Umsagnir bárust frá 36 aðilum og voru sjónarmið mismunandi. Sumir telja breytingarnar vera neikvætt skref aftur í tímann og að þær muni skapa aukna slysahættu og hafa önnur neikvæð áhrif á aðstæður til strandveiða. Aðrir telja breytingarnar vera til bóta og að þær muni bæta skilyrði til strandveiða. Ráðuneytið lagði mat á umsagnirnar og hafði hliðsjón af þeim við samningu nýs frumvarps. Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða) hafa verið birt á samráðsgátt en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 6. gr. a laganna.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.11.2022–08.12.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 01.02.2023.
Áformað er að breyta 6. gr. a í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem fjallar um strandveiðar á þann veg að strandveiðar verði aftur svæðaskiptar líkt og var fyrir gildistöku laga nr. 22/2019.
Með lögum nr. 22/2019 var gerð breyting á 6. gr. a. í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, en sú grein fjallar um strandveiðar. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. a. var breytt með þeim hætti að ákvæði um skyldu ráðherra til að kveða á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á tímabil og landsvæði var fellt brott. Þar með var aflaheimildum við strandveiðar ekki lengur skipt á landsvæði heldur miðað við að öll landsvæði veiddu úr sama „pottinum“ þ.e. þeim leyfilega heildarafla sem ráðstafað er til strandveiða.
Afnám svæðaskiptingar strandveiðar hefur verið í gildi sl. 4 ár.
Efni: Umsögn Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar um áform um breytingu á lögum nr. 116/2006 (svæða- og pottaskipting strandveiða)
Með þeim áformum sem hér er um að ræða eru stjórnvöld að gera enn eina atlöguna að strandveiðum (til viðbótar skerðingar sl. þrjú ár). Það er því nauðsynlegt að rifja upp aðdraganda þess að þetta veiðikerfi var sett á laggirnar sem og stjórnunarlegt eðli þess.
Strandveiðikerfinu var komið á með lögum sem tóku gildi í árslok 2008. Voru þau lög sett til að bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem og dómi Hæstaréttar Íslands sem höfðu úrskurðað að aflamarkskerfið í þeirri mynd sem það hafði verið útfært stríddi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi. Með strandveiðilögunum var því verið að opna á rétt hins almenna borgara hér á landi til að stunda fiskveiðar í sjó. Réttur sem hafði verið til staðar allt frá upphafi byggðar í landinu.
Handfæraveiðar eru í senn umhverfisvænar og sjálfbærar, þær eru hluti af menningu okkar og sögu og geta aldrei ofveitt eða ógnað viðkomu þeirra fiskistofna sem úr er veitt. Strandveiðarnar voru áreiðanlega ekki hugsaðar sem hluti af hinu ólögmæta kvótakerfi, enda eru þær í eðli sínu í sóknarmarki en ekki aflamarki. Takmarkanir innan kerfisins eru fyrst og fremst miðaðar við fjölda og tímalengd róðra, árstíma og tilltekna vikudaga sem og fjölda færarúlla, allt sóknartakmarkandi þættir, þótt afli í einstökum róðrum væri takmarkaður. Þá var í upphafi gert ráð fyrir að afli á þessum veiðum drægist ekki frá úthlutuðum kvóta til þeirra báta sem einnig stunduðu strandveiðar. Það var því augljóslega í mótsögn við tilgang þessa veiðifyrirkomulags að setja heildarkvóta á strandveiðiafla. Því síður var rökrétt að taka þann heildarafla úr aflamarkskerfinu enda eiga þessi kerfi að verða aðskilin og óháð hvort öðru.
Á aðalfundi Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar sem haldinn var 11. september 2022 var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega stöðvun strandveiða 21. júlí 2022. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar í 12 veiðidaga á mánuði í fjóra valkvæða mánuði á tímabilinu frá apríl til september.
Á 38. aðalfundi Landssambands smábátaeiganda sem haldinn var 20.- 21. október sl. voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:
a) Landssamband smábáteiganda krefst þess að fest verði í lög að strandveiðileyfi hafi að lágmarki 48 róðradaga.
b) Landssamband smábátaeiganda hafnar alfarið svæðaskiptingu strandveiðipottsins.
Með vísan til þess sem að ofan er rakið lýsir Drangey–smábátafélag Skagafjarðar yfir eindreginni andstöðu við þá fyrirætlan matvælaráðherra að hverfa til þeirrar fortíðar að fara að svæðaskipta aflaheimildum til strandveiða. Það mun einungis leiða til þess að svokallaðar „ólympiskar veiðar“ hefjast á ný, bæði innan svæða og milli svæða. Veiðar sem eru bæði hættulegar og óhagkvæmar fyrir sjómenn auk þess sem slíkt fyrirkomulag getur skaðað markaði fyrir fisk bæði innanlands og utan. Með því að festa í sessi 48 veiðidaga strandveiða að sumarlagi, án svæðaskipts aflamarks og óháð aflamarkskerfinu, verður sköpuð sátt um strandveiðikerfið óháð því hvar gert er út á landinu.
F.h. Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar
Magnús Jónsson formaður
Nú stefnir í að Svandís setji ein lögin enn til höfuðs STRANDVEIÐI kerfisins. Kerfis sem í mörg ár hefur verið talað um að gera sem réttlátast fyrir Strandveiði Sjómenn Íslands. Svo réttlátt þar sem allir myndu sitja að sama borði. Sem sagt 48 daga á 6 mánaðar tímabili án STÖÐVUNAR HEIMILDA !!!
Þegar það kerfi væri komið á myndu menn ekki hætta sér út í válind veður !! Austfirðingar gætu beðið slakir eftir þeim tíma að fiskurinn gangi inn í firði fyrir austan. Menn myndu hittast á kæjanum spjalla og vera slakir, fara með börnin í Ísbúðina og enda svo daginn á að lesa fyrir þau !! Menn væru bara rólegir í landi !! Allir slakir !!
Nei Nei þá hefur Ráðherra Sjávar Svandís Svavarsdóttir ákveðið að hunsa allar rök færslur og staðreyndir og etja mönnum saman frekar en hitt !!! Menn hafa farið að munnhöggvast. Sem leiðir bara til sundrungar og leiðinda eins og til var ætlast. Nú skal breita fiskveiðistjórnuninni í strandveiðunum. Nú skal taka upp gamalt og úrelt kerfi. Kerfi sem hvetur menn til að róa stíft svo stíft að menn setja sig jafnvel í stórhættu og róa þegar betur væri heima setið.
Nú skal svæðis skipta !!
En nei Engar breytingar !!
Höldum okkur við sanngjarna 48 DAGA á 6 mánaðar tímabili án STÖÐVUNAR HEIMILDA !!!
Ef verður farið til baka í svæðaskiptinu mun aðalega tvennt gerast.
1. Strandveiði mönnum og konum verður att útí mjög óheilbrygða og stórhættulega sammkeppni til að ná sem flestum dögum. Kerfinu var breitt úr svæðaskiptingu meðal annars til að auka öryggi strandveiðifólks. Gamla kerfið sem stjórnvöld vilja fara aftur í kostaði mannslíf. Ég vona að ykkur sé ekki sama um öryggi okkar sem stunda þessar veiðar.
