Samráð fyrirhugað 19.07.2022—02.08.2022
Til umsagnar 19.07.2022—02.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 02.08.2022
Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða

Mál nr. 130/2022 Birt: 18.07.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (19.07.2022–02.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að ráðist verði í skilgreindar þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila. Einnig er lögð áhersla á að mótuð verði áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðganga og horft til reynslu nágrannaþjóða. Þá verði stofnað opinbert félag um jarðgangagerð.

Fyrstu skrefin í þá átt að flýta þjóðhagslega arðsömum samgönguframkvæmdum voru tekin með gildistöku laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020, þar sem veitt var heimild til að semja við einkaaðila um samvinnu við sex tilgreindar framkvæmdir. Lykilþáttur slíkra verkefna er að forsendur séu fyrir innheimtu notkunargjalda af notendum mannvirkjanna og að framkvæmdakostnaður sé þannig endurheimtur, a.m.k. að mestum hluta. Þá kom fram í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga.

Margvíslegur þjóðfélagslegur ávinningur fylgir því að flýta slíkum framkvæmdum, s.s. aukið umferðaröryggi, stytting leiða með þeim jákvæðu umhverfisáhrifum sem því fylgja og betri og öruggari tengingar byggða og atvinnusvæða.

Í samvinnu innviðaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Vegagerðarinnar hefur verið unnið að mótun traustrar og hagfelldrar umgjarðar slíkra innviðaverkefna til framtíðar. Greiningar benda til þess að fýsilegast sé að halda utan um slík verkefni í opinberu hlutafélagi sem verði að fullu í eigu ríkisins. Þannig fæst skýr umgjörð og utanumhald um þessi verkefni. Lykilþáttur í starfsemi félagsins er að halda utan um fjármögnun verkanna, þ.m.t. innheimtu notkunargjalda. Eftir á þó að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að það verði í einu slíku félagi eða fleirum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jón Sigurgeirsson - 19.07.2022

Eins og bent hefur verið á hafa íbúar á Vesturlandi ásamt með öðrum landsmönnum greitt að fullu göngin undir Hvalfjörð. Ef hugmyndirnar fela í sér að láta þá halda áfram að greiða fyrir akstur um göngin lendir óeðlilegur hluti gatnaframkvæmda á einu byggðarlagi umfram önnur. Þá hefur þingmaður lagt til að taka gjald fyrir akstur út frá höfuðborginni. Það felur í sér að þeir sem greiða mesta skatta af eldsneyti en fengið minnst miðað við íbúatölu eigi að greiða umfram aðra landsmenn í vegaframkvæmdum úti á landi.

Með aukinni rafvæðingu ökutækja er ljóst að finna verður nýja gjaldstofna af umferð. Ef skattleggja á fyrir notkun umferðarmannvirkja væri eðlilegast að taka gjald af þeim öllum hvort sem það eru vegir, brýr eða jarðgöng. Með GPS tækjum má mæla hversu langt bíllinn ekur og um hvernig mannvirki er ekið. Gera mætti tæki þannig úr garði að það skráði ekki staðsetningu heldur tikkaði inn fleiri stig þar sem gjaldtakan er hærri. Þá mætti lækka bensíngjöld á móti þessu gjaldi. Þegar útlendingar koma hingað með fulla bíla af bensíni, verða þeir að leigja slíkt tæki í bílinn og myndu því ekki sleppa undan því að greiða fyrir sinn akstur.

Afrita slóð á umsögn

#2 Þóroddur Bjarnason - 25.07.2022

Þóroddur Bjarnason

Prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands

Rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri

Umsögn um áform um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða

ALMENNT

Ástæða er til að fagna fyrirætlunum um að flýta uppbyggingu samgönguinnviða, enda hafa rannsóknir sýnt að ódýrar, fljótlegar og öruggar samgöngur hafa jákvæð áhrif á samfélög og byggðaþróun. Raunar virðast slík jákvæð áhrif talsvert vanmetin í mati á áhrifum frumvarpsins, en margar rannsóknir hafa sýnt fram á veruleg jákvæð áhrif samgöngubóta á framboð verslunar og þjónustu, aðgengi að menntun og gæði heilbrigðisþjónustu.

Hins vegar er ástæða til að staldra við fyrirætlanir um að fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða með gjaldtöku í þeim jarðgöngum þegar eru í rekstri. Veggjöld vegna Hvalfjarðarganga og Vaðlaheiðarganga hafa til dæmis byggst á þeirri forsendu að vegfarendur greiði framkvæmdakostnaðinn en mannvirkin verði að því loknu hluti af almennu vegakerfi landsins. Hér er hins vegar ætlunin að fara andstæða leið – að stofna opinbert hlutafélag sem taki yfir jarðgöng i eigu ríkisins, leggi gjöld á vegfarendur og nýti þau til fjárfestinga í samgönguinnviðum annars staðar á landinu.

