Samráð fyrirhugað 22.09.2022—06.10.2022
Til umsagnar 22.09.2022—06.10.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 06.10.2022
Niðurstöður birtar 03.07.2023

Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019

Mál nr. 172/2022 Birt: 22.09.2022 Síðast uppfært: 03.07.2023
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 birtist í samráðsgátt 22.09.2022 og var frestur til að skila umsögnum til 06.10.2022. Alls bárust 33 umsagnir. Frumvarpið var lagt fram á 153. löggjafarþingi en varð ekki að lögum. Umfjöllun um niðurstöður samráðs er að finna í greinargerð frumvarpsins á vef Alþingis, sjá hlekk.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 22.09.2022–06.10.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.07.2023.

Málsefni

Innviðaráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019.

Frumvarpið er samið í innviðaráðuneytinu vegna fyrirhugaðrar innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/858 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki, reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2019/1242 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir ný, þung ökutæki, reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 um vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja, reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1054 frá 15. júlí 2020 um lágmarkskröfur um daglegan og vikulegan hámarksaksturstíma, lágmarksvinnuhlé og daglegan og vikulegan hvíldartíma og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/645 um breytingu á tilskipun 2003/59/EB um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga og á tilskipun ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini.

Starfshópur um smáfarartæki skilaði skýrslu í júní síðastliðnum og eru breytingar lagðar til í ljósi tillagna starfshópsins. Umferð smáfarartækja, sérstaklega rafhlaupahjóla, hefur aukist mjög og slys eru algeng. Þessar breytingar á umferðarvenjum hafa leitt til þess að 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru á rafhlaupahjólum, en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð. 42% alvarlega slasaðra í umferðinni á síðasta ári voru gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli og stór hluti fyrrgreindra slysa átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum. Ölvun var áberandi hjá þeim sem slösuðust seint þessa daga og samkvæmt könnun höfðu 40% vegfarenda á aldrinum 18 til 24 ára ekið rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Í hópi óvarinna vegfarenda sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru ungmenni áberandi og komu mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul á neyðarmóttöku Landsspítalans vegna slysa á rafhlaupahjólum. Framleiðendur mæla almennt fyrir um 14 til 16 ára aldurstakmark til notkunar rafhlaupahjóla sinna en ung börn má sjá á rafhlaupahjólum ætluðum eldri notendum. Þá er með einfaldri breytingu hægt að aka aflmiklum rafhlaupahjólum á mun meiri hraða en þeim er ætlað að ná, svo að þau eiga til dæmis enga samleið með umferð gangandi vegfarenda.

Sá samfélagslegi ávinningur sem leitt getur af öruggri notkun rafhlaupahjóla og annarra smáfarartækja er auðséður. Má þar í dæmaskyni nefna samdrátt í koltvísýringslosun, minni umferðarhávaða og umferðartafir en það krefst breytinga á regluverki umferðar.

Að lokum eru lagðar til aðrar breytingar, svo sem vegna umferðar á reiðstígum og heimilda ríkisaðila til álagningar og innheimtu stöðugjalda.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bjarni Geir Guðjónsson - 23.09.2022

Þó mikikvægt sé að gæta öryggis í umferðinni þá er einnig mikilvægt að aðilar geti notfært sér þá umhverfisvænu fararmáta sem til eru í heiminum. Takmarkanir sem hér er lagt fram ásamt ákvæðum eldri laga gera það að verkum að bæði rafhlaupahjól og einnig rafbifhjól lenda á milli flokka sem gera þau óhæf í flesta notkun. Það sem hér er rætt um á við um fullorðna en ekki börn. Sjálfur á ég hlaupahjól sem kostar 300.000kr og er búið batterý og mótor sem hefur afköst langt umfram það sem þessi lög heimila. Almennt nota ég móturhjólafatnað og fer ekki á hjólið nema með hjálm. Þó 25km/klst er fínt innanbæjar og á gangstéttum innan um annað fólk þá eru sumar leiðir sem annað hvort bjóða ekki upp á slíkt eða eru svo langar að tíminn sem það tæki að fara á 25 km/klst væri óhóflegur. Sem dæmi má nefna að ekki er almennilegur gangstígur alla leið frá Njarðvík og að Bláa Lóninu/Grindavík og er eina leiðin að ferðast meðfram götunni hluta leiðar. Á íslandi meiga fullorðnir nota reiðhjól án hjálms og fara á þeim hraða sem gata segir til um en rafhlaupahjól má ekki gera hið sama. Hvað gerir reiðhjól svona mikið öruggari umfram rafhlaupahjól? Hvernig stendur á því að hjólreiðamaður má vera á 30,40 jafnvel 50km/klst án hjálms en takmarka þarf rafhlaupahjól við lægri hraða. Af hverju þarf að refsa mér sem fullorðnum aðila sem kýs að nota umhverfisvænan fararmáta því ákveðinn hópur getur ekki nýtt þetta rétt. Þó flestir hjólreiðamenn hegði sér í umferðinni er það þekkt að margir þeirra brjóta reglur hægri vinstri og virða engin umferðalög en engum dettur í hug að banna notkun þeirra. Þó reglur þurfi að vera til staðar til að passa að notkun sé rétt þá eru algildar reglur án undantekninga ekki rétta leiðin. Svipað og létt bifhjól ætti þessum tækjum að vera skipt í tvennt. Annars vegar flokk sem er fyrir börn og hefur strangari reglur varðandi kraft og notkun og hins vegar flokk sem fullorðnir geta fallið undir að uppfylltum kröfum. Slíkt myndi gefa þeim færi á að nýta krafmeiri tegundir sem áheifaríka fararmáta sem einnig eru imhverfisvænir og sparsamir. Sama á við um rafmagnsbifhjól en þau sem eru á markað í dag þurfa að takmarkast við 45km/klst en meiga einnig eingöngu vera á götu. Þetta gerir það að verkum að þrátt fyrir að munur á þessum hjólum og móturhjólum fari síminnkandi þá eru stofnbrautir of hraðar og takmörk á notagildi. Sem dæmi má aftur nefna Njarðvík yfir í Bláa Lónið/Grindavík. Nær öll leiðinn er 90 gata og því aðeins hægt að vera á 50% hraða miðað við aðra umferð. Þó skiljanlega þurfi að flokka þessi hjól á ákveðinn máta þá er enginn leið(amk sem ég hef fundið) til að láta endurflokka slík hjól til að falla undir móturhjólapróf og fjarlægja þennan hraðatakmarkara. Hjól sem eru á markað í dag eru fullfær um að ná 80-90km/klst án breytinga annað en að fjarlægja takmarkara en enginn leið er til að nýta þessa getu. Til að draga saman í eitt þá er mikilvægt að útbúa betri reglur fyrir þennan flokk en það er einnig mikilvægt að gefa aðilum færi á að nýta sér þessi farartæki að fullu jafnvel þó að því fylgi t.d. skráningarskilda og tryggingar. Eldri reglur og þær nýju hafa slæm áhrif á notkunarmöguleika og hindrar fólk í að nýta sér farartæki sem eru bæði sparsöm og umhverfisvæn. Þörf er á skipu kerfi þar sem aðilar geta að uppfylltum kröfum og skilyrðum nýtt sér fulla getu sem þessi tækni veitir.

Afrita slóð á umsögn

#2 Emil Sigursveinsson - 23.09.2022

Athugasemd er gerð við 5. grein frumvarpsins um bann yngri en 13 ára við notkun rafhlaupajóla. Einnig eru gerðar athugasemdir við rök sem fylgja frumvarpinu.

