Samráð fyrirhugað 28.09.2022—04.11.2022
Til umsagnar 28.09.2022—04.11.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 04.11.2022
Niðurstöður birtar

Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa

Mál nr. 180/2022 Birt: 28.09.2022 Síðast uppfært: 15.11.2022
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Stöðumat og valkostir
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (28.09.2022–04.11.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

ATH! Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur til og með 4 nóvember nk. Kynnt er til umsagnar og athugasemda grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.

Fyrri hluta árs 2020 var skipaður stýrihópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta auk tveggja fulltrúa ráðherra. Stýrihópnum var falið það hlutverk að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, kemur fram að ljúka eigi við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Nú liggja fyrir drög að svokallaðri grænbók um líffræðilega fjölbreytni, en grænbók er greining á tilteknu viðfangsefni sem stjórnvöld hafa ákveðið að skoða nánar, ýmist sem undanfari stefnumótunar og/eða frumvarpsgerðar.

Grænbókin inniheldur upplýsingar um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni íslenskra vistkerfa. Hún felur í sér upplýsingar um stöðu og þróun málefna og gefur gott yfirlit yfir lykilviðfangsefnin framundan og helstu leiðir eða áherslur við úrlausn þeirra. Að loknu samráði verða niðurstöður dregnar saman og mótuð hvítbók sem eru drög að stefnu. Hvítbókin mun einnig fara í opið samráð og að því loknu er mótuð stefna sem inniheldur framtíðarsýn fyrir málefnið og markmið sem marka leiðina ásamt áherslum. Gert er ráð fyrir að stefnunni muni fylgja aðgerðaráætlun.

Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera s.s. bakteríur og veirur sem finnast á jörðinni, þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera, vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu þeirra. Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum og hverfi um aldur og ævi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hjörleifur Finnsson - 05.10.2022

Grænbókinni er verulega ábótavant þegar kemur að umfjöllun um framandi og ágengar tegundir, skuldbindingar Íslands í ríósamningnum og framfylgd hans í gegnum íslenskt stjórnkerfi. Sem dæmi um ónákvæmni í grænbókinn er að sagt er "Hnúðlax hefur veiðst annað slagið í ám á Íslandi frá 1960, en frá 2017 hefur

orðið mikil aukning í skráningum á veiddum hnúðlaxi og hrygning hér við land

var í fyrsta sinn staðfest. Hvort hnúðlax muni teljast ágengur er mikilvægt að

skoða og meta í samstarfi við sérfræðinganefndina." Sérfræðinganefndin sem vísað er til er sérfræðinganefndin um Innflutning framandi tegunda, en hún hefur ekkert hlutverk þegar kemur að tegundum sem koma til Íslands af sjálfsdáðum. Of langt mál væri að telja upp einstaka vankanta frekar og vísa ég því í ítarlega umfjöllun um þetta í nýlegri Meistararitgerð minni, Hnúðlax á Íslandi Vágestur eða velkominn?

Um stjórnun ágengra tegunda á Íslandi, sem hægt er að sjá í Skemmunni https://skemman.is/handle/1946/39165

Afrita slóð á umsögn

#2 Þröstur Eysteinsson - 25.10.2022

Í viðhengi er umsögn Skógræktarinnar um Grænbók um líffræðilega fjölbreytni.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurður Eyberg Jóhannesson - 25.10.2022

Flest getum við verið sammála um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni, eins og þetta plagg fjallar ágætlega um og hægt að taka undir flest sem þar kemur fram. Þó er rétt að benda á nokkra hluti sem gott væri að hafa í huga og ekki síst fá umfjöllun um í áframhaldandi vinnu.

1. Líffræðileg fjölbreytni er skýrt afmarkað líffræðilegt hugtak. Að þessu leyti er það t.d. ólíkt hugtakinu um sjálfbærni – sem leitast við að ná yfir hina ólíku þætti náttúrunnar, efnahagslegra þátta mannlegs samfélgs og samfélagslegra þátta mannlegs samfélags. Það er því nokkuð áhyggjuefni þegar grænbók um líffræðilega fjölbreytni er látin ná yfir eða snerta á öðrum þáttum en þeim sem snúa beint að líffræðilegri fjölbreytni. Þannig segir t.d. á bls. 77 í drögum að framtíðarsýn:

„Á Íslandi nýtur líffræðileg fjölbreytni verndar og gildi hennar er metið að verðleikum. Vistkerfi eru endurheimt og nýtt af skynsemi, vistkerfaþjónustu er viðhaldið og ávinningurinn skilar sér til allra.“

Þetta er að mörgu leyti ágæt framtíðarsýn en þó er hér tvennt sem vekur spurningar:

a. Ef líffræðileg fjölbreytni nýtur verndar – hvað mun það þá þýða fyrir mannlegar athafnir? Verður hægt að byggja hús? Eða þarf til þess sérstakt leyfi til að ganga á líffræðilega fjölbreytni? Hvaðan kemur leyfið? Og mun það bætast ofaná þann fjölda leyfa sem nú þegar þarf frá hinu opinbera t.d. til að byggja hús?

Mikilvægt er að búa þannig um hnútana að við – mannkynið – verðum ekki hornreka í náttúrunni. Markmikið hlýtur að vera að auka veg náttúrunnar og mannlegs samfélags – að mannlegt samfélag rúmist innan þolmarka náttúrunnar. Það er hinsvegar ljóst að við þurfum að nýta auðlindir náttúrunnar til að lifa á jörðinni og því má umhverfisverndin ekki vera þannig að okkur sé gert ógerlegt að lifa mannsæmandi lífi og nýta okkur auðlindirnar.

b. Ávinningurinn á að skila sér til allra – en hvernig? Nú er auðvelt að halda því fram að ávinningurinn af því að búa í landi þar sem náttúruauður er mikill og blómstrandi sé eðlilega ávinningur allra – bæði þeirra sem þar búa auk annarra jarðarbarna (í gegnum þjónustu náttúrunnar auk útflutra afurða) – en er átt við eitthvað annað hér? Er verið að tala um skattlagningu á þá sem nýta sér náttúruna? Ef svo er þá er hér um há-pólitískt mál að ræða sem þarf að fjalla um á þeim nótum.

Á næstu blaðsíð (bls. 78) er minnst á bændur og þeir sagðir „umsjónaraðilar lands“. Nú er ekkert rangt í þessu en þó vert að minnast þess að margir bændur eru einnig eigendur landsins sem þeir nytja. Á blaðsíðu 79 segir svo: „Einnig skipta samfélagslegir þættir og sjónarmið máli þar sem auðlindir eru sameign allra.“ Hugmyndafræðin er vel þekkt og skiljanleg ekki síst um auðlindir eins og andrúmsloftið eða hafið – en hvað með auðlindir í séreign? Hvað með land bóndans? Nú hlýtur að landið að teljast auðlind - eigum við það þá öll – eða á bóndinn það? Ef sá dagur rís að Sameinuðu þjóðirnar leggi til að bændur skuli ekki lengur eiga jarðir sínar heldur vera „umsjónaraðilar lands“ sem allt á að vera í ríkiseigu – enda auðlindir sameign allra – munum við þá innleiða slíkt á Íslandi?