Þau rök að notendur eigi að greiða kostnað af framkvæmdum sem nýtast þeim sérstaklega eru þannig útvíkkuð með þeim hætti að notendur tiltekinna tegunda samgöngumannvirkja á ákveðnum landsvæðum eigi að borga sérstaklega fyrir samgöngubætur annars staðar á landinu. Spyrja mætti hvers vegna vegfarendur á landsvæðum þar sem jarðgöng eru brýn nauðsyn ættu að greiða fyrir samgöngubætur annars staðar umfram þá sem fara t.d. um brýr, mislæg gatnamót, 2+2 vegi, hafnir, flugvelli eða önnur kostnaðarsöm samgöngumannvirki.

HVALFJARÐARGÖNGIN

Um helmingur umferðar um jarðgöng á Íslandi er um Hvalfjarðargöngin sem nú þegar hafa verið greidd að fullu af vegfarendum og afhent ríkinu án endurgjalds. Miðað við núverandi umferð myndu vegfarendur um Hvalfjarðargöngin því greiða um helming þeirra 25 milljarða króna sem skv. fjármálaætlun er stefnt að því að innheimta með jarðgangagjöldum á næstu 15 árum. Þannig væri sérstakt gjald lagt á vegfarendur á leið milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands og norðanverðs Austurlands en ekki t.d. vegfarendur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, Suðurlands eða sunnanverðs Austurlands.

Um það bil þriðjungur umferðarinnar um Hvalfjarðargöngin er milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins. Miðað við núverandi umferðarþunga og 300kr veggjald á hverja ferð væru álögur á ferðir milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins um 285 milljónir á ári eða 4,3 milljarðar á 15 árum. Með gjaldtökunni yrði því um sjötti hluti allra fyrirhugaðra jarðgangagjalda innheimtur af íbúum, fyrirtækjum, ferðamönnum og öðrum sem leið ættu til eða frá bæ með tæplega átta þúsund íbúa eða sem samsvarar 2% þjóðarinnar. Vandséð er hvers vegna Akranes ætti að bera ábyrgð á flýtiframkvæmdum í samgöngukerfinu víða um land umfram önnur byggðarlög, jafnvel þótt leiðin til höfuðborgarinnar liggi um jarðgöng.

ÖNNUR JARÐGÖNG

Hinn helmingur fyrirhugaðra jarðgangagjalda yrði greiddur vegna umferðar á svæðum sem búið hafa við landfræðilega einangrun, einhæfni í atvinnulífi, takmarkaða þjónustu og langvarandi fólksfækkun. Með allmörgum jarðgöngum hafa skapast fjölbreytt atvinnu- og þjónustusvæði fimm þúsund íbúa á norðanverðum Vestfjörðum, fjögur þúsund íbúa á Tröllaskaga og tíu þúsund íbúa á Mið-Austurland, en frekari framkvæmda er þörf til að ljúka því verki að tengja öll byggðarlög innan þeirra með láglendisvegum. Önnur jarðgöng hafa stytt og bætt lengri leiðir milli svæða, svo sem milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða, milli Eyjafjarðar og Norðausturlands og milli Suðurlands og Austurlands.

Með þessari jarðgangagerð hafa skapast nýjar forsendur til þess að efla opinbera þjónustu, auka fjölbreytni á vinnumarkaði og skapa margvísleg ný tækifæri í atvinnulífinu. Þau hafa þannig dregið úr vanda samfélaga sem stóðu sérstaklega höllum fæti og jafnað stöðu einstakra landsbyggða. Þessi samfélög eru hins vegar langt frá því að vera sérstaklega aflögufær umfram aðra landsmenn til að styðja við sambærilegar framkvæmdir í öðrum byggðarlögum sem einnig eiga undir högg að sækja. Í flestum tilvikum eru jarðgöng jafnframt eina raunhæfa leiðin innan svæða eða sveitarfélaga og jafnvel eina leiðin til og frá viðkomandi byggðakjörnum.

Umferð um Bolungarvíkurgöngin er til dæmis um 1.650 ferðir á dag að meðaltali og enginn annar vegur fær til eða frá bænum. Um 300kr veggjald myndi því fela í sér 180 milljóna króna árlegt framlag íbúa, ferðafólks og fyrirtækja í Bolungarvík til flýtiframkvæmda í vegamálum annars staðar á landinu eða 2,7 milljarða yfir 15 ára tímabil. Þetta væri framlag 956 íbúa Bolungarvíkur, fyrirtækja og ferðafólks vegna þess að hættulegur vegur um Óshlíð til Ísafjarðar var aflagður árið 2010, en sérstaks framlags væri ekki krafist af t.d. íbúum Ísafjarðar eða Súðavíkur nema þeir ættu leið til Bolungarvíkur eða um Hvalfjarðargöngin til Reykjavíkur.

