Umsagnarfrestur er liðinn (13.07.2022–15.08.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Lagt er til að lög nr. 50/2014 verði felld úr gildi samhliða gildistöku nýrra laga um sýslumann. Helsta breytingin felst í sameiningu sýslumannsembættanna með það að markmiði að bæta þjónustuna.
Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný lög um sýslumann sem er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Með breytingunum er verið að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið í úttektum sem unnar hafa verið undanfarin ár á rekstri og stjórnsýsluframkvæmd embættanna og benda til þess að tækifæri séu til að efla þjónustu við almenning, m.a. með auknu framboði opinberrar þjónustu og samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög, samhliða því að hagræða í rekstri með aukinni sérhæfingu á landsvísu og betri nýtingu stafrænna lausna fyrir framkvæmd verkefna. Á grundvelli úttektanna vann ráðuneytið stefnu um framtíðarsýn fyrir málefni sýslumanna, sem birtist í skýrslu sem gefin var út í mars 2021 og ber heitið „Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“, sbr. þingskjal 1043 – 609. mál, 151. löggjafarþing 2020-2021. Í stefnunni felst að sýslumannsembættin veiti framúrskarandi þjónustu óháð búsetu og staðsetningu, hvar og hvenær sem er, eftir því sem hentar almenningi hverju sinni. Til stuðnings stefnunni er með lagabreytingunum stefnt að bættri þjónustu, betri nýtingu fjármuna í rekstri og fjölgun starfa á landsbyggðinni.
Með frumvarpinu er lögð til sú grundvallarbreyting á skipulagi sýslumannsembættanna, að þeim verði fækkað úr níu í eitt þannig að hægt verði að byggja upp öflugar og nútímalegar þjónustueiningar um land allt, þar sem sinnt verður bæði miðlægum og sérhæfðum verkefnum á landsvísu ásamt þjónustu í heimabyggð, eins nálægt fólki og kostur er. Við breytinguna verður landið að einu lögsagnarumdæmi og því munu einstaklingar geta nýtt sér þjónustu sýslumanns eftir því sem þeim hentar hverju sinni. Miðað er við að starfsemi sýslumanns verði svæðisskipt, með svipaðri landfræðilegri skiptingu og nú gildir fyrir umdæmi sýslumanna, og að innan hvers svæðis verði starfandi stjórnandi sem ber ábyrgð á daglegri stjórn starfsstöðva þess svæðis og þeim verkefnum sem honum eru falin af sýslumanni. Þá er að auki lagt til að þjónusta sýslumanns verði aðgengileg að mestu leyti með óbreyttu sniði, þ.e. hjá þeim sveitarfélögum sem sinna þjónustu embættanna í dag, en að unnið verði að því að nýta húsnæðikosti embættanna betur ásamt því að stuðla að auknu samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög. Með frumvarpinu er lagt til að aðsetur sýslumanns, þ.e. starfsstöð hans og eftir atvikum hluta yfirstjórnar, verði á landsbyggðinni.
Að lokum er lagt til að ráðherra geti strax við samþykkt frumvarps hafið undirbúning að stofnun nýs embættis með því að skipa sýslumann og verkefnisstjórn til að vinna með ráðuneytinu að frekari skipulagningu þess. Miðað er við að öll störf hjá gömlu sýslumannsembættunum verði lögð niður við gildistöku laganna en að starfsfólki, öðru en sýslumönnum, verði boðið starf hjá hinu nýja embætti frá sama tíma og þá með sem minnstri röskun á högum þess. Hvað sýslumenn varðar er miðað við að þeirra stöður verði sömuleiðis lagðar niður og að nýr sýslumaður auglýsi og ráði í stöður stjórnenda fyrir hvert svæði.
Ljóst þykir að markmiðum um bætta þjónustu við almenning verður seint náð án þess að taka að auki til endurskoðunar löggjöfina sem varðar verkefni sýslumanna. Af þeirri ástæðu eru uppi áform um að leggja síðar fram frumvarp til breytinga á þeirri löggjöf til að endurspegla breyttar áherslur samkvæmt frumvarpi þessu. Í löggjöf sem varðar verkefni sýslumanna er víðs vegar að finna ákvæði um verkaskiptingu og valdmörk sýslumanna sem þarfnast endurskoðunar. Að auki er að finna í lögum ýmsar hindranir fyrir innleiðingu stafrænnar málsmeðferðar og þar með bættri þjónustu embættanna við almenning. Markmið þess frumvarps verður að gera ákvæði laganna tæknilega hlutlaus, ásamt því að tryggja sýslumanni fullnægjandi heimildir fyrir stafrænni þjónustu þar sem aðstæður leyfa.
Verkefni teymisins sem sér um sáttameðferð umgengnismála á ekki heima hjá sýslumanni. Það er embættið sem leggur á refsingu (dagsektir) og er því ekki viðeigandi að hafa sáttameðferð á sama stað.
Mín skoðun er að lög 50/2014 verði óbreytt. Þau hafa reynst vera all góð frá minni reynslu séð m.t.t.góðs aðgengis og afgreiðslu. Og vil ég að sami sýslumannsembættið verði áfram eins og það er nú.
Virðingarfyllst,
Þóra Ásbjörnsdóttir
Á 7. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 20. júlí 2022 var tekið fyrir mál 122/2022, Drög að frumvarpi til laga um sýslumann, og þannig bókað.
