Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 8.–29.8.2022

2

Í vinnslu

  • 30.8.–4.10.2022

3

Samráði lokið

  • 5.10.2022

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-135/2022

Birt: 8.8.2022

Fjöldi umsagna: 5

Drög að reglugerð

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölskyldumál

Drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra

Niðurstöður

Drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda þann 8. ágúst 2022. Umsóknarfrestur var þrjár vikur og umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Fimm umsagnir bárust í gegnum samráðsgátt og ein umsögn barst ráðuneytinu með tölvupósti. Alls bárust því sex umsagnir frá þremur sveitarfélögum og þremur samtökum. Fjallað er um úrvinnslu samráðs í meðfylgjandi niðurstöðuskjali.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.

Nánari upplýsingar

Markmið reglugerðarinnar er að fjalla um almenn hæfisskilyrði og menntunarkröfur sem gerðar eru til tengiliða annars vegar og málstjóra hins vegar, sbr. 5. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fela í sér breytta nálgun þegar kemur að þjónustu við börn. Í lögunum er m.a. að finna það mikilvæga nýmæli að öll börn og foreldrar þeirra, sem á þurfa að halda, hafa rétt til aðgangs að aðila sem getur aðstoðað þau við að fá viðeigandi þjónustu án hindrana, á öllum þjónustustigum. Lögin gera jafnframt ráð fyrir því að öll þjónusta í þágu barna sé skilgreind með tilliti til þess hvaða stigi hún tilheyrir og er í því skyni horft til þriggja þjónustustiga.

Strax við fæðingu barns, eða eftir atvikum á meðgöngu, eiga foreldrar og börn rétt á þjónustu tengiliðar. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu þjónustu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Tengiliður er einstaklingur í nærumhverfi barnsins og er starfsmaður mismunandi þjónustuveitenda eftir æviskeiði þess. Hlutverki tengiliðar er almennt sinnt af starfsmönnum heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana, leik-, grunn- eða framhaldsskóla samhliða öðrum verkefnum þeirra. Lögin gera einnig ráð fyrir því að tengiliður geti verið starfsmaður sveitarfélags þar sem barn á lögheimili.

Ef fyrir liggur beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma skal sveitarfélag þar sem barn á lögheimili tilnefna málstjóra þjónustu í þágu farsældar barnsins. Hlutverk málstjóra er að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf en tengiliður gerir og leiða samþættingu þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi.

Í I. kafla reglugerðardraganna er að finna almenn ákvæði um meginmarkmið með þjónustu tengiliða og málstjóra og skyldur þeirra áréttaðar. Þá er fjallað um mikilvægi góðs samstarfs og samráðs við fjölskyldur enda mikilvægt að mál séu unnin með gagnkvæmri virðingu og trausti að leiðarljósi.

Í II. kafla er í 4. gr. fjallað um að í hverjum leik- grunn- og framhaldsskóla og á hverri heilsugæslustöð skuli í það minnsta einn starfsmaður fara með hlutverk tengiliðar og tekið fram að starfsmaðurinn skuli hafa svigrúm til að sinna hlutverkinu. Einnig er fjallað um að þegar val á tengilið hefur farið fram, innan þessara starfseininga, skuli tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það. Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að Barna- og fjölskyldustofa hefur mikilvægu fræðsluhlutverki að gegna og því mikilvægt fyrir stofuna að hafa yfirsýn yfir það hvaða aðilar sinna hlutverkinu. Í 5. gr. er fjallað um hlutverk tengiliðar með nokkuð ítarlegum hætti og byggir sú upptalning á 18. gr. laganna sem og umfjöllun í greinargerð þeirri er fylgdi frumvarpinu. Í 6. gr. reglugerðardraganna er fjallað um almennt hæfi tengiliðar, sbr. 5. mgr. 17. gr. laganna. Tengiliðir þurfa að uppfylla a.m.k. eitt af þeim skilyrðum sem talin eru upp í ákvæðinu til að geta tekið að sér hlutverkið. Jafnframt er áréttað að tengiliður skuli hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barns. Þá er sérstaklega tekið fram að þeir sem taka að sér hlutverk tengiliðar skuli sækja viðeigandi fræðslu til Barna- og fjölskyldustofu.

Í III. kafla reglugerðardraganna er fjallað um málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns. Í 7. gr. er fjallað um skyldu félagsþjónustu sveitarfélaga til að hafa yfir að ráða a.m.k. einum einstaklingi sem sinnir þjónustu í þágu farsældar barns. Í 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um skyldu til að upplýsa Barna- og fjölskyldustofu um val á málstjóra. Markmiðið er einkum að Barna- og fjölskyldustofa hafi yfirsýn yfir það að í hverju sveitarfélagi starfi málstjóri en slíkar upplýsingar skipta einnig máli fyrir stofuna í tengslum við leiðbeiningar- og ráðgjafarhlutverk hennar. Í 8. gr. er fjallað um hlutverk málstjóra og byggir upptalningin á 18. gr. laganna sem og umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu. Í 9. gr. eru settar fram almennar hæfiskröfur til málstjóra, sbr. 4. mgr. 20. gr. laganna en gengið er út frá því að málstjóri þurfi að hafa háskólamenntun til þess að geta sinnt hlutverkinu með fullnægjandi hætti. Til viðbótar við háskólamenntun skal málstjóri hafa þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barna.

Í IV. kafla er að finna ákvæði sem lúta að öðrum hæfisreglum og skyldum, bæði að því er varðar tengiliði og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna. Um er að ræða áréttingu á sérstökum hæfisreglum sem einnig er að finna í lögunum sjálfum sem og ákvæði um þagnarskyldu viðkomandi aðila.

Í V. kafla reglugerðardraganna er að finna lokákvæði en gengið er út frá því að reglugerðin öðlist gildi þegar við birtingu.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar

mrn@mrn.is