Samráð fyrirhugað 06.07.2022—27.07.2022
Til umsagnar 06.07.2022—27.07.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 27.07.2022
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur

Mál nr. 115/2022 Birt: 06.07.2022 Síðast uppfært: 06.07.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (06.07.2022–27.07.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um leigubifreiðar. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu.

Innviðaráðuneytið birtir hér til kynningar og samráðs drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Er að meginstefnu til um sama frumvarp að ræða og lagt hefur verið fram á Alþingi á 150., 151. og 152. löggjafarþingi, en ekki náð fram að ganga. Til stendur að leggja það fram að nýju í haust á 153. löggjafarþingi með þeim breytingum sem lagðar voru til í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 152. löggjafarþingi (þskj. 1285, 470. mál).

Eitt megintilefni frumvarpsins er að í janúar 2017 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) íslenskum stjórnvöldum að stofnunin hefði hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. ESA hefur nú gefið út rökstutt álit varðandi lög um leigubifreiðar hér á landi. Slíkt álit er undanfari dómsmáls fyrir EFTA dómstólnum, bregðist aðildarríki ekki við álitinu. Í álitinu komst ESA að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið bryti gegn skyldum sínum skv. 31. gr. EES-samningsins, sem kveður á um stofnsetningarrétt ríkisborgara EES-ríkja þar sem eftirfarandi reglur gildandi laga fælu í sér ólögmæta takmörkun á stofnsetningarréttinum: fyrir fram ákveðinn fjöldi atvinnuleyfa, reglur um úthlutun starfsleyfa sem ekki eru fyrirsjáanlegar, hlutlægar og lausar við mismunun, skylda sumra leyfishafa til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og krafa um að leigubifreiðastjórar hafi starfið að aðalatvinnu.

Frumvarpið telur 24 greinar sem skipt er í fimm kafla. Í fyrsta kafla eru almenn ákvæði, annar kafli inniheldur ákvæði um leyfisveitingar og skilyrði leyfa, í þriðja kafla eru ákvæði sem snúa að rekstri leigubifreiða, í fjórða kafla eru ákvæði um eftirlit með starfseminni og í fimmta kafla ýmis önnur nauðsynleg ákvæði svo sem um gildistöku og lagaskil, gjaldskrárheimildir Samgöngustofu o.fl.

Meðal breytinga sem lagðar eru til eru afnám takmörkunarsvæða og fjöldatakmarkana atvinnuleyfa, lögð er til almenn skylda leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og breyttar kröfur til þeirra sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að til verði tvær tegundir leyfa sem tengjast akstri leigubifreiða. Annars vegar atvinnuleyfi, sem veiti réttindi til að aka leigubifreið í eigu rekstrarleyfishafa í atvinnuskyni, og hins vegar rekstrarleyfi, sem veiti réttindi til að reka eina eða fleiri leigubifreiðar sem eru í eigu rekstrarleyfishafa eða skráð undir umráðum hans og aka henni í atvinnuskyni. Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfi megi veita hvort heldur sem er lögaðila eða einstaklingi.

Gerðar eru breytingar á skilyrðum heimildar til rekstrar leigubifreiðastöðvar og þá verður rekstrarleyfishöfum heimilað að framselja hluta af skyldum sínum með samningi til leigubifreiðastöðvar.

Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að aka án gjaldmælis í þeim tilfellum þegar samið hefur verið fyrir fram um áætlað eða endanlegt heildarverð fyrir ekna ferð. Þá er gert ráð fyrir því að gera megi ólíkar kröfur til merkinga bifreiða eftir því hvort þær séu búnar gjaldmæli eða ekki.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 27. júlí 2022 en umsagnir verða birtar jafnóðum í samráðsgáttinni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurjóna Guðnadóttir - 11.07.2022

Umsögn frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar:

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur gerir almennt ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en vill benda á eftirfarandi:

- Til að öðlast rekstrarleyfi (6. gr) er ein krafan að viðkomandi sé með lögheimili innan EES, en ekki er gerð slík krafa á atvinnuleyfi (5. gr). Ekki verður í ljót bragði séð hvers vegna það er ekki samræmi þarna á milli..