Byggðarráð Skagafjarðar gerir athugasemdir við tímasetningu birtingar á drögum að nýjum lögum um sýslumann sem ætlað er að leysa af hólmi lög um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Drögin eru birt á þeim tíma þegar flestir eru í sumarleyfum og umsagnarfrestur er gefinn í rúmar 2 vikur.
Byggðarráð Skagafjarðar er sammála þeim meginmarkmiðum sem er að finna í drögunum um að byggðar verði upp öflugar og nútímalegar þjónustueiningar um land allt, þar sem sinnt verður bæði miðlægum og sérhæfðum verkefnum á landsvísu ásamt þjónustu í heimabyggð, eins nálægt fólki og kostur er. Jafnframt að þjónusta sýslumanns verði aðgengileg að mestu leyti með óbreyttu sniði, þ.e. hjá þeim sveitarfélögum sem sinna þjónustu embættanna í dag, en að unnið verði að því að nýta húsnæðiskosti embættanna betur ásamt því að stuðla að auknu samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög.
Byggðarráð geldur hins vegar varhug við að embættum sýslumanna verði fækkað en sporin hræða í þeim efnum að þegar stjórnsýslueiningar missa ákveðið sjálfstæði hefur slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hefur minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægir þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, Rarik o.fl. Byggðarráð leggur því áherslu á að frumvarp þetta verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum sýslumanns er ætlað að sinna.
F.h. byggðarráðs
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Stjórn Sýslumannafélags Íslands f.h. félagsmanna vill koma á framfæri athugasemdum við drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um sýslumann en tekin var einróma ákvörðun á félagsfundi þann 19. júlí sl. um að stjórn sendi umsögn í samráðsgátt stjórnvalda fyrir þeirra hönd.
Almennt má segja að ábendingar félagsmanna lúti að miklu leyti að skorti á því að málið sé unnið á faglegum forsendum. Sem dæmi má nefna að ekki verður séð að réttarfarsnefnd hafi fengið málið til umfjöllunar þegar þetta er ritað. Það er mikilvægt þar sem breytingarnar ná ekki fram að ganga nema að samhliða séu gerðar umfangsmiklar breytingar á öllu fullnusturéttarfari. Bent er á að verði frumvarpið að lögum felur það í sér umtalsvert framsal á valdi frá löggjafanum til ráðherra. Aukinheldur verður ekki annað séð en að um mikilvægt byggðamál sé að ræða og að frumvarpið hafi mikil áhrif á réttindi og kjör starfsmanna sýslumanna, starfsemi embættanna og þjónustu. Nákvæm fjárhagsáætlun eða langtímaáætlun liggur ekki fyrir og því fullkomin óvissa uppi um hver er rekstrargrundvöllur og þar með framtíð starfa og starfsmanna hjá embættum sýslumanna um land allt verður.
Þessum sjónarmiðum og rökstuðningur fyrir þeim eru gerð ítarlegri skil í umsögn hér í viðhengi.
Virðingarfyllst
Jónas B. Guðmundsson, formaður stjórnar Sýslumannafélags Íslands
ViðhengiFélag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) sendir hjálagt inn umsögn félagsins um þau drög að nýjum lögum um sýslumann sem lögð hafa verið í Samráðsgátt.
FFR gerir athugasemdir við tímasetningu og skamman umsagnarfrest en auk þess efnislegar athugasemdir við nokkur atriði í drögum þessum.
Þá telur FFR að fyrirhuguð uppsögn félagsmanna gangi þvert gegn nýlega innleiddum reglum um starfsumhverfi forstöðumanna.
Félagið lýsir sig reiðubúið til samráðs um breytingar á drögum þessum.
f.h. Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Kristján Sverrisson, formaður stjórnar FFR
ViðhengiHjálögð er umsögn stjórnar SSNV um mál nr. 122/2022, drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
F.h. stjórnar
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri
ViðhengiÁ 1617. fundi bæjarráðs Grindavíkur þann 26. júlí 2022 var tekið fyrir mál 2207082 vegna fyrirhugaðar sameiningar sýslumannsembætta í eitt og því tengdu að leggja niður útibú sýslumanns í Grindavík og bókaði eftirfarandi:
Fyrir liggur í samráðsgátt frumvarp til laga um sýslumann með það að markmiði að sameina öll sýslumannsembætti landsins í eitt.
Bæjaryfirvöld í Grindavík gagnrýna þá stefnu dómsmálaráðherra að leggja niður útibú sýslumanns í bænum. Gagnrýnin er óháð sameiningu embættanna í eitt embætti til að tryggja samræmda og góða þjónustu um allt land líkt og frumvarpið leggur til. Það vekur þó furðu að samhliða sameiningu embætta eigi að skerða þjónustu í Grindavík og mótmæla bæjaryfirvöld harðlega lokun útibúsins og um leið skerðingu á þjónustu við bæjarbúa, þvert á markmið frumvarpsins.
Í umsögn um frumvarpið er þess getið að samráð var haft við ákveðin sveitarfélög en óskiljanlegt er að ekki var haft samráð við Grindavík sem er það sveitarfélag ásamt Dalvík sem eiga að missa starfstöðvar sínar.