Hér þarf vandaða umræðu um eignarrétt, „free-rider“ vandamál, tragedy of the commons o.s.frv.

2. Neðar á bls. 79 er fjallað um lýðheilsu. Nú er engum blöðum um það að fletta að heilbrigði náttúru og manna eru nátengd. Hinsvegar gæti verið óvarlegt að ætla að fjalla um hvort tveggja á sama tíma. Slíkt mun líklega skila þunglamalegu og óskilvirku stjórnkerfi. Einfaldast er að einblína á gróskumikinn og sterkan náttúruauð sem mun skila sér í bættri lýðheilsu.

3. Í plagginu kemur fram að hugtakið „líffræðileg fjölbreytni“ sé flókið og nokkuð átak þurfi til að gera það almenningi aðgengilegt. Hér ber að varast að gera einfalda hluti flókna. Eitt helsta baráttumál íslenskra umhverfissinna til margra áratuga hefur verið landgræðsla – í mínum huga réttilega. Eyðimörk ber lítið sem ekkert líf. Besta leiðin til að auka og hlúa að líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi, á láði og legi, er líklega uppgræðsla landsins. Við sem erum eldri en tvævetur munum vel slagorð eins og „græðum landið“, „land í tötrum“ o.s.frv. Auðvelt ætti því að vera að tengja þessi hugtök saman – eða jafnvel haga málflutningi þannig að einföld og vel þekkt skilaboð eins og ofangreind slagorð sem miða að lokun sára í gróðurþekjunni séu notuð í stað hinna nýrri og framandlegri – þar sem það er hægt og á við.

Þetta eru aðeins varnaðarorð ætluð til að hvetja til ígrundaðar umfjöllunar um alla fleti málsins þegar málið fer á næsta stig.

Að öðru leyti þakka ég góða vinnu og óska góðs gengis með áframhaldið.

Afrita slóð á umsögn

#4 Veitur ohf. - 25.10.2022

Í viðhengi er umsögn Veitna um Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Fuglaverndarfélag Íslands - 25.10.2022

Vernd líffræðilegrar fjölbreytni er undirstaða allrar náttúruverndar og fagnar Fuglavernd mjög að nú sé hafin vinna að því að endurskoða stefnu Íslands í þessum málaflokki.

Almennt séð standa fuglar sem lífveruhópur afar illa á heimsvísu. Í nýrri skýrslu Alþjóðlega Fuglaverndarfélagsins (BirdLife International) um stöðu allra fugla árið 2022 kemur fram að 49% fuglategunda á heimsvísu eru í hnignun og ein af hverjum 8 eru í útrýmingarhættu. Er enginn vafi á að þessi bága staða sé nátengd athöfnum mannsins. Í fyrrnefndri skýrslu eru teknar saman helstu orsakir þessarar hnignunar, sem eru 1) eyðing og hnignun náttúrulegra búsvæða vegna útþenslu landbúnaðar og mannvirkja, bæði á þurrum og blautum búsvæðum, 2) framandi ágengar tegundir, 3) ósjálfbær nýting fuglastofna, 4) hjáveiði, 5) loftslagsbreytingar af mannavöldum, 6) rýrnun og eyðilegging verndaðra eða mikilvægra svæða, 7) skógareldar og 8) orkuframleiðsla og -flutningur.

Ef litið er til þessara þátta hérlendis, sést glöggt að þessar sömu ógnir eiga við á Íslandi. Hér verður rætt um hverja ógn fyrir sig og bent á hvernig grænbókin þurfi að ná betur utan um þessa þætti. Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Jens Benedikt Baldursson - 25.10.2022

Athugasemdir við Grænbók

Um þessa samantekt má margt segja. Það sem mér sýnist helst einkenna hana er andúð á útlendum plöntum sem þrífast vel á Íslandi. Þær eru kallaðar „framandi ágengar lífverur“. Mest er amast út í lúpínuna sem þó er ákaflega öflug „áburðarverksmiðja“ sem framleiðir köfnunarefni fyrir jarðveginn, einmitt það sem mest vantar víða hér á Íslandi. Amast er við útlendum trjám sem geta dafnað hér á landi og veitt skjól fyrir fólk og aðrar plöntur. Athyglisverðast er þó að ekkert er amast við ýmsum skordýrum sem m.a. leggjast á birkið okkar sem við öll elskum. Má þar nefna birkikembu og birkiþélu. Væri þó þarft að gera ráðstafanir gegn þeim skaðvöldum líkt og Kanadamenn gerðu.

Verst er þó að stefnt virðist að því að halda Íslandi sem gróðursnauðustu. Ekkert er minnst á stærstu eyðimörk Evrópu á hálendinu sem ekki er sjálfsagt að eigi að vera áfram eyðimörk. Þjóðgarðar eigi að vera að því er virðist með sem minnstum gróðri, alla vega ekki „útlendum“ plöntum. Brúnn uppblástur og svartir sandar virðast vera ákjósanlegri fyrir höfunda Grænbókarinnar en grænn gróður.

Hvaða fólk stendur á bak við þessa stefnu? Plaggið er undirbúningur fyrir lög og reglugerðir sem væntanlega er ætlað að stjórna því hvað má vaxa og dafna á Íslandi. Hvaða plöntur eru þessu fólki þóknanlegar? Minna má á að atorkusamir einstaklingar hafa byrjað ræktun á öllum „nýjum plöntum“ á Íslandi síðustu aldir, oftast við mikla vantrú og jafnvel aðhlátur annara. Hvaða hópur ætlar að stjórna því hvort Ísland verði áfram gróðursnautt land eða hér fái að dafna fjölbreytt lífríki? Hvort hér megi rækta eikur, kastaníur, hlyn, ask o.fl. í skjólinu sem duglegu plönturnar eins og birki, ösp, fura og greni veita?

Eftir lestur plaggsins minnist ég þess varla að minnst hafi verið á ofbeit sem þó er ein helsta skýringin á því hversu einhæft gróðurfar landsins er. Þó veðurfar hafi mikil áhrif á gróður þá er ofbeitin langverst. Ég sem skógræktarmaður hef séð hvernig kindurnar ráðast fyrst á lítil tré og annan nýgróður áður en þær taka til við grasið þó nóg sé af því.

Ég hef áhyggjur, mér finnst plöntuandúð of áberandi í þessu riti þó það sé ekki eins slæmt og sést víða annars staðar. Kannski ætti að kalla bókina Brúnbók eða Svörtubók en ekki Grænbók? Halda eigi landinu brúnu af uppblæstri og svörtum söndum? Vonandi rangt hjá mér en við skógræktendur höfum áhyggjur. Almenningur er hliðhollur skógrækt en sterkir hópar beita sér gegn henni þó aðeins 1 - 2 % landsins sé vaxið skógi. Afstaðan til lúpínu er mjög tvískipt. Yfirvöld eiga að beita sér fyrir frekari rannsóknum á lúpínu og áhrifum hennar og annara plantna en ekki að taka þátt í herferð gegn þessari feikiduglegu plöntu. Auðvitað geta duglegar plöntur pirrað okkur. Þá er bara að taka á því á hverjum stað, klippa njóla og slá hátt gras o.s.frv. Stjórnvöld eiga ekki að standa að allsherjarherútboði gegn plöntum sem geta grætt upp landið.

