Samráð fyrirhugað 08.09.2022—23.09.2022
Til umsagnar 08.09.2022—23.09.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 23.09.2022
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð

Mál nr. 160/2022 Birt: 08.09.2022
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks
  • Málefni aldraðra

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (08.09.2022–23.09.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Kveðið er á um réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjenda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingartíma. Lögð er til breytt röðun á köflum og ákvæðum laga um almannatryggingar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

Breytingarnar varða aðallega réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjenda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingartíma og ætlaðra tímabila til framtíðar. Óbreytt er grunnskilyrði almannatryggingalaga um þriggja ára tímabil tryggingarverndar (búsetu) til að öðlast rétt til örorkulífeyris en miðað er við það tímamark þegar örorkan er metin í fyrsta sinn. Lagt er til ívilnandi frávik þegar um er að ræða einstaklinga sem voru tryggðir samkvæmt lögunum við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá sama tíma og einnig þegar um er að ræða endurkomu einstaklinga sem áður hafa verið tryggðir samkvæmt lögunum og eiga hér geymd réttindi. Í því tilviki verði unnt að nálgast réttindin eftir eitt ár. Einnig er óbreytt að tímabil til framtíðar eru tekin með í reikninginn að fullu við ákvörðun örorkulífeyris, þ.e. tímabilið frá örorkumati fram til ellilífeyrisaldurs.

Þá er lagt til að skilyrði endurhæfingarlífeyris verði 12 mánaða lögheimili samfellt áður en greiðslur geta hafist í stað þess að vísað sé til ákvæða um skilyrði fyrir örorkulífeyri í lögum um almannatryggingar.

Einnig eru lagðar til nokkrar frekari breytingar, t.d. um skipun forstjóra, verkefni úrskurðarnefndar velferðarmála og hugtakanotkun samræmd.

Lögð er til breytt röðun á köflum og ákvæðum laga um almannatryggingar og á númerum lagagreina með það að markmiði að lögin verði aðgengilegri, einfaldari og skýrari aflestrar án þess þó að um miklar efnislegar breytingar sé að ræða. Þannig er sumum ákvæðum laganna skipt upp í nokkur smærri ákvæði, þannig að t.d. sérstök ákvæði verða um fjárhæðir greiðslna, tekjugrunn og áhrif tekna, einnig eru kaflar færðir til, nýjum köflum er bætt við og öðrum er skipt upp. Þá eru einstaka greinar færðar til innan sama kafla eða fluttar í aðra kafla laganna. Þannig verða ákvæði um ellilífeyri í einum kafla og ákvæði um örorkulífeyri og tengdar greiðslur í öðrum kafl. Endurröðun ákvæða og skýrari framsetning er talin auðvelda frekari breytingar á löggjöf um örorku- og ellilífeyriskerfi almannatrygginga sem stefnt er að.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jón Frímann Jónsson - 11.09.2022

Það er mikilvægt að ekki verði komið á starfsgetumatskerfi. Þar sem það er kerfi sem var fundið upp í Bretlandi og flutt út til annara ríkja með hrikalegum afleiðingum fyrir þá sem þurfa að komast á örorku eða aðrar tímabundnar greiðslur. Þar sem starfsgetumatskerfi er ekkert nema fátækrargildra. Ég sé í þessu frumvarpi, eftir stuttan yfirlestur að hérna er lagður grunnur að útgáfu af starfsetumatskerfi. Í þeim ríkjum þar sem slíkt kerfi hefur verið tekið upp á norðurlöndum (Danmörku), þá hefur niðurstaðan alltaf verið hörmung fyrir almenning sem þarf að nota félagslega kerfið og komast á örorkubætur vegna veikinda, einhverfu, geðsjúkdóma og annara hluta. Það má ekki gera kerfið þannig að vonlaust sé fyrir fólk að komast þarna inn eins og hefur verið stefnan hjá íslenskum stjórnvöldum mjög lengi. Það þarf einnig að tryggja að örokubætur og ellilífeyrir sé aðeins hærri en lágmarslaun á Íslandi á hverjum tíma. Það gengur ekki til lengdar að halda stórum hópum íslenskra ríkisborgara á fátækt vegna aðstæðna sem fólk hefur enga stjórn á. Slíkt er mannvonska og á ekki að líðast, hvorki í dag eða framtíðinni. Ef fjármögnun er vandamálið, þá á að hækka skatta á ríkasta fólk Íslands til þess að borga fyrir þetta og koma í veg fyrir undanskot á skatttekjum á Íslandi hjá ríkasta fólki Íslands (sem felur peninga í skattaskjólum samkvæmt fréttum).

Afrita slóð á umsögn

#2 Elín Theódóra Reynisdóttir - 14.09.2022

Í drögum um breytingar er aðallega horft til þess að breytingarnar varði réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjenda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingartíma og ætlaðra tímabila til framtíðar.

Mig langar að nýta tækifærið þar sem þessi drög eru í umsagnarferli, að vekja athygli ráðuneytisins á því að það hefur verið ákveðin hindrun, að greiðslur Tryggingastofnunar eru fyrirframgreiddar, þegar kemur að lokum endurhæfingar og viðkomandi er að hefja atvinnuþátttöku á ný.

Mér vitandi eru greiðslur til framfærslu allsstaðar greiddar eftir á (atvinnutekjur, sjúkradagpeningar (Sjúkratrygginga Íslands sem og stéttarfélaga), atvinnuleysisbætur, lífeyrissjóðsgreiðslur), þ.e. greiðsla fyrir ákveðið tímabil greiðist eftir á (í lok mánaðar).

Þegar einstaklingur hefur náð aukinni færni og fer aftur á vinnumarkað eða atvinnuleit, greiðast laun og atvinnuleysisbætur eftirá og það þýðir framfærslulaus mánaðarmót við upphaf atvinnuþátttöku að lokinni starfsendurhæfingu (og greiðslna endurhæfingarlífeyris).

Dæmi um einstakling sem er í endurhæfingu og nýtur greiðslna endurhæfingarlífeyris:

1.-31. júní- endurhæfingarlífeyrir Tryggingastofnunar – greitt 1. júní vegna júní

1.-31. júlí – endurhæfingarlífeyrir Tryggingastofnunar – greitt 1. júlí vegna júlí

1.-31. ágúst – endurhæfingarlífeyrir Tryggingastofnunar – greitt 1. ágúst vegna ágúst

Fyrir lok ágúst hefur einstaklingur náð þeirri færni sem hefur aukið starfsgetu og hann hefur leitað sér að og t.d. fengið starf sem hann byrjar í 1. september.

1.-30 september – Laun - greitt 30 sept. vegna september.

Þannig að viðkomandi hefur engar tekjur sér til framfærslu í byrjun sept. og getur þar af leiðandi ekki greitt reikninga eða nokkuð annað fyrr en í lok sept. Þannig gengur það koll af kolli þar til hann hefur náð sér á rétt strik. Þetta hefur sannanlega áhrif á lok starfsendurhæfingar þar sem einstaklingar verða oft hræddir, aukinn kvíði og áhyggjur af því hvernig þeir kljúfi mánuðina við þessar breytingar. Það getur leitt til bakslags og þannig komið niður á þeim árangri sem náðst hefur i endurhæfingunni.

Einnig langar mig til að benda á að fyrirkomulag greiðslna endurhæfingarlífeyris í samspili við réttindi í stéttarfélagi á sjúkradagpeningum. Sjúkradagpeningaréttur í stéttarfélögum eru taldir í dögum og veikindi geta hafist hvenær mánaðarins sem er.

Til að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri þarf m.a. að vera búið að nýta rétt sinn til sjúkradagpeninga stéttarfélags og réttindi eru talin í dögum hjá stéttarfélögum. Þegar endurhæfingarlífeyrisgreiðslur eru samþykktar þá gildir samþykkið frá fyrsta degi mánuði eftir að skilyrði eru uppfyllt. Ef einstaklingur á rétt á sjúkradagpeningum hjá stéttarfélagi til 5. ágúst, hefur hafið endurhæfingu og fær samþykktar greiðslur endurhæfingarlífeyris þá fæst fyrsta greiðsla ekki fyrr en 1. sept. (fyrir 1.-30. sept). Þá er komnir tekjulausir dagar við lok greiðslna sjúkradagpeninga og áður en endurhæfingarlífeyrisgreiðslur hefjast.

Ég tel fulla ástæðu til að skoða þessa tvo þætti varðandi greiðslufyrirkomulag endurhæfingarlífeyris enda ein mikilvægasta undirstaða þess að geta tekist á við heilsufarslegan vanda að hafa fjárhagslegt öryggi.

Elín Reynisdóttir, félagsráðgjafi

Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök atvinnulífsins - 23.09.2022

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsin um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Öryrkjabandalag Íslands - 23.09.2022

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ réttindasamtaka.

Viðhengi