Samráð fyrirhugað 19.07.2022—02.08.2022
Til umsagnar 19.07.2022—02.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 02.08.2022
Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála

Mál nr. 131/2022 Birt: 18.07.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (19.07.2022–02.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála.

Sú stefnumörkun sem unnin er í innviðaráðuneytinu samkvæmt lögum er eftirfarandi:

• Samgönguáætlun, samkvæmt lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008.

• Stefnumótun á sviði húsnæðismála, samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.

• Landsskipulagsstefna, samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010.

• Byggðaáætlun, samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015.

• Stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sbr. lög nr. 53/2018.

Þessar áætlanir varða öll meginverkefni ráðuneytisins og með þeim er lagður grunnur að mikilvægum innviðum samfélagsins. Þær tengjast mjög náið og framtíðarsýn, meginmarkmið og aðgerðir snerta gjarnan þær allar samtímis.

Lög um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, nr. 53/2018, sem gildi tóku í júní 2018, fólu í sér fyrsta áfangann í aukinni samhæfingu á stefnum og áætlunum þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Var markmiðið að ná fram aukinni skilvirkni og samhæfingu áætlana, auk þess sem komið var á sérstakri stefnumörkun í málefnum sveitarfélaganna. Verklag við gerð áætlananna var samræmt, sem og form þeirra og tímaspönn, m.a. út frá forsendum laga um opinber fjármál. Frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggðamála, sem fól í sér næsta áfanga í átt að aukinni samhæfingu áætlana á þessum sviðum, var lagt fram á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar í kjölfar kosninga til Alþingis í september 2021 tók nýtt innviðaráðuneyti við málaflokkum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, að fjarskiptum frátöldum. Jafnframt færðust undir ráðuneytið mannvirkja-, húsnæðis- og skipulagsmál. Tilgangur þessara breytingar kemur fram með skýrum hætti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á mikilvægi aukinnar samþættingar áætlana á sviði húsnæðis-, skipulags- og samgöngumála og samhæfingu þeirra við sveitarfélögin í landinu.

Með því að samhæfa stefnur og áætlanir á verkefnasviði ráðuneytisins gefst kostur á að hámarka árangur og jákvæð áhrif stefnumótunarinnar enda verði tekið mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna einstakra málaflokka. Byggt verður á skýrum áherslum með sameiginlegri framtíðarsýn, meginmarkmiðum og sameiginlegum verkefnum fyrir alla málaflokka sem ganga þurfa með samræmdum hætti í gegnum allar áætlanirnar.

Með frumvarpinu verður unnið að framgangi næsta áfanga á þeirri braut. Með því má ná meiri árangri fyrir samfélagið með aukinni samvinnu málaflokka, meira gagnsæi og hagkvæmari nýtingu fjármuna.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 02.08.2022

Vinsamlega sjá umsögn frá Landvernd í viðhengi.

Kveðja

Auður

Viðhengi