2. Gæði hráefnis mun minnka mikið vegna þess að strandveiðifólk mun fara nær landi að veiða þegar veður leyfir ekki að sé farið á djúpmið. Þetta mun strandveiðifólk gera til að ná dögum í kapphlaupi við næsta mann.
ÞAð hefur verið mjög lítill munur á strandveiðisvæðum undafarin ár þess vegna er óskiljanlegt að ráðherra hendi þessu frumvarpi fram. Þegar VG tók við sjávaútvegsráðuneytinu vakna von í brjóstum margra strandveiðisjómanna. en sú von er að dofna mikið og er að breytast í vonbrigði. Þess vegna vill ég skora á ráðherra að hætta að egna fólki saman og vinna að lausnum. Það gagnast engum að flytja vandamálin milli landshluta, það mundi gagnast öllum ef þið sem vinnið í ráðuneytinu mundu hlusta á ráðleggingar þeirra sem vinna í greininni og festa 48 daga kerfið í sessi.
Gísli Páll Guðjónsson
Gjaldkeri Stranveiðifélagsins og tryllusjómaður
Nú líður senn að jólum, þá er náungakærleikurinn hvað mestur skulum við halda.
48 daga strandveiðikerfi hefur verið baráttumál okkar strandveiðimanna en það hefur ekki gengið upp, alltaf vantað einhverja daga stundum ekki marga.
En í sumar tók steinin úr 21 júlí stöðvun strandveiða, svæði c sem fyrst og fremst treystir á júlí og ágúst verður illa úti, áþeim tíma gengur stór og góður fiskur inn á það veiðisvæði, ekki í maí og júní þá er bara smá fisk að hafa og afar trekt,öfugt er aftur farið á svæði A, þar er maí og júní bestir.
Það er því ekkert óeðlilegt að meðan ekki næst að tryggja 48 daga að svæðum verði skipt upp, hvert með sinn pott.
Svo ekki sé talað um byggðastefnu, hafi stjórnvöld einhvern áhuga á henni og tryggja hinum brothættu byggðum líf þá ættu þau að setja mestu úthlutunina í svæði c, það hefði það í för með sér að fólk mundi frekar flytja á svæðið sem væri þá orðið eftirsóknarvert.
Það er mín skoðun að þetta þarf að íhuga vel
Bestu kveðjur formaður Fonts Oddur Vilhelm jóhannsson
Meðfylgjandi er umsögn Strandveiðifélagsins Króks þar sem við hörmum og mótmælum áformum þessum um lagasetningu.
ViðhengiUmsögn um breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða ,svæðaskipting strandveiði heimilda.
Staða mála: Síðustu strandveiðivertíðir hafa veiðiheimildir til strandveiða verið í einum potti óháð landshlutum, en bátar hafa verið bundnir af því að róa frá því landsvæði sem heimahöfn báts er í. Nú er það svo að stór handfæra þorskur er ekki veiðanlegur á sama tíma hringinn í kringum landið. Á meðan góð veiði er fyrir vestanverðu landinu er líðið að hafa austast (veiðisvæði C) og að mestu verðlítill smáfiskur.
Samanber áform um lagasetningu
„Að hvaða marki duga gildandi lög og reglur ekki til?
Gildandi löggjöf dugir ekki til þegar litið er til jafnræðissjónarmiða þar sem afnám svæðisskiptingar aflaheimilda við strandveiðar hefur neikvæð áhrif á veiðar á norðaustur- og austurlandi. Er fyrirhugaðri lagasetningu því ætlað að auka jafnræði milli landsvæða. „
Mikilvægi fyrir sjávarbyggðir: Á meðan ekki eru tryggðir 48 veiðidagar til handa öllum handfærabátum (strandveiðibátum) verður að tryggja jafnræði meðal sjómanna og byggðarlaga. Ekki verður litið framhjá því að strandveiðar skipta gríðarlegu máli fyrir sjávarbyggðir um allt land og ekki síst á veiðisvæði C, sem hefur farið hvað verst útúr veiðikerfi síðustu ára.
Nýliðun: Dregur úr þori ungra manna að hefja útgerð vegna óvissu um hversu miklar aflaheimildir verða eftir þegar fiskur gengur á veiðisvæði C við núverandi fyrirkomulag
Öryggi:Hvað varðar öryggi smábátasjómanna er það að segja að hver skipstjóri verður að sína ábyrgð gagnvart sér og sínum. Það er varla á valdi löggjafans að hafa vit fyrir sjómönnum og hefta sjósókn ef vindur blæs úr ákveðinni vindáttátt eða í ákveðnum vindstyrk.
Niðurstaða: Því er einsýnt að hverfa aftur til þeirra laga sem giltu áður um strandveiðar, þannig að allir landshlutar eigi möguleika á réttlátum skerf af þeim veiðiheimildum sem til strandveiðanna er ætlaður
Ólafur Hallgrímsson
Handfærasjómaður
Borgarfirði eystra.
Styð heilshugar að taka upp svæðaskiptingu á Strandveiðum, að öðrum kosti, koma strandveiðar til með að leggjast af fyrir norður og austurlandi. Ef halda á í fjóra mánuði þarf að tryggja afla fyrir hvern mánuð, ágúst er aðalmánuðurinn hér fyrir norðan.
Ég styð svæðaskiptingu strandveiða. Ef strandveiðar verða áfram eins og síðasta sumar er èg hræddur um að menn færi sig milli svæða í auknum mæli. Þá verða færri hér í okkar brothættu byggðum.
Kveðja Hrólfur Björnsson trillusjómaður Raufarhöfn
Nú þegar fyrir liggur að ekki gengur að stjórna strandveiðum út frá einum potti er bara tvennt að gera:
1, Taka upp svæðiskiptinguna aftur þannig að afli flytjist ekki um of milli svæða og sumir sitji eftir.
2. Úthluta hverjum bát ákveðnum sóknardögum út frá þeim afla sem heimilað verður til strandveiða.
kv.
Jóhann A. Jónsson
Álftanesi.
Eg er mjög fylgjandi fyrirhuguðum breytingum á strandveiðikerfinu okkar.
það vita það allir að við á mínu svæði C erum að veiða verðlítinn fisk í maí og júní í kapphlaupi við að ná að klára dagana okkar sem sumir hverjir skila litlu og varla fyrir kostnaði.
Núverandi kerfi dregur stórlega úr að ungir menn stofni til útgerðar þar sem aflaheimildir verða uppurnar þegar verðmætari fiskur fer að veiðast á okkar svæði eins og raunin varð í sumar allt stoppað 21 júlí.
Og á meðan ekki verða tryggðir 48 dagar á bát er bara mjög sanngjart að hvert svæði sé með sinn pott.
