Samráð fyrirhugað 04.07.2022—31.08.2022
Til umsagnar 04.07.2022—31.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 31.08.2022
Niðurstöður birtar

Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030

Mál nr. 112/2022 Birt: 04.07.2022 Síðast uppfært: 09.05.2023
  • Innviðaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál
  • Orkumál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (04.07.2022–31.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir fyrir hönd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030.

Hér til hliðar má nálgast samantekt Vegvísisins, en það skjal sem er hér til samráðs má nálgast á eftirfarandi slóð vegna takmarka samráðsgáttarinnar á stærð skjala sem hægt er að hala upp: https://byggjumgraenniframtid.is/wp-content/uploads/2022/06/Vegvisir-ad-vistvaenni-mannvirkjagerd.-II.hluti_.Markmid-og-adgerdir.pdf

Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030 var unninn á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og byggingariðnaðarins um vistvæna mannvirkjagerð. Samstarfið á rót sína að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kom út í júní 2020.

Vinna verkefnisins hófst formlega í september 2020, þegar verkefnastjórn samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð tók til starfa. Í verkefnastjórn voru fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Grænni byggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og innviðaráðuneytinu. Verkefnastjórnin fundaði alls 40 sinnum frá september 2020 til júní 2022.

Allt frá upphafi samstarfsins var lögð áhersla á virka þátttöku sem flestra hagaðila úr virðiskeðju mannvirkjageirans. Sú nálgun endurspeglaðist meðal annars í verkefnastjórninni, öflugu hópstarfi, þátttöku á vinnustofum og fjölda viðburða á vegum verkefnisins. Þannig komu að minnsta kosti 200 sérfræðingar að vinnslu verkefnisins með einum eða öðrum hætti.

Viðfangsefni samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð voru einkum þríþætt:

1. Meta losun frá íslenska byggingariðnaðinum.

2. Setja markmið um að minnka þá losun til ársins 2030.

3. Skilgreina aðgerðir til að ná þeim markmiðum.

Niðurstöðurnar fyrir lið 1, um mat á losun íslenskra bygginga, voru birtar í febrúar 2022 með útgáfu I. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð.

Niðurstöður fyrir liði 2 og 3 voru birtar í júní 2022 með útgáfu II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, þar sem fram koma markmið um vistvænni mannvirkjagerð og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Er það skjal hér með lagt fram til umsagnar í þeim tilgangi að tryggja enn frekar aðkomu sem flestra að verkefninu. Tekið verður tillit til innsendra umsagna eftir því sem við á, bæði við innleiðingu aðgerðaáætlunar og við endurskoðun verkefnisins á árinu 2024.

Í upphafi II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð eru sett fram markmið um vistvænni mannvirkjagerð fyrir 2030, þ.e. annars vegar markmið um að draga úr losun byggingargeirans til ársins 2030, og hins vegar markmið um að minnka förgun og sóun á byggingar- og niðurrifsúrgangi fyrir sama ár.

Í framhaldinu er fjallað um hvernig hægt verði að ná þeim markmiðum samkvæmt aðgerðaáætlun fyrir vistvænni mannvirkjagerð. Aðgerðaáætlunin er í raun meginhluti skjalsins en henni er skipt upp í sex kafla: 1. Byggingarefni, 2. Framkvæmdasvæði, 3. Notkunartíma mannvirkja, 4. Lok líftíma/hringrásarhagkerfið, 5. Skipulag og hönnun og 6. Hvatar til umskipta.

Í grunninn er skipulag hvers þessara kafla eins:

- Losun á viðmiðunarári: Fjallað er um losun sem stafar frá viðkomandi þætti samkvæmt niðurstöðum sem finna má í I. hluta vegvísisins, eftir því sem við á. Í kaflanum um lok líftíma/hringrásarhagkerfið er sjónum beint að um úrgangsmagni og endurnýtingu.

- Markmið um losun 2030: Sett eru fram markmið um samdrátt í losun sem stafar frá viðkomandi þætti fyrir árið 2030, eftir því sem við á. Í kaflanum um lok líftíma/hringrásarhagkerfið eru skilgreind markmið um endurnýtingu og minni sóun.

- Tækifæri til úrbóta: Farið er yfir þær úrbætur sem brýnast er að ráðast í svo markmiðum um vistvænni mannvirkjagerð 2030 verði náð.

