Samráð fyrirhugað 17.08.2022—31.08.2022
Til umsagnar 17.08.2022—31.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 31.08.2022
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um tónlist

Mál nr. 145/2022 Birt: 17.08.2022 Síðast uppfært: 06.09.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (17.08.2022–31.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Markmiðið með frumvarpinu að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Frumvarpsdrög þessi eru samin í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Brýn þörf var talin á að skýra lagaramma um tónlist með heildarlöggjöf líkt og gert hefur verið fyrir önnur listasvið. Með frumvarpinu er leitast við að lög um tónlist verði skýr, samræmd á milli listgreina og í samræmi við gildandi löggjöf. Lögin taka einnig mið af stefnu um tónlist sem unnin var samhliða frumvarpinu.

Ríkisstjórn Íslands hefur undanfarin ár lagt áherslu á að efla menningu og skapandi greinar með markvissri stefnumótun, aðgerðaáætlunum, miðlun og auknum fjárframlögum. Í nýjum stjórnarsáttmála segir "umhverfi tónlistargeirans á Íslands verður endurskoðað í framhaldi af skýrslu starfshóps þar um" og var horft til þessa við mótun frumvarpsins.

Mikil vinna var lögð í að kortleggja umhverfi tónlistar á Íslandi á síðasta kjörtímabili og sem hluti af þeirri vinnu var settur saman starfshópur hvers hlutverk var að koma með tillögu að umgjörð Tónlistarmiðstöðvar, endurskoða sjóðakerfi tónlistar og leggja drög að tónlistarstefnu. Í skýrslu er starfshópurinn skilaði af sér er lögð til stofnun Tónlistarmiðstöðvar og sameining þriggja sjóða tónlistar undir einum hatti þar sem í ljós kom skörun á verkefnum sjóðanna og skortur á yfirsýn. Nýr sjóður mun einfalda styrkjaumhverfi tónlistar og gera það skilvirkara.

Markmið með lögum um tónlist er að uppfæra og sameina löggjöf um tónlist í eina heildarlöggjöf og útfæra miðstöð tónlistar. Frá gildistöku áðurnefndra laga hefur lagaumhverfi á Íslandi gjörbreyst með tilkomu fjölmargra laga sem tekið hefur verið tillit til við samningu frumvarpsins. Sem dæmi má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Höfð var hliðsjón af lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, við útfærslu ákvæða um tónlistarmiðstöð. Þá var litið til laga á öðrum sviðum lista sem fyrirmynda við gerð frumvarpsins.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Róbert Þórhallsson - 29.08.2022

Ég vil benda á mikilvægi þess að hugað verði að framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist. Nú er skólinn á tveimur stöðum í óhenntugu húsnæði og nemendur þurf að fara á milli hverfa í borginni til að sækja tíma. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir tónlistarlífið að vel sé búið að tónlistarmenntun á framhaldskólastigi og að stutt verði við uppbyggingu á hentugu skólahúsnæði fyrir MÍT þar sem 200 nemendur á framhaldsskólastigi í tónlist stunda nám. Ég tel það mjög mikilvægt að sett verði markmið í tónlistarstefnunni að stefnt sé að því að tryggja hentugt framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist.

Afrita slóð á umsögn

#2 Tryggvi M Baldvinsson - 30.08.2022

Umsögn um Frumvarp til laga um tónlist

Í 1. grein segir m.a.:

Markmið laganna er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Þetta er ákaflega metnaðarfullt markmið og fyrir löngu kominn tími til að tónlistin fái sterkan málsvara innan lagarammans. Það er væntanlega vegna starfssviðs ráðuneytisins að ekkert er fjallað um tónlistarmenntun í frumvarpinu, jafnvel þó að hún sé einn kafli í stefnunni til grundvallar frumvarpinu.

Góð tónlistarmenntun er án efa hornsteinn íslensks tónlistarlífs og því þykir það mér skjóta skökku við að sjá ekki gert ráð fyrir fulltrúa tónlistarkennara í stjórn væntanlegrar Tónlistarmiðstöðvar. Sérstaklega þar sem sú stétt er að oft helsti drifkraftur tónlistarlífs á landsbyggðunum. Stjórn tónlistarmiðstöðvar, eins og hún birtist í frumvarpinu, er mikil höfuðborgarstjórn fyrir utan að hagsmunir fyrirhugaðra aðila skarast.

Orðið tónlistarkennsla kemur reyndar einu sinni fyrir, í grein um Sinfóníuhljómsveit Íslands, en rétt er að taka fram að hugtakið tónlistarmenntun er það hugtak sem notað er nú til dags.

Tryggvi M. Baldvinsson

Tónskáld og forseti tónlistardeildar LHÍ

Afrita slóð á umsögn

#3 Hávarður Tryggvason - 30.08.2022

v/Frumvarps til laga um tónlist. IV.kafli : Sinfóníuhljómsveit Íslands.

1) Í 8.gr. stendur "Sinfóníuhljómsveit Íslands er eign íslensku þjóðarinnar"

Þetta er dálítið óvenjulegt orðalag um opinbera stofnun. Helsti auður SÍ er mannauður (hljóðfæraleikarar og annað starfsfólk). Varla er þetta fólk eign íslensku þjóðarinnar.

2) Í gömlu lögunum um SÍ (1982 nr.36) stendur : 1.gr. "Hljómsveitin heitir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík." og svo "Málefni hennar heyra undir menntamálaráðuneytið" (nú Menningar og Viðskiptaráðuneytið).

Þessum setningum þyrfti að koma inn í nýju lögin, t.d. í 8.gr. eða 11.gr.

Virðingarfyllst,

Hávarður Tryggvason

Fulltrúi hljóðfæraleikara í stjórn SÍ

Afrita slóð á umsögn

#4 Atli Ingólfsson - 30.08.2022

1. gr.

„Ráðherra fer með yfirstjórn málefna er varða tónlist samkvæmt lögum þessum.“

Þessa setningu má stroka út eða umorða. Kannski réttara að ráðherra beri ábyrgð á framfylgni laga þessara, en þarf að taka það fram?

3. gr.

5. „Stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar.“

Hér vantar að taka fram í hvaða tilgangi það er. Þá verður ekki séð að mikill munur sé á samskiptum og tengslamyndun, nema átt sé við að stofna eigi til fastra tengsla. Altént ekki ljóst hverju þetta efnisatriði bætir við það þriðja.

4. gr.

Af þeim sem skipa í stjórnina eru þrjú félög höfunda og flytjenda og eitt félag úr tónlistariðnaðinum. Er Félag hljómplötuframleiðenda örugglega sá aðili sem helst ætti að vera fulltrúi iðnaðarins?

Að öðru leyti er þessi skipan skiljanleg: Málefni er varða tónlist eru a) kennsla, b) sköpun, c) iðkun og d) birting eða dreifing tónlistar. Það er hugsanlegt að miðstöðin eigi ekki að fjalla um kennslu, en þá ákvörðun þarf að rökstyðja betur.

5. gr.

Það væri ekki úr vegi að setja dálitlar skorður við gjaldtöku þannig að þóknun fyrir veitta þjónustu verði sanngjörn og gæti jafnræðis. Skýra hvort innheimta megi þóknun fyrir ráðgjöf, sendingu, fjölföldun, framleiðslu o.s.frv.