Þá er umferð innan Fjallabyggðar um Héðinsfjarðargöngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar að jafnaði 720 ferðir á dag en samanlögð umferð milli Fjallabyggðar og umheimsins um Strákagöng og Múlagöng er að jafnaði 925 ferðir á dag. Aðeins er hægt að aka til Siglufjarðar um jarðgöng en hægt er að aka milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar um Lágheiði. Héðinsfjarðargöngin eru jafnframt forsenda sveitarfélagsins Fjallabyggðar. Miðað við 300kr veggjald í Héðinsfjarðargöngunum myndu íbúar, ferðafólk og fyrirtæki í Fjallabyggð greiða rúmlega 100 milljónir króna á ári og 1,5 milljarða á 15 árum vegna ferða innan Fjallabyggðar. Til viðbótar yrðu greiddar tæplega 80 milljónir á ári og 1,2 milljarðar á 15 árum vegna ferða til og frá Fjallabyggð um Strákagöng og Múlagöng. Sérstaks framlags til flýtiframkvæmda annars staðar á landinu yrði hins vegar ekki krafist af íbúum annars staðar í Eyjafirði svo sem á Dalvík eða Akureyri nema þeir ættu leið til Fjallabyggðar eða Reykjavíkur.

Loks má taka dæmi af Norðfjarðargöngunum sem tengja Neskaupstað við önnur byggðarlög á Austurlandi og eru jafnframt eini vegurinn til og frá bænum. Umferð um göngin er að jafnaði um 790 bílar á dag en miðað við 300kr veggjald myndi það samsvara um 87 milljónum króna á ári eða 1,3 milljörðum á 15 árum. Þetta framlag íbúa, ferðamanna og fyrirtækja í 1.100 manna samfélagi til flýtiframkvæmda annars staðar yrði augljóslega talsverð byrði. Slíks framlags yrði ekki væri krafist af öðrum samfélögum af svipaðri stærð sem búa að öðru leyti við svipaðar aðstæður, svo sem t.d. nágrannabyggðunum Eskifirði eða Reyðarfirði sem einnig eru í sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

AÐRAR LEIÐIR TIL AÐ FJÁRMAGNA FLÝTIFRAMKVÆMDIR

Ríkið innheimtir nú þegar mun meira fé af vegfarendum í formi margvíslegra gjalda af bifreiðum og eldsneyti en sem samsvarar kostnaði við nýframkvæmdir og viðhald. Nákvæmar upphæðir eru nokkuð á reiki en árið 2019 áætlaði FÍB að slík gjöld næmu samtals um 80 milljörðum króna samanborið við 29 milljarða sem varið væri til nýframkvæmda og viðhalds vega. Samkvæmt því gætu rúmlega 50 milljarða tekjur ríkisins af umferðinni runnið til annarra verkefna eða sem samsvarar einum Fjarðarheiðargöngum á ári hverju. Vegfarendur virðast því nú þegar greiða yfrið nóg til ríkisins til að koma vegakerfinu í viðunandi horf en þær tekjur ríkisins eru að stórum hluta nýttar til annarra mikilvægra verkefna ríkisins.

Hugmyndir um að auka tekjur af vegakerfinu með því að innheimta sérstök gjöld af þeim sem leið eiga um jarðgöng sem þegar eru í rekstri myndu annars vegar fela í sér auknar byrðar vegfarenda um Hvalfjarðargöngin sem þegar hafa verið greidd að fullu og hins vegar vegfarenda á svæðum sem búið hafa við landfræðilega einangrun, einhæfni í atvinnulífi, takmarkaða þjónustu og langvarandi fólksfækkun. Sé litið á það sem sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að koma vegakerfi landsins í viðunandi horf gæti verið farsælla að fjármagna flýtiframkvæmdir með öðrum hætti, svo sem með kílómetragjöldum sem jafnframt gætu komið í stað gjalda af jarðefnaeldsneyti í yfirvofandi orkuskiptum.

ATHUGASEMDIR VIÐ EINSTAKA LIÐI Í GÖGNUM MÁLSINS

Áform um lagasetningu: Frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða – 153. löggjafarþing. IRN22060157

Mat á áhrifum lagasetningar: Frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða – 153. löggjafarþing. IRN22060157

Áform um lagasetningu: C2 Önnur úrræði en lagasetning sem metin hafa verið

„Ekki eru aðrar leiðir færar ef ná á markmiðum.“

Augljóst virðist að ýmsar leiðir séu færar til að fjármagna flýtiframkvæmdir í samgöngum.

Áform um lagasetningu: F1 Hverjir eru helstu hagsmunaaðilar?

„Frumvarpið varðar alla landsmenn sem hag hafa af því að hægt verði að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða.“

Þótt allir landsmenn hafi hag af því að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða hafa íbúar sumra svæða mun meiri hag af því en aðrir. Á sama tíma mun fyrirhuguð gjaldtaka í jarðgöngum landsins hafa neikvæð áhrif á sum svæði en ekki önnur.

Mat á áhrifum lagasetningar: B3 Tengist einhver ný eða aukin tekjuöflun verkefninu?

„Lykilforsenda við flýtingu arðsamra samgönguframkvæmda er að framkvæmdakostnaður þeirra verði endurheimtur að öllu leyti eða a.m.k. stórum hluta með notkunargjöldum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hafin verði gjaldtaka í öllum jarðgöngum til að standa undir rekstri þeirra og styðja við gerð nýrra jarðganga.“

Ástæða er til að skoða vandlega hvort réttlætanlegt geti talist að innheimta sérstök gjöld af vegfarendum um tiltekna tegund samgöngumannvirkja á ákveðnum landsvæðum til að greiða fyrir samgöngubótum annars staðar og bæta vegakerfi landsins í heild.