Í dag er sýslumaður með starfmann í 68% starfshlutfalli í bæjarfélaginu en frá byrjun desember hefur útibúinu verið lokað og hefur það valdið miklum óþægindum fyrir íbúa Grindavíkur.
Bæjaryfirvöld í Grindavík telja þetta vera gríðarlega mikla þjónustuskerðingu og lýsa andstöðu sinni við þessar fyrirhuguðu breytingar en í sumar hefur ríkið ákveðið að loka bæði útbúi Póstsins og útibúi sýslumannsins og er staðan því orðin sú að ríkið er með nánast enga þjónustu hér í Grindavík í ört stækkandi samfélagi.
F.h. bæjarráðs Grindavíkur
Jón Þórisson, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Umsögn Vestmannaeyjabæjar um drög að frumvarpi til laga um sýslumann
Vísað er til máls nr. 122/2022 í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi til laga um sýslumann, sem birt var þann 13. júlí sl.
Fyrir það fyrsta þá gerir Vestmannaeyjabær athugasemd við tímasetningu birtingar á drögum að frumvarpi til laga um sýslumann og tímafrests sem gefinn er til athugasemda. Drögin að frumvarpinu birtast í Samráðsgátt stjórnvalda þann 13. júlí 2022 sl. og upphaflegur umsagnarfrestur 31. júlí nk., sem síðar var framlengdur til 15. ágúst nk. Þessi tímasetning er afar sérstök ef litið er til þess að um er að ræða aðalorlofstíma ársins og starfsfólk og bæjarstjórnir flestra sveitarfélaga í sumarfríi. Þetta kemur vissulega til með að hafa áhrif á vandaðar og vel ígrundaðar umsagnir.
Vestmannaeyjabær fagnar því markmiði dómsmálaráðherra að efla sýslumannsembættin á landsbyggðinni. Mikilvægt er að þjónusta sýslumanns sé í boði sem víðast á landsbyggðinni með sem mestri nálægð við borgarana. Jafnframt er hverju sveitarfélagi mikilvægt að eiga stjórnsýslustofnanir þar sem í boði eru spennandi störf fyrir metnaðarfulla og menntaða einstaklinga, en oft hefur reynst erfitt að laða að slíka einstaklinga á landsbyggðina. Jafnframt fagnar Vestmannaeyjabær þeim áformum að nútímavæða starfshætti, m.a. með framboði á stafrænum lausnum og gera borgurum þannig kleift að nálgast þjónustu með rafrænum hætti. Hins vegar er gerð athugasemd við undirbúning málsins, lítið sem ekkert samráð við hagsmunaaðila og að byrjað skuli á að breyta stjórnskipulagi embættanna í stað þess að halda áfram og ljúka við þá framfaravinnu sem hafin er í að nútímavæða embættin.
Vestmannaeyjabær hefur margoft lýst afstöðu sinni til sameiningar sýslumannsembættanna undir einn sýslumann. Síðast var það gert með sameiginlegri bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja á fundi sem haldinn var þann 24. mars sl., í framhaldi af bréfi sem dómsmálaráðherra sendi Sambandi íslenskra sveitarfélaga þann 21. mars sl. Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi:
"Nú hefst hjá Vestmannaeyjabæ enn ein baráttan um sýslumanninn í Vestmannaeyjum. Hver dómsmálaráðherra á fætur öðrum hefur áformað að leggja niður stöðu sýslumanns sem veikir verulega embættið hér í Eyjum, embætti sem hefur verið að eflast fyrir tilstilli sýslumannsins í Eyjum að undanförnu.
Þá er óboðlegt að ráðherra sendi bæjaryfirvöldum bréf þar sem áformin eru reifuð og óskað eftir samstarfi sex dögum eftir að lesa mátti tilkynningu um þau í fjölmiðlum. Eðlilegra hefði verið að ráðherra kynnti sveitarfélögunum áform sín fyrirfram. Mikilvægt er að fundur með ráðherra og bæjarráði fari fram sem fyrst og hefur ráðið óskað eftir honum.
Engin ný verkefni eru skilgreind í yfirferðinni hjá ráðherra en það er nauðsynlegt að þau séu skilgreind sé það ætlun ráðherra að styrkja embættin.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja mótmælir þessum áformum harðlega og þar sem ekki er hægt að sjá hvernig þetta á að styrkja embættin og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reka ráðherrann til baka með áform sín líkt og forvera sína og vinna í því að starfsemi embættisins í Eyjum verði efld enn frekar."
Erfitt er að sjá í umræddu frumvarpi að tekið hafi verið tillit til athugasemda Vestmannaeyjabæjar, m.a. um ný verkefni. Þá hefur ekkert samráð átt sér stað við Vestmannaeyjabæ um sameiginlega opinbera þjónustu. Ekki er vitað til þess að slíkt samráð hafi átt sér stað við eitthvert sveitarfélag á landinu.
Hvergi er í frumvarpinu minnst á þau feitletruðu skilaboð sem eru að finna í bréfi dómsmálaráðherra til Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 21. mars sl., um að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um allt land. Frumvarpið gengur meira og minna út á að sameina sýslumannsembættin undir eina yfirstjórn til hægt sé að auka nútímalega starfshætti. Væri ekki nær að ljúka við þá vinnu sem hafin er við að nútímavæða starfshætti sýslumannsembætta, m.a. með stafrænni þróun, rafrænum undirritunum o.fl., áður en ráðist er í slíkar breytingar á skipulagi embættanna.