6. gr.

Hér vantar greinilega meiri upplýsingar um tónlistarráð. Hversu margir eru í því? Hve oft hittist það? Er formaður? Hver ákveður málefnaskrá?

9. gr.

„einum tilnefndum af þeim ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins og tveir tilnefndum af ráðherra án tilnefningar“

Þetta mun eiga að vera: „og tveimur skipuðum af ráðherra án tilnefningar“.

En þarna er einungis tryggt að einn af fimm meðlimum stjórnar hafi tónlistarmenntun. Þrír af fimm eru skipaðir af ráðuneyti. Mætti tónlistarráð ekki tilnefna einn þeirra?

**

„Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands ræður aðalhljómsveitarstjóra og aðra fasta hljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.“ Hér birtist ágalli þess að ekki sé tryggð meiri tónlistarþekking innan stjórnarinnar. Líklega ætti þó að vera hér viðbótarklausa um að valferli hljómsveitarstjóra sé á ábyrgð framkvæmdastjóra.

**

„Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma eða fá verk til flutnings hjá tónskáldum.“

Þetta er of óskýrt og hér þarf að semja mun lengri málsgrein. Í fyrsta lagi þarf hljómsveitin að geta ráðið listræna stjórnendur í tiltekin verkefni (sýningarstjóra eða „kúratora“) sem geta þá verið tónskáld. Í öðru lagi er vissulega gott að heimild sé til þess að ráða tónskáld en setja þarf skýrari ramma um ráðningartíma og verksvið. Í þriðja lagi er orðalagið „fá verk til flutnings hjá tónskáldum“ ekki heppilegt. Réttara væri að hljómsveitin kappkosti að panta ný verk hjá íslenskum tónskáldum og flytja eldri verk starfandi íslenskra tónskálda, enda er sérstaklega getið um þetta í 8. grein laganna.

**

„Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands er heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.“

Hér vantar meðvitund um að sinfóníuhljómsveit, eins og leikhús, dansflokkur eða listasafn, þarf listræna stefnu.

Hér er því um tvo kosti að velja: Annað hvort ber að ráða framkvæmdastjóra eða tónlistarstjóra í opnu ferli og á listrænum forsendum, og ber sá þá ábyrgð á að móta hljómsveitinni listræna stefnu (sbr. 11. grein gömlu Þjóðleikhúslaganna: „Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og hefur forystu um að móta listræna stefnu þess.“), eða skipa skilyrðislaust verkefnavalsnefnd til að hafa umsjón með þessu.

Sé listræn ábyrgð og stefna ekki rekjanleg og skilgreind er mjög hætt við því að hljómsveitarstjórar, einleikarar og erlendar umboðsskrifstofur taki hana yfir og þessi „eign íslensku þjóðarinnar“ hlýði hagsmunum þeirra, fylgi engri sérstakri stefnu og vanræki íslenska tónmenningu.

10. gr.

„Í öllu starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal leggja áherslu á að hafa sem best samstarf við aðila sem vinna að skyldum markmiðum,“

Hér mætti í framhaldinu koma: „einkum íslenska höfunda og flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.“ Höfundar tónlistar teljast hiklaust til aðila sem vinna að skyldum markmiðum.

**

„Efna má til samvinnu milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast til og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir. “

Hér er óþarfi að setja fyrirvarann „eftir því…sem önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir.“ Þetta fellur jú allt undir starfsemi hljómsveitarinnar og óþarfi að raða verkefnunum í virðingarröð þar sem önnur starfsemi er sett ofar en samstarfsverkefni.

**

„Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið ohf. skulu gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar. “

Hér er væntanlega átt við samning um skrásetningu, varðveislu og útsendingu á tónlistarflutningi hljómsveitarinnar. Sérstök varðveisluákvæði ættu að gilda um upptökur íslenskra verka í samræmi við tilgang beggja stofnana.

**

„Sinfóníuhljómsveit Íslands er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.“

Það er gott að hafa ákvæði um þetta í lögum. En þar sem hljómsveitin er rekin að mestu fyrir opinbert fé ættu að vera til ákvæði sem setja tekjum og útgjöldum frekari mörk. Þar mætti koma fram:

- Hvort og þá að hvaða marki hljómsveitin má leita styrktaraðila.

- Hversu mikið af starfi hljómsveitarinnar má vera í þjónustu styrktaraðila.

- Hversu mikið af starfi hljómsveitarinnar má vera útseld vinna, til sjálfstæðra tónleikahaldara, auglýsingagerðar o.s.frv.

- Hversu mikið af útgjöldum hljómsveitarinnar má renna til umboðsaðila.

En einnig:

- Hversu hátt hlutfall af rekstrarfé hljómsveitarinnar skal renna til frumsköpunar.

Þótt ekki sé gerlegt að hafa lög svo nákvæm mætti skrifa:

Framkvæmdastjóri skal marka hljómsveitinni skýran fjárhagslegan ramma þar sem fram kemur m.a.: 1) Hver hlutdeild styrktaraðila verði í rekstri og listrænu starfi, 2) Hvaða svigrúm er til að sinna útseldri vinnu, 3) Hver hlutur umboðsaðila verði í útgjöldum 4) Hvert er rými frumsköpunar í útgjöldum.

**

„Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu og til aðstoðar við æfingar, tónleika, nótnavörslu og annað að fengnu samþykki stjórnar.“

Þessi efnisgrein gæti átt betur heima í grein um verksvið framkvæmdastjóra. Hana mætti einnig orða svo að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á skipuriti stofnunarinnar og ráðningum.

Atli Ingólfsson

tónskáld, prófessor í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#5 Margrét Bóasdóttir - 30.08.2022

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um tónlist

1. Tími fyrir umsagnir er afar stuttur á þeim tíma sem í boði er, þ.e í lok sumars. Mikilvægt væri að framlengja frest um 2 vikur til að fleiri hafi tíma til að senda inn umsögn.

2. 2. kafli 4. grein

Þrjú ár er mjög stuttur starfstími stjórnar. Rík hefð er fyrir 4 ára skipunartímabili. Sá tími gefur mun betri líkur á árangri í starfi.

Það myndi styrkja stjórn að hafa þar fulltrúa tónlistarkennara, t.d. frá Tónlistardeild LHÍ þar sem bæði fer fram menntun og rannsóknarvinna.

Tónlistarmenntun er sístæð og miðað við þróun í samtíma, myndi fulltrúi menntunar og rannsókna hafa betri tengingu en fulltrúi hljómplötuframleiðenda. Það er atvinnugrein tengd tónlist en ekki hagaðili. Þessi tillaga virðist byggja á gömlum hagsmunagrunni sem ekki á lengur við rök að styðjast.

6. grein.

Orðalag um hlutverk tónlistarráðs er óljóst – hlutverk þess, fjöldi ráðsmanna, varamenn, hverjir eru þeir hagaðilar sem skipa. Þetta þarf að skýra, en aðalspurningin er þó hvort þetta er til hagsbóta eða trafala. Ég get ekki séð mikilvægi þessa.

3. kafli, 7. grein.

