Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 12.8.–9.9.2022

2

Í vinnslu

  • 10.9.–15.12.2022

3

Samráði lokið

  • 16.12.2022

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-143/2022

Birt: 12.8.2022

Fjöldi umsagna: 2

Áform um lagasetningu

Dómsmálaráðuneytið

Dómstólar

Áform um breytingu á lögum um dómstóla (sameining héraðsdómstólanna)

Niðurstöður

Starfshópur sem dómsmálaráðherra skipaði um sameiningu héraðsdómstólanna skilaði 12. desember 2022 af sér skýrslu þar sem meðal annars er lagt til að átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn. Skýrslan var birt í Samráðsgátt 16. desember 2022.

Málsefni

Með hinni fyrirhuguðu lagasetningu er ætlunin að sameina héraðsdómstóla landsins í eina stofnun og auka þannig skilvirkni og hagkvæmni í rekstri héraðsdómsstigsins.

Nánari upplýsingar

Hinn 23. mars 2022 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp um sameiningu héraðsdómstólanna, meðal annars vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar í skýrslu sem send var dómsmálaráðuneytinu 29. apríl 2020, en þar kemur meðal annars fram að sameining héraðsdómstólanna sé skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins. Starfshópurinn er leiddur af formanni stjórnar dómstólasýslunnar. Jafnframt var settur á fót samráðshópur sem í sitja fulltrúar dómstóla, lögmanna og ákæruvalds. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum en ráðgert er að störfum hans ljúki haustið 2022.

Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er forsenda sameiningar að sameinaður héraðsdómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni. Horft er til þess að efla og styrkja þessar starfsstöðvar með nýjum verkefnum og byggja þar á verkefni um svonefnda réttarvörslugátt og því að koma á fót stafrænni meðferð dómsmála. Með breyttu fyrirkomulagi héraðsdómstólanna má ætla að ná megi fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og markvissu eftirliti með henni. Þá má ætla að fjárframlög og mannauður dómstólanna muni nýtast betur og aukið hagræði nást við meðferð dómsmála borgurunum til hagsbóta.

Með frumvarpi til breytinga á lögum um dómstóla, auk annarra samfara breytingum á réttarfarslöggjöf, er sem fyrr segir ætlunin að sameina átta héraðstóla landsins í eina stofnun og auka þannig skilvirkni og hagkvæmni í rekstri héraðsdómsstigsins. Þar á meðal má gera ráð fyrir að í ríkara mæli verði unnt að sinna málum óháð starfsvettvangi dómara, styrkja stjórnun héraðsdómsstigsins og faglegan grundvöll fyrir starfsemi dómstigsins á landsbyggðinni.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttarfars og stjórnsýslu

dmr@dmr.is