Samráð fyrirhugað 26.09.2022—10.10.2022
Til umsagnar 26.09.2022—10.10.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 10.10.2022
Niðurstöður birtar 13.12.2022

Tóbaksvarnalög

Mál nr. 176/2022 Birt: 26.09.2022 Síðast uppfært: 13.12.2022
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Alls bárust sex umsagnir um frumvarpið. Tekið var tillit til flestra þeirra athugasemda sem þar komu fram og er greint frá því í 5. kafla greinargerðar seð fylgir frumvarpi til laga um breytingu á tóbaksvarnalögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.09.2022–10.10.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 13.12.2022.

Málsefni

Frumvarp þetta felur í sér breytingu á tóbaksvarnalögum og er til innleiðingar á tóbakstilskipuninni 2014/40/ESB og 2014/109/ESB sem sameiginlega EES-nefndin tók upp í EES-samninginn 4. febrúar 2022.

Árið 2014 samþykktu Evrópuþingið og ráðið tilskipun 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Jafnframt liggur fyrir að innleiða þarf framselda tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá sama tíma, um breytingu á II. viðauka við tilskipun 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur.

Frumvarpsdrög liggja nú fyrir sem byggja á framangreindum tilskipunum, en þær voru teknar upp í EES-samninginn 4. febrúar 2022.

Með frumvarpinu verður innleidd í íslenskan rétt Evrópulöggjöf um tóbaksvörur og tengdar vörur og uppfærðar núgildandi reglur. Markmiðið er meðal annars að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um innihaldsefni og losun tóbaksvara og tengdar kvaðir um skýrslugjöf, þ.m.t. hámarksgildi losunar að því er varðar tjöru, nikótín og kolsýring úr vindlingum, tiltekna þætti sem varða merkingu og umbúðir tóbaksvara, þ.m.t. viðvörunarmerkingar sem eiga að vera á einingarpökkum sem innihalda tóbaksvörur og allar ytri umbúðir sem og rekjanleika og öryggisþætti sem beitt er varðandi tóbaksvörur til að tryggja að þær uppfylli kröfur tilskipunarinnar.

Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, auk þess sem gerðar verða breytingar á reglugerðum, m.a. um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna, nr. 790/2011, en þær fyrirhuguðu breytingar verða kynntar síðar á samráðsgáttinni.

Hér er um að ræða lágmarksinnleiðingu á tilskipuninni, en ekki er gengið lengra við innleiðingu en heimildir tilskipunarinnar standa til.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 British American Tobacco - 10.10.2022

Hjálagt er umsögn við mál nr. 176/2022.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Edda Dröfn Daníelsdóttir - 10.10.2022

Heilbrigðisráðuneytið

Síðumúli 24

108, Reykjavík

Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2022.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir stuðningi við frumvarpið um breytingu á lögum um tóbaksvarnir og telur sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og unglingar byrji að nota vörur sem innihalda nikótín sem í framhaldinu geta haft skaðleg áhrif á heilsu notandans.

Fíh vísar í fyrri umsögn félagsins um sama efni dagsetta 8. júlí 2022 þar sem meðal annars fram kom að heilsuvernd og forvarnir ættu að hafa sérstakan forgang, einkum til að draga úr algengi reykinga og tóbaksnotkunar á meðal ungmenna. Þetta telst til fyrsta stigs forvarna, sem ættu að vera forgangsatriði varðandi löggjöf um vörur sem innihalda nikótín. Þar eru hjúkrunarfræðingar í lykilhlutverki þar sem þeir sinna forvörnum sem fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu m.a. á heilsugæslustöðvum og í skólahjúkrun. Er þetta í samræmi við þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilsu, vellíðan og auknar forvarnir, sem jafnframt er í stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til 2030. Jafnframt styður heilbrigðisstefna heilbrigðisráðuneytisins til 2030 þetta líka en þar er einnig fjallað mikilvægi 1. stigs heilbrigðisþjónustu sem eru forvarnir. Fíh leggur ríka áherslu á að mjög mikilvægt er að missa ekki niður þann einstaka árangur sem náðst hefur í tóbaksvörnum hér á landi.

Virðingafyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir formaður

Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Guðfinna H Þorvaldsdóttir - 10.10.2022

Umsögnina sendir undirrituð fyrir hönd Krabbameinsfélags Íslands.

Krabbameinsfélagið fagnar frumvarpinu en vill koma eftirfarandi á framfæri:

Í greinargerð með frumvarpinu stendur

"Ákveðið var að innleiða þau ákvæði tilskipunarinnar sem Íslandi ber í samræmi við EES-samninginn, en ekki fara í frekari innleiðingu þótt heimildir standi til. Meginástæðan er sú að aðstæður varðandi tóbaksneyslu hér á landi eru allt aðrar en á meginlandi Evrópu þar sem algengt er að daglegar reykingar séu yfir 20% og ekki talin vera sama þörf til að setja eins strangar reglur og tilskipunin býður upp á."

Í greinargerðinni kemur ekki fram hvað það er sem heimildir standa til en ekki stendur til að innleiða hér.

Krabbameinsfélagið vill undirstrika mikilvægi þess að hvergi sé slakað á í tóbaksvörnum. Í öðrum löndum er litið til Íslands með aðdáun á þeim árangri sem hér hefur náðst. Þeirri stöðu viljum við halda.

Árangurinn náðist með mjög samstilltu átaki stjórnvalda, Krabbameinsfélagsins og fleiri aðila, meðal annars með margháttuðum stjórnvaldsaðgerðum.

Þrátt fyrir að mjög góður árangur hafi náðst er ekki þar með sagt að bakslag geti ekki orðið og mikilvægt að haga stjórnvaldsaðgerðum þannig að þær vinni sem mest gegn slíku.

Frá því að stærstu skrefin voru tekin í tóbaksvörnum hefur mikið breyst sem getur mögulega ógnað þeim árangri sem hér hefur náðst. Má þar á meðal nefna miklar breytingar á samsetningu þjóðarinnar en hingað hefur á stuttum tíma flutt stór hópur fólks erlendis frá, sem hefur alist upp við allt önnur viðmið varðandi tóbaksnotkun.

Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að í tóbaksvörnum sé hvergi gefið eftir, frekar gengið lengra en brýnasta þörf krefur. Þannig eru hagsmunir almennings, ekki síst barna og unglinga, í fyrirrúmi.

Með góðri kveðju

f.h. Krabbameinsfélags Íslands

Halla Þorvaldsdóttir,

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#4 Ásgeir Johansen - 10.10.2022

Til heilbrigðisráðherra

Reykjavík, 10. október 2022

Athugasemdir við breytingu á tóbaksvarnarlögum (6/2002) og innleiðingu tóbakstilskipunar 2014/40/ESB og 2014/109/ESB.

Með vísan til samráðsgáttar frá 23. september 2022 með skilaboðum um breytingu á tóbaksvarnarlögum og innleiðingu tóbakstilskipunar 2014/40/ESB [hér eftir nefnd „tilskipun“] og 2014/109/ESB. , vill Rolf Johansen & Co. koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

1. Í tilskipuninni var kveðið á um aðlögunartímabil fyrir tóbaksvörur með einkennandi bragði

Tilskipunin tók gildi 19. maí 2014 og almennt bann við bragðbættu tóbaki tók gildi 20. maí 2016 (31. gr. tilskipunarinnar). Jafnframt heimilaði tilskipunin að allar bragðbættar tóbaksvörur sem settar voru á markað fyrir 20. maí 2016 yrðu seldar til 20. maí 2017 (gr. 30.a. tilskipunarinnar). Hins vegar er gr. 7(14) tilskipunarinnar var kveðið á um að „Ef um er að ræða tóbaksvörur með einkennandi bragði, þar sem sölumagn alls sambandsins er 3% eða meira í tilteknum vöruflokki, skulu ákvæði þessarar greinar gilda frá 20. maí 2020“.

