvæði frá ákvæði í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæðið kveði á um að þrátt fyrir ákvæði í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 verði heimilt að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri í þjónustu ríkisins við veitingu heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstofnunum ríkisins verði þá heimilt að ráða 70 ára heilbrigðisstarfsmenn allt til 75 ára aldurs.

Markmiðið með breytingunni er að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu þar sem ljóst er að stór hluti heilbrigðisstarfsfólks mun ná 70 ára aldri á næstunni, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Í þeim stéttum er þegar er mikill skortur á fagfólki. Áfram yrði skylt að segja upp heilbrigðisstarfsmönnum ríkisins við 70 ára aldur, en heimilt yrði að ráða þá aftur með nýjum ráðningarsamningi, allt til 75 ára aldurs, en þá yrði skylt að segja þeim upp endanlega.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is