Samráð fyrirhugað 18.10.2022—01.11.2022
Til umsagnar 18.10.2022—01.11.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 01.11.2022
Niðurstöður birtar

Áform um lagasetningu - Breyting á lögum nr. 155/2018 um landgræðslu og lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt (sameining stofnana)

Mál nr. 196/2022 Birt: 18.10.2022 Síðast uppfært: 20.10.2022
  • Matvælaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Landbúnaður
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.10.2022–01.11.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Matvælaráðherra hefur ákveðið að leggja til að Landgræðslan og Skógræktin verði sameinaðar í nýja stofnun.

Hinn 17. maí 2022 skipaði ráðherra starfshóp sem var falið að greina rekstur Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, eignaumsýslu, samlegð faglegra málefna stofnananna og vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar og skilaði starfshópurinn meðfylgjandi skýrslu þann 3. október sl. Niðurstaða starfshópsins er að fagleg og rekstrarleg rök eru fyrir sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og með góðum undirbúningi má tryggja að slík sameining skili í heildina meiri ávinningi en ef áfram verða tvær stofnanir. Tækifæri eru til staðar og horfa má til þess að ná fram aukinni skilvirkni í málaflokknum. Stærstu tækifærin snúa að heildstæðari sýn á landnýtingu sem geta flýtt framgangi fjölmargra verkefna m.a. í þágu loftslagsmála. Með vísan til framangreinds hefur matvælaráðherra ákveðið að leggja til að Landgræðslan og Skógræktin verði sameinaðar í nýja stofnun. Mikill samhljómur er með hlutverkum stofnananna eins og þau eru skilgreind í lögum nr. 155/2018 um landgræðslu og lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt og nýverið gaf matvælaráðherra út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt auk aðgerðaráætlunar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Rangárþing ytra - 26.10.2022

Byggðarráð Rangárþings ytra tók málið fyrir á fundi sínum 26.10.2022 og bókaði eftirfarandi:

Farið var yfir áform um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins og í því sambandi yfirlýsingu Matvælaráðherra og umsagnarbeiðni um tillögu ráðherra í samráðsgátt.

Byggðarráð leggur mikla áherslu á að ef til sameiningar kemur verði ein forsendan að starfstöðin í Gunnarsholti eflist og dafni með sameiningunni. Í því sambandi má benda á að tækifæri eru til að starfstöðin í Gunnarsholti fái aukin verkefni, en mikill mannauður er á staðnum og mannvirki sem hægt er bæta við starfsemi og þróa frekari verkefni. Starfsemin í Gunnarsholti er rótgróin og lykill að fræða- og vísindasamfélagi í sveitarfélaginu og á Suðurlandi öllu á þessu sviði. Mikilvægt er að efla starfsemi vísinda og fræða á svæði þar sem þörf er fyrir að auka fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir háskólamenntað fólk.

Samþykkt og sveitarstjóra falið að senda bókun byggðarráðs sem umsögn í samráðsgáttina.

Afrita slóð á umsögn

#2 Skógarafurðir ehf. - 31.10.2022

Umsögn frá

Bjarki M Jónsson er framkvæmdastjóri Skógarafurða ehf sem er einkarekinn úrvinnslustöð skógarafurða í Fljótsdal og einn stærsti innlendi kaupandinn á hráefni úr íslenskum skógum. Bjarki er einnig af fjórðu kynslóð skógarbónda.

Skógarafurðir hafa á átta árum tvöfaldað sölu framleiðslu og sölu á íslensku viðarafurðum í formi utan- og innanhúsklæðninga og gólfefna ásamt ýmiskonar sérvinnslu sem við bjóðum uppá. Árið 2022 er náum við að vinna 1000 rúmmetra af trjábolum úr íslenskum skógum og á næsta ári ætlum við okkur í 1500 rúmmetra. Erfiðlega hefur gengið að fá hráefni þó að allir segi að grisjunarþörf í íslenskum nytjaskógum sé mikil. Meginástæðan er sú að bændur hafa ekki bolmagn til að kosta stórar grisjanir og því höfum við þurft að reiða okkur á kaup frá Skógræktinni síðustu þrjú árin úr þjóðskógum. Þeim kaupum hefur oft fylgt það vandamál að í stað þess að flokka hráefnið í þrjá flokka þá hefur lakara efni slæðst með í stæður sem greitt er fyrir fullu verði. Góð flokkun á hráefninu skiptir höfuðmáli á Íslandi þar sem við erum að borga tvöfalt og oft þrefalt heimsmarkaðsverð á og þá skiptir öllu að flokkunin sé í lagi til að nýtingin sé sem best.

Það sem ég er að vekja máls á í þessari umsögn um frumvarpið er aðkoma ríkisins að úrvinnslu á íslenskum skógum sem á eftir að margfaldast á næstu árum. Hvers vegna á Skógræktin að vera með 100-150% hagnað af sölu hráefnis þegar skógariðnaðurinn er að byggjast upp í landinu? Innviðir eru engir þar sem þetta er nýr iðnaður hérlendis og því þurfa allir að sameinast um að byggja þá upp. Af hverju er ríkið ekki að reyna hjálpa skógariðnaðinum að koma sér á legg í stað þess að okra á sölu hráefnis úr þjóðskógum og vera svo leiðandi á samkeppnismarkaðinum í sölu á hráefni og undirbjóða okkur sem erum að koma okkur af stað í einkageiranum?

Ég tel æskilegt að úrvinnslustöðvar Skógræktarinnar verði aðskildar í bókhaldi frekar en að loka þeim og að þjóðskógarnir megi einungis selja óunnar vörur frá sér, t.d. jólatré, köngla, fræ og flokkaða trjáboli þannig að allir hafi aðgang að því efni sem hentar í þeirra framleiðslu. Koma þarf upp uppboðsvef þar sem hráefnið er selt og þannig búa til umhverfi og verðlagningu sem markaðurinn ræður við þannig íslenskar afurðarstöðvar geti verið samkeppnishæfar í tilbúinni íslenskri vöru á móti innfluttri. Starfstöðvar Skógræktarinnar ættu að þurfa að kaupa sitt hráefni út úr þjóðskóginum eins og við hin og reikna húsnæði, laun og tækjakostnað inn í vöruverðið eins og við þurfum að gera Samkeppnismarkaðurinn þarf að vera á jöfnum grunni reistur. Í dag vantar sitthvað upp á og það gengur ekki til lengdar að ríkisstofnun sé að undirbjóða, iðnað sem er að byggjast upp og selja okkur dýrasta hráefnið. Ríkið á að standa með okkur og vera hvetjandi til að ýta undir uppbyggingu skógariðnaðarins hérlendis.

Hjá Skógræktinni eru margir viskubrunnar að sækja í fyrir okkur sem erum að byggja upp skógariðnaðinn en starfsstöðvar stofnunarinnar eiga ekki að vera í beinni samkeppni við einkaaðila þegar kemur að vinnslu og sölu viðarafurða. Aðskilnaður í bókhaldi á þeim hluta starfsemi Skógræktarinnar sem er í samkeppni er frumskilyrði til að samkeppnisstaðan sé ekki skökk.

Ég legg einnig til að bændaskógar verði teknir út úr Skógræktinni þar sem þjónusta og umgjörð hefur snarversnað eftir að landshlutaverkefnin voru sameinuð Skógræktinni. Nytjaskógrækt bænda á frekar heima hjá Landssambandi skógareigenda en hjá ríkisstofnun. Bændaskógar í dag eru komnir á grisjunarstig en engin vitneskja til staðar fyrir okkur sem viljum kaupa við úr bændaskógum um hvaða skógar eru komnir á tíma. Sú umgjörð er ekki til staðar hjá Skógræktinni og vilji til að búa hana til hefur ekki verið til staðar. Umhirðu skóga er mjög ábótavant hérlendis, engar fellingaráætlanir að finna og lítið hugsað um hvar eða hvernig á að koma efni frá sér þannig að hægt sé að koma því í verð. Samhliða betra skipulagi á þeim málum þyrfti að koma upp sjóði fyrir skógabændur að leita í til að brúa kostnaðinn við grisjanir, jafnvel koma upp millilið sem selur úr bændaskógum. Eftir 2030 mun viðarmagnið úr íslenskum nytjaskógum margfaldast ár frá ári og fullnægja hluta viðarþarfar Íslendinga. Við breytingar á lagaumhverfi skógræktar er mikilvægt að tekið sé tillit til þess og skipulagt hvað ætlum við að gera við alla þessa skóga sem búið er að planta og rækta. Það er mikilvægt að koma bundnu kolefni í fast form sem er flettiviður til byggingarframkvæmda sem dregur úr innflutningi á timbri.

