Samráð fyrirhugað 15.07.2022—12.08.2022
Til umsagnar 15.07.2022—12.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 12.08.2022
Niðurstöður birtar

Afnám refsingar

Mál nr. 129/2022 Birt: 15.07.2022 Síðast uppfært: 15.08.2022
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Lyf og lækningavörur

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (15.07.2022–12.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp á 153. löggjafarþingi sem lýtur að afnámi refsingar í einstaka tilvikum þegar tiltekinn hópur er með í vörslu sinni dagskammt af tilteknum ávana- og fíkniefnum.

Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum lagasetningar sem hér eru til kynningar og samráðs varða breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og lýtur að afnámi refsingar fyrir veikasta hóp samfélagsins í tilteknum tilvikum með tiltekið magn og efni ávana- og fíkniefna.

Áréttað er að ekki verður um að ræða endurflutt frumvarp frá 151. löggjafarþingi um afglæpavæðingu neysluskammta heldur er áætlað að leggja fram breytt frumvarp á 153. löggjafarþingi sem byggist á vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði í febrúar 2022, en hópinn skipa fulltrúar sem endurspegla samfélagið í þeim tilgangi að fá uppbyggilega og gagnrýna umfjöllun um verkefnið og ná fram niðurstöðu sem verði ásættanleg fyrir samfélagið í heild. Vinna hópsins stendur yfir en honum var falið að skilgreina dagskammt eða neysluskammt og er áætlað að setja þá skilgreiningu í reglugerð sem lögð verði fram með endurbættu frumvarpi. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðu sinni næsta vetur. Í þeirri vinnu sem nú þegar hefur farið fram í hópnum er talið ljóst að heiti fyrra frumvarps, afglæpavæðing neysluskammta, endurspegli ekki nægilega vel hlutverk starfshópsins. Á þessari stundu er því lagt upp með að nefna frumvarpið afnám refsingar, enda tilgangurinn að afnema refsingu veikasta hópsins þegar þeir einstaklingar eru með í vörslu sinni dagskammt eða neysluskammt tiltekinna efna í tilteknu magni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Andri Eiríksson - 16.07.2022

Það er ánægjulegt að vita að fólk sé enn að berjast fyrir breyttri meðferð á fíkniefnaneytendum. Mannúð í garð þeirra sem standa hvað höllustum fæti í þessum samfélagshópi er háleitt markmið sem sæmir vel siðmenntaðri þjóð eins og okkur. Þótt ég hefði persónulega viljað sjá sömu nálgun og er á Spáni, þá ætla ég ekki að gera hið besta að óvini þess sem er gott. Því styð ég þetta heilshugar og hvet aðra til að gera hið sama.

Afrita slóð á umsögn

#2 Snorri Sturluson - 16.07.2022

Ég vil hvetja þau sem eru að vinna að þessu frumvarpi til að hugsa málið til enda.

Hvernig á að meta hver eru í veikasta hópnum?

Afhverju á skaðaminnkunar einungis að ná til þeirra verst settu? Það er eins og að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann.

Stór hluti skaðans sem fíkniefni hafa í för með sér er tilkominn vegna falinnar neyslu, glæpa, útskúfunar og stigma vegna þess að vera á sakaskrá.

Til þess að svona frumvarp nái fyllilega tilgangi sínum þarf að fjarlægja refsingar vegna neysluskammta í öllum tilfellum.

Þannig getur þetta frumvarp orðið öflug forvörn og hjálpað þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum heimi með því að opna á fræðslu, opna umræðu og létta á leyndinni, eins og verið er að hugsa frumvarpið núna er einungis verið að hugsa um að vernda þau sem eru fyrir löngu dottin ofan í brunninn, sem er ágætt, en við viljum hjálpa fólki miklu fyrr í ferli fíknar, ekki þegar það er orðið of seint.

Afrita slóð á umsögn

#3 Björn Leví Gunnarsson - 10.08.2022

"tilgangurinn að afnema refsingu veikasta hópsins þegar þeir einstaklingar eru með í vörslu sinni dagskammt eða neysluskammt tiltekinna efna í tilteknu magni"

Hér þarf að svara mjög mörgum spurningum.

