Samráð fyrirhugað 02.11.2022—14.11.2022
Til umsagnar 02.11.2022—14.11.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 14.11.2022
Niðurstöður birtar

Breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga (tilfærsla á innheimtu meðlaga)

Mál nr. 208/2022 Birt: 02.11.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (02.11.2022–14.11.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Lágmarksbreytingar sem miða að því að færa innheimtu meðlaga frá sveitarfélögum til ríkisins.

Markmiðið með tilfærslu á innheimtu meðlaga til ríkisins er að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur. Samkvæmt verkefnisáætlun er gert ráð fyrir heildarendurskoðun á lagaumhverfi innheimtu meðlaga, ábyrgð og eftirlit með innheimtu meðlaga o.fl. færist sem fyrst til ríkisins og að við taki síðan 8-12 mánaða undirbúnings- og yfirfærslutímabil.

Innviðaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að í ljósi langrar reynslu sýslumannsembættanna af innheimtu ýmissa opinberra gjalda og góðs árangurs innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, sé verkefnið best staðsett hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra, þó aðsetur starfsmanna verði áfram á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði. Er það einnig í samræmi við tillögur Ríkisendurskoðunar í nýrri skýrslu hennar um Innheimtustofnun sveitarfélaga, sjá nánar í greinargerð með frumvarpi.

Í samræmi við framangreint er tilgangur þessa frumvarps eingöngu að leggja til lágmarksbreytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga og öðrum lögum sem gera tilfærsluna mögulega. Hjá því verður þó ekki komist að uppfæra eða fella á brott lagaákvæði þar sem orðalag er úrelt eða ekki í samræmi við núgildandi framkvæmd. Að öðru leyti er ekki lagt upp með í frumvarpi þessu að gera efnislegar breytingar á þeim lagaákvæðum sem varða innheimtu meðlaga, heldur verði það gert við heildarendurskoðun laganna í framhaldi af yfirfærslunni.

Þess ber að geta að áhrifamatskafli frumvarpsins er enn til skoðunar og kann frumvarpið því að taka einhverjum breytingum þegar fjárhagslegt uppgjör ríkis og sveitarfélaga liggur fyrir vegna tilfærslunnar. Mikilvægt er hins vegar að yfirfærslan verði hafin án tafar eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og er því gert ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi við fyrsta tækifæri.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Húnaþing vestra - 09.11.2022

Áföst er umsögn byggðarráð Húnaþings vestra um breytingu á lögum um innheimtustofnun sveitarfélaga (tilfærsla á innheimtu meðlaga). Mál nr. 208/2022.

F.h. Byggðarráðs Húnaþings vestra

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Ísafjarðarbær - 14.11.2022

Meðfylgjandi er umsögn Ísafjarðarbæjar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971 o.fl. (Verkefnaflutningur til sýslumanns).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 14.11.2022

Meðfylgjandi er um sögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins

Valgerður Rún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Róbert Bragason - 14.11.2022

Foreldrajafnrétti fagnar því að innheimta meðlags verði flutt til ríkisins þar sem sú innheimta muni sæta meira eftirliti en áður og þeir foreldrar sem krafðir eru um greiðslur meðlags muni njóta aukins réttaröryggis. Þá ber auðvitað að fagna því sérstaklega að ríki og sveitarfélög hafi loks getað komið sér saman um hver beri ábyrgð á starfsemi Innheimtustofnunar Sveitarfélaga. Hingað til hafa ríki og sveitarfélög alltaf fyrrt sig ábyrgð með því að vísa hvor á annan þegar foreldrar í framfærsluvanda hafa til þeirra leitað vegna ómannúðlegra aðgerða stofnunarinnar. Það fer vel á að þetta liggji nú loks fyrir á hálfrar aldar afmælisári Innheimtustofnunar og einungis nokkrum mánuðum áður en hún verður lögð niður.

Í greinargerð með frumvarpdrögum er talað um að við tilfærsluna beri að horfa til m.a. mannréttinda. Í greinargerðinni er þar verið að horfa til mannréttinda starfsmanna sem nú vinna hjá stofnuninni. Foreldrajafnrétti telur það ámælisvert að stjórnvöld horfi eingöngu til mannréttinda starfsmanna Innheimtustofnunar sveitarfélaga á sama tíma og mannréttindi viðskiptavina stofnunarinnar eru fótum troðin. Sérstaklega í ljósi þess að starfsfólk Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur um árabil unnið eftirlitslaust að miskunnarlausri innheimtu sem komið hefur mörgum fátækum barnafjölskyldum í sárafátækt, veikindi og dauða.

Í greinargerð með frumvarpsdrögum segir að heildarendurskoðun á lagaumhverfi innheimtu meðlaga verði lokið fyrir 1. janúar 2024 og að þessi frumvarpsdrög sé fyrsta skrefið á þeirri vegferð. Foreldrajafnrétti krefst þess að mannréttindi þeirra foreldra sem krafðir eru um greiðslu meðlags - sérstaklega foreldra í framfærsluvanda, verði gætt í þessari heildarendurskoðun á lagaumhverfi um innheimtu meðlaga.

Foreldrajafnrétti telur hins vegar nauðsynlegt að taka inn nokkur atriði inn í þetta fyrsta frumvarp, þar sem örlítið er komið til móts við mannréttindi foreldra sem krafðir eru um greiðslu meðlags og barna þeirra:

1.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að skipta út hugtakinu „meðlagsgreiðandi“ í öllum beygingarmyndum fyrir hugtakið „foreldri sem krafið er um greiðslu meðlags“ í viðeigandi beygingarmyndum.