- Í 5. og 6. gr. er fjallað um gott orðspor, en það felur í sér að viðkomandi fái ekki rekstrar- eða atvinnuleyfi ef viðkomandi hafi m.a. gerst sekur um refsiverða háttsemi. Heimilt er hins vegar að veita leyfi ef brot hefur verið smávægilegt eða meira en 5 ár hafi liðið frá uppkvaðningu dóms. Brot gegn umferðarlögum eru í langflestum tilfellum talin smávægileg, en ekkert er fjallað um það ef umferðarlög séu brotin ítrekað. Að mati sviðsins væri rétt að skoða hvort gera ætti strangari kröfur um að fylgja umferðarlögum fyrir atvinnubílstjóra en aðra, að lágmarki þegar kemur að ítrekuðum brotum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Alþýðusamband Íslands - 26.07.2022

Vísað er til fyrri umsagnar ASÍ þá er mál þetta var áður flutt. Í umsögn sambandsins eru sterk rök færð fram fyrir því, að Íslandi sé ekki skylt skv. EES samningnum að ganga eins langt og lagt var til i upphaflegu frumvarpi og í þeim drögum sem nú eru til umsagnar og sem byggja á þskj. 1285 frá 152 löggjafarþingi. Þar er ítrekað vísað til ákvæða í EES samningnum og fullyrt án nokkurs rökstuðnings að þau skilyrði sem sett eru gangi gegn 31.gr. hans. Er þetta m.a. orðað þannig: "Að mati meiri hlutans ganga umrædd skilyrði gegn meginmarkmiðum EES-samstarfsins og sjónarmið hafa komið fram um að þau gangi beinlínis gegn 31. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið." Um er að ræða fullyrðingu án þess að fyrir henni séu færð lögfræðileg rök sem þó er sú lágmarkskrafa sem gera verður til löggjafans þá er hann leggur mat sitt. Hvað meiri hlutanum "finnst" er uppfyllir ekki þau skilyrði. ASÍ stendur því að fullu við fyrri umsögn sína. Rétt er að benda á, að frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að liðka fyrir starfsemi farveitna eins og t.d. UBER. Starfshættir þeirra eru nú um stundir til rannsóknar sakamálayfirvalda í Frakklandi. Jafnframt hafa dómstólar á Nýja Sjálandi komist að þeirri niðurstöðu að meintir "frjálsir verktakar" í þjónusti UBER séú í reynd "launamenn" en ekki verktakar sbr. https://www.newsroom.co.nz/rebecca-on-uber-case-closing-arguments. Er sú niðurstaða í samræmi við þá dómaframkvæmd sem er að skapast almennt á vesturlöndum. Í þessu efni ber allt að sama brunni: Hið meinta frjálsræði sem frumvarpið er sagt byggjast á felur einfaldlega í sér sköpun vondra og ótryggra starfa og felur ekki annað í sér en að ganga erinda þeirra sem hagnast vilja á sköpun þeirra. Hjálagt er fyrri umsögn ASÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Kristinn Halldór Einarsson - 26.07.2022

Ályktun sem aðalfundur Blindrafélagsins samþykkti 26. maí 2022.

Frumvarp til laga um leigubifreiðar.

Aðalfundur Blindrafélagsins haldinn 26. maí 2022 skorar á Alþingi að tryggja að fyrirhuguð ný lög um leigubifreiðar leiði ekki til lakara þjónustustigs en nú er fyrir daglega reglubundna notendur þjónustunnar. Blindrafélagið leggur jafnframt áherslu á að allir rekstrarleyfishafar séu skráðir á leigubifreiðastöð sem hefur starfsleyfi gefið út af Samgöngustofu. Enda segir í 1. grein frumvarpsins að markmið þessara nýju laga sé að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi.

Blindrafélagið óttast að ofuráhersla verði á aukið framboð leigubifreiða á háannatímum um helgar. Það muni leiða til lakari rekstargrundvallar og þar með fækkun þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum á framboð leigubifreiða á virkum dögum. Þó það sé vissulega neytendum í hag að nægt framboð sé á leigubifreiðum á hagstæðum kjörum þá eru það ekki síður mikilvægir hagsmunir neytenda að nægt framboð sé á leigubílaþjónusta alla daga ársins allan sólahringinn. Að láta þessa mikilvægu almanna þjónustu á óheft markaðstorg mun hafa þau áhrif að framboð mun minnka, þjónustustigið lækka og verð munu hækka.

