Samráð fyrirhugað 20.07.2022—20.08.2022
Til umsagnar 20.07.2022—20.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 20.08.2022
Niðurstöður birtar

Drög stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs

Mál nr. 132/2022 Birt: 20.07.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (20.07.2022–20.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið sem ætlað er að auka lífsgæði, skapa verðmæti og auka sjálfbærni með markvissri áherslu á málefni hönnunar og arkitektúrs.

Framtíðarsýn stefnunnar er að hönnun og arkitektúr séu nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að nýta aðferðir hönnunar auka stjórnvöld og atvinnulíf gæði, bæta heilsu og mannlíf, skapa áhugaverð störf og hraða verðmætasköpun á ólíkum sviðum.

Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar um aukin lífsgæði og verðmætasköpun tengjast;

• verðmætasköpun sem byggir á hönnun og arkitektúr

• hagnýtingu hönnunar sem breytingaafls

• menntun framsækinna kynslóða

• sjálfbærri innviðauppbyggingu

• kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.

Drög stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs byggja á eldri stefnumótun sem fram fór árin 2011-2013 og stefnu sem í gildi var árin 2014-2018, drögum að nýrri stefnu sem kynnt var árið 2018 og umsögnum sem um þau bárust, niðurstöðum stefnumóts Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs sem fram fór í júní 2021 og umræðum og forgangsröðun rýnihópafundar sem boðað var til í byrjun júní 2022.

Kallað er eftir umsögnum og ábendingum um inntak, forgangsröðun og áherslur í stefnunni og fyrri aðgerðaáætlun hennar. Síðan verður unnið úr þeim ábendingum sem berast og að frekara samráði um nánari útfærslur aðgerða.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hringur Hafsteinsson - 25.07.2022

Mjög gott plagg!

Bæta mætti við viðbótarmarkmiði undir fyrsta lið aðgerðaráætlunarinnar sem gæti hljóðað svona:

Markmiði 3: Heilbrigt og faglegt hönnunarumhverfi

Aðgerð 1

Setja skýrar reglur um gagnsætt innkaupaferli opinberra aðila á hönnun, þar sem faglegum vinnubrögðum er beitt í hvívetna og jafnræði á milli hönnuða tryggt.

Aðgerð 2

Tryggja að fagaðilar sitji í dómnenfndum opinberra stofnana þegar hönnuðir eru valdir í gegnum innkaupaferli, útboð og/eða hönnunarsamkeppnir.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hönnunarsafn Íslands - 09.08.2022

08.08.22

UMSÖGN // Hönnunarsafn Íslands

Drög að stefnu um málefni hönnunar og arkitektúrs.

Umsögnin varðar hlutverk Hönnunarsafns Íslands í tengslum við stefnu í málum hönnunar og arkitektúrs. Feitletraði textinn er það sem lagt er til að komi fram í stefnunni varðandi Hönnunarsafn Íslands. Fyrir neðan tillöguna er texti til útkýringar.

Við viljum koma því á framfæri og þakka fyrir að drögin að stefnunni (inntak og uppsetning ) eru skýr og aðgengileg.

Kafli 3 // Menntun framsækinna kynslóða // bls. 11

Hönnunarsafn Íslands er eina safnið sem safnar, varðveitir, miðlar, tekur þátt í rannsóknum og heldur vandaðar sýningar markvisst á íslenskri hönnun.

Safnið er mikilvæg grunnstoð varðandi samtal, menntun og kynningu á íslenskri hönnun til almennings, nemenda á öllum skólastigum sem og fagsamfélagsins.

Aðgerðir // Menntun framsækinna kynslóða // bls. 19

Efla starf Hönnunarsafns Íslands (í aðgerðaráætlun 2023 – 2026)

Efling safnsins má ekki bíða þar til 2027 – 2030 eins og gert er ráð fyrir í drögunum, við erum að glata tækifærum varðandi söfnun og skráningu, kynningu og fræðslu. Safnið hefur aðeins 2,5 starfsgildi og núverandi sýningar og geymsluhúsnæði er ófullnægjandi. Þessi staða er afar takmarkandi. Fjölga þarf starsgildum um a.m.k. tvö og auka fjárframlag vegna húsnæðismála.

Hönnun snýst um að nýta tækifærin sem eru til staðar og það eru svo sannarlega tækifæri til staðar í Hönnunarsafni Íslands.

Varðandi heimilisfesti arkitektúrs þá hefur hlutverk safnsins meðal annars verið að halda utan um íslenska byggingarlist frá aldamótum 1900. Eins og staðan er hefur safnið ekki haft burði til að sinna þessu hlutverki sem skyldi.

Kafli 5 // Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr // bls. 14 //

Eitt af megin hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að kynna íslenska hönnun frá árinu 1900 til dagsins í dag. Aðsókn að safninu hefur aukist um 100% á síðustu fimm árum auk þess sem fjöldi gesta í stafrænum rýmum safnsins hefur margfaldast. Þessi staðreynd enduspeglar áhuga og skilar sér í aukinni meðvitund á faginu.

Aðgerðir // Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr // bls. 20

Í Aðgerð 1 fyrsta “búllett” 1 mætti bæta við Hönnunarsafni Íslands ásamt Íslandsstofu og utanríkisráðuneytinu.

Hér er ekki síður mikilvægt að sinna kynningarmálum á Íslandi, mætti bæta því við.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Félag leikmynda/búningahöfunda - 18.08.2022

Fyrst og fremst, mjög gleðilegt að þessi stefna sé í mótun!

Bls.3

Hér eru taldar upp margar hönnunargreinar, en eftirfarandi vantar á listann: Leikmyndahönnun / Búningahönnun / Leikmunahönnun / Gervahönnun, og e.t.v. fleiri.

