Samráð fyrirhugað 08.08.2022—29.08.2022
Til umsagnar 08.08.2022—29.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 29.08.2022
Niðurstöður birtar 22.06.2023

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 907/2005

Mál nr. 136/2022 Birt: 08.08.2022 Síðast uppfært: 31.10.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar


Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 907/2005, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 8. ágúst 2022. Frestur var þrjár vikur og umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Sex umsagnir bárust í samráðsgátt. Fjallað er um niðurstöður samráðs og framhald máls í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.08.2022–29.08.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.06.2023.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 907/2005 vegna aðlögunar reglugerðarinnar að breyttu lagaumhverfi.

Markmið reglugerðarinnar er að aðlaga reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 907/2005, að breytingum á lögum og reglum, einkum samþykkt laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, og breytingum á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Helstu breytingarnar sem felast í reglugerðinni:

1. Verkaskipting við eftirlit með daggæslu barna í heimahúsum

Í gildandi reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum er fjallað um eftirlit félagsmálanefnda með dagforeldrum. Eftir gildistöku laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 hafa bæði ríkis og sveitarfélög eftirlit með dagforeldrum. Er því lagt til í reglugerðardrögunum að skýra hvað felist annars vegar í innra eftirliti sveitarfélaga með dagforeldrum og hins vegar ytra eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með gæðum þjónustu sem dagforeldrar veita.

2. Farvegur leyfisveitinga til dagforeldra

Við gildistöku laga nr. 88/2021 voru leyfisveitingar til daggæslu barna í heimahúsum fluttar frá félagsmálanefndum sveitarfélaga til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Aðlaga þarf ákvæði reglugerðarinnar að þessum breytingum Til að tryggja að þekking félagsmálanefnda sveitarfélaganna á daggæslu í heimahúsum glatist ekki er í reglugerðinni lagður til nýr farvegur leyfisveitinga í reglugerðardrögunum. Hann gerir ráð fyrir því að allar leyfisumsóknir til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fari til umsagna hjá félagsmálanefndum sveitarfélaga.

3. Aðlögun að nýjum lagareglum um rekstrarleyfi dagforeldra

Nýjar reglur um leyfisveitingar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kalla á frekari aðlögun reglugerðarinnar um daggæslu í heimahúsum. Lagt er til að leyfi verið gefin út til allt að fimm ára í senn, en ekki fjögurra, en að gildistími leyfa verði samræmdur þegar tveir einstaklingar starfa saman að daggæslu. Þá er lagt til að stofnunin haldi utan um virk leyfi dagforeldra en ekki ráðuneytið. Jafnframt eru lagðar til aðlaganir á reglum um bráðabirgðaleyfi svo þær samræmist betur ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Aðrar breytingar varða einkum orðalag, þ.m.t. að orðið rekstrarleyfi sé notað um leyfisveitingarnar í samræmi við ákvæði hinna nýju laga.

4. Skilyrði til að fá útgefið leyfi – auknar kröfur til öryggis

Lagðar eru til breytingar á skilyrðum til að fá útgefið leyfi til daggæslu í heimahúsum. Í fyrsta lagi er lagt til að gerð verði krafa um að allir dagforeldrar hafi neyðarhnapp. Er talið mikilvægt fyrir öryggi barna í daggæslu, sem í flestum tilvikum eru ómálga, að dagforeldrar geti með einföldum hætti kallað til aðstoð vegna óvæntra atvika, svo sem veikinda og slysa. Í öðru lagi er lagt til að ekki sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrði fyrir því að hafa sótt námskeið skv. 20. gr. reglugerðarinnar nema umsækjandi hafi lokið námskeiði í skyndihjálp. Með þessu er lögð áhersla á að mikilvægi þekkingar á skyndihjálp. Í þriðja lagi er lagt til að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli sakarvottorða um umsækjendur og heimilismenn eldri en 15 ára í stað þess að umsækjendur afli sjálfir slíkra vottorða fyrir heimilismenn eldri en 18 ára og leggi fram í umsóknarferlinu.

5. Breytingar á ráðuneytum og skiptingu stjórnarmálefna

Í reglugerðinni er á nokkrum stöðum fjallað um verkefni félagsmálaráðherra. Í ljósi breytinga embættisheitum ráðherra og skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er lagt til í reglugerðinni að þar sé annað hvort vísað til ráðherra, án þess að embætti hans sé tilgreint, eða verkefni ráðherra sem fer með yfirstjórn málefna barna og ungmenna í félagsþjónustu sveitarfélaga.

6. Aðrar aðlaganir

Lagðar eru til aðlaganir sem tengjast breytinga á reglugerðum.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Björg Maggý Pétursdóttir - 24.08.2022

Daggæslufulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Magnús Karl Daníelsson - 24.08.2022

Góðan dag

Grein 4 - Það er ekki þörf á að þeir dagforedra sem eru tveir að starfa saman haf öryggishnapp, ég er starfandi dagforledri ásamt konunni, og höfum verið dagforeldrar síðan 2003 og höfum reyndu af þessum málum og það töluverða, hitt er svo annað mál það dagforledri sem er eitt, það væri mikið öryggi í því að hafa hnapp. En þá kemur að kostnaðinum hver á að greiða fyrir hnappinn ?

kv

Magnús Karl Danielsson

Dagforeldri Skipalóni Hafnarfirði.

Afrita slóð á umsögn

#3 Sesselja Sigurðardóttir - 27.08.2022

Umsögn við drög að nýrri reglugerð sent í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir - 29.08.2022

Nú eru engin aldursviðmið eins og hjá almennum og opinberum vinnumarkaði hvað varðar starfslok. Tilgreina þarf í þessum drögum hvenær dagforeldri líkur störfum sökum aldurs. Sem dæmi dagforeldri getur ekki starfað lengur en til 72 ára.

Samkvæmt nýjum drögum þá er ekki tilgreind aldursdreifing barna. Mikilvægt er að aldursdreifing barna sé raunhæf útfrá aldursviðmiðum þeirra barna sem eru hjá dagforeldrum.

Viðkomandi sveitarfélagi ber að greiða fyrir öryggishnapp en mætti vera mismunandi með hvaða fyrirkomulagi það er. Greitt beint af sveitarfélagi eða með styrkveitingu sveitarfélags til dagforeldris. Skilgreina mætti kostnaðardreifingu vegna öryggishnappa t.d. stofnkostnaður greiddur af sveitarfélagi en áskrift og útkall af dagforeldri.

Afrita slóð á umsögn

#5 Eiríkur Björn Björgvinsson - 29.08.2022

Undirrituð taka undir ábendingar Sesselju Sigurðardóttur leikskólaráðgjafa og umsjónaraðila með daggæslu í heimahúsum á fræðslu-og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar varðandi 8. gr. um fjölda barna pr. dagforeldri.

Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og Halldóra Pétursdóttir, leikskólafulltrúi Garðabæjar.

Afrita slóð á umsögn

#6 Reykjavíkurborg - 29.08.2022

Sjá meðfylgjandi umsögn Reykjavíkurborgar.

Viðhengi