Ekki er augljós samfélagslegur ávinningur af þessu banni. Eftirtalin eru rök á móti greininni í frumvarpinu:

• Mjög mikið af börnum undir 13 ára nota rafhlaupahjól daglega til ferða í skóla, frístundir, íþróttir og aðrar tómstundir. Á þetta sérstaklega við í mörgum úthverfum höfuðborgarsvæðisins sem byggð eru í brekku, hlíðum fella og þess háttar. Börnin þurfa að teyma reiðhjól upp brekkuna til að komast heim til sín úr t.d. íþróttastarfi. Ekki verður séð að bann þessa hóps við notkun rafmagnshlaupahjóla styðji við þann ávinning sem lýst er í texta sem fylgir frumvarpinu um „samdrátt í koltvísýringslosun, minni umferðarhávaða og umferðartafir“. Þvert á móti er jafn augljóst að bannið myndi auka akstur og óhagræði hjá foreldrum þessa hóps sem í auknu mæli myndu skutla og sækja börnin á bíl.

• Varðandi slysatíðni barna þarf að taka tillit til þess að rafmagns hlaupahjól eru nýjung og þarf að leiðandi er ekki við örðu að búast en að tíðnin aukist. Bera þyrfti slysatíðnina saman við slys barna á hefðbundnum reiðhjólum. Spyrja mætti hvort börnum væri bannað að nota reiðhjól ef þau væru fundin upp í dag.

• Varðandi leiðbeiningar framleiðanda má benda á að þessir framleiðendur eru bara að reyna að verja sjálfan sig. Lagt er í efa að þeir hafi gert rannsóknir á hvort börn yngri en 13 séu með þroska til að nota hjólin. Erlendir tækjaframleiðendur ættu í það minnsta ekki að stjórna íslenskri löggjöf.

• Lög um bann við notkun vegna þess hversu auðvelt er að breyta rafhlaupahjólum til að fara hraðar stenst ekki skoðun. Það gengur ekki að setja ný lög vegna þess að auðvelt sé að brjóta önnur. Við gætum þá allt eins bannað bíla vegna þess að það er hægt að aka þeim of hratt.

Undirritaður er faðir 10 ára barns sem notar rafhlaupajól sem samgöngutæki vegna íþróttastarfs þar sem mikil brekka er til þess að komast aftur heim.

Afrita slóð á umsögn

#3 Pétur Gylfi Kristinsson - 24.09.2022

Hver var upphaflegur tilgangur löggjafar þegar bann var lagt við akstri undir áhrifum áfengis? Jú, hann var væntanlega að koma í veg fyrir það mikla tjón og jafnvel dauða sem ölvaður ökumaður gat valdið öðrum akandi um í þungu stálboxi á hjólum.

Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að fella rafhlaupahjól / smáfarartæki undir þann flokk. Sá sem notar smáfarartæki undir áhrifum áfengis sem takmarkað er við max 25 km hraða er aldrei að fara að valda stórfelldu tjóni á einu né neinu nema þá á sjálfum sér. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu, þ.e.a.s. akstur bifreiðar undir áhrifum eða akstur smáfarartækis undir áhrifum.

Þeir miklu kostir sem þessi farartæki hafa í för með sér vega að mínu mati mun þyngra en svo að réttlætanlegt sé að taka upp harðar refsingar við notkun þeirra þó áfengis hafi verið neitt.

Til að fækka slysum væri mun skynsamlegra að taka upp hraðatakmörkun þannig að hraði væri að hámarki 12-15 km/klst t.d. eftir miðnætti og til 06 á morgnana á afmörkuðu svæði miðbæja eða annarra svæða þar sem búast má við fjölda fólks undir áhrifum.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ásdís Skúladóttir - 24.09.2022

Rafhlaupahjól þurfa að vera með hjólabjöllu til að gera vart við sig þegar þau koma aftan að fólki á gangstétt sem ekki eru með akrein sérlega fyrir hjól. Það verður að skoða hvaða hljóð í bjöllu henta flestum þar sem heyrn fólks er mismunandi og byjrar tiltölulega snemma á lífsferlinu. Hafa í því efni samráð við fagmenn. Það skal og ver saknæmt að nýta ekki þessa bjöllu. Einnig skal ver sakæmt að keyra fram úr fólki báðum megin við það bæði á ómerkti gangstétt og sérmerktum göngubrautum.

Afrita slóð á umsögn

#5 Viðar Freyr Guðmundsson - 24.09.2022

Geri þá athugasemd að í núgildandi lögum er þegar hægt að taka á ölvunarakstri á rafhlaupahjólum og reiðhjólum. Það væri kannski hreinlegast að brýna þetta fyrir lögreglunni og biðja um að framfylgja þessum lögum.

En rafhlaupahjól teljast til 'reiðhjóla' í skilningi laganna. (sjá skilgreiningu á reiðhjóli í lögunum)

Ein skilgreiningin á 'reiðhjóli' er:

"Annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut." (takið sérstaklega eftir orðinu 'ökutæki' þarna. Það skiptir máli hérna.)

Þá er líka gerður greinarmunur á 'vélknúnum ökutækjum' og 'ökutækjum'. Allt sem sagt er í lögunum um 'ökutæki' hlýtur þá að eiga einnig við um reiðhjól og rafhlaupahjól eins og það er skilgreint. Það er sérstaklega tekið fram að 'reiðhjól' teljist ekki til 'vélknúinna ökutækja'. En nærri öll önnur farartæki á hjólum teljast til 'ökutækja'.

"Vélknúið ökutæki: Ökutæki, annað en reiðhjól, sem ætlað er til aksturs á landi og er búið aflvél til að knýja það."

..

"Ökutæki: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori." (OK, má þá stýra lest fullur?)

Þannig að lögin þurfa þá að lesast með þetta í huga. Í fyrsta lagi: að rafhlaupahjól = reiðhjól. Í öðru lagi: rafhlaupahjól = ökutæki. Það eina í lögunum sem gildir því ekki um rafhlaupahjól er þar sem sérstaklega er sagt 'vélknúið ökutæki', eða eitthvert annað skilgreint hugtak.

Þá segir tam. í 48. gr, 2.mgr.:

" Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ellihrumleika, ofreynslu, svefnleysis eða neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða af öðrum orsökum er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega."

..þetta gildir því um hjól líka

Varðandi vínandamagn þá er ekki tekið fram að þetta gildi eingöngu um 'vélknúin ökutæki' eða 'bifreiðar':

"Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20‰, en er minna en 1,20‰, eða magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, en er minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt magn vínanda í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega."

Og lögregla hefur fulla heimild til að fara fram á öndunarpróf hjá þeim sem stýra hverskonar 'ökutæki', enda ekki tekið fram að átt sé við 'vélknúin ökutæki' eingöngu:

"Lögreglan getur fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. [hér að ofan] eða 4. mgr. 48. gr., sbr. 49. og 50. gr., eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Liggi fyrir grunur um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglan auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Sama á við þegar grunur er um akstur undir áhrifum áfengis og sérstakar ástæður mæla með því."

Svo þetta sé alveg skýrt, þá er sumstaðar tekið fram sérstaklega í lögunum að átt sé við hjól og hesta líka (þó hestar teljist ekki til ökutækja, eins og það er skilgreint):

"Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna að hann getur ekki stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega." (óljóst er þá hvaða viðurlög eru við að stjórna hesti undir áhrifum við mína snöggu yfirferð)

En mér sýnist að kannski þurfi bara að framfylgja núgildandi lögum. Og ætti ekki að bíða með það.

Afrita slóð á umsögn

#6 Haraldur Steinþórsson - 25.09.2022

Umsögn í viðhengi.