Hörður Þorgeirsson
Raufarhöfn
Á 401. fundi byggðarráðs Norðurþings þann 7.júlí 2022 var eftirfarandi bókað:
"Árið 2018 var gerð breyting á strandveiðikerfinu þannig að hægt er að moka upp pottinum á einu svæði landsins. Svæðin eru lokuð og mega bátar ekki færa sig um set nema flytja kennitölu í annað byggðalag. Samkvæmt tölum frá Fiskistofu frá 01.07.2022 þegar tímabil strandveiða er hálfnað var búið að veiða rúm 72% eða 7.239 tonn af 10.000 tonna þorskkvóta. Um tveir mánuðir eru nú eftir af veiðitímabilinu. Hafnasjóðir og sjómenn tapa fjármunum á svæðum B, C og D á meðan mokveiði er á svæði A úr sameiginlegum potti. En á svæði A var búið að veiða 58% af heildarkvótanum eða 4.127 tonn. Af því að svæðin eru lokuð og potturinn opinn hefur bátum á svæði A fjölgað um 100 síðan 2018 þegar kerfinu var breytt. Þeir voru 202 árið 2018 en eru komnir í 324 árið 2022. Óumdeilt er að útgerð smábáta hefur spornað gegn samþjöppun og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af í hinum dreifðu byggðum. Strandveiðar yfir sumarið hafa tryggt útgerð hundruð smábáta sem landað hafa afla á tuga útgerðarstaða um land allt. Þannig hafa hafnarmannvirki fengið endurnýjað hlutverk ásamt þjónustuaðilum. Síðast en ekki síst hafa strandveiðarnar gefið nýjum aðilum tækifæri á að hefja útgerð.
Byggðarráð hvetur sjávarútvegsráðherra til að gera breytingar á kerfinu sem stuðla að auknu jafnræði og skynsemi."
Þegar 48 daga kerfið var tekið í gagnið,þá voru uppi varnaðarorð hvernig hugsanlega myndi til takast. Þau orð gengu öll eftir.
Miðin hringinn í kringum landið eru mis gjöful eftir árstíma. Í núverandi kerfi færðu útgerðir sig til á milli svæða,aðallega yfir á A svæðið sem gefur vel fyrripart sumars. Fiskgengd á C svæðinu er þannig að í Maí og Júní fæst varla bein úr sjó,nema þá helst verðlítill fjörufiskur. Núna í sumar þegar fiskurinn mætti loksins á okkar mið,þá voru strandveiðarnar blásnar af. Miðað við hvernig þetta var þegar svæðaskiptingin var við líð,þá þýddi þetta tekjutap fyrir hafnir,sveitafélög og okkur sjómenn á C svæðinu.
Varðandi öryggismál þá getur sú staða komið upp í núverandi kerfi að menn tapi sóknardögum. Hver á að passa upp á þann sem er að brenna uppi með daga? Sjómennskan getur verið varasöm,en hver og einn verður að bera skynbragð á hvenær er óhætt að róa.
Meðan aflaheimildir duga ekki til,fyrir 48 dögum, þá er mikið sanngirnismál að svæðaskipta strandveiðum.
Kær kveðja frá Riben,Snorri Sturluson.
Ég er algjörlega á móti svæðaskiftingu á veiðiheimildum.
Vegna áforma um svæðaskifting strandveiða, þá vil ég mótmæla þeim fyrirætlunum.
Eftir sem áður er meginvandamálið áfram til staðar, þ.e. olimpískar veiðar.
Lausnin er að úthluta hverjum bát sem rétt hefur til veiðanna áhveðnum dagafjölda eða 48 daga
og enga veiðisvæða skiftingu. Þá sitja allir við sama borð og öllum reglum fylgt um jafnræði.
Ég er á móti svæðisskiftingu á strandveiðum
Sæl Svandís, mér finnst að þetta ætti að vera óbreytt 48 dagar opin pottur... þetta var mikið kapphlaup í mönnum á svæði A þar sem ég hef róið frá upphafi 2009, það getur verið erfitt að róa lítill trillu í brælu tíð, tala nú ekki um óvana menn, þetta er gott kerfi eins og það er fyrir 66 ára gamlan mann, sem hefur stundað sjó frá 1972...
Vegna áforma um svæðaskiftingu strandveiða, þá vil ég mótmæla þeim fyrirætlunum.
Lausnin er að úthluta hverjum bát sem rétt hefur til veiðanna áhveðnum dagafjölda eða 48 daga
og enga veiðisvæða skiftingu. Þá sitja allir við sama borð og öllum reglum fylgt um jafnræði.
Þar síðasta sumar var tíðarfar og fiskgengd hrikalega slæmt á SV horninu, ekki grenjuðu menn þar eins og menn á NA horninu í ár. Á SV horninu er mesta fiskgengd í mars og apríl, afhverju ekki að leyfa okkur að róa þar þegar stærsti fiskurinn er þar á ferð ?
Ég er alfarið á móti svæðaskiftingu á strandveiðum bara tryggja 48 daga og 6 mánuði
þá ættu allir að geta verið sáttir.
Ég mótmæli því harðlega að svæðaskiptingu verið komið aftur, forrsendur þess að ég keypti mér bát sjálfur 2019 þá 26 ára, voru þær að búið var að ég hélt tryggja afkomu strandveiðisjómana og auka öryggi í kerfinu. fyrir árir 2019 var ég á strandveiðum ymist sem meiðeigandi , skipstjóri og hásetti frá upphafi strandveiða og þorri ég að fullyrða að eftir að “48 dagakerfið ” svokallað var sett á tilheyrir það undantekningum að menn séu að tefla á tvísína spá og reina færa sér björg í bú með að róa á bræludögum.
Ég gætti skrifað margar blaðsíður um það ranglæti sem svæði A fekk á sínum tíma áður en 48 daga kerfið var tekið upp, en það ætti að vera óþarfi og vill ég biðja þá sem lesa þetta að lesa umsögn Strandveiðifélags Króks aftur!. Þar sem þar kemur fram tölfræðilega straðreindir og góðar útskýringar sem sýna það svart á hvítu að ráðherra er með þessu frumvarpi að fara stuðla að einhverju allt öðru en jafnræði milli svæða, það er með ólíkindum að hún skuli hafa látið blekkjast út frá tilfiningum manna og horfa framhjá staðreindum málsins.
það ranglætti sem þeir á NA horninu telja sig beita á líka við um allt land! það er ekki einsvog þeir voru þeir einu sem gripu í tómt í ágúst!
Hvetj ég ráðherra til að leita leiða til að tryggja 48 daga og leggja allfarið niður svæðaskiptingu þanneig þeir strandveiðisjómenn sem nenna beygja sig eftir björgni hafi en meira frelsi til þess.
Smábátafélagið Elding mótmælir harðlega fyrirhuguðum breytingum á Strandveiðikerfinu, þetta afturhvarf til fortíðar kemur alls ekki til með að auka jöfnuð milli svæða, heldur þvert á móti.
Hér vísum við í gögn sem voru tekin saman af Einari Helgasyni formanni Strandveiðifélagsins Króks á Patreksfirði og kynnt Ráðherra á fundi þann 09.11.2022 þar sem bornir voru saman 10 efstu bátar á hverju svæði fyrir sig, og þá kemur í ljós að magn, stærð, og fiskverð er svo til það sama og þar af leiðandi aflaverðmæti það sama. Þetta gefur þá niðurstöðu að svæðin eru jöfn.
