Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.–31.10.2022

2

Í vinnslu

  • 1.11.2022–14.3.2023

3

Samráði lokið

  • 15.3.2023

Mál nr. S-195/2022

Birt: 17.10.2022

Fjöldi umsagna: 21

Áform um lagasetningu

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Áform um frumvörp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun

Niðurstöður

Umsagnir bárust frá 21 aðila. Umsagnirnar fjölluðu um skólaþjónustu, nýja þjónustustofnun eða bæði skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun. Litið hefur verið til umsagna við frekari vinnslu málsins. Drög að frumvarpi til laga um nýja þjónustustofnun á sviði menntamála og ný heildarlög um skólaþjónustu verða kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir áform um frumvörp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun.

Nánari upplýsingar

Í aðgerðaáætlun menntastefnu til ársins 2030, sem samþykkt var á Alþingi 24. mars 2021, er kveðið á um uppbyggingu heildstæðrar skólaþjónustu á grundvelli þrepaskipts stuðnings til að tryggja jafnrétti til náms og þjónustu við nemendur óháð búsetu. Markmið skólaþjónustu er að efla skóla sem faglegar stofnanir og veita nemendum, foreldrum, stjórnendum og starfsfólki fjölbreytta þjónustu sem styður við farsæla skólagöngu barna og gæðastarf í skólum. Mikilvægt er að þjónustan sé skilvirk, snemmtæk og mæti þörfum nemenda og starfsfólks á vettvangi, ásamt því að vera samþætt annarri þjónustu sem er veitt í þágu farsældar barna.

Til þessa hefur skólaþjónusta verið skilgreind með ólíkum hætti eftir skólastigum og engin heildarlöggjöf er til staðar um skólaþjónustu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Aðgengi að þjónustu og ráðgjöf er mismunandi, bæði milli og innan skólastiga og sveitarfélaga, sem leiðir til ójafnræðis. Þörf er á samhæfingu til að tryggja yfirsýn, skilvirkni og gæði þjónustunnar, svo sem þegar nemendur flytjast á milli skóla eða færast milli skólastiga.

Langvarandi ákall hefur verið eftir meiri ráðgjöf við starfsfólk á vettvangi og stuðningi við skólastarf ásamt markvissari snemmtækum stuðningi við nemendur vegna náms, hegðunar, líðanar og félagsfærni. Í þeirri þrepaskiptu nálgun sem lagt er upp með í menntastefnu til 2030 er sömuleiðis gert ráð fyrir aukinni áherslu á geðrækt, fyrirbyggjandi aðgerðir og hagnýtingu gagna til að styðja við farsæla skólagöngu barna.

Til að mæta þessu ákalli kynnir mennta- og barnamálaráðuneyti áform um setningu nýrrar heildarlöggjafar um skólaþjónustu. Markmið hennar er að tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum ásamt því að efla þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu nemenda með hliðsjón af farsældarlögum og Barnvænu Íslandi. Kynning áformanna er fyrsta skrefið í víðtæku samráðsferli um útfærslu skólaþjónustu til framtíðar.

Samhliða eru kynnt áform um nýja þjónustustofnun um skólaþróun og skólaþjónustu með áherslu á stuðning við skólasamfélagið. Af því tilefni og í tengslum við skipulagsbreytingar sem leiða af stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis, hefur verið rýnt í skipulag og verkaskiptingu ráðuneytis og Menntamálastofnunar. Komið hefur fram að nauðsynlegt sé að aðgreina stuðning og þjónustu frá eftirliti og greiningum, sem Menntamálastofnun sinnir nú. Jafnframt þarf að byggja upp fjölbreyttari þekkingu hjá stofnun ríkisins sem fer með menntamál á landsvísu. Menntamálastofnun getur því ekki orðið sú þjónustustofnun á sviði skólaþróunar og skólaþjónustu sem stefnt er að.

Eru því kynnt áform um að setja á fót nýja stofnun og leggja Menntamálstofnun niður. Ný stofnun taki við hluta verkefna Menntamálastofnunar en verkefni á sviði greiningar, mats og eftirlits verði færð til mennta- og barnamálaráðuneytis, í það minnsta fyrst um sinn.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar

mrn@mrn.is