Hvaða hagaðilar skipa í úthlutunarnefndir? – þetta er óljóst. Hver er hagur greinarinnar af því ráðherra skipi formann allra nefnda án tilefningar? Ég tel þetta varhugavert og of pólitískt hugsað. Nær væri að skoða framkvæmd úthlutunar Listamannalauna þar sem jafningjamat er viðhaft. Orðalag í lokamálsgrein „ráðherra ákveður stefnu og áherslur.....“ og síðar: Tónlistarmiðstöð – (ekki stjórn hennar og forstöðumaður? )-....“mótar tillögur....og færir ráðherra til samþykktar“. Þetta er sérkennilegt orðalag og þyrfti að endurskoða.

4. kafli.

Margt í orðalagi um starf Sinfóníuhljómsveitarinnar virkar eins og skrifarar þekki ekki málefnið nægilega. Sumt er of smásmugulega tilgreint og virkar ekki eins og lagatexti heldur (of) nákvæm greinargerð.

Það væri mikilvægt að endurskoða texta frumvarpsdraganna og fínpússa. Færri orð og betra heildarsamræmi myndu gera meira gagn.

Virðingarfyllst,

Margrét Bóasdóttir

Söngkona, kórstjóri, söngkennari, fv. formaður Félags íslenskra tónlistarmanna, stjórnarmaður í BÍL, varamaður í stjórn Útflutningsráðs/Íslandsstofu, formaður Landssambands blandaðra kóra og núverandi Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Afrita slóð á umsögn

#6 Annamaria Lopa - 31.08.2022

Komið sæl

Samráð þýðir að ráða “saman”. En enginn í FT vissi baun af þessu fyrr en í gær kvöld. Ef þarf að setja laga um tónlistaruppeldi landsins nauðsynlegt er að heyra sem flestar aðilar. Mjög margir Tónlistarskóla kennarar eru i FT og þá á að fá einhvern að segja þeirra skoðun.

Best er að fresta þessi drög, setja FT í nefnd, og beita aftur betri drög.

For once, be professional!

Afrita slóð á umsögn

#7 Kristín Valsdóttir - 31.08.2022

Mjög mikilvægt og ánægjulegt að verið sé að móta fyrstu opinberu stefnu um tónlist á Íslandi. Mig langar að benda á eftirfarandi atriði sem ég tel að megi taka til athugunar og hugsanlega myndu bæta þetta verk.

Í inngangi greinargerðar kemur fram að ríkistjórnin hafi lagt „áherslu á að efla menningu og skapandi greinar með markvissri stefnumótun, aðgerðaáætlunum, miðlun og auknum fjárframlögum“. Að mínu mati er menntun tónlistarmanna undirstaða tónlistarlífs og atvinnuþátttöku og ég sakna þess að tónlistarmenntun og kennsla sé ekki nefnd í lögunum. Eina sem tengist menntun má finna í 8. gr. en þar stendur: Sinfóníuhljómsveit Íslands skal leitast við að tengja starf sitt við tónlistarkennslu í landinu. Í 10. gr. er fjallað um samstarf og nokkrar stofnanir nefndar sérstaklega. Þar mætti bæta við tónlistarskólum og grunnskólum.

Í 4. gr. þar sem fjallað er um Tónlistarmiðstöð kemur fram að í stjórn hennar er ekki fulltrúi Félags tónlistarskólakennara en hvorttveggja FÍH og Tónskáldafélagsins. Úr því þarf að bæta þar sem samstarf aðila innan tónlistargeirans er yfirlýst markmið þessara laga og jafnframt markmið Tónlistarmiðstöðvar, sbr. 3. gr. þar sem stendur: Hlutverk Tónlistarmiðstöðvarinnar er að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar. Tónlistaskólakennarar hljóta að falla undir þennan hóp.

Eins og áður segir er ekki fjallað um menntun í þessum nýju lögum um tónlist. Þar er athyglin einkum á fjármögnun og umgjörð Tónlistarmiðstöðvar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þó fjallað sé um menntun í stefnunni sem fylgir er sú umfjöllun afar rýr. Það kallar á þá spurningu hvort það ætti að enduvinna lögin og stefnuna - eða að vinna nýja stefnu og lög um inntak og áherslur tónlistarmenntunar sem stæði við hlið þessarar.

Afrita slóð á umsögn

#8 Íslensk tónverkamiðstöð - 31.08.2022

Umsögn stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar um frumvarp til laga um tónlist

Í tæp 55 ár eða frá árinu 1968 hefur Íslensk tónverkamiðstöð (ÍTM) sinnt skráningu íslenskra tónverka, upplýsingagjöf varðandi íslensk tónverk og tónskáld og þjónað tónskáldum, flytjendum og öðrum varðandi nótnaumsýslu m.a. vegna fyrirliggjandi tónlistarflutnings á íslenskum verkum. Mikilvægur hluti starfseminnar er kynningarstarf tengt tónverkasafninu og samtímatónlist á Íslandi. Á ÍTM hvílir skylda að skila inn rafrænum eintökum af útgefnum nótum til Landsbókasafnsins, svokölluð skylduskil skv. lögum frá Alþingi nr. 20/2002 og er eitt helsta markmið þeirra að varðveita menningarverðmæti.

Nú er unnið að stofnun Tónlistarmiðstöðvar sem mun taka við þessu hlutverki ÍTM, skráningu, nótnaumsýslu allri og kynningarstarfinu. Mikilvægt er að þetta hlutverk hinnar nýju miðstöðvar sé skilgreint í lögum um miðstöðina en það er hvergi að sjá í því frumvarpi sem nú liggur fyrir til umsagnar þó lítillega sé minnst á skráningarhlutverkið í greinargerð með frumvarpinu. Aðalfundur ÍTM 2022 ályktaði svo um þetta mikilvæga hlutverk:

„Fundurinn beinir því til stjórnar að hvergi sé dregið úr kröfum til starfsemi nýs tónverkasviðs Tónlistarmiðstöðvar ­– um skilmerkilegar skráningar í gagnagrunn, gerð nótna til flutnings, aðgengi og dreifingu. Sérstaklega skal gætt að skráningu og utanumhaldi tónverka þannig að samfella haldist í skráningu á verkasöfnum einstakra höfunda. Fundurinn áréttar mikilvægi þess að nægum fjármunum sé veitt til verkefna sviðsins og enn fremur yfirfærslu verkefna frá Tónverkamiðstöð.

Fundurinn áréttar einnig mikilvægi þess að standa vel að smíði gagnagrunns og skráningar í hann og að nýr gagnagrunnur og vefverslun taki við um leið og starfsemi Tónlistarmiðstöðvar hefst.“

Í 2. kafla frumvarpsins, 3. gr. er fjallað um hlutverk og helstu verkefni hinnar nýju miðstöðvar. Stjórn ÍTM leggur til að bætt verði við lið sem kveður skýrt á um þetta hlutverk miðstöðvarinnar og leggur til eftirfarandi málsgrein:

(Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að:)

7. Skrá íslensk tónverk í gagnagrunn og miðla þeim til íslenskra og erlendra flytjenda með aðgengilegum og skilvirkum hætti. Miðstöðin varðveitir nótur að tónverkum íslenskra tónskálda og annað efni sem flytjendur þurfa að hafa til tónlistarflutnings á íslenskum tónverkum.