Skorum við því á Ráðherra að tryggja 48 dagana frekar enn að valda ójöfnuði og skapa slysahættu!!
Þeir fiska sem róa.
Fyrir hönd Eldingar
Sigfús Bergmann Önundarson
Ég er á móti svæðaskiftingu á strandveiðum bara tryggja 48 daga og 6 mánuði
Kv Paul
Það er ekkert nema mannana verk sem standa í vegi fyrir bættu strandveiðikerfi. Tilraunin með 48 daga á hvern bát mistókst vegna þess að enginn bátur fékk þá nokkurn tíma. Miðlægur pottur, en lokuð svæði veldur því austursvæðið fær ekki að sækja fiskinn þegar hann er verðmætastur. Áður fyrr sat vestursvæðið í nákvæmlega sömu súpu og austursvæðið gerir í dag. Núna ætlar ráðherra að færa svartapétur til vesturs aftur. Það eru til mikið betri lausnir á vandamálinu:
1.Hætta að draga strandveiðar af félagslegu kerfunum. Gera upp strandveiðarnar á kvótaárinu á eftir og draga þær frá heildinni.
2.Fjarlægja svæðin algerlega þannig að allir bátar geti sótt öll mið og elt fiskinn eftir náttúrulegum göngum hans.
3.Úthluta 48 dögum á bát og hafa strandveiðar utan kvóta.
Strandveiðar tryggja vinnslum um allt land aðgengi hráefni yfir hásumartímann óháð kvótastöðu. Hráefnið er vinnslum aðgengilegt á frjálsum markaði. Síðastliðið sumar vantaði um 2000 tonn af þorski í pottinn til þess að kerfið gengi upp. Það er grátleg þróun ef ráðherra ætlar sér að færa kerfið aftur til fortíðar gegn betri vitund.
Umsögn Strandveiðifélags Íslands
Umsögn Standveiðifélags Íslands vegna Áform um lagasetningu - breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða)
Standveiðifélag Íslands horfir til framtíðar í sjávarútvegsmálum og þeirrar vegferðar að gera strandveiðikerfið jafn gott fyrir alla þjóðfélagsþegna sama hvar á landinu þeir búa.
Það er hárrétt að strandveiðikerfið er meingallað eins og það er og að það ganga ekki allir að því sama eftir því hvar þeir búa. Þannig hefur strandveiðikerfið reyndar alltaf verið og mun verða áfram verði þetta frumvarp að lögum. Þetta frumvarp er ekki að gera neitt annað enn að færa gallana á strandveiðikerfinu til eftir landshlutum. Það er ekki framtíðarsýn sem Strandveiðifélag Íslands getur sætt sig við og þjóðin ætti ekki heldur að gera það því mannréttindi fólks á landinu eru fótum troðin í íslenskum sjávarútvegi dag hvern eins og stjórnvöld vita manna best.
Lausnin er svo einföld og það vita það allir sem notað geta sjón sína með heiðarlegum og sanngjörnum hætti. Krafa strandveiðimanna hefur verið að allir strandveiðibátar fái sína 48 daga á hvern einasta bát sem á strandveiðum vill vera sama hvar á landinu þeir eru. Þessi krafa hefur verið ykkur sem eigið að vera að vinna fyrir þjóð ykkar ljós lengi. Þetta snýst um mannsæmandi aðgengi þjóðarinnar í nýtingu sinna eigin auðlinda, sátt um nýtingu auðlindarinnar og góðra lífskilirða fólksins í landinu hvar sem það býr, þetta frumvarp gerir það sannarlega ekki.
Strandveiðifélag Ísland vill benda á að strandveiðar eru atvinnuveiðar og á þær reiða sig um það bil 700 fjölskyldur allt í kringum landið, byggðarlög allt í kringum landið og ýmis þjónustuiðnaður og það er mikil ástæða til þess að stjórnvöld gjaldi varhug við samtökum og einstaklingum sem reyna að halda öðru fram með afvegleiðingu umræðunnar um sanngirni og réttlæti handa fólkinu í landinu.
Það hefur margoft verið bent á leiðir sem myndu leiða til þess að hver einasti strandveiðibátur fengi sína 48 daga á ári. T.d með því að nýta meingallað byggðarkvótakerfi til þess að auka heimildir innan strandveiðikerfisins. Já meingallað byggðarkvótakerfi þar sem stórútgerðir hafa í gegnum árin verið að fá úthlutaðan byggðarkvóta, útgerðir sem eru að skila milljörðum á milljarða ofan í hagnað ár hvert og þurfa bara ekkert á honum að halda nema til þess eins að toppa hagnað sinn og kaupa sér völd fyrir . Það þarf ekki nema réttsýn og heiðarleg gleraugu til þess að sjá þetta. Það þarf t.d ekki 50 manna nefnd. Það er marg oft búið að sína fram á þetta með staðreyndum og rökum en stjórnvöld stinga hausnum bara í sandinn og láta eins og þjóðin séu bara vitleysingar upp til hópa og komi sjávarútvegur ekki við. Stjórnvöld eru ekki þjóðin og stjórnvöld eiga að hætta að þykjast hlusta á þjóðina, stjórnvöld verða að hlusta. Það er staðreynd að störfum í sjávarútvegi fer fækkandi og það kalla sumir atvinnuveiðar. Tækniframfarir síðustu ára fækkar störfum bæði á landi og sjó og þess vegna er atvinna hverfandi í greininni og með öllu óskiljanlegt að einhverjir skilgreini þannig þróun sem atvinnuveiðar frekar en aðrar veiðar í íslenskum sjávarútvegi. Slík ummæli dæma sig sjálf og endurspeglar eitthvað allt annað en mikilvægi atvinnuveiða í íslenskri lögsögu.
Handfæraveiðar eru líka veiðar sem eru hluta til veiðar sem fara fram með rafmagni sem er mjög umhverfisvænt. Olía er notuð til að sigla á miðin en svo er slökkt á vélum bátana á meðan að á veiðum stendur og einungis nýtt rafmagn. Þessi blanda er sú umhverfisvænasta við veiðar á Íslandi og það er kominn tími til að það verði viðurkennt opinberlega af stjórnvöldum því þetta er staðreynd og sama hvað stjórnvöld reyna að fela sig fyrir henni þá hverfur hún ekki. Stjórnvöld leika sig umhverfasinna úti í heimi dag hvern en þegar upp er staðið er það bara sýndarmennska, að minnstakosti þegar kemur að sjávarútvegi. Umhverfis áhrif veiðarfærisins handfærakrókar með sökku í endann er einnig það minnsta þegar kemur að hafinu og umhverfi þess. Fiskur bítur á ef hann er svangur og ef hann er undir bátnum. Annars drepur veiðarfærið ekki neitt annað ólýkt mörgum öðrum veiðarfærum. Strandveiðar ættu því með öllu að vera undanskildar veiðiráðgjöf hafró vegna þess að skaðinn sem veiðarfærið veldur er hverfandi miðað við mörg tortímandi veiðarfæri sem nýtt eru hér við land og hefur marg oft verið bent á. Það er ástæða fyrir því að nánast allir fiskistofnar hér við land eru hverfandi og ef áhrif veiðarfæra er ekki tekinn með í reikninginn er ekki von á öðru. Hvers vegna að telja þetta upp? Þið vitið þetta allt þó þið þykist ekki gera það. Þetta hefur verið marg bent á og stjórnvöld þykjast bara ekki heyra. Þjóðin er ekki fædd í gær og hún þekkir ykkur.