Mat á áhrifum lagasetningar: D2 Áhrif á frelsi til að veita þjónustu (með eða án staðfestu á Íslandi)

„Engin áhrif.“

Bættar samgöngur hafa veruleg áhrif á þjónustu á viðkomandi svæðum. Tilhneiging er til aukinnar samþjöppunar þar sem framboð eykst og verð lækkar jafnframt því sem þjónustuaðilum fækkar, einkum á minni stöðunum.

Mat á áhrifum lagasetningar: D4 Áhrif á byggðalög

„Flýting mikilvægra samgönguinnviða mun hafa jákvæð áhrif á byggðalög.“

Flýting samgönguframkvæmda mun hafa jákvæð áhrif í viðkomandi byggðarlögum en gjaldtaka í jarðgöngum mun hafa neikvæð áhrif í öðrum byggðarlögum.

Mat á áhrifum lagasetningar: D5 Áhrif á frjáls félagasamtök

„Engin áhrif.“

Bættar samgöngur hafa veruleg áhrif á frjáls félagasamtök. Upptökusvæði þeirra stækkar til muna og sérhæfing hefur tilhneigingu til að aukast.

Mat á áhrifum lagasetningar: D7 Áhrif a lýðheilsu

„Bættir samgönguinnviðir draga úr slysum.“

Bættar samgöngur hafa einnig veruleg áhrif á upplifun fólks á aðgengi, fjölbreytni og gæðum heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er tilhneiging til aukinnar samþjöppunar með stærri og öflugri einingum en jafnframt meiri vegalengdum fyrir suma notendur.

Mat á áhrifum lagasetningar: D8 Áhrif á menntun, nýsköpun og rannsóknir

„Engin áhrif.“

Bættar samgöngur hafa veruleg áhrif á menntasókn íbúanna. Bættar samgöngur stuðla einnig að meiri nýsköpun með betra aðgengi að viðkomandi stöðum og að sérhæfðari stuðningi annars staðar frá.

Mat á áhrifum lagasetningar: D11 Áhrif á stöðu tiltekinna þjóðfélagshópa, s.s. aldurshópa, tekjuhópa, mismunandi fjölskyldugerðir, launþega/sjálfstætt starfandi/utan vinnumarkaðar

„Horfa þarf til stöðu allra þjóðfélagshópa við ákvarðanir um töku notendagjalda til að fjármagna samgönguinnviði. Meginatriði er að notendur hafi hag af því að nýta sér hina nýju innviði og eigi jafnframt kost á annarri leið.“

Hér kemur fram að meginatriði sé að notendur eigi kost á annarri leið. Hins vegar er ekki nefnt hvort álagning veggjalda á núverandi jarðgöng sé háð því að notendur þeirra eigi raunhæfan kost á annarri leið. Sum jarðgöng á Íslandi eru raunar með þeim hætti að vegfarendur eiga ekki kost á neinni annarri leið en í flestum öðrum tilvikum væru aðrar leiðir tugum eða hundruðum kílómetrum lengri.

Mat á áhrifum lagasetningar: D12 Áhrif á umhverfi og sjálfbæra þróun

„Bættir samgönguinnviðir geta stuðlað að jákvæðum umhverfisáhrifum, s.s. með styttingu leiða.“

Sambandið milli styttingar leiða og ekinna kílómetra er flókið. Eftir opnun Héðinsfjarðarganganna fóru íbúar Siglufjarðar til dæmis fleiri en styttri ferðir og heildarfjöldi ekinna kílómetra breyttist lítið. Hins vegar fjölgaði ferðum Ólafsfirðinga og heildarakstur jókst.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Bjarni Gnýr Hjarðar - 27.07.2022

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Fjallabyggð - 29.07.2022

Meðfylgjandi er umsögn bæjarstjórnar Fjallabyggðar um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

F.h. bæjarstjórnar Fjallabyggðar

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Benedikt Ólafsson - 02.08.2022

Ég fordæmi harðlega þá hugmynd að taka upp gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins og tel það brjóta freklega jafnræðisreglur. Ætti þá ekki að innheimta gjald við akstur yfir Höfðabakkabrú, Hellisheiði, Reykjanesbraut osfrv. en þar er um að ræða vegaframkvæmdir sem kostuðu stórfé á sínum tíma.

Eina sanngjarna leiðin til fjármögnunar á vega/samgöngukefinu er innheimta með kílómetragjaldi. Þar með greiddu allir notendur samkæmt sinni notkun. Ferðamenn á eigin bílum mætti innheimta með komugjaldi pr. ökutæki. Aflestur færi fram á skoðunarstofum og staðan send inn til RSK, þeas. engin þörf á stofnun nýrrar stofnunar fyrir málaflokkinn.

Ég bjó/starfaði í Noregi um tveggja ára skeið. Því get ég sagt mína reynslu af innheimtukerfi Norðmanna en hún er hreint út sagt hörmuleg, gjöldin leggjast mjög ósanngjarnt á íbúa, eru tilefni endalauss nöldurs td. í kaffítímum og almennt séð þunglyndisaukandi gjörningur.