Miðstöðin úthlutar verkum sem eru í hennar umsýslu ISMN-númerum og annast einnig lögbundin skylduskil til Landsbókasafns Íslands.

ÍTM greiðir tónskáldum höfundarhlut af nótnasölu og leigu hljómsveitarverka og er ætlunin að hin nýja Tónlistarmiðstöð geri slíkt hið sama um leið og hún tekur við þessum hluta af starfsemi ÍTM. Stjórn ÍTM telur nauðsynlegt að binda þetta í lög um starfsemi Tónlistarmiðstöðvar og leggur til eftirfarandi viðbót við 3. gr.:

8. Tónlistarmiðstöð greiðir tónskáldum höfundarhlut af nótnasölu og leigu hljómsveitarverka.

Í frumvarpinu er tiltekið að stjórn Tónlistarmiðstöðvar ráði framkvæmdastjóra en ekki er getið um starfstíma. Að mati stjórnar ÍTM þarf að tilgreina ráðningartíma og fyrirkomulag ráðningar nánar í lögum um umhverfi tónlistar. Stjórn ÍTM þykir eðlilegt að horfa til sambærilegra starfa í menningargeiranum, t.a.m. annarra miðstöðva lista og má nefna forstöðumann/framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar í því samhengi, en skipað er í starfið til 5 ára með möguleika á endurskipun einu sinni til fimm ára. Einnig er eðlilegt að gera þá kröfu að auglýsa skuli starf framkvæmdastjóra. Nauðsynlegt er að taka það fram í lögunum um leið og fjallað er um hæfniskröfur. Slíkt er bæði leiðarvísir fyrir stjórn miðstöðvarinnar og veitir henni aðhald.

Rekstrarform

Í aðdragandanum að stofnun Tónlistarmiðstöðvar hefur ítrekað verið bent á að rekstrarform hinnar nýju miðstöðvar byggi á rekstrarformi Íslandsstofu, sem hefur verið nefnt Sjálfseignarstofnun með sérstaka skipulagsskrá. Umrætt rekstrarform er ekki algengt rekstrarform sjálfseignarstofnana og á eingöngu við um þær sjálfseignarstofnanir sem stofnaðar eru með lögum. Slíkar stofnanir lúta til dæmis ekki lögum um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri. Þess vegna er áhugavert að bera saman lög um þessar tvær stofnanir en allnokkurs ósamræmis gætir milli laga um Íslandsstofu og frumvarps til laga um hina nýju Tónlistarmiðstöð. Í lögum um Íslandsstofu eru t.a.m. ákvæði um að Íslandsstofa sé undanþegin tekjuskatti og að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um starfsemina þó ákvæði upplýsingalaga geri það. Önnur og ítarlegri ákvæði eru í lögum um Íslandsstofu sem snerta rekstrarformið sjálft og mælist stjórn ÍTM til að ráðuneytið útfæri ákvæði um rekstrarform Tónlistarmiðstöðvar ítarlegar og til samræmis við lög um Íslandsstofu þar sem rekstrarformin eru sambærileg.

Lengd rekstrarsamnings

Í umræðum hagaðila um fyrirhugaða stofnun Tónlistarmiðstöðvar var sá kostur nefndur að rekstraröryggi hennar yrði tryggara en þeirra miðstöðva sem hingað til hafa sinnt málefnum tónlistar – ÍTM og Útón. Hingað til hafa verið gerðir þriggja ára rekstrarsamningar við miðstöðvar tónlistar og samkvæmt frumvarpinu verður þetta óbreytt.

Rekstrarsamningur stjórnvalda við Íslandsstofu nær til fimm ára og er eðlilegt að slíkt eigi einnig við um Tónlistarmiðstöð, sér í lagi þegar haft er í huga að rekstrarform bæði Íslandsstofu og Tónlistarmiðstöðvar er hið sama. Mælist stjórn ÍTM til að ákvæði um lengd rekstarsamnings verði breytt úr „þriggja ára“ í „fimm ára“.

Stjórn ÍTM telur afar mikilvægt að framangreind atriði verði sett í lög um tónlist. Einnig er gríðarlega mikilvægt að kaflinn um Tónlistarmiðstöð verði gerður ítarlegri þar sem rekstrarformið – sjálfseignarstofnun stofnuð með sér lagasetningu – verður til þess að lögin eru hinar eiginlegu samþykktir hinnar nýju sjálfseignarstofnunar og fjalla þau um atriði sem vanalega er fjallað um í samþykktum eða skipulagsskrám félaga og stofnana.

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Gunnar Andreas Kristinsson, stjórnarformaður

Þuríður Jónsdóttir, meðstjórnandi

Egill Gunnarsson, meðstjórnandi

Bergljót A. Haraldsdóttir, meðstjórnandi

Afrita slóð á umsögn

#9 Sigurlaug Björnsdóttir Blöndal - 31.08.2022

Umsögn um Frumvarp til laga um tónlist

Í frumvarpinu öllu er einungis einu sinni minnst á tónlistarkennslu, sem væri réttara að nefna tónlistarmenntun, og þá bara í sambandi við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Í 1. grein segir skýrt að markmið laganna sé að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Tónlistarkennarar eiga gríðarstórar þátt í umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar um allt land, sérstaklega á landsbyggðunum. Til að geta markað heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði þarf Félag tónlistarkennara að fá fulltrúa í stjórn Tónlistarmiðstöðvar.

2.kafli 4.grein

Í stjórn Tónlistarmiðstöðvar er ekki gert ráð fyrir fulltrúa úr Félagi tónlistarkennara.

3.kafli, 7.grein

Tónlistarmiðstöð hefur umsjón með Tónlistarsjóði en hann skiptist í fjórar deildir; þróun og innviði, frumsköpun og útgáfu, lifandi flutning og útflutning.

Tónlistarkennarar og tónlistarskólar eru grunnurinn að þróun og innviðum tónlistarstarfs á landinu og ættu því augljóslega að hafa rödd við umsjón hans.

4.kafli, 8.grein

Hér stendur að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé eign íslensku þjóðarinnar.

Hljómsveitin samanstendur af hljóðfæraleikurum, sem eru jú manneskjur. Það þyrfti að orða þetta betur því manneskjur geta ekki verið eign eins né neins.

Í 8. grein kemur orðið „tónlistarkennsla“ fram í fyrsta og eina skiptið í öllu frumvarpinu. Ég átta mig ekki á samhenginu milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tónlistarkennslu. Margir hljóðfæraleikarar sinfóníunnar kenna í tónlistarskólum eða LHÍ samhliða starfi sínu í sveitinni. Er átt við það?

Frumvarpið ber þess keim að hafa ekki hugmynd um hver undirstaða í íslensku tónlistarlífi er. Tónlistarmenn landsins falla ekki af himnum ofan. Þau hafa flest farið í gegnum tónlistarskólakerfi landsins, fengið leiðsögn frá tónlistarkennurum, æft sig og orðið betri. Það væri fábrotin Sinfóníuhljómsveit Íslands ef engir tónlistarskólar með tónlistarkennurum væru á landinu.

Afrita slóð á umsögn

#10 Arngunnur Árnadóttir - 31.08.2022

Varðandi 8. grein nýju laganna - „Sinfóníuhljómsveit Íslands er eign íslensku þjóðarinnar.“

Ætla má að lög um Þjóðleikhúsið hafi verið höfð til hliðsjónar hér. Að mínu mati þarf þó ríkulegan rökstuðning fyrir breytingu af þessu tagi og er hann ekki að finna í fylgiskjölum um nýju lögin. Hver er þýðing þessa ákvæðis og hvaða markmið eiga að nást með tilkomu þess? Hverjar voru forsendurnar fyrir þessu orðalagi í lögum um Þjóðleikhúsið 1978 og eiga sömu forsendur við lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2022?

Ef ekki finnast haldbærar útskýringar á þessu ákvæði tel ég ekki til góðs að bæta því við.

Arngunnur Árnadóttir

hljóðfæraleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands

Afrita slóð á umsögn

#11 Tónskáldafélag Íslands - 31.08.2022

Eftirfarandi er umsögn Tónskáldafélags Íslands, hér eftir skammstafað TÍ, um drög að frumvarpi til laga um tónlist.

Tónskáldafélag Íslands fagnar áformum um stofnun Tónlistarmiðstöðvar og setningu heildarlaga um tónlist.

Varðandi 3. gr.:

Í 3. gr. er skilgreint hlutverk Tónlistarmiðstöðvar og helstu verkefni. Það er mjög mikilvægt að þau ákvæði séu skýr og í samræmi við áformaða skipan miðstöðvarinnar í þrjár deildir, þ.e. deild útflutnings, stoðdeild tónlistarlífsins innanlands og deild ritaðra tónverka.

Tillaga:

Í stað núverandi 3. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, önnur sem er almennt eðlis um kynningu og dreifingu íslenskrar tónlistar og hin sem tekur sérstaklega á hlutverki miðstöðvarinnar gagnvart nótnasafni íslenskra höfunda og svo skráningu, varðveislu og kynningu á rituðum tónverkum:

3.mgr. Stuðla að útbreiðslu íslenskrar tónlistar og kynna verk íslenskra höfunda fyrir flytjendum, hljómleikahöldurumm, og öðrum þeim sem starfa við dreifingu og umfjöllun um tónlist.

4. mgr. Halda utan um og varðveita nótnasafn íslenskra höfunda með skráningu tónverka í miðlægan gagnagrunn og miðla þeim til flytjenda og almennings með sölu og/eða leigu hér á landi og erlendis.

Tillaga:

TÍ leggur til að núverandi 4. og 5. mgr. verði sameinaðar óbreyttar þar sem þær fjalla báðar um stuðning og þjónustu við útflutning tónlistar og myndun tengsla við erlenda aðila á sviði tónlistar, þ.e. 5. mgr.:

5. mgr. Veita ráðgjöf og þjónustu til tónlistarfólks og fyrirtækja á sviði markaðssetningar og útflutnings á tónlist, og stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar.

Tillaga:

Á sama hátt og það er ákvæði í frumvarpinu um þjónustu á sviði markaðssetningar og útflutnings íslenskrar tónlistar erlendis (sbr. núverandi 4. og 5. mgr.) skal setja nýtt ákvæði (6. gr.) um skyldur miðstöðvarinnar gagnvart innlendum aðilum, hvort sem það er tónlistarfólk, áhugafólk um tónlist, kórar, sönghópar, lúðrasveitir eða skólar.

6. mgr. Efla samskipti og samvinnu meðal tónlistarfólks innanlands og miðla upplýsingum og þekkingu um íslenska tónlist til tónlistarhópa, kóra, lúðrasveita, tónlistarskóla, og annarra sem láta sig viðgang íslenskrar tónlistar varða.

Varðandi 4 .gr.

Í 4. gr. er fjallað um skipun stjórnar Tónlistarmiðstöðvar, ráðningu og verksvið framkvæmdastjóra, aðalfund miðstöðvarinnar o.fl. mál.

TÍ leggur til að í frumvarpinu verði skerpt á ákvæðinu um ráðningu framkvæmdastjóra með þeim hætti að sett verði ákveðin takmörk um tímabil ráðningar og hversu oft megi endurráða. Þetta tryggir að okkar mati heilbrigða og nauðsynlega endurnýjun í mikilvægu starfi innan menningarlífsins. Tillaga okkar tekur mið af ákvæðinu um ráðningu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar, og einnig reglum um ráðningu annarra stjórnanda í lista- og menningarlífinu, s.s. ráðningu framkvæmdastjóra Listahátíðar, þannig að lengd ráðningar í hvert sinn verði fjögur ár, með möguleikum til endurráðningar án auglýsingar í eitt skipti.

Í lok 4. gr. um er kveðið á um rétt til setu á aðalfundi. Skýra þarf betur í því sambandi en gert er hverjir eru „stofnaðilar.“

Varðandi 6. gr.

Í 6. grein er fjallað almennum orðum um skipan svokallaðs Tónlistarráðs og hlutverk þess gagnvart Tónlistarmiðstöðinni.

TÍ telur að þurfi að skerpa mjög á þessu ákvæði til þess að sé ljóst hver tilgangur og hlutverk ráðsins raunverulega er. Spyrja má hvort ráðið hafi einhvern annan tilgang en að vera umræðuvettvangur um störf miðstöðvarinnar og verkefni, og hvort það sé ályktunarhæft um ákveðin málefni eða beri ábyrgð gagnvart þeim aðilum sem tilnefna fulltrúa í ráðið. Þá vantar útfærslu á því hvernig ráðið kemur að mótun stefnu fyrir Tónlistarmiðstöðina, eins og kveðið er á um í þessari grein. Að okkar áliti er ekki nóg að kveðið sé á um þessi atriði í greinargerðinni með frumvarpinu heldur þurfi þessi atriði að vera skýr í frumvarpinu sjálfu.

Varðandi 7. gr.

Í 7. gr. er fjallað um Tónlistarsjóð, hlutverk hans, skipulag, skipan í úthlutunarnefndir, o.fl.

Tónskáldafélagið vekur athygli á því að hvergi í styrkjakerfinu í dag er sjóður sem gefur möguleika á fjármögnun hljóðritunar eldri íslenskra tónverka. Það skiptir miklu að hægt sé að miðla tónverkum fyrri kynslóða íslenskra tónskálda og að mögulegt sé að fjármagna verkefni þar að lútandi. Það er mikilvægt að verkefni af þessum toga sé hægt að fjármagna undir deildinni „frumsköpun og útgáfa“ svo þau eigi sér einhvern stað innan styrkjakerfisins.

Tilgreint er að í hverri úthlutunarnefnd verði tveir fulltrúar tilnefndir af hagaðilum. Mikilvægt er að tilgreina í lögunum hvaða hagaðila átt er við, því þeir geta verið margir.

Þá leggur TÍ til þá breytingu á frumvarpstextanum, að setningin Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild verði tekin út. Verði það ekki gert er mikilvægt að tilgreint verði nákvæmlega í hvaða tilvikum slíkt geti gerst. Annars verður þessi klausa til þess eins að vekja óvissu um úthlutunarnefndirnar og draga úr gagnsæi.