Þjóðin á ekki að vera einhver afgangstærð þegar kemur að mannréttindum og nýtingu sinna eigin auðlinda eins og nú er við lýði. Við eigum þessa auðlind saman og ætlum að nýta hana saman þrátt fyrir yfirgang, vanþaklæti og frekju margra sem í greininni starfa. Það ætti ekki að þurfa dóm frá mannréttindadómstólum til þess að mannréttindi hér á landi séu ekki brotin og ekki virt eða hvað? Eru augu stjórnmálamanna kannski orðin svo blind á mannréttindi,lífskjör og lífsgæði að þess þurfi. Er rikið sem sum hagsmunasamtök reyna að þyrla upp í augun á ykkur virkilega svona mikið? Reyndar teljum við að svo sé orðið sem er sorglegt í landi sem þykist virða mannréttindi á tyllidögum og ráðstefnum úti í heimi en gera svo annað í verki hér heima. Sýnið það í verki að þið virðið mannréttindi þjóðarinnar og hættið að koma fram við fólkið í landinu eins og einhverskonar lýð sem komi bara ekkert við hverjir eða hvernig auðlindir hennar eru nýttar. Opnið augun fyrir sanngirni, réttlæti og mannréttindum og þið skuluð gjalda varhug á samtökum og manneskjum sem reina að blinda ykkur á þeirri vegferð. Sum samtök hér við land telja sín samtök vera að verja atvinnuveiðar, strandveiðar eru atvinnuveiðar og að halda öðru fram er augljóslega afvegleiðing á umræðunni um sanngirni og mannréttindi og snýst ekkert um atvinnuveiðar. Snýst fremur um græðgi,frekju,yfirgang og mannfyrirlitningu .
Allt sem hér hefur verið talið upp er algerlega þekkt og hefur oftar en ekki verið bent á áður. Það að láta eins og þetta sé eitthvað nýtt þýðir að við erum stödd á vondum stað sem þjóð með þjóðkjörna fulltrúa sem leika sig heimska þegar bent er á hlutina. Við vitum að þið eruð ekki heimsk þurrkið rykið úr augunum á ykkur. Þið eruð í vinnu fyrir fólkið í landinu og eruð þjónar þjóðarinnar og engra annara.
Krafa Strandveiðifélags Íslands er skýr.
Jafn gott strandveiðikerfi fyrir alla þjóðina allt í kringum þetta land. 48 daga á hvern einasta strandveiðibát á þessu landi og 6 mánaða glugga til að veiða þessa daga til að allir getir notið þess þegar það er góð fiskgegnd á þeirra heimamiðum. Þannig tryggjum við sátt í sjávarútvegi, mannréttindi og sanngirni og líka byggðarfestu með því að strandveiðifólk kjósi að nýta sína daga frá sinni heimahöfn.
Að lokum lýsir Strandveiðifélag Ísland sig reiðubúin til að eiga samtal við fulltrúa ráðaneytisins til að gera nánari grein fyrir sjónarmiðum Strandveiðifélagsins og benda á staðreyndir í íslenskum sjávarútvegi sem liggja ljós fyrir um meingallað fiskveiðistjórnunarkerfi og hvaða annarlegu hvatar sumra sem í því starfa liggja að baki þess að koma í veg fyrir að fiskveiðistjórnunarkerfi okkar verði sanngjarnt og heiðarlegt gagnvart eigendum sínum sem er íslenska þjóðin . Strandveiðifélagið áskilur sér jafnframt rétt til að koma frekari athugasemdum á síðari stigum.
Fyrir hönd Strandveiðifélags Íslands
Stjórn strandveiðifélagsins
ViðhengiEr það réttlátt að ég á A svæði, fái færri daga til að veiða, en þeir sem eru á öðrum svæðum?
Ég hef upplifað maí mánuð þar sem við vorum tveir á bát. Lágum úti og fórum um allan sjó og lönduðm einungis 90 kg eftir tvo daga. Sá maí var ansi rýr, þannig að það er ekki alltaf góð veiði A svæði. Jafn marga daga á alla, á öllum svæðum, er hið eina rétta! Þ.e. óbreitt kerfi.
Kveðja.
Halldór Árnason, á Sæljóma BA59 (2050).
Efni, umsögn Félags smábátaeigenda á Austurlandi (FSA) um áform um breytingu á lögum nr. 116/2006
FSA fagnar frammkomnum hugmyndum um svæðisskiptingu strandveiðipotta náist ekki að tryggja 48 veiðidaga.
Á að alfundi félagsins í haust ályktaði félagið að hverfa bæri til fyrra fyrirkomulags er varðar svæðisskiptingar, þar sem aflaheimildum var svæðisskipt og úthlutanir tóku tillit til úthlutunarreglna almenna byggðakvótakerfisins.
Strandveiðar hafa verið á undanhaldi á svæði C seinastliðin ár, svæðið hefur farið frá um og yfir 2200 tonnum af þorski niður í um 1400 tonn. Með svæðaskiptingu teljum við að hægt verði hægt að snúa þessari þróun við.
Félagið skorar á stjórnvöld að endurskoða tilboðsmarkað fiskistofu, það er engin leið að verja það að í skiptum fyrir þau 57þúsund tonn sem boðin voru upp af fiskistofu á seinasta ári skuli einungist fást 3.700 tonn af þorski.
etv væri gott að fá aðila með sérþekkingu á uppoðum til ráðgjafar við framtíðar uppboð
Guðlaugur Birgisson formaður FSA
Ég er alfarið á móti svæðaskiptingu á strandveiðum, ég er búin að upplifa það ranglæti sem fólst í svæðaskiptingu árum saman. Þegar dagarnir voru 3-7 á mánuði. Og þau svæði sem telja sig nú beytt ranglæti, gátu róið óheft allt sumarið og kláruðu ekki einu sinni það sem þeim var úthlutað. Þetta gekk árum saman án þess að nokkur vildi hreyfa við því.
Kveðja Friðþjófur Jóhannsson
Smábátafélagið Snæfell mótmælir harðlega öllum hugmyndum um svæðaskiptingu strandveiða.
Snæfell vísar að öðru leiti til fyrri samþykkta LS. og þau gögn sem lögð voru fyrir matvælaráðherra á fundi þann
9 nóvember síðastliðinn.
F.H. stjórnar Snæfells
Bergvin Sævar Guðmundsson
Það er fyrir neðan allar hellur að færa strandveiðar aftur til fortíðar í kerfi sem orsakaði hinar svokölluðu ólympískar veiðar þar sem strandveiðifólk var kepptist við að fara á sjó í öllum veðrum í keppni við að ná einhverju úr úthlutuðum potti, kerfi sem að skapaði stórhættu og kostaði að hið minnsta eitt mannslíf.
