Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.6.–29.8.2022

2

Í vinnslu

  • 30.8.–14.12.2022

3

Samráði lokið

  • 15.12.2022

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-107/2022

Birt: 28.6.2022

Fjöldi umsagna: 19

Drög að reglugerð

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Breyting á reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999, með áorðnum breytingum

Niðurstöður

Samantekt um umsagnir á samráðsgátt

Málsefni

Lagt er til að 17 iðngreinar falli brott af lista yfir löggiltar iðngreinar, þar af er lagt til að átta iðngreinar verði felldar undir aðrar samkynja iðngreinar og kyngreiningu klæðskurðar verði hætt.

Nánari upplýsingar

Lagðar eru til þær breytingar á reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999 að 17 iðngreinar verði felldar brott af lista yfir löggiltar iðngreinar. Þar af er lagt til að átta iðngreinar verði felldar undir aðrar samkynja iðngreinar og kyngreiningu klæðskurðar verði hætt. Breytingum er ætlað að einfalda starfsumhverfi iðngreina og laga það að nútímanum.

Með brottfellingu tiltekinna iðngreina og sameiningu annara iðngreina við víðtækari yfirgreinar er dregið úr aðgangshindrunum fyrir nýja aðila sem vilja starfa í þessum greinum en hafa ekki haft möguleika á að afla sér tilskilinna iðnréttinda. Samkvæmt gildandi lögum um handiðnað nr. 42/1978 hafa aðeins meistarar, sveinar og nemendur í viðkomandi iðngrein rétt til iðnaðarstarfa í þeim greinum sem löggiltar hafa verið með reglugerð. Í flestum, ef ekki öllum, þessara greina starfa einstaklingar og fyrirtæki án tilskilinna réttinda sem eiga það á hættu að fá á sig kæru fyrir brot gegn ákvæðum laga um handiðnað þrátt fyrir að hafa starfað við góðan orðstír í greininni. Breytingarnar eru því til þess fallið að opna á tækifæri fyrir fleiri til að starfa óáreittir í sinni iðngrein án kröfu um löggildingu sem ekki hefur staðist tímans tönn.

Reglugerðin er byggð á afrakstri vinnu starfshóps ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á grundvelli úrbótatillagna sem komu fram í samkeppnismati Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) síðla árs 2020. Margar iðngreinar á lista reglugerðar nr. 940/1999 eru ekki lengur starfræktar, hafa ekki verið kenndar í fjölda ára eða hafa tekið slíkum breytingum að ekki eru lengur forsendur fyrir löggildingu þeirra. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, leggur því til að löggildingu þessara iðngreina verði annað hvort lögð niður eða þær felldar undir yfirheiti annara iðngreina.

Við undirbúning reglugerðar um breytingu var litið til þess hvort námskrár væru til fyrir viðkomandi grein og í hvaða greinum fáir eða engir hefðu lokið sveinsprófi síðastliðna tvo áratugi. Jafnframt var lagt mat á hvort rökstyðja mætti lögverndun viðkomandi iðngreina með vísan til almannahagsmuna, sér í lagi almannaheilbrigðis og öryggis.

Þessar iðngreinar eru feldskurður, glerslípun og speglagerð, hljóðfærasmíði, myndskurður, málmsteypa, mótasmíði og leturgröftur, en í síðastnefndu iðngreininni var síðasta sveinspróf skráð árið 1971. Lagt til að löggilding hattasaumsiðnar verði aflögð en síðasta sveinspróf í faginu var skráð 1958, þá í kvenhattaraiðn. Loks er lagt til að iðngreinin kæli- og frystivélavirkjun falli brott en engin sveinspróf nokkru sinni verið skráð í þeirri grein.

Lagt er til að kyngreiningu iðngreinarinnar klæðaskurður verði hætt með brottfalli klæðaskurðar karla (sveinspróf síðast skráð 2004) og klæðaskurðar kvenna (sveinpróf síðast skráð 1960). Eftir stendur iðngreinin klæðaskurður sem er í samræmi við gildandi námskrá um alhliða klæðaskurð.

Með sambærilegum hætt er lagt til að iðngreinarnar skósmíði og skóviðgerðir falli niður og verði felldar undir iðngreinina skósmíðaiðn.

Lagt er til að sérstök iðnréttindi í skipa- og bátasmíði falli niður og verði framvegis felld undir iðnréttindi í húsasmíði til samræmis við almenna reglu um að einstaklingar með iðnréttindi í húsasmíði annars vegar og skipa- og bátasmíði hins vegar hafa í gegn um tíðina gengið óáreittir í störf hvers annars. Eitt sveinspróf var skráð í skipa- og bátasmíði árið 2020 en þar áður var síðasta sveinspróf skráð 1994.

Lagt er til að iðnréttindi í stálskipasmíði og stálvirkjasmíði falli niður og verði framvegis felld undir iðngreinina stálsmíði, enda eru tuttugu ár síðan sveinspróf voru síðast skráð í stálskipasmíði og stálvirkjasmíði. Greinarnar eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar heldur eru þær hluti af námi í stálsmíði.

Loks er lagt til að sérgreinarnar almenn ljósmyndun og persónuljósmyndun verði sameinaðar undir yfirheitinu ljósmyndun þar sem þær eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar hér á landi. Samkvæmt gildandi námskrá er aðeins boðið upp á nám í ljósmyndun.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa framkvæmdar og eftirfylgni

hvin@hvin.is