Samráð fyrirhugað 24.08.2022—07.09.2022
Til umsagnar 24.08.2022—07.09.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 07.09.2022
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum nr. 137/2001 (framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar)

Mál nr. 152/2022 Birt: 24.08.2022 Síðast uppfært: 15.09.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (24.08.2022–07.09.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið kveður á um breytingar á kvikmyndalögum í átt að nútímalegu fyrirkomulagi sjóðakerfis leikinna sjónvarpsþáttaraða. Einnig er skerpt á nokkrum atriðum um Kvikmyndasafn og Kvikmyndamiðstöð.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (framleiðslustyrkir til lokafjármögnunar).

Stuðningur við kvikmyndagerð fellur undir málefnasvið 18, menningu, listir, íþrótta og æskulýðsmál. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista er að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Kvikmyndamál falla undir málaflokk 18.2 menningarstofnanir og 18.3 menningarsjóðir. Markmið stjórnvalda í málaflokkunum er meðal annars að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í listum og menningu. Kvikmyndastefna til ársins 2030 var kynnt á heimasíðu Stjórnarráðsins 6. október 2020. Í kvikmyndastefnu stjórnvalda er fjallað um að styðja þurfi við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða í anda Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styrkir framleiðslu á verkum í formi lána sem endurgreiðast skv. reglum sjóðsins. Sjóðurinn á rétt á hluta (endurgreiðsluhlutfalli) af tekjum á heimsvísu af þáttaröð. Sambærileg heimild til endurgreiðslu rúmast ekki innan ákvæða kvikmyndalaga. Með breytingarfrumvarpinu er kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki sem geta falið í sér kröfu um endurheimt sambærilega þeim sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn veitir. Lögð verður áhersla á að hraða afgreiðslu umsókna um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar eins og unnt er og er styrkjaflokknum ætlað að koma til móts við nýja tíma í kvikmyndagerð, sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna.

Helstu breytingar frumvarpsins eru:

• Að kveða skýrt á um að Kvikmyndasjóði sé heimilt að veita framleiðslustustyrkir til lokafjármögnunar með skilyrði um endurheimt hluta hagnaðar af tekjum leikinna sjónvarpsþáttara.

• Skerpt er á hlutverki Kvikmyndasafns Íslands í markmiðum laganna um að safnið stuðli að varðveislu kvikmyndaarfs.

• Með tilkomu kvikmyndastefnu hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands fengið aukið hlutverk við að sinna kvikmyndafræðslu á Íslandi. Kvikmyndafræðslu er því bætt við verkefni miðstöðvarinnar.

• Bætt er við málsgrein um að heimilt sé að endurskipa forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands einu sinni til fimm ára. Það er í samræmi við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, t.d. Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands.

• Orðalag 11. gr. laganna um gjaldtökuheimild Kvikmyndasafns Íslands er uppfært til dagsins í dag. Til dæmis lánar Kvikmyndasafn Íslands ekki út kvikmyndir í handbæru formi á diskum eða drifum heldur veitir safnið aðgang að efninu á stafrænu formi. Jafnframt er safninu heimilað að taka gjald fyrir sýningu, annan flutning og rétt til eintakagerðar í samræmi við ákvæði höfundalaga nr. 73/1972.

• Tekið er út orðalag um að í reglugerð megi finna nánari ákvæði um meginskiptingu fjárveitinga milli einstakra greina kvikmyndagerðar. Ekki er talið álitlegt að festa skiptingu fjárveitinga milli greina kvikmyndagerðar í reglugerð. Breyta þyrfti reglugerð í hvert skipti sem áherslubreyting verður í úthlutun sjóðsins og gerir miðstöðinni erfiðara fyrir. Nánari skipting fjárveitinga verður útfærð með öðrum hætti en í reglugerð. Horft verður til samkomulags hagaðila og Kvikmyndamiðstöðvar í þeim efnum.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kvikmyndasafn Íslands - 25.08.2022

Góðan dag,

Í lögum um skylduskil til safna nr. 20/2002 er Kvikmyndasafni Íslands er gert að varðveita skyldueintök kvikmynda og fara með þau í samræmi við tilgang laganna. Engin viðurlög liggja við því að skila ekki efni til safnsins. Skilaskylda hvílir á framleiðanda kvikmyndar en talsvert vantar upp á að allt efni hafi skilað sér til safnsins í gegnum tíðina. Kvikmyndasafnið gerði nýlega samning við Kvikmyndamiðstöð Íslands um að greiða ekki lokastyrk verkefna fyrr en full skil til safnsins hafa átt sér stað. Þetta er gert til að tryggja varðveislu kvikmyndaarfsins til framtíðar. Frá því samkomulag þetta var gert hafa allar styrktar kvikmyndir skilað sér örugglega til safnsins. Hér er þó eingöngu um samning að ræða sem getur gleymst eða farist fyrir í tímans rás. Það er mjög þarft, í þágu varðveislu kvikmyndaarfs þjóðarinnar til framtíðar, að skilyrða útgreiðslu lokastyrks frá Kvikmyndamiðstöð til framleiðanda, við full skil kvikmyndar til Kvikmyndasafns Íslands. Með fullum skilum er átt við að kvikmynd hafi verið skilað skv. gæðakröfum safnsins. Finna má þær reglur á heimasíðu Kvikmyndasafns Íslands. Það er vert að hnykkja á því að síðan kvikmyndir voru allar framleiddar á stafrænu formi (í stað filmu) er enn meiri hætta á að efni glatist í rafrænum heimu, sé því ekki skilað til langtímavarðveislu hjá Kvikmyndasafni Íslands. Þar sem sjaldan er átt við Kvikmyndalög er að mati Kvikmyndasafns Íslands tímabært að festa þessi ákvæði í lög, eða reglugerð ef svo ber undir.

Virðingarfyllst, Þóra Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (Samtök iðnaðarins) - 15.09.2022

Viðhengi