Umsagnarfrestur er liðinn (15.07.2022–29.07.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Innviðaráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu sem komi í stað þrennra laga sem nú gilda á þessu sviði.
Um stofnun og starfsemi Isavia ohf. og þau verkefni sem félagið annast fyrir hönd íslenska ríkisins gilda þrenn lög; lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006, lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009. Með fyrri tvennum lögunum var lagður grunnur að stofnun opinberra hlutafélaga um annars vegar rekstur Keflavíkurflugvallar og hins vegar þann flugvallarekstur og þá flugleiðsöguþjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hafði annast fram að þeim tíma. Þessi tvö opinberu hlutafélög voru síðan sameinuð í eitt, Isavia ohf., á grundvelli þriðju laganna. Lögin hafa til samans að geyma ýmis ákvæði um stofnun umræddra félaga, hlutverk þeirra og innra starf.
Ákvæði framangreindra laga um rekstur flugvalla og flugleiðsögu eru dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Þá vantar skýr ákvæði um hlutverk flugvalla í heildarsamgöngukerfi landsins og hvernig stefnumörkun samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Þessi ákvæði þarf að greina frá öðrum ákvæðum um innra skipulag Isavia ohf. Það skal tekið fram að um almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu fer samkvæmt lögum um loftferðir og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Áform þessi varða ekki þá löggjöf.
Ítrekað hefur komið fram nauðsyn þess að byggja upp varaflugvelli fyrir millilandaflug hér á landi. Horft hefur verið til þess að betrumbæta bæði Egilsstaðarflugvöll og Akureyrarflugvöll í þeim tilgangi. Kemur það meðal annars fram í Flugstefnu Íslands frá 2019 sem er hluti gildandi Samgönguáætlunar. Vegna þess er ætlunin að útfæra sérstaka gjaldtökuheimild í frumvarpinu svo flýta megi uppbyggingu varaflugvalla. Meðal þess sem verður skoðað er með hvaða hætti er best að útfæra slíka gjaldtökuheimild. Horft verður til þróunar í Evrópu en þar hafa ríki kynnt til sögunnar gjald af flugumferð í samræmi t.d. við lengd flugleggja. Önnur leið gæti verið sú að skattleggja hvern fluglegg pr. farþega.
Á 7. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 20. júlí 2022 var tekið fyrir mál til samráðs 128/2022, Áform um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu, og þannig bókað.
Byggðarráð Skagafjarðar gerir athugasemdir við tímasetningu birtingar á drögum að frumvarpi til nýrra laga. Drögin eru birt á þeim tíma þegar flestir eru í sumarleyfum og umsagnarfrestur er gefinn í rúmar 2 vikur.
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að við breytingar á lögum um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu verði ekki eingöngu horft til viðhalds og uppbyggingar flugvalla í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum, heldur einnig annarra flugvalla eins og Alexandersflugvallar á Sauðárkróki. Alexandersflugvöllur er einn besti flugvöllur landsins með tilliti til flugtæknilegra skilyrða og hefur þjónað hlutverki í bæði fólksflutningum og vöruflutningum frá Íslandi og til annarra landa, auk áætlunarflugs innanlands og sem kennsluflugvöllur. Aukið viðhald og efling Alexandersflugvallar er í samræmi við Grænbók um flugstefnu Íslands þar sem fram kemur að bæta þurfi aðgengi að aðstöðu flugvallarins.
F.h. byggðarráðs
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri