Samráð fyrirhugað 11.07.2022—14.08.2022
Til umsagnar 11.07.2022—14.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 14.08.2022
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla

Mál nr. 119/2022 Birt: 11.07.2022
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála
  • Háskólastig
  • Framhaldsskólastig

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (11.07.2022–14.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Drög að reglugerð sem felur í sér nánari lýsingu á hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda, auk þess sem kveðið er á um hæfni kennara í íslensku.

Um er að ræða drög að reglugerð sem er fyrirhugað að setja á grundvelli 8. gr. laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og felur í sér nánari lýsingu á hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda, auk þess sem kveðið er á um hæfni kennara í íslensku.

Markmið reglugerðarinnar er að skýra nánar inntak og hlutverk hæfniramma um almenna og sérhæfða þekkingu, leikni og hæfni sem kennarar og skólastjórnendur skulu búa yfir vegna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstarfa þeirra í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hæfnirammanum er ætlað að veita viðurkenndum háskólum leiðsögn um inntak kennaramenntunar en háskólar sem fengið hafa viðurkenningu til kennslu og rannsókna á sviði menntavísinda er heimilt að skipuleggja kennaranám sem felur í sér fjölbreyttar námsleiðir og kjörsvið í samræmi við ákvæði 5. gr. og 9. gr. laga nr. 95/2019 og taka mið af ákvæðum reglugerðarinnar. Jafnframt er reglugerðinni ætlað að liggja til grundvallar útgáfu leyfisbréfa, vera grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs og veita leiðsögn um ráðningar og starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jóhannes S Aðalbjörnsson - 14.07.2022

Umsögn

1. Orðalag: ekki ,,sérhæfða þekkingu, leikni og hæfni”, heldur bara almenna og sérhæfða hæfni. (leikni og þekking er innhald hæfninnar). Næ ekki þessu ,,grunnur að innra og ytra mati”.

2. Ekki þ.m.t. hæfni í íslensku frekar auk eða sem og, vegna þess að hæfni í íslensku er stjálfstæð hæfni en ekki innfalin í almennri og sérhæfðri eins og raunar kemur fram í reglugerðinni. B-liður óskiljanlegur. Kenningarlegur er óheppilegt hugtak í þessu samhengi því það vísar í tilgátu en ekki niðurstöðu auk þess er það alla jafna notað í samengi við umfjöllun um trúarbrögð, fræðilegur er alveg fínt orð þarna. Síðustu setninguna þarf að skrifa að nýju hún er bæði óskýr og illskiljanleg, sennilega betra að rita þetta í tveimur setningum. Það má ekki vera á reiki hvernig hæfni kennara er nýtt t.d. sérhæfð hæfni því það er alltof algengt að kennurum sé skipað til rúms á einhverjum öðrum forsendum en faglegum eða út frá hæfni þeirra. Þarna eða á öðrum stað í reglugerðinni þarf að undirstrika það að sérhæfða hæfni á að nýta innan skólanna ef að kennari óskar þess til að tryggja að gæði skólastarfsins þ.e. ef að reglugerðin á að virka og vera raunverulegur grunnur að góðu skólastarfi. Það væri hægt að kveða á um það að stjórnendur skuli nýta sérhæfða hæfni kennar eftir því sem kostur er, en þetta er sérstaklega brýnt á unglingastigi grunnskóla.

3. Síðustu setningunni þarf að setja upp í tvær setningar. Starfsþróun kemur á eftir kennaramenntun en er ekki hluti af henni, - hvernig koma t.d. háskólar að starfsþróun

4. ; ,,og má telja þannig einingar jafngildar” betra; og má meta námseiningarnar jafngildar. ECTS kerfið er eingöngu fyrir háskóla, verklegt nám á háskólastigi er alla jafna hluti af bóklegum áföngum.

5. Breytileika nem. er ekki átt við bakgrunn nemenda. 3 a er undarlegt orðalag og gott að átta sig á hvert er verið að fara með því.

6. Færni er undirheiti hæfninnar og með þrengri merkingu og því ætti að nota hæfni í upphafi greinarinnar. Vantar stóran staf á eftir tölustöfum. 3 c e-ð skrýtið  ,,og áhrifa á eigið nám og val í námi,”

7. - 10. Flott

11. ,,veita faglega forystu við náms- og gæðamat skóla, … farsæld í skólastarfi.” Námsmat skóla ?, farsælu skólastarfi

12. Flott

Með bestu kveðjum

Jóhannes Aðalbjörnsson

M.ed.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 14.08.2022

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að reglugerð um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik- grunn- og framhaldsskóla.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Reglugerðardrögin innihalda að mati Barnaheilla góð viðmið um hæfni kennara og skólastjórnenda en samtökin vilja þó árétta eftirfarandi:

Mikilvægt er að í menntun kennara sé lögð áhersla á velferð allra nemenda á forsendum hvers og eins nemanda. Leggja þarf áherslu á hæfni kennara til að takast á við margbreytileikann og þær áskoranir sem felast í fjölbreyttum nemendahópum. Öll börn eiga rétt á því að njóta farsældar án mismununar og í því sambandi skiptir hæfni kennara í að koma auga á og að hlusta eftir þörfum sérhvers barns miklu máli.

Nám barna á að vera byggt á þeim réttindum sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þurfa kennarar að hafa þekkingu á barnasáttmálanum sem og heimsmarkmiðunum og öðrum alþjóðlegum samningum er Ísland er aðili að og varða börn. Jafnframt þurfa kennarar að hafa þekkingu á þeim íslensku lögum er varða börn, svo sem lögum um barnavernd. Mikilvægt er að tryggja að nemendum sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra eða stöðu foreldra þeirra. Afar brýnt er að kennarar iðki mannréttindi barna í störfum sínum á meðvitaðan og virðingarríkan hátt.

Tryggja þarf að í grunnmenntun kennara á öllum skólastigum felist kennsla í forvörnum gegn ofbeldi á börnum, þ.m.t. líkamlegu ofbeldi, kynferðisofbeldi og einelti, sem og vanrækslu og áhættuhegðun. Kennarar þurfa að þekkja einkenni slíkra mála og vita hvernig bregðast skuli við vakni grunur um að barn búi við slíkar aðstæður. Þá er mikilvægt að kennarar hafi grunnþekkingu á að koma til móts við fjölbreyttan hóp nemenda sem búa við mismunandi aðstæður, menningu, bakgrunn, fjárhag og fleira.

Kennari þarf fyrst og fremst að vera góð fyrirmynd nemenda í samskiptum og framkomu og hafa hæfni til að beita aga sem er uppbyggilegur og stuðlar að mannlegri reisn nemenda. Kennari þarf að hafa hæfni til að skapa góðar starfsaðstæður fyrir öll og tryggja þarf viðeigandi faglegan stuðning inn í skólaumhverfinu eftir þörfum hvers og eins.

Skólinn á að vera staður þar sem öll fá að tilheyra, finnast þau velkomin og líða vel. Kennari þarf að hafa hæfni til að stuðla að því. Börn eiga að njóta virðingar og fá þjálfun til að tjá skoðanir sínar og ekki síður líðan sína, því þar sem barn þjáist vegna ofbeldis, útilokunar, eineltis eða ónógrar hlustunar nær það ekki að nýta sér menntun og kennslu á farsælan hátt.

Barnaheill leggja mikla áherslu á forvarnir í víðum skilningi og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.