Samráð fyrirhugað 17.08.2022—31.08.2022
Til umsagnar 17.08.2022—31.08.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 31.08.2022
Niðurstöður birtar

Drög að tónlistarstefnu

Mál nr. 146/2022 Birt: 17.08.2022 Síðast uppfært: 15.09.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (17.08.2022–31.08.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið í málefnum tónlistar til ársins 2030 og er ætlað að styðja við tónlistarsköpun og blómlegt tónlistarlíf á landinu öllu.

Stefnudrög þessi eru mótuð af menningar- og viðskiptaráðuneytinu með aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og í nánu samstarfi við hag- og fagaðila.

Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu á sviði tónlistar á Íslandi.

Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið tónlistar til ársins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná tilsettum markmiðum. Aðgerðaáætlun stefnunnar verður í tveimur hlutum. Fyrri hluti, sem kynntur er í stefnudrögunum, gildir fyrir árin 2023-2026. Aðgerðaráætlun sem gilda mun árin 2027-2030 verður mótuð síðar.

Grunnur að tónlistarstefnu var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Í framhaldinu var haldinn stefnumótunarfundur með hag- og fagaðilum innan tónlistar auk þess sem leitað var eftir endurgjöf og tillögum frá fjölbreyttum stofnunum og félögum.

Mikilvægt er að almenn sátt sé um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið. Með birtingu í Samráðsgátt gefst tækifæri til enn breiðara samráðs og því er hér kallað er eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir þær sem lagðar eru til í þessum drögum. Í framhaldinu verður unnið úr þeim ábendingum sem berast og lokaútgáfa stefnunnar og fyrri aðgerðaáætlun lögð fram.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hrafnkell Karlsson - 19.08.2022

Mjög flott drög að mikilvægri stefnu tónlistarmála á Íslandi. Það eru nokkrir hlutir sem ég vil hamra á sem ég tók eftir í mínu uppeldi og nú það sem ég sé nú þegar ég er að vinna í minni tónlistargráðu í orgelspili.

Grunn -og framhaldsskólar

• það þarf að gefast rými fyrir tónlistarnemendur líkt og íþróttaiðkendur innan skólakerfisins. Það þarf að gefa meira rými þegar tónlistarnemendur þurfa að fara í tíma í tónlistarskóla sínum, spila á tónleikum og fara í sérhæfð námskeið líkt og er gert fyrir íþróttaiðkendur þegar þau þurfa æfa, keppa á mótum og fara í sérverkefni

Háskólastig

• í framhaldi af þessari tónlistarstefnu þarf að endurhugsa skólagjöld og lánbyrgði háskólanema í tónlist og listanámi almennt. Mér finnst ekki ásættanlegt að eini listaháskóli landsins er með rúmlega átta sinnum hærri skólagjöld fyrir árið í bakklaranámi en td. Háskóli Íslands. Að neyða listanema á íslandi að borga slík skólagjöld, í vinnu samtímis til að borga þessi himinháu gjöld (oftast í gegnum námslán) er að mínu mati ekki ásættanlegt. Það þarf að gefa listanemum á íslandi meira svigrúm til að einbeita sér að námi sínu, ekki að stressast yfir að borga námslánin hver mánaðarmót

• varðandi námslán og aðra sérhæfðari tónlistarskóla þá furða ég líka á því af hverju Tónskóli þjóðkirkjunnar sem er eina stofnunin hérlendis sem útskrifar organista með starfsréttindi sem kirkjuorganistar er ekki lánshæfur skóli, þetta að mínu mati þyrfti að endurskoða.

Ég er mjög spenntur að fylgjast með umræðunni um þessa tónlistarstefnu og vona að það verði unnið vel að henni og henni framfylgt.

Afrita slóð á umsögn

#2 Vignir Þór Stefánsson - 29.08.2022

Ég vil benda á mikilvægi þess að hugað verði að framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist. Nú er skólinn á tveimur stöðum í óhentugu húsnæði og nemendur þurfa að fara á milli hverfa í borginni til að sækja tíma. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir tónlistarlífið að vel sé búið að tónlistarmenntun á framhaldskólastigi og að stutt verði við uppbyggingu á hentugu skólahúsnæði fyrir MÍT þar sem 200 nemendur á framhaldsskólastigi í tónlist stunda nám. Ég tel það mjög mikilvægt að sett verði markmið í tónlistarstefnunni að stefnt sé að því að tryggja hentugt framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist.

Afrita slóð á umsögn

#3 Einar Valur Scheving - 29.08.2022

Góðan dag

Sem kennari við MÍT (Menntaskóla í tónlist) langar mig að benda á mikilvægi og í raun nauðsyn þess að inn í tónlistarstefnunni verði gert ráð fyrir byggingu framtíðarhúsnæðis fyrir skólann. Nú er skólinn á tveimur stöðum í óhenntugu húsnæði og nemendur þurfa að fara á milli hverfa í borginni til að sækja tíma. Þetta kemur einnig niður á öllu félagsstarfi, sem er nauðsynlegt fólki á þessum aldri. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir tónlistarlífið að vel sé búið að tónlistarmenntun á framhaldskólastigi og því að sama skapi mikilvægt að sett verði markmið í tónlistarstefnunni að stefnt sé að því að tryggja hentugt framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist, þar sem 200 nemendur á framhaldsskólastigi í tónlist stunda nám.

Bestu kveðjur,

Einar Scheving

Afrita slóð á umsögn

#4 Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir - 30.08.2022

Það er mikið fagnaðarefni að verið sé að vinna í stefnu í málefnum tónlistar og að sjá að stefnan sé svona vel unnin. Mig langaði til að benda á nokkra punkta.

Áhersla I: Tónlistarmenning og -menntun.

Markmið 1: Hlúum að heimili tónlistar

Varðandi aðgengi að rými til tónleikahalds er mjög mikilvægt að það aðgengi sér fjárhagslega mögulegt. Sem stendur er það sérstaklega óhagkvæmt fyrir tónlistarmenn að standa fyrir viðburðum í Hörpu þar sem leigan þar er svo dýr. Til þess að Harpa geti blómstrað almennilega þarf að leggja meiri áherslu á aðgengi tónlistarmanna og hátíða að húsinu. Bæði ríki og borg þurfa að auka fjárframlög til Hörpu.

Aðgerðir 1. Kortleggja... Hér má bæta við möguleikanum á því að halda tónleika í listasöfnum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, t.d. í samstarfi við söfnin eins og stundum gerist, til að mynda í Hafnarborg og Listasafni Sigurjóns, en mætti vera algengara. Mörg söfn eru tilvaldir tónleikastaðir fyrir minni tónleika. Slíkt samstarf er beggja hagur. Annars vegar geta listamenn skipulagt viðburði í húsnæði sem þegar hefur starfsmenn á sínum snærum sem geta t.d. séð um miðasölu, að raða stólum og aðra praktíska hluti. Hins vegar fá söfnin fá fleiri gesti og eru því sýnilegri í samfélaginu. Best er fyrir listamennina að þurfa ekki að greiða leigu svo miðasala geti farið beint í laun tónlistarmanna.

Markmið 2: Tónlistararfleifð og varðveisla menningarverðmæta tónlistar

Aðgerðir

Hér er mikilvægt að leggja áherslu á að menningarverðmæti tónlistar geti verið ný og eldri og að hvort tveggja sé metið að verðleikum. Sjónvarpið hefur t.d. hjálpað dægurlagamenningu mikið en vanrækt klassíska tónlist. Mikilvægt er að kynna íslenska tónlist og tónverk eins og minnst er á, en bæta mætti tónlistarmönnunum við. Ríkisútvarpið og Sjónvarpið ættu að leggja mikið í að taka upp íslenska tónlist og tónlistarmenn, kynna þannig fyrir almenningi það sem er að gerast og hefur gerst í íslenskri tónlist og búa einnig til mikilvægan gagnagrunn fyrir framtíðina.

Markmið 3: Fjölbreytt hágæðatónlistarmenntun

Talað er um að börn og unglingar eigi að geta haft aðgang að tónlistarnámi óháð bakgrunni og búsetu. Hér er mikilvægt að vinna að því að lækka námsgjöld í tónlistarskólum, því þau eru hindrun fyrir efnaminni fjölskyldur.

,,Tónlistarkennarar eru hjarta tónlistarkennslu..." Hér þarf að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi tónmenntakennara í grunnskólum. Tónmennt er alls ekki nógu stór hluti af námi í grunnskólum og bæta þarf tónmenntarakennaramenntun á landinu. Einnig ætti að hvetja til þess að allir grunnskólar séu með skólakór. Það hefur verið sannað með mörgum rannsóknum að söngur, sérstaklega í kór, framleiði heilmikil endorfín í heilanum, sem gera fólk glaðara. Þannig gerir söngur í skólakór nemendur almennt glaðari og vinnur gegn kvíða og þunglyndi, sem er mikið vandamál meðal ungmenna í íslenska skólakerfinu. Þar að auki hjálpar söngur mikið upp á máltöku. Hvetja ætti sérstaklega til þess að nýbúar á Íslandi syngi á íslensku, því það er margsannað að það að syngja á erlendu tungumáli hjálpar mjög mikið til við að læra tungumálið, blæbrigði þess, orðaforða og orðnotkun. Eins og rannsóknir hafa sannað þá festast textar sem eru sungnir betur í minni. Það eru fjölmargir nemendur í íslenskum skólum af erlendu bergi brotnir sem eiga í miklum vandræðum með að læra íslensku og aðlagast samfélaginu. Í kór og almennum söng geta þau verið meiri hluti af hópnum samfélagslega og aðlagast betur. Það hjálpar líka íslenskum nemendum að læra erlend tungumál að syngja á þeim. Mikilvægt er að nemendur læri mörg íslensk lög til að viðhalda tungumálinu, menningararfinum, tónlistararfinum og bókmenntaarfinum, sérstaklega hvað varðar ljóðlist. Aðgerðir til að auka almennan söng eru mjög ódýrar, einfaldar og skilvirkar. Ekki er þörf á að kaupa mörg hljóðfæri, hins vegar væri æskilegt að sem flestir skólar ættu flygil til að leika á með söng. Lykilmanneskjur í þessari aðgerð eru tónmenntakennarar og kórstjórar.

Áhersla II: Tónlist sem skapandi atvinnugrein

Markmið 2: Tónlist á að vera fullgild og eftirsóknarverð atvinnugrein

Hér ætti að setja í hlutann ,,Aðgerðir" að koma á fót atvinnumannakór. Sinfóníuhljómsveit Íslands er atvinnumannahljómsveit þar sem hljóðfæraleikararnir eru hámenntaðir tónlistarmenn. En þegar Sinfóníuhljómsveitin leikur tónverk með kórum á tónleikum ræður hún til sín áhugamannakóra, þar sem hver söngvari fær ekki borgað. Þetta sýnir ótrúlegan vanskilning á mikilvægi þess að söngur sé á sama standard og hljóðfæraleikur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þau lönd sem við berum okkur saman við reka ekki einungis atvinnumannahljómsveitir heldur einnig atvinnumannakóra. Eins frábært og það er hversu margir góðir áhugamannakórar eru á landinu er mikilvægt að skilningur sé á því hver munurinn á áhugamannastarfi og atvinnu sé. Það er mjög mikilvægt að komið verði á atvinnumannakór á Íslandi, hvort sem söngvarar væru í 100% starfi eða minna hlutfalli. Sá kór ætti að vera sá kór sem syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperunni. Hann ætti að vera fremsti kór Íslands, einsöngu skipaður fulllærðum atvinnusöngvurum á sama plani og sömu launum og hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á Íslandi stunda núna 500 nemendur söngnám. Ísland hefur útskrifað ótrúlega marga góða klassíska söngvara og lagt mikla fjármuni í að mennta þessa söngvara hér á landi og erlendis. En á Íslandi er ekki eitt einasta fast starf fyrir söngvara. Þess vegna finna atvinnusöngvarar einungis atvinnugrundvöll erlendis. Þetta er staða sem verður að laga sem fyrst.

Einnig er mikilvægt að tryggja stöðu óperumála á Íslandi með stofnun þjóparóperu sem er á föstum fjárlögum frá ríkinu, tryggir gagnsæi í fjármálum og framþróun klassískrar söngtónlistar á Íslandi.

Takk fyrir og bestu kveðjur, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, söngkona, söngkennari, stofnandi og stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg.

Afrita slóð á umsögn

#5 Tryggvi M Baldvinsson - 30.08.2022

Umsögn um tónlistarstefnu

Markmið 3: Fjölbreytt hágæðatónlistarmenntun

Í heildina er sleginn jákvæður tónn í garð tónlistarmenntunar og ljóst að höfundum gengur gott eitt til. Kaflinn er þó engu að síður meingallaður, fullur af þversögnum og með sérkennilegum áherslum.

Að mínu mati þarf ekki að taka sérstaklega fram eitthvað um forvarnargildi tónlistarmenntunar. Forráðamenn senda börn sín ekki í tónlistarnám í forvarnarskini, tónlistarnám er tónlistarinnar vegna. Þessi setning á einfaldlega ekki heima í stefnu sem þessari.

 

Í næstu málsgrein þar sem fjallað er um hljóðfæranám er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám þar sem huga þarf að „þörfum hvers og eins nemanda“. Með þessari orðanotkun virðist vera einkum horft til félagslegra og líkamlegra þarfa (sérþarfa) nemandans. Þarna færi betur að tala um „þarfir og áhugasvið“ nemenda. 

Það sem á eftir fylgir ætti að fella alfarið úr stefnunni og það er að „til að ná góðri færni í hljóðfæraleik er kennslan þess eðlis að kennt sé í einkatímum.“  Þó að einkatímar séu vissulega mikilvægir virðist þessi punktur frekar vera kominn úr kjarabaráttu tónlistarkennara heldur en að eiga erindi í stefnu sem þessa. Einn fylgifiskur einstaklingsmiðaðs náms eru einmitt fjölbreyttir kennsluhættir og að leggja þessa áherslu á einkatímana gengur í berhögg við hugmyndina um þá tegund náms.