Ég bara trúi því ekki að matvælaráðherra ætli sér og þykir það eðlilegt að koma því aftur á.
Það verður engum bætt atvinnan að hverfa aftur til atvinnukerfis sem að áður þótti fullreynt og þykir sjaldnast eðlileg framþróun eða hvað þá það kerfi sem nú hefur verið.
Það hefur ekki reynst fólki á svæði C árangursríkt að starfa undir núverandi kerfi heldur en að vera með vilja til að snúa til fortíðar heldur frekar er þá þeim mun verra og mun ekki koma A svæði vel út eins og reynslan sýndi sig í svæðiskiptingar kerfinu sem þá var. Vandamálið verður bara endaskipt á landinu eins og tíðgaðist.
Í eðlilegu lýðræðisríki og með eðlilegri rökhugsun þá verður ráðherra matvæla að hugsa til framtíðar og koma á betra fiskstjórnunarkerfi strandveiðifólk þar sem mundi verða ríkjandi þjóðarsátt með og veit ég að hún hefur fengið fullt af ábendingum með eins og t.d 48 dagar í 6 mánuði óháð því hvenær hver útgerð hefur veiðar það mun stjórnast á leyfi hvers báts þegar tiltekinn bátur hefur veiðar.
Að virða frumbyggjarétt og öryggi okkar íslendinga og rétt okkar að eiga það val að geta sótt og nýtt okkar sameiginlegu auðlind er eitthvað sem að matvælaráðherra ætti að hafa ofarlega í huga þegar hún tekur ákvörðun um fiskveiðistjórnun smábátafólks og er sú hugmynd hennar sem uppi eru nú um afturhvarf í ólympískar veiðar eða halda í núverandi kerfi eitthvað sem að virkar enganveginn.
48 dagar í 6 mánuði og ráða því hvenær það er tekið á ári hverju er það sem stór hluti þjóðar og meirihluti smábátafólks er að kalla á...það er það sem ég vil sjá fyrir mig og mín fjölskyldu að minnstakosti.
Virðingarfyllst.
Gísli Einar Sverrisson.
Trillusjómaður
Ég tel að það séu mistök að fara aftur í svæðaskiptingu.
Rökin eru þau að þá fara menn að sækja í verri veðrum,sem skapar hættu fyrir minstu bátana og einnig verða gæði fisksins minni vegna þess að í brælum munu menn veiða nær landi þar sem fiskur er smærri og lakari.
Hinsvegar tel ég að um leið og potturinn varð sameiginlegur átti að sjálfsögðu að afnema allar svæðisskiptingar.
Handfæraveiðar eru þannig við Ísland að til að ná almennilegum árangri varðandi magn og gæði,þá byrjar maður fyrir sunnan og endar fyrir austan.
Lang skynsamlegast að mínu mati væri að gefa öllum ákveðin dagadjölda fyrir kvótaárið 48 eða...og menn rói þá daga sem þeim hentar.
Kanski hentar útgerðarfólki í Sandgerði að róa í febrúar og Þeim á Bakkafirði í septenber, en það á alfarið að vera ákvörðun þess sem rær.allt annað er ofstjórn sem skapar hættu og leiðindi.
Einnig er óþarfi að vera með þessa 14 tíma,ætti bara að vera 1 róður á sólahring,þessir 14 tímar mismuna fólki efrir ganghraða báta og hversu langt þarf að sækja sem er mjög mismunandi.
En svo ég haldi mig við umsögnina þá yrði mistök að fara til baka að mínu mati..betra að leifa fólki að færa sig að vild um landið. Fiskur er hvort sem er sjaldnast unninn í þvi plássi sem honum er landað.
Hvursu gáfulegt er það að sá sem rær frá Akranesi megi ekki landa á Arnarstapa en megi landa á Hornafirði.
Guðmundur Geirdal
Umsögn fyrirhugaða breytinga á strandveiðum.
Viðhengi Viðhengi ViðhengiÉg er mótfallin því að taka upp svæðaskiptingu á nýjan leik.
Mín skoðun er sú að stjórnmálamenn ættu að finna leiðir til að sameina menn í stað þess að
sundra mönnum.
Hvet ég kjörna fullrúa til að sjá til þess að þessi breyting muni ekki eiga sér stað.
Að taka upp svæðaskiptingu strandveiðikerfisins væru stór mistök og er ég því algjörlega mótfallinn.
Sjómenn munu keppast um að ná sem flestum dögum sem verður til þess að farið verður til sjós í verri veðrum en ella.
Þar mun einnig eiga sér stað mismunun, þar sem einhverja daga gætu eigendur stærri báta róið á meðan þeir á minni bátum annaðhvort heima sitja eða hætta sér út til þess að reyna að sjá fyrir sér og sínum.
Þessi ‘’barátta’’ fyrir veiðidögum mun eiga sér stað og var til staðar áður en svæðaskiptingin var afnumin.
Öryggi sjómanna þarf að vera forgangsmál þegar horft er til breytinga á þessu kerfi okkar.
Tryggja 48 daga á bát, og gera Ísland að einu veiðisvæði!
Ég er á móti þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á strandveiðikerfinu. Ég hvet ráðherra til að endurskoða þessa ákvörðun sína og leita leiða þannig hægt sé að útfæra á þann veg að hverjum báti séu tryggðir 48 veiðidagar á ári.
Sæl Svandís.
Að færa Strandveiðikerfið til fyrra horfs er algjört glapræði og mótmæli ég því harðlega.
Þegar gamla kerfið var við lýði þá voru stundaðar ólympískar Strandveiðar og menn reru í öllum veðrum og af því skapaðist slysahætta.
Það þarf að legggja áherslu á að hægt sé að velja veiðidaga í hverjum mánuði og ætti því að leggja áherslu á 48 daga á hvern bát og opinn pott .
Varðandi kvótann þá er kominn tími til að hreinsa til í Byggðakvótanum og setja þann kvóta í Strandveiðipottinn. Það sjá allir spillinguna sem þrífst þar.
Þá er nægur kvóti til handa öllum og friður næst um kerfið.
Bestu Kveðjur Siggeir Þorsteinsson / Lísa RE38-6764
Samráðsgátt stjórnvalda
Matvælaráðuneytið
Umsögn frá LS vegna áforma um lagasetningu –
breyting á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða
(svæðaskipting strandveiða) Mál nr. 212/2022.
8. desember 2022
Landssamband smábátaeigenda mótmælir harðlega þeim áformum sem kynntar eru í Samráðsgátt-inni (svæðaskipting strandveiða). Nái þau fram að ganga er það í mikilli ósátt við þá sem stundað hafa strandveiðar og afturhvarf til þess veiðikerfis sem Alþingi samþykkti að hafna árið 2018. Þess í stað var lögfest til eins árs núverandi veiðikerfi til og fest í lög ári síðar. Breytingunni var ætlað að heimila strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.
Öll aðildarfélög LS voru samþykk breytingunni eins og hún var kynnt, að tryggðir væru 48 dagar til strandveiða. Við lokafrágang frumvarpsins var hins vegar, að kröfu ráðherra, ákveðið að setja inn ákvæði sem veitti heimild til að stöðva strandveiðar þegar ákveðnum afla væri náð.
Þar sem LS taldi breytinguna til góðs ákvað félagið að láta kyrrt liggja og setja sig ekki upp á móti frumvarpinu. Ekki síst var það vegna eftirfarandi sjónarmiða sem fram kom í greinargerð með því:
Breytingin sem hér er lögð til felur einnig í sér aðgerð til að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum. Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að draga mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.
Landssamband smábátaeigenda skorar á matvælaráðherra að hætta við þau áform sem kynnt eru í Samráðsgáttinni. Þess í stað beiti ráðherra sér fyrir því að fellt verði brott ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða sem kveður á um skyldu Fiskistofu til að stöðva strandveiðar verði sýnt að afla sem ákveðinn er með reglugerð verði náð. Þannig væri tryggt að bátar allra strandveiðisvæða landsins fái heimild til að róa 12 daga í hverjum mánuði, maí, júní, júlí og ágúst. Jafnframt myndi breytingin tryggja sátt milli strandveiðisjómanna án tillits þess hvar á landinu þeir gera út.
Um ávinning og mikilvægi strandveiða
Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Veiðarnar hafa gengið vel og reynst heilladrjúg nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 663 bátar stundað strandveiðar ár hvert.
Afli strandveiðibáta er í langflestum tilfellum seldur á fiskmarkaði. Þannig hafa strandveiðar styrkt stöðu fiskmarkaða og smærri fiskvinnslna sem háðar eru kaupum á mörkuðum. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) segja strandveiðar hafa haft jákvæð áhrif á starfsemi þeirra félagsmanna og hægt á samþjöppun. Sífellt lægra hlutfall aflans fari nú til vinnslu erlendis.
Jafnframt hefur meiri afli á uppbooðsmarkaði aukið samkeppni og leitt til hærra fiskverðs innanlands. Minni munur er á verði á fiskmörkuðum en verði á fiski til vinnslu erlendis í ár en var árið 2020.
Mynd nr. 1 sýnir meðalverð á þorski til vinnslu erlendis á öðrum þriðjungi tímabilsins [2018 – 2022] og meðalverð á óslægðum þorski veiddum á handfæri yfir sama tímabil.
Aflameðferð strandveiðisjómanna hefur verið til mikillar fyrirmyndar hin síðari ár. Það hefur m.a. leitt til að afli frá strandveiðum hefur komið í veg fyrir skort á ferskum fiski til útflutnings á þeim tíma sem þær eru stundaðar og minna er um úthald stærri skipa og báta vegna sumarleyfa. Fiskur strandveiðibáta hefur reynst dýrmæt útflutningsvara.
Þá hafa strandveiðarnar falið í sér möguleika til fiskveiða í atvinnuskyni án þess að greiða þurfi aflahlutdeildarhöfum gjald fyrir veiðiheimildir. Þannig hafa strandveiðar verið mikilvægur þáttur í því að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja að þörf sé breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að tryggja almenningi aðgengi að fiskveiðiauðlindinni.
Jafnframt hafa strandveiðar svarað kalli sjómanna sem hafa í áratugi verið til sjós á stærri fiskiskipum en viljað hægja á og verða engum háður varðandi áframhaldandi sjómennsku. Þetta á við sjómenn og konur á öllum aldri. Betri tækni um borð í stærri skipum, sameining útgerðar og aukin samþjöppun aflaheimilda hefur orðið til þess að sjómönnum hefur fækkað. Strandveiðar hafa veitt mörgum þessara aðila tækifæri til að halda áfram sjómennsku, enda erfitt fyrir margan sjómanninn að aðlaga sig störfum í landi.
Samþykkt 38. aðalfundar LS
Ítarlegar umræður á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október sl. leiddu til sátta um eftirfarandi samþykktir:
„LS hafnar alfarið svæðaskiptingu strandveiðipottsins.“
„LS krefst að fest verði í lög að strandveiðileyfi hafi að lágmarki 48 róðradaga.“
Að tryggja 48 daga til strandveiða
Hér skulu nefnd þrjú atriði sem LS bendir matvælaráðherra á til að tryggja betur 48 daga til strandveiða, verði þeirri stefnu við haldið að skammta ákveðinn afla til veiðanna.
a. að ráðherra beiti sér fyrir breytingu á aflareglu stjórnvalda í þorski. Í stað þess að miðað skuli leyfilegan heildarafla við 20% af veiðistofni verði viðmiðunin hækkuð í 22%. Hækkunin komi ekki til úthlutunar en verði notuð til að mæta þörf fyrir auknum afla við strandveiðar. Sá afli sem ekki nýtist komi til viðbótar við leyfilegan heildarafla næst komandi fiskveiðiárs.
b. óveiddur þorskafli næst liðins fiskveiðiárs, sem ætlaður var í byggðakvóta fiskiskipa og sértæks byggðakvóta, leggist við veiðiheimildir strandveiðibáta.
c. sá hluti beggja byggðakvóta í þorski sem ekki er nýttur af dagróðrabátum leggist við ætlað aflamagn til strandveiða og línuívilnun.
Vísindaleg ráðgjöf
Það hefur ekki farið framhjá Landssambandi smábátaeigenda að hæstvirtur matvælaráðherra er skýr í afstöðu sinni til vísindalegrar ráðgjafar.
„Strand¬veiðar skipta miklu máli fyr¬ir byggðir lands¬ins og það stend¬ur mér nærri að standa vörð um það kerfi sam¬hliða því að hvika hvergi frá því grund¬vall¬ar¬sjón¬ar¬miði að fylgja vís¬inda¬legri ráðgjöf,“
skrifaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á Facebook-síðu sína þann 24. mars sl. LS undrast þessa afstöðu ráðherra. Með henni er hún að afsala sér öllu valdi hvað varðar leyfilegan heildarafla.
Aflareglan - hrygningar-, veiðistofn og nýliðun
Í skilabréfi nefndar, dagsett 26. janúar 2021, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 11. nóvember 2019 til að endurskoða aflareglu fyrir þorsk segir m.a.:
1. „Í aflareglunni sem hefur verið í gildi frá árinu 2009 felst að árlega verði ekki veitt umfram 20% af skilgreindum viðmiðunarstofni (fjögurra ára og eldri) eins og hann er metinn hverju sinni. Enn fremur að ákvarðaður heildarafli síðasta árs vegi til helminga á við stofnmatið sem lagt er til grundvallar hverju sinni. Árið 2009 var aflareglan borin undir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES), sem staðfesti í janúar 2010 að hún stæðist alþjóðakröfur um varúðarsjónarmið og hámarksafrakstur. Meira en 95% líkur væru á því að hrygningarstofninn færi ekki niður fyrir 220 þúsund tonn á næstu fimm árum en það var metin stærð stofnsins árið 2009. ICES taldi að skilgreina þyrfti varúðarmörk (Blim) fyrir hrygningarstofninn og var það gert árið 2010. Varúðarmörkin voru skilgreind 125 þúsund tonn, sem er lægsta gildi á metinni stærð hrygningarstofnsins. Jafnframt voru aðgerðarmörk (Btrigger) skilgreind sem 220 þúsund tonn en líkur virðast aukast á lélegri nýliðun þegar stofninn minnkar niður fyrir það mark.