Afrita slóð á umsögn

#3 Brynjólfur Jónsson - 31.10.2022

Umsögn Skógræktarfélags Íslands

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands fjallaði um þessi málefni í september sl. og hér fyrlgir ályktun og greinargerð fundarins. :

2. Um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á ráðherra landbúnaðar- og skógræktarmála að ganga varlega fram í úrvinnslu hugmyndar um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Skógræktarfélag Íslands óskar eftir því að félagið fái að leggja mat á álit starfshóps um hugsanlega sameiningu áður en til ákvarðana kemur, í samræmi við ákvæði Árósarsamningsins um þátttöku almennings í ákvarðanatöku stjórnvalda.

Greinargerð:

Landbúnaðarráðherra hefur sett á laggirnar fámenna nefnd sem ætlað er að skoða kosti og galla við sameiningu þessara stofnana. Þessi kostur hefur verið skoðaður a.mk. tvívegis á síðustu árum en horfið var frá aðgerðum í þessa veru. Frá sjónarhóli skógræktar sýnist minni ástæða til sameininga þessara tveggja stofnana nú en áður og rétt að nefna eftirfarandi.

Verkefni Skógræktarinnar eru vel skilgreind. Þó ekki sé stjórn yfir stofnuninni eru mikil tengsl og samspil um verkefni við fjölmörg skógræktarfélög og skógræktarstjóri situr m.a. stjórnarfundi Skógræktarfélags Íslands. Með færslu landshlutabundinna skógræktarverkefna undir yfirstjórn Skógræktarinnar jukust enn tengsl við fjölþætta útfærslu skógræktar í landinu. Landssamband skógarbænda á góða aðkomu að stefnumörkun í starfsemi skógræktar í landinu. Starfsmenn Skógræktarinnar eru iðnir við að sækja aðalfundi Skógræktarfélags Íslands og miðla þekkingu meðal annars úr öflugu og vel skilgreindu starfi Skógræktarinnar. Rannsóknum sem unnar eru af starfsmönnum Skógræktarinnar á Mógilsá er komið vel til skila bæði í íslenskum og erlendum vísindaritum. Starfsmenn eru virkir í erlendu rannsóknasamstarfi. Skógræktarfélögin er ein stærsta fjöldahreyfing í landinu.

Erfitt er að gera hliðstæða lýsingu fyrir starfsemi Landgræðslunnar og er mælt með að slík greining verði unnin. Því miður virðast nokkrir starfsmenn Landgræðslunnar á síðustu árum telja það verkefni sitt að gagnrýna með óvægnum hætti starfsemi Skógræktarinnar og skógræktarfélaga út frá trúarlegum eða þjóðernislægum lífsskoðunum svo sem hvaða trjátegundir eigi sér þegnrétt í íslenskri náttúru. Ef til sameiningar kæmi þarf fyrst að rýna með mjög skilmerkilegum hætti hver eru og skuli vera framtíðar verkefni stofnunarinnar svo og hvernig menn skulu standa undir ábyrgð á umsögnum sínum. Órökstuddar umsagnir duga skammt. Rétt væri að skoða í leiðinni hvernig verkefni Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar og jafnvel Náttúrufræðistofnunar og Landbúnaðarháskólans skarast.

Það að taka ákvörðun um að sameina þessar stofnanir án þess að fyrir liggi greining á áherslum nýrrar stofnunar er ávísun á óstarfhæfa stofnun þar sem hver höndin yrði upp á móti annarri.

Afrita slóð á umsögn

#4 Maríanna Hugrún Helgadóttir - 01.11.2022

Umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Maríanna Jóhannsdóttir - 01.11.2022

Umsögn Félags skógarbænda á Austurlandi vegna fyrirhugaðrar sameiningar Skógræktar og Landgræðslu fylgir í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Bændasamtök Íslands - 01.11.2022

Sjá í viðhengi umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi