Drög að reglugerð um brottfall reglugerða á sviði barnaverndar voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda þann 8. ágúst 2022. Umsóknarfrestur var þrjár vikur. Engin umsögn barst og var því ekki talið tilefni til að draga niðurstöður samráðs fram í samantektarskjali.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.08.2022–29.08.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.01.2023.
Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um brottfall fjögurra reglugerða á sviði barnaverndar og settar voru í tíð eldri laga.
Markmið reglugerðarinnar er að fella brott þrjár reglugerðir sem settar voru í tíð eldri laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992 og eina reglugerð sem sett var á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002 árið 2013.
Barnaverndarlög, nr. 80/2002 leystu af hólmi eldri lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Frá þeim tíma hefur lögunum verið breytt nokkrum sinnum, síðast með lögum nr. 20/2022. Í kjölfar gildistöku nýrra barnaverndarlaga voru settar fjölmargar nýjar reglugerðir sem leystu eldri reglugerðir af hólmi. Þær reglugerðir, sem settar voru í tíð eldri laga voru þó ekki felldar brott. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í málaflokknum og nýlegra breytinga á lagaumhverfi þykir mikilvægt að fella brott eldri reglugerðir enda hafa verið settar nýjar í stað þeirra sem fjalla með ítarlegri hætti um sömu atriði.
Lagt er til að fella eftirfarandi reglugerðir brott:
1. Reglugerð um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu skv. 21. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna, nr. 452/1993. Reglugerðin var sett á grundvelli eldri laga um vernd barna og ungmenna. Í reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 652/2004, sem sett er á grundvelli gildandi barnaverndarlaga, nr. 80/2002 er fjallað um barnaverndarúrræði á ábyrgð sveitarfélaga, þ.m.t. um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu. Í reglugerðinni er fjallað almennt um úrræðin sem og um ferli leyfisveitinga með ítarlegri hætti en gert er í reglugerð þeirri sem lagt er til að fella brott.
2. Reglugerð um barnaverndarstofu, nr. 264/1995, með síðari breytingum. Með lögum um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021 samþykkti Alþingi að Barnaverndarstofa yrði lögð niður og í stað hennar tæki til starfa ný ríkisstofnun, Barna- og fjölskyldustofa. Barnaverndarstofa tók upphaflega til starfa í kjölfar breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 22/1995, um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Barnaverndarstofa starfar því ekki lengur og rétt er að leggja til að fella brott reglugerð um starfsemi hennar.
3. Reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur, nr. 532/1996. Reglugerðin var sett á grundvelli eldri laga um vernd barna og ungmenna sem hafa verið felld úr gildi. Í reglugerð um fóstur, nr. 804/2004, sem sett er á grundvelli gildandi barnaverndarlaga, nr. 80/2002 er fjallað almennt um fóstur, leyfi til að taka barn í fóstur, námskeið, ráðstöfun barns í fóstur, fósturforeldra og fleiri atriði með ítarlegri hætti en gert er í reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur frá 1996 og því er talið rétt að leggja til brottfall hennar.
4. Reglugerð um kærunefnd barnaverndarmála, nr. 1007/2013. Með tilkomu úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 voru nokkrar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir, þ.m.t. kærunefnd barnaverndarmála sameinaðar í eina úrskurðarnefnd. Við gildistöku laganna voru jafnframt gerðar breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Um málsmeðferð fyrir nefndinni er fjallað með ítarlegum hætti í lögunum nr. 85/2015 og því eðlilegt að leggja til að fella brott reglugerð um kærunefnd barnaverndarmála enda hefur hún ekki starfað sem sjálfstæð nefnd síðan að úrskurðarnefnd velferðarmála tók til starfa.