Hvernig er veikasti hópurinn skilgreindur? Hvernig veit lögreglan að hún eigi ekki að hafa afskipti af viðkomandi einstaklingi, að viðkomandi sé semsagt í þessum veikasta hópi? Hver verða áhrifin af því að verða flokkaður í "veikasta hópinn"? Hvað með þá sem eru veikir en ekki alveg nægilega veikir, eru þessi lög hvati fyrir þá aðila að verða veikari til þess að losna við refsingu eða til að verða heilbrigðari? Þarf fólk að skrá sig fyrirfram sem nægilega veikt?

Hverjir leggja mat á veikindastöðu fólks? Varla er það lögreglan. Samt þarf lögreglan að eiga í samskiptum við fólk þegar um mögulega neysluskammta er að ræða. Þýðir það ekki að lögreglan þarf að taka alla sem hún finnur með skammta á sér í einhvers konar skoðun til þess að meta veikindastöðu þess, eða getur lögreglan flett upp á veikindastöðu þess á vettvangi? Þarf viðkomandi aðili að vera með eitthvað skírteini á sér til þess að sýna fram á veikindi sín?

Eins og spurningarnar að ofan bera með sér þá eru ákveðnir fletir á þessu máli sem gera það að verkum að framkvæmd þessara laga mun alltaf ganga að fólki með einhvers konar inngripi í líf þeirra, hvort sem það er vegna persónulegra heilbrigðisupplýsinga eða með því að setja fólk í eitthvað rannsóknarferli til þess að komast að því hvort það sé nægilega veikt til þess að sleppa við refsingu eða ekki. Þetta er óhjákvæmileg staðreynd þess að áform um lagasetningu gera ráð fyrir því að búa til hóp fólks sem kallast "veikast". Með því er ekki bara gengið á réttindi þess hóps heldur einnig á réttindi þeirra sem eru veik, en ekki nægilega veik til þess að fá refsileysi og einnig á réttindi þeirra sem eru bara alls ekkert veik en neyta samt þessara efna.

Ef gerður er samanburður við áfengi, sem löglegt vímuefni, sem hefur áður verið bannað. Þá væri þess löggjöf að gera það löglegt fyrir mestu alkóhólistana að hafa á sér pela. Ef bannárin hafa kennt okkur eitthvað þá er það að við leysum ekki vímuefnavandann með því að banna vímuefnin. Bannið breytir engu og býr bara til ný vandamál sem hafa einnig slæm áhrif á lýðheilsu.

Vinsamlegast endurskoðið þessi áform.

Afrita slóð á umsögn

#4 Páll Gunnarsson - 11.08.2022

Til að það sé á hreinu þá er skoðun mín að afglæpavæða og í raun lögleiða ætti öll vímuefni.

Í fyrsta lagi tel ég, líkt og Alþingi, að líkamleg friðhelgi sé sjálfsögð mannréttindi. Í lögum um kynrænt sjálfstæði er líkamleg friðhelgi skilgreind á eftirfarandi máta:

"Líkamleg friðhelgi: Óskoraður réttur einstaklings til sjálfræðis um eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti hans til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar.".

Neysla vímuefna er einfaldlega það að einstaklingur hefur áhrif á virkni taugaboðefna í eigin líkama. Það segir sig sjálft að það falli undir líkamlega friðhelgi að hafa rétt til að stýra því sjálfur. Ef neysla vímuefna fellur undir rétt til líkamlegrar friðhelgi, hvernig er þá mögulega hægt að færa rök fyrir því að varsla neysluskammta sé refsiverð.

Það er löngu orðið tímabært að láta reyna á það fyrir dómstólum að dæma lög um refsingu við neysluskömmtum ólögleg á grundvelli mannréttinda.

Í öðru lagi, þarf maður ekki nema að skoða þann ógrynni af telegram rásum þar sem þúsundir og jafnvel tugþúsundir af íslendingum eru meðlimir í og innihalda hundruði af auglýsingum á dag fyrir nánast öll vímuefni sem til eru í heiminum til að sjá að refsistefnan einfaldlega... virkar... ekki.

Burt séð frá þessu hinsvegar og að smáatriðunum í þessu áformi. Þá er þetta frumvarp líklega það skrýtnasta sem ég hef nokkurn tíman séð koma frá íslenskum stjórnvöldum. Það er einfaldlega ekki nokkur leið til að láta þessi áform virka í raunveruleikanum.