Ég þurfti starfs míns vegna að ferðast töluvert og það kom fyrir að útskriftin frá "innheimtuapparatinu" var 2 síður af upptalningu frá hinum ýmsu hlutafélögum og stofnunum sem höfðu fengið meldingu um mínar ferðir og þar af leiðandi krafið um greiðslu. Um hver mánaðarmót þurfti maður því að leggjast yfir þetta (eins og Visa reikninginn) og sortera úr hvaða ferð var hvað því vinnuveitandinn borgaði aksturskostnað í vinnunni.

Núverandi starf mitt krefst nokkuð tíðra ferða um Bolungarvíkurgöng, Vestfjarðagöng og Dýrafjarðargöng. Miðað við 300 kr. á ferð áætla ég að árlegur kostnaðu yrði á bilinu 200 til 300 þús. krónur.

Þessi áform eru hreinasti galskapur og yrði sem sleggju-bakslag fyrir byggðir sem eru einmitt núna að byrja að rétta úr kútnum eftir áratuga hnignun.

Virðingarfyllst

Benedikt Ólafsson

Hnífsdal

Afrita slóð á umsögn

#6 Fjarðabyggð - 02.08.2022

Umsögn Fjarðabyggðar um áform um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða

Almennt:

Fjarðabyggð fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að flýta fyrir uppbyggingu nauðsynlegra samgönguinnviða. Hagkvæmar, skilvirkar og öruggar samgöngur styrkja samfélög og hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun, sér í lagi í veikari byggðum á landsbyggðinni.

Hins vegar leggst Fjarðabyggð alfarið gegn þeim áformum ríkisstjórnarinnar með frumvarpi um gjaldtöku af samgöngumannvirkjum eins og þær liggja fyrir.

Greinargerð:

Jafnræðis er ekki gætt fyrir vegfarendur á landsvæðum þar sem jarðgöng eru brýn nauðsyn sökum náttúrlegra aðstæðna. Tekið er dæmi um samfélagið á Norðfirði; Norðfjarðargöng sem tengja Norðfjörð við önnur byggðarlög á Austurlandi er eina samgönguæðin á landi að og frá bænum. Íbúar, starfsmenn fyrirtækja á svæðinu og ferðamenn hafa því enga aðra leið til að komast að og frá Norðfirði.

Um göngin fara að jafnaði um 790 bílar á dag og 300 kr. veggjald myndi skila um 87 milljónum kr. á ári eða 1,3 milljörðum kr. á 15 árum. Þetta framlag íbúa, ferðamanna og fyrirtækja í 1.500 manna samfélagi til flýtiframkvæmda annars staðar, eru miklar álögur. Samfélög sem landfræðilega er þannig sett að þurfa ekki á jarðgöngum að halda þyrftu ekki að bera þær álögur. Mætti benda á samfélög þar nærri, t.d. nágrannabyggðirnar á Eskifirði eða Reyðarfirði sem einnig eru í sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

Í Fjarðabyggð er auk Norðfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðargöng sem liggja milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Sækja íbúar vinnu og þjónustu milli fjarða, en dæmi eru um þá sem sækja vinnu frá Fáskrúðsfirði til Norðfjarðar. Á þeirri leið er því um tvenn jarðgöng að fara og yrði íbúi búsettur á Fáskrúðsfirði að greiða tvöfalt gjald þar sem hann færi um tvenn jarðgöng til vinnu sinnar.

Skólasókn, menntun, íþróttaæfingar og keppnir ungmenna auk félagsstarfs þeirra er sameiginlegt víðsvegar um Fjarðabyggð, sem er mikilvægur þáttur í félagslífi þessa hóps. Álögur af veggjöldum um göng yrðu þeim mjög íþyngjandi og tálmun fyrir þau að mennta sig, rækta félagsleg tengsl og samstarf.

Ljóst er af þessum dæmum að ef af áformum ríkistjórnarinnar verður um slíka gjaldtöku þá mun hún leggjast þungt á íbúa og fyrirtæki á afmörkuðum svæðum og jafnræðis væri ekki gætt sem getur gjaldfellt ákveðin svæði til búsetu eða starfrækslu fyrirtækja. Sérstaklega á það við þar sem einvörðungu er um eina samgönguæð að ræða og hún er gjaldskyld. Áhrif gjaldtöku eins og kynnt er í áformum ríkisins er því verulega neikvæð frá mörgum hliðum.

Viðamikil áform um uppbyggingu innviða vegakerfis landsins kallar vissulega á trausta fjármögnun en hana verður að tryggja með sanngjörnum hætti. Veggjöld og skattlagning eldsneytis er tvísköttun og gæta þarf jafnræðis og sanngirni. Mikilvægt er að skoða aðrar leiðir ríkisins þegar kemur að fjármögnun samgöngumannvirkja. Horfa þarf þá til þess hvort um er að ræða afmörkuð sértæk verkefni eða úrbætur á innviðum sem teljast nauðsynleg, sér í lagi í ljósi þess að bílafloti landsmanna færist óðfluga frá notkun jarðefnaeldsneytis yfir í rafeldsneyti. Álögur af jarðefnaeldsneyti koma því til með að dragast saman til lengri framtíðar, en þær eru stór tekjustofn ríkis í dag.