Þegar ICES endurskoðaði aflaregluna 2015 var staðfest að hún stæðist alþjóðlegar kröfur um varúðarsjónarmið og hámarksafrakstur.“
Mynd nr. 1 er byggð á tölum úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar „Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2022“, 15. júní 2022. Eins og sjá má er gríðarlegur munur á niðurstöðum mælinga á stærð hrygningarstofnsins. Árið 2019 var mæld stærð hans 617 þúsund tonn og gert ráð fyrir að hann færi stækkandi. Tveimur árum síðar mælir stofnunin hann 436 þúsund tonn - 29% lækkun.
Ástæður þessa voru ekki vegna þess að veitt hafði verið umfram það sem aflaregla sagði til um.
Myndin sýnir hversu órafjarri hrygningarstofninn er frá aðgerðarmörkum – 220 þúsund tonnum.
Mynd nr. 1
Mynd nr. 2 er byggð á tölum úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar „Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2022“, 15. júní 2022. Eins og sjá má er gríðarlegur munur á niðurstöðum mælinga á stærð viðmiðunarstofnsins (refbio). Árið 2019 var mæld stærð hans 1 402 þúsund tonn og gert ráð fyrir nánast óbreyttu ástandi ári síðar (-2,6%). Tveimur árum síðar sögðu tölur hann hafa verið 1 087 þúsund tonn, 22% lækkun og færi minnkandi. Ástæður þessa voru ekki vegna þess að veitt hefði verið umfram aflareglu.
Myndin sýnir jafnframt að stofninn fer stækkandi á næstu tveimur árum, verði komin í 1 124 þúsund tonn árið 2024, 15% vöxtur á tveimur árum.
Mynd nr. 2
2. „Líkt og í fyrri skoðunum á aflareglunni fjalla sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar um mikilvægi sambands hrygningarstofns og nýliðunar við mat á aflareglum. Fram kemur að skipta megi nýliðun þorsks í tvö tímabil. Annars vegar árganga frá 1955-1984 þar sem meðal nýliðun er um 209 milljónir fiska við þriggja ára aldur og svo árganga frá 1985 þar sem meðalnýliðun er einungis 139 milljónir fiska eða þriðjungi lægri en á fyrra tímabilinu. Þó eru merki um að tíðni lélegra árganga sé lægri á nýliðnum árum. Þótt samband hrygningarstofns og nýliðunar skipti litlu máli við stofnmat hvers árs er það samhengi lykilatriði þegar kemur að langtímahermunum.
Mynd nr. 3 er eins og fyrri myndir byggð á tölum úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar „Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2022“, 15. júní 2022. Eins og fram hefur komið standa menn ráðþrota frammi fyrir því hvers vegna sterkur hrygningarstofn hefur ekki skilað góðri nýliðun.
Í tölulið 2 er dregið fram að meðalfjöldi nýliðunar á 30 ára tímabili 1955-1984 hafi verið 209 milljónir fiska við þriggja ára aldur. Það er síðan borið saman við meðalfjölda frá því í lok þess tímabils.
Áhugavert er að setja tölurnar til rauntíma og miða við 30 ára tímabil, 1993-2022. Meðaltalsfjöldi er um 136 milljónir. Á átta árum af síðustu 12 er fjöldi nýliða yfir meðaltalinu.
Er ástæða til að hafa áhyggjur?
Mynd nr. 3 sýnir að fjöldi nýliða í ár er sá hæsti á þessu 30 ára tímabili.
Mynd nr. 3
Því hefur verið haldið fram og reglulega ítrekað að helsta ástæða þess að leyfilegur heildarafli í þorski sé einungis á pari við það sem hann var þegar kvótakerfið kom til framkvæmda 1984. Miðað við aflabrögð síðustu ára er það röng staðhæfing.
Fram kemur í tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunar 15. júní sl. að á fyrsta áratug aldarinnar hafi afli á sóknareiningu í botnvörpu verið í kringum 600 kg/klst en jókst í um og yfir 1100 kg/klst á árunum 2010-2013 og haldist svipaður síðan. Þar kemur jafnframt fram að afli á sóknareiningu á línu fyrir árið 2010 hafi verið um 200 kg en er nú um 300 kg/1000 króka. Ekki er getið um aflabrögð í önnur veiðarfæri. Fullyrða má að sama þróun hefur átt sé stað á þeim vettvangi, það er við handfæra-, neta- og dragnótaveiðar.
Í skýrslunni er upplýst að: „Afli þorsks á sóknareiningu er ekki notaður mælikvarði á stærð þorskstofnsins þar sem breytingar á samsetningu flotans og veiðarfærum eru ekki teknir með í útreikningum á afla á sóknareiningu.“ Auk heldur að þekking og reynsla sjómanna sem eru á miðunum allan ársins hring sé tekin inn í ákvörðun um leyfilegan heildarafla.
Eftirfarandi er tilvitnun úr téðri tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunar
„Frá því aflaregla fyrir þorsk var innleidd, hefur ráðlagður heildarafli verið samkvæmt aflareglu, en afli hefur þó verið umfram ráðgjöf sem nemur að meðaltali rúm 5 % (19. mynd). Síðustu 5 fiskveiðiár hefur að meðaltali verið veitt tæp 2 % umfram ráðgjöf, mest á síðasta fiskveiðiári eða um 6 %. Helsta ástæða þess að afli fór umfram ráðgjöf í upphafi er sú að afli í „sóknarstýringu“ var meiri en spáð var fyrir, en áætlaður afli er dreginn frá reiknuðum heildarafla samkvæmt aflareglu. Núverandi kerfi fyrir smærri báta sem var innleitt árið 2009, inniheldur þak sem tryggir að afli fari ekki fram úr ráðlögðum hámarksafla sem nemur meira en 1-2 %.“
19. mynd
Að framansögðu er augljóst að veiði umfram ráðgjöf mun ekki hafa nein áhrif á stærð þorskstofnsins. Þá má túlka eftirfarandi sem fram kemur í tækniskýrslunni: „Núverandi kerfi fyrir smærri báta sem var innleitt árið 2009, inniheldur þak sem tryggir að afli fari ekki fram úr ráðlögðum hámarksafla sem nemur meira en 1-2%.“, sem viðurkenningu á 22% aflareglu.
Ákvörðunin myndi marka stórt spor í að viðurkenna ívilnun fyrir kyrrstæð veiðarfæri og draga þannig úr losun koltvísýrings úr hafsbotninum. Jafnframt sem „olíunotkun er minni við notkun á staðbundnum veiðarfærum, s.s. handfæri, línu og net heldur en dregin veiðarfæri, s.s. botnvörpu.“ eins og segir í skýrslu nefndar um endurskoðun á aflareglu.
Virðingarfyllst
Örn Pálsson
framkvæmdastjóri
Ég er á móti þeirri breytingu sem þarna virðist stemmt að. Sanngjarnastan leiðin er að öllum bátum sé tryggður sami fjöldi veiðidaga.
Sigurður B. Jóhannsson