Notendur ferðaþjónustu Blindrafélagsins, sem reiða sig á leigubílaþjónustu hafa mjög ólíkar þarfir og eru mismikið fatlaðir. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlað fólk almennt er útsettara fyrir hverskonar ofbeldi og misnotkun og þá sérstaklega í þjónustusamböndum. Því er það sérstaklega mikilvægt að allur lagarammi varðandi þjónustu og starfsmannahald sem snýr að fötluðu fólki sé skýr og gætt sé að fyllasta öruggi. Þar er ekki eingöngu um að ræða fötlun vegna sjónmissis heldur er einnig um að ræða einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og einstaklinga, með geðrænar fatlanir og þroskaskerðingar til viðbótar við sjónmissinn.

Það að afnema stöðvarskyldu og draga úr kröfum til bílstjóranna mun að mati Blindrafélagsins skerða þjónustuna og öryggi farþeganna, sérílagi farþega sem tilheyra viðkvæmum hópum.

https://www.blind.is/is/blindrafelagid/frettir/thrjar-alyktanir-af-adalfundi

Afrita slóð á umsögn

#4 Hörður Einarsson - 26.07.2022

Áður en lengra er farið með mál þetta verður að gera skilmerkilega og málefnalega grein fyrir því, hvort ákvæði núgildandi laga séu ekki samrýmanleg fyrirmælum stjórnarskrár Íslands um atvinnufrelsi og takmarkanir á því. Meðal annars ber við athugun á því að hafa hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands um það málefni.

Virðingarfyllst,

Hörður Einarsson

Afrita slóð á umsögn

#5 Daníel Orri Einarsson - 27.07.2022

Reykjavík, 27. júlí 2022

Efni: Umsögn um frumvarp

til laga um leigubifreiðaakstur í samráðsgátt

Heiðraða umhverfis- og samgöngunefnd

Bifreiðastjórafélagið Frami og Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra (hér eftir nefnt B.Í.L.S.) vilja ítreka fyrri umsagnir sem þau hafa sent umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis varðandi fyrri frumvörp sama efnis. Vegna þeirra breytinga sem fram koma í hinu nýja frumvarpi er þó þörf á að gera frekari athugasemdir.

Með þessu nýja frumvarpi, er ekki annað að sjá en að ráðherra leggi fram drög að lagabreytingum sem munu gera útaf við leigubifreiðaakstur hérlendis með því að heimila rekstrarform sem bjóða heim ójafnri samkeppni. Í frumvarpinu er enn fremur opnað fyrir losarabrag í atvinnugreininni með afnámi vinnuskyldu og takmörkunarsvæða.

Í engu hefur verið tekið tillit til margháttaðra athugasemda leigubifreiðastjóra við fyrri frumvörp – þeirrar stéttar er eðli máls samkvæmt hefur mesta þekkingu og reynslu í viðkomandi atvinnugrein. Þá er heldur ekki horft til þeirra hörmulega afleiðinga sem afregluvæðing leigubifreiðaaksturs hefur haft á hinum Norðurlöndunum. Aftur á móti er frumvarpið sniðið eftir tillögum Viðskiptaráðs Íslands og Samkeppniseftirlitsins og lagt til að fyrirtæki megi starfrækja leigubifreiðar og að engin bönd verði á fjölda bifreiða. Það vekur upp áleitnar spurningar hvers vegna sjónarmiðum samtaka atvinnurekenda er fylgt til hlítar en röksemdir og ábendingar stéttar leigubifreiðastjóra og Alþýðusambands Íslands hundsaðar.