Verið er að veita ýmsa persónulega og viðkvæma þjónustu við borgara hjá embættum sýslumanna. Þar er m.a. veitt þjónusta í mjög viðkvæmum málaflokkum, sem oft á tíðum krefjast samtals við starfsfólk sýslumanna. Þar að auki þarf að gera ýmsar breytingar á lögum, svo hægt sé að veita þjónustuna með öðrum hætti en nú er. Rétt væri að taka á þeim málum áður en ráðist er í skipulagsbreytingar.
Í frumvarpinu eru engar tryggingar fyrir áframhaldandi starfsemi til lengri tíma, aðeins lágmarkslýsing, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að landið sé eitt umdæmi og starfsemi, án þess að henni sé lýst nánar verði á tilteknum stöðum um landið, m.a. í Vestmannaeyjum. Hvergi er minnst á hvort sú starfsemi telji jafnmarga starfsmenn, hvort þeir haldi sömu launum og hvort þeir hafi þekkingu á verkefnum, sem sýslumaður kemur til með að fela þeim. Svo virðist sem þessi kafli sé vanhugsaður.
Samkvæmt frumvarpinu á sýslumaðurinn að ákveða fagsvið hvers svæðis að höfðu samráði við ráðherra. Hér er heilmikið vald í byggðamálum í raun fært til dómsmálaráðherra og engin útlistun á því hver þessi fagsvið eigi að vera.
Kjarninn í starfsemi sýslumanna (fjölskyldumál, persónuréttindi ýmiskonar, fullnusturéttarfar, leyfismál, almenn þjónustu og leiðbeiningar) er ekki nefndur í frumvarpinu. Þar með er kjarnastarfsemi sýslumanns ekki skilgreind og auðveldlega hægt að færa ýmsa þjónustu til annarra stofnana.
Markmið breytinganna er að fella niður umdæmamörk vegna flutnings nýrra verkefna, en án þess að fækka skrifstofum og starfsfólki, sbr. starfræna þróun og almenna möguleika, en engin ný verkefni hafa verið kynnt óformlega eða í frumvarpinu.
Engar upplýsingar eru í frumvarpinu um áformaðar lagabreytingar annarra laga sem áhrif hafa á starfshætti sýslumannsembættanna.
Óvissa er uppi um fjárhagslegan undirbúning, þ.e. rekstrargrundvöll nýs embættis. Kallað hefur verið eftir útreikningum án þess að þeir hafi verið sýndir. Ómögulegt er að átta sig á hver framtíðaráformin eru. Ef uppi eru áform um niðurskurð í ríkisfjármálum þá er fullkomin óvissa uppi um hvar sá niðurskurður skuli koma fram. Þetta þarf að hugleiða í samhengi við þá staðreynd að kjarnastarfsemi sýslumanns er óskilgreind í frumvarpinu.
Til stendur að segja upp öllu starfsfólki sýslumanna á landinu, en bjóða því störf aftur. Þar sem ekki er sýnt á spilin hvað varðar rekstrargrundvöll nýs embættis er augljóst að það á að bjóða störf að því marki sem fjárheimildir leyfa. Óskiljanlegt er að segja þurfi upp öllu starfsfólki við það eitt að sameina embættin undir eina yfirstjórn. Bent er á lög um réttarstöðu starfsmanna við að aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002 og þess skilnings sem verið hefur á þeim lögum að stofnanir teljist til fyrirtækja og umrædd lög gildi um starfsfólk ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. Samkvæmt lögunum er óþarfi að segja upp starfsfólki við sameiningu embætti undir eina yfirstjórn. Vekur það því upp þá spurningu hvort með uppsögnum og endurráðningu á starfsfólki standi til að skerða kjör og réttindi þess með einhverjum hætti. Störfin á starfsstöðvum sýslumannsembætta um landið allt verða þannig með framlagningu frumvarpsins í fullkominni óvissu.
Eins og fram kemur í skýrslunni hefur frá sameiningu sýslumannsembætta árið 2015, verið unnið mikið og gott uppbyggingarstarf og sýslumenn tilnefndir til verðlauna fyrir innleiðingu á starfrænni þjónustu. Ekki þurfti lagabreytingu fyrir þeim framfaraskrefum sem stigin hafa verið og svo virðist sem allar mælingar á þjónustu, starfánægju og rekstrarmælikvarðar hafa verið jákvæðir undanfarin ár.
Það má taka undir að lögsagnarumdæmin standi að jafnaði í vegi fyrir því að unnt sé að dreifa álagi og færa til verkefni milli lögsagnarumdæma. Það er hins vegar hægt að gera með breytingum á einstökum lagabálkum, skilgreining sérverkefna og með auknu samstarfi embættanna, sem fordæmi eru fyrir. Þetta má allt gera í stað gagngerra breytinga á grunnskipulagi rótgrónna stofnana sem sýslumannsembættin eru. Ef gera á breytingar sem þessar þarf að vera um þær pólitísk sátt og vinnan mun betur undirbúin. Svona vinnu þyrfti að vinna í samhengi við uppbyggingu annarra ríkisstofnana svo sem lögreglu og héraðsdómsstóla og unnt að rökstyðja nauðsyn breytinganna á faglegum forsendum.