Fjölmargir leikmynda- og búningahönnuðir eru starfandi á Íslandi og sífellt fleiri sækja sér menntunar erlendis í þessum fögum. Leikmynda- og búningahönnuðir starfa í kvikmyndageiranum, sviðslistum og í auglýsingageiranum, en koma einnig að fjölda annara verkefna, t.d. hönnun sýninga og innsetninga á söfnum, hönnun veitingastaða, hönnun verslana og gluggaútstillinga, svo eitthvað sé nefnt.

Það er því mikilvægt að þessi hópur sé ekki undanskilinn við mótun svo mikilvægrar og yfirgripsmikillar stefnu.

Bls.5 / Næstu skref

Í tillögu um stýrihóp er nefnt að fulltrúar frá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Samtökum iðnaðarins og Listaháskóla Íslands vakti framvindu aðgerðanna. Gott væri að skoða hvort grundvöllur sé fyrir því að Félag leikmynda- og búningahöfunda hefði einnig sinn fulltrúa í þessum hópi.

Bls.11 og bls.19 / Menntun framsækinna kynslóða

Hér er talað um mikilvægi þess að stuðla að auknu námsframboði á sviðum hönnunargreina. Nokkrar greinar eru nefndar en hér mætti einnig nefna leikmyndahönnun og búningahönnun. Víða um heim er boðið upp á fjölbreytt nám með margskonar áherslum í þessum greinum, bæði fyrir leikhús og/eða kvikmyndir, á öllum æðri menntunar stigum og sumstaðar einnig á fornáms stigum. Ekkert slíkt nám er, eða hefur verið, í boði á Íslandi.

Að lokum: Í þessu stórfína skjali er fljallað á greinargóðan hátt um mikilvægi og áhrif hönnunar. Einnig mætti þó nefna mikilvægi hins listræna gildis hönnunar. Hönnun, eins og önnur list, auðgar samfélagið og hefur áhrif á líf einstaklinga á hátt sem ekki verður metinn til fjár. Hún skilgreinir kynslóðir og tímabil og á órjúfanlegan þátt í mótun sjálfsmyndar einstaklinga, hópa og heilla þjóða.

f.h. FLB - Félags leikmynda- og búningahönnuða

Eva Signý Berger

Afrita slóð á umsögn

#4 Myndhöfundasjóður Íslands - 19.08.2022

Umsögn Myndstefs má finna í meðfylgjandi skjali

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Fatahönnunarfélag Íslands - 19.08.2022

Umsögn Fatahönnunarfélags Íslands um drög til kynningar að „Stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs.“

Félagið fagnar því innilega að ný Hönnunarstefna sé nú til kynningar og mótunar hjá stjórnvöldum. Jákvæð áhrif hönnunar á samfélagið afmarkast ekki einungis af hagrænum áhrifum hennar heldur gæði lífs, fjölbreyttum störfum og hröðun þróunar í átt að sjálfbærni. Við fögnum því að stjórnvöld taki með þessari stefnu virkan þátt í eflingu vegs hönnunar á Íslandi.

Í heilt litið er stefnan skýr og studd með góðri aðgerðaáætlun til að ná markmiðum hennar. Hér eru nokkrir punktar sem Fatahönnunarfélagið myndi vilja sjá skerpt á til að ná enn meiri árangri á þeim tíma sem aðgerðaráætlunin nær til.

Aðgerðaráætlun Kafli 1// Aðgerð 2 bls. 17

// Aukið aðgengi hönnunartengda verkefna að fjölbreyttum sjóðum er mikilvægur hlekkur í því að efla grasrótina í hönnun og ýta undir vöxt minni fyrirtækja. Til að ná árangri í þessum sjóðum þarf oftar en ekki að sýna fram á nýsköpun í því verkefni sem sótt er um fyrir. Þar vill oft að hugtakinu nýsköpun sé beitt á of afmarkaðan þátt og þar sé ekki tekið tillit til nýsköpunar með hönnun að leiðarljósi.

Aðgerðaáætlun Kafli 3 // Til skoðunar í næstu aðgerðaáætlun bls. 19

// Forgangsraða mætti eflingu Hönnunarsafns Íslands. Safnið gegnir mikilvægu hlutverki við varðveitingu lifandi sögu hönnunar á Íslandi og miðlun henni til almennings, starfandi hönnuða og hönnuða framtíðarinnar. Saga hönnunar, ekki síst fatahönnunar, er samtímaheimild sem hætt er við að glatist hratt sé ekki unnið að varðveislu hennar jafnóðum.

//Þá mætti setja í forgang að jafna skólagjöld Listaháskólanema og þá helst jafna við skrásetningargjöld Háskóla Íslands. Þannig er betur tryggt aðgengi allra að hönnunar- og arkitektúrgreinum. Aukin samvinna milli skóla, svo sem samstarfsverkefni og fleiri tækifæri fyrir nemendur að taka kúrsa í öðrum skólum, myndi auka fjölbreytni alls náms, krosstenginga greina og sérhæfingar nemenda.

Aðgerðaráætlun Kafli 5 // Aðgerð 1 bls. 21

// Þegar kemur að erlendum fag- og viðskiptakynningum er samvinna við hönnuðina lykilatriði þar sem ólíkir hönnuðir eru með ólíkar þarfir þegar kemur að markhópum og markaðssvæðum kynninga. Samhliða því mætti skoða framboð af menntun og fræðslu í markaðsfræðum fyrir hönnuði ásamt því að auka aðgengi að samvinnu og/eða ráðgjöf sérfræðinga þegar kemur að útflutningi og markaðsstarfi erlendis.

f.h. Fatahönnunarfélags Íslands

Erla Björk Baldursdóttir

Reykjavík 19.08.2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Öryrkjabandalag Íslands - 19.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ.

Viðhengi