Frumvarpið er kynnt með þeim orðum að óhjákvæmilegt sé að fara í breytingarnar þar eð Eftirlitsstofnun EFTA kalli eftir því. Íslenskum stjórnvöldum var í lófa lagið að leita undanþága sem þau gerðu ekki. Þau þurfa að svara fyrir eigin mistök í því efni og fá þau leiðrétt – ekki er hægt að leggja ábyrgðina á þeirri yfirsjón á herðar stéttar leigubifreiðastjóra og notenda þeirrar þjónustu er þeir veita. Alþýðusamband Íslands hefur leitt að því sterk rök að Íslandi sé ekki skylt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að ganga eins langt í breytingum og lagt er til í frumvarpinu. Frami og B.Í.L.S. benda á að fullyrðingar stjórnvalda um þessi atriði séu ekki rökstuddar og vísað er til álits ASÍ um það efni.

Starfshópurinn sem þáverandi samgönguráðherra skipaði (2017) og vann að skýrslu um heildarendurskoðun á íslenskum lögum um leigubifreiðar (2018) tók ekkert mið af svartri atvinnustarfsemi sem vitanlega skekkir allan markaðinn. Af þeirri ástæðu eru niðurstöður starfshópsins ómarktækar. Sama má segja um greinagerð frumvarps þess sem hér um ræðir, þar er talað í ályktunum og líkindum, í stað þess að taka til skoðunar þær afleiðingar sem nú liggja fyrir af nýlegum lagabreytingum á hinum Norðurlöndum sama efnis.

Eins og fram hefur komið í fréttum frá Noregi, standa stjórnvöld fyrir breytingum á þó nýlegum lögum um leigubifreiðar í ljósi þeirra hörmulegu afleiðinga sem afregluvæðing leigubifreiðaaksturs þar í landi hafði í för með sér. Í umsögn félaga íslenskra leigubifreiðastjóra við frumvarpið, sem lagt var fram á síðasta þingi, var rækilega fjallað um stöðuna í Noregi, en sem fyrr segir er þeirra alvarlegu athugasemda í engu getið í þeim gögnum er þetta frumvarp byggir á. Enn og aftur eru sjónarmið stéttarinnar hundsuð.

Nýjar fréttir af hneykslismálum Uber og áhrifa stjórnanda þeirrar farveitu á stjórnmálamenn og blaðamenn víðs vegar Evrópu, ættu út af fyrir sig að vera næg ástæða til að falla frá áformum um afregluvæðingu leigubifreiðaaksturs hér á landi – sér í lagi að koma í veg fyrir að útlend stórfyrirtæki á borð við Uber fái að hasla sér völl hérlendis. Líklegt má telja að íslenskir ráðamenn – líkt og ráðamenn víðs vegar annars staðar í álfunni – séu undir áhrifum af undirróðursstarfsemi Uber.

Frá farveitum í Noregi eru þær fréttir að skattayfirvöld fá engar upplýsingar um akstur né tekjur þeirra farveitna sem þar starfa, svo sem Uber, Bolt og Yango, þvert á sérstakt ákvæði sem sett var í lög til að tryggja eftirlit í hinu nýja lagaumhverfi sem tók gildi í Noregi nóvember 2020.

Af öllu framansögðu má ljóst vera þvílíkt feigðarflan samþykkt þessa frumvarps yrði fyrir leigubifreiðaakstur hér á landi. Frami og B.Í.L.S. leggjast því alfarið gegn frumvarpinu og beina því til ráðamanna þess í stað að leita leiða til að taka á ólöglegri starfsemi í atvinnugreininni með það að markmiði að uppræta hana.

Hagur heillar starfstéttar og neytenda fara hér fyllilega saman, enda hafa leigubifreiðastjórar um áratugaskeið sinnt þjónustu af mikill fagmennsku í krafti núverandi kerfis sem myndar mikilvægan þátt í samgönguinnviðum landsins.

Virðingarfyllst

f.h. Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama,

Daníel Orri Einarsson

formaður

Afrita slóð á umsögn

#6 Ársæll Hauksson - 27.07.2022

Vísa ég til fyrri umsagna en vil bæta við eftirfarandi.

Í fyrsta lagi hefur samráð við leigubifreiðastjóra og neytendur verið í skötulíki þrátt fyrir fögur loforð að hálfu Innviðarráðherra. Það hafa komið varnarviðbrögð frá yfirvöldum í öðrum evrópulöndum varðandi lausatök á leyfisveitingum en það er eins innviðarráðuneytið láti þau varnarorð sem vind um eyru þjóta.