Átak í uppbyggingu vegakerfisins kallar því á nýja nálgun um fjármögnun þeirra innviða og væri einfaldasta og gagnsæjasta leiðin að hefja gjaldtöku af raunverulegri notkun bílaflota í formi kílómetragjalds á öll ökutæki óháð staðsetningu þeirra eða skipta landinu upp í atvinnusvæði með sjálfvirkum vegtollahliðum á 4- 6 stöðum á landinu.

Rétt er að huga að því hver forgangsröðun í uppbyggingu innviða í vegasamgöngum á að vera og hvaða framkvæmdir eigi að falla undir hið áformaða nýja hlutafélag. Miklar vegaframkvæmdir standa nú yfir á hringveginum á milli Hveragerðisbæjar og Selfoss annars vegar og á Vesturlandsvegi frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum hins vegar, þar sem vegir eru tvöfaldaðir með aðskildum akreinum. Ekki er gert ráð fyrir innheimtu gjalds af þeim sem um þessa vegi munu fara til að standa undir kostnaði við þessar framkvæmdir. Hvað þá gjald til að standa undir kostnaði við framkvæmdir annar staðar á landinu. Hér yrði um mikla mismunun að ræða eftir landsvæðum sem réðist af því um hvers konar vegaframkvæmdir væru um að ræða. Gjaldtaka í Hvalfjarðar- og Vaðlaheiðargöngum byggðist á því að vegfarendur greiddu framkvæmdarkostnaðinn og mannvirkin voru byggð og rekin af hlutafélögum. Þegar framkvæmdin væri greidd að fullu yrði samgöngumannvirkið hluti af almennu vegakerfi landsins. Fyrirætlanir ríkistjórnarinnar eru nú þær, að opinbert hlutafélag taki yfir jarðgöng sem nú eru hluti af hinu almenna vegakerfi, leggi gjöld á vegfarendur sem um þau fara til að fjárfesta í samgöngumannvirkjum annarstaðar á landinu. Það er umhugsunarefni að þarna séu valin ákveðin samgöngumannvirki þar sem umferð um þau er gjaldskyld en önnur ekki, einvörðungu út frá gerð þeirra en bæði þjóna því hlutverki að bæta samgöngur og efla öryggi þeirra.

Afrita slóð á umsögn

#7 Oddur Andri Thomasson Ahrens - 02.08.2022

Ég sem íbúi Bolungarvíkur og sem fyrirtækjaeigandi í bænum mótmæli harðlega áformum um gjaldtöku í öllum göngum.

Fyrir það fyrsta þá rek ég söluskála/matsölustað í bænum og koma um 50% af mínum viðskiptavinum frá Ísafirði. Það hlýtur að vera auðséð að fáir munu koma til þess að kaupa sér ís, eða máltíð frá Ísafirði ef það er að fara að greiða fyrir að keyra inn í bæinn, máltíðin verður ekki lengur samkeppnishæf. Sömuleiðis er sundlaugin mikið sótt af Ísfirðingum sem skilar sér síðan í viðskipti til mín. Minki aðsóknin í sund minkar sömuleiðis inkoman hjá mér. Það er nógu erfitt að reka svona fyrirtæki 12 mánuði á ári í litlu bæjarfélagi og er ljóst að þetta muni ganga að rekstrinum dauðum.

Einnig sæki ég sem og aðrir hér í bæ alla þjónustu á Ísafjörð enda ekki sjúkrahús, apótek, stórmarkaður, áfengisverslun, banki, framhaldsskóli eða önnur þjónusta í bænum að undanskilinni póstþjónustu.

Ég og margir aðrir þurfum að fara allt að þrisvar á dag yfir á Ísafjörð, mikið af því fjölskyldufólk að skutla börnum í íþróttastarf. Að ég minnist svo ekki á framhaldsskólann, á að skattlegja unglinga fyrir að sækja nám?

Þetta hlýtur að stríða gegn þeirri stefnu að styrkja landsbyggðina.