Með öðrum orðum er eins árs aðlögunartímabil fyrir allar tóbaksvörur með einkennandi bragði tilgreint í tilskipuninni. Fyrirvari um t.a.m. mentól tóbak er þannig gerður miðað við sölumagn þess. Ennfremur undirstrikar tilskipunin mikilvægi aðlögunartímabils fyrir tóbaksvörur með einkennandi bragði til að gefa neytendum nægan tíma til að skipta yfir í aðrar vörur, afstaða sem er sett fram í inngangsorðum tilskipunarinnar þar sem fram kemur sú pólitíska skoðun að „< …> vörur með einkennandi bragði með hærra sölumagni ættu að vera hætt í áföngum yfir langan tíma til að gefa neytendum nægan tíma til að skipta yfir í aðrar vörur“.

Með vísan til framangreinds og skýr skortur á aðlögunartíma í frumvarpsdrögunum viljum við vekja athygli á því að frumvarpsdrögin eru ekki í samræmi við tilskipunina. Við viljum því leggja áherslu á mikilvægi þess og samræmi við tilgang tilskipunarinnar að tryggja jafna og sanngjarna framkvæmd.

Með hliðsjón af markaðshlutdeild menthol vindlinga, sem er í kringum 20% og að rík hefð er á Íslandi fyrir menthol samanborið við evrópu þá væri vel til þess fallið ásamt því að gæta að óhlutfallslegu jafnvægi milli Íslands og evrópu að menthol væri undanskilið úr þessum drögum að frumvarpi til laga. Ellegar, til vara væri aðlögunartíminn mjög langur til að tryggja jafna og sanngjarna framkvæmd. Öll önnur nálgun væri óréttmæt og óhófleg.

Ef litið er til kynjahlutfalla, þá hefur tilfinningin verið sú að drög þessi að frumvarpi munu halla töluvert meira á kvenkyn en karlkyn.

2. Skilgreining á „einkennandi bragði“ ætti að vera í samræmi við tilskipunina

Í tilskipuninni er „einkennandi bragð“ skilgreint sem „<…> greinilega áberandi lykt eða bragð <...>“ (t.d. á dönsku: „fremtrædende duft eller smag“ og norsku: „klart merkbar lukt eller smak“). Við þýðingu tilskipunarinnar yfir í íslenskt réttarfar er mikilvægt að þýðingin sé í samræmi við upprunalegt orðalag til að koma í veg fyrir misskilning og rými fyrir rangtúlkanir þegar ný lög taka gildi á Íslandi. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar verið er að þýða skilgreiningar sem venjulega eru háðar mörgum túlkunum.

Í núverandi ástandi teljum við skilgreiningu á „einkennandi bragði“ í frumvarpsdrögunum frábrugðna þeirri sem er í tilskipuninni, sem getur breytt merkingu skilgreiningarinnar og einnig þeirri túlkun í þá íslenskum lögum. Við viljum því leggja áherslu á mikilvægi þess að endurskoða skilgreiningu á „einkennandi bragði“ í frumvarpsdrögunum þannig að hún samsvari betur skilgreiningunni sem kveðið er á um í tilskipuninni. Ef skilgreiningin er ekki nógu nákvæm getur það haft lagalegar afleiðingar, sem við ættum að forðast eins og mögulegt er.

3. Merking og umbúðir

Breytingartillaga í þessum drögum, samanborið við núverandi lög, leggur til víðtækari heimild ráðherra að setja í reglugerð(-ir), sem sumpart getur verið eftir geðþóttaákvörðun ráðherra, breytingu á útliti einingarpakka, þyngd pakkninga, stærð þeirra og lögun. Slíkar ákvarðanir eiga að vera á vegum Alþingi Íslendinga þar sem t.d. er verið að ræða takmörkun og skerðingu á vörumerkjaeign sem hefur ekkert með viðvörunarmerkingar og staðsetningar þeirra að gera sem nú er að finna í tilskipuninni. Hér er því lagt til að núverandi lagagrein standi óbreytt samkvæmt núgildandi lögum.

Virðingarfyllst,

f.h. Rolf Johansen & Co

Ásgeir Johansen

Framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Lilja Sigrún Jónsdóttir - 10.10.2022

Þakka tækifæri til umsagnar. Bestu kveðjur, LSJ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Philip Morris AB - 12.10.2022

Hjálagt er umsögn Philip Morris AB, á íslensku og ensku.

Viðhengi Viðhengi