O

/\_

/|_ |

_/_|_|__

(o) (o)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Grétar Hallur Þórisson - 29.09.2022

Varað er við að leyfa aðra umferð á reiðstígum landsins en ríðandi. Gangandi fólk eitt og sér er hugsanlega ásættanlegt en þá með því fororði að reiðmenn hafi skilyrðislausan forgang og verði göngufólk ávallt að víkja af vegi fyrir hestamönnum.

Hjól,barnavagnar,hundar í bandi eða hvað annað sem valdið getur ótta hjá hrossum er óásættanlegt með öllu vegna aukinnar slysahættu.

Afrita slóð á umsögn

#8 Sigfús Ásgeir Kárason - 29.09.2022

Góðan dag,

Það er fullkomlega óraunsætt að hafa aldurstakmark á rafhlaupahjólum 13 ára. Hvað með reiðhjól, gírahjól sem komast mun hraðar? Á að setja aldurstakmörk á þau líka? Hvað hraða varðar er enginn munur á gírahjólum og rafknúnum hlaupahjólum. Vinsamlegast athugið að skutlferðum með börnin hefur snarfækkað hjá mörgum foreldrum sem sparar peninga og hefur jákvæð umhverfisáhrif. Við eigum líka að treysta börnunum fyrir hjólunum sem langsamlega flest kunna að nota þau á réttan hátt. Það kemur líka fram í drögunum hér að ofan að "stór hluti fyrrgreindra slysa átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum". Ekki láta misnotkun fullorðna fólksins á rafknúnum hlaupahjólum bitna á börnunum og foreldrum þeirra.

En til að finna milliveginn legg ég eftirfarandi til, til viðbótar við drögin sem liggja fyrir nú þegar,

- Aldurstakmark á rafknúnum hlaupahjólum verði 11 ára

- Börn yngri en 17 ára mega ekki aka á rafknúnu hlaupahjóli sem fer hraðar en 25km/klst

Rafknúin hlaupahjól er frábær ferðamáti, umhverfisvænn og hagkvæmur. Búum þannig um hnúta að sem flestir geti notað hann, en um leið má setja strangar reglur um að þau séu notuð á öruggan hátt.

Kveðja,

Faðir þriggja barna

Afrita slóð á umsögn

#9 Bragi Freyr Gunnarsson - 29.09.2022

Ég geri hér með athugasemd við fyrirhugaða breytingu á 1.gr laganna, sem snýr að umferð um reiðstíga sem er orðuð á eftirfarandi hátt í drögum:

"Reiðstígar eru skilgreindir svo að um þá sé heimil umferð gangandi vegfarenda, auk

reiðmanna"

Í athugasemdinni er vísað í útivistarsvæði Höfuðborgarsvæðisins, en athugasemdin á þó við stíga á landinu öllu.

Útivistarsvæði ibúa Höfuðborgarsvæðisins í Heiðmörk, á Hólmsheiði, fyrir ofan Hafnarfjörð og víðar eru sundurskorin af vegum og stígum sem notaðir eru af fjöbreyttum hópi notenda sem fara um þá ríðandi, gangandi, hjólandi og skíðandi. Einhverjir þessara stíga voru upprunalega skipulagðir sem reiðstígar og merktir sem slíkir. Mikill meirihluti stíganna var þó ekki skipulagður sem reiðstígar í upphafi, en hafa, þrátt fyrir það og í leyfisleysi, verið merktir sem slíkir af hestamannafélögum á Höfuðborgarsvæðinu.

Útivistarmenning Íslendinga hefur breyst mjög mikið á undanförnum 10-15 árum og hefur fjöldi fólks sem sækir í að stunda áhugamál sín á téðum útivistarsvæðum stóraukist samhliða því. Raunar má fullyrða að hestafólk sé mikill innihluti notenda útivistarsvæðanna í kringum Höfuðborgarsvæðið. Það væri því fráleit ráðstöfun að útiloka stóran hóp útivistarunnenda frá því að nota stíga sem lagðir hafa verið fyrir almannafé, því hestamannafélög þiggja vissulega styrki frá hinu opinbera til að leggja reiðstíga. Eins myndi skapast óvissa meðal notenda um hvaða stíga væri leyfilegt að nota og hvaða stíga ekki, vegna áðurnefndra merkinga hestamannafélaganna.

Það er þó rétt að skerpa má á reglum um notkun stíga sem skilgreindir eru sem reiðstígar af hinu opinbera. Raunar mætti skerpa á þessum reglum fyrir nær alla útivistarstíga á landinu með eftirfarandi hætti:

- Gangandi/skíðandi/hjólandi ber að víkja fyrir ríðandi.

- Hjólandi ber að víkja fyrir gangandi/skíðandi.

- Farartæki sem ekki krefjast framlags ökumanns með öllu óheimil, að undanskildum þeim sem notuð eru vegna skertrar hreyfigetu notandans. (Hér er átt við vélknúin ökutæki og reiðhjól sem ekki krefjast þess að ökumaður stígi pedala til að hreyfast)

Með þessum hætti ættu öll þau sem vilja njóta útivistar og stunda áhugamál sín á útivistarsvæðum getað gert það átölulaust, en þó þannig að það skerði noktunarmöguleika annarra með sem minnstum hætti.

Afrita slóð á umsögn

#10 Halldór Helgi Halldórsson - 04.10.2022

Sem hestamaður og fyrrverandi formaður Ferða- og samgöngunefndar Landssambands hestamannafélaga geri ég undirritaður eftirfarandi athugasemdir við drög að breytingum við umferðarlög, nr. 77 / 2019.

Í 1. gr. lið b. segir; 31. tölul. orðast svo: Reiðstígur: Vegur eða stígur skipulagður af sveitarfélagi fyrir umferð reiðmanna á hestum og merktur er sem slíkur, þar sem er heimil umferð reiðmanna og gangandi vegfarenda.

Því er mótmælt að sér skilgreindir reiðstígar eigi að skilgreinast einnig sem göngustígar og skapa þannig aukna slysahættu fyrir ríðandi umferð á reiðstígunum.

Sú ráðstöfun að skilgreina reiðstíg sem göngu- og reiðstíg leiðir til aukinnar hættu á að gangandi fólk fari með t.d. barnavagna eða kerrur, á gönguskíðum, með hunda, ofl. þ.h. inn á reiðstígana og skapi þannig aukna slysahættu fyrir ríðandi umferð.

Benda má á að oft eru börn og unglingar ein á hestum sínum í nágr. hesthúsahverfa og að fólk er mislangt komið í sinni hestamennsku og bregst misjafnlega við aðsteðjandi hættum.

Komi til þessa að frumvarpið fari óbreytt fyrir Alþingi og verði samþykkt þannig þá hljóta þær spurningar að verða áleitnar hvort ríðandi umferð verði þá heimil á skilgreindum göngustígum.

Að mati undirritaðs er farsælast að hafa skilgreiningu göngu-, hjóla, og reiðstíga óbreytta frá því sem nú er.

Afrita slóð á umsögn

#11 TM tryggingar hf. - 04.10.2022

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Landssamband hestamannafélaga - 05.10.2022

Athugasemdir við drög að frv. um breytingar á umferðarlögum.

Landssamband hestamannafélaga gerir alvarlegar athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, staflið b, þar sem lagt er til að umferð gangandi vegfarenda verði heimil á reiðstígum.

Ef reiðstígar, eins og þeir eru skilgreindir , yrðu einnig skilgreindir sem göngustígar, myndi það skapa mikla slysahættu. Umferð gangandi fólks, hlaupandi, barnavagna, gönguskíðafólks og hundafólks fer illa saman með umferð hestafólks. Hestar og knapar eru á mismunandi aldri og með mismunandi reynslu og bregðast ólíkt við aðstæðum og aðsteðjandi hættum. Þetta myndi líka skapa mikla hættu fyrir gangandi vegfarendur, hesturinn er flóttadýr og ef hann fælist vegna gangandi vegfaranda er öryggi allra í hættu.

Einnig er vert að benda á að viðhald og uppbygging reiðvega er framkvæmd og kostuð af reiðvegafé hestamannafélaganna, en göngustígar eru kostaðir og viðhaldið af sveitarfélögunum.

Landssamband hestamannafélaga telur að ekki skuli breyta skilgreiningu á göngu-, hjóla- og reiðstígum frá því sem nú er og halda umferð hestamanna sem mest aðskildri frá annarri umferð útivistarfólks.

Afrita slóð á umsögn

#13 Hjalti Már Björnsson - 05.10.2022

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr 77/2019.

Fram kemur í 2. kafla greinargerðar með frumvarpinu að margar af þeim breytingum sem í frumvarpinu felast miðast að því að draga úr slysum vegna rafhlaupahjóla. Undirritaður starfar sem bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítala og sinnir þar afleiðingum umferðarslysa, þar á meðal slysum vegna rafhlaupahjóla og þekkir því vel til þessa málaflokks.

Það er rétt að enn er slysatíðni umtalsverð meðal þeirra sem nota rafhlaupahjól. Unnið hefur verið að fræðslu um forvarnir auk þess að bæta innviði fyrir þennan samgöngumáta sem vonandi mun draga úr slysatíðninni.

Skynsamlega hljómar að grípa til tæknilegra lausna til að takmarka þann hraða sem unnt er að koma hjólunum á. Það er þó sérkennilegt að löggjafinn skuli hér taka fyrir eina tegund vélknúinna ökutækja og setja reglur tæknilegar lausnir til hraðatakmörkunar. Tæknilega ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja einnig takmarkanir á það hversu hratt er unnt að keyra bíla, enda fráleitt að leyfa bíla á götum og vegum landsins sem unnt er að aka langt yfir þeim 90 km/klst sem er hámarkshraði á landinu. Að aka rafhlaupahjóli á 40 km/klst er hættulegt, mest þó fyrir þann sem er á hjólinu. Að aka bíl á 130 km/klst hraða er enn hættulegra, sérstaklega fyrir aðra í umferðinni. Með sömu rökum og telft er fram í frumvarpinu og greinargerð þess skyldi því ætla að það ætti að vera stefna löggjafans að innleiða búnað í öll vélknúin samgöngutæki sem takmarkar hversu hratt er hægt að fara, ekki bara rafhlaupahjól. Þar sem flestir nýir bílar eru með staðsetningarbúnað ætti að vera hægt að takmarka hámarkshraða ökutækja við leyfðan hámarkshraða þeirrar götu sem ökutækinu er ekið á hverju sinni. Með vísan til hættueiginleika bifreiða fyrir aðra en þann ökumann sem brýtur gegn umferðarlögum, ætti að vera meiri ástæða til að grípa til slíkra aðgerða og lagðar eru til í frumvarpinu, gagnvart bifreiðum frekar en rafhlaupahjólum.

Þá vill undirritaður gera athugasemd við 14. grein frumvarpsins er varðar refsingu fyrir að vera stjórna smáfaratæki undir áhrifum áfengis.

Að keyra bíl undir áhrifum áfengis er stórhættulegt athæfi, ekki bara fyrir ökumanninn heldur fylgir ölvunarakstri sennilega enn meiri hætta fyrir óvarða vegfarendur. Því er eðlilegt að þung refsing liggi við því að stefna öðrum í hættu með ölvunarakstri.

Einnig er hættulegt að ferðast um á rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis. Í rannsókn undirritaðs og fleiri frá bráðamóttöku Landspítala reyndust um 40% þeirra sem höfðu slasast á rafhlaupahjóli á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2020 hafa verið undir áhrifum áfengis.

Það er þó mikilvægur grundvallarmunur á að aka bíl undir áhrifum áfengis eða að vera á rafhlaupahjóli þar sem hætta fyrir aðra vegfarendur er mun minni þegar einhver ferðast ölvaður á rafhlaupahjóli. Þannig var í uppgjöri okkar einungis 7% slysanna talin vegna áreksturs. Ekki var þar sundurgreint hvort um árekstur við kyrrstæðan hlut var að ræða, hvor hinn slasaði ók á annan vegfaranda eða annar vegfarandi ók á þann sem slasaðist. Þá var ekki heldur skráð hvort viðkomandi var undir áhrifum áfengis. Lang flest slysa á rafhlaupahjólum reyndust vera vegna þess að viðkomandi fór of hratt, missti jafnvægið, ójafna var á götu eða að bremsa þurfti skyndilega. Rannsókn okkar bendir því sterklega til þess að ekki sé mikið vandamál að ölvaðir notendur á rafhlaupahjóli séu að aka á aðra vegfarendur og valda áverkum. Sjá nánar hér:

https://www.laeknabladid.is/media/2021-05/f02.pdf

Að ferðast á rafhlaupahjóli ölvaður er afar óskynsamlegt. Hið sama má segja um að klifra upp í tré, valhoppa tröppur niður í kjallara eða nota borvél undir áhrifum áfengis. Reyndar má færa rök fyrir því að það sé almennt óskynsamlegt að verða ölvaður, því fylgir umtalsverð slysahætta.

Að mínu mati er hættan af notkun á rafhlaupahjólum undir áhrifum áfengis að langmestu leyti fyrir þann sem er á rafhlaupahjólinu. Hætta fyrir aðra vegfarendur er vissulega til staðar en engan vegin nægilega mikil til að hún réttlæti að við liggi refsirammi í lögum allt að 2 ára fangelsi.

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir

Yfirlæknir, bráðamóttöku Landspítala

Lektor í bráðalækningum við Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#14 Jón Þór Ólafsson - 05.10.2022

Umsögn við drög að frumvarpi um Smáfarartæki.

__________________________________

ATH - Í viðhengjunum er að finna bæði word og pdf fælar með allri umsögnin að neðan, en til viðbótar er þar að finna samanburði á gildandi umferðarlögum og tillögum frumvarpsdragana ásamt tillögum að breytingum.

__________________________________

Undirritaður tekur undir með frumvarps höfundum í kafla 2 í greinargerð frumvarps draganna að:

“Sá samfélagslegi ávinningur sem leitt getur af öruggri notkun rafhlaupahjóla og annarra smáfarartækja er auðséður. Má þar í dæmaskyni nefna samdrátt í koltvísýringslosun, minni umferðarhávaða og umferðartafir en það krefst breytinga á regluverki umferðar.”

Undirritaður fagnar jafnframt því sem fram kemur í drögum að skýrslu verkefnishóps um smáfarartæki að og liggur til grundvallar frumvarps draganna að:

Markmið verkefnishóps um smáfaratæki er að gera tillögur um aðgerðir sem miða að því að búnaður, umhverfi og notkun smáfaratækja séu örugg. Annað meginmarkmið þessa verkefnis er að styðja við innleiðingu fjölbreyttra og umhverfisvænni ferðamáta.

Meginmarkmið fyrirhugaðrar lagabreytingar um smáfarartæki er farsæl. Samantekt á þessum markmiðum gæti verið:

Með breytingu á regluverki sé stutt við innleiðingu ferðamáta sem eru fjölbreyttir og umhverfisvænni með minni umferðartöfum, með því að miða að því að smáfaratæki búi við öruggi hvað varðar búnað, umhverfi og notkun.

Undirritaður beinir umsögn sinni í þessu ljósi að þeim greinum frumvarps draganna sem snúa að smáfarartækjum.

__________________________________

Um a-lið 1. gr. - Þrengri hraðatakmarkanir í stað banns við notkun yngri en 13 ára.

Til að bregðast við umsögnum á samráðsgátt stjórnvalda um 13 aldurstakmark á notkun vélknúinna hlaupahjóla. Mögulegt er að tryggja öryggi barna yngri en 13 ára með því að notast áfram við breyttan C-lið 30. tölul. og setja inn þar frekari hraðatakmörkun fyrir börn yngri en 13 ára. Jafnframt væri þá tryggt að slík farartæki mættu ekki aka á akbraut.

__________________________________

Um b.lið 1. gr. - Gangandi vegfarendur á reiðstígum.

Undirritaður leggur til að liðurinn sé samþykktur óbreyttur og samhliða séu lagðar til frekari takmarkanir á áfengismagni knapa, sem í meira mæli verða í kringum gangandi vegfarendur.

__________________________________

Um c-lið 1. gr. - Skilgreining á Smáfarartækjum.

Lagt er til að hámarkshraði smáfarartækja verði 25 km á klst. 25 km hraði er hættulegur í kringum gangandi vegfarendur. Á meðan reiðhjól eru komast auðveldlega á 30-40 km hraða á hjólastígum, þar sem það er öruggt. Jafnframt er 25 km hraði hættulegur á götu þar sem hámarkshraði er 30 km og bílar því stanslaust að taka fram úr rafhlaupahjólum sem komast ekki hraðar en 25 km á klst.

Til að auka öryggi allra vegfarenda er lagt til að miða umferðarhraða almennt við umferðarmannvirkið og þá umferð sem það er gert fyrir. Breytingartillagan gæti verið orðuð á þá leið að: “Á gangstéttum og í kringum gangandi vegfarendur skal hámarkshraði ekki vera hærri en röskur gönguhraði eða 10 km á klst. Hámarkshraði skal að öðru leyti miðast við aðra vegfarendur og hámarkshraða umferðarmannvirkis.” Með þessu móti er hraði smáfarartækja öruggari í kringum gangandi vegfarendur á mannvirkjum sem gerð eru fyrir umferð þeirra, í kringum bíla á akbrautum og í kringum reiðhjól á hjólastígum.

Ef áfram er vilji fyrir því að festa hámarkshraða smáfarartækja væri þá hægt að miða hámarkshraða getu þeirra í samræmi við hámarkshraða þeirra umferðarmannvirkja sem þau mega ferðast á, t.d. Milli 30 - 40 km á klst sem er sá hraði sem reiðhjólum er heimilt og geta á hjólastígum ferðast á.

__________________________________

Um b.lið 4. gr. - Smáfarartæki geti nýtt akbrautir með hámarkshraða 30 á klst..

Þetta er mjög farsæl breyting sem fjölgar þeim umferðarmannvirkjum sem ökumenn smárartækja geta ekið á og minnkar þörf þeirra að aka á göngustígum. Þetta eykur öryggi gangandi vegfaranda en til getur skapað ökumönnum smáfarartækja aukna hættu á akbrautum. 25 km hámarkshraði getur verið hættulegur á götu þar sem hámarkshraði er 30 km og bílar því stanslaust að taka fram úr rafhlaupahjólum.

Tillagan er mjög góð og og lagt til að hún sé samþykkt óbreytt, en jafnframt að hámarkshraði smáfarartækja verði 30 km/ á klst á akbrautum var sem hámarkshraðinn er 30 km á klst. Sjá tillögu við breytingu á c-lið 1. gr að ofan.

__________________________________

Um 6. og 14. gr. - Bann við ölvunarakstri, sektir eða fangelsi.

Það er mjög jákvætt að taka skuli á ölvunarakstri. Svo þær breytingar nái betur tilgangi sínum í samræmi við jafnræði og meðalhóf eru tvær ábendingar.

Ölvaður knapi, á 300 kílóa hesti sem sparkar, er hættulegri þeim sem hann er í kringum en ölvaður ökumaður á löglegu rafdrifnu hjóli á 25 km hraða. Báðir eru þeir hættulegir og lögin ættu að endurspegla það. Frumvarps drögin taka ekki á ölvun knapa eða ökumanna reiðhjóla en virðast leggja til að ölvaður ökumaður á löglegu rafhlaupahjóli eða rafhjóli á 25 km hraða "skal sæta sömu refsingu" og ölvaður ökumaður á nokkurra tonna bifreið á 90 km hraða.

Í ljósi þeirra upplýsinga um slysatíðni frá starfshópi um smáfarartæki er ljóst að lögleg rafhlaupahjól eru mun sambærilegri við reiðhjól eða hesta en bifreiðar, er eðlilegt að þegar takmarka eigi magn áfengis og setja refsingar að tillits sé tekið til þessa. Lagt er til að láta sömu reglur um ölvun og gilda um reiðhjól og hesta gilda líka um smáfarartæki og þau ákvæði endurskoðuð í ljósi hættunnar sem ölvunin sannarlega skapar.

__________________________________

Með þökkum fyrir það umsagnarferli sem Samráðsgáttin býður upp á og óskir um velfarnað við áframhaldandi vinnu við frumvarpið.

Jón Þór Ólafsson

Notandi rafhjóla og rafhlaupahjóla í á annan áratug

og fyrrv. Alþingismaður.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Þorsteinn Kr. Ásgrímsson Melén - 05.10.2022

Í 1. gr. þingskjalsins er fyrirhugið breyting á 3. gr. umferðarlaga, sem snýr að skilgreiningu á reiðstígum og umferð um slíka stíga. Geri ég athugasemd við þessa tillögu.

„31. tölul. orðast svo: Reiðstígur: Vegur eða stígur skipulagður af sveitarfélagi fyrir umferð reiðmanna á hestum og merktur er sem slíkur, þar sem heimil er umferð reiðmanna og gangandi vegfarenda.”

Í greinargerð með frumvarpinu er í raun lítið vikið að því af hverju umrædd breyting er lögð til annað en að það hafi borið á umræðu um heimila umferð á reiðstígum: „Þá hefur borið hefur á umræðu varðandi heimila umferð á reiðstígum og kom sökum þess til skoðunar kom hvort leggja ætti til breytingar á gildandi umferðarlögum. Ástæða þykir til að í lögum verði kveðið skýrt á um þá umferð sem heimil er á reiðstígum og með ákvæðinu er lagt til að umferð gangandi vegfarenda auk reiðmanna verði heimil á reiðstígum.”

Ekki er nánar vísað til þess hvaða umræða það sé eða af hvaða tagi hún er, en verði þessi tillaga samþykkt óbreytt er hún skref í átt þess að skerða réttindi hjólandi um núverandi sameiginlega vegi og stíga á útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins, svo sem í Heiðmörk, á Hólmsheiði og í upplandi Hafnarfjarðar.

Rétt er að hafa í huga að stór hluti þeirra stíga sem í dag hafa verið merktir af hestafólki sem reiðstígar voru upphaflega ekki lagðir sem slíkir, heldur m.a. línuvegir eða malarslóðar fyrir ýmsa umferð um heiðarlandið.

