Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 6.–17.10.2022

2

Í vinnslu

  • 18.10.2022–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-186/2022

Birt: 6.10.2022

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Drög að frumvarpi um breytingar á lögum nr. 110/2016 um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist (framlenging gildistíma laganna og endurskoðun einstakra ákvæða)

Málsefni

Endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist verða framlengdar til fimm ára. Þá verða einnig gerðar minniháttar breytingar á núgildandi lögum í ljósi reynslu undanfarinna ára,

Nánari upplýsingar

Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar og fjármálaáætlun 2023 – 2027 kemur fram áhersla ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Þar kemur fram tryggja eigi frekari uppbyggingu tónlistariðnaðarins og áframhaldandi stuðning við íslenskt tónlistarfólk. Endurgreiðslukerfi laga nr. 110/2016 hefur haft hvetjandi áhrif á tónlistarútgáfu á Íslandi, með tilheyrandi jákvæðum efnahags- og menningarlegum áhrifum. Þá hefur það einnig haft í för með sér ýmis ófyrirséð jákvæð áhrif, og má þar til að mynda nefna starfsemi þjónustuaðila sem hefur náð góðum árangri í að laða stór erlend upptökuverkefni til landsins. Er markmið þessa frumvarps að stuðla að áframhaldandi uppgangi íslensks tónlistariðnaðar með því að framlengja gildistíma laga nr. 110/2016 um fimm ár, sem og að leggja til minniháttar breytingar á núgildandi lögum sem gera kerfið skilvirkara og hámarka afköst þess.

Meginefni frumvarpsins eru:

1. Starfsemi þjónustuaðila felld inn í lögin

Samkvæmt gildandi lögum nr. 110/2016 eru það útgefendur hljóðrita sem falla undir gildissvið laganna og eiga rétt á endurgreiðslu á hluta þess kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar. Í reynd hefur starfsemi þjónustuaðila, þ.e. aðila sem veita þjónustu við útgefenda hljóðrita, hins vegar náð afar góðum árangri í að laða stór erlend upptökuverkefni til landsins og fellur hún því afar vel að markmiði laganna. Bent hefur verið á að endurgreiðslukerfi laganna sé forsenda fyrir velgengni þjónustuaðila. Til þess að hægt sé að tryggja að starfsemin geti talist endurgreiðsluhæf samkvæmt lögunum eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem opna á að þjónustuaðilar geti í afmörkuðum tilvikum sótt um endurgreiðslu í stað útgefenda hljóðrita. Þar sem starfsemi þjónustuaðila fellur að mörgu leyti illa að þeim skilyrðum sem lögin setja fyrir endurgreiðslu eru einnig lagðar til breytingar til þess að bregðast við þeim takmörkunum sem eru á gildandi lögum í þessu samhengi.

2. Lagt til að endurgreiðsluhæfur kostnaður verði skýrður með nánari hætti í reglugerð

Í framkvæmd hefur myndast nokkur óvissa um hvaða kostnaður teljist endurgreiðsluhæfur kostnaður. Með frumvarpinu er því lagt til að ráðherra verði heimilt að skýra það með nánari hætti í reglugerð.

3. Framlenging á gildistíma laganna

Lög nr. 110/2016 um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist voru upphaflega samþykkt á Alþingi árið 2016 og þeim afmarkaður fimm ára gildistími til 31. desember 2022. Með hliðsjón af þeim árangri sem hlotist hefur af endurgreiðslukerfinu hingað til er lagt til að áfram verði veittar tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist hér á landi og að lögin gildi til ársloka 2027.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa viðskipta og ferðaþjónustu

mvf@mvf.is