Það er ótrúlegt að evrópusambandið hafi staðið í breytingu á löggjöf til að þóknast vafasömu fyrirtæki til að komast inná leigubílamarkaðinn.

Þessari löggjöf sem ESA skákar í skjóli hlítur að verða hnekkt þar sem grunur um ólöglegt samráð hefur verið ljóstrað upp.

Finnst að stjórnvöld ættu einu sinni að standa í lappirnar og láta reyna á undanþágu vegna fámennis og þess að Ísland er eyríki með 380 þúsund íbúa.

Ég legg til að Innviðarráðherra hefji samráð við neytendur og samtök leigubifreiðastjóra um framlagningu frumvarps um breytingar á löggjöf varðandi leigubílaakstur, sem leiði til heilla fyrir neytendur og þá fjölmörgu leigubílstjóra og fjölskyldna þeirra, sem hafa lífsviðurværi af þessu fjölbreytta starfi.

Virðingafyllst,

Ársæll Hauksson

Afrita slóð á umsögn

#7 Hreyfill svf. ( Samvinnufélagið Hreyfill ) - 27.07.2022

Reykjavík 27.07.2022

Samgöngu og sveitarsjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavik

Efni: Frumvarp til laga um leigubifreiðar. Mál nr. 115/2022

Það er ljóst eftir lestur frumvarpsdragana að lítið sem ekkert hefur verið tekið tillit til sjónarmiða stéttarinnar og er það miður. Það er einnig greinilegt, að við vinnu frumvarpsins hefur ekki verið horft til skelfilegra afleyðinga, sem afregluvæðing hefur haft á hinum Norðurlöndunum.

Í frumvarpi til laga um leigubifreiðaakstur segir í fyrstu grein að markmið laganna sé að “tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigu-bifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi.“ Með núverandi lögum er það markmið uppfyllt og því óþarft að ráðast í þessar breytingar á lögunum að mati Hreyfils.

5. grein Atvinnuleyfi.

Mjög mikilvægt er að bakgrunnur þeirra sem ætla að gerast leigubifreiðastjórar sé kannaður ítarlega. Þeir sem hafa gerst sekir um að hafa brotið gegn XXII. kafla eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga eiga ekki að geta fengið leyfi til þess að aka leigubifreið.

Mikilvægt að gerð sé krafa um lágmarks íslenskukunnáttu bílstjóra. Í Danmörku er það skylda fyrir þá sem ætla að gerast leigubílstjórar að sýna fram á það að viðkomandi hafi lokið prófi í dönsku. Ferðum fylgja oft flókin skilaboð sem bílstjóra þarf að skilja þar sem farþegar geta ekki í öllum tilvikum komið þeim upplýsingum á framfæri við bílstjóra.

Einnig er mikilvægt að ekki verði slegið af kröfum varðandi ökuréttindi né námskeið frá því sem nú er og ættu allir sem vilja gerast atvinnuleyfishafar þurfa að sækja námskeið til að öðlast aukin ökuréttindi og námskeið í farþegaflutningum.

Ekki er ráðlegt að leggja það á herðar atvinnuleyfishafann að viðkomandi tilkynni sjálfur að viðkomandi uppfylli ekki lengur skylirði skv. 2. mgr á leyfistímanum. Sú könnunarskylda á að liggja hjá eftirlitsaðilanum, sem er í þessu tilviki Samgöngustofa.

6. grein Rekstrarleyfishafi.

Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að bílstjórar afli sér starfsreynslu með því að leysa leyfishafa af þegar þeir taka sér frí frá akstri af einhverjum ástæðum.

Mikilvægt er að áfram sé gerð sé krafa um reynslutíma, eins og tíðkast hefur í áratugi til þess að gerast leigubílstjóri. Það hefur komið í ljós að ekki eiga allir erindi í akstur á leigubifreiðum og hefur reynslutíminn verið ágæt leið til þess að skera úr um með það.

