Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 29.9.–14.10.2022

2

Í vinnslu

  • 15.10.–16.11.2022

3

Samráði lokið

  • 17.11.2022

Mál nr. S-181/2022

Birt: 29.9.2022

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf

Niðurstöður

Umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Fjallað er um efni hennar og hvernig brugðist hafi verið við henni í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf og lögum um fjármálafyrirtæki (sértryggð skuldabréf) sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fyrir Alþingi í nóvember 2022 (433. mál á 153. löggjafarþingi).

Málsefni

Frumvarpinu er ætlað að innleiða efni tveggja Evrópugerða um sértryggð skuldabréf.

Nánari upplýsingar

Sértryggð skuldabréf eru sérstök tegund skuldabréfa sem lánastofnanir gefa út til að fjármagna útlán og aðra starfsemi sína. Helsta einkenni þeirra er að þau eru ekki tryggð með hefðbundnum veðum heldur með tryggingasöfnum traustra eigna, sem eru yfirleitt einkum fasteignalán. Greiðslur af eignum í tryggingasöfnum eiga að nægja til að standa undir greiðslum af skuldabréfunum. Verði útgefandi sértryggðra skuldabréfa gjaldþrota eiga eigendur bréfanna forgangsrétt umfram aðra kröfuhafa að eignum í tryggingasafni, auk almennrar kröfu á útgefanda. Af þessum sökum eru sértryggð skuldabréf talin mjög öruggur fjárfestingarkostur, sem um leið gerir þau að hagkvæmri fjármögnunarleið fyrir lánastofnanir.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða efni tilskipunar (ESB) 2019/2162, um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum, og reglugerðar (ESB) 2019/2160, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa. Ákvæðum Evrópugerðanna svipar mjög til þess lagaramma sem þegar gildir um sértryggð skuldabréf hér á landi samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, og innleiðing þeirra kallar því ekki á verulegar breytingar á gildandi lögum. Veigamestu breytingar eru líklega þær að útgefendur munu ávallt þurfa að hafa nægt laust fé í tryggingasöfnum til að standa undir hámarksútflæði lauss fjár næstu 180 daga, sett eru skilyrði fyrir frestun gjalddaga sértryggðra skuldabréfa og mælt er fyrir um ítarlegri upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta. Þá munu fleiri brot en áður varða stjórnvaldssektum og hámark sektanna verður hækkað. Skuldabréf sem uppfylla skilyrði laganna verður unnt að markaðssetja sem „evrópsk sértryggð skuldabréf“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals)“.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að reglugerð (ESB) 2021/424, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar óhefðbundna staðalaðferð vegna markaðsáhættu, verði veitt lagagildi. Innleiðing hennar hefur ekki áhrif sem stendur þar sem engin íslensk lánastofnun notast við óhefðbundna staðalaðferð við mat á markaðsáhættu.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaðar

gunnlaugur.helgason@fjr.is