Ennfremur leggur félagið ríka áherslu á að setningin Ráðherra ákveður stefnu og áherslur í starfi tónlistarsjóðs og setur nánari reglur um meðferð umsókna, afgreiðslu og úthlutun styrkveitinga úr sjóðnum verði tekin út. Í fyrsta lagi er hún í andstöðu við setninguna sem kemur síðar um að það sé miðstöðin sjálf sem mótar stefnuna. Í öðru lagi er svona rík aðkoma ráðherra að styrkjum til listverkefna í andstöðu við menningarstefnu ríkisins. Í þriðja lagi kallar þetta á pólitískt inngrip í styrkveitingu til listverkefna, nokkuð sem Bandalag íslenskra listamanna og listageirinn í heild hefur barist gegn í áratugi.

Við veltum því einnig upp hvort vinnsla stefnu til þriggja ára í senn sé of knappur tími, hvort hún ætti e.t.v. að vera til fimm ára í senn.

Varðandi 8. gr.

Í 8. gr. er fjallað um Sinfóníuhljómsveit Íslands, hlutverk og helstu verkefni

Þetta ákvæði um hlutverk og verkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands er meira eða minna óbreytt frá núgildandi lögum um hljómsveitina. TÍ telur að þurfi að uppfæra það í takt við breyttar forsendur og þarfir samfélagsins. Í því tilliti megi m.a. líta til skilgreiningar á hlutverki og verkefnum Þjóðleikhússins í lögum um sviðslistir frá 2020.

Sérstaklega vill TÍ leggja áherslu á að skilgreina þurfi betur hlut íslenskra tónverka í dagskrárframboði hljómsveitarinnar og hvaða hlutverk hljómsveitin hefur gagnvart tónlistaruppeldi barna og unglinga.

Tillaga:

Sinfóníuhljómsveit Íslands er eign íslensku þjóðarinnar. Hún skal stuðla að þróun og nýsköpun tónlistar, efla íslenska tónsköpun, leitast við að glæða áhuga landsmanna á sígildri og samtímatónlist og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning tónverka sem eru skrifuð og/eða útsett fyrir þá hljóðfæraskipan sem hljómsveitin býr yfir.

Aðalverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands er flutningur íslenskra og erlendra tónverka, jafnt eldri verka sem nýrra, og að stuðla að frumsköpun í íslenskri tónlist. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á hverju starfsári séu frumflutt íslensk tónverk og settar saman efnisskrár ætlaðar börnum og ungu fólki. Hljómsveitin annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að tónleikaferðum innanlands og til annarra landa.

Varðandi 9. gr.

Í 9. gr. er fjallað um skipan og hlutverk stjórnar hljómsveitarinnar, ráðningu framkvæmdastjóra, hljómsveitarstjóra, hljóðfæraleikara og staðartónskálds, auk þess að tiltekið er hvernig launakjörum og vinnutíma starfsmanna skuli háttað, heimild til skipunar verkefnavalsnefndar, framlagningu starfs- og fjárhagsáætlunar, og um fjárreiður og reikningshald.

TÍ telur þessa grein eins og hún er kynnt í þessum drögum bæði ruglingslega og samsetta úr alltof mörgum óskyldum þáttum. Hér þarf að skipta textanum upp eftir skýrum efnisatriðum, s.s. eina grein fyrir skipan og hlutverk stjórnar, aðra grein fyrir ráðningu og verkefni framkvæmdastjóra, þá þriðju fyrir ráðningu hljómsveitarstjóra, hljóðfæraleikara og staðartónskálds, sérstaka grein um verksvið og hlutverk verkefnavalsnefndar, og svo enn eina grein um skipulag á fjárreiðum og framlagningu starfs- og fjárhagsáætlana, o.s.frv.

Hvað varðar efnisatriðin sjálf hefur TÍ eftirfarandi athugasemdir:

a) TÍ leggur mikla áherslu á að ákvæðinu um að stjórn hljómsveitarinnar verði heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar verði breytt úr heimildarákvæði í bindandi ákvæði. Að mati félagsins er mikilvægt að fleiri komi að ákvörðunum um efnisskrár hljómsveitarinnar en lítill hópur stjórnenda, og þá oft undir ráðandi hönd erlends hljómsveitarstjóra sem hefur afar takmarkaða þekkingu á íslenskum tónskáldskap og hlutverki hans í menningarlífi þjóðarinnar. Þá verður að tryggja meira gagnsæi en nú er um hvernig íslenskum tónverkum er hampað í dagskrám hljómsveitarinnar og þá ekki síst í hljómleikaferðum sveitarinnar erlendis.

Tillaga:

Stjórn SÍ skipar verkefnavalsnefnd. M.a. skal nefndin útfæra skyldur hljómsveitarinnar gagnvart flutningi íslenskra tónverka sbr. 8. gr. Að öðru leyti skal stjórnin ákveða nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.

b) Ákvæðið um heimild um ráðningu tónskálds að hljómsveitinni er gallað að því leytinu til að heimildinni er stillt upp sem valkosti gagnvart því að hljómsveitin fái verk til flutnings frá tónskáldum. Það getur varla verið að annað eigi að útiloka hitt. Því gerir TÍ tillögu að breytingu á texta:

Tillaga:

Heimilt er að ráða tónskáld í afmarkaðan tíma til starfa í þágu hljómsveitarinnar og kaupa ný tónverk til flutnings.

c) Það vekur spurningu hvers vegna þykir tilhlýðilegt að tilgreina um lágmarksfjölda hljóðfæraleikara sem ráðnir skulu að hljómsveitinni hverju sinni, alls 88 stöðugildi. Hér telur TÍ að þurfi meiri sveigjanleika og að framkvæmdastjóri og stjórn verði ekki bundin með þessum hætti við samsetningu sveitarinnar. Í þessu ætti framkvæmdastjóri að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og standa skil vegna þeirra gagnvart stjórn.

Varðandi 10. gr.

10 gr. fjallar um samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands við aðrar stofnanir, hópa, einstaklinga, og aðra aðila.

Tí leggur til að ákvæðið um að Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið geri með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar verði útfært þannig að það nái jafnt yfir hljóðversupptökur og hljóðritanir af tónleikum. Í því efni verði sérstaklega horft til hljóðrita af íslenskum tónverkum, bæði verkum eldri höfunda og þeirra sem starfa í dag.

Afrita slóð á umsögn

#12 Magnús Albert Jensson - 31.08.2022

Ég fagna því að lög um listir séu í endurskoðun og minni á orð sir Ken Robins heitins um menntakerfið “so far our educational system has been going through an evolution, being reformed, but really it needs a REVOLUTION”. Þessa hugsun sem Ken beindi að menntakerfinu eftir að hafa farið vandlega í gegnum djúpstæðan vanda þess má vel yfirfæra á opinbera aðkomu að tónlist og listum almennt.

Um lög vil ég segja tvennt 1) Þau þurfa bæði að vera góð og það þarf að fylgja þeim eftir, sem ég mun taka dæmi um í þessu erindi að ekki hefur verið gert. 2) “Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða” og með seinni hluta þessarar sígildu setningar minna á það að lög eru ekki uppbyggileg nema þau séu vel unnin, skýr, réttlát og nothæf.