Afrita slóð á umsögn

#8 Guðrún Stella Gissurardóttir - 02.08.2022

Jarðgöng og önnur samgöngumannvirki eru afar mikilvæg ekki síst til að auðvelda möguleika íbúa til að stækka atvinnu- og þjónustusvæði og auka öryggi þeirra í ferðum og auðvelda aðgang að ýmiss þjónustu s.s. betri heilbrigðisþjónustu. Íbúar og fyrirtæki hafa fjárfest í húsnæði og fært sig til í störfum og flutt starfssemi vegna þeirra möguleika sem urðu til vegna jarðgangna. Einnig hefur hið opinbera dregið verulega saman þjónustu sína á sumum stöðum m.a. vegna jarðgangna þannig að íbúar þurfa að sækja þjónustu um lengri veg. Nú eru uppi hugmyndir um að fjármagna samgöngumannvirki með veggjöldum um jarðgöng. Við þetta verður mikill forsendubrestur fyrir búsetu og atvinnu margra m.a. á Vestfjörðum. Sumsstaðar hafa íbúar ekkert val um að aka aðra leið en í gegnum jarðgöng eins og á við t.d. um umferð um Bolungarvíkurgöng og jarðgöng til Siglufjarðar. Ætla má að gjaldtaka í slíkum göngum hafi verulega íþyngjandi áhrif á íbúa sér í lagi í fámennari byggðarlögum. Þá hafa t.d. Hvalfjarðagöng verið greidd að fullu og óeðlilegt að hefja gjaldtöku í mannvirkjum sem hafa verið að fullu greidd eða hafa verið gjaldfrjáls fram að þessu. Bent hefur verið á að eðlilegra sé að innheimta gjöld út frá eknum kilómetrafjölda. Með þeim hætti yrði meira jafnræði á milli notkunar samgöngukerfisins í heild og á milli ólíkra orkugjafa bifreiða. Sumir landshlutar hafa ekki átt þann kost að skipta yfir í rafmagnsbíla vegna ónægra hleðslustöðva og skammrar drægni rafmagnsbíla. Þeir munu þannig líka verða af tollaniðurfellingum þar sem innviðir voru ekki til staðar til að hefja orkuskipti en eiga ásamt því að þurfa að sækja sér þjónustu um lengri veg vegna samþjöppunar þjónustu að greiða sérstakt gjald fyrir notkun jarðgangna. Það er einnig álítamál af hverju þessi samgöngumannvirki eigi að fela í sér gjaldtöku umfram önnur mannvirki s.s. brýr eða vegi. Ef hefja á gjalddtöku í mannvirkjum eins og jarðgöngum er mikilvægt að slíkt gjald verði ekki sett á þau jarðgöng eða mannvirki sem hafa verið reist þannig að íbúar og sveitarfélög getir gert áætlanir í samræmi við það. Gjaldtaka af notkun jarðgangna er enn ein atlagan að búsetu á landsbyggðinni þar sem samgöngur eru sumstaðar erfiðar en hugmyndin að jarðgöngum var að stækka atvinnusvæði, auka öryggi og hagræða í þjónustu einkum opinberri þjónustu ásamt öðru sem væri jákvætt m.a. efling fræðslustarfssemi, íþrótta og ungmennafélagsstarfs á milli sveitarfélaga og byggðakjarna ásamt því að auka tækifæri í atvinnuþróun svæða. Ef hefja á gjaldtöku fyrir þessi mannvirki sérstaklega er um að ræða mikla afturför í samgöngumálum og dregið verulega úr jafnræði íbúa á svæðum sem þurfa að nota sér þessa tegund samgöngumannvirkja miðað við svæði sem búa við önnursamgöngumannvirki. Að lokum persónulegt dæmi um mögulega gjaldtöku. Umsagnaraðili þarf sjálfur að aka um jarðgöng til og frá vinnu o.fl. að jafnaði um 2 ferðir á dag. Það hefði í för með sér um og yfir 430 þúsund á ári miðað við 300 kr gjald í hvert sinn. Það er ljóst að slíkur viðbótarkostnaður er líklegur til að gera út af við núverandi búsetu til viðbótar við langa vegalengd til að sækja starf og kostnað af dýrum ökutækjum sem geta ekið i miklum snjó.

Afrita slóð á umsögn

#9 Bændasamtök Íslands - 02.08.2022

Sjá umsögn Bændasamtaka Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Jón Páll Hreinsson - 02.08.2022

Almennt lýsir Bolungarvíkurkaupstaður yfir ánægju með ágorm um að flýta uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það hefur verið baráttumál Vestfirðinga um áratuga skeið að flýta fyrir samgöngubótum í fjórðungnum.

Óumdeilt er að uppbygging samgöngumannvirkja hefur jákvæð áhrif á samfélög og byggðaþróun og er í raun forsenda þess að heilbrigt og kröftugt samfélag sé til staðar um allt land.

Bolungarvíkurkaupstaður gerir hinsvegar athugasemdir um boðaða gjaldtöku í jarðgöngum umfram aðra samgöngur. Í tilfelli Bolungarvíkur eru allar samgöngur til og frá sveitarfélaginu um Bolungarvíkurgöng og munu þessi áfrom verða til þess að lagðar verða íþyngjandi gjaldheimta á íbúa og fyrirtæki í Bolungarvík umfram aðra landshluta sem ekki þurfta jarðgöng til að komast til og frá.

Það er óumdeilt að skattur sem lagður er sérstaklega á íbúa og fyrirtæki í Bolungarvík mun skerða samkeppnishæfni svæðisins. Það mun draga úr vexti, letja fyrirtæki til að halda áfram eða hefja starfsemi í Bolungarvík. Það mun draga úr líkum á að nýtt fólk flytji til sveitarfélagsins og gera þannig Bolungarvík að verri stað umfram önnur sambærileg samfélög.

Bolungarvík er framleiðslusamfélag. Í gegnum höfnina koma 20.000 tonn af bolfiski ár hvert. Stór hluti þes er unnin á staðnum í nýrri og hátæknivæddri fiskvinnslu. Í byggingu er ný laxavinnsla í Bolungarvík sem getur unnið allt að 50.000 tonn af laxi til útflutnings. Í bænum er mjólkurvinnsla í harðri samkeppni við markaðsráðandi aðila. Sveitarfélagið, með stuðningi ríkisins, hefur staðir fyrir stærstu innviðafjárfestingu í ferðaþjónustu á Vestfjörðum síðustu ár með byggingu útsýnispalls á Bolafjalli.