Elskum gróður í stað þess að hata hann.

Mestar áhyggjur hef ég af því að verið sé að byggja upp ofursterkt skrifræðisveldi sem muni drepa niður niður frumkvæði fólks í uppgræðslu landsins og ekki síst í trjárækt.

Jens Benedikt Baldursson

Hver er ég: Ég er sagnfræðingur og fyrrverandi framhaldsskólakennari og skólastjórnandi. Eftir að ég fór á eftirlaun (og áður) hef ég helgað mig skógrækt og verið formaður Skógræktarfélags Akraness og er stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands. Ég reyni að vera sem mest úti í náttúrunni því það gerir mér gott og hef ég lært margt af því og umgengni við skógræktarfólk, skógfræðinga og garðyrkjumenn. M.a. hef ég lært að hatast ekki við gróður sem pirrar okkur eins og t.d. ofurhátt gras (innflutt) sem litlar trjáplöntur ráða illa við, njóla eða amagróður í garðinum mínum. Mikilvægast er að láta sér þykja vænt um náttúruna og fjölbreytileika hennar og njóta hennar, ekki amast við henni

Afrita slóð á umsögn

#7 Sigurjóna Guðnadóttir - 26.10.2022

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Reykjavíkurborgar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Þórólfur Nielsen - 26.10.2022

Hjálögð er umsögn Landsvirkjunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök náttúrustofa - 26.10.2022

Í viðhengi er umsögn Samtaka náttúrustofa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Guðni Guðbergsson - 26.10.2022

Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa. Umræðuskjal fyrir opið samráð.

Undirritaður, sem sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar, vil koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

Vernd líffræðilegrar fjölbreytni er afar mikilvæg ekki síst á tímum loftslagsbreytinga og annarra áhrifa af mannalegum framkvæmdum og athöfnum.

Alþjóðasamningur um vernd líffræðilegrar fjölbreytni (Convention on Biological Diversity (CBD)) sem stundum eru kenndir við Ríó de Janero eru að stofni til frá 1992 og því orðnir 30 ára gamlir. Samningurinn, með viðbótum, er í raun skuldbindandi fyrir aðildarþjóðir og því má telja að það að vera nú með umræðuskjal fyrir opið samráð verði að teljast frekar veikt af hendi íslenskra stjórnvalda. Ef vel á að vera hefði löggjafinn þurft að innleiða verklag til verndar líffræðilegrar fjölbreytni við setningu laga við stefnumörkun. Slíkt verklag myndi einnig skapa ramma fyrir athafnir opinberra stofnana og atvinnulífs. Að öðrum kosti verður vart séð annað en framkvæmdir og eftirfylgni sé lin og að hugur fylgi ekki máli.

Umfjöllun um vistkerfi ferskvatns í Grænbókinni valda verulegum vonbrigðum. Telja verður afar sérstakt að ekki hafi verið leitað til Ferskvatnsviðs og Umhverfissviðs Hafrannsóknastofnunar með að fjalla um þann þátt þar sem þar er að finna yfirgripsmikla þekkingu og gögn um ferskvatnslífríki, ferskvatnsvistkerfi og nýtingu þeirra. Núverandi þekking á ferskvatnsvistkerfum landsins er mun víðtækari en snertir bara Þingvallavatn og Mývatn. Lindár á Íslandi eru einstakar á heimsvísu og vistkerfi í ám á lítt veðruðum hraunum eru einstök. Þá má ekki síður nefna lífríki í straumvatni á jarðhitasvæðum hér á landi, sem hafa verið rannsökuð sem líkan fyrir áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi í straumvatni. Á síðustu tíu árum hefur farið fram umtalsverð vinna innan CBMP (Circumpolar Biodiversity Monitoring Program) þar sem er sérfræðingahópar á vegum CAFF sem hefur unnið yfirgripsmikla vinnu við samantekt og birtingu gagna um líffræðilega fjölbreytni á norðurslóðum, þ.m.t. á Íslandi. Niðurstöður um ferskvatnsvistkerfi og lífríki þeirra hafa m.a. verið birt í skýrslum (sjá m.a.: https://www.caff.is/freshwater/freshwater-monitoring-publications?category_id=4, auk þess sem gefið var út hefti af Freshwater Biology um efnið (https://onlinelibrary.wiley.com/toc/13652427/2022/67/1. https://doi.org/10.1111/fwb.13805).

Gera hefði mátt skýrari grein fyrir lögum um stjórn vatnamála (Vatnatilskipun) og þeirri vinnu sem þar hefur farið fram. Þeim eru gerð afar takmörkuð skil. Vekja verður athygli á að búið er að skipta öllum ám, vötnum og strandsjó upp í vatnshlot og setja í gagnavefsjá. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála eru vatnsgæði metin út frá lífríki og er miðað við að vatnsgæðum hraki ekki, þ.m.t. líffræðilegri fjölbreytni. Ef slíkt gerist eða að lífríki einstakra vantshlota ná ekki góðu ástandi ber stjórnvöldum að bregðast við. Unnið hefur verið að því að ákveða gæðaþætti og setja viðmið fyrir vistfræðilegt ástand. Þá er vöktun viðmiðunarvatnshlota hafinn.

Ísland er eyja langt frá meginlöndum. Landið er jarðfræðilega fjölbreytt. Það á einnig við um ferskvatn og vistfræði þess. Munur á milli svæða hvað varðar jarðfræði sem og þann mun sem er á umhverfisskilyrðum á milli landshluta gefur afar mikil tækifæri til rannsókna á vistfræði ferskvatns. Fjöldi lífverutegunda í ferskvatni á Íslandi er lítill í samanburði við meginlönd sem skapar mikla sérstöðu. Hér eru dragár, dragár með stöðuvatnsáhrifum, lindár og jökulár þar sem umhverfi skapar hvert um sig sérstæð skilyrði fyrir lífríki.

Telja verður að í Grænbókinni hefði verið hægt að gera svo miklu betur en gert var m.a. með því að leita til þeirra sem besta þekkingu hafa á því viðfangsefni sem um ræðir. Til að hugur fylgdi máli hefði einnig þurft að setja viðmið og aðgerðaráætlun til framtíðar.

Guðni Guðbergsson

Sviðsstjóri

Ferskvatns- og eldissvið

Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna

Símil: + 354 575 2000

Farsími 840 6306

gudni.gudbergsson@hafogvatn.is

www.hafogvatn.is | www.mfri.is

Afrita slóð á umsögn

#11 Agnes Brá Birgisdóttir - 27.10.2022

Góðan daginn

Hér í viðhengi er umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs um Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.

F.h. Vatnajökulsþjógðarðs

Agnes Brá

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 02.11.2022

Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Bjarni Kristófer Kristjánsson - 03.11.2022

Meðfylgjandi er umsögn frá Bjarna K. Kristjánssyni og Skúla Skúlasyni.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Hilmar J. Malmquist - 04.11.2022

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Náttúruminjasafns Íslands um Grænbók um um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.

