Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 15.8.–9.9.2022

2

Í vinnslu

  • 10.9.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-144/2022

Birt: 15.8.2022

Fjöldi umsagna: 7

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, og fleiri lögum (stafrænt Ísland, tæknilegt hlutleysi þinglýsinga, rafrænar skuldaviðurkenningar o.fl.)

Málsefni

Ákvæði um rafrænar skuldaviðurkenningar, sem verði nýtt lánsform til neytenda og valkostur við fasteignakaup og bifreiðakaup til hliðar við lán sem veitt eru í formi hefðbundinna veðskuldabréfa.

Nánari upplýsingar

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að lögfest verði sérstök ákvæði um rafrænar skuldaviðurkenningar, sem verði nýtt lánsform til neytenda og um leið annar valkostur við fasteignakaup og bifreiðakaup til hliðar við lán sem veitt eru í formi hefðbundinna veðskuldabréfa. Rafrænar skuldaviðurkenningar verði unnt að gefa út alfarið á rafrænu formi og þinglýsa rafrænt, auk þess sem þær njóti hliðstæðs réttarfarshagræðis við aðför og nauðungarsölu og veðskuldabréf. Þar að auki geti rafrænar skuldaviðurkenningar vegna fasteignalána til neytenda verið hluti af tryggingasafni sértryggðs skuldabréfs, á sama hátt og hefðbundin skuldabréf sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Með frumvarpsdrögunum er stefnt að því að skapa traustari grundvöll fyrir þinglýsingu rafrænna skjala og þannig styðja við framgang rafrænna þinglýsinga almennt, með það fyrir augum að þinglýsing með rafrænum hætti geti síðar meir komið að mestu í stað þinglýsingar skjala á pappírsformi.

Frumvarpsdrögin eru samin af hálfu menningar- og viðskiptaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, í samráði við stýrihóp um rafrænar þinglýsingar sem skipaður er fulltrúum fyrrnefndra ráðuneyta, fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna Stafræns Íslands, sýslumanna og Þjóðskrár Íslands. Tillögurnar sem birtast í frumvarpsdrögunum eru liður í að fylgja eftir stefnu Alþingis og stjórnvalda um eflingu á stafrænni þjónustu hins opinbera.

Í stuttu máli fela frumvarpsdrögin í sér tillögur að eftirtöldum lagabreytingum:

Breytingar á þinglýsingalögum, nr. 39/1978: Lagt er til að lögfest verði skýringarregla í þinglýsingalög sem tekur af skarið um að rafræn skjöl séu jafngild pappírsskjölum og að ekkert ákvæði laganna skuli standa í vegi fyrir þinglýsingu rafrænna skjala af þeirri einu ástæðu að þau séu á rafrænu formi. Einnig eru lögð til fyrirmæli um að fullgild rafræn undirskrift uppfylli áskilnað í lögunum um undirskrift og vottun, og að skjal á rafrænu formi uppfylli áskilnað laganna um frumrit enda fullnægi það kröfum sem tryggja uppruna og heilleika skjalsins. Enn fremur eru lögð til fyrirmæli um að áskilnaði í lögunum um áritun þinglýsingarstjóra á skjöl megi fullnægja með rafrænni áritun eða færslu ef skjal er á rafrænu formi. Loks er lögð til heimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins, þ.m.t. tæknilegar útfærslur, í reglugerð.

Breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016: Lagt er til að lögfest verði ákvæði um nýtt lánsform sem beri heitið rafrænar skuldaviðurkenningar og sem verður fyrsta kastið bundið annars vegar við fasteignalán til neytenda og ákveðna flokka lánveitenda, þ.e. lánastofnanir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og lífeyrissjóði, sbr. 1.-3. tölul. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 118/2016, og hins vegar lán til neytenda vegna kaupa á bifreið. Vegna umsýslu rafrænna skuldaviðurkenninga er jafnframt lagt til í þessum kafla frumvarpsdraganna að lögfest verði ákvæði um upplýsingagátt rafrænna skuldaviðurkenninga sem starfrækt verði af hinu opinbera, þar sem aðgengilegar verða með miðlægum hætti upplýsingar um efni skuldbindingar samkvæmt rafrænni skuldaviðurkenningu og önnur atvik er hana varða.

Breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989: Lagt er til að lögfest verði ákvæði sem geri rafræna skuldaviðurkenningu að sjálfstæðri aðfararheimild, þannig að unnt verður að leita aðfarar í eign til fullnustu kröfu samkvæmt rafrænni skuldaviðurkenningu án undangengins dóms eða réttarsáttar, með hliðstæðum hætti og á m.a. við um skuldabréf, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna.

Breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991: Kveðið verði á um að rafræn skuldaviðurkenning skv. II. kafla frumvarpsdraganna, sem þinglýst hefur verið á þá fasteign sem hún er tryggð með veði í, veiti heimild til nauðungarsölu á eigninni, með hliðstæðum hætti og á m.a. við um veðskuldabréf, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Breytingar á lögum um neytendalán, nr. 33/2013: Lagt er til að lánveitendum verði veitt heimild til þess að gera lánssamning til fjármögnunar kaupa á bifreið í formi rafrænnar skuldaviðurkenningar.

Breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008: Veitt verði heimild til þess að nýta rafrænar skuldaviðurkenningar skv. II. kafla frumvarpsdraganna sem tryggingar vegna sértryggðra skuldabréfa á sama hátt og hefðbundin veðskuldabréf sem tryggð eru með veði íbúðarhúsnæði.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa viðskipta og fjölmiðla

mvf@mvf.is