Öll þessi uppbygging byggir á öflugum og greiðum samgöngum.

Þau áform sem fram koma í þeim áformum sem hér er lýst fyrir ofan geta eða stoppað umrædda uppbyggingu. Þau munu draga úr samkeppnishæfni samfélagsins og draga úr möguleikum þess að byggja upp heilbrigt og kröftugt samfélag sem er í stakk búið að búa til þau verðmæti sem nauðsynleg eru til vaxtar og viðgangs alls þjóðfélagsins. Án samfélagsins í Bolungarvík eru engar veiðar og vinnsla sjávarfangs, engin laxavinnsla, engin mjólkurvinnsla eða ferðaþjónusta. Margar af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Þess má geta að með Bolungarvíkurgöngum kom til umtalsvert hagræði í rekstri ríkisins sem varð á kostnað samfélagsins í Bolungarvík. Fyrir göng var sýslumaður í Bolungarvík, lögregla, læknir og banki. Í dag eru allar þessar stofnanir farnar, störfin flutt í burtu og húsnæðið undir starfsemina hefur verið selt.

Bolungarvíkurkaupstaðar skorast ekki undan við að greiða sinn hluta í innviðagjöldum til uppbygginar samgönguinnviða. Þegar umferðargjöld verða endurskoðuð og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem var samþykkt árið 2019 gerir ráð fyrir, óskar Bolungarvíkurkaupstaður eftir því að tillagan fundin verði sanngjörn leið til gjaldtökunnar þar sem hluteigendur séu allir notendur vegakerfis í landinu og jafnræðissjónarmið íbúa haft að leiðarljósi.

f.h. Bæjarráðs Bolungarvíkur

Jón Páll Hreinsson

Bæjarstjóri í Bolungarvík

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Helgi Pálsson - 02.08.2022

Ég skila inn þessum athugasemdum m.t.t. þess að ég er íbúi í Bolungarvík og sé fram á það að vegatollur í Bolungarvíkurgöngu mun verulega skerða mín lífsgæði sem íbúi í Bolungarvík og getu mína til að búa hérna og lifa á mínum launum. Við erum 6 í minni fjölskyldu, konan vinnu á ísafiði og þarf því að fara 5 ferðir í viku í gegnum göngin. Unglingurinn er í menntaskólanum á Ísafirði og mun þurfa fara 5 ferðir í viku í gegnum göngin. Svo eru 2 sem stunda tómstundir á Ísafirði sem eru ekki í boði í Bolungarvík. Þetta gera hátt í 30 ferðið í okkar fjölskyldu á viku í gegnum göngin, báðar leiðir, sem eru fastar ferðir. Næst eru það alltaf ferðir í Apótek, læknisferðir, bónus, nettó, sýslumann, bankann og félagsþjónustu sem ekki er veitt í Bolungarvík. Þetta getur gert um eða yfir 50 ferðir fram og til baka í hverri viku hjá okkar fjölskyldu. Sem gerir 15.000 kr í toll fyrir að búa í Bolungarvík miðað við 300 kr á ferð (sem hefur verið viðrað í fréttum) á viku, 60.000 kr á mánuði eða 720.000 kr á ári. Þetta eru næstum því tveggja mánaða laun eftir skatta. Þannig að mín laun byrja ekki að tikka fyrr en í mars á hverju ári, og þá eru eftir öll hefðbundin gjöld. Miðað við 300 kr gjald mun ég þá þurfa borga 1.100 kr fyrir hverja læknisheimsókn í stað 500 kr sem íbúi á ísafirði borgar. Ég þarf að borga 600 kr meira fyrir hverja grunnþjónustu sem ég þarf að sækja en íbúi á Ísafirði en samt munar bara 13 km á milli bæjarfélaga. Það er rúmlega vegalengdin frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar. Því er spurning hvort ekki ætti að vera gjöld á þeirri vegaleið líka. Þau væru allavega mun arðbæri en Bolungarvíkurgöng.

Ég rek sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfun í Bolungarvík og með því að svona mikið af mínum tekjum fara í einn skattstofn þá velti ég því fyrir mér hvort það sé grundvöllur fyrir þeirri starfsemi ásamt grundvöllur fyrir íbúðarsetu í Bolungarvík.

Annað sem ber að hafa í huga er að Bolungarvíkur eru líklega þau hagkvæmustu göng landsins sem hafa verið byggð og borguðu þau sig upp á innan við 10 árum miðað við kostnaðinn við að halda Óshlíðinni opinni. Íslenska ríkið er því í raun farið að græða á því að hafa byggt göngin þar sem mun minni kostnaður er að viðhalda göngunum en Óshlíðinni og er því hægt að nýta þann skattpening sem er umfram miðað við kostnað Óshlíðarinnar í önnur verkefni en vegasamgöngur minni Bolungarvíkur og Ísafjarðar.