Ég geri ég ráð fyrir því að lög um tónlist komi á sanngjarnan hátt til móts við fólk sem laðast að tónlistariðkun í fjölbreyttum skilningi fjölmenningar og fjölgreindar og bæði til leiks og starfa. Ríkjandi innviði þarf að opna upp og endurskoða eins og lögin.

Ég fagna einnig hugmyndinni um samræmingu á milli listgreina og dettur í hug að minna á sýningu sem nýlega var í Safnahúsinu, þar gamalt íslenskt “handverk” sett í samhengi við nýja íslenska myndlist og í miðri sýningu stóð verk eftir Torvaldsen. Hér er sterk tilvísun í þá hugmynd sem lengi var kennd, að íslensk myndlistarsaga hafi hafist með innflutningi sjálfsmyndarstyttu Bertels Thorvaldsens. Sú söguskoðun hefur augljóslega verið aflögð í kerfinu. Við þurfum að varast að skipuleggja opinbera aðkomu að tónlist á grunni innflutnings Jóns Leifs á Hamborarsinfóníunni. Þetta á auðvitað bæði við hljóðfæranám og rekstur sinfóníuhljómsveitarinnar.

Í gildandi lögum um sinfóníhljómsveit íslands segir: “Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast”. Þetta hefur verið brotið í sífellu bæði hvað fltning varðar og útflutning. Segja má að sinfóníhlómsveitin hafi frekar fylgt alþjóðlegum straumum í rekstri slíkra sveita en íslenskum lögum. Jón Leifs taldi sig vera að flytja inn hlutlaust tæki til að magna upp íslenska tónlist enda enn hálf öld í “The Medium Is the Massage” hugmyndina. Gildandi lög eru upprunalega frá 1982 og sinfónía enn megin farvegur tónsmíða þeirra sem hafa menntað sig í tónsmíðum - þarna þarf að endurskoða. Í drögum að nýjum lögum segir “…efla áhuga og þekkingu á sígildri tónlist og samtímatónlist…”. Þarna hljótum við að stoppa við og spurja okkur hvort að sama hljómsveitin sé rétta verkfærið fyrir samtímatónlist og sígilda tónlist. Reyndar er eðlilegt að spurja sig hvað átt sé við um sígilda tónlist. Hugmyndin um hið “sígilda” er fengin frá Grikkjum enda grísk áhrif allsráðandi á 18. öldinni, “klassíska” tímanum. Hugtakið verður reyndar til á hnignunartímabili grikkja, þegar þeir foru byrjaðir að horfa til glæstrar fortíðar, “klassíkurinnar”. Fjölbreytileiki sinfóníuhljómsveita samtímans felst mest í því hvar þær eru á rófinu þar sem “tímabilshljómsveitin” er á öðrum endanum, hljómsveit sem nær hápunkti fyrir hálfri annarri öld og byrjaði að hafna nýjum hljóðærum með saxafóninum sem var fundinn upp árið 1846. Og á hinum endanum opnari, dýnamískari og vistvænni hljómsveit sem getur starfað í minni einingum og tekið inn öll heimsins hljóðfæri án þess að það sé “einleikshljóðfæri með sveitinni á staðalformi”. Tímabilshljómsveitin kemur til móts við lítið brot tónskálda, sem finna sig í þeim kima sem þetta tímabil hefur orðið að með framrás tímans. Við eigum mjög góð tónskáld sem eiga heima í þeim flokki og sum þeirra fá töluverðan flutning, önnur ekki. Brot tónskálda laðast að eldri flutningshefðum og eru óstudd af sinfóníuhljómsveitinni og svo margfalt fleiri sem laðast að nýrri aðferðum sem sinfónían hefur verið lokuð fyrir með undantekningum þó. Tímabilshljómsveitin með sínu nokkuð staðlaða verkavali hefur einnig mætt töluverðri gangrýni á síðustu árum undir formerkjum póst kólóníalisma og kynjafræði.

Nú ætla ég að leggja til að sinfóníuhljómsveit íslands taki sér framsæknustu sinfóníuhljómsveitir til fyrirmyndar og marki sér það stefnu að verða leiðandi í endurnýjun sinfóníunnar - sveitaskiptrar, vistvænnar tónlistarflutningsþjónustu. Sveitin verði sem opnast kerfi og í sterkum tengslum við grasrót tónlistar í landinu.

Vandamál tónlistarskólanna er skylt umræðunni um sinfóníuna og mun ég ekki ræða þá frekar hér sökum tímaskorts (og nota tækifærið í leiðinni til að afsaka hroðalegan texta).

Íslensku tónlistarverðlaunin njóta þeirrar opinberu aðkomumu að forseti íslands setur hátíðina og gott að hafa í huga að opinber aðkoma er meira en fjárflæði, hún er lýðræðisleg raungerfing hugmynda okkar. Í íslensku tónlistarverðlaununum er tónlist flokkuð í 1)popp, 2)djass, 3)blús, 4)rokk og svo 5)sígilda og samtímatónlist. Ég ætla ekki að eyða orðum í hvað þetta er frálett heldur þess í stað bera saman við myndlist þar sem veitt eru “íslensku myndlistarverðlaunin” í flokkunum 1)heiðursviðurkenning, 2) viðurkenningu fyrir útgefið efni, 3) áhugaverðasta endurlitið og 4) áhugaverðasta samsýningin. Nóg um það.

Lög um tónlistarsjóð hafa verið brotin eins og lögin um sinfóníuna og átti undirritaður í bréfaskriftum við fyrrverandi formann úthlutunarnefndar þar sem hann svaraði svohljóðandi spurningu minni “Í lögum um tónlistarsjóð stendur "Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónSKÖPUN þeirra" - í leiðbeiningum vegna umsókna kemur hins vegar fram "Tónlistarsjóður styrkir almennt EKKI verkefni sem teljast til tónSKÖPUNAR”…. …en ég er hugsi yfir hver

ákveður að lögin séu túlkuð svona”. Svarið var svohljóðandi: “Stutta svarið er kannski það að "kynning á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra" er ekki það sama og "tónsköpun" í þröngum skilningi. Við höfum tekið þann pól í hæðina, og rætt það við fulltrúa ráðuneytis líka, að mikilvægt sé að þeir sjóðir sem ríkið leggur fé í starfi á afmörkuðum sviðum og séu ekki margir að veita til sömu verkþátta. Þannig fékk Launasjóður tónskálda 190 mánuði til úthlutunar við síðustu úthlutun. Það er næstum því jafn mikið og allt það fé sem Tónlistarsjóður fær í sinn hlut á einu ári, til að "efla íslenska tónlist". Tónlistarsjóður leggur því megináherslu á verkefnastyrki til tónleikahalds og fjölbreyttrar kynningar á íslenskri tónlist, enda enginn annar sjóður á vegum ríkisins sem sinnir slíku”. Þarna er gefið í skyn að ráðuneytið sé með í ráðum að taka þann “pól í hæðina” að útiloka þá “túlkun” sem felst í frummerkingu (þröngu merkingunni) orðsins SKÖPUN og ver það sem með því að benda á launasjóð tónskálda sem fékk 190 mánuði en sleppir að minnast á launasjóður tónlistarflytjenda sem fékk 10 mánuðum minna eða 180 mánuði sama ár.