Með þökkum,

Hilmar J,. Malmquist forstöðumaður.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Umhverfisstofnun - 04.11.2022

Hjálögð er umsögn Umhverfisstofnunar.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Bændasamtök Íslands - 04.11.2022

Sjá í viðhengi umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Jóhannes Sturlaugsson - 04.11.2022

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Skuggasundi 1 - 101 Reykjavík

Mosfellsbær 4. nóvember 2022

Málefni:

Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum um grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa

Undirritaður er líffræðingur sem starfað hefur við fiskirannsóknir í 36 ár, þar af síðustu 20 árin á vegum eigin rannsóknarfyrirtækis (Laxfiska). Í grunninn þá byggir umsögn mín á því að stuðla að því að stofnar og tegundir fiska fái réttláta meðhöndlun af hálfu opinberra aðila sem tryggja eiga fjölbreytni í íslensku lífríki. Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa er mjög jákvæð aðgerð varðandi rétta umgengni við þá líffræðilegu fjölbreytni sem lífríki Íslands samanstendur af. Að mörgu er að hyggja varðandi lífverurnar og vistkerfin sem þar eiga í hlut. Mínu innleggi er ætlað að stuðla að því að sá texti sem umrædd Grænbókin getur af sér Hvítbók um sama efni, taki mið af þáttum sem ég vísa hér til að vanti upp á í texta grænbókarinnar varðandi fiska. Í ábendingum mínum kem ég meðal annars inn á það að ákveðnir grunnþættir og tilheyrandi skilgreiningar sem fjallað er um þurfa að vera samræmdir ef viðmið Hvítbókar eiga að skila sínu til þeirrar stefnumörkunar sem hvíla skal á því efni. Mikilvægasta dæmið þar að lútandi felst í því að tryggt verði að skilgreiningar á tilteknum fiskistofnum af hálfu opinberra aðila séu gerðar á líffræðilegum forsendum, líkt og gildir fyrir aðra stofna lífvera. Skilgreiningar Hafrannsóknastofnunar á laxastofnum, sem stofnunin lagði til grundvallar í áhættumati stofnunarinnar á erfðablöndun, byggja á viðmiðum er hvíla á fjölda veiddra laxa úr veiðiskráningum (meðaltölum) en ekki stofnlíffræði fiskistofnanna sem í hlut eiga. Á þeim skráningarviðmiðaskilgreiningum Hafrannsóknastofnunar á laxastofnum hvíla því miður þau viðmið sem segja til um hver sé áhættan fyrir villta laxastofna af erfðablöndun frá hendi eldislaxa sem sleppa úr sjókvíum og ganga upp í íslenskar ár til hrygningar. Þetta eru galin vísindi sem gera það að verkum að þeir smáu laxastofnar sem ráðandi eru í ám næst sjókvíaeldinu komast ekki á blað sem eiginlegir laxastofnar í áhættumatinu sem enn er unnið eftir, enda ná laxar þeirra stofna ekki máli hvorki varðandi meðalfjölda (en lágmarksmörk skráðrar veiði sem þarf skv. sviðstjóra ferskvatns og fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar að vera 50 laxa meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabili), né eru skráningar á veiddum löxum almennt fyrir hendi í þessum smáu ám. Nú síðast í liðnum októbermánuði var sjókvíaeldi heimilað í Trostansfirði með vísun í þetta heimalagaða stofnaviðmið Ferskvatns- og fiskeldissvið Hafrannsóknastofnunar, sem vitnar um ótrúlegan málatilbúnað í því máli og öðrum af sama toga, þar sem sá heggur er hlífa skyldi.

Hér að neðan (1-3) er vísað til aðkallandi umbóta á texta Grænbókarinnar í ljósi stöðu þeirra fisktegunda og stofna þeirra sem undirritaður hefur stundað rannsóknir á. Auk þess sem ég vísa til grunnþátta því tengt varðandi nauðsyn þess að vinna bug á stjórnsýslulegum vanköntum sem fela í sér að draga úr skilvirkni er varðar yfirlýst markmið þess að halda verndarhendi yfir þeirri fjölbreytni sem fyrirfinnst í íslensku lífríki (4-5).

Á meðal slíkra innbyggðra vankanta eru óverjandi krosstengsl hagsmuna á milli opinberra stofnanna sem fjalla eiga í sitthvoru lagi og af hlutleysi um sömu málefni er varða skörun hagsmuna svo sem hagsmunir fiskeldis og villtra laxastofna eru dæmi um. En auk þess finnast slík krosstengsl einnig innan opinberra stofnanna þegar svo ber undir (á milli sviða og/eða deilda). Þetta gerir það að verkum að ákvarðanatökur umræddra aðila eru á köflum litaðar af þeim tengslum þvert á það hlutleysi sem lagt er upp með að sé til staðar.

1. Laxeldi í opnum sjókvíum í núverandi mynd er alvarleg aðför að tilvistargrundvelli íslenskra laxa- og göngusilungsstofna öðru fremur þeirra stofna sem ár næst sjókvíaeldissvæðunum fóstra

Í athugasemdum mínum um fiska þá beini ég sjónum mínum fyrst og fremst að laxastofnum og hinsvegar göngusilungstofnum (sjóbirtingi og sjóbleikju) vegna þess að undangengin ár hafa stjórnvöld gengið þannig um hnútana í starfsumhverfi laxeldis í opnum sjókvíum hér við land að þessum stofnum stafar mikil hætta af fiskeldisiðnaðinum. Nú þegar stafar mörgum smáum stofnum næst sjókvíaeldissvæðunum bráð hætta af erfðablöndun (laxastofnar) og af laxalúsaáþján (laxa- og göngusilungstofnar) auk þess sem sjúkdómar hjá eldislaxi í sjókvíaeldi hér við land ógna líka tilvist laxa- og göngusilungsstofna. Sá heimatilbúni vandi Íslendinga sem fólst í því að leyfa eldi á laxi í opnum sjókvíum hefur í reynd vegið meira að tilvistargrundvelli laxa- og göngusilungsstofna en nokkur önnur dæmi eru um og því einhlítt að taka verður á þeim málum í þeim leiðarvísi stjórnvalda til nánustu framtíðar sem Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið hefur nú forgöngu um að útbúa. Stjórnvöld hérlendis litu ekki til varnaðarorða með vísun í sjókvíaeldi á laxi við strendur annarra landa. Sama gilti þegar sömu vandamál komu til sögunnar eðli málsins samkvæmt hér við land. Með vísun í þá sorglegu sögu þá er satt best að segja ekki við því að búast að ríkisvaldið setji neinar hömlur á laxeldi í opnum sjókvíum umfram það sem tölur um hámarksmagn sem ala má á hverjum stað fela í sér. Um það vitnar aðgerðaleysi stjórnvalda á næstliðnum árum meðal annars þegar snargölluðu áhættumati erfðablöndunar sem sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun gerðu var ekki breytt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar að lútandi frá meðal annars undirrituðum og náttúruverndarsamtökum. Það stjórntæki er enn í fullu brúki enda þótt sérfræðinganefnd sem skipuð var af hálfu stjórnvalda hafi tekið undir umkvartanir er vörðuðu helstu ágallana. Spurningin núna er sú hvort ráðuneyti umhverfismála og sérfræðingar sem taka þátt í að fullmóta texta Grænbókarinnar til birtingar í Hvítbók um sama efni og taka á endanum þátt í stefnumörkun á grunni hennar, sjái sér annað fært en að nefna að bregðast þurfi snarhendis við, varðandi þá laxa- og göngusilungsstofna sem nú þegar eru í bráðri hættu vegna núverandi skilgreininga stjórnvalda er marka starfsumhverfi laxeldis í opnum sjókvíum. Það er eini raunhæfi kosturinn í stöðunni vegna alvarleika málsins ef bókin á ekki að breytast í Hvítþvottarbók. Slík eðlileg ábending á þeim mikla vanda sem lax- og göngusilungsstofnar eiga við að etja næst eldissvæðunum breytir því að sjálfsögðu ekki að því stjórnvöld fara í ákvarðanatökum fram með þeim hætti sem þeim sýnist, hér eftir sem hingað til. Hinsvegar myndi slík framsetning í Hvítbókinni vera mikilvægur liður í því stöðva það ferli að sérfræðingar af hálfu hins opinbera, öðru fremur sérfræðingar á sviði ferskvatnsfiska og fiskeldis, geri með verkum sínum þ.m.t. sinnu- og aðgerðarleysi sínu stjórnmálamönnum áfram auðvelt um vik að tala um það að eldi á laxi eins og það er stundað í opnum sjókvíum vegi ekki verulega að tilvistargrundvelli íslenskra laxa- og göngusilungstofna - þegar fyrir liggja gögn um það að nú þegar þá er hluti þeirra stofna í bráðri hættu. Um leið er tímabært að gangast við því að yfirlýsingar stjórnvalda um sjálfbærni laxeldis í sjókvíum standast ekki því núverandi lög og reglur er varða sjókvíaeldi m.t.t. erfðablöndunar, laxalúsarvanda og fisksjúkdóma fela nú þegar í sér bráða ógn við tilvistarlegan grundvöll (sjálfbærni) laxa - og göngusilungsstofna næst eldissvæðunum, líkt niðurstöður rannsókna undirritaðs sanna. Með öðrum orðum þá er liðinn sá tími þar sem stjórnmálamenn geta skotið sér á bakvið orðskrúð um sjálfbærni sjókvíaeldis hér við land. Vilji opinberir aðilar (stjórnmálamenn og ýmsir forsvarsmenn rannsókna- og eftirlitsstofnana) sem bera ábyrgð á því að eldi á laxi í opnum sjókvíum og eftirlit með því er ennþá stundað með sama sleifarlaginu og lagt var upp með, þá þarf engum lengur að blandast hugur um það að það er gert á kostnað laxa- og göngusilungsstofna í næsta nágrenni eldissvæðanna auk þess sem neikvæðu áhrifin munu teygja sig víðar um landið síðar meir. Ef vilji opinberra aðila er hinsvegar til þess að vernda þá viðkvæmu fáliðuðu stofna laxa- og göngusilungs sem runnir eru úr ám í næsta nágrenni sjókvíaeldissvæðanna þá er einhlítt að taka verður tillit til þeirra stofna öfugt við það sem nú gildir. Það gerist einungis með því að breyta áhættumati erfðablöndunar og sem leiða myndi til tilheyrandi fækkunar eldislaxa ásamt því að líta yrði til þess að leita leiða til að lágmarka afföll hjá þeim villtu stofnum laxfiska af völdum laxalúsar og sjúkdóma. Hin leiðin sem er fær til að lágmarka skaðann sem er síðri þegar litið er til umhverfisáhrifanna, væri sú að setja upp á kostnað eldisaðilanna með leyfi landeigenda svo kallaðar uppgildrur í árnar sem fóstra laxastofnana sem eru næst eldissvæðunum þar sem flokkaðir væru frá á kostnað sjókvíaeldisaðilanna þeir eldislaxar sem ganga upp í árnar. Slík aðgerð myndi þá a.m.k. verja stofnana fyrir innblöndun frá eldislöxum, en eftir sem áður verður sjúkdómahættan til staðar og þau afföll sem laxalúsin veldur hjá laxfiskastofnum næst eldinu, bæði hjá villtum laxi (gönguseiðin sem sýkjast nægilega eru feig er þau ganga á ætisslóðir sínar í hafi) og hjá göngusilungsstofnum því bæði sjóbirtingar og sjóbleikja eru undir miklu álagi því ætisslóðir þeirra eru innfjarða.

Í „Heimildir-1“ er að finna dæmi um niðurstöður rannsókna minna sem málið varða sem og skrif mín á opinberum vettvangi þ.m.t. til ráðuneyta og Alþingis vegna atriða sem málið varða.

2. Niðurstöður frá rannsóknum Laxfiska á atferlisvistfræði ýsu og steinbíts á ætisslóð í Hvalfirði 2009 -2012 sýndu á skilmerkilegan máta í fyrsta sinn hér við land að stofnar af þessum fisktegundum ættu sér ætisheimahaga sem fiskar stofnanna nýttu fyrir hrygningu og á milli hrygninga. Rannsóknirnar voru þær fyrstu á Íslandsmiðum sem á grunni rafeindafiskmerkja (hér af gerð hljóðsendimerkja þ.e.a.s. aqoustic transmitters/ultrasonic transmitters) skiluðu gögnum yfir gönguatferli ýsu og steinbíts frá degi til dags á Íslandsmiðum. En aðferðafræðin þ.e.a.s. að upplýsingarnar frá hljóðsendimerkjunum sem fiskarnir báru skráðust á fastsettar síritandi skráningarstöðvar sem gögnunum var síðan tappað af, gerði kleift að skrá allt upp í 2 ár landfræðilega dreifingu fiskanna auk þess að afla upplýsinga um dýpið sem fiskarnir fóru um hverju sinni. Þessar niðurstöður sýna að kvótasetning þessara fisktegunda sem gerir ráð fyrir að veiða megi fiskinn af þessum tegundum hvar sem er á landgrunninum er ekki viturleg ráðstöfun - nokkuð sem þarf að hafa í huga með hliðsjón af því hvernig við umgöngumst þessa botnfiska. Í ljósi þess er þessi staðreynd sett fram hér, því nú áratug eftir að niðurstöðurnar voru birtar auk þess að vera á þeim tíma kynntar rækilega með öðrum hætti (innanlands og á árlegum vísindaráðsfundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins) þá hefur ekkert tillit verið tekið til þeirra grunniðurstaðna er vörðuðu umrætt megin göngumynstur hjá ýsu og steinbít. Hér er vísað til þess að engin tilraun hefur verið gerð til að kvótasetja veiðar fiska af þessum tegundum m.t.t þess að þeir eigi sér ætisheimahaga og um leið kanna slíkar göngur á öðrum landsvæðum. Þetta er mikilvægt dæmi um þann nýja vanda sem glíma þarf við í vísindum, fiskveiðistjórnun og um leið verndun fiska þ.m.t. talið út frá verndun mismunandi fiskistofna á grunni markmiða um að viðhalda fjölbreytni innan íslenskra vistkerfa. Nefnilega þann vanda sem felst í því þegar nýjar marktækar upplýsingar liggja fyrir en ekkert er gert með þær, nokkuð sem slær nýjan tón, því áður fyrr var það yfirleitt skortur á tilteknum upplýsingum sem hamlaði framþróun á sviði fiskirannsókna með tilheyrandi áhrifum á útfærslu á sjálfbærum veiðum og verndun fiskanna sem í hlut áttu. Þetta vandamál þarf að nefna til sögunnar í Hvítbókinni með tilheyrandi tillögum um það hvernig megi koma í veg fyrir slíka gagnasniðgöngu í þeirri stefnumörkun sem marka á lok þessa Græn- og Hvítbókarverkefnis svo allar niðurstöður sem eðlilegt er að nýta séu notaðar til þess að standa vörð um þá fjölbreytni sem íslenskt lífríki samanstendur af.