Björn Leví kemur inn á marga góða punkta í sinni umsögn. Mikilvægastu punktarnir að mínu mati snerta á því að frumvarpið stillir í raun hagsmunum hvers sem er handtekinn þannig upp að fólk þarf að reyna eftir bestu getu að vera sem veikast til að komast hjá refsingu. Þetta er gjörsamlega galið.

Nú gæti einhver talið það vera ansi augljóst að sjá hverjir eru langt leiddir fíklar og hverjir eru það ekki. En þarna er mjög mikilvægur punktur sem gerir nokkurn þannig samanburð algjörlega ómögulegan. Fíknisjúkdómar og í raun vímuefnaneysla "án fíknar" hefur að mjög hárri prósentu fjölþættan vanda með öðrum geðrænum sjúkdómum. Rannsókn sýndi að af 20 milljón bandaríkjamönnum með fíknisjúkdóm höfðu 45.1% fjölþættan geðvanda (SAMHSA, 2012).

Dæmi um flækjustig:

Einstaklingur sem er svo langt leiddur af kvíða og þunglyndi að hann er við það að fremja sjálfsmorð og er að reyna að self-medicatea með ólöglegum vímuefnum er handtekinn. Hann er kannski að öðru leiti fúnkerandi einstaklingur í samfélaginu, í vinnu eða skóla, og fellur ekki undir það sem myndi flokkast langt leiddur fíkill. Hvernig á nokkur aðili að meta ástand hans með tilliti til þess hvort hann falli undir "veikasta" hóp samfélagsins. Hvað þá lögreglan? Á núna að fara í flókið geðmat þar sem einstaklingurinn hefur hagsmuni af því að segjast sem mest vilja drepa sig?

Sömuleiðis myndu þá allir sem væru handteknir, veikir eða ekki, halda uppi sömu sögu. Það er meira en ársbið í sumum tilfellum eftir tímum hjá geðlæknum og geðheilbrigðiskerfið gjörsamlega sprungið. Á núna að fara að eyða þeim aðföngum í að meta hvort allir sem eru handteknir með neysluskammta séu "veikasti" hópurinn?

Það er augljóst af því að horfa á neyslu vímuefna í víðara samhengi en einfaldlega að horfa afmarkað á fíknisjúkdóma að þetta er gjörsamlega galin hugmynd.

Að lokum, ímyndið ykkur hvað mun gerast fyrir þessa aðila sem fá þessa skilgreiningu “veikasti hópurinn”.

Allir að reyna fá þá til að geyma eitthvað fyrir sig. Þeir munu geta fengið greitt til að vera burðardýr á djamminu / útihátíðum. Hversu auðvelt verður fyrir þennan hóp að hætta í neyslu þá?

Afrita slóð á umsögn

#5 Páll Gunnarsson - 11.08.2022

Ég verð að bæta við punkti sem ég klikkaði að setja inn í fyrri umsögn varðandi hversu ómannúðlegt þetta frumvarp er.

Ég kom inn á að fólk sem verður handtekið með neysluskammta gæti upplifað sig knúið til að ljúga um veikindi til að komast hjá því að eyðileggja líf sitt með því að fara á sakaskrá (og þ.a.l. missa af menntunar og atvinnutækifærum).

Lygar eða ekki, þá er auðvelt að ímynda sér að ef lögregla eða embætti saksóknara felst ekki á að neytandi sé í "veikasta" hóp að það muni koma til dómsmála þar sem neytendur þurfa að reyna að sanna að þeir séu raunverulega virkilega veikt fólk.

Það er ógeðslegt að hugsa sér til þess að verið sé að búa til kerfi sem vopnvæðir skömm og lætur neytendur skríða og biðja sér vægðar frammi fyrir stjórnvöldum og almenningi með því að segjast vera svo ótrúlega veik.

Þetta minnir mann í alvöru á atriðið úr Game of Thrones þar sem Cersei er látin labba um götur King's Landing og kallað á hana SHAME stöðugt fyrir almenningi.

Það er hins vegar heilbrigðisráðuneytið sem ætti að skammast sín fyrir að leggja fram svona ljótt frumvarp.

Afrita slóð á umsögn

#6 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 12.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Kær kveðja

Edda Dröfn Daníelsdóttir

Sviðsstjóri fagsviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Matthildur, samtök um skaðaminnkun á Íslandi - 15.08.2022

Viðhengi