Samráð fyrirhugað 20.09.2022—17.10.2022
Til umsagnar 20.09.2022—17.10.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 17.10.2022
Niðurstöður birtar

Breyting á reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti

Mál nr. 169/2022 Birt: 20.09.2022 Síðast uppfært: 20.09.2022
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 20.09.2022–17.10.2022. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti (gild persónuskilríki vegna útgáfu rafrænna skilríkja).

Á fundi 9. september 2022 sem boðaður var af Velferðarneti Suðurnesja, var athygli Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins vakin á því að hópur fólks af erlendum uppruna getur ekki fengið rafræn skilríki, sérstaklega í tilviki flóttafólks. Þetta getur valdið verulegu óhagræði fyrir þennan hóp sem á erfitt með að sækja sér ýmsa þjónustu án rafrænna skilríkja.

Til þess að gefa út rafræn skilríki er traustþjónustuveitendum rétt og skylt að styðjast við gild og viðurkennd persónuskilríki. Til viðurkenndra persónuskilríkja í þessu sambandi, skv. reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, teljast:

a. Vegabréf,

b. Ökuskírteini,

c. Nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands, eða

d. Nafnskírteini með mynd sem gefin eru út af samsvarandi erlendum stjórnvöldum.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vill skoða þann möguleika að við þennan lista bætist einnig: dvalarleyfiskort, útgefin af Útlendingastofnun. Dvalarleyfiskort eru aðeins gefin út að undangenginni ítarlegri skoðun á grundvelli reglna sem samræmdar eru innan Schengen svæðisins.

Hér eru því lögð til umsögnar drög að breytingu á reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Er í drögunum lagt til að dvalarleyfiskort sem útgefin eru af Útlendingastofnun teljist til gildra persónuskilríkja vegna útgáfu rafrænna skilríkja.

Þá er lagt til að reglugerðin verði uppfærð með vísan til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, en þeim var breytt með lögum nr. 18/2021 um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, og fer nú Fjarskiptastofa með framkvæmd eftirlits samkvæmt lögunum. Er því lagt til að reglugerðinni verði breytt til samræmis.

Athugasemdir óskast sendar í samráðsgátt eða á hvin@hvin.is. Umsagnarfrestur er til 17. október 2022.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.