Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.8.–7.9.2022

2

Í vinnslu

  • 8.9.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-152/2022

Birt: 24.8.2022

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum nr. 137/2001 (framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar)

Málsefni

Frumvarpið kveður á um breytingar á kvikmyndalögum í átt að nútímalegu fyrirkomulagi sjóðakerfis leikinna sjónvarpsþáttaraða. Einnig er skerpt á nokkrum atriðum um Kvikmyndasafn og Kvikmyndamiðstöð.

Nánari upplýsingar

Menningar- og viðskiptaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (framleiðslustyrkir til lokafjármögnunar).

Stuðningur við kvikmyndagerð fellur undir málefnasvið 18, menningu, listir, íþrótta og æskulýðsmál. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista er að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Kvikmyndamál falla undir málaflokk 18.2 menningarstofnanir og 18.3 menningarsjóðir. Markmið stjórnvalda í málaflokkunum er meðal annars að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í listum og menningu. Kvikmyndastefna til ársins 2030 var kynnt á heimasíðu Stjórnarráðsins 6. október 2020. Í kvikmyndastefnu stjórnvalda er fjallað um að styðja þurfi við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða í anda Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styrkir framleiðslu á verkum í formi lána sem endurgreiðast skv. reglum sjóðsins. Sjóðurinn á rétt á hluta (endurgreiðsluhlutfalli) af tekjum á heimsvísu af þáttaröð. Sambærileg heimild til endurgreiðslu rúmast ekki innan ákvæða kvikmyndalaga. Með breytingarfrumvarpinu er kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki sem geta falið í sér kröfu um endurheimt sambærilega þeim sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn veitir. Lögð verður áhersla á að hraða afgreiðslu umsókna um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar eins og unnt er og er styrkjaflokknum ætlað að koma til móts við nýja tíma í kvikmyndagerð, sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna.

Helstu breytingar frumvarpsins eru:

• Að kveða skýrt á um að Kvikmyndasjóði sé heimilt að veita framleiðslustustyrkir til lokafjármögnunar með skilyrði um endurheimt hluta hagnaðar af tekjum leikinna sjónvarpsþáttara.

• Skerpt er á hlutverki Kvikmyndasafns Íslands í markmiðum laganna um að safnið stuðli að varðveislu kvikmyndaarfs.

• Með tilkomu kvikmyndastefnu hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands fengið aukið hlutverk við að sinna kvikmyndafræðslu á Íslandi. Kvikmyndafræðslu er því bætt við verkefni miðstöðvarinnar.

• Bætt er við málsgrein um að heimilt sé að endurskipa forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands einu sinni til fimm ára. Það er í samræmi við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, t.d. Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands.

• Orðalag 11. gr. laganna um gjaldtökuheimild Kvikmyndasafns Íslands er uppfært til dagsins í dag. Til dæmis lánar Kvikmyndasafn Íslands ekki út kvikmyndir í handbæru formi á diskum eða drifum heldur veitir safnið aðgang að efninu á stafrænu formi. Jafnframt er safninu heimilað að taka gjald fyrir sýningu, annan flutning og rétt til eintakagerðar í samræmi við ákvæði höfundalaga nr. 73/1972.

• Tekið er út orðalag um að í reglugerð megi finna nánari ákvæði um meginskiptingu fjárveitinga milli einstakra greina kvikmyndagerðar. Ekki er talið álitlegt að festa skiptingu fjárveitinga milli greina kvikmyndagerðar í reglugerð. Breyta þyrfti reglugerð í hvert skipti sem áherslubreyting verður í úthlutun sjóðsins og gerir miðstöðinni erfiðara fyrir. Nánari skipting fjárveitinga verður útfærð með öðrum hætti en í reglugerð. Horft verður til samkomulags hagaðila og Kvikmyndamiðstöðvar í þeim efnum.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

mvf@mvf.is