Starfslaun og verkefnastyrkir eru samfélaginu ódýr við hlið rekstrar stofnana á borð við sinfóníuna en gera tónlistarfólki hins vegar í ríkara mæli kleyft að stunda list sína. Listin verður til á heilbrigðan hátt upp úr grasrótinni og þar sem samanburður við aðrar listgreinar er á dagskrá get ég bent á að rithöfundar höfðu sama ár 555 mánuði og myndlistarmenn 435 - svo er tónlistarsköpun hlunnfærð í samráði við ráðuneytið.

Það þarf með öðrum orðum að fara dýpra í þessa endurskoðun laga og að tryggja framfylgni þeirra góðu laga sem við getum sett okkur í sameiningu. Mér sýnist samráðið vera að hefjast núna á lokadegi og þakka öðrum umsangaraðilum og þeim sem standa að samráðsgáttinni.

Virðingarfyllst

Magnús Jensson

tónskáld

Afrita slóð á umsögn

#13 Landsbókasafn -Háskólabókasafn - 31.08.2022

Hjálagt sendist umsögn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns um frumvarp að lögum um tónlist.

Örn Hrafnkelsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 STEF - 31.08.2022

Hjálögð er umsögn STEFs um frumvarp til laga um tónlist.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. - 31.08.2022

Góðan dag.

Vinsamlega sjáið meðfylgjandi umsögn um frumvarp til laga um tónlist í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Gunnar Andreas Kristinsson - 31.08.2022

Athugasemd varðandi 7.gr. frumvarps til laga um tónlist sem fjallar um Tónlistarsjóð:

„Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild.“

Hætta getur skapast á að úthlutanir af sviðum Tónlistarsjóðs missi sjálfstæði og aðgreiningu ef sama fólkið sýslar með umsóknir margra sviða. Legg ég því til að þessi heimild verði ekki innleidd.

Afrita slóð á umsögn

#17 Reykjavíkurborg - 31.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar, menningar- og ferðamálasviðs um frumvarp til laga um tónlist.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Félag íslenskra tónlistarmanna - 31.08.2022

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um tónlist frá stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískri deild FÍH

II. kafli:

4. grein:

Gæta þarf að aðkomu klassískra tónlistarmanna í stjórn Tónlistarmiðstöðvar, hvort sem það væri gert með því að fjölga í stjórn miðstöðvarinnar, að framkvæmdastjóri hafi ráðgjafa á sínum snærum með viðamikla þekkingu á tónlistargreininni eða að lágmarki að Félag íslenskra tónlistarmanna-klassísk deild FÍH eigi fulltrúa í tónlistarráði og þar með rétt til setu á aðalfundi Tónlistarmiðstöðvar.

6. grein:

Tryggja þarf aðkomu klassískra tónlistarmanna að Tónlistarráði, með því að fulltrúi FÍT-klassískrar deildar FÍH fái setu í ráðinu. Eðli starfsemi og starfsumhverfis klassískra tónlistarmanna er eðlisólíkt margra annarra tónlistargreina og því mikilvægt að klassískir tónlistarmenn hafi sterka rödd á vettvangi Tónlistarmiðstöðvar og tónlistarráðs.

III. kafli:

7. grein:

Gæta þarf að jafnræði milli mismunandi tónlistargreina í skipun í úthlutunarnefndir nýs Tónlistarsjóðs.

Greinargerð:

5. grein, Samráð:

Athugasemd: Hér kemur ekki fram að Félag íslenskra tónlistarmanna – klassísk deild FÍH hafi setið í starfshópi um Tónlistarmiðstöð en við ítrekum enn og aftur að rödd klassískra tónlistarmanna er algjörlega nauðsynleg í allri uppbyggingu og mótun á miðstöðinni og stefnu stjórnvalda í málefnum tónlistar.

Virðingarfyllst fyrir hönd stjórnar FÍT-klassískrar deildar FÍH:

Hallveig Rúnarsdóttir formaður

Afrita slóð á umsögn

#19 Listaháskóli Íslands - 31.08.2022

30. ágúst 2022

UMSÖGN // Listaháskóli Íslands

Frumvarp til laga um tónlist

Listaháskóli Íslands fagnar nýju frumvarpi til laga um tónlist, markmiði og tilefni lagasetningarinnar, stofnun tónlistarmiðstöðvar og tónlistarráðs.

Hér að neðan eru nokkur atriði til umhugsunar að öðru leyti og varðandi rökstuðning er vísað til umsagnar LHÍ um drög að tónlistarstefnu.

II. KAFLI.

Tónlistarmiðstöð og tónlistarráð.

3. gr.

Hlutverk og helstu verkefni

Hér mætti bæta menntastofnunum við samstarfsvettvang til að undirstrika þá tengingu

III. KAFLI.

Tónlistarsjóður

7. gr.

Tónlistarsjóður

Hér mætti nefna rannsóknir. Til dæmis í tengslum við þróunarstarf, uppbyggingu innviða, frumsköpun og útgáfu.

IV. KAFLI.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

8. gr.

Hlutverk og helstu verkefni

„Sinfóníuhljómsveit Íslands skal leitast við að tengja starf sitt við tónlistarkennslu í landinu“.

Uppfæra mætti til samræmis við stefnu og við það sem tíðkast í umræðu og nota tónlistarmenntun, fræðslustarf eða tónlistarnám í þessu samhengi. Þessi grein mætti einnig endurspegla betur hið öfluga fræðslustarf sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur nú þegar fyrir.

10. gr.

Samstarf

Spurning hvort hér mætti tilgreina samstarf við menntastofnanir sérstaklega til að undirstrika mikilvægi þess: „ ...einstaklinga, hópa, menntastofnanir og aðrar stofnanir“

Fyrir hönd Listaháskóla Íslands,

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor

Þóra Einarsdóttir, sviðsforseti kvikmyndalistar, sviðslista og tónlistar

Afrita slóð á umsögn

#20 Phillip Joseph Doyle - 31.08.2022

Umsögn um frumvarp til laga um tónlist

Skýr lagarammi um tónlist með heildarlöggjöf líkt og gert hefur verið fyrir önnur listasvið er mikil nauðsyn og jákvætt skref. Á sambærilegan hátt og við lestur draga um tónlistarstefnu þykir mér þó skorta allnokkuð á að viðeigandi framþróun og nútímavæðingar tónlistarmenntunar, ásamt jafnræðis allra tónlistarforma séu viðeigandi skil gerð:

Meðfylgjandi eru nánari athugasemdir við drögin sjálf.

Dr Phillip Joseph Doyle D.M.A

Tónlistarkennari við Tónlistaskóla FÍH

Mancini Fellow/University of Miami, Frost School of Music

Former Director of Jazz Studies at Eastern Washington University.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Gylfi Garðarsson - 31.08.2022

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra tónbókaútgefenda um drög að frumvarpi til laga um tónlist.

F.h. sambandsins

Gylfi Garðarsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Kennarasamband Íslands og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum - 06.09.2022

Viðhengi