Hér er um að ræða risastórt hagsmunamál fyrir landsbyggðina. Fyrirsjánlegt er að lögfræðingum getur fækkað á landsbyggðinni. Þrátt fyrir að stöðu núverandi sýslumanna verði breytt í svæðisstjóra, eru engar skorður settar við því hvar löglærðir fulltrúar hins nýja embættis skuli staðsettir.
Frumvarpið hefur verið kynnt sem landsbyggðarmál, en samtalið við sveitarfélögin ekki átt sér stað. Óvissan sem fylgir framlagningu frumvarpsins er í andstöðu við markmið Byggðaáætlunar 2018-2024, um að jafna aðgengi landsmanna að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
Í samþykktri þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2026 er kveðið á um eflingu starfsemi og atvinnu á landsbyggðinni. Ekki verður séð að í frumvarpinu um að markmiðum um að opinber þjónusta í héraði verði efld og atvinnutækifærum fjölgað sbr. lið A8 í aðgerðaáætlun tillögunnar.
Héraðsdómur Suðurlands heldur reglulega dómþing í Vestmannaeyjum og mikilvægt að svo verði áfram. Dómþing felast m.a. í því að dómari heldur regluleg þinghöld í Vestmannaeyjum, m.a. í einkamálum, gjaldþrotaskiptamálum, sakamálum og öðrum málum sem koma til kasta Héraðsdóms Suðurlands. Reglulega eru til aðalmeðferðar sakamál í Vestmannaeyjum þar sem kvaddir eru til aðilar og vitni máls á vettvangi sakamálsins í Vestmannaeyjum. Mikill kostnaður fælist í því að halda dómþingin fjarri vettvangi og vitnum.
Í samandregnu máli þá er það af hinu góða að ráðherra áformi að bæta þjónustu sýslumannsembættisins og að efla starfsstöðvar þess á landsbyggðinni. Að því leyti geta falist tækifæri fyrir starfsstöðvar embættisins á landsbyggðinni. Hins vegar telur Vestmannaeyjabær að byrjað sé á röngum enda, ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélög um starfsemi starfsstöðva embættisins, ekki er hægt að lesa út úr frumvarpinu hvort og hvernig eigi að efla starfsstöðvarnar á landsbyggðinni, ekki er kveðið á um hvernig og hvar eigi að leysa viðkvæma og persónulega þjónustu við borgara, þar sem nálægðin skiptir máli, engar tryggingar eru fyrir áframhaldandi starfsemi starfsstöðvar á landsbyggðinni til lengri tíma, ekki er kveðið á um lagabreytingar annarra laga sem áhrif hafa á starfshætti sýslumannsembættanna, hver verða áhrifin á starfsstöðvar á landsbyggðinni þegar kemur til fjárhagsálegrar hagræðingar (niðurskurðar) í ríkisfjármálum, sem oftast hafa áhrif á rekstur stofnana, réttarstaða starfsfólks við breytingarnar er ekki tryggð, né skv. lögum um réttarstöðu einstaklinga við aðilaskipti og tryggja þarf að dómþing verði áfram starfrækt í Vestmannaeyjum.
Vestmannaeyjabær leggur til að dómsmálaráðherra falli frá áformum um að leggja fram frumvarp til laga um sýslumann á þessum tímapunkti og hefji eðlilegt samráð við hlutaðeigandi aðila um framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin í landinu.
Vestmannaeyjabær
27. júlí 2022
Meðfylgjandi er umsögn stjórnar Byggðastofnunar um drög að frumvarpi til laga um sýslumann nr. 122/2022.
F.h. stjórnar Byggðastofnunar
Arnar Már Elíasson, settur forstjóri
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Dalabyggðar.
Virðingarfyllst,
Kristján Sturluson
sveitarstjóri
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn bæjarstjórnar Fjallabyggðar um mál nr. 122/2022, drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
F.h. bæjarstjórnar Fjallabyggðar
Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri
ViðhengiSameyki stéttarfélag í almannaþjónustu
Þórarinn Eyfjörð formaður
Í fyrsta lagi gerir Sameyki stéttarfélag gerir athugasemd við tímasetningu birtingar á drögunum og tímalengd sem gefin er til athugasemda. Nú er það svo að drögin birtast í samráðsgátt þann 13/7 2022 og umsagnartími er til 31/7 2022. Þessi tími er afar óheppilegur þegar litið er til þess að þessi tími er aðal orlofstími að sumri hjá öllum almenningi á vinnumarkaði og það eitt og sér vinnur gegn innsendingum á almennum og vönduðum umsögnum.
Í öðru lagi þá gerir Sameyki eftirfarandi athugasemdir við innihald draganna skv. neðangreindu.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að „Frumvarpið kveður á um að hið nýja skipulag taki gildi 1. janúar 2024 en að ráðherra verði heimilað að auglýsa og skipa nýjan forstöðumann ásamt verkefnisstjórn við samþykkt frumvarpsins þannig að tími gefist til að undirbúa innra skipulag nýja embættisins, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Ekki er talin þörf á lengri aðlögunartíma fyrir skipulagningu embættisins, enda sé ekki samhliða unnið að skiptingu stöðugilda og fjárheimilda eins og var við sameiningu sýslumannsembættanna árið 2015. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hægt sé að stíga ákveðin skref í átt að hinu nýja skipulagi fyrir gildistöku laganna en að nýr sýslumaður hafi svigrúm til að skipuleggja starfsemi nýja embættisins með starfsfólki sínu árin á eftir.“ (bls. 10). Í greinargerðinni er ekki gert ráð fyrir að starfsfólk komi að breytingaferlinu í undirbúningi verkefnisins. Í þessari umsögn er lagt til að almennt starfsfólk sé virkjað í breytingaferlinu strax frá byrjun eins og að neðan greinir.