Í „Heimildir-2“ er að finna dæmi um niðurstöður rannsókna undirritaðs umsagnaraðila og samstarfsmanna minna er varða umræddar frumherjarannsóknir á ýsu og steinbít.

3. Rannsókn Laxfiska á farleiðum þorsksins með notkun gervitunglafiskmerkja (Pop-up satellite archival tag) árið 2012 er hér nefnt sem dæmi um mikilvægi þess að ýtt sé undir það að nýjar rannsóknaraðferðir sem gefast vel séu teknar upp af opinberum rannsóknaraðilum, ekki síst ef ljóst er að mikið að nýjum hagnýtum upplýsingum fylgi í kaupbæti eins og þarna var raunin. Því með framþróun í upplýsingaöflun verður auðveldara um vik að varðveita þá fjölbreytni sem íslensk vistkerfi státa af. Umrædd merking á þorski með gervitunglafiskmerkjum var jafnframt fyrsta merking á þorski á heimsvísu með slíkum merkjum. Rannsóknin gaf upplýsingar um gönguatferli þorska án þess að það þyrfti að endurveiða með landfræðilegri staðsetningu þeim tíma er merkið var látið fljóta upp til að tengjast gervitunglum, svo mikilvægt sem það tvennt er á marga vegu, því þar með fást upplýsingar sem ekki eru veiðiháðar þ.m.t. yfir fiska sem aldrei eiga eftir að lenda í veiðarfærum. Auk þess fengust fyrstu ítarlegar upplýsingar um afrán búrhvals á þorski og í kaupbæti mikilvæg innsýn í hegðun búrhvals á Íslandsmiðum. Nú áratug síðar hefur þessi rannsóknaraðferð ekki enn verið tekin upp í rannsóknum á þorski hérlendis, né á öðrum fiski. Upphaf þess að umrædd rannsóknaaðferð á grunni gervitunglafiskmerkja var tekin upp hér við land markaðist af merkingum Laxfiska á laxi 2011, en þær merkingar og merkingar samstarfsaðila í öðrum löndum gerðu kleift að endurskilgreina útbreiðslu Atlantshafslax í hafi.

Í „Heimildir-3“ er að finna dæmi um niðurstöður rannsókna undirritaðs umsagnaraðila og samstarfsmanna minna er varða umræddar frumherjarannsóknir á þorski.

4. Koma þarf í veg fyrir óverjandi krosstengsl hagsmuna á milli opinberra stofnanna sem fjalla eiga í sitthvoru lagi og af hlutleysi um sömu málefni auk þess sem slík krosstengsl finnast einnig og þvælast fyrir réttmætum ákvarðanatökum innan opinberra stofnanna þegar svo ber undir (á milli sviða og/eða deilda). Þetta gerir það að verkum að ákvarðanatökur umræddra aðila eru á köflum litaðar af þeim tengslum þvert á það hlutleysi sem lagt er upp með að sé til staðar. Fjárhagslegir hagsmunir ráða samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma oft meira um opinbera afstöðu heldur en þeir umhverfislegu hagsmunir sem málin varða. Enda þótt oft sé erfitt í litlu samfélagi að sneiða algerlega framhjá nefndum krosstengslum þá verður að segjast að að núverandi uppsetning sýnir enga viðleitni til að draga úr þeirri vantrú sem eðlilega kemur upp á störfum aðila þegar hlutum er komið þannig fyrir að ráðandi opinber aðili situr að segja má allt í kringum borðið, leggur jafnvel mat á eigin störf og ef í harðbakkann slær þá er málum komið þannig fyrir að opinber systur/samstarfsstofnun er fengin til að leggja mat á verkin sem þá gjarnan eru unninn samkvæmt skapalóni beggja stofnanna eða fleiri tengdra stofnanna þar sem svo hagar til. Á starfsviði undirritaðs þá eru Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun skýr dæmi um aðila þar sem óeðlileg krosstengsl hagsmuna fela sjálfkrafa í sér að hlutdrægni er til staðar á milli þessara stofnanna enda þótt þeim sé ætlað að gæta hlutleysis. Fyrr á þessari öld mátti undirritaður skrifast lengi vel á við Landbúnaðarráðuneyti áður en orðið var við þeirri beiðni að koma málum fyrir að Veiðimálastofnun (sem nú hefur runnið inn í Hafrannsóknastofnun), Veiðimálastjóri sem nú ber heitið Lax- og silungsveiðisvið Fiskistofu og Fiskræktarsjóður, hefðu ekki sama gjaldkerann auk þess sem vikið var að öðrum samlegðaráhrifa vegna húsnæðis o.fl. þátta. Skemmst er frá að segja að fyrir skömmu heyrði ég af því að Fiskistofa væri komin í sama húsnæði og Hafrannsóknastofnun og ég yrði ekki hissa þó svo að þeir samnýttu gjaldkerann og skrifstofufólk enn á ný. Enginn myndi álasa fólki sem segði í ljósi þessa að enn á ný væri komin upp sú staða að vonlaust væri fyrir þessa aðila að axla hlutleysi gagnvart störfum hvors annars. Eðlilegt er að fólk búist ekki við óvilhöllum ályktunum við athugasemdum sem gerð eru við störf opinberra aðila á þessum grunni og í flestum tilfellum sér fólk ekki tilgang í því að eyða tíma sínum í því að gera athugasemdir nema þá ef málin eru þannig vaxin að mögulegt sé að fá Umboðsmann Alþingis til að rannsaka þau. Illu heilli þá geta slík krosstengsl á milli opinberra stofnanna eða innan opinberrar stofnunar sem bera hlutleysi ofurliði jafnframt gert það að verkum ábyrgð sem ætti að vera á borði rekstraraðila á borð fiskeldisfyrirtækja færist yfir til ríkisins vegna handvammar sem finna má í hlutlægni ákvörðanna sem ættu að vera varðaðar hlutleysi. Þetta er nefnt vegna þess að í ljósi dæma frá öðrum löndum er stunda laxeldi í opnum sjókvíum þá verða stórslys með reglulegum hætti í þeim iðnaði sem hafa í stundum í för með sér óafturkræfan skaða á lífríki í nágrenni eldissvæðanna sem eðlilegt væri þá að tryggt væri að eldisaðilinn væri skaðabótaskyldur gagnvart, en íslensku krosstengslin hjá opinberum aðilum kasta vafa á flestar ákvarðanir þannig að skaðinn er þá ábyrgð ríkisins sem á þeim ákvörðunum hvílir. Á sama hátt þá sá Hafrannsóknastofnun til þess að ríkið situr upp með mögulega skaðabótarábyrgð hvað varðar litlu laxastofnana sem næstir eru eldissvæðunum. Þetta gerðu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar með veiðiskráningarskilgreiningu sinni á laxastofnum sem felur í sér að þessir smáu laxastofnar séu þrátt fyrir fyrir að stofnlíffræðin segi annað samkvæmt þeirra skilgreiningu ekki laxastofnar, skilgreining sem lætur vel í eyrum eldisaðilar sem vegna hennar eru lausir allra mála er varða mögulegar skaðabótakröfur eigenda ánna sem fóstra þessa laxastofna sem eru í bráðri hættu vegna sjókvíaeldisins.