Þróunin undanfarið hefur þó verið á þann hátt að margir þessara vega og slóða hafa verið merktir sem reiðstígar þótt ekkert liggi fyrir um það í skipulagi sveitarfélaganna. Til viðbótar getur sama leið verið merkt sem reiðleið t.d. hjá Garðabæ, en sem malarstígur í skipulagi Hafnarfjarðar eða Kópavogs. Í einhverjum tilfellum, eins og t.d. á línuvegi sem liggur á milli Vífilstaðahlíðar og Guðmundarlundar er leiðin merkt sem reiðstígur hjá Garðabæ, áður en hún fer á kafla inn í Kópavog og er þar hefðbundinn stígur og svo að lokum aftur inn í Garðabæ þar sem leiðin er reiðstígur. Á þessari sömu leið er svo nýr skátaskáli skátafélagsins Vífils í Garðabæ og því myndi það líklega þýða að ekki væri hægt að keyra þangað með börn eða aðföng né að Landsnet gæti farið umrædda vegi í því skyni að fylgjast með háspennulínum.

Þessi útivistarsvæði höfuðborgarinnar eru full af allskonar vegum og stígum sem eru notaðir af mismunandi ferðamátum. Ef umrædd lagabreyting fer óbreytt í gegn þýðir það að fjöldi þessara stíga verður ónothæfur fyrir t.d. hjólandi umferð, sem hefur nýtt þá sem tengileiðir, en oft er erfitt að komast á milli mismunandi vega nema í gegnum annaðhvort skipulagða reiðstíga eða stíga sem hestafélög hafa byrjað að kalla reiðstíga en eru á skipulagi áfram blandaðir stígar.

Þá er rétt að geta þess að útivistarmenning höfuðborgarbúa hefur breyst gríðarlega mikið á undanförnum árum. Þannig hafa fjallahjólreiðar aukið vaxandi vinsælda og svokallaðar malarhjólreiðar hafa einnig vaxið gríðarlega. Þetta eru allt útivistahópar sem nota mismunandi stíga og vegi á fyrrnefndum útivistarsvæðum. Ef rétt þykir að skerpa frekar á reglum um notkun stíganna væri mun nær að skilgreina hvaða notendahópar skuli víkja fyrir öðrum, rétt eins og er gert í umferðalögum um umferð á götum.

Þorsteinn Ásgrímsson

Afrita slóð á umsögn

#16 Margrét Dögg Halldórsdóttir - 05.10.2022

Athugasemdir við drög að frv. um breytingar á umferðarlögum.

Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ gerir alvarlegar athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, staflið b, þar sem lagt er til að umferð gangandi vegfarenda verði heimil á reiðstígum.

Ef reiðstígar, eins og þeir eru skilgreindir , yrðu einnig skilgreindir sem göngustígar, myndi það skapa mikla slysahættu. Umferð gangandi fólks, hlaupandi, barnavagna, gönguskíðafólks og hundafólks fer illa saman með umferð hestafólks. Hestar og knapar eru á mismunandi aldri og með mismunandi reynslu og bregðast ólíkt við aðstæðum og aðsteðjandi hættum. Þetta myndi líka skapa mikla hættu fyrir gangandi vegfarendur, hesturinn er flóttadýr og ef hann fælist vegna gangandi vegfaranda er öryggi allra í hættu.

Einnig er vert að benda á að viðhald og uppbygging reiðvega er framkvæmd og kostuð af reiðvegafé hestamannafélaganna, en göngustígar eru kostaðir og viðhaldið af sveitarfélögunum.

Landssamband hestamannafélaga telur að ekki skuli breyta skilgreiningu á göngu-, hjóla- og reiðstígum frá því sem nú er og halda umferð hestamanna sem mest aðskildri frá annarri umferð útivistarfólks.

Fh Harðar

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður

Afrita slóð á umsögn

#17 Jón Þór Ólafsson - 06.10.2022

Framhalds umsögn til að bregðast við ábendingum við umsögn minni að ofan varðandi c-lið 1. gr. - Skilgreining á Smáfarartækjum.

__________________________________

Fram hafa komið mörg sjónarmið að 10km hámarkshraði á gangstétt virkar illa úti á landi þar sem margar götur sem gangstéttar liggja við eru með 50km hraða og smáfarartæki sem ekki mega nota götur með meira en 30 km hámarkshraða eru þá föst á 10 km hraða.

Ábendingin er góð og kannski er farsælt að binda 10 km hámarkshraða við umferðina, þ.e. í kringum gangandi vegfarendur, í stað þess að binda hámarkshraðan við umferðarmanvirkið, þ.e. gangstéttir.

Þá væri hægt að fara hraðar á gangstéttum nema þegar farið er framhjá gangandi umferð. Þannig væri tekið tillit til bæði öryggis vegfarenda og nýtingu fararmátans.

Sem fordæmi kom ný regla við gildistöku gildandi umferðarlaga að hámarkshraði í vistgötu, sem hefur blandaða umferð og þ.m.t. gangandi umferð, skyldi fara úr 15 kn/klst í 10 km/klst.

__________________________________

Uppfærð umsögn um c-lið 1. gr. - Skilgreining á Smáfarartækjum.

Lagt er til að hámarkshraði smáfarartækja verði 25 km á klst. 25 km hraði er hættulegur í kringum gangandi vegfarendur. Á meðan reiðhjól eru komast auðveldlega á 30-40 km hraða á hjólastígum, þar sem það er öruggt. Jafnframt er 25 km hraði hættulegur á götu þar sem hámarkshraði er 30 km og bílar því stanslaust að taka fram úr rafhlaupahjólum sem komast ekki hraðar en 25 km á klst.

Til að auka öryggi allra vegfarenda er lagt til að miða umferðarhraða almennt við umferðarmannvirkið eða þá umferð sem það er gert fyrir. Breytingartillagan gæti verið orðuð á þá leið að: “Í kringum gangandi vegfarendur skal hámarkshraði ekki vera hærri en röskur gönguhraði eða 10 km á klst. Hámarkshraði skal að öðru leyti miðast við hámarkshraða umferðarmannvirkis.”

Sem fordæmi fyrir 10 km hraða í kringum gangandi umferð kom ný regla við gildistöku gildandi umferðarlaga að hámarkshraði í vistgötu, sem hefur blandaða umferð og þ.m.t. gangandi umferð, skyldi fara úr 15 km á klst niður í 10 km á klst.

Fram hafa komið mörg sjónarmið að í tilfelli gögnustíga sé farsælla að binda hámarkshraðan við umferðina í stað umferðarmannvirkisins. Því ef að 10 km hámarkshraði er bundin við gangstéttir eru ökumenn smáfarartækja úti á landi fastir á 10 km hraða þar sem margar götur sem gangstéttar liggja við eru með 50 km hraða en frumvarp drögin heimila smáfarartækjum aðeins að nota götur með 30 km hámarkshraða. Með þessari nálgun væri hægt að fara hraðar á gangstéttum nema þegar farið er fram hjá gangandi umferð. Þannig væri tekið tillit til bæði öryggis vegfarenda og nýtingu fararmátans.

Ef áfram er vilji fyrir því að festa hámarkshraða smáfarartækja væri þá hægt að miða hámarks stuðningshraða þeirra í samræmi við hámarkshraða þeirra umferðarmannvirkja sem þau mega ferðast á, t.d. Milli 30 - 40 km á klst sem er sá hraði sem reiðhjólum er heimilt og geta á hjólastígum ferðast á. Sé það ekki gert væri hægt að setja í staðinn hraðatakmörk á hjólastíga.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til hér er hraði smáfarartækja öruggari í kringum gangandi vegfarendur á mannvirkjum sem gerð eru fyrir umferð þeirra, í kringum bíla á akbrautum og í kringum reiðhjól á hjólastígum.

__________________________________

Ýtreka þakkir fyrir umsagnarferlið og óskir um velfarnað við áframhaldandi vinnu við frumvarpið.

