Samráð fyrirhugað 08.08.2022—29.08.2022
Til umsagnar 08.08.2022—29.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 29.08.2022
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga (sumarbúðir o.fl.), nr. 366/2005

Mál nr. 140/2022 Birt: 08.08.2022 Síðast uppfært: 08.08.2022
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (08.08.2022–29.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að reglugerð um br. á rg. um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda skv. ákv. bvl. (sumarbúðir o.fl.) vegna breytinga á lagaumhverfi.

Markmið reglugerðarinnar er að aðlaga gildandi reglugerð nr. 366/2005 að breyttu lagaumhverfi, einkum nýjum lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

Þær breytingar sem hér eru kynntar á reglugerð nr. 366/2005 miða að því að aðlaga ákvæði reglugerðarinnar að nýjum lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og samræma feril leyfisveitinga. Ný lög fela í sér breytingar á fyrirkomulagi leyfisveitinga fyrir velferðarþjónustu og er starfsemi allra einkaaðila sem fara með þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála nú rekstrarleyfisskyld. Í lögunum eru meðal annars sett fram viðmið um kröfur til umsækjanda um rekstrarleyfi, málsmeðferð og útgáfu leyfanna. Þá eru þar ákvæði um afturköllun leyfa, endurnýjun leyfa og bráðabirgðaleyfi. Samþykkt laganna fól jafnframt í sér breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, til samræmis við hlutverk nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Aðrar nýlegar breytingar á lagaumhverfi málaflokksins fólu í sér tilkomu nýrrar ríkisstofnunar, Barna- og fjölskyldustofu, sbr. lög nr. 87/2021 og var eldri stofnun, Barnaverndarstofa lögð niður. Verkefni sem tengjast eftirliti, og Barnaverndarstofa sinnti áður voru færð til nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Rétt er að taka fram að jafnframt voru gerðar grundvallarbreytingar á barnaverndarlögum sem lúta að því að barnaverndarnefndir voru lagðar niður og í stað þeirra taka til starfa nýjar barnaverndarþjónustur, sbr. lög nr. 107/2021. Með lögum nr. 20/2022 var þó samþykkt að fresta framkvæmd breytinganna og taka barnaverndarþjónustur því ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2023. Var því ákveðið að leggja til að fara þá leið að halda orðinu barnaverndarnefnd í ákvæðum reglugerðarinnar í þessari útgáfu en gefa jafnframt út aðra reglugerð þar sem orðinu barnaverndarnefnd verði breytt í barnaverndarþjónusta og að sú reglugerð taki gildi 1. janúar 2023.

Helstu breytingar sem felast í reglugerðinni eru eftirfarandi:

1. Eftirlit ríkis og sveitarfélaga

Í gildandi reglugerð er fjallað um eftirlit barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Eftir gildistöku laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 hafa allir sem veita þjónustu sem lýtur eftirlit nýrrar stofnunar skyldu til innra eftirlits með þjónustunni. Er því lagt til í reglugerðardrögunum að skýra hvað felist annars vegar í innra eftirliti rekstraraðila og hins vegar ytra eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með gæðum þeirrar þjónustu sem um ræðir.

2. Farvegur leyfisveitinga

Við gildistöku laga nr. 88/2021 voru leyfisveitingar til einkaaðila fluttar frá barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Aðlaga þarf ákvæði reglugerðarinnar að þessum breytingum. Til að tryggja að þekking barnaverndarnefnda glatist ekki er í reglugerðinni lagður til nýr farvegur leyfisveitinga í reglugerðardrögunum. Hann gerir ráð fyrir því að allar leyfisumsóknir til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fari til umsagna hjá barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi umsækjanda.

3. Aðlögun að nýjum lagareglum um rekstrarleyfi

Nýjar reglur um leyfisveitingar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kalla á frekari aðlögun reglugerðarinnar Lagt er til að leyfi verði almennt gefin út til allt að fimm ára í senn, en ekki fyrst til eins árs líkt og reglugerðin gerir nú ráð fyrir. Jafnframt eru lagðar til aðlaganir á reglum um bráðabirgðaleyfi svo þær samræmist betur ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og breytingar á ákvæðum sem lúta að stjórnsýslukærum. Aðrar breytingar varða einkum orðalag, þ.m.t. að orðið rekstrarleyfi sé notað um leyfisveitingarnar í samræmi við ákvæði hinna nýju laga.

4. Aðrar aðlaganir

Aðrar breytingar sem kynntar eru í reglugerðardrögunum miða einkum að því að samræma hugtakanotkun við breytt lagaumhverfi og m.a. að árétta sérstaklega skyldu til að upplýsa um alvarleg óvænt atvik sem kunna að verða við veitingu þjónustu.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 25.08.2022

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er í viðhengi.

Viðhengi