Nauðsynlegt er að leigubifreiðastjórar hafi leiguakstur sem aðalstarf til þess að tryggja megi að bílar séu til taks allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Sömu kröfu skal gera um íslenskukunnáttu og hjá atvinnuleyfishöfum. Einnig skulu gerðar sömu kröfur varðandi mat á góðu orðspori þ.e. að þeir sem hafa gerst sekir um að hafa brotið gegn XXII. kafla eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga eiga ekki að geta fengið leyfi sem rekstraleyfishafar.

Búið er að fella út ákvæði fyrra frumvarps um að hver leyfishafi gæti eingöngu verið með eitt leyfi. Þetta ákvæði hefur verið forsenda að hér hefur verið rekinn leigubílaþjónusta á mjög faglegum forsendum.

9. grein Gjaldmælar og verðskrár.

Gjaldmælar eiga að vera í öllum leigubifreiðum, og ekki á að heimila tvær tegundir af leigubifreiðum, aðra útbúna gjaldmælum og hina ekki. Í annarri mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar um að gerð sé krafa um gjaldmæla í leigubifreiðum þá sé heimilt að aka án gjaldmælis þegar ferð er seld fyrir fyrir fram ákveðið umsamið áætlað eða endanlegt heildargjald.

Það á að vera ófrávíkjanleg regla að þegar ekið er gegn gjaldi, hvort sem það er mælt í tíma, vegalengd eða gegn föstu verði að upphæð ferðarinnar komi fram á gjaldmælinum frá upphafi ferðar til enda.

Verðskrár skulu vera sýnilegar í öllum leigubifreiðum þar sem tilgreint er verð tíma og vegalengdar og ættu verðin sem þar koma fram að vera ófrávíkjanleg.

10. grein Gæða og tæknikröfur.

Allar bifreiðar sem notaðar eru leigubifreiðar vera búnar eins og reglur um gerð og búnað bifreiða segja til um. Leigubifreiðar skulu skráðar sem slíkar í bifreiðaskrá, vera útbúnar gjaldmæli og ljósmerki á toppi bifreiðar.

11. grein Auðkenni.

Stöðvarmerki í framrúðu skal vera í öllum leigubifreiðum svo ekki fari milli mála hjá neytandanum með hvaða fyrirtæki hann ekur. Leyfisskírteini rekstrarleyfishafa skal ávallt vera sýnilegt í bifreiðinni. Einnig skal eftir atvikum leyfisskírteini atvinnuleyfishafa vera sýnilegt á meðan viðkomandi er að störfum.

12. grein Leigubifreiðastöðvar.

Allar leigubifreiðastöðvar eiga að bjóða upp á símsvörun á milli kl. 06:00 til 01:00 að lágmarki, alla daga vikunnar, allt árið.

Stöðvarskylda.

Ekki er ráðlegt að fara í afnám stöðvarskyldu, leigubifreiðastöðvarnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki við það að tryggja gæði og framboð á þjónustu.

Komi upp ágreiningur varðandi aksturinn eða annars sem þarfnast skjótrar úrlausnar þá geta farþegar ávallt leitað til stöðvarinnar og fengið aðstoð við úrlausn sinna mála, á skjótan og öruggan hátt.

Stöðvarnar hafa einnig gegnt mikilvægu hlutverki í eftirliti með því að ökumenn fari að fyrirmælum laga og reglugerða. Skráning stöðvanna á ferðum hafa nýst eftirlitsaðilum s.s. lögreglu, samgöngustofu og skattinum, enda hafa allar upplýsingar vegna ferða verið skráðar.

Í frumvarpinu segir að rekstraleyfishafi sé heimilt að reka leigubifreiðastöð án starfsleyfis leigubifreiðastöðva. Þetta er mikil afturför og þá sérstaklega fyrir neytendur.

Það er ljóst að verði rekstraleyfishöfum gert kleyft að stofna eins manns stöð mun verða nær ókleift fyrir farþega að vita með hverjum ekið var.

Verðskrá og verðþak.

Landsdekkandi verðþak ætti að vera á leigubílaþjónustu hér á landi líkt og í Danmörku. Það væri til mikilla hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar að geta gengið að sama verði fyrir þjónustuna, óháð því frá hvaða leigubifreiðastöð bíllinn kemur.

Gildistaka.