Í „Heimildir-4“ er að finna dæmi óverjandi málatilbúnað af hálfu þáverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og þáverandi sviðstjóra fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar sem Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði ótækan með öllu. Það dæmi sýnir hversu óráðlegt það er að samkeppnisaðili þurfi að fara í gegnum opinberan aðila sem starfar í samkeppni við hann til að fá aðgengi að almennum gögnum sem þurfa að liggja á lausu fyrir rannsóknaraðila til að að hægt sé að fylgja eftir rannsóknum er varða velferð dýrastofna sem varðar um leið þann ásetning að standa vörð um fjölbreytni lífríkis Íslands. Hér var um að ræða stofngerðargrunngögn yfir eldislaxa sem notaðir eru til undaneldis vegna sjókvíaeldis hér við land, gögnum sem unnin eru á kostnað ríkisins í því skyni að hægt sé að rekja hvar sökin liggur ef eldislaxar sleppa úr sjókvíum. Brotalömin í þeirri tilhögun sem þarna var um að ræða er augljós enda þótt hún hefði í sjálfu sér ekki þurft vera til vandræða ef siðferðisviðmiðum hefði verið fylgt. Brotalömin er enn augljósari er menn átta sig á því að Hafrannsóknastofnun kemur að öllum ákvarðanatökum er standa að baki þeirrar erfðablöndunar sem uppvís verður, allt frá því að ákvarða hve mikið má ala í hverjum firði (ákvörðun á burðaþoli fjarða), hvað skuli rannsakað (af þeim) og hvernig, starfsmenn Hafrannsóknastofnun meta síðan sjálfir athugasemdir sem gerðar eru við þeirra eigin rannsóknir, ákvarða sjálfir hvort gera þurfi frekari rannsóknir ef um er beðið, starfsmenn Hafrannsóknastofnunar ákveða hvernig skuli ákvarða hættumörk erfðablöndunar, þ.m.t. með því að láta hjá líða að skilgreina laxastofnana næst eldissvæðunum sem eiginlega stofna og með því að taka ekki sérstaklega tillit til þess í áhættumati erfðablöndunar að þeir norsku laxar sem sleppa úr sjókvíum og ganga í ár til hrygningar eru af norskum uppruna en ekki íslenskum. Bæta má því við að fiskeldissvið og ferskvatnslífríkissvið hafa nú verið sameinuð í eitt svið á Hafrannsóknastofnun, nokkuð sem kemur ekki á óvart með hliðsjón af eldisáherslunum í málflutningi Hafrannsóknastofnunar. Enn má halda áfram með upptalninguna, en þessi dæmi sýna þá þegar slæmt dæmi um hvernig málum er komið fyrir hjá Hafrannsóknastofnun á þann veg að jafnvel með frjótt ímyndunarafl að vopni þá er ekki mögulegt að ímynda sér að stofnunin geti verið hlutlaus í nokkru máli er lýtur að sjókvíaeldi á laxi.

5. Umbætur í miðlun upplýsinga um íslenska náttúru er annað dæmi um það sem bæta má innan stjórnsýslunnar í því skyni að stuðla að góðum framgangi í þeirri viðleitni að standa vörð um fjölbreytni í lífríki Íslands. Þar þarf aukinn hvata til að miðla upplýsingum í ræðu og riti til fólksins í landinu, hvata sem í dag virðist að langmestu leyti liggja í því að stuðla að skrifum ritrýndra fræðigreina sem flestar birtast í erlendum fræðiritum. Svo mikilvægur sem sá þáttur birtingar er varandi nýjar upplýsingar um náttúru landsins líkt og á öðrum fræðasviðum þá er grátlegt að ekki skuli meira gert en raun ber vitni til að standa við bakið á þeim aðilum (sérfræðingar; þáttagerðarmenn o.s.frv.) sem vilja koma mikilvægum nýjum upplýsingum um náttúru landsins á framfæri við fólkið í landinu. Það að ritrýndar greinar séu algerlega ráðandi þáttur til kynningar á mikilsverðum niðurstöðum rannsókna er aðferðafræði sem í reynd er genginn sér til húðar. Loftslagsmálin eru að öllum líkindum skýrasta dæmið um nauðsyn þess raunveruleikinn sem niðurstöður rannsókna vitna um skili sér til hins almenna borgara. Sá veruleiki sem þar er til umfjöllunar er blákaldur og eðlilegt að fólk spyrji sig hvort staðan hefði ekki getað verið skárri í dag ef stjórnvöld þessarar veraldar hefði fyrr gengið í að kynna málið og með meiri krafti þannig að sú pressa sem nú er til staðar hefði verið komin fyrr. Það er í það minnsta kosti þarft að hugsa til þess strax hvernig ráðandi aðilar sjá fyrir sér að fá Íslendinga í lið með sér í þeirri viðleitni að reyna að viðhalda þeirri fjölbreytni sem lífríki landsins státar af.

Heimildir-1. Kynning umsagnaraðila á opinberum vettvangi þ.m.t. með umsögnum til stjórnvalda varðandi áhrif sjókvíaeldis á villta laxa- og göngusilungsstofna og kynning á rannsóknum sem þau mál varða

Jóhannes Sturlaugsson. 2016. Ketildalaár - Rannsókn á fiskistofnum 2015. Laxfiskar. Febrúar 2016. 11 bls.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/ketildalaar-fiskistofnar_2015-johannes_sturlaugsson-laxfiskar_feb2016.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 2017. Ketildalaár - Rannsókn á fiskistofnum 2016. Laxfiskar. Febrúar 2016. 7 bls.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/Ketildalaar-fiskistofnar_2016-Johannes_Sturlaugsson-Laxfiskar_feb2017.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 2018a. Hugvekja um örlög íslenskra laxastofna í ljósi eldis á laxi í opnum sjókvíum við Ísland. Laxfiskar. Desember 2018. 18 bls.

http://laxfiskar.is/images/stories/greinar/hugvekja_um_orlog_islenskra_laxastofna_i_ljosi_eldis_a_laxi_i_sjokvium_vid_island laxfiskar_des_2018_johannes_sturlaugsson.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 2018b. Laxastofnum fórnað fyrir sjókvíaeldi á laxi? Stundin. Birt í des2018-jan2019 í prentútgáfu Stundarinnar og á vef Stundarinnar 9. jan. 2019.

https://stundin.is/grein/8133/laxastofnum-fornad-fyrir-sjokviaeldi-laxi/

Jóhannes Sturlaugsson. Jan. 2019. Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um drög að frumvarpi varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 13. Janúar 2019. Sjá samráðsgátt stjórnarráðsins.

