Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.7.–15.8.2022

2

Í vinnslu

  • 16.8.2022–11.12.2023

3

Samráði lokið

  • 12.12.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-122/2022

Birt: 13.7.2022

Fjöldi umsagna: 32

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Drög að frumvarpi til laga um sýslumann

Niðurstöður

Að loknu samráði var hætt við framlagningu frumvarpsins fyrir Alþingi.

Málsefni

Lagt er til að lög nr. 50/2014 verði felld úr gildi samhliða gildistöku nýrra laga um sýslumann. Helsta breytingin felst í sameiningu sýslumannsembættanna með það að markmiði að bæta þjónustuna.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný lög um sýslumann sem er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Með breytingunum er verið að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið í úttektum sem unnar hafa verið undanfarin ár á rekstri og stjórnsýsluframkvæmd embættanna og benda til þess að tækifæri séu til að efla þjónustu við almenning, m.a. með auknu framboði opinberrar þjónustu og samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög, samhliða því að hagræða í rekstri með aukinni sérhæfingu á landsvísu og betri nýtingu stafrænna lausna fyrir framkvæmd verkefna. Á grundvelli úttektanna vann ráðuneytið stefnu um framtíðarsýn fyrir málefni sýslumanna, sem birtist í skýrslu sem gefin var út í mars 2021 og ber heitið „Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“, sbr. þingskjal 1043 – 609. mál, 151. löggjafarþing 2020-2021. Í stefnunni felst að sýslumannsembættin veiti framúrskarandi þjónustu óháð búsetu og staðsetningu, hvar og hvenær sem er, eftir því sem hentar almenningi hverju sinni. Til stuðnings stefnunni er með lagabreytingunum stefnt að bættri þjónustu, betri nýtingu fjármuna í rekstri og fjölgun starfa á landsbyggðinni.

Með frumvarpinu er lögð til sú grundvallarbreyting á skipulagi sýslumannsembættanna, að þeim verði fækkað úr níu í eitt þannig að hægt verði að byggja upp öflugar og nútímalegar þjónustueiningar um land allt, þar sem sinnt verður bæði miðlægum og sérhæfðum verkefnum á landsvísu ásamt þjónustu í heimabyggð, eins nálægt fólki og kostur er. Við breytinguna verður landið að einu lögsagnarumdæmi og því munu einstaklingar geta nýtt sér þjónustu sýslumanns eftir því sem þeim hentar hverju sinni. Miðað er við að starfsemi sýslumanns verði svæðisskipt, með svipaðri landfræðilegri skiptingu og nú gildir fyrir umdæmi sýslumanna, og að innan hvers svæðis verði starfandi stjórnandi sem ber ábyrgð á daglegri stjórn starfsstöðva þess svæðis og þeim verkefnum sem honum eru falin af sýslumanni. Þá er að auki lagt til að þjónusta sýslumanns verði aðgengileg að mestu leyti með óbreyttu sniði, þ.e. hjá þeim sveitarfélögum sem sinna þjónustu embættanna í dag, en að unnið verði að því að nýta húsnæðikosti embættanna betur ásamt því að stuðla að auknu samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög. Með frumvarpinu er lagt til að aðsetur sýslumanns, þ.e. starfsstöð hans og eftir atvikum hluta yfirstjórnar, verði á landsbyggðinni.

Að lokum er lagt til að ráðherra geti strax við samþykkt frumvarps hafið undirbúning að stofnun nýs embættis með því að skipa sýslumann og verkefnisstjórn til að vinna með ráðuneytinu að frekari skipulagningu þess. Miðað er við að öll störf hjá gömlu sýslumannsembættunum verði lögð niður við gildistöku laganna en að starfsfólki, öðru en sýslumönnum, verði boðið starf hjá hinu nýja embætti frá sama tíma og þá með sem minnstri röskun á högum þess. Hvað sýslumenn varðar er miðað við að þeirra stöður verði sömuleiðis lagðar niður og að nýr sýslumaður auglýsi og ráði í stöður stjórnenda fyrir hvert svæði.

Ljóst þykir að markmiðum um bætta þjónustu við almenning verður seint náð án þess að taka að auki til endurskoðunar löggjöfina sem varðar verkefni sýslumanna. Af þeirri ástæðu eru uppi áform um að leggja síðar fram frumvarp til breytinga á þeirri löggjöf til að endurspegla breyttar áherslur samkvæmt frumvarpi þessu. Í löggjöf sem varðar verkefni sýslumanna er víðs vegar að finna ákvæði um verkaskiptingu og valdmörk sýslumanna sem þarfnast endurskoðunar. Að auki er að finna í lögum ýmsar hindranir fyrir innleiðingu stafrænnar málsmeðferðar og þar með bættri þjónustu embættanna við almenning. Markmið þess frumvarps verður að gera ákvæði laganna tæknilega hlutlaus, ásamt því að tryggja sýslumanni fullnægjandi heimildir fyrir stafrænni þjónustu þar sem aðstæður leyfa.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is