Gildistaka nýrra laga er miðuð við 1. janúar 2023. Stjórn Hreyfils vill hins vegar árétta að stjórnendum og bílstjórum Hreyfils gefist lengri tími til að aðlaga reksturinn að breyttum lögum. Telur stjórn Hreyfils hæfilegt að veittur sé 2 ára aðlögunarfrestur hið minnsta.

Það hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem hefur verið farið í afregluvæðingu að þjónusta hefur snarversnað og verðlag fyrir þjónustuna hefur hækkað. Nýjustu dæmin um afregluvæðingu eru t.d. Noregur og Finnland. Eftir að leigubilamarkaðurinn í þessum löndum var afregluvæddur versnaði þjónustan til mikilla muna, þannig að ráðist hefur verið í allsherjar endurskoðun á því regluverki, sem hafði stuttu áður verið samþykkt.

Í Finnlandi hefur verð fyrir leigubílaþjónustu bæði hækkað og þjónustan versnað og nánast horfið á sumum svæðum og er það álit þeirra sem þekkja til að afregluvæðingin hafi ekki gagnast notendum þjónustunnar á neinn hátt, heldur eigi nú farþegar mun erfiðara með að finna góða og örugga þjónustu.

Sífellt fjölgar þeim notendum sem kvarta undan þjónustunni og verðlagningu í Finnlandi og eru helstu umkvörtunarefnin hátt verðlag og skortur á þjónustu.

Í Noregi er nánast sömu sögu að segja, þar kemur fram að yfirvöld hafa tapað þeirri yfirsýn yfir leigubílamarkaðinn sem þau áður höfðu. Núna rúmlega ári eftir að leigubílamarkaðurinn í Noregi var afregluvæddur er byrjuð vinna hjá yfirvöldum að koma reglum á aftur.

Í gildandi kerfi ganga allar greiðslur viðskiptavina Hreyfils til bílstjóranna sem þar starfa. Greiðslurnar standa undir lög- og samningsbundnum útgjöldum, rekstrarkostnaði og loks launum eða tekjum viðkomandi aðila. Allar greiðslurnar ganga inn í íslenska hagkerfið og eru grundvöllur viðeigandi skattlagningar.

Með þessu móti er starfsemi Hreyfils þáttur í þeirri efnahagsstarfsemi sem íslenska samfélagið byggist á. Mikilvægt er að tryggja að Hreyfill og bílstjórar stöðvarinnar þurfi ekki að mæta samkeppni, sem ekki tæki þátt í greiðslum til íslensks samfélags.

Þetta á t.d. við samkeppni frá erlendum aðilum sem vilja selja leigubifreiðaþjónustu á Íslandi með þeim hætti að allt endurgjaldið sé greitt inn á erlenda reikninga og einungis hluta þess skilað aftur til Íslands sem verktakagreiðslum til viðkomandi bílstjóra. Slíkt fyrirkomulag skapar ósanngjarna samkeppnisaðstöðu og leggur ekkert til íslensks samfélags.

Gjarnan er talað um að breytingar á lögunum séu nauðsynlegar þar sem þetta varðar atvinnufrelsi manna samkvæmt stjórnarskránni. Í því sambandi er rétt að árétta að starfsstéttin er öllum opin og allir sem hafa áhuga á geta unnið sem leigubifreiðastjórar. Hitt er svo annað mál að það á ekki að slá af kröfunum varðandi námskeið eða kunnáttu sem fólk þarf að afla sér til að starfa sem leigubifreiðastjórar.

Þeir aðilar sem fara með málefni stéttarinnar á Íslandi bera skyldu til að horfa til þess sem gerst hefur á hinum Norðurlöndunum við afregluvæðingu, í stað þess að samþykkja frumvarp þetta og í kjölfarið eyðileggja leigubílamarkaðinn á Íslandi, neytendum og leigubílstjórum til óheilla.

Hreyfill áskilur sér rétt til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum. Forráðamenn Hreyfils árétta að félagið vill vinna með stjórnvöldum í þessu máli með það að markmiði að breytingar sem kunni að vera gerðar, þjóni í reynd íslensku samfélagi.

Virðingarfyllst

Haraldur Axel Gunnarsson

Framkvæmdastjóri Hreyfils

Viðhengi