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1256&uid=b3fb62b5-6a17-e911-944c-005056850474

Jóhannes Sturlaugsson. Mars 2019. Umsögn Jóhannesar Sturlaugsson Laxfiskum um Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. 29. mars 2019. Sjá vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4946.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. Apríl 2019a. Rannsóknir á fiskistofnum í ám í Ketildölum 2017 og 2018. Laxfiskar. 4 bls. Sjá vef Alþingis í fylgiskjölum viðbótarumsagnar Jóhannesar Sturlaugssonar Laxfiskum til Atvinnuveganefndar Alþingis 6. maí 2019 vegna 647. mál á 149. löggjafarþingi (lagaákvæði er varða sjókvíaeldi og fleiri þætti fiskeldis): https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5418.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. Apríl 2019b. Athugasemdir (9 bls.) Jóhannesar Sturlaugssonar líffræðings hjá Laxfiskum til Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála (Kærumál nr. 2 og 8/2018) vegna umsagnar Hafrannsóknastofnunar um væntanleg áhrif 4000 tonna árlegs eldis af laxi eða regnbogasilungi í opnum sjókvíum í Dýrafirði á lífríki tilgreindra áa. Sjá vef Alþingis í fylgiskjölum viðbótarumsagnar Jóhannesar Sturlaugssonar Laxfiskum til Atvinnuveganefndar Alþingis 6. maí 2019 vegna 647. mál á 149. löggjafarþingi (lagaákvæði er varða sjókvíaeldi og fleiri þætti fiskeldis):

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5418.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 6. maí. Viðbótarumsögn vegna 647. mál á 149. löggjafarþingi (lagaákvæði er varða sjókvíaeldi og fleiri þætti fiskeldis) frá Jóhannesi Sturlaugssyni, Laxfiskum. Sjá vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5418.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 31. maí 2019. Örlög íslenskra laxastofna eru nú í höndum Alþingismanna. Fréttablaðið.

https://www.frettabladid.is/skodun/orlog-islenskra-laxastofna-eru-nu-i-hondum-althingismanna/?

Jóhannes Sturlaugsson. jan. 2020. Umsögn um drög að reglugerð um fiskeldi sem taka mið af þeim breytingum á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi sem fólust þeim lagabreytingum sem samþykktar voru með lögum nr. 101/2019. Sjá samráðsgátt stjórnarráðsins:

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2570&uid=d93956df-8139-ea11-945b-005056850474

Jóhannes Sturlaugsson. Nóvember 2020. Sláandi hlutfall eldislaxa á hrygningarslóð villtra laxa í Arnarfirði. Fréttablaðið.

https://www.frettabladid.is/skodun/slaandi-hlutfall-eldislaxa-a-hrygningarslod-villtra-laxa-i-arnarfirdi/

Jóhannes Sturlaugsson. 2021. Eldislaxar á hrygningarslóð villtra laxa í Fífustaðadalsá í Arnarfirði 2015-2020. Laxfiskar. 8 bls.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/eldislaxar_a_hrygningarslod_villtra_laxa_i_fifustadadalsa_2015-2020-monitoring_of_farmed_salmon_in_river_fifustadadalsa_iceland_2015-2020-johannes_sturlaugsson-laxfiskar_mars_2021.pdf

Jóhannes Sturlaugsson. 2021. Fjarðará i fiskirannsóknir 2021. Laxfiskar. febrúar 2021. 10 bls.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/fjardara-fiskirannsoknir_2021-johannes_sturlaugsson-laxfiskar-februar_2022.pdf

Kjartan Þorbjörnsson. des. 2018. Sink or Swim - The Life and Times of Freswater Fish - Studies of of Johannes Sturlaugsson revealed in Interview article. Iceland Review. Des2018-jan2019 issue: 96-104.

The Convention on Biological Diversity (Líffræðileg fjölbreytni - samningur Sameinuðu þjóðanna).

https://www.cbd.int/intro/

Lög um náttúruvernd. 2013 nr. 60 10. apríl. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013060.html

Ragnar Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson, Agnar Steinarsson og Jón Hlöðver Friðriksson.2017. Áhættumat

vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Hafrannsóknastofnun. HV 2017-027. 38 bls. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2017-027.pdf

Jakob Bjarnar. Vísir 27. október 2022. Viðtal við Jóhannes Sturlaugsson og tengt efni. Svandís fari með fleipur um erfðablöndun eldislaxa og villtra laxa.https://www.visir.is/g/20222330804d/svan-dis-fari-med-fleipur-um-erfda-b-londun-eldis-laxa-og-villtra-laxa

Jakob Bjarnar. Vísir 5. nóvember 2021. Viðtal við Jóhannes Sturlaugsson og tengt efni. Laxastofninn í Fífudalsá er ofurseldur sjókvíaeldinu. https://www.visir.is/g/20212179533d

Heimildir-2. Dæmi um niðurstöður rannsókna umsagnaraðila og samstarfsmanna hans er varða umræddar frumherjarannsóknir á ýsu og steinbít.

Gönguhegðun ýsu í Hvalfirði.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/gonguhegdun_steinbits_anarhichas_lupus_i_hvalfirdi-johannes_sturlaugsson%20ofl-movements_and_migration_behaviour_of_atlantic_wolffish-laxfiskar-des2012.pdf

Gönguhegðun steinbíts í Hvalfirði.

http://laxfiskar.is/images/stories/skyrslur/gonguhegdun_steinbits_anarhichas_lupus_i_hvalfirdi-johannes_sturlaugsson%20ofl-movements_and_migration_behaviour_of_atlantic_wolffish-laxfiskar-des2012.pdf

Steinbíturinn er heimakær.

http://laxfiskar.is/images/stories/greinar/Steinb%C3%ADturinn%20er%20heimak%C3%A6r%20-%20J%C3%B3hannes%20Sturlaugsson,%20Erlendur%20Geirdal,%20Gu%C3%B0mundur%20Geirdal%20-%20Fiskifr%C3%A9ttir%2030.ma%C3%AD%202013%20-%20Bls.%2073-74.pdf

Heimildir-3. Dæmi um niðurstöður rannsókna undirritaðs umsagnaraðila og samstarfsmanna minna er varða umræddar frumherjarannsóknir á þorski.

Ferðir þorsks kortlagðar á nýjan hátt

http://laxfiskar.is/images/stories/greinar/Fer%C3%B0ir%20%C3%BEorsks%20kortlag%C3%B0ar%20%C3%A1%20n%C3%BDjan%20h%C3%A1tt%20-%20J%C3%B3hannes%20Sturlaugsson,%20Erlendur%20Geirdal,%20Gu%C3%B0mundur%20Geirdal%20-%20Fiskifr%C3%A9ttir%2027.mars%202013%20-%20Bl

Heimildir-4. Dæmi óverjandi málatilbúnað af hálfu þáverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og þáverandi sviðstjóra fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar sem Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði ótækan með öllu.

Forsvarsaðilar Hafrannsóknastofnunar sniðgengu lög og vandaða stjórnsýsluhætti er þeir notuðu og birtu í leyfisleysi óbirt rannsóknargögn Jóhannesar Sturlaugssonar / Laxfiska

http://laxfiskar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=187%3Aforsvarsaeilar-hafrannsoknastofnunar-sniegengu-loeg-og-vandaea-stjornsysluhaetti&catid=1%3Alatest-news&Itemid=139&lang=is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Matvælaráðuneyti - 15.11.2022

Viðhengi