Samráð fyrirhugað 06.07.2022—19.08.2022
Til umsagnar 06.07.2022—19.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 19.08.2022
Niðurstöður birtar 13.10.2022

Reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi

Mál nr. 116/2022 Birt: 06.07.2022 Síðast uppfært: 24.11.2022
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Alls bárust sjö umsagnir um reglugerðina. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur undir sjónarmið flestra ábendinga en telur ekki þörf á efnislegum breytingum á reglugerðardrögunum í kjölfar samráðs.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.07.2022–19.08.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 13.10.2022.

Málsefni

Í reglugerðardrögunum er kveðið á um hvaða aðilum, öðrum en opinberum, sé heimilt að birta gögn í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla.

Í reglugerðardrögunum er kveðið á um hvaða aðilum, öðrum en opinberum, sé heimilt að birta gögn í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla.

Þann 1. janúar 2025 skulu lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda að fullu innleidd. Í því felst að allir einstaklingar og fyrirtæki með íslenska kennitölu fái upplýsingar frá opinberum aðilum, er varða sértæka hagsmuni viðkomandi, beint í eigið pósthólf á Ísland.is. Reglugerðardrögin byggja á lögum um stafrænt pósthólf sem kveða á um að ábyrgðaraðili stafræna pósthólfsins, sem er fjármála- og efnahagsráðuneytið, geti heimilað fleiri aðilum en opinberum að senda gögn í það.

Með gögnum sem varða sértæka hagsmuni viðtakanda er átt við gögn á borð við afgreiðslur umsókna, áskoranir og greiðslukvittanir. Dæmi um gögn sem ekki skal birta í hólfinu eru auglýsingar og viðlíka fjöldapóstar sem beinast að hópi aðila.

Drögin skilgreina tvo flokka birtingaraðila í stafræna pósthólfinu, sem eiga sameiginlegt að annast verkefni sem kveðið er á um í lögum. Uppleggið mun heimila þessum aðilum að leysa þau verkefni með samskiptum við einstaklinga og lögaðila í gegnum stafræna pósthólfið.

Þeir aðilar sem um ræðir eru:

Lífeyrissjóðir skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Upplýsingar sem hér falla undir eru greiðsluyfirlit og yfirlit um áunnin og væntanlegan lífeyrisrétt. Sömuleiðis ítrekanir til launagreiðenda um vangreidd iðgjöld.

Aðilar sem stunda löginnheimtu að því er varðar gögn sem teljast hluti af löginnheimtu skv. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Hér undir falla m.a. greiðsluáskoranir, beiðnir um nauðungarsölu og beiðnir um fjárnám. Frum- og milliinnheimta falla ekki hér undir.

Áform um að veita framangreindum aðilum heimild til að notast við pósthólfið byggja á eðli þeirra verkefna sem um ræðir og er hliðsjón höfð af sjónarmiðum um hagræði og öryggi stafrænnar þjónustu. Jafnframt er horft til þess að innleiðing á pósthólfinu hjá opinberum aðilum stendur yfir og möguleikar til innleiðingar hjá einkaaðilum því takmarkaðir á innleiðingartímabili þeirra sem lögin afdráttarlaust taka til.

Við gerð laga um stafrænt pósthólf og undirbúning reglugerðarinnar hefur verið lagt mat á mögulegan sparnað af notkun stafræna pósthólfsins. Í greinargerð með frumvarpinu var greint frá því að breytt fyrirkomulag við birtingu hefði í för með sér mikla hagræðingu fyrir ríkissjóð sem áætlað var að gæti orðið á bilinu 300–700 m.kr. Þá er ótalin sú hagræðing sem verður hjá sveitarfélögum og þeim einkaaðilum sem verður heimilt að birta gögn í pósthólfinu. Aukinn fjöldi birtingaraðila sem drögin gera ráð fyrir mun fela í sér sparnað fyrir fleiri efnisflokka, sem jafnframt færast í betri farveg hvað varðar gæði og öryggi samskipta. Varfærin áætlun um sparnað í þeim málaflokkum nemur um 200 m.kr. á ári og mun sparnaðurinn að hluta renna til einstaklinga og fyrirtækja í formi lækkaðs kostnaðar.

Nú birta um þrjátíu opinberir aðilar efni í stafræna pósthólfinu. Því er ljóst að til að uppfylla kröfu laganna mun mikill fjöldi opinberra aðila gerast birtingaraðilar í stafræna pósthólfinu á næstu misserum. Ekki er gert ráð fyrir að fleiri einkaaðilar bætist við á næstunni en slíkar breytingar á þeirri reglugerð sem hér er kynnt í drögum verða teknar til skoðunar síðar. Í því sambandi má nefna að kallað hefur verið eftir því að tilkynningar sem fyrirtækjum er skylt samkvæmt starfsleyfi Persónuverndar á grundvelli 15. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga að senda einstaklingum og lögaðilum, um fyrirhugaðar skráningar og um uppflettingar, megi birta í pósthólfinu. Um sé að ræða þúsundir tilkynningarbréfa á mánuði sem losi umtalsvert magn af koltvíoxíði.

Lögin kveða á um að aðilar sem þess óska geti kosið að fá gögn sem birtast í pósthólfinu jafnframt send á annan hátt, til dæmis á pappír. Það er á ábyrgð hvers birtingaraðila að halda utan um hverjir hafa óskað eftir þessari þjónustu og senda þeim viðeigandi gögn til viðbótar því að birta þau í pósthólfinu.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtök lífeyrissjóða - 07.07.2022

Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða, dags. 7. júlí 2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök fjármálafyrirtækja - 15.07.2022

Góðan dag.

Meðfylgjandi er umsögn SFF.

Virðingarfyllst,

Margrét A. Jónsdóttir, lögfræðingur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Creditinfo Lánstraust hf. - 12.08.2022

Góðan dag, sjá meðfylgjandi umsögn Creditinfo Lánstraust hf.

Bestu kveðjur,

Vilhjálmur Þór Svansson forstöðumaður lögfræðisviðs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 18.08.2022

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök fjármálafyrirtækja - 19.08.2022

SFF hafa nú þegar sent stutta umsögn um málið en samtökin telja rétt að senda ítarlegri umsögn sem er meðfylgjandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þorsteinn Júlíus Árnason - 19.08.2022

Umsögn send fyrir hönd Motus ehf. og Lögheimtunnar ehf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Hagsmunasamtök heimilanna - 19.08.2022

Sjá viðhengi.

Viðhengi