Jón Þór Ólafsson

Notandi rafhjóla og rafhlaupahjóla í á annan áratug

og fyrrv. Alþingismaður.

p.s. uppfærð skjöl er að fina í viðhenginu.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Júlíus Atlason - 06.10.2022

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu æa umferðarlögum, nr. 77/2019, mál nr. 172/2022.

Athugasemdirnar sem hér fylgja snúa að drögum um ákvæði er varða smáfarartæki. Jákvætt er að grípa til aðgerða til að minnka alvarleg slys í umferðinni. Hins vegar er lítil röksemdafærsla og ekki vísað í neinar rannsóknir sem sýna að þær lagabreytingar sem lagðar eru til muni minnka slysahættu án þess að draga verulega úr þeim ”… samfélagsleg[a] ávinning[i] sem leitt getur af öruggri notkun rafhlaupahjóla og annarra smáfarartækja” (tilvísun úr 2. kafla greinargerðar með drögunum). Í greinargerðinni með frumvarpinu virðist tölfræði vera tekin úr samhengi og beitt til þess að fá niðurstöðu sem hentar ályktuninni. Í greinargerðinni er einnig að finna beinar rangfærslur.

Í stað þess að leggja til boð og bönn ætti innviðaráðuneytið að efla forvarnir og fræðslu, t.d. með námskeiðum í grunnskólum, og bæta stíga fyrir reiðhjól og smáfarartæki þannig að þau þyrftu ekki að fara upp og niður kanta við hver gatnamót með tilheyrandi slysahættu og þyrftu ekki að nota sömu stíga og gangandi vegfarendur.

Í 2. kafla í greinargerðinni með frumvarpi segir sem tilefni og nauðsyn lagasetningar: ”Þessar breytingar á umferðarvenjum hafa leitt til þess að 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru á rafhlaupahjólum, en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð.” Ef markmiðið er að laga þessi hlutföll mætti frekar bæta umferðarmannvirki fyrir smáfarartæki til að fækka slysum og auka hlutfall ferða í umferðinni á smáfarartækjum.

Í 5. gr. b lið segir ”Barn yngra en 13 ára má ekki aka smáfarartæki”. Ástæður fyrir því að setja slíkt bann á er ekki rökstutt með neinum rannsóknum heldur virðist frekar litast af geðþóttarákvörðun og afturhaldssemi. Eitthvað er um að börn noti rafhlaupahjól sem reglulegan ferðamáta í stað þess að þurfa að vera keyrð. Því er líklegt að þetta muni hamla þeim samfélagslega ávinningi sem leitt getur af öruggri notkun rafhlaupahjóla.

Í greinargerð með frumvarpinu er einhvers konar tilraun til röksemdufærslu fyrir þessu ákvæði í. Þar segir meðal annars ”Framleiðendur mæla almennt fyrir um 14 til 16 ára aldurstakmark til notkunar rafhlaupahjóla sinna…”. Þetta er beinlínis rangt. Margir framleiðendur framleiða sérstök rafhlaupahjól fyrir börn niður í mjög ungan aldur. Rafhlaupahjól fyrir börn eru yfirleitt með aflminni mótor, og komast því ekki eins hratt, og eru oft með aðra eiginleika, t.d. tvö hjól að framan, sem auka öryggi barna.

Í greinargerðinni segir einnig ”Í hópi óvarinna vegfarenda sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru ungmenni áberandi og komu mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul á neyðarmóttöku Landsspítalans vegna slysa á rafhlaupahjólum”. Í fyrra hluta málsgreinarinnar er ekki skýrt hvort hér séu öll slys ungmanna, þ.m.t. gangandi vegfarandi. Þó að börn niður í átta ára gömul hafi slasast þá er ekki séð hvernig algjört bann yngri en 13 ára fylgi nokkru meðalhófi. Ekkert er rætt um aðra aldurshópa í þessu sambandi, ef slysatíðni annarra aldurshópa er há, t.d. 40-45 ára, ætti þá ekki líka að banna þeim að nota rafhlaupahjól? Frekar ætti að huga að því að skoða hvers vegna fólk slasast á rafhlaupahjólum og bæta þar úr með fræðslu og betri aðbúnaði.

Ég er sammála því að letja ætti fólk til að nota rafhlaupahjól þegar það er ekki í ástandi til að stjórna því. Um bann og refsingu gegn ölvunarakstri smáfarartækis er hins vegar einkennilegt að setja það til jafns við ölvunaraksturs vélknúinna ökutækja, sem vitað er að skapar mikla hættu fyrir aðra í umferðinni, heldur en til jafns við ölvun við hjólreiðar eða að stjórna hesti, sem skapar fyrst og fremst hættu fyrir aðilann sjálfan.

Í 2. kafla greinargerðinnar segir ”42% alvarlega slasaðra í umferðinni á síðasta ári voru gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli og stór hluti fyrrgreindra slysa átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum. Ölvun var áberandi hjá þeim sem slösuðust seint þessa daga og samkvæmt könnun höfðu 40% vegfarenda á aldrinum 18 til 24 ára ekið rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.” Hér er tölfræðinni frjálslega beitt til að ýja að alvarleika þess að stjórna rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis. Vitnað er í tölur um slys á gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli annars vegar og hins vegar könnun fyrir einn aldurshóp og einn af þessum samgöngumátum. Hvorki er fjallað um samsvarandi tölur fyrir aðra aldurshópa né slysatíðni almennt hjá fólki undir áhrifum áfengis.

Ég þakka fyrir tækifærið til að koma áliti mínu á framfæri og vonast til þess að í afgreiðslu á frumvarpinu verði dregið úr boðum og bönnum gegn virkum samgöngumátum.

Júlíus Atlason

Áhugamaður um virka samgöngumáta

Afrita slóð á umsögn

#19 Sigurjóna Guðnadóttir - 06.10.2022

Umsögn fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Jón Magnússon - 06.10.2022

Undirritaður varar við og gerir alvarlegar athugasemdir við þann kafla frumvarpsins sem lítur að því að leyfa gangandi umferð um reiðstíga. Slík vegferð gæti orðið upphaf að ógöngum sem vart verður ratað út úr. Hestamannafélögin hafa lagt mikið á sig til að byggja upp gott reiðvegakerfi þar sem hestamenn geta iðkað sína íþrótt og notið útivistar. Benda má á að Landsamband Hestamanna er aðili að ÍSÍ og má fullyrða að ekkert sérsamband myndi sætta sig við ótakmarkaðan umgang á æfinga- ,keppnis- og yfirráðasvæði sínu. Hestamenn hafa sýnt almenningi mikla þolinmæði, ekki síst á covidtímum þegar reiðstígar fylltust að göngufólk en að opna fyrir þessa umferð með lögum gæti þýtt holskeflu gangandi vegfarenda um reiðstígana með tilheyrandi slysahættu fyrir menn og hesta á öllum aldri og á öllum getu- og færnistigum.

Virðingarfyllst

Jón Magnússon formaður reiðveganefndar Hestamannafélagsins Spretts í Kópavogi og Garðabæ.

Afrita slóð á umsögn

#21 Samtök iðnaðarins - 06.10.2022

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Riitta Anne Maarit Kaipainen - 06.10.2022

Athugasemd við drög að frumvarp um breytingar á umferðarlögum.

Ég vill gera athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, staflið b, þar sem lagt er til að umferð gangandi vegfarenda verði heimil á reiðstígum.

Ég er hestakona og þekki vel hversu hættulegt það getur verið þegar eitthvað óvænt kemur fyrir á reiðvegi. Hestafolk eru ungir sem aldraðir og allt þar á milli, á mismunandi hesta og með mismikið reynslu.

Ef reiðstígar, eins og þeir eru skilgreindir, yrðu einnig skilgreindir sem göngustígar, myndi það skapa mikla slysahættu. Umferð gangandi og hlaupandi fólks, folks með barnavagna, gönguskíðafólks og hundafólks fer oft illa saman með umferð hestafólks. Að leyfa gangandi vegfarendur á reiðstígum gæti skapað mikla hættu fyrir bæði hestamenn og gangandi. Hesturinn er flóttadýr, oft nærri hálf tonn þungur og ef hann fælist vegna gangandi vegfaranda er öryggi allra í hættu.

Afrita slóð á umsögn

#23 Samtök ferðaþjónustunnar - 06.10.2022

Ágæti viðakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar - SAF um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Hopp ehf. - 06.10.2022

Meðfylgjandi er umsögn Hopp ehf. vegna draga að frumvarpi til breytinga á umferðarlögum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Sæunn Þóra Þórarinsdóttir - 06.10.2022

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr 77/2019.

Mótmæli fyrirhuguðum breytingum á löggjöf / v. þess að önnur umferð en umferð hrossa á reiðstígum er að mínu viti klárt lögbrot á samþykktum milli ríkis/sveitarfélaga við hestamenn og hestamannafélögin í landinu sem hafa lagt til svo kallaðann #fjaðraskatt til álagningar nothæfra reiðstíga í borgum/bæjum og á landsbyggðinni. Hestamenn hafa því að mínu viti byggt sínar reiðleiðir sjálfir m eigin framlögum til lagningar reiðveganna sem þeir nýta um landið og óhæft að gert sé að því skónna@hjólandi umferð sem já fer vaxandi sé skyndilega í nokkru leyfi á stígum þar sem búið er að leggja reiðgötur; það er fáránlegt að halda að slíkt fari nokkrum sinnum saman / og legg ég því til það við nefndina að hún tryggi að hestamenn fái sína stíga í friði en fólk er stundar hjólreiðar/hlaup/göngur með fylgifiskum verði hvattir til að búa sér hagsmunahópa sem svo safna líkt og hestamenn hafa gert peningum til sinna íþrótta einhverskonar álags/þrammara skatti og stíga þessa fólks lagðir annarstaðar í götu en þeir er hestamenn þekkja og nota!!! / Af blöndun hópanna tel ég vera gífurleg hætta v aukinnar skaðabætur... hross eru jú flóttadýr og allt er getur valdið þeim kvíða sendir þau á flótta með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hjólreiðamanni og hlauparar hafa gott af hvata nefndarinnar til að stofna samtök... þá geta þeir lagt til HVAR HELST ÞEIR ÞURFA STÍGANA líkt og hestamenn hafa getað lagt til um í sínum tillögum umreiðvegina.

mbestu kveðju Sæunn; Lágafelli

Afrita slóð á umsögn

#26 Ragnhildur Gísladóttir - 06.10.2022

Hestamannafélagið Ljúfur í Hveragerði gerir alvarlegar athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, staflið b, þar sem lagt er til að umferð gangandi vegfarenda verði heimil á reiðstígum.

Ef reiðstígar, eins og þeir eru skilgreindir , yrðu einnig skilgreindir sem göngustígar, myndi það skapa mikla slysahættu. Umferð gangandi fólks, hlaupandi, barnavagna, gönguskíðafólks og hundafólks fer illa saman með umferð hestafólks. Hestar og knapar eru á mismunandi aldri og með mismunandi reynslu og bregðast ólíkt við aðstæðum og aðsteðjandi hættum. Þetta myndi líka skapa mikla hættu fyrir gangandi vegfarendur, hesturinn er flóttadýr og ef hann fælist vegna gangandi vegfaranda er öryggi allra í hættu.

Einnig er vert að benda á að viðhald og uppbygging reiðvega er framkvæmd og kostuð af reiðvegafé hestamannafélaganna, en göngustígar eru kostaðir og viðhaldið af sveitarfélögunum.

Hestamannafélagið telur að ekki skuli breyta skilgreiningu á göngu-, hjóla- og reiðstígum frá því sem nú er og halda umferð hestamanna sem mest aðskildri frá annarri umferð útivistarfólks.

Fh Ljúfs

Ragnhildur Gísladóttir formaður

Afrita slóð á umsögn

#27 Kristín Bjarnadóttir - 06.10.2022

ég tal það vanhugsað að taka fram í lögum að umferð annarra en ríðandi sé leyfileg á merktum reiðstígum - hross eru flóttadýr og ef þeim bregður þá eru fyrstu viðbrögð að hlaupa burt frá hættunni. Oft hagar þannig til (sérstaklega í þéttbýli) að ekki sést allt sem framundan er og getur því t.d. gangandi manneskja komið hrossi að óvörum og þannig valdið alvarlegu slysi ef hesturinn fælist.

Göngufólk er oft í klæðnaði í áberandi litum, sem hross hafa tilhneigingu til að hræðast. Einnig er líklegt að ef umferð gangandi er leyfileg á reiðstígum, að menn noti það til að viðra hundana sína. Ekki er hægt að vera viss um að allir hundaeigendur séu með hundinn sinn í bandi og óvist hversu góða stjórn þeir hafa á að halda honum hjá sér ef viðkomandi mætir hrossi. Einnig þarf að hafa í huga í því sambandi að hross eru ekki endilega vön hundum

Afrita slóð á umsögn

#28 Jóhannes Birgir Jensson - 06.10.2022

Skýrsla starfshóps um smáfarartæki sem byggt er á hér fer heldur frjálslega með tölfræði sína. Þessi 39% slysa sem verða á skemmtanatíma um helgar eru heil 12 tilvik á einu ári, þar sem ökumenn rafhlaupahjóla slösuðu sig alvarlega. Eitt slys á mánuði hljómar ekki eins og býn þörf til að taka til aðgerða, einkum þar sem hægt er að horfa á það að um er að ræða nýjung sem fólk er að læra á, takmörk hennar og sín.

Aukinheldur urðu engin slys á öðrum vegfarendum en þeim sem á rafhlaupahjólunum voru, í einu tilviki var tvímennt. Þetta er allt annar veruleiki en ölvunarakstur þyngri ökutækja, líkt og mótorhjóla eða bifreiða. Hraðatakmörkin ein og sér nægja til þess að tryggja að ólíklegt er að líf sé undir og lágur þyngdarpunktur hjálpar þar til einnig.

Það er miður að lítilleg aukning slysa, samfara meiri umferð óvarinna vegfarenda, sé blásin svona upp í tölfræðifimleikum, bæði þessi 12 tilvik og hin. Af umræðunni mætti ætla að þar hryndi fólk niður um hverja helgi stórslasað þegar raunin er önnur.

Ýta ætti undir þessa valkosti í ferðamáta og forðast að blása tölur upp eins og gert er í greinargerðinni.

Afrita slóð á umsögn

#29 Jóna Mjöll Halldórudóttir - 06.10.2022

Ég styð umsögn Landsamband Hestamannafélaga, um að alvarleg slysahætta skapast af sameiningu gangandi, hlaupandi, barnavagnar og annað tilheyrandi eigi ekki saman með reiðvegi. Kannar eru á öllum aldri og hestar eru lifandi dýr.

Afrita slóð á umsögn

#30 Landssamtök hjólreiðamanna - 07.10.2022

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna. Árni Daviðsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Samtök ökuskóla - 10.10.2022

Umsögn Samtaka ökuskóla er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Umsögn Samtaka verslunar og þjónustu - 10.10.2022

Umsögn Samtaka verslunar og þjónustu er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#33 Flutningasvið Samtaka verslunar og þjónustu - 11.10.2022

Umsögn flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu er hér í viðhengi.

Viðhengi