Orðskýring „Meðlagsgreiðandi“: Foreldri sem krafið er um greiðslu meðlags með barni. Hugtakið meðlagsgreiðandi er til þess fallið að beina athyglinni frá því að um foreldri er að ræða sem að öllum líkindum sinnir beinni framfærslu við barn sitt án alls opinbers stuðnings á eigin heimili og er auk þess krafinn um greiðslu meðlags til framfærslu sama barns á öðru heimili en sínu eigin. Hugtakið „meðlagsgreiðandi“ viðheldur fordómum í garð barnafjölskyldna sem oft búa við sárafátækt.

2.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að skipta út öllum vísunum í hugtakið „skuldara“ í öllum beygingarmyndum fyrir hugtakið „foreldri í framfærsluvanda“ eða „foreldri“ eftir því hvað við á í viðeigandi beygingarmynd.

Orðskýring „skuldari“: Hugtakið skuldari er ekki sæmandi nokkrum manni og þegar þetta hugtak er notað um foreldri í viðkvæmri stöðu vegna framfærsluvanda. Hugtakið er lítillækkandi og elur á fordómum í garð foreldra í viðkvæmri stöðu.

Foreldri sem krafið er um greiðslu meðlags með barni til framfærslu þess á öðru heimili en sínu eigin á sama tíma og þetta foreldri framfærir sama barn með beinum hætti til jafns við hitt foreldrið á sínu eigin heimili. Þá ber að nefna að barnafjölskyldur sem eiga undir högg að sækja vegna miskunnarlausra innheimtuaðgerða stjórnvalda við innheimtu framfærsluskulda hafa allt aðra stöðu en barnafjölskyldur foreldra sem ekki er gert að sinna framfærslu fyrir milligöngu ríkisins. Umræddar barnafjölskyldur fá t.a.m. ekki fjölskyldubætur ef framfærandi lendir í framfærsluvanda - annað hvort vegna atvinnuleysis eða veikinda. Í stað þess að veita barnafjölskyldum í þessari stöðu viðeigandi stuðning velja íslensk stjórnvöld að leysa þessar fjölskyldur upp í kjölfar áfalls.

Starfsfólk stjórnvaldsstofnana sem slíkt gera ættu að hafa manndóm í sér til að orða hlutina eins og þeir eru. Það er það minnsta sem þið getið gert. Það er auðvelt að skilja að ykkur kunni að finnast þægilegra að birta myndrit í skýrslu um ,,árlegan fjölda heimilislausra meðlagsskuldara" en t.d. ,,fjöldi heimilislausra foreldra í framfærsluvanda” eða ,,fjöldi barnafjölskyldna sem okkur tókst að sundra greint niður á ár”.

3.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að breyta 3. mgr. 11. gr. laga nr. 150/2019 á þann veg að hámarks kröfur sem gerðar eru í laun foreldra sem krafðir eru um meðlag verði ekki hærri en svo að foreldrið geti framfleytt sér og börnum sínum á heimili/í umgengni. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar að viðbættri fjárhæð fyrir hvert barn á framfæri/í „umgengni“ verði notuð sem viðmið. Ljóst er að 75% af heildarlaunum er hærra hlutfall en það sem launþegi með miðgildi launa fær útborgarð.

Foreldri sem fær lítið eða jafnvel ekkert útborgað í kjölfar þess að innheimtuaðili meðlags hefur krafið laungreiðanda um innheimtu meðlagsskuldar er synjað um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þar sem miðað er við heildartekjur og ekkert mið er tekið af því að launafjárhæð til útborgunar hefur verið gerð upptæk. Foreldri er þannig gert að framfæra sjálft sig og barn sitt með engum peningum og engri aðstoð frá hinu opinbera, sem er skýlaust brot á barnasáttmálanum.

4.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að bæta inn gr. í lög um innheimtu meðlaga o.fl. á þá leið að meðlagsskuld gjaldfalli ekki fyrr en að 10 dögum liðnum frá því foreldri er tilkynnt um nýja meðlagsskuld en að þremur mánuðum liðnum sé tilkynnt um nýja meðlagsskuld afturvirkt yfir langt tímabil.

5.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að bæta við upplýsingaskyldu til greiðenda meðlags um hvernig greiðslum þeirra verði ráðstafað inn á höfuðstól annars vegar og dráttarvexti eða annan kostnað hins vegar. Hvaða afleiðingar slíkar ráðstafanir hafa á greiðslur viðkomandi og hvað greiðandi geti gert til þess að lágmarka þann kostnað sem leggst á meðlagsgreiðslur.

6.

Foreldrajafnrétti telur nauðsynlegt að endurskoðuð verði tekjuviðmið við álagningu meðlags. Taflan sem nú er útbúin tekur á engan hátt tillit til framfærslu þess sem krafinn er um meðlag og þaðan af síður þess sem þiggur meðlag. Núverandi viðmið leiða í mörgum tilfellum til skuldbindinga sem eru ekki í neinu samræmi við kostnað vegna framfærslu.

-

Foreldrajafnrétti vill að lokum krefjast þess að við flutning á starfsemi stofnunarinnar og í fjárhagslegu uppgjöri vegna tilfærslu, verði gætt sérstaklega að varðveislu allra gagna Innheimtustofnunar Sveitarfélaga. Á þetta sérstaklega við um öll rafræn gögn sem orðið hafa til í starfseminni hingað til og vistuð í sérforrituðum kerfum sem stjórnendur þessarar stjórnlausu stofnunar höfðu einir aðgang að. Um er að ræða núverandi kerfi sem tekið var í notkun árið 2012 svo og fyrra kerfi sem stofnunin lét hanna fyrir sig.

F.h. Foreldrajafnréttis,

Heimir Hilmarsson & Róbert Bragason