Í 5 gr. greinargerðarinnar (5. Samráð bls. 11) er sagt frá því að fundir hafi verið haldnir með Sýslumannaráði og KMR ásamt fleirum og verkefnið kynnt ýmsum aðilum. Athygli vekur að í greininni er ekki minnst á að virkt vinnu- og hugmyndasamráð hafi átt sér stað við almenna starfsmenn embættanna, sem eiga að veita og tryggja þjónustu embættanna eftir nýju skipulagi og markmiðum.
Í 6. gr. greinargerðarinnar (6. Mat á áhrifum bls. 11) segir; „Lausnin felst í sameiningu níu sýslumannsembætta landsins í eitt þannig að úr verði öflug og nútímaleg þjónustustofnun, sem byggir á góðu samstarfi dreifðra starfsstöðva yfir landið með þéttu þjónustuneti, þar sem sinnt verður bæði sérhæfðri þjónustu á landsvísu ásamt staðbundinni þjónustu í heimabyggð. Sú leið er talin leiða til skilvirkari, samræmdari og vandaðri málsmeðferðar ásamt því að skapa tækifæri til að efla starfsemi embættanna með styrkri stjórn eins sýslumanns með nauðsynlegri stoðþjónustu.“ Hér er aftur ekki minnst á starfsmenn embættanna sem eiga að tryggja gæði veittrar þjónustu. Rétt er að benda á að almennt er talið heppilegt í breytingastjórnun skipulagseininga, að allir starfsmenn séu virkjaðir í breytingaferlinu til að tryggja eins gott ferli og árangur, og mögulegt er hverju sinni.
Í gr. 6 er einnig tekið fram; „Talið er að frumvarpið kunni að hafa jákvæð áhrif á jafnrétti og stöðu kynjanna með því að jafna kynjahlutfall starfsmanna sýslumannsembættanna.“ Þessi fullyrðing er ekki studd neinum rökum í greinargerðinni og verður því að teljast heldur léttvæg. Betra hefði verið að setja fram rökstudd dæmi um verkefni innan breytingarferilsins, sem væru líkleg til að styðja við fullyrðinguna.
Hér að frama er lögð áhersla á nauðsyn þess að almennt starfsfólk sé virkjað í breytingaferlinu og með því tryggt að sjónarmið, þekking og reynsla starfsfólks sé nýtt til að tryggja að besta mögulega niðurstaða fáist í hverjum og einum verkþætti, sem fjallað verður um í breytingaferlinu. Sem dæmi um slíka vinnutilhögun er hægt að líta á mög góða leið sem farin var í sameiningu lögreglustjóraembættanna á höfuðborgarsvæðinu. Í því tilviki skipaði ráðherra vinnuhóp undir stjórn Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns og verkefni vinnuhópsins var að fjalla um málefni starfsfólks. Í þeim hópi var fjallað um allt sem að starfsfólki sneri, réttindi, skyldur, verkefni, staðsetningu, launakjör, væntanlega mönnun og annað sem laut að starfsmannahópnum. Í hópnum áttu stéttarfélögin fulltrúa auk starfsmanna, sem voru félagsmenn frá viðkomandi félagi. Inn til hópsins gat starfsfólk sent erindi og spurningar og reyndist þetta fyrirkomulag ákaflega vel. Er lagt til að í þessu verkefni verði sami háttur hafður á og starfsfólk og stéttarfélög virkjuð með þeim hætti í ferlinu.
Virðingarfyllst
Þórarinn Eyfjörð
formaður Sameykis - stéttarfélags
Byggðarráð Norðurþings vill koma á framfæri neðangreindri umsögn um frumvarp til laga um sýslumann mál nr. 122/2022, umsagnarfrestur er til 15.08.2022.
Vísað er til máls nr. 122/2022 í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi til laga um sýslumann, sem birt var þann 13. júlí sl.
Byggðarráð Norðurþings tekur undir það sem kom fram í athugasemd við frumvarpið frá Sýslumannafélagi Íslands sem birtist 21.júlí sl. að um mikilvægt byggðamál sé að ræða og ljóst er að frumvarpið hefur mikil áhrif á réttindi og kjör starfsmanna sýslumanna, starfsemi embættanna og þjónustuna sem er veitt. Með þessu frumvarpi er óvissa uppi um það hver er framtíð starfa og starfsmanna hjá embættum sýslumanna um land allt hvað varðar þjónustuna sem þau veita. Skilgreina þarf hvaða verkefni verði hjá núverandi embættum og hvert verði þeirra hlutverk áður en frumvarpið verður afgreitt.
Ráðið bendir á að Alþingi samþykkti þann 15. júní 2022 þingsályktunartillögu innviðaráðherra um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2026. Þar eru tilgreindar 44 aðgerðir sem skiptast þannig að 17 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna aðgengi að þjónustu, 12 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna tækifæri til atvinnu og loks tengjast 15 aðgerðir því markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Samráð og samhæfing eru leiðarljós við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Samhæfingin birtist meðal annars í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað er leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Það er mat byggðarráðs að svo hafi ekki verið gert í frumvarpsdrögum.
Ráðið leggur ríka og mikla áherslu á að hagræðingin með fækkun sýslumannsembætta úr níu í eitt muni ekki leiða til fækkunar starfa eða verkefna á starfsstöðum sem eru til staðar nú þegar, þá sérstaklega ekki á landsbyggðinni. Ráðið fagnar þó að leitað verði tækifæra til aukins samstarfs við sveitarfélög til að bæta þjónustuna við íbúa þar sem þjónusta ríkisins skortir. Með aukinni áherslu á stafræna þjónustu verða einnig til möguleikar á að bjóða upp á aukið framboð opinberrar þjónustu undir sama þaki.
Umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. ágúst 2022:
Drög að frumvarpi til laga um sýslumannsembætti, umsagnarfrestur er til 15. ágúst 2022.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti svohljóðandi bókun á 302. fundi hinn 7. apríl s.l. þegar erindi dómsmálaráðuneytisins til kynningar á málinu var lagt fram:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur áherslu á að jafnt aðgengi að þjónustu verði tryggt um allt land og að þjónusta ríkisins verði sem víðast á landinu. Aukin stafræn þjónusta eykur möguleika á að flytja störf út á landsbyggðina, þ.m.t. sérhæfð störf sérfræðinga, og má með því styrkja starfsstöðvar sýslumannsembætta um land allt. Við breytingar sem urðu þegar sýslumanns- og lögreglustjóraembætti voru aðskilin var lýst yfir vilja til að færa ýmis verkefni til sýslumannsembætta. Ekki hefur orðið mikið úr þeim áformum. Þróun í stafrænum lausnum og fjarvinnu á síðustu árum gerir það að verkum að nú er auðvelt að sinna ýmsum verkefnum hvar á landinu sem er. Miklu skiptir fyrir byggðaþróun í landinu að verkefni ríkisins safnist ekki fyrir á höfuðborgarsvæðinu, heldur verði leitast við að koma þeim fyrir sem víðast um land, þannig að fjölbreytt störf verði í boði í öllum landshlutum. Nauðsynlegt er að við endurskipulagningu sýslumannsembætta verði haft víðtækt samráð við sveitarfélög og samtök þeirra og horft til sjónarmiða um vöxt og viðgang landsbyggðarinnar.
Athygli vekur, nú þegar frumvarpsdrög liggja fyrir, að ekki er að finna neitt í texta frumvarpsins sem tryggir að starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni verði styrktar í sessi, þrátt fyrir að í greinargerð með frumvarpinu sé tiltekið að með því sé lögð sérstök áhersla á að efla starfsemi hins opinbera á landsbyggðinni. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur nauðsynlegt að vanda betur til verka. Reynslan frá því að síðast voru gerðar breytingar á sýslumannsembættunum með aðskilnaði lögreglu- og sýslumannsembætta þykir fremur hafa verið sú að dregið hafi úr starfsemi embættanna á landsbyggðinni og þjónusta jafnvel verið færð fjær notendum. Ný verkefni sem orðið hafa til, svo sem eftirlit með gististarfsemi, hafa verið staðsett hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu og einungis fá og umfangslítil verkefni verið flutt frá öðrum ríkisstofnunum til sýslumanna á landsbyggðinni, öfugt við fyrri fyrirheit. Tryggja þarf betur grundvöll starfsemi sýslumanna á landsbyggðinni og þykja framkomin frumvarpsdrög ekki vinna að því markmiði.
Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrögin.
F.h. sambandsins
Guðjón Bragason
ViðhengiÁ 6. fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar hinn 11. ágúst 2022 voru tekin fyrir drög að frumvarpi til laga um sýslumenn. Bókun bæjarráðs er eftirfarandi:
Í samráðsgátt stjórnvalda er til umsagnar mál nr. 122/2022, drög að frumvarpi til laga um sýslumann. Með frumvarpinu er sú grundvallarbreyting á skipulagi sýslusmannsembætta lögð fram að þeim verði fækkað úr níu í eitt. Bæjarráð hefur fjallað um málið og vill ítreka mikilvægi þess að halda störfum og verkefnum á Suðurlandi. Þrátt fyrir að bæjarráð fagni ákveðnum markmiðum sem frumvarpinu er áætlað að ná fram t.a.m. aukinni stafrænni þjónustu og fjölgun verkefna sem unnin verði um allt land til að styðja við byggðarþróun og valfrelsi í búsetu vegna starfa hjá ríkinu, vill bæjarráð benda á að ákveðin hætta sé fyrir hendi, í ljósi sögunnar, að umfang starfstöðva á landsbyggðinni minnki með tímanum með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Þá verður ekki séð með afdráttarlausum hætti hvernig því markmiði að styðja við byggðarþróun verður náð fram með frumvarpinu. Bæjarráð ítrekar að mikilvægt er að stand vörð um þessa þjónustu í Sveitarfélaginu Árborg sem og á landsbyggðinni allri, tryggja þarf jafnt aðgengi að allri þjónustu sem veitt er af sýslumannsembættum um allt land. Að lokum bendir bæjarráð á að Sveitafélagið Árborg er ákjósanleg staðsetning fyrir aðsetur sýslumanns utan höfuðborgarsvæðisins.
Sveitarfélagið Árborg
Sveitarfélagið Langanesbyggð fagnar langþráðri viðurkenningu dómsmálaráðherra á því að tilefni sé til að staðsetja skrifstofu sýslumanns á norðausturhorni landsins á Langanesi og nærsveitum. Ljóst er að þjónustusvæði starfseminnar nær ekki aðeins til sveitarfélagsins heldur einnig aðliggjandi héraða þar sem um langan veg er að fara til að sækja grundvallarþjónustu hins opinbera. Gildir það jafnt um íbúa, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu sem sum hver teljast til stærstu fyrirtækja landsins. Með þessu skrefi staðfestir dómsmálaráðuneytið árangur af tilraunaverkefni Langanesbyggðar og Sýslumannsins á Norðurlandi eystra sem staðið hefur í á þriðja ár og komið var á fót með stuðningi Byggðastofnunar.
Hins vegar virðist sérstök ástæða til að mótmæla þeirri meginhugsun sem býr að baki frumvarpinu um sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt. Hægt er að færa gild rök fyrir því að án náins samstarfs sveitafélagsins og sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra hefði aldrei orðið af þeirri þjónustubót sýslumannsembættisins sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu, enda hefur dómsmálaráðuneytið ekki séð ástæðu til að gera ráð fyrir þeirri starfsemi í sveitarfélaginu í reglugerð um þjónustu sýslumanna hingað til. Sýnir þessi reynsla sveitarfélagsins glögglega mikilvægi sjálfsforræðis sýslumannsembætta í héruðum landsins.
Sérstaklega er tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum stjórnar Byggðastofnunar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrögin. Augljóst virðist að nauðsynlegt er að undirbúa svo mikilvægar skipulagsbreytingar betur. Gildir þá einu hvort litið er til lágmarksskilyrða í starfsemi og rekstri, svæðistengdrar kjarnaþjónustu lykilverkefna (svo sem fjölskyldumála), fyrirkomulags sérverkefna, umdæmabundins forræðis og svigrúms sjálfstæðra stofnana á landsbyggðinni. Þá blasir við að lágmarksskilyrði byggðaáætlunar ber að virða í orði og á borði. Í öllum framangreindum atriðum virðist frumvarpsdrögin ófullnægjandi, svo sem aðrar umsagnir bera einnig með sér.
Fari svo að frumvarpsdrög þessi fái ekki framgang hvetur sveitarfélagið til þess að dómsmálaráðherra nýti heimildir sínar til að breyta núgildandi reglugerð um umdæmi sýslumanna og staðsetji útibú í Langanesbyggð, enda er sú aðgerð afar einföld og margsinnis áréttuð.
Við trúnaðarmenn Sameykis úr röðum starfsfólks sýslumannsembætta viljum, fyrir hönd starfsfólks, koma á framfæri athugasemdum við drög að frumvarpi til laga um sýslumann
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn frá okkur í Hornafirði um drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
Fyrir hönd bæjarráðs Hornafjarðar,
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.
ViðhengiHjálagt er umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu um drög að frumvarpi um Sýslumann
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn sveitarstjórnar Rangárþings eystra um drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
F.h. sveitarstjórnar Rangárþings eystra
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri.
ViðhengiGóðan daginn
Sendi hér með umsögn stjórnar SSV um mál nr. 122/2022 varðandi lög um sýslumenn. Umsögn er í viðhengi.
Með góðri kveðju
Páll S. Brynjarsson
ViðhengiHjálagt sendist umsögn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) um frumvarpsdrögin.
F.h. stjórnar SASS
Bjarni Guðmundsson,
framkvæmdastjóri
ViðhengiUmsögn fyrir hönd sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
ViðhengiHjálagt sendist umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) um drög að frumvarpi
F.h. stjórnar SSA
Jóna Árný Þórðardóttir
Framkvæmdastjóri
ViðhengiHjálögð er umsögn stjórnar SSNE um mál nr. 122/2022, drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
F.h. stjórnar
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri
ViðhengiBHM leggst alfarið gegn þeirri fyrirætlan dómsmálaráðuneytisins að segja upp öllu starfsfólki sýslumannsembættanna og bjóða sumu starfsfólki starf á nýrri stofnun. Leggur BHM til að frekar verði farin sambærileg leið og við breytingarnar sem tóku gildi 2015 þannig að allt starfsfólk haldi óslitinni ráðningu við flutning til nýrrar stofnunar sýslumanns og kjör verði leiðrétt upp á við. Þetta verði unnið og undirbúið í góðu samráði við fulltrúa starfsfólks. Starfsfólk kann eðli máls samkvæmt að þurfa að hlíta breytingum á starfi en komi til þess að starfsfólki verði í einhverjum tilvikum ofaukið með tilliti verkefna krefst bandalagið þess að leitað verði allra leiða við að bjóða viðkomandi sambærilegt starf hjá nýju embætti eða annarri stofnun á vegum ríkisins. Er þetta sérstaklega mikilvægt þar eð 55% starfsfólks embættisins eru komin yfir fimmtugt enda þekkt að sá hópur á gjarnan erfiðara með að finna nýtt starf við hæfi en þau sem yngri eru.
Sjá nánar í (uppfærðu) viðhengi.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn bæjarráðs Akureyrarbæjar.
Viðhengi