- Aðgerðir: Á grundvelli umfjöllunar um tækifæri til úrbóta eru skilgreindar tímasettar aðgerðir sem hrinda þarf í framkvæmd. Í einhverjum tilfellum er óljóst hver skuli bera ábyrgð á viðkomandi aðgerð og er það þá í höndum verkefnastjórnar að tryggja aðgerðinni öruggan farveg.

- Hvað get ég gert: Ljóst er að hinar skilgreindu aðgerðir duga ekki til svo markmiðum um vistvænni mannvirkjagerð 2030 verði náð. Einstaka aðilar innan virðiskeðju mannvirkjageirans geta og þurfa einnig að grípa til ráðstafanna og í þessum hluta er nefnd dæmi um slíkar aðgerðir.

- Árangursmælikvarðar: Listaðir eru upp helstu mælikvarðar til að meta árangur á framkvæmd aðgerðanna og gerð grein fyrir þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem aðgerðirnar styðja við.

Skilgreindar aðgerðir í aðgerðaáætluninni eru 74 talsins. Best er að byrja á því að öðlast góða yfirsýn yfir aðgerðirnar með því að lesa III. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, en þar er á ferð stutt samantekt á losun byggingargeirans, markmiðunum og aðgerðunum.

Nánari upplýsingar um Byggjum grænni framtíð ásamt öllum útgáfum sem tengjast verkefninu verkefninu má nálgast á byggjumgraenniframtid.is/utgefidefni

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurður Ingólfsson - 13.07.2022

Við þökkum fyrir boðið um að senda umsögn um það málefni sem hér er fjallað um.

Við hjá Hannarr ehf höfum fylgst með starfi Samráðsgáttar undanfarið og átt fundi með sumum þeirra sem standa að Samráðsgáttinni.

Með hliðsjón af því þá sendum við hér innlegg í þá umræðu sem þar fer fram. Ég bendi á að það sem innleggið nær einnig til kostnaðarþátta og húsnæðisskorts í landinu sem eru ekki síður mikilægir, en um þá þætti er ekki fjallað hér þó að þeir séu nefndir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Skagafjörður - 15.08.2022

Á 8. fundi byggðarráðs Skagafjarðar þann 10. ágúst 2022 var tekið fyrir mál nr. 122/2022 til samráðs, Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030, og þannig bókað.

Byggðarráð Skagafjarðar telur að mikilvægt sé að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með það í huga að draga úr kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði. Þó ber að hafa í huga að þær aðgerðir sem gripið verði til í þeim tilgangi rýri ekki gæði mannvirkja, stytti líftíma þeirra eða valdi auknum og ófyrirsjáanlegum kostnaði sem mögulega hlýst af slíkum aðgerðum með tilheyrandi hækkun á byggingarkostnaði. Það er allra hagur að líftími bygginga sé sem lengstur og mannvirki þannig úr garði gerð að viðhaldskostnaður verði sem minnstur með það að markmiði að draga úr kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði.

F.h. byggðarráðs

Sigfús Ingi Sigfússon

sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#3 Hólmfríður Sigurðardóttir - 30.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn OR samstæðu um vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030, mál

nr. 112/2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Hulda Hallgrímsdóttir - 30.08.2022

Í viðhengi má finna umsögn Reykjavíkurborgar um Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 (mál nr. 112/2022).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Verkfræðingafélag Íslands - 31.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þórólfur Nielsen - 31.08.2022

Hjálögð er umsögn Landsvirkjunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök iðnaðarins - 31.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030

Viðhengi

#8 - 09.05.2023

Umsögn barst en birtist ekki í gáttinni samkvæmt ákvörðun ábyrgðaraðila samráðsmálsins. Upplýsingalög gilda, sjá nánar í Um samráðsgáttina

#9 - 09.05.2023

Umsögn barst en birtist ekki í gáttinni samkvæmt ákvörðun ábyrgðaraðila samráðsmálsins. Upplýsingalög gilda, sjá nánar í Um samráðsgáttina

#10 - 09.05.2023

Umsögn barst en birtist ekki í gáttinni samkvæmt ákvörðun ábyrgðaraðila samráðsmálsins. Upplýsingalög gilda, sjá nánar í Um samráðsgáttina