Í næstu málsgrein er fjallað um eðlilega samfellu náms frá fyrstu stigum til háskólanáms. Rétt er að benda á að það eru mun fleiri tónlistarskólar en Menntaskóli í tónlist sem kenna á framhaldsstigi, þ.á.m. ýmsir söngskólar og flestir stærri tónlistarskólar á landinu. Í framhaldi kemur setningin „…mikilvægt að huga að því að námsframvinda sé eðlileg á milli skólastiga.“  Hér vaknar spurningin: Hvað er eðlileg námsframvinda? Ef ætlunin er að leggja áherslu á einstaklingsmiðað nám verður námsframvindan einnig að lúta þeim lögmálum. Með þessum orðum er lögð of mikil áhersla á árangurstengt tónlistarnám, þar sem ætlast er til að nemandinn feti sig upp stigann í háskólanám, eða hætti ella. Það stangast á við hugmyndina um einstaklingsmiðað nám og hugmyndina um aðgengi fyrir alla.

Kjarni góðrar tónlistarmenntunar eru vel menntaðir tónlistarkennarar. Í þessari málsgrein mætti kveða fastar að og stefna að því að efla tónlistarkennaramenntun í stað þess að tala um að vekja á henni athygli. Það má einnig benda á að fókusinn í þessari stefnu er mjög mikið á tónlistarskólakennara, en tónlistarkennarar í almenna skólakerfinu virðast gleymast. Þeir kennarar og menntun þeirra eru ekki síður mikilvæg framgangi tónlistar.

Tónlistarnám getur verið afar fjölbreytt og því er nokkuð sérstakt að sjá tónsmíðar nefndar sérstaklega. Ef lögð er áhersla á sköpun og þjálfun í spuna í tónlistarnámi getur það vissulega opnað dyrnar að tónsmíðum fyrir nemandann, tónsmíðanám getur aðeins verið hluti af söng- og hljóðfæranámi á lægri stigum tónlistarnáms. Ekki má gleyma því að tölvur eru einnig hljóðfæri.

Setningin um mikilvægi höfundarréttar og þekkingar á honum er góð og gild, en nokkuð sérstakt að tala um hann sem sérstaklega. Yfirleitt er þessu þáttur námsins leystur með nokkrum fyrirlestrum og þarf ekki að geta hans sérstaklega í stefnu sem þessari.  Nær væri að tala almennt  um þekkingu á starfsumhverfi tónlistarinnar.

Mér er heldur í nöp við að tala um börn og ungmenni sem framtíðar „menningarneytendur“. Eitt helsta markmiðið með tónlistarnámi er að börn myndi gott, persónulegt og heilbrigt samband við tónlist. Að tónlistin verði förunautur þeirra í gegnum lífið á þann hátt sem þau kjósa sjálf; sem þátttakendur, höfundar eða hlustendur.

Um aðgerðalistann hef ég lítið að segja annað en það sem ég skrifaði um að efla þyrfti tónlistarkennaranám í stað þess að vekja aðeins á því athygli.

Ein almenn athugasemd er að rétt væri að bæta söngnámi við umræðuna um hljóðfæranám, söng- og hljóðfæranám. Það er einnig til hugtakið flytjendanám, en það leggst misvel í fólk.

Tryggvi M. Baldvinsson

Tónskáld og forseti tónlistardeildar LHÍ

Afrita slóð á umsögn

#6 Freyja Gunnlaugsdóttir - 30.08.2022

Ég vil benda á mikilvægi þess að í tónlistarstefnu verði hugað að framtíðarhúsnæði fyrir Menntaskóla í tónlist sem sinnir framhaldsskólanámi í tónlist.

Í MÍT öðlast nemendur menntun á mjög fjölbreyttu sviði tónlistar og eru markvisst undirbúin fyrir háskólanám í tónlist og fyrir fjölbreytt störf í tónlistarlífi og tónlistariðnaði. Hvergi er áfangaframboð jafn fjölbreytt og nær yfir jafn mörg svið tónlistar. MÍT er þar að auki eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á stúdentspróf með áherslu á tónlist.

Í MÍT ljúka einnig flestir tónlistarnemendur landsins framhaldsprófi í tónlist, en á árunum 2017-2021 luku nemendur MÍT 33% allra framhaldsprófa í klassískri tónlist á landinu og 95% allra framhaldsprófa í rytmískri tónlist.

Eins og er starfar skólinn á tveimur stöðum í borginni, í Rauðagerði og Skipholti þar sem stofnaðilar (Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli FÍH) höfðu lengi starfað hver í sínu lagi. Við stofnun skólans árið 2016 var þessi ráðstöfun talin til bráðabyrgða, enda óhentug fyrir nemendur og kennara sameinaðs skóla. Nemendur MÍT búa við það að þurfa að ferðast á milli hverfa í borginni til að sækja tíma sem er tímafrekt, hefur í för með sér mikið auka álag fyrir nemendur og gerir stundatöflugerð mjög flókna.

Rytmísk deild skólans deilir þar að auki í húsnæði með öðrum tónlistarskóla og stéttarfélagi FÍH. Það hefur reynst æ flóknara að finna starfsemi skólans pláss í húsnæðinu vegna mikillar aðsóknar félagsmanna FÍH í æfingarými og vegna starfsemi tónlistarskóla FÍH sem hefur verið að bæta við nemendafjölda þess skóla. Húsnæði skólans í Skipholti þarfnast verulegra endurbóta, en lítið hefur verið gert fyrir húsnæðið síðan Tónlistarskólinn í Reykjavík, sem áður var þar til húsa, flutti inn á sjöunda áratug síðustu aldar.

Skólastjórnendur, kennarar og nemendur MÍT gera sitt besta við erfiðar aðstæður að láta skólastarfið ganga sem best, en ljóst er að það er erfitt að byggja upp heildstætt skólastarf og skólabrag þegar nemendur og kennarar vinna ekki saman undir einu þaki og ekki einu sinni í sama póstnúmeri. Hætt er við því að sá meðbyr sem skólinn hefur nú muni ekki endast lengi ef nemendur og kennarar skólans þurfa að búa lengi við þessar aðstæður.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir tónlistarlífið að vel sé búið að tónlistarmenntun á framhaldskólastigi og að stutt verði við uppbyggingu sem allra fyrst á hentugu skólahúsnæði fyrir MÍT þar sem 200 nemendur á framhaldsskólastigi í tónlist stunda nú nám. Það er í hag nemenda og tónlistarlífsins að í MÍT fái sem flestir nemendur sem vilja leggja fyrir sig tónlist á einhvern hátt að stunda saman nám í hentugu húsnæði sem ýtir undir samvinnu og tengslamyndun.

Eins og kemur fram í drögum að tónlistarstefnu er forsenda þess að hægt sé að byggja upp öflugan tónlistariðnað á Íslandi og enn öflugri tónlistarmenningu að vel sé staðið að menntun þeirra sem þar munu starfa og taka þátt. Menntaskóli í tónlist vinnur nú þegar markvisst að því að tengjast atvinnuvegi tónlistar og stofnunum á fjölbreyttan hátt.

Ég tel það mjög brýnt að sett verði markmið í tónlistarstefnunni að Menntaskóla í tónlist verði tryggt hentugt framtíðarhúsnæði.

Jafnframt vildi ég benda á að það mætti laga orðalag þar sem fjallað er um að tryggja þurfi eðlilega samfellu í námi (markmið 3). Þar segir "Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá fyrstu stigum í tónlistarskólum sveitarfélaga yfir mið- og framhaldsstig í Menntaskóla í tónlist og loks á háskólastigi við Listaháskóla Íslands."

Hér mætti laga orðalag með tilliti til þess að boðið er upp á nám á mið- og framhaldsstigi í fleiri skólum, og líka með tilliti til þess að Menntaskóli í tónlist býður eingöngu upp á nám á framhaldsskólastigi.

Freyja Gunnlaugsdóttir

Skólameistari Menntaskóla í tónlist

Afrita slóð á umsögn

#7 Kjartan Eggertsson - 30.08.2022

Undirritaður óskar eftir að stefna þessi verði yfirfarin með það í huga að verðmæti tónlistar og þeirrar menningar sem í henni felast eru ekki einvörðungu peningaleg eða í formi mikils tónlistarlífs.

Í þessa stefnu vantar algjörlega að meta verðmæti þroskavænlegrar tónlistariðkunnar sem stunduð er í tónlistarskólum landsins. Með félagslegum rannsóknum og klínískum hefur verið sýnt fram á að hver sá sem stundar tónlistarnám af einhverju tagi af alvöru um ekki langan tíma öðlast ýmsa hæfni sem samfélagið býður ekki uppá að börn öðlist með örðum hætti. Verðmæti þessi eru meiri en svo að hægt sé að leggja þau til samanburðar á mælikvarða peninga eða velgengni einstakling eða hljómsveita á vettvangi frægðarinnar.

Það er ekki nóg að nefna mikilvægi tónlistarskóla eða menntun tónlistarkennara. Opinber stefna þarf að skilgreina öll verðmæti sem í boði eru. Þroskavænlegt tónlistarnám, eins og íslenskir tónlistarskólar bjóða upp á er "gullnáma" íslensks tónlistalífs og grundvöllur.

Afrita slóð á umsögn

#8 Haraldur Vignir Sveinbjörnsson - 30.08.2022

Sæl veriði,

Ég vil byrja á að gagnrýna afar skamman tíma til umsagnar um þessa mikilvægu stefnu, réttar 2 vikur.

Þó það sé vissulega hægt að fagna mörgu sem fram kemur í stefnunni finnst mér margt mega gera betur. Ég dvel þó við einn stærsta galla stefnunnar: Það er afar gagnrýnivert að Félag Tónlistarkennara, FT, hafi ekki komið að borðinu við gerð þessarar stefnu. Tónlistarkennarar eru sannarlega burðarás í tónlistarlífi landans og óskiljanlegt hvernig hægt var að skauta framhjá áliti þessa mikilvæga hóps og áhrif hans á íslenskt tónlistarlíf. Ég skora á ráðherra að endurskoða stefnuna og bjóða FT að borðinu við stefnumörkun tónlistar á Íslandi. Það er óboðlegt að tónlistarkennarar sitji í aftursætinu í þessu mikilvæga máli.

Afrita slóð á umsögn

#9 Jón Gunnar Biering Margeirsson - 30.08.2022

Það er ótrúlegt að ekki sé haft samband við stærstu fagsamtök tónlistarkennara (FT) þegar setja á stefnu er varðar menntun í tónlist. Ég vil ekki trúa öðru en að þetta séu bara vandræðaleg mistök sem verður kippt í liðinn hið snarasta.

Það er líka ótrúlegt að enn einu sinni er skautað framhjá landsbyggðinni og þungi settur í að hygla tveim skólum (FÍH og Tónó í Reykjavík) sem kalla sig núna MÍT. Í drögum um tónlistarstefnu segir: ,,Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá fyrstu stigum í tónlistarskólum sveitarfélaga yfir mið- og framhaldsstig í Menntaskóla í tónlist (MÍT) og loks á háskólastig við Listaháskóla Íslands.”

Þessi setning er svo mikil vanvirðing við stéttina okkar og lekur af yfirlæti að ég á ekki til orð. Í fyrsta lagi var hæsta einkunn sem gefin hefur verið fyrir framhaldspróf hlotin á vestfjörðum í fyrra. Ótrúlega mikið af okkar starfandi tónlistarfólki kemur utan af landi, hlaut sína grunn menntun þar og fór síðan í háskóla hérlendis og erlendis. Það er hafsjór af sérmenntuðu fagfólki sem kennir í tónlistarskólum á landsbyggðinni því það kýs sér að lifa þar. Það er hrópandi augljóst að MÍT getur ekki tekið við mikið af nemendum utan af landi sem eru á framhaldsskólaaldri. Hvar á að geyma börnin þegar þau eru ekki í skólanum? Ekki er mikið af leiguhúsnæði í boði fyrir 16-19 ára.

Ég vona innilega að MÍT fái sitt húsnæði en þangað til eru þau í sömu aðstæðum og mjög margir aðrir um allt land. Kenna það sama og útskrifa á sömu stigum.

Nemendur í tónlistarskólum landsins eru á listabrautum í svæðis framhaldsskólanum sínum og útskrifast þaðan með stúdent og geta þá sótt um LHÍ, eða sótt um aðra listaháskóla erlendis sem kosta ekki handlegg að stunda nám í.

Styrkja þarf tónlistarskóla landsbyggðarinna til að geta sinnt sínum nemendum betur og auka samstarf við framhaldsskólana sem eru með listabrautir. Einnig á að styrkja tónleikastaði á landsbyggðinni til að hægt sé að flytja tónlist almennilega og taka hana upp til varðveislu.

Kórastarf er mjög öflugt á íslandi en fær því miður ekki þá virðingu og vegsemd sem það á skilið. Það má auka áhersluna á að gera kórum hærra undir höfði og útdeila úr tónlistarsjóð sérstaklega til þeirra.

Tónlist og tónlistarmenntun á að vera fyrir alla, ekki bara höfuðborgarsvæðið.

Jóngunnar Biering Margeirsson, tónlistarkennari á landsbyggðinni

Afrita slóð á umsögn

#10 Margrét Bóasdóttir - 31.08.2022

Umsögn um Stefnu í málefnum tónlistar 2023 – 2030

Drög til kynningar.

Bls. 5 – Markmið 1

Hér er klaufalegt orðalag: „Tónlistarfólk og tónskáld“..Fyrra orðið er samheiti sem nægir, en ef á að tilgreina tónskáld þá ætti að standa „tónlistarflytjendur og tónskáld“.

Bls. 6- Aðgerðir, nr.2

Það væri afar varhugavert ef nýr Tónlistarsjóður ætti að styrkja umbætur á húnsæði eða búnaði. Þarna þarf að finna aðrar leiðir og ekki að bjóða upp á þennan möguleika. Nema þá að enn ný deild væri sett í sjóðinn með sérstakri fjármögnun.

Bls. 6 Markmið 2 –

Getur slík stefna sett RUV fyrir verkefni eins og hér er skrifað? Þarf ekki að orða þetta öðruvísi, ef þetta er aðferðin til bóta. Ég tel að varðveisla tónlistarmenningar þurfi mun skýrari ramma til að breyting verði til batnaðar.

Bls. 7 – Markmið 3.

Orðalag, allt frá fyrirsögn og áfram er „hátimbrað“ og virkar ekki eins og skrifarar þekki til grunnstoða tónlistarnáms. Samfellan sem á að tryggja er ekki fyrir hendi vegna landfræðilegra aðstæðna, fámennis og þess að tónlistarnám er hornreka í skólakerfinu; almenna skólakerfið hefur úthýst tónmennt vegna lélegra kjara og kennsluaðstæðna og sveitarfélög sem rekstraraðila tónlistarskóla geta sjaldnast tryggt samfellu í „hágæðatónlistarmenntun“. Það væri mikilvægt að stefna um málefni tónlistar fjallaði líka um mikilvægi tónlistar sem áhugamáls, mikilvægi tónlistarnáms sem ekki leiðir til atvinnumennsku heldur þekkingar og ástar á tónlist.

Það er frekar broslegt að lesa þessar línur um ágæti tónsmíða og þekkingar á höfundarrétti. Spuni og skapandi tónlistariðkun er mun eðlilegri framsetning í stefnu eins og þessari.

Bls. 9 – Markmið 2

Til að tónlistin geti verið eftirsóknarverð atvinnugrein þarf annað umhverfi að taka breytingum, mun frekar en tónlistarfólkið. Veitingastaðir, félagsheimili, tónlistarfélög þurfa að fá fjármagn til að geta boðið upp á lifandi tónlist.

Á Íslandi er staðreyndin sú, að fyrir utan Sinfóníuhljómsveit Íslands er kirkjan eina stofnunin sem býður upp á fasta atvinnu við tónlistarflutning; organistar og kórstjórar og stundum söngvarar. Öll önnur atvinna í föstu starfi er kennsla eða illa greidd verkefnavinna.

Stefnan þyrfti að taka á þessu til að ná markmiðum sínum.

Bls. 9 – 10, Markmið 3 og 4

Þetta eru mjög mikilvæg atriði og kalla á fjárveitingar – væntanlega til Tónlistarmiðstöðvar, til að hægt sé að sinna þessu.

Áhersla 3 – markmið 1

Hver á að „skoða“ allt sem skoða þarf til að bæta ástandið. Mikilvægt er að tilgreint sé hver á að annast þessi mikilvægu verkefni.

Niðurstaða.

Það er frábært að fá stefnu um málefni tónlistar; þessi þarfnast þó meiri jarðtengingar og sennilega færri orða.

Virðingarfyllst,

Margrét Bóasdóttir

Söngkona, kórstjóri, söngkennari, fv. formaður Félags íslenskra tónlistarmanna, fv.stjórnarmaður í BÍL, fv. varamaður í stjórn Útflutningsráðs/Íslandsstofu, formaður Landssambands blandaðra kóra og núverandi Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Afrita slóð á umsögn

#11 Samband íslenskra sveitarfélaga - 31.08.2022

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að tónlistarstefnu.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Íslensk tónverkamiðstöð - 31.08.2022

Umsögn stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Í tæp 55 ár eða frá árinu 1968 hefur Íslensk tónverkamiðstöð (ÍTM) sinnt skráningu íslenskra tónverka, upplýsingagjöf varðandi íslensk tónverk og tónskáld og þjónað tónskáldum, flytjendum og öðrum varðandi nótnaumsýslu m.a. vegna fyrirliggjandi tónlistarflutnings á íslenskum verkum. Mikilvægur hluti starfseminnar er kynningarstarf tengt tónverkasafninu og samtímatónlist á Íslandi. Á ÍTM hvílir skylda að skila inn rafrænum eintökum af útgefnum nótum til Landsbókasafnsins, svokölluð skylduskil skv. lögum frá Alþingi nr. 20/2002 og er eitt helsta markmið þeirra að varðveita menningarverðmæti.

Nú er unnið að stofnun Tónlistarmiðstöðvar sem mun taka við þessu hlutverki ÍTM, skráningu, nótnaumsýslu allri og kynningarstarfinu. Mikilvægt er að þetta hlutverk hinnar nýju miðstöðvar sé skilgreint í lögum um miðstöðina en það er hvergi að sjá í því frumvarpi sem nú liggur fyrir til umsagnar þó lítillega sé minnst á skráningarhlutverkið í greinargerð með frumvarpinu. Aðalfundur ÍTM 2022 ályktaði svo um þetta mikilvæga hlutverk:

„Fundurinn beinir því til stjórnar að hvergi sé dregið úr kröfum til starfsemi nýs tónverkasviðs Tónlistarmiðstöðvar ­– um skilmerkilegar skráningar í gagnagrunn, gerð nótna til flutnings, aðgengi og dreifingu. Sérstaklega skal gætt að skráningu og utanumhaldi tónverka þannig að samfella haldist í skráningu á verkasöfnum einstakra höfunda. Fundurinn áréttar mikilvægi þess að nægum fjármunum sé veitt til verkefna sviðsins og enn fremur yfirfærslu verkefna frá Tónverkamiðstöð.

Fundurinn áréttar einnig mikilvægi þess að standa vel að smíði gagnagrunns og skráningar í hann og að nýr gagnagrunnur og vefverslun taki við um leið og starfsemi Tónlistarmiðstöðvar hefst.“

Í 2. kafla frumvarpsins, 3. gr. er fjallað um hlutverk og helstu verkefni hinnar nýju miðstöðvar. Stjórn ÍTM leggur til að bætt verði við lið sem kveður skýrt á um þetta hlutverk miðstöðvarinnar og leggur til eftirfarandi málsgrein:

(Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að:)

7. Skrá íslensk tónverk í gagnagrunn og miðla þeim til íslenskra og erlendra flytjenda með aðgengilegum og skilvirkum hætti. Miðstöðin varðveitir nótur að tónverkum íslenskra tónskálda og annað efni sem flytjendur þurfa að hafa til tónlistarflutnings á íslenskum tónverkum.

Miðstöðin úthlutar verkum sem eru í hennar umsýslu ISMN-númerum og annast einnig lögbundin skylduskil til Landsbókasafns Íslands.

ÍTM greiðir tónskáldum höfundarhlut af nótnasölu og leigu hljómsveitarverka og er ætlunin að hin nýja Tónlistarmiðstöð geri slíkt hið sama um leið og hún tekur við þessum hluta af starfsemi ÍTM. Stjórn ÍTM telur nauðsynlegt að binda þetta í lög um starfsemi Tónlistarmiðstöðvar og leggur til eftirfarandi viðbót við 3. gr.:

8. Tónlistarmiðstöð greiðir tónskáldum höfundarhlut af nótnasölu og leigu hljómsveitarverka.

Í frumvarpinu er tiltekið að stjórn Tónlistarmiðstöðvar ráði framkvæmdastjóra en ekki er getið um starfstíma. Að mati stjórnar ÍTM þarf að tilgreina ráðningartíma og fyrirkomulag ráðningar nánar í lögum um umhverfi tónlistar. Stjórn ÍTM þykir eðlilegt að horfa til sambærilegra starfa í menningargeiranum, t.a.m. annarra miðstöðva lista og má nefna forstöðumann/framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar í því samhengi, en skipað er í starfið til 5 ára með möguleika á endurskipun einu sinni til fimm ára. Einnig er eðlilegt að gera þá kröfu að auglýsa skuli starf framkvæmdastjóra. Nauðsynlegt er að taka það fram í lögunum um leið og fjallað er um hæfniskröfur. Slíkt er bæði leiðarvísir fyrir stjórn miðstöðvarinnar og veitir henni aðhald.

Rekstrarform

Í aðdragandanum að stofnun Tónlistarmiðstöðvar hefur ítrekað verið bent á að rekstrarform hinnar nýju miðstöðvar byggi á rekstrarformi Íslandsstofu, sem hefur verið nefnt Sjálfseignarstofnun með sérstaka skipulagsskrá. Umrætt rekstrarform er ekki algengt rekstrarform sjálfseignarstofnana og á eingöngu við um þær sjálfseignarstofnanir sem stofnaðar eru með lögum. Slíkar stofnanir lúta til dæmis ekki lögum um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri. Þess vegna er áhugavert að bera saman lög um þessar tvær stofnanir en allnokkurs ósamræmis gætir milli laga um Íslandsstofu og frumvarps til laga um hina nýju Tónlistarmiðstöð. Í lögum um Íslandsstofu eru t.a.m. ákvæði um að Íslandsstofa sé undanþegin tekjuskatti og að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um starfsemina þó ákvæði upplýsingalaga geri það. Önnur og ítarlegri ákvæði eru í lögum um Íslandsstofu sem snerta rekstrarformið sjálft og mælist stjórn ÍTM til að ráðuneytið útfæri ákvæði um rekstrarform Tónlistarmiðstöðvar ítarlegar og til samræmis við lög um Íslandsstofu þar sem rekstrarformin eru sambærileg.

Lengd rekstrarsamnings

Í umræðum hagaðila um fyrirhugaða stofnun Tónlistarmiðstöðvar var sá kostur nefndur að rekstraröryggi hennar yrði tryggara en þeirra miðstöðva sem hingað til hafa sinnt málefnum tónlistar – ÍTM og Útón. Hingað til hafa verið gerðir þriggja ára rekstrarsamningar við miðstöðvar tónlistar og samkvæmt frumvarpinu verður þetta óbreytt.

Rekstrarsamningur stjórnvalda við Íslandsstofu nær til fimm ára og er eðlilegt að slíkt eigi einnig við um Tónlistarmiðstöð, sér í lagi þegar haft er í huga að rekstrarform bæði Íslandsstofu og Tónlistarmiðstöðvar er hið sama. Mælist stjórn ÍTM til að ákvæði um lengd rekstarsamnings verði breytt úr „þriggja ára“ í „fimm ára“.

Stjórn ÍTM telur afar mikilvægt að framangreind atriði verði sett í lög um tónlist. Einnig er gríðarlega mikilvægt að kaflinn um Tónlistarmiðstöð verði gerður ítarlegri þar sem rekstrarformið – sjálfseignarstofnun stofnuð með sér lagasetningu – verður til þess að lögin eru hinar eiginlegu samþykktir hinnar nýju sjálfseignarstofnunar og fjalla þau um atriði sem vanalega er fjallað um í samþykktum eða skipulagsskrám félaga og stofnana.

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Gunnar Andreas Kristinsson, stjórnarformaður

Þuríður Jónsdóttir, meðstjórnandi

Egill Gunnarsson, meðstjórnandi

Bergljót A. Haraldsdóttir, meðstjórnandi

Afrita slóð á umsögn

#13 Kristín Valsdóttir - 31.08.2022

Áhersla I: Tónlistarmenning og -menntun

Eins og kemur fram í inngangi þá er tónlist hluti af menningu og einnig atvinnuskapandi útflutningsgrein og það er mikilvægt að skapa umgjörð um tónlistariðnaðinn. Það þyrfti hins vegar að draga skýrari línur í þeim þætti sem snýr að menntun. Tónlistin er miklu meira en hluti menningar og atvinnugrein því hún er manninum eðlislæg, hún er leið til að tjáskipta, til að upplifa og endurskapa – hún er hluti af mennskunni.

Markmið 3: Fjölbreytt hágæðatónlistarmenntun

Hér er talað um að aðgengi eigi að vera fyrir öll börn og ungmenni að fjölbreyttri tónlistarmenntun, óháð búsetu og bakgrunni. Með það í huga er mikilvægt að hlúa vel að allri menntun í tónlist, þar með talinni grunnmenntun í öllu skólastarfi. Mikill skortur er á tónmenntakennurum í grunnskólum og hefur lögbundinn tímafjöldi, sem nemendur eiga rétt á í tónmennt samkvæmt aðalnámskrá, ekki verið fullnýttur í mörg ár. Leggja þyrfti áherslu á að bæta aðstöðu til tónlistar- og kórastarfs í grunnskólum með fjölgun kennara og bættri aðstöðu til tónmenntakennslu. Samfara því þyrfti að skoða leiðir til efla hljóðfæranám inni í skólunum og styðja við samstarf grunn-, - framhalds- og tónlistarskóla.

Í þessu samhengi vil ég einnig nefna orðið menningarneytendur, sem er að finna í frumvarpinu. Hugtakið menningarneytendur tengist kannski beint þeim áherslum í lögunum og mörgu í þessari stefnu sem snýr að umgjörð, útflutningi og tónlistariðnaði. Það er hins vegar hugtak sem mér hugnast ekki í samhengi menntunar og fjölbreyttu aðgengi að tónlist. Leggja ætti áherslu á gildi tónlistariðkunar og -náms fyrir öll, sem hluta af almennri menntun.

Staðhæft er í greinargerð að tónlistarnám sé miklu víðtækara en hljóðfæranám. Því mætti gera betri skil og sérstakt að tengja það eingöngu við tónsmíðar og höfundarétt.

Viðbótarrök fyrir mikilvægi tónlistar og aðferða lista í skólastarfi eru þau að þátttaka í listum

stuðlar að jafnrétti í námi og því að fá að nýta og þroska styrkleika sína. Mjög margt fólk á betur með að tjá sig öðru vísi en með orðum, t.d. í gegnum tónlist. Ef við viljum stuðla að raunverulegu jafnrétti í námi og skapa umhverfi í menntakerfinu þar sem öll skipta máli og geti lært þá ber að virða allar tjáningaleiðir. Tónlist hefur einnig reynst frábær leið til að læra nýtt tungumál, þar með talið íslensku sem annað eða þriðja mál. Það mætti leggja áherslu á og bæta við aðgerð þar sem: Stefnt er á að jafna aðgengi að fjölbreyttu tónlistarnámi á öllum skólastigum.

Í stefnunni stendur „Tónlistarkennarar eru hjarta tónlistarkennslu...“ og er mikill sannleikur í því. Í tónlistarskólum landsins og lúðrasveitum fer fram gífurlega öflugt og metnaðarfullt starf. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ekki er krafist kennaramenntunar til kennslu í tónlistarskólunum. Þar eru góðir hljóðfæraleikarar og sumir með kennaramenntun. Það er að mínu mati ekki sterkt að tala um að kynna kennaramenntun – það mætti bæta við aðgerð þar sem stefnt er að því; að efla kennaramenntun - og að fjölga þeim leiðum sem eru í boði til starfsþróunar og símenntunar fyrir kennara til að styrkja sig og efla í starfi.

Þá er rætt er um að greina framtíðarskipulag rekstarforms LHÍ. Þar verður að nefna skólagjöld. Ef við viljum fjölga tónlistarkennurum og öðrum listgreinakennurum er mikilvægt að geta boðið gott nám á sömu kjörum og tíðkast í kennaranámi í öðrum íslenskum háskólum. Það er mikið ójafnræði fólgið í því að ekki sé hægt að nema listir á háskólastigi á Íslandi nema að greiða fyrir það há skólagjöld. Fullfjármagnaður Listaháskóli þar sem nemendur þyrftu ekki að greiða skólagjöld ætti að vera forgangsatriði.

Áhersla II: Tónlist sem skapandi atvinnugrein

Markmið 2: Tónlist á að vera fullgild og eftirsóknarverð atvinnugrein.

Ánægjulegt er að sjá að markmiðið sé að leggja áherslu á jafnrétti og inngildingu í stefnunni en þetta markmið þyrfti að draga skýrar fram í stefnunni sjálfri og aðgerðum. Þessar áherslur eiga ekki síður við tónlistarmenntun en atvinnu. Huga þarf að aðgengi nemenda að tónlistarskólum bæði með tilliti til kostnaðar og búsetu.

Viðbótarrök fyrir mikilvægi lista og þar með talið tónlistar í skólastarfi eru þau að þátttaka í listum stuðlar að jafnrétti í námi og þess að fá að nýta og þroska styrkleika sína. Að fá að prófa sig áfram í ólíkum listformum og hafa aðgengi að listviðburðum á ekki að vera forréttindi fárra heldur sjálfsagður hluti af menntun og lífi hvers einstaklings óháð búsetu og bakgrunni.

Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar LHÍ og fagstjóri tónmenntakennslu.

Afrita slóð á umsögn

#14 Íslensk tónverkamiðstöð - 31.08.2022

Umsögn stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar um drög að stefnu í málefnum tónlistar

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar fagnar áformum stjórnvalda um stefnumótun í málefnum tónlistar og bindur vonir við að þær áherslur, markmið og aðgerðir sem lýst er í drögunum nái fram að ganga. Í umræddum drögum er að stærstum hluta fjallað um hina hagrænu hlið tónlistargeirans. Vissulega er þörf á að byggja upp öflugan tónlistariðnað og mikilvægt að störf í tónlist verði metin að verðleikum. Við söknum hins vegar innihaldsríkari stefnu í stuðningi stjórnvalda við hina listrænu eða skapandi hlið tónlistar. Hið sama á við um málefni eins og varðveislu, skráningu og miðlun tónlistararfs og tónlistarmenntun, þó aðeins sé minnst á þá málaflokka í markmiðum 2 og 3.

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar er þeirrar skoðunar að æskilegt hefði verið að hafa meira faglegt samráð um stefnu þá sem lýst er í drögunum – lengra og ítarlegra samráð við hagaðila áður en stefnan birtist í samráðsgátt stjórnvalda. Við leggjum til að stefnan verði endurskoðuð með framangreint í huga.

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Gunnar Andreas Kristinsson, stjórnarformaður

Þuríður Jónsdóttir, meðstjórnandi

Egill Gunnarsson, meðstjórnandi

Bergljót A. Haraldsdóttir, meðstjórnandi

Afrita slóð á umsögn

#15 Listaháskóli Íslands - 31.08.2022

31. ágúst 2022

UMSÖGN // Listaháskóli Íslands

Drög að stefnu í málefnum tónlistar 2023-2030.

Listaháskóli Íslands fagnar nýrri stefnu í málefnum tónlistar, megininntaki hennar og uppsetningu sem er bæði skýr og aðgengileg.

Stofnun tónlistarmiðstöðvar er mikilvæg og jákvæð þróun í átt að því að skapa tónlistinni nauðsynlega umgjörð og stuðning.

Það er jákvætt að stefnan tekur til þess að styrkja jarðveginn fyrir grasrót og vöxt sprota sem og aðgengi að tónlist og tónlistarmenntun. Áherslur á inngildingu, sjálfbær markmið og græn skref eru mikilvægar.

Sérstaklega ber að fagna því sem fram kemur í aðgerðum um uppbyggingu framtíðarhúsnæðis LHÍ og skoðun á rekstrarumhverfi skólans með það að markmiði að samræma skólagjöld við aðra háskóla.

Í stefnunni mætti minnast á rannsóknir í samhengi við nýsköpun. Vert er að nefna að tónlist er grein þar sem rannsóknir eru stundaðar, oft í þverfaglegu samstarfi við önnur fræðasvið. Tónlistarmenn stunda listrannsóknir sem skila sér í nýsköpun og tónlistarflutningi og fjölbreyttum tónlistarverkefnum. Rannsóknir fræðimanna á íslenskri tónlist og tónlistarmenningu stuðla að auknu aðgengi og kynningu, þessu mætti taka á í stefnunni. Gott er að ráðist verði í að auka kynningar á erlendum styrktarsjóðum.

Varðandi kafla um hágæðatónlistarmenntun þá er ljóst að brýn þörf er á mótun heildstæðrar stefnu um tónlistarmenntun og ber kaflinn þess merki, en flestar athugasemdir LHÍ lúta að þeim kafla.

Heilt yfir fagnar Listaháskóli Íslands nýrri tónlistarstefnu þó mætti tengja hana betur við frumvarp til laga hvað varðar aðgerðir og fjármögnun.

Í viðhengi eru tillögur að breytingum eða viðbóta við texta ásamt útskýringum og athugasemdum.

Fyrir hönd Listaháskóla Íslands,

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor

Þóra Einarsdóttir, sviðsforseti kvikmyndalistar, sviðslista og tónlistar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 María Magnúsdóttir - 31.08.2022

Mig langar fyrst að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf. Viðamikillar tónlistartefnu er þörf. Ég tek undir allt sem kemur fram um framtíðarsýn og markmið tónlistar á Íslandi á næstu árum. Þá sérstaklega því að tónlist er fullgild atvinnu og útflutningsgrein og að styðja þurfi við tónlistarnám á öllum stigum sem grunnstoð.

Ég er með nokkrar athugasemdir til viðbótar við þessi drög sem væri gott að sjá innlimuð.

Ég er starfandi tónlistarkennari og kórstjóri í tveimur tónlistarskólum, sem og lagahöfundur, söngkona og kórstjóri.

Áhersla I: Tónlistarmenning og menntun

Markmið 1

Varðandi tónleikastaði og svið:

Ég er mjög sammála því að það þurfi að hlúa að tónleikastöðum og sviðum í fjölbreyttu húsnæði. Mikil vöntun hefur verið á fjölbreyttum tónleikastöðum, þá sérstaklega í minni og miðlungs stærð. Með sæti fyrir 30-200 manns sem fást á góðum díl eða verði fyrir tónleikahaldara.

Einnig mætti hlúa sérstaklega að þeim stöðum sem sjá nú þegar fyrir lifandi tónlist flest kvöld vikunnar, greiða hljómsveitum en hafa engan aðgangseyri. Þar má sérstaklega nefna staðinn Skuggabaldur. Slíkir staðir eru að halda uppi tónlistarmenningu á eigin spítur og þurfa án efa auka fjármagn til að halda slíkri menningarstarfsemi gangandi til lengdar.

Markmið 3

Varðandi rétt allra til tónlistarnáms:

Ekki er farið í saumana á um hvaða aldur ræðir þegar sagt er ,,Á Íslandi á að vera aðgengi að fjölbreyttri tónlistarmenntun á öllum skólastigum og börn og unglingar eiga að geta haft aðgang að tónlistarnámi óháð bakgrunni og búsetu". Þetta er rétt og satt, mikilvægt er að öll börn og unglingar hafi jafnan aðgang að tónlistarnámi. Ég vil hér bæta við þeim mikilvæga þætti að tónlistarnám á ekki að vera aldurstengt. Bent er réttilega á að Ísland er tónlistarþjóð og tónlist á stóran part í sögu og lífi okkar flestra. Mikilvægt er að tryggja jafnan rétt allra til tónlistarnáms óháð aldri. Fólk á öllum aldri á að geta stundað tónlistarnám ef það óskar þess. Það er mannréttindasjónarmið að allir eigi jafnan rétt til náms. Mikilvægt er að ekki sé aldursþak þar. Þá ættu frekar inntökuprufur að gilda eftir ákveðinn aldur, en það fer auðvitað eftir tónlistarskólum. Sem starfandi tónlistarkennari hef kennt fjölmörgum tónlistarnemendum á öllum aldri. Þeir eldri, og þá tala ég sérstaklega um 30 ára +, koma inn í tónlistarnám á öðrum forsendum og oft mun áhugasamari en þau sem yngri eru. Tónlistarnám á að fá að vera partur af endurmenntun, áhugamálum og tónlistarþroska fólks á öllum aldri.

Varðandi húsnæði til tónlistariðkunar:

Menntaskóli í tónlist er mikilvægur og vaxandi skóli á Íslandi. Eins og er á skólinn ekki eigið húsnæði heldur fara nemendur skólans, stundum daglega, á milli þriggja staða á höfuðborgarsvæðinu. MÍT á sem sagt aðsetur í tónlistarskólum í Rauðagerði, Skipholti og svo í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Mikilvægt er að stuðla að því markvisst að skólinn fái eigið húsnæði sem allra fyrst svo hann geti sinnt starfi sínu og þjónað þeim 200 nemendum sem eru nú á framhaldsskólastigi í tónlist. Hér er talað sérstaklega um húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands og ég er þar einnig algjörlega sammála.

Afrita slóð á umsögn

#17 Andri Björn Róbertsson - 31.08.2022

Fyrir ber að þakka fyrir þessa tónlistarstefnu. Í henni er margt mjög vel unnið. En ég má til með að vekja máls á eftirfarandi:

Ég fæ ekki séð að það sé minnst einu orði á Hörpu eða stofnun nýrrar þjóðaróperu. Tónlistarhúsið Harpa er glæsileg tónlistarhöll, en því miður er oft á tíðum ómögulegt fyrir tónlistarmenn að nota rými hússins vegna hárrar leigu. Einnig mætti auka starfsemi í Hörpu yfir sumarmánuðina með ferðamenn í huga. Íslenskir sönglagatónleikar sem Bjarni Thor Kristinsson stóð fyrir í mörg ár lögðust af fyrir nokkrum árum en ekkert annað tók við.

Koma þarf málum óperulistarinnar í betri farveg með stofnun þjóðaróperu þar sem listforminu er tryggt fjármagn á fjárlögum og lagarammi byggður um starfsemi stofnunarinnar, líkt og á við um Þjóðleikhús og Íslenska Dansflokkinn t.d. Þetta mun gefa betra rými fyrir stjórnendur þjóðaróperu til að skipuleggja til framtíðar, tryggja gagnsæi í starfseminni, og um leið tryggja sátt um starfið. Einnig þarf að búa til fastar stöður fyrir söngvara við nýja þjóðaróperu, en engin föst staða er í boði á Íslandi fyrir klassíska söngvara.

Að lokum, þá þarf að vinna að stofnun atvinnumannakórs á Íslandi, sem gæti þá starfað fyrir Sínfóníuhljómsveit Íslands og nýja þjóðaróperu. Þegar SÍ setur upp verk sem þarfnast kórs þá eru fengnir áhugamannakórar til starfans, þar sem kórinn fær borgað sem heild en ekki hver og einn söngvari. Íslandi á marga frábæra áhugamannakóra sem vinna magnað starf, en starf áhugamanna og þeirra sem hafa tónlist að atvinnu er tvennt ólíkt. Kór Íslensku Óperunnar er skipaður mörgum hámenntuðum söngvurum, sem fá ekki að njóta þess að vinna við kórsöng í fastri stöðu, en eru verkefnaráðnir. Nýr atvinnumannakór gæti verið byggður á grunni KÍÓ. Eins og áður sagði, þá eru engin föst stöðugildi fyrir klassíska söngvara á Íslandi og þetta væri annar liður í að laga það.

Þakkir og bestu kveðjur,

Andri Björn Róbertsson

Óperusöngvari, prófessor í söng við Háskólann í Newcastle og Northumbria Háskólann og gjaldkeri Klassís - Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi

Afrita slóð á umsögn

#18 Þórhallur Magnússon - 31.08.2022

Þetta eru metnaðarfull drög og í þeim er margt gott að finna. Áherslurnar á tónlistarmenningu, tónlist sem skapandi atvinnugrein og tónlist sem útflutning taka á víðu sviði tónlistar og nú þegar hafa komið fram góðar ábendingar í þessari samráðsgátt sem ég vona að teknar verði til skoðunar.

Í þessari umsögn langar mig að leggja áherslu á mikilvægi rannsókna á sviði tónlistar. Þær eru jafnt stundaðar af sérfræðingum í tónlist og tónlistarfólki sjálfu á víðu sviði, frá grunntækni til listrænna hugmynda. Þær eru framkvæmdar í háskólum og sprotafyrirtækjum, sem og í hljóðverum eða tónleikasviðum út um allt land. Hér hef ég í huga bæði fræðilegar og listrænar rannsóknir sem oft leiða til nýrrar tækni, aðferða eða tónsmíða.

Á Íslandi er nefnilega mikil gróska í rannsóknum í tónlist. Að auki rannsókna innan háskólanna þá starfa hér fyrirtæki í nýjum hljóðfæraviðmótum (eins og Genki), í hljóðfræði (líkt og Treble), kennslu (Mussila), tónsmíða (Calmus og Overtune) og í þróun nýrra hljóðfæra sem hafa vakið mikla athygli um allan heim (sjá til dæmis halldórófón Halldórs Úlfarssonar, Segulhörpu Úlfs Hanssonar eða Ljóshörpu Lilju Maríu Ásmundardóttur). Þessi verkefni standa nú þegar á sterkum fótum í alþjóðlegu samhengi.

Sjálfur er ég viðriðinn fimm ára verkefni styrkt af Evrópska rannsóknarráðinu. Það heitir Intelligent Instruments (www.iil.is) og starfar við Listaháskóla Íslands, þar sem við erum að rannsaka skilning fólks á gervigreind með því að smíða gervigreind í hljóðfæri. Hér er um að ræða almennar vísindalegar rannsóknir sem eiga sér stað á sviði tónlistar. Þessar rannsóknir taka tónlist inn á svið hugarfræði (e. cognitive science), heimspeki, sálfræði, stoðtækjarannsókna, og tölvuvísinda. Þverfagleiki nútíma vísinda þýðir að tónlist og tónlistartækni er farin að vera fyrirferðamikil á mörgum sviðum utan listrænnar sköpunar.

Gott er að sjá að drögin nefna ný tækifæri í nýmiðlum þar sem “heimurinn stendur á tímabmótum þar sem mikilvægt er að huga að sjálfbærni og nýsköpun”. Slík nýsköpun er oft afrakstur rannsókna tónlistarmanna á öllum sviðum, í sprotafyrirtækjum, háskólum og vinnurýmum listamanna. Það er því ánægjulegt að stefnan tekur fram mikilvægi þess að hlúa að “tónlistartengdum sprotafyrirtækjum og grasrót í tónlist og efla nýsköpun.” Það er oft í grasrótinni sem nýjungarnar verða til og það er mikilvægt að fólk sem er að skapa menningu með tónleikastöðum, æfingarhúsnæðum, vinnustofum og slíku geti fengið þann stuðning sem þarf, bæði fjárhagslegan en einnig með aðstöðu. Í drögunum er talað um að “móta sérsniðin verkfæri” og er það eitt af áhersluverkefnum aðgerðarinnar. Það er því ljóst að rannsóknir eru meðal þeirra viðfangsefna sem aðgerðin styður og hvetur til án þess að setja neinar línur um það.

Með þessari umsögn vil ég hvetja til þess að að í stefnunni verði hlutverki rannsókna og þýðingu þeirra gefið meira vægi með því að yrða það beint út að rannsóknir á sviði tónlistar eru mikilvægur þáttur nýsköpunar, tækniþróunar, framgang listanna sjálfra og auðvitað sjálfsskilning okkar sem þjóðar með ríka tónlistarmenningu.

Að lokum velti fyrir mér hvort ekki mætti nefna betur jákvæð heilsufarsleg og lýðheilsuleg áhrif tónlistar, þar sem rannsóknir sýna að tónlist hefur gífurlega jákvæð áhrif á heilsu fólks, bæði fyrir flytjendur og hlustendur.

Kærar þakkir fyrir að opna á umsagnir á drögin,

Virðingarfyllst,

Þórhallur Magnússon

Rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands

Professor of Future Music at the University of Sussex

Principal Investigator of Intelligent Instruments Lab

Afrita slóð á umsögn

#19 Gunnar Guðbjörnsson - 31.08.2022

1. Í drögum menningarmálaráðuneytis að tónlistarstefnu er lítilega fjallað um tónlistarmenntun og mikilvægi hennar fyrir tónlistarlíf Íslendinga. Bjartari tímar virðast nú framundan eftir að lagfæringar hafa verið gerðar á framlögum ríkis til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna fjármögnunar á efri stigum tónlistarnáms. Vonandi verða þær lagfæringar þannig úr garði gerðar að ekki skapast aftur vandræðaástand kringum tónlistarnám í höfuðborginni.

Rekstur söngskóla í Reykjavík hefur verið krappur dans síðustu ár. Söngnemendum í Reykjavík hefur fækkað um vel á annað hundrað síðan samkomulag um eflingu tónlistarnáms var komið á en það er ekki vegna þess að námið njóti ekki vinsælda. Hinsvegar hefur árlegur kostnaður hvers nemanda valdið því að tónlistarskólar með söngdeildir hafa stýrt nemendum annað og fjárhagsvandi annarra skóla hefur knúið fram fækkun nemenda. Hinsvegar er fjöldi námsára í söng yfirleitt lægri en í hljóðfæranámi og því er það nám í reynd ódýrara í heildina en hljóðfæranám.

Vandinn í mínum skóla í dag er að fjöldi umsókna berst frá nemendum í öðru sveitarfélögum sem óska eftir námi hjá okkur, en geta ekki fengið fjármögnun þess frá sínu sveitarfélagi á grunnstigi.

Ástæðan er að sveitarfélagið býður söngnám heima í héraði en staðreyndin er sú að margir þessir nemendur kjósa að fara í nám í skóla þar sem burðir eru til að halda sýningar. Aðrir nemendur eru í námi í borginni og vilja nýta hlé sín til að sinna náminu, en þá er auðvitað erfitt að leggja á sig ferðalag t.d. í Mosfellsbæ til að komast í söngtímann sinn.

Mín skoðun er að gera þurfi breytingar. Nú þegar felst ákveðin viðurkenning á þeim gríðarlega mun sem er á söngnámi og hljóðfæranámi með því að miðstig í söngnámi skuli vera fjármagnað af jöfnunarsjóðsframlaginu. Mín ósk væri að þetta yrði tekið lengra með vísan í ofangreind rök. Þ.e. að jöfnunarsjóður fjármagni söngnám allra nemenda í söngskólunum sem eru á menntaskólaaldri og eldri. Þetta yrði mjög í hag fyrir nemendur.

Tvær frekari ástæður þess að ég óska þessa eru:

a) Að leiðrétta þarf fækkun söngnemenda í höfuðborginni þannig að nemendatölur verði hlutfallslega sömu og þær voru þegar samkomulag um eflingu tónlistarnáms var gert.

b) Að stuðla aftur að jafnræði milli þeirra sem stunda söngnám til þess að geta stundað söngnám eins og söngnemandinn óskar. Nú greiðir t.a.m. Kópavogur með öllum grunnstigsnemendum sem sækja um í Söngskóla Sigurðar Demetz en Garðabær og Hafnafjörður greiða ekki. Mosfellsbær er með takmarkað fjármagn til að greiða fyrir nemendur í öðrum sveitarfélögum og klárast það jafnan í ákveðið verkefni sem sveitarfélagið verður að sinna, með því að senda börn í Tónstofu Valgerðar. Þannig geta t.d. nemendur úr Mosfellsbæ sem stunda menntakólanám í Reykjavík varla stundað söngnám, þó þeir gjarnan vildu enda yrði það til þess að nemendur þyrftu að ferðast allt að fjórum sinnum á dag milli sveitarfélaganna tveggja.

c)

Vel að merkja yrðu sveitarfélögin sjálf áfram ábyrg fyrir söngnámi barna yngri en 16 ára en mögulega mætti þá einnig semja við sveitarfélögin um að þessi yfirtaka jöfnunarsjóðs á söngnemum eldri en 16 ára yrði til að auka hlut barna og unglinga í tónlistarnámi almennt.

Afrita slóð á umsögn

#20 Gunnar Guðbjörnsson - 31.08.2022

Málefni sönglistar á Íslandi hafa oft á undanförnum árum verið á skjön við þróun mála í annarri tónlist, eins og hljóðfæraleik. Óperulistin hefur verið í mikilli kreppu sem vonandi mun leysast að einhverju leyti með stofnun Þjóðaróperu en það er hinsvegar mikil gróska í sjálfstæðum óperuflutningi.

Þar brennur mjög á mér persónulega hve lítil aðstaða er fyrir slík verkefni. Tjarnarbíó berst nú fyrir bættri aðstöðu í tengslum við það leikhús, þar sem mögulega skapast aðstaða fyrir tónlistarleikhús en það verður að viðurkennast að salur þess hús er ekki sérlega hentugur fyrir óperuflutning. Hljóðvist miðast við talleikhús en ekki tónlist.

Í stefnum listgreina vill oft gleymast að sumar þeirra tilheyra fleiri en einu fagi. Það á við um óperulistina en það er mikilvægt að hún gleymist ekki í tónlistarstefnu ríkis. Vissulega hefur hún síðustu misserin verið flokkuð sem sviðslist en þó er tónlistarhluti þessarar listgreinar mikilvægur og að margra mati höfuðatriði.

Sjálfur rek ég söngskóla þar sem mikil áhersla er einnig lögð á leiklistarhluta starfsins. Þar er það mikið áhyggjuefni að ekki er til hentugt leikhús sem er á lausu hvert vor fyrir sýningar skólans. Tjarnarbíó er sjaldan laust og má segja að við höfum verið á hrakhólum með þessar tvær sýningar, óperuna og söngleikinn.

Í þágu tónlistarleikhúss þarf að finna þessum hluta tónlistar og leiklistarlífsins heimili til frambúðar en sjálfur hef ég oft sé fyrir mér hagstætt væri að tengja þá starfsemi skóla eins og Söngskóla Sigurðar Demetz. Þar með væri mögulegt að samnýta æfingahúsnæði og alla aðstöðu og tækjabúnað.

Það væri ósk mín að stefna menningarmálaráðuneyti tæki á því að fundin yrði lausn á þessu máli.

Afrita slóð á umsögn

#21 Hjörleifur Örn Jónsson - 31.08.2022

Eftir að hafa lesið þessi ágætu drög vil ég koma með eftirfarandi athugasemdir fyrir hönd Tónlistarskólans á Akureyri.

Hér á „landsbyggðinni“ er tónlistarnám um allar koppagrundir. Ekki einungis grunnnám eins og lesa mætti út úr stefnunni sem sett er hér fram heldur einnig blómlegt mið- og framhaldsnám. Sveitarfélög um allt land vinna eftir lagagrunni í Aðalnámskrá tónlistarskóla og eiga samstarf í gegnum Samtök tónlistarskólastjóra um rekstur Prófanefndar tónlistarskóla sem fer með gæðavottun samkvæmt aðalnámskrá.

Sem stendur stunda nú 12 nemendur, sem útskrifast hafa með framhaldspróf í tónlist frá Tónlistarskólanum á Akureyri Í Hofi, nám við Listaháskóla Íslands. Margir þessara nemenda hafa sömuleiðis stundað sitt nám í samstarfi sem nær til allra framhaldsskóla hér á svæðinu um kjörnámsbrautir í tónlist, skv. reglum um slíkar brautir og lögum um framhaldsskóla og útskrifast með allt að 114 einingar í tónlist sem skilgreindar eru í áfangalýsingum hvers einasta skóla til stúdentsprófs. Að auki eru að mér vitandi fimm aðrir okkar fyrri nemenda, í þessum skrifuðu orðum, við nám í tónlistarháskólum erlendis að ljúka BA og Mastersnámi, (allt frá klassísku og rytmísku námi til náms í tónlistarframleiðslugreinum). Þessir nemendur hafa stundað allt sitt tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akureyri frá Menntaskólanum á Laugum, Menntaskólanum á Húsavík, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Menntaskólanum á Akureyri við þrjár vel skilgreindar námsbrautir sem lögð var áralöng vinna í að þróa í samstarfi við sérfræðinga hvers framhaldsskóla fyrir sig. Og þrátt fyrir að nemendur væru við nám á tveimur mismunandi stöðum hér á svæðinu hefur það ekki komið í veg fyrir frábæran árangur þeirra. Við höfum ekki þurft loftbrú til að ferja þessa nemendur á milli staða eins og reyndin virðist vera í Reykjavík þar sem námið fer fram á tveimur stöðum innan svæðis sem hefur að mínu viti best skipulagða almenningssamgangakerfi á landinu.

Hjá okkur í Tónlistarskólanum starfa 40 tónlistarkennarar sem lang flestir hafa lokið Mastersgráðum í tónlist og kennslufræðum frá tónlistarháskólum víðs vegar um heiminn. Þeir eru sömuleiðis lang flestir öflugir tónlistarmenn og konur sem gefa út tónlist, leika í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og framleiða mikið magn verðmæta. Eins og staðan er í dag eru ekki nema tveir þessara kennara meðlimir í FÍH en þrjátíu og átta þeirra félagsmenn í FT. Sjálfur frétti ég sem félagsmaður í FT fyrst af þessari vinnu við stefnu og lagasetningu um tónlist í byrjun þessarar viku og ég er nokkuð viss um að hinir 37 þeirra starfandi atvinnutónlistarmanna og kennara sem starfa við þessa stofnun fréttu fyrst af henni í morgun í tölvupósti frá formanni þeirra, sem sendur var út einum degi áður en þessi ágæta samráðsgátt lokar. Tónlistarskólinn á Akureyri er einungis einn þeirra ótal skóla um allt land þar sem gera má ráð fyrir að svipað sé statt um.

Nú langar mig að varpa fram nokkrum spurningum.

Sú fyrsta er þessi. Þykja það eðlileg vinnubrögð í nútíma lýðræðislegu samfélagi að mjög stórum hluta hagsmunaaðila sé beinlínis haldið utan við stefnumótun og umræður um lagasetningu sem snertir þá beint sem sérfræðinga og fagaðila? Var það raunveruleg stefna, í upphafi þessarar mikilvægu vinnu, að þeir einir ættu rödd í umræðum um framtíð þessara mála væru úr öðru fagfélagi stéttarinnar? Og ef svo er, hver eru rökin fyrir því?

Að lokum langar mig að benda á orðalag í skjölunum sem bendir til þess að hér hafi hugsanlega verið farið fram af meira kappi en forsjá. Mér er það langt frá skapi að ætla þeim, sem miðlað hafa upplýsingum um raunverulegt landslag í málefnum tónlistar og tónlistarmenntunar á landinu til ráðuneytisins, að hafa viljandi komið fram með villandi hætti í þeim tilgangi að skara eld að eigin köku. Ég tel líklegra að hér hafi menn raunverulega einfaldlega ekki haft betri skilning á málum. Slíkt vill jú oft verða þegar mál eru skoðuð út frá hagsmunum þröngra hópa.

Úr lagadrögunum:

„Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá fyrstu stigum í tónlistarskólum sveitarfélaga yfir mið- og framhaldsstig í Menntaskóla í tónlist og loks á háskólastig við Listaháskóla Íslands.“

Þessi grein er, eins og hér er tíðundað fyrir ofan, ekki í neinu samræmi við raunverulegt landslag tónlistar og tónlistarmenntunar á Íslandi eins og það er í dag. Ef hér er verið að boða nýja stefnu þar sem MÍT hefur einkaumboð á mið- og framhaldsnámi á landinu þá teldi ég gagnlegt að miðla þeim upplýsingum til tónlistarskólanna sem fyrst til að þeir geti undirbúið þær umfangsmiklu breytingar sem það mun hafa í för með sér fyrir starfsmenn og nemendur.

Sömuleiðis tek ég eftir því að hópurinn hefur eftirfarandi á aðgerðaráætlun sinni:

„Aðgerðir

1. Við endurskoðun á fyrirkomulagi listnáms verður meðal annars horft til fyrirkomulags tónlistarnáms”.

Ég velti því fyrir mér hvort Menningar- og viðskiptamálaráðuneytið sé komið með umboð frá Barna- og menntamálaráðuneytinu til að endurskoða fyrirkomulag tónlistarkennslu á landinu og hvort að KÍ hafi verið upplýst um þá vinnu?

Fleira var það ekki að sinni.

Kærleikskveðjur,

Fyrir hönd Tónlistarskólans á Akureyri

Hjörleifur Örn Jónsson

Skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri

Afrita slóð á umsögn

#22 Tónskáldafélag Íslands - 31.08.2022

Eftirfarandi er umsögn Tónskáldafélags Íslands um drög að tónlistarstefnu. Félagið fagnar áformum um stofnun Tónlistarmiðstöðvar og setningu heildarlaga og -stefnu í tónlistarmálum.

- Það mætti vanda betur til verka í inngangstextanum. Hann mætti byrja af meiri festu og leiða til skýrari niðurstöðu sem sýnir fram á þann mikilvæga grunn sem stefnan á að marka tónlistarlífinu í landinu fram til ársins 2030.

- Heilt yfir mætti leggja meiri áherslu á það í stefnunni að tónlist er fyrst og fremst listgrein en ekki iðnaður. Tónlistarstefna og - lög eiga að leggja grunn að því að þessi listgrein verði viðurkennd sem atvinnugrein, skapa henni heilbrigt starfsumhverfi hérlendis og greiða fyrir útrás. Listin kemur fyrst, afleidd störf, fyrirtæki og stoðstofnanir fylgja á eftir.

- Fram kemur í lok inngangstexta að hér sé um að ræða aðgerðaráætlun fyrir árin 2023-2026 en síðar verði kynnt aðgerðaráætlun fyrir árin 2026-2030. Mikilvægt er að aðgerðirnar og markmiðin sem hér eru sett fram í lok hvers kafla séu tímasett. Það er nauðsynlegt svo hægt sé að fylgja stefnunni eftir og leggja mat á hvaða markmið hafa náðst og hver ekki. Þá er ekki er alltaf ljóst hvaða ráðuneyti eða stofnun er ábyrg fyrir því að aðgerðunum sem taldar eru upp í lok hvers kafla, verði hrint í framkvæmd. T.d. er það sem fram kemur í áherslu I, markmiði 3 um tónlistarmenntun væntanlega flest á verksviði Menntamálaráðuneytis og svo það sem viðkemur Listaháskóla á hendi ráðuneytis Háskólamála. Eru þessi tvö ráðuneyti meðvituð um að hér séu sett fram markmið sem eru á þeirra verksviði? Væri e.t.v. rétt að aðskilja stefnu fyrir tónlistargeirann sem sjálfstæða atvinnugrein og stefnu í tónlistarmenntunarmálum? Tónlistarmenntun er víðfeðmt svið sem krefst sjálfstæðrar yfirlegu og breiðrar aðkomu allra skólastiga er málið varðar. En heilt yfir skiptir máli að taka fram hvaða aðili, stofnun eða ráðuneyti sé ábyrgt fyrir framkvæmd hvers markmiðs fyrir sig.

- Aðgerð 5 í áherslu II: Þarna er talað um að Tónlistarráð verði samráðsvettvangur stjórnvalda og hagaðila. Mikilvægt er að tala um listamenn og grasrót og aðgengi þeirra að þessum samráðsvettvangi. Það má ekki myndast gjá þarna á milli og það að tala sífellt um hagaðila en ekki listamenn eykur þá hættu. Hagsmunasamtök eiga vissulega í ákveðnum tilfellum að vera milliliðir stjórnvalda og grasrótar, en það er ólíklegt að listamenn sem lesa stefnuna skilgreini sjálfa sig sem hagaðila og tengi sig við það hugtak. Þetta þarf að hafa í huga alls staðar þar sem rætt er um hagaðila. Listamenn þurfa að geta séð í þessari stefnu hver boðleiðin er frá grasrótinni og upp í toppinn.

- Markmið stefnunnar eru ekki öll mælanleg og ekki alltaf ljóst hvað í þeim felst. Dæmi: Aðgerð 1 í áherslu III; leita skal leiða til að auka sýnileika tónlistar á Íslandi. Hvað felst í þessu og hvernig á að ná þessu markmiði? Er átt við meiri spilun innanlands, lifandi flutning og/eða á ljósvakamiðlum? Aukna fjölmiðlaumfjöllun um tónlist?

- Hvergi er minnst á óperustarfsemi í stefnunni eða stofnun Þjóðaróperu en nú þegar hafa tvær nefndir um Þjóðaróperu á vegum núverandi menningarmálaráðherra lokið störfum og skilað skýrslum þar um.

Afrita slóð á umsögn

#23 Landsbókasafn -Háskólabókasafn - 31.08.2022

Hjálagt sendist umsögn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns um drög að tónlistarstefnu.

Örn Hrafnkelsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Gunnar Kvaran Hrafnsson - 31.08.2022

Tónlistarfólk hlýtur að fagna því merka skrefi að stofnuð sé Tónlistarmiðstöð. Þrátt fyrir frábæran árangur listamanna hér- og erlendis er niðurstaðan af margra ára reynslu að efla þarf stoðkerfi tónlistariðnaðarins til að við náum enn betri árangri. Tónlistarfólk þarf stuðning í formi aðstoðar við markaðssetningu, uppbyggingu tónlistarstaða og fræðslu um „gangverk rekstrar„ svo það geti byggt upp samfellu í sinni atvinnuþáttöku. Ennfremur verður tónlistarmiðstöð mikilvæg miðja í samtali við og hagsmunagæslu gagnvart yfirvöldum. Drögin að tónlistarstefnu gefa góð fyrirheit um að náðst hafi að grípa alla helstu þættina varðandi stofnun Tónlistarmiðstövarinnar

Eftirfarandi atriði vil ég gera athugasemdir við eða benda á varðandi kaflann „Markmið 3“:

Í þessum kafla þarf að breyta eftirfarandi setningu: „Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá fyrstu stigum í tónlistarskólum sveitarfélaga yfir í mið- og framhaldsstig í Menntaskóla í tónlist og loks á háskólastig við Listaháskóla Íslands...“ Vissulega er aðeins hægt að sækja tónlistarnám á háskólastigi hérlendis í LHÍ en hvaða tónlistarskóli sem er getur útskrifað af mið- og framhaldsskólastigi fyrir tilstilli Jöfnunarsjóðs. Setningin gæti t.d. hljóðað svo: „Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá tónlistarskólum sveitarfélaga á grunn-, mið- og framhaldsstigi eða Menntaskóla í Tónlist á framhaldsstigi og þaðan á háskólastig við Listaháskóla Íslands...“.

Árangursrík tónlistarkennsla byggir á að nægilegt framboð sé af hæfum og velmenntuðum kennurum. Meðalaldur núverandi kennara er mjög hár og fyrirsjáanlegt að mikil nýliðun þarf að eiga sér stað á næstu árum. Krafa tímans er að framtíðarmenntun tónlistarkennara sé á háskólastigi og því er mikilvægt að benda á að skólagjöld LHÍ eru alltof há miðað við aðra háskóla og marka verður þá stefnu að gera tónlistarkennaranámið viðráðanlegra fjárhagslega.

Gott er að LHÍ hefur loks fengið úrlausn sinna húsnæðismála því húsnæði hefur staðið starfsemi skólans fyrir þrífum í langan tíma. Menntaskóli í Tónlist (MÍT) glímir sömuleiðis við húsnæðis- og aðstöðuleysi og mikilvægt er að fram komi í stefnunni að leysa þurfi úr því.

Bestu kveðjur,

Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH

Afrita slóð á umsögn

#25 STEF - 31.08.2022

Hjálögð er umsögn STEFs um drög að tónlistarstefnu

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Gunnar Andreas Kristinsson - 31.08.2022

Athugasemd varðandi 7.gr. í frumvarpi til laga um tónlist sem fjallar um Tónlistarsjóð:

„Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild.“

Hætta getur skapast á að úthlutanir af sviðum Tónlistarsjóðs missi sjálfstæði og aðgreiningu ef sama fólkið sýslar með umsóknir margra sviða. Legg ég því til að þessi heimild verði ekki innleidd.

Afrita slóð á umsögn

#27 Jón Ólafsson - 31.08.2022

MEÐFYLGJANDI ER UMSÖGN FRÁ FÉLAGI TÓNSKÁLDA OG TEXTAHÖFUNDA (FTT). Jón Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins sendir þetta inn.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Erling Jóhannesson - 31.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Bandalags íslenskra listamanna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. - 31.08.2022

Góðan dag.

Vinsamlega sjáið meðfylgjandi umsögn um drög að tónlistarstefnu í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Soffía Pálsdóttir - 31.08.2022

Ágæti viðtakandi, hér í viðhengi er umsögn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur um drög að tónlistarstefnu.

Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Magnea Tómasdóttir - 31.08.2022

Mikilvægt er að gefa samfélagslistum rými í nýrri tónlistarstefnu.

Skilgreining samfélagslista er þegar fólk sem hefur enga sérþekkingu tekur virkan þátt í listsköpun undir handleiðslu sérfræðinga ( þessu tilfelli menntaðs tónlistarfólks).

Samfélagslistir (community arts) er starfsvettvangur sem verður sífellt fyrirferðarmeiri meðal tónlistarfólks á Íslandi. Korda sinfónia er dæmi um slíkt verkefni en einnig eru ýmis námskeiðt.d. kennd í tónlistardeild Listaháskóla Íslands sem fjalla undir samfélagslistir. Þar má nefna námskeiðið Tónlist og heilabilun þar sem unnið er á hjúkrunarheimilum eða sérhæfðum dagþjálfunum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma.

Tónlistarfólk fer í auknum mæli inní fyrirtæki og stofnanir til að vinna með fólki í virkri tónlistariðkun því margar rannsóknir sýna það að tónlistin hefur mikinn sameiningarmátt,eykur samkennd og lífsgæði.

Mikilvægt er að gefa þessum verkefnum rými í styrkjakerfinu.

Afrita slóð á umsögn

#32 Sigurður Hjörtur Flosason - 31.08.2022

Fyrir hönd Stórsveitar Reykjavíkur leyfi ég mér að benda á að sveitin ætti að eiga sambærilegan stað og Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónlistarmiðstöðinni. Það verður að teljast óeðlilegt að þegar kemur að reglulega starfandi stærri tónlistarhópum styðji ríkið aðeins einn klassískan hóp (Sinfóníuhljómsveit Íslands) með myndarlegum og sértækum hætti - en engan rytmískan. Stuðningur við Sinfóníuhljómsveit Íslands er að sjálfsögðu afar mikilvægur en bent er á að staða Stórsveitar Reykajvíkur er að mörgu leyti sambærileg í rytmíska geiranum. Hún er stór, reglulega starfandi hópur, sem leytast við að sinna ungum sem öldnum, nýrri tónlist og gamalli, hvetja til nýrra íslenskra tónsmíða, eiga samstarf við erlenda gesti í fremstu röð sem og gesti úr öðrum geirum íslensks tónlistarlífs, ekki síst helstu poppsöngvara þjóðarinnar. Stórsveit Reykjavíkur hefur í nokkur ár bankað á dyr menningarmálaráðuneytisins og viðræður hafa farið fram. Kominn er tími til að þessi 30 ára gamla sveit, sem fyrir löngu hefur sannað sig með metnaðarfullu starfi, fari úr styrkjakerfinu, inn á fjárlög og undir vermdarvæng nýrrar tónlistarmiðstöðvar.

F.h. Stórsveitar Reykjavíkur,

Sigurður Flosason,

formaður stjórnar Stórsveitar Reykjavíkur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#33 Reykjavíkurborg - 31.08.2022

Meðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar, menningar- og ferðamálasviðs um drög að tónlistarstefnu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#34 Félag íslenskra tónlistarmanna - 31.08.2022

Umsögn um drög að tónlistarstefnu frá stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna-klassískrar deildar FÍH

Áhersla 1:

Markmið 1: Höfuðvígi tónlistar á Íslandi mun alltaf verða Harpa. Því þarf að gera tónlistarfólki mögulegt að starfa við húsið, en það verður einungis gert með því að leggja niður arðsemiskröfu hússins, enda er hvergi ætlast til þess að í löndum sem við berum okkur saman við að hús sem slík standi undir sér fjárhagslega. Leigan í dag er alltof há til að tónlistarmenn, ekki síst klassískir, geti staðið að sjálfstæðu tónleikahaldi nema taka með því mikla fjárhagslega áhættu. Þetta þarf að leiðrétta í samstarfi ríkis og borgar.

Hlúa þarf að öðrum menningarhúsum um landið, svo sem Hofi, Bergi og Tónlistarmiðstöð austurlands, og gera klassískum tónlistarmönnum kleift að halda tónleika víða um land t.d. með sérstöku styrkjakerfi. Þar gætu t.d. komið til verkefni eins og Tónaland sem FÍT-klassísk deild FÍH hefur haft umsjón með, en mikilvægt væri að fá innspýtingu til að koma því verkefni aftur af stað, enda hefur það reynst vel í áranna rás, en tók á sig högg fyrst eftir hrun og svo aftur í Covid. Þetta gæti reynst mikilvægt verkfæri í þeirri uppbyggingu sem stefnan tiltekur, með uppbyggingu tónleikahaldara, -hátíða og tónleikastaða víða um land.

Markmið 2: Byggja þarf aftur upp af krafti tónlistardeild á RÚV, og auka aftur möguleika stofnunarinnar til að hljóðrita nýja íslenska tónlist, auk klassískrar tónlistar eins og var á árum áður. Auka þarf við tæknideild stofnunarinnar í því viðmiði. RÚV gegnir lykilhlutverki í varðveislu íslenskrar tónlistar af öllum meiði, ekki síst í sígildri tónlist og ný-sígildri, en sú varðveisla mun ekki eiga sér stað nema til komi kröftug innspýting í upptökumöguleika stofnunarinnar svo hún nái aftur fyrri hæðum. Gildi klassískrar tónlistar hjá RÚV hefur farið sí-minnkandi undanfarin ár svo áhyggjuefni þykir og snúa þarf þeirri þróun við, ekki síst til þess að halda áfram að byggja upp áheyrendahóp, allt frá unga aldri, sem munu kynnast þeim lífsgæðum sem felast í að hlusta á tónlistararf fyrri alda og nýja íslenska tónlist flutta af þeim færu hljóðfæraleikurum og söngvurum sem við sem þjóð berum gæfu til að mennta.

Markmið 3: Slá þarf skjaldborg um tónlistarskólakerfið og einkakennsluna, ekki síst í klassísku námi. Söngnám þarf að endurskoða og ríkið þarf að taka yfir alla söngkennslu frá framhaldsskólaaldri, þar eð námið er í eðli sínu ólíkt hljóðfæranámi, nemendur byrja seinna og fara hraðar í gegn um grunnnám, sem veldur miklum óþægindum í núverandi kerfi.

Áhersla 2:

Markmið 1: Passa þarf að að borðinu komi alltaf fulltrúi úr klassíska geiranum, þar af í stjórn Tónlistarmiðstöðvar og í Tónlistarráð. Eðli starfsemi klassískra tónlistarmanna er að mörgu leiti ólík störfum annarra tónlistarmanna og þarf að huga að því að hagsmuna þeirra sé gætt í jöfnu hlutfalli við aðrar greinar tónlistar. FÍT-klassísk deild FÍH hefur haft fulltrúa í stjórnum og ráðum á flestum sviðum stjórnkerfisins hingað til og sérlega þarf að passa að sú tenging haldi áfram en falli ekki niður í uppstokkun kerfisins eins og nú stendur til.

Markmið 2: Skoða og efla þarf umhverfi og möguleika klassískra tónlistarmanna á tónleikahaldi, en borið hefur á því að tónleikaröðum og tónleikastöðum sem henta starfsemi þess tónlistargeira. Efla þarf ennfremur starfsemi klassískra söngvara á Íslandi, hér á landi er engin föst staða í boði fyrir söngvara. Þar má fyrst og fremst telja fram stofnun Þjóðaróperu, en slík stofnun yrði gífurleg lyftistöng fyrir söngvara, óperustarfsemi og aðra klassíska tónlistarmenn. Þá er einboðið að stofna atvinnukór á Íslandi, en sú stofnun myndi til að mynda geta útvegað kór í verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í verkefni á vegum RÚV og síðar við Þjóðaróperu þegar hún hefur verið stofnuð.

Markmið 3:

Hér þarf líka að passa að klassísk tónlist eigi sinn aðila við borðið, þegar nýr tónlistarsjóður verður stofnaður og rekinn.

Áhersla 3:

Markmið 1: uppbygging menningarferðamennsku er mikilvæg í klassíska geiranum eins og öðrum geirum tónlistar og taka þarf tillit til þess í nýrri uppbyggingu á tónlistarmiðstöð. Útón hefur ekki haft fulltrúa klassískrar tónlistar innanborðs og áberandi hefur verið hve lítil áhersla hefur verið lögð á tónlistarmenn í sígilda geiranum. Þessu þarf að breyta með tilkomu nýrrar tónlistarmiðstöðvar.

Virðingarfyllst fyrir hönd stjórnar FÍT-klassískrar deildar FÍH

Hallveig Rúnarsdóttir formaður

Afrita slóð á umsögn

#35 Haraldur Árni Haraldsson - 31.08.2022

Það er gleðiefni og virðingarvert að stjórnvöld skuli ætla sér að setja stefnu í málefnum tónlistar, en þau drög að henni sem hér liggja frammi í Samráðsgátt, þarfnast lagfæringa. Í Samráðsgáttinni hafa komið fram margar þarfar ábendingar í þá veru og ég vil benda á að ef stjórnvöld ætla sér að vinna skynsamlega úr þeim, þá þarf að kalla fleiri "hagaðila" að borðinu en þá sem komu að því að semja þessi drög.

Í stefnunni er komið skýrt inn á mikilvægi tónlistarmenntunar/tónlistarnáms og þar segir í kaflanum "Áhersla I - Markmið 3": "Tónlistarmenntun er undirstaða sterkrar tónlistarmenningar og á stóran þátt í grósku og velgengni íslenskrar tónlistar" ........... "Tónlistarkennarar eru hjarta tónlistarkennslu ................."

Í ljósi þessara fullyrðinga, sem eru auðvitað sannleikanum samkvæmt, er það fullkomlega óeðlilegt og ólýðræðislegt að fulltrúi frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, FT, sem u.þ.b. 2/3 tónlistarskólakennara og mikill meirihluti stöðugilda til kennslu í tónlistarskólum tilheyrir, skuli ekki hafa átt aðild að mótun þessara draga.

Einnig væri eðlilegt að fulltrúi Samtaka tónlistarskólastjóra, STS, kæmi að borðinu. Þau samtök hafa alla tíð verið mjög virk í umbótum og þróun skólastarfs í tónlistarskólum og átt mikinn þátt í framgangi þeirra. Auk þess eru skólastjórar tónlistarskólanna málsvari "eigenda" skólanna, eðli málsins samkvæmt, og aðkoma þeirra þess vegna mikilvæg út frá þeim sjónarhóli.

Ég ætla að vona að þessu verði kippt í liðinn þegar drögin verða endurskoðuð, sem þarf auðvitað að gera m.t.t. þeirra umsagna sem komið hafa fram.

Hitt sem ég vil koma inná, er í sama kafla undir sama markmiði.

Þar segir: "Tryggja þarf eðlilega samfellu í námi, frá fyrstu stigum í tónlistarskólum sveitarfélaga yfir mið- og framhaldsstig í Menntaskóla í tónlist og loks á háskólastig við Listaháskóla Íslands" Ég er svo sannarlega sammála því að íslenskir tónlistarnemendur þurfa að hafa þann valkost að geta stundað nám á háskólastigi hérlendis, en annað í þessum texta er algerlega galið.

Flest öll sveitarfélög reka tónlistarskólana sína af miklum metnaði, sem snýr m.a. að því að þar sé boðið upp á fjölbreytt og vandað nám í öllum námsáföngum (nb. ekki stigum). Nemendur í miðnámi tónlistar, svo ég tali nú ekki um nemendur í framhaldsnámi, eru stolt hvers tónlistarskóla (og auðvitað nemendur í grunnnámi sömuleiðis) og fjölmargir skólar, þ.m.t. skólar á landsbyggðinni, hafa það fullkomlega á valdi sínu að útskrifa nemendur með framhaldspróf og gera það með glæsibrag. Tónlistarskólar í smærri byggðalögum geta leitað til stærri skólanna um samstarf þurfi þeir það, t.d. hvað varðar tónfræðagreinar framhaldsnáms eða þeir sækja þær námsgreinar fyrir nemendur sína með fjarkennslu. Það er því út í hött að setja það í stefnu um málefni tónlistar að tónlistarskólar utan MÍT skuli eingöngu bjóða upp á grunnnám. Í því felst mikil lítilsvirðing við tónlistarskólana í sveitarfélögum landsins og þá kennslu og annað skólastarf sem þar fer fram.

Við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, þar sem ég starfa, starfa 40 kennarar. Allir vel menntaðir, áhugasamir og metnaðarfullir í starfi sínu. Á þessu skólaári eru 14 af þeim fyrrum nemendur skólans og fóru allir langt í námi sínu við hann. Sumir luku framhaldsprófi og fóru að því loknu til framhaldsnáms á háskólastigi, hérlendis eða erlendis. Aðrir fóru fyrr frá okkur til náms á háskólastigi. Þetta er lítið dæmi af fjölmörgum um afrakstur tónlistarskóla í sveitarfélögum landsins.

Svo er vanhugsunin á bak við þennan texta draganna með ólíkindum og kallar fram a.m.k. eftirfarandi vangaveltur, sem ég set hér fram í spurnarformi:

-Með hvaða hætti höfðu höfundar draganna hugsað sér að stjórnvöld myndu tryggja öllum þeim mið -og framhaldsnáms tónlistarnemendum sem myndu þurfa að flytja á höfuðborgarsvæðið til að stunda nám við MÍT, skólavist í grunn- og framhaldsskólum Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins?

-Hvernig höfðu höfundar draganna hugsað sér að stjórnvöld myndu útvega öllum þeim nemendum trygg íbúðarhúsnæði?

Í flestum tilfellum væru það reyndar heilu fjölskyldurnar sem þyrftu að flytjast búferlum. Það væri ekki ólíklegt að flestir þeir nemendur á landsbyggðinni og fjölskyldur þeirra hefðu ekki tök á eða áhuga á því og þar með væri "eðlileg samfella í námi" viðkomandi nemenda úr sögunni.

-Telja höfundar draganna að fyrirkomulag tónlistarnáms sem myndi líklega valda miklu brottfalli tónlistarskólanemenda eftir grunnnám (sem við ættum frekar að sporna kröftuglega við), falla undir fjölbreytta hágæðatónlistarmenntun, stuðla að sterkum og framsæknum tónlistariðnaði eða gera tónlist að fullgildri og eftirsóknarverðri atvinnugrein, svo ég vitni í nokkrar fyrirsagnir í drögunum?

Ég vona að tónlistinni í landinu falli sú gæfa í skaut að þessi "drög að stefnu í málefnum tónlistar" nái ekki fram að ganga óbreytt né án aðkomu fleiri "hagaðila".

Virðingarfyllst,

Haraldur Árni Haraldsson

skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Afrita slóð á umsögn

#36 Jóhanna Guðríður Linnet - 31.08.2022

Ég er starfandi kennari við Menntaskólann í tónlist MÍT og Tónlistarskóla FÍH. Mér er efst í huga ófullnægjandi húsnæðismál MÍT þar sem segja má að skólinn sé á þremur stöðum, þ.e. í Menntaskólanum við Hamrahlíð, Skipholti þar sem klassíska deildin er til húsa og í Rauðagerði þar sem rythmisk tónlist er kennd. Þannig að nemendur eru að fara á milli staða til þess að geta sótt tíma. Ég er ekki viss um að nemendur í öðrum menntaskólum myndu sætta sig við slíkan aðbúnað.

Við MÍT stunda 200 nemendur nám og óhætt er að segja að nemendur og kennarar stunda sitt nám og vinnu við erfiðar aðstæður. Það liggur í augum uppi að erfitt er að byggja upp hefðbundið skólastarf þar sem starfsemin er svona dreifð að ekki sé talað um þann tíma sem fer í ferðir.

Húsnæðisþátturinn er öllum skólum og menntastofnunum afar mikilvægur. Varðandi framtíðarskipan húsnæðismála skólans er mikilvægt að Menntamálaráðuneytið feli Framkvæmdasýslu Ríkisins að greina núverandi stöðu ásamt því að vinna faglega þarfagreiningu og Frumathugun fyrir skólann og framtíðarskipan húsnæðismála hans.

Þá má færa má fyrir því gild rök að heppilegt verði að hverfa frá formi SES og skólinn verði opinber framhaldsskóli, þ.e. ríkisstofnun er heyri undir ráðherra. Sem SES er viss hætta á að skólinn verði vanfjármagnaður og ekki muni takast að finna húsnæðismálum hans farsæla lausn.

Virðingarfyllst,

Jóhanna Guðríður Linnet

Afrita slóð á umsögn

#37 Phillip Joseph Doyle - 31.08.2022

Umsögn um drög að stefnu í málefnum tónlistar 2023-2030

Skýr stefna í málefnum tónlistar á Íslandi er þörf og henni ber að fagna. Hér er um metnaðarfullt og nauðsynlegt verkefni að ræða sem sýnir áhuga og vilja yfirvalda til að styrkja og styðja innviði og áframhaldandi vöxt tónlistar og tónlistariðnaðar á Íslandi. Við lestur draganna eru almennar áherslur á hagnýta umgjörð augljósar en mér þykir mikið vanta uppá varðandi okkur lykilatriði sem að sjálfu efninu, og þá sérstaklega tónlistsarmenntun, lúta:

1) Framþróun og uppbygging tónlistarmenntunar: Ljóst er að núgildandi námsskrá tónlistarskóla á Íslandi og fyrirkomulag námsbrauta er barn síns tíma og nauðsynlegt að endurskoða með hlíðsjón af þeim megingildum sem nefnd eru í drögunum, t.d. samfellu í námi, einstaklingsmiðaðri nálgun, ásamt öllum þáttum nútíma tæknisamfélags. Við sem störfum alþjóðlega að þessum málum vitum að þó svo að margt sé hér afbragðs vel gert, ættum við að hafa alla burði til að vera í fararbroddi. Í kafla um tónlistsarmenntun ætti að leggja ofuráherslu á þessa þörf á endurskoðun og framþróun. Setningum um að horft verði til fyrirkomulags tónlistarnáms við endurskoðun listnáms er of veik og óljós.

2) Fjölbreytileiki og jafnræð óháð formi tónlistar: Bæði í þessum drögum og samhliða frumvarpi að lögum um tónlist verður því ekki neitað að klassískri tónlist og „hefðbundnari“ nálgun að námi er gert hærra undir höfði en öðrum. Taka þarf fram að umrædd styrking komi öllu tónlistarfólki og tónlistariðkun til góða. Augljósasta dæmið er áherslan og rýmið sem sinfóníuhljómsveit fær, án þess að minnst sé á aðrar hljómsveitir, s.s. jazzhljómsveit eða stórsveitir. Þessi tónlistsarform ættu að hafa nákvæmlega sama vægi og stuðning. Þetta mætti kalla mismunun og ójafnræði. Gott gæti verið að líta til nágrannalandanna sem fyrirmynda hvað þetta varðar.

3) Alþjóðlegt samstarf: Skýra mætti betur hvernig tryggja á virkt og gagnlegt alþjóðlegt samstarf, t.d. með formlegum samningum við erlendar stofnanir og skýrari tengingu mismunandi námstiga hérlendis alþjóðlega. Þetta er augljós veikleiki í dag.

4) Gæðastjórnun og mat á námi: Lítið er rætt um rannsóknir eða mat gæðum og árangri náms. Ljóst verður að vera hvar ábyrgð á slíku liggur og hvaða alþjóðlegu gæðaviðmið eru nýtt. Ekki síst með hliðsjón af smæð landsins og brotakennda núverandi nálgun að tónlistarmenntun í huga er þetta lykilatriði til að tryggja alþjóðlegan samanburð og framvindu nemenda okkar.

5) Jafnrétti til náms: Núverandi nálgun tryggi ekki jafnrétti allra til allra forma tónlistarnáms óháð búsetu og fjárhag.

Meðfylgjandi eru nánari athugasemdir við drögin sjálf.

Dr Phillip Joseph Doyle D.M.A

Tónlistarkennari við Tónlistaskóla FÍH

Mancini Fellow/University of Miami, Frost School of Music

Former Director of Jazz Studies at Eastern Washington University.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#38 Friðþjófur Þorsteinsson - 31.08.2022

Kæru viðtakendur

Það er gleðiefni að sjá drög að tónlistarstefnu og frumvarp til laga um tónlist. Þetta eru vænlegir hornsteinar mikilvægs málaflokks sem eiga vafalaust eftir að þróast í tímans rás.

Ég skrifa sem sviðslistahönnuður og -ráðgjafi, hafandi starfað í rúman áratug erlendis við flestar - ef ekki allar tegundir sviðslista af mjög fjölbreyttum stærðum. Auk þess að hanna fyrir leikverk, óperur, dans, tónleika o.fl. hef ég verið ráðgjafi við hönnun sviðslistahúsa og rekstrarlíkön þeirra víða heim, þ.á.m. leikhús, óperuhús, tónlistarhús, söfn, ráðstefnuhús, íþróttaleikvanga og sérhannaðar sjónleikjahallir.

Mig langar að koma á framfæri athugsemdum við markmið 1 í drögum að tónlistarstefnu: „Hlúum að heimili tónlistar.“ Aðgerðir markmiðsins eru að kortleggja húsnæði og auka aðgengi að fjármagni til aðbúnaðaruppbyggingar og listræns skipulags. Ummæli mín eru einkum skrifað út frá sjónarhóli klassíkrar tónlistar, en á þó við allar tónlistarstefnur.

Á Íslandi eru um 130-170 sviðslistahús/tónleikastaðir. Flest þeirra standa illa nýtt en ég hef sjálfur, í gegnum sprotafyrirtæki mitt, lagt í nokkra vinnu við kortlagningu þeirra nú þegar. Þau eru ýmist rekin fyrir fjármuni frá sveitarfélögum eða ríki. Það sem háir rekstri þeirra flestra er skortur á fólki með þekkingu á rekstrarformi sviðslista, hvort sem það heita tónleikar, leiksýningar eða hvað annað. Almennur skortur er á þessum vinnubrögðum hérlendis og í tilfelli tónlistarfólks lendir það gjarnan á þeim sjálfum að skipuleggja eigin tónleika og eins á leikhópum að skipuleggja eigin leiksýningar. Það væri álíka og ef flugstjórar skipuleggðu eigin ferðir og seldu í þær miða, eða skurðlæknar sæu um eigin dagbók og stæðu svo við posann að aðgerð lokinni. Afmörkuð og sérhæfð verkaskiping er lykilatriði í hámörkun á hæfileikum tónlistarfólks - og hámörkun á rekstri, viðhaldi og afrakstri sviðslisahúsa og þeirrar aðstöðu sem þau bjóða.

Verkþættir tónleikahalds eru fjölmargir en tónlistarfólk á að hafa tækifæri á að einbeita sér að list sinni á tónleikum. Það á ekki að hafa áhyggjur af því að bóka húsnæði, auglýsa tónleikana, raða stólum, hanna og prenta tónleikaskrá, sjá um píanóflutninga, stilla hljómburð og ganga svo frá - örþreytt eftir alla vinnuna. Enn eykst á þessa verkþætti þegar um tónleika með fleiri en einum flytjanda/hóp er að ræða og enn frekar þegar um tónleikaröð eða -hátíð er að ræða.

Tónlistarfólk hlýtur ennfremur enga menntun í framleiðslu viðburða í sínu námi og því er tíma þess enn verr varið þegar það þarf að búa sér til verkferla samhliða því að framleiða viðburði. Ætla mætti að slíkt sé dragbítur á tónleikahald á Íslandi og uppbyggingu klassíkrar tónlistar yfirhöfuð.

Í drögum að tónlistarstefnu og frumvarpi til laga um tónlist er hvergi minnst á þessa mannlegu innviði sem tónlistarfólk á að geta treyst á. Ég legg því til að þeim verði fundinn staður í tónlistarstefnu og að hugað verði að þeim þekkingar- og mannlegu innviðum sem felast í framleiðendum tónlistar, samhliða tónlistarfólkinu sjálfu. Ef vel er að verki staðið mun það styðja við tónlistarfólk samhliða öðrum úrræðum, hvort sem eru í gegnum fyrirhugaða tónlistarmiðstöð eða á sjálfstæðum forsendum. Eins mætti bjóða tónlistarnemum námskeið í viðburðahaldi samhliða öðru tónlistarnámi - en ekki endilega til að auka framleiðslu þeirra á eigin viðburðum heldur frekar til að stuðla að árangursríkum samskiptum við viðburðahaldara og þróa þekkingu tónlistarfólks á viðskiptahlið starfsgreinarinnar.

Að auki má nefna að hvergi er minnst á málefni óperu á Íslandi, sem hafa verið í brennidepli undanfarin misseri. Listformið brúar bilið á milli tónlistar og sviðslista, svo ef til vill þarf að minnast á það á báðum stöðum til að styrkja það.

Ennfremur lýsi ég mig reiðubúinn til frekara samtals um þessi mál, út frá þeim atriðum sem ég nefni og eins tengdum atriðum.

Virðingarfyllst,

Friðþjófur Þorsteinsson

sviðslistahönnuður og -ráðgjafi

Afrita slóð á umsögn

#39 Sigurlaug Björnsdóttir Blöndal - 31.08.2022

Það er frábært að það sé verið að vinna að tónlistarstefnu landsins. Það hefði verið enn betra að vera í samráði við Félag tónlistarkennara. Hér eru nokkrir punktar og hugleiðingar um stefnuna.

Áhersla 1, markmið 1

Það væri auðvitað frábært ef tónlistarfólk landsins hefði efni á því að flytja tónlist í Hörpu.

Markmið 3

Þennan kafla þarf að skoða betur og hafa samráð við fólkið sem sér um „fjölbreytta hágæðatónlistarmenntun“, þ.e. tónlistarkennarar.

Það er dálítið undarlegt að tala um forvarnargildi tónlistarkennslu. Réttara væri að segja að tónlistarnám væri þroskandi. Tónlist hefur jákvæð áhrif á heilaþroska barna, málþroska, hreyfiþroska, félagsþroska o.s.frv.

Rétt er að geta þess að ekki einungis börn og unglingar stunda tónlistarnám heldur einnig fullorðið fólk og er mikill fengur í þeim markhópi fyrir sveitafélög og landið allt.

Klausan um einkakennslu á alls ekki við. Einstaklingsmiðað nám inniheldur fjölbreytta kennsluhætti og tekur til greina þarfir og áhugasvið nemenda. Margir tónlistarskólar og skólahljómsveitir kenna í hóptímum með góðum árangri.

Varðandi málsgrein um eðlilega samfellu náms þá er rétt að það komi fram að mun fleiri tónlistarskólar en MÍT kenna á framhaldsstigi, í stærri og minni bæjarfélögum.

„Eðlileg samfella í námi“, hvað er það? Leggur nýja Tónlistarstefnan aðaláherslu á afköst í formi prófa og skírteina? Það er mikil þversögn að tala um einstaklingsmiðað nám og „eðileg samfella í námi“ undir sama hatti.

Já, það þarf að vekja athygli á kennaranámi í tónlistarkennslu en svo væri líka frábært að lækka skólagjöld Listaháskólans sem kennir söng- og hljóðfærakennslu. Með því myndi tónlistarkennurum án efa fjölga. Þar sem „tónlistarkennari“ er ekki lögverndað starfsheiti þá starfa fullt af tónlistarkennurum án kennaramenntunar við tónlistarskóla landsins. Það þarf að koma til móts við þá og bjóða upp á fjarnám í kennslufræði og starfsþróun á vegum LHÍ.

Áhersla 2, markmið 2

Til þess að tónlist geti verið fullgild og eftirsóknarverð atvinnugrein þarf í fyrsta lagi að lögvernda starfsheiti tónlistarkennara og í öðru lagi þarf fólk að geta menntað sig í tónlist án þess að skuldsetja sig út lífið með námslánum.

Afrita slóð á umsögn

#40 Gylfi Garðarsson - 31.08.2022

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra tónbókaútgefenda um drög að frumvarpi til laga um tónlist.

F.h. sambandsins

Gylfi Garðarsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#41 Guðbjörg Sandholt Gísladóttir - 31.08.2022

Það er afar jákvæð þróun að nú sé verið að vinna að stefnu í tónlist og spennandi tímar framundan. Ég geri þó athugasemd við hversu stuttan tíma við höfðum til að koma með umsagnir, ég hefði viljað skrifa mun ítarlegri umsögn en því miður gafst ekki tími til.

Hér koma þeir puntkar sem ég gat hripað niður:

Inngangur og markmið 2

- Það fyrsta sem minnst er á í inngangi í drögunum, er kórastarf á Íslandi. Um leið er talað um tónlist sé atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein. Í þessu ljósi er athyglisvert til þess að hugsa að á Íslandi geta atvinnusöngvarar ekki haft neina fasta atvinnu. Enginn atvinnukór með föstum stöðum er til að mynda starfræktur hér á landi, kór sem væri sambærilegur við Sinfóníuhljómsveit Íslands og ekki er hægt að fá fasta stöðu við óperuhús. Áhugamannakórar eru fengnir til að syngja í verkefnum Sinfóníuhljómsveitarinnar og um leið er grafið undan starfsumhverfi fagfólks. Stofnun atvinnumannakórs og þjóðaróperu myndu gerbreyta starfsvettvangi klassískra söngvara og alls þeirra samstarfsfólks, og hafa jákvæð áhrif á allt kórastarf, óperustarf og menningarlífið allt og stuðla að meira jafnrétti tónlistarfólks og inngildingu hóps tónlistarfólks sem kerfisbundið hefur verið gert nær ómögulegt að stunda sína vinnu á Íslandi. Þess vegna legg ég til að það stofnun atvinnumannakórs og þjóðaróperu verði hluti af nýrri tónlistarstefnu.

Það er jákvætt að lesa um stofnun nýrrar Tónlistarmiðstöðvar og von um að hún muni gegna mikilvægu hlutverki til að gera tónlistarlífið meira hvetjandi og nútímalegt. Eitt af því sem ný Tónlistarmiðstöð gæti gert, væri til dæmis að styðja við þær fjölmörgu sjálfstæðu tónlistarhátíðir sem margir aðilar standa að um land allt - í umhverfi sem í dag er síður en svo hvetjandi. Skynsamlegt væri að mynda skýra stefnu um tónlistarhátíðir á landinu og hvernig hægt væri að búa til lífvænlegt umhverfi fyrir þær. Margar þeirra eru í dag reknar í sjálfboða- og hugsjónastarfi sem er ekki sjálfbært til lengri tíma.

Áhersla I: Tónlistarmenning og -menntun

Markmið 1: Hlúum að heimili tónlistar

Í þessum hluta er ekki minnst á Hörpu. Allir vita að breyta þarf aðgengi tónlistarfólks að henni því leigan er of dýr og meiri áhersla er á ráðstefnuhald heldur en tónlistarhald vegna kröfu um að húsið afli mikilla tekna. Eigendur hússins, ríki og borg verða að finna lausn á þessu máli sem allra fyrst. Annars er hættan á að í Hörpu verði aðeins markaðsvænir tónleikar en ekki öll sú flóra sem fyrirfinnst í íslensku tónlistarlífi.

Eins má auðvelda tónlistarfólki tónleikahald til dæmis með því að bjóða upp á leigustyrki sem hægt væri að sækja um með stuttum fyrirvara. Efla samstarf tónlistarmanna og safna og bjóða tónlistarfólki að fá ókeypis/mjög hagstæð afnot af sölum safnanna og kirkjum til að auðveldara sé að halda tónleika.

Markmið 4: Skilvirkt sjóðakerfi tónlistar

Það þarf einnig að endurskoða tímaramma styrksumsókna og svartíma. Það er ekki hægt að svara fólki um leið og verkefni eiga að vera að hefjast, sbr. svör við listamannalaunum sem berast oft seint í janúar eða Tónlistarsjóðsumsóknir. Einnig þarf að fjölga umsóknarfrestum, þannig að hægt sé að sækja um listamannalaun oftar en 1x á ári.

Takk fyrir!

Afrita slóð á umsögn

#42 Kennarasamband Íslands og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum - 06.09.2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#43 Menningarfélag